18. námskafli
Öryggi, jafnvægi og útlit
1 Ræðumaður sem er öruggur í fasi er einnig afslappaður. Hann er rólegur og yfirvegaður því að hann veit að hann ræður við aðstæður. Sé ræðumaður aftur á móti óöruggur í fasi ber það vott um að hann skorti sjálfstraust. Þetta tvennt helst í hendur. Þess vegna er „Öryggi og jafnvægi“ sett upp sem einn liður á ráðleggingakortinu.
2 Enda þótt öryggi og sjálfstraust sé æskilegt má ekki rugla því saman við óhóflegt sjálfsöryggi sem birtist í reigingslegu, yfirlætislegu fasi, því að sitja slyttislega í sæti sínu eða að halla sér kæruleysislega upp að dyrakarmi í boðunarstarfinu. Skólahirðirinn leiðbeinir þér eflaust í einrúmi ef eitthvað í framkomu þinni ber vott um óhóflegt sjálfsöryggi, því að honum er annt um að hjálpa þér svo að ekkert í fasi þínu eða framkomu spilli fyrir þér í boðunarstarfinu.
3 Sértu nýbyrjaður að flytja ræður ertu trúlega feiminn og óframfærinn þegar þú gengur í átt að ræðupallinum. Kannski ertu svo taugaóstyrkur að þú ert viss um að þú flytjir lélega ræðu. En svo þarf ekki að vera. Þú getur þjálfað með þér öryggi og jafnvægi með því að leggja þig fram og átta þig á af hverju þú ert óöruggur.
4 Hvers vegna eru sumir ræðumenn óöruggir? Ástæðurnar eru oftast tvær. Önnur er ónógur undirbúningur eða rangt álit á efninu. Hin ástæðan er neikvætt álit á eigin hæfni sem ræðumanns.
5 Hvernig er hægt að byggja upp sjálfstraust? Fyrst og fremst með því að hafa trú á að maður geti leyst verkefni sitt vel af hendi. Það byggist á þeirri vissu að maður ráði við aðstæður og hafi stjórn á þeim. Það getur kallað á nokkra sviðsreynslu. Hafirðu flutt allmargar ræður geturðu verið nokkurn veginn viss um að þessi ræða takist líka vel. En jafnvel þótt þú sért byrjandi í ræðumennsku ættu ræðurnar, sem þú hefur flutt, að vera þér hvatning svo að þú ættir að vera sæmilega öruggur um að geta flutt góða ræðu.
6 Önnur mikilvæg forsenda sjálfstrausts, hvort sem þú ert reyndur eða ekki, er þekking á efninu og sú sannfæring að það sé verðmætt. Það byggist bæði á góðum undirbúningi sjálfs efnisins og undirbúningi á flutningi þess. Ef þér er ljóst að efnið stuðlar bæði að því að þú takir framförum innan guðveldisskipulagsins og er fræðandi fyrir bræður þína nálgastu ræðupallinn í bænarhug. Þú verður svo niðursokkinn í efnið að þú gleymir sjálfum þér og kvíðanum. Þú hugsar fyrst og fremst um það að þóknast Guði en ekki mönnum. — Gal. 1:10; 2. Mós. 4:10-12; Jer. 1:8.
7 Til að gera það verður þú að vera sannfærður um allt sem þú ætlar að segja. Fullvissaðu þig um það meðan á undirbúningi stendur. Og þegar þú hefur gert allt sem í þínu valdi stendur til að setja saman athyglisverða og líflega ræðu en þér finnst samt vanta líf og kraft í hana, hafðu þá hugfast að líflegir áheyrendur lífga ræðuna. Vektu því lifandi áhuga hjá áheyrendum með ræðunni og þá mun áhugi þeirra á því sem þú hefur fram að færa auka sjálfstraust þitt.
8 Læknir leitar að sjúkdómseinkennum. Leiðbeinandinn leitar að merkjum um öryggisleysi. Og líkt og góður læknir ræðst að orsökum veikindanna fremur en einkennunum leitast skólahirðirinn við að hjálpa þér svo að þú komist fyrir raunverulegar rætur þess að þig skortir öryggi og jafnvægi. En ef þú þekkir einkennin og lærir að halda þeim niðri hjálpar það þér að vinna bug á sjálfri orsökinni. Hver eru einkennin?
