17. kafli
Finndu öryggi meðal fólks Guðs
1, 2. Á hvaða hátt er ástand mannkynsins eins og hjá íbúum byggðarlags þar sem fárviðri hefur geisað?
ÍMYNDAÐU þér að fárviðri hafi lagt byggðarlag þitt í rúst. Heimili þitt er eyðilagt og allar eigur þínar glataðar. Matur er af skornum skammti. Ástandið virðist vonlaust. En þá berast óvænt hjálpargögn. Matvælum og fötum er úthlutað í ríkum mæli. Nýtt hús er byggt fyrir þig. Vissulega værir þú þeim þakklátur sem léti alla þessa aðstoð í té.
2 Eitthvað þessu sambærilegt á sér stað nú á dögum. Líkt og fárviðri, olli uppreisn Adams og Evu mannkyninu miklum skaða. Paradísarheimili manna glataðist. Upp frá því hefur stjórnum manna ekki tekist að skýla fólki fyrir styrjöldum, glæpum og óréttlæti. Trúarbrögðin hafa skilið mergð manna eftir þjáða af hungri í heilnæma, andlega fæðu. Hins vegar er Jehóva Guð núna í andlegum skilningi að veita fólki fæði, klæði og húsaskjól. Hvernig gerir hann það?
„SÁ TRÚI OG HYGGNI ÞJÓNN“
3. Hvernig sér Jehóva manninum fyrir nauðsynjum og hvaða dæmi sýnir það?
3 Hjálpargögnum er yfirleitt dreift eftir skipulögðum leiðum og Jehóva hefur á skipulegan hátt séð fólki sínu fyrir andlegum nauðsynjum. Ísraelsmenn voru til dæmis ‚söfnuður Jehóva‘ í um það bil 1500 ár. Meðal þeirra var að finna þá sem gegndu því hlutverki að vera verkfæri Guðs til að kenna lögmál hans. (1. Kroníkubók 28:8; 2. Kroníkubók 17:7-9) Á fyrstu öld okkar tímatals leiddi Jehóva fram hið kristna skipulag. Söfnuðum var komið á fót og þeir störfuðu undir leiðsögn stjórnandi ráðs sem skipað var postulum og öldungum. (Postulasagan 15:22-31) Á sama hátt á Jehóva samskipti við fólk sitt nú á tímum fyrir milligöngu skipulagðs hóps. Hvernig vitum við það?
4. Hver hefur „sá trúi og hyggni þjónn“ reynst vera nú á tímum og hvernig geta menn náð sér í þær andlegu nauðsynjar sem Guð lætur í té?
4 Jesús sagði að þegar nærvera hans sem valdhafa Guðsríkis stæði yfir yrði á sjónarsviðinu „sá trúi og hyggni þjónn“ sem gæfi fylgjendum Jesú „mat á réttum tíma.“ (Matteus 24:45-47) Hver reyndist vera þessi „þjónn“ þegar Jesús var settur í embætti sem himneskur konungur árið 1914? Sannarlega ekki klerkar kristna heimsins. Þeir voru margir hverjir að mata hjarðir sínar á áróðri sem studdi stjórnir þeirra eigin landa í fyrri heimsstyrjöldinni. En hópur sannkristinna manna, sem voru smurðir heilögum anda Guðs og voru hluti þess sem Jesús kallaði „litla hjörð,“ dreifði réttri og tímabærri andlegri fæðu. (Lúkas 12:32) Þessir smurðu kristnu menn prédikuðu Guðsríki í stað þess að mæla með stjórnum manna. Árangurinn varð sá að á þeim árum, sem síðan eru liðin, hafa milljónir manna, sem hneigjast til réttlætis, svonefndir ‚aðrir sauðir,‘ sameinast hinum smurða ‚þjóni‘ í því að tilbiðja Guð á réttan hátt. (Jóhannes 10:16) Guð notar hinn ‚trúa þjón‘ og stjórnandi ráð hans nú á tímum til að leiðbeina skipulögðu fólki sínu við það starf að gefa öllum sem vilja kost á fæði, klæði og húsaskjóli í andlegum skilningi.
‚MATUR Á RÉTTUM TÍMA‘
5. Hvaða andlega ástand ríkir í heiminum nú á dögum en hvað er Jehóva að gera í því máli?
5 Jesús sagði: „Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði, heldur á hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni.“ (Matteus 4:4) Því miður gefur þó mikill meirihluti manna ekki gaum að orðum Guðs. Eins og Amos, spámaður Jehóva, sagði fyrir, er núna ‚ekki hungur eftir brauði né þorsti eftir vatni, heldur eftir því að heyra orð Jehóva.‘ (Amos 8:11) Jafnvel mjög trúrækið fólk nú á dögum líður andlegt hungur. Eigi að síður er það vilji Jehóva „að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.“ (1. Tímóteusarbréf 2:3, 4) Þar af leiðandi sér hann mönnunum fyrir gnægð andlegrar fæðu. En hvar er hægt að fá hana?
6. Hvernig hefur Jehóva veitt fólki sínu andlega fæðu á liðnum öldum?
6 Jehóva hefur ávallt deilt út andlegri fæðu til fólks síns sem hóps. (Jesaja 65:13) Til dæmis söfnuðu prestarnir í Ísrael mönnum, konum og börnum saman til hópfræðslu í lögmáli Guðs. (5. Mósebók 31:9, 12) Undir leiðsögn hins stjórnandi ráðs komu kristnir menn á fyrstu öldinni á fót söfnuðum og héldu samkomur til að fræða og uppörva alla. (Rómverjabréfið 16:5; Fílemonsbréfið 1, 2) Vottar Jehóva fylgja þessu mynstri. Þú ert hjartanlega velkominn á allar samkomur þeirra.
7. Hvernig tengist það þekkingu og trú að sækja reglulega kristnar samkomur?
7 Að sjálfsögðu hefur einkanám þitt í Biblíunni þegar kennt þér margt. Kannski hefur einhver aðstoðað þig. (Postulasagan 8:30-35) En líkja mætti trú þinni við plöntu sem visnar og deyr ef hún fær ekki viðeigandi aðhlynningu. Þess vegna verður þú að fá rétta andlega næringu. (1. Tímóteusarbréf 4:6) Á kristnum samkomum er samfelld fræðsludagskrá sem miðar að því að næra þig andlega og hjálpa þér að halda áfram að eflast í trúnni um leið og þekking þín á Guði eykst. — Kólossubréfið 1:9, 10.
8. Hvers vegna erum við hvött til að sækja samkomur votta Jehóva?
8 Samkomurnar þjóna öðrum nauðsynlegum tilgangi. Páll skrifaði: „Gefum gætur hver að öðrum og hvetjum hver annan til kærleika og góðra verka. Vanrækið ekki safnaðarsamkomur yðar.“ (Hebreabréfið 10:24, 25) Gríska orðið, sem þýtt er með sögninni „að hvetja,“ getur, á sama hátt og íslenska sögnin, bæði þýtt „að örva“ og „að brýna.“ Biblíuorðskviður segir: „Járn brýnir járn, og maður brýnir mann.“ (Orðskviðirnir 27:17) Við þurfum öll að láta ‚brýna‘ okkur án afláts. Daglegt álag frá þessum heimi getur slævt trú okkar. Þegar við sækjum kristnar samkomur erum við hvert öðru til uppörvunar. (Rómverjabréfið 1:11, 12) Safnaðarmeðlimirnir taka til sín hvatningu Páls um að ‚áminna [‚hughreysta,‘ NW] hver annan og uppbyggja hver annan,‘ og slíkt brýnir trú okkar. (1. Þessaloníkubréf 5:11) Ef við sækjum að staðaldri kristnar samkomur gefur það líka til kynna að við elskum Guð og það veitir okkur tækifæri til að vegsama hann. — Sálmur 35:18.
‚ÍKLÆÐIST ELSKUNNI‘
9. Hvernig hefur Jehóva gefið fordæmið í að sýna kærleika?
9 Páll skrifaði: „Íklæðist . . . elskunni, sem er band algjörleikans.“ (Kólossubréfið 3:14) Jehóva hefur af náð sinni gert okkur kleift að íklæðast kærleikanum. Hvernig? Kristnir menn geta sýnt kærleika vegna þess að hann er einn af ávöxtum heilags anda Jehóva. (Galatabréfið 5:22, 23) Jehóva hefur sjálfur sýnt mesta kærleikann með því að senda eingetinn son sinn til þess að við mættum öðlast eilíft líf. (Jóhannes 3:16) Þetta mikla kærleiksverk Guðs er okkur frábær fyrirmynd þegar við leitumst við að sýna þennan eiginleika. „Fyrst Guð hefur svo elskað oss,“ skrifaði Jóhannes postuli, „þá ber einnig oss að elska hver annan.“ — 1. Jóhannesarbréf 4:11.
10. Hvaða gagn getum við haft af ‚öllu bræðrasamfélaginu‘?
10 Þegar þú sækir samkomur í ríkissalnum gefst þér frábært tækifæri til að sýna kærleika. Þar hittir þú alls konar fólk. Þú munt vafalaust laðast þegar í stað að mörgum sem þar eru. Auðvitað eru persónuleikar manna mismunandi, jafnvel þeirra sem þjóna Jehóva. Áður fyrr hefur þú kannski einfaldlega sneitt hjá þeim sem ekki höfðu sömu áhugamál eða persónueinkenni og þú. Kristnir menn eiga hins vegar að elska „allt bræðrasamfélagið.“ (1. Pétursbréf 2:17, NW) Settu þér því það markmið að kynnast öllum í ríkissalnum — líka einstaklingum sem eru ólíkir þér hvað snertir aldur, persónuleika, kynþátt eða menntun. Líklega kemst þú að raun um að hver og einn hefur einhvern geðþekkan eiginleika í ríkum mæli.
11. Hvers vegna ætti það ekki að trufla þig að persónuleikar fólks Jehóva eru margvíslegir?
11 Þótt persónuleikar fólksins í söfnuðinum séu margvíslegir þarf það ekki að koma róti á huga þinn. Þessu má líkja við umferð á þjóðvegi. Þú ekur þar í bíl og í kringum þig eru fjölmörg önnur farartæki. Þau eru ekki öll á sama hraða og ekki heldur í sama ástandi. Sum hafa þegar lagt marga kílómetra að baki en önnur eru nýlögð af stað, rétt eins og þú. Þrátt fyrir þennan mismun eru þau þó öll á leið eftir veginum. Því er líkt farið með einstaklingana sem mynda söfnuðinn. Ekki þroska allir með sér kristna eiginleika með sama hraða. Auk þess er líkamlegt og tilfinningalegt ástand fólks mismunandi. Sumir hafa tilbeðið Jehóva í áraraðir; aðrir eru rétt að byrja á því. Engu að síður eru allir á leið eftir sama veginum til eilífs lífs, „fullkomlega sameinaðir í sama hugarfari og í sömu skoðun.“ (1. Korintubréf 1:10) Vertu þess vegna vakandi fyrir styrkleika þeirra sem í söfnuðinum eru, frekar en að leita að veikleikum þeirra. Ef þú gerir það mun það ylja þér um hjartaræturnar af því að þér mun verða ljóst að Guð er í rauninni hjá þessu fólki. Þar vilt þú vissulega vera. — 1. Korintubréf 14:25.
12, 13. (a) Hvað getur þú gert ef einhver í söfnuðinum gerir þér rangt til eða særir þig? (b) Hvers vegna er mikilvægt að ala ekki með sér gremju?
12 Af því að allir menn eru ófullkomnir má vera að einhver í söfnuðinum segi eða geri stundum eitthvað sem angrar þig. (Rómverjabