Stöðugleiki í fjármálum
Margir hafa dregið úr fjárhagserfiðleikum með því að fara eftir meginreglum Biblíunnar.
BÚÐU TIL FJÁRHAGSÁÆTLUN
MEGINREGLA: „Áform hins iðjusama færa arð en hroðvirkni endar í örbirgð.“ – Orðskviðirnir 21:5.
HVAÐ FELUR ÞAÐ Í SÉR? Til að ná árangri er mikilvægt að þú búir til áætlun og haldir þig við hana. Hugsaðu fyrir fram í hvað þú ætlar að nota peningana. Mundu að þú hefur líklega ekki efni á að kaupa allt sem þig langar í. Notaðu peningana því skynsamlega.
ÞAÐ SEM ÞÚ GETUR GERT:
Eyddu ekki umfram það sem þú hefur ákveðið. Búðu til lista yfir útgjöld þín og skiptu þeim niður í flokka. Ráðstafaðu síðan hve miklir peningar mega fara í hvern flokk. Ef þú eyðir of miklu í einn flokk geturðu tekið peninga úr öðrum flokki til að borga mismuninn. Ef þú eyðir til dæmis meiru en þú áætlaðir í eldsneyti á bílinn geturðu tekið peninga úr flokki sem skiptir minna máli eins og til dæmis að fara út að borða.
Forðastu óþarfar skuldir. Forðastu eftir megni að koma þér í skuldir. Safnaðu heldur fyrir því sem þú þarft. Ef þú notar kreditkort skaltu reyna að borga upp kreditkortareikninginn reglulega til að þurfa ekki að borga vexti. Og ef þú ert skuldugur skaltu gera áætlun um að greiða niður skuldirnar og halda þig síðan við áætlunina.
Rannsókn leiddi í ljós að fólki hættir til að eyða meiru þegar það greiðir með kreditkorti. Ef þú ert með kreditkort skaltu því nota það skynsamlega.
VARASTU SKAÐLEGA HEGÐUN
MEGINREGLA: „Letinginn plægir ekki á réttum tíma, því leitar hann um uppskerutímann og grípur í tómt.“ – Orðskviðirnir 20:4.
HVAÐ FELUR ÞAÐ Í SÉR? Leti getur gert mann fátækan. Vertu því vinnusamur og gerðu fjárhagsáætlun.
ÞAÐ SEM ÞÚ GETUR GERT:
Leggðu hart að þér. Ef þú ert duglegur og áreiðanlegur kunna vinnuveitendur að meta þig og vilja halda þér í vinnu.
Vertu heiðarlegur. Ekki hnupla frá vinnuveitandanum. Óheiðarleiki getur skemmt mannorð þitt og gert þér erfitt að finna vinnu síðar.
Forðastu græðgi. Það getur farið illa með heilsuna og skemmt samband þitt við aðra að hafa óhóflega mikinn áhuga á peningum. Mundu að peningar skipta ekki öllu máli.
FLEIRI MEGINREGLUR BIBLÍUNNAR
EYDDU EKKI TÍMA OG PENINGUM Í SLÆMA ÁVANA.
„Drykkjumenn og mathákar verða snauðir og víman mun klæða þig í tötra.“ – ORÐSKVIÐIRNIR 23:21.
FORÐASTU ÓÞARFAR ÁHYGGJUR.
„Hættið að hafa áhyggjur af því hvað þið eigið að borða eða drekka til að viðhalda lífi ykkar, eða hverju þið eigið að klæðast.“ – MATTEUS 6:25.
ÖFUNDAÐU EKKI AÐRA.
„Öfundsjúkur maður flýtir sér að safna auði og veit ekki að örbirgð muni yfir hann koma.“ – ORÐSKVIÐIRNIR 28:22, Biblían 1981.