9 Yfirleitt fær innibyrgð spenna eða geðshræring útrás með tvennum hætti. Annars vegar birtist hún í fasi manns og hins vegar heyrist hún á röddinni. Þegar þessi viðbrögð verða áberandi segjum við að mann skorti öryggi og jafnvægi.
10 Jafnvægi birtist í limaburði. Fyrstu merki öryggis og jafnvægis birtast í limaburði. Nefnum nokkur atriði sem bera vitni um öryggisleysi: Ræðumaður heldur höndum fyrir aftan bak, heldur þeim stífum niður með síðunum eða rígheldur sér í ræðustólinn; hann er ýmist að stinga höndum í vasana eða draga þær upp aftur, hneppir jakkanum ýmist að eða frá og fitlar við hökuna, nefið eða gleraugun; hann gerir fálmandi handatilburði, fitlar við úrið, blýantinn, hringinn eða minnisblöðin. Ræðumaður tvístígur eða vaggar til beggja hliða; hann er stífur í baki eða hokinn í hnjám; hann er sífellt að væta varirnar, kyngir stöðugt eða andar hratt og er andstuttur.
11 Með vísvitandi átaki er hægt að hafa stjórn á þessari taugaspennu eða draga úr henni. Ef þú gerir það verður þú öruggur í fasi. Andaðu því jafnt og eðlilega og slakaðu á. Hafðu stutta þögn áður en þú byrjar ræðuna. Viðbrögð áheyrenda verða örugglega góð og það stuðlar að því sjálfsöryggi sem þú sækist eftir. Einbeittu þér að efninu en hugsaðu ekki of mikið um áheyrendur og sjálfan þig.
12 Öryggi og jafnvægi heyrist á raddbeitingu. Taugaspenna kemur einnig fram í óeðlilega skrækri eða titrandi rödd, stöðugum ræskingum og óvenju grannri og hljómlítilli rödd sem rekja má til vöðvaspennu. Þessu má einnig sigrast á með góðri ástundun.
13 Flýttu þér ekki þegar þú gengur upp á sviðið eða hagræðir minnisblöðunum. Vertu afslappaður og hlakkaðu til að koma því efni á framfæri sem þú hefur undirbúið. Ef þú finnur til kvíða þegar þú byrjar að tala, reyndu þá að tala hægar en venjulega þegar þú ferð með inngangsorðin og með dýpri rödd en þér er tamt. Það hjálpar þér að ná tökum á kvíðanum. Þú kemst að raun um að tilburðir og þagnir hjálpa þér að slaka á.
14 En bíddu ekki með að æfa þetta þangað til þú ferð upp á sviðið. Þjálfaðu þig í öryggi og jafnvægi í daglegu tali. Það á drjúgan þátt í að þú verðir sjálfsöruggur á sviðinu og í boðunarstarfinu þar sem það er sérstaklega mikilvægt. Með rólegum flutningi róar þú áheyrendur þannig að þeir geta einbeitt sér að efninu. Með því að svara oft á samkomum færðu góða æfingu í að tala fyrir fjölmenni.
――――◆◆◆◆◆――――
15 Snyrtilegt útlit getur stuðlað að öryggi og jafnvægi en það er líka mikilvægt af öðrum ástæðum. Sé boðberinn ekki nægilega vakandi fyrir útliti sínu uppgötvar hann kannski að útlit hans dregur að sér athygli áheyrenda með þeim afleiðingum að þeir fylgjast ekki almennilega með því sem hann segir. Athyglin beinist að honum sjálfum sem hann vill auðvitað ekki. Sé boðberi fram úr hófi kærulaus um eigið útlit getur það jafnvel orðið til þess að aðrir líti niður á söfnuðinn sem hann tilheyrir og hafni boðskapnum sem hann flytur. Það má ekki gerast. Þó svo að „Útlit“ sé síðasta þjálfunarstigið á ráðleggingakortinu er það alls ekki það þýðingarminnsta.
16 Viðeigandi klæðnaður og snyrting. Forðast ber öfgar í klæðaburði. Kristinn boðberi eltir ekki tískusveiflur heimsins og dregur athygli að sjálfum sér. Hann forðast spjátrungslegan eða áberandi klæðnað sem beinir athyglinni að honum sjálfum. Hann gætir þess líka að vera ekki druslulegur til fara. Það þarf ekki ný föt til að vera vel til fara en fötin geta alltaf verið hrein og snyrtileg. Allir geta verið í pressuðum buxum og með beint hálsbindi.
17 Ráðleggingar Páls postula til kristinna kvenna um klæðnað í 1. Tímóteusarbréfi 2:9 eru enn í fullu gildi. Þær ættu ekki frekar en bræður að beina athygli að sjálfum sér með klæðnaði sínum, og það væri ekki heldur viðeigandi fyrir þær að elta tískuöfga heimsins.
18 Auðvitað er rétt að hafa hugfast að menn klæða sig ekki allir eins. Við ættum ekki að ætlast til þess. Smekkur fólks er misjafn og það er fyllilega eðlilegt. Það er líka breytilegt eftir heimshlutum hvað telst viðeigandi klæðnaður, en það er alltaf gott að forðast klæðnað sem gæti komið inn röngum hugmyndum hjá áheyrendum okkar eða hneykslað þá sem sækja samkomur með okkur.
19 Um viðeigandi klæðnað bræðra sem flytja ræður í skólanum og á þjónustusamkomum er það að segja að þeir eiga að klæðast sambærilega við bræður sem flytja opinbera fyrirlestra. Ef það er siður þar sem þú býrð að ræðumenn opinberra fyrirlestra séu í jakkafötum og með hálsbindi, þá væri rétt af þér að klæðast þannig þegar þú flytur ræðu í Guðveldisskólanum, því að þar er verið að þjálfa þig fyrir opinberan ræðuflutning.
20 Rétt er að gefa líka gaum að almennri snyrtingu. Ógreitt hár lítur ekki vel út. Þess vegna er rétt að koma vel fyrir að þessu leyti. Þegar bræður hafa verkefni á samkomum ættu þeir jafnframt að gæta þess að vera vel rakaðir.
21 Þegar ástæða er til að hrósa fyrir viðeigandi klæðnað og snyrtingu má alltaf gera það af ræðupallinum. Þegar hrósað er fyrir slíkt er það reyndar hvatning fyrir aðra til að fylgja þeirri fyrirmynd sem þar er gefin. En þurfi einhver að bæta sig í klæðnaði og snyrtimennsku er heppilegra að skólahirðirinn komi með vinsamlegar ábendingar þar að lútandi í einrúmi frekar en af ræðupallinum.
22 Réttar stellingar. Réttar stellingar eru einnig hluti útlits. Limaburður manna er auðvitað misjafn og það ætti ekki að reyna að steypa alla bræðurna í sama mótið. Hins vegar ætti að gefa gaum að óæskilegum öfgum sem beina athygli að einstaklingnum og frá boðskapnum, svo að hægt sé að draga úr þeim eða eyða þeim.
23 Menn standa ekki allir eins í fæturna, svo dæmi sé tekið, og yfirleitt skiptir litlu máli hvernig maður stendur, svo framarlega sem maður stendur beinn. En það getur verið mjög truflandi ef ræðumaður stendur svo gleiður að það er engu líkara en að hann haldi sig sitja á hestbaki.
24 Ef ræðumaður stendur hokinn má búast við að áheyrendur vorkenni honum af því að hann virðist ekki vera heill heilsu, og það dregur auðvitað athyglina frá ræðunni. Eftirtektin beinist ekki að því sem ræðumaður segir heldur að honum sjálfum.
25 Að standa á öðrum fæti með hinn krosslagaðan fyrir aftan eða vera með hendur í vösum er augljóst merki um öryggisleysi. Það ætti að forðast.
26 Þótt það geri ekkert til að ræðumaður styðji höndunum af og til á ræðustólinn ætti hann auðvitað ekki að halla sér fram á hann frekar en boðberi ætti að halla sér að dyrastaf þegar hann er í boðunarstarfinu. Það lítur ekki vel út.
27 Það skal þó ítrekað að menn eru ólíkir. Limaburður og fas manna er misjafnt og það eru aðeins óæskilegar öfgar sem ætti að taka til meðferðar í Guðveldisskólanum.
28 Réttar stellingar byggjast tvímælalaust á undirbúningi. Ef þú þarft að bæta stellingar og limaburð skaltu hugsa fram í tímann og muna að þú þarft að setja þig í réttar stellingar um leið og þú stígur upp á ræðupallinn og áður en þú byrjar að tala. Þú getur líka bætt þig á þessu sviði með því að æfa réttar stellingar og limaburð daglega.
29 Snyrtilegur búnaður. Það er auðvitað truflandi ef pappírsmiðar eru að detta úr Biblíunni meðan þú ert að tala við fólk í dyragættinni eða á ræðupallinum. Það lítur ekki vel út. Ekki svo að skilja að það megi aldrei stinga miða inn í Biblíuna, en ef eitthvað dregur athyglina frá ræðunni er það vísbending um að það þurfi að sinna því betur hvernig Biblían lítur út. Það er líka gott að athuga hvernig biblían þín er útlítandi. Hún getur óhreinkast við mikla notkun, slitnað og orðið ósnyrtileg. Það er því gott að athuga hvort útlit Biblíunnar, sem við notum á ræðupallinum eða í boðunarstarfinu, stingur þá í augun sem við erum að reyna að hjálpa.
30 Sama á við um töskuna. Hægt er að raða ritum snyrtilega í töskuna á marga vegu, en ef við þurfum að róta gegnum alls konar dót til að geta fundið bók sem við ætlum að bjóða í boðunarstarfinu, eða annað dót fylgir með þegar við drögum tímarit upp úr töskunni, þá er ástand töskunnar ekki eins og vera skyldi.
31 Það getur líka verið truflandi ef ræðumaðurinn er með brjóstvasann fullan af blýöntum, pennum eða öðru sem blasir við áheyrendum. Ekki ætti að setja reglu um hvar hafa skuli slíka hluti, en þegar athyglin fer að beinast að þeim og frá ræðunni ætti að setja þá annars staðar.
32 Engin óviðeigandi svipbrigði. Við undirbúning ræðu er ráðlegt að íhuga hvers konar hugarástand hæfi efninu. Sé umræðuefnið til dæmis dauði og eyðing væri óviðeigandi að brosa út að eyrum. Og þegar fjallað er um gleðilegar aðstæður nýja heimsins væri varla við hæfi að yggla sig.
33 Venjulega eru svipbrigðin ekki til vandræða og sumir eru að eðlisfari alvarlegir á svip. Það sem varast þarf eru öfgar sem spilla fyrir ræðumanni. Það er mjög óheppilegt að svipbrigði ræðumanns séu slík að áheyrendur efist um einlægni hans.
34 Þegar ræða er undirbúin er því gott að íhuga hvaða hugarástand hæfi efninu. Ef viðfangsefnið er alvarlegs eðlis, svo sem eyðing hinna illu, þá ber að flytja það með alvöru. Og ef þú hugsar um efnið og hefur það hugfast endurspeglast það yfirleitt eðlilega í svipbrigðum þínum. Sértu að fjalla um ánægjulegt efni sem ætti að gleðja áheyrendur ættirðu að bera það á borð með glaðlegu yfirbragði. Ef þér líður vel í ræðustólnum geisla svipbrigði þín af þessari gleði.
[Spurningar]
1-9. Hvað er öryggi og jafnvægi og hvernig er hægt að öðlast það?
10, 11. Hvernig getur óöryggi birst í limaburði?
12-14. Hvað er hægt að gera ef óöryggi birtist í röddinni?
15. Hvers vegna er mjög mikilvægt að líta vel út?
16-21. Hvað ber að hafa í huga í sambandi við klæðaburð og snyrtimennsku?
22-28. Hvaða áhrif geta stellingar haft á útlit manns?
29-31. Af hverju á búnaður okkar að vera snyrtilegur?
32-34. Hvaða hlutverki gegna svipbrigði í útliti okkar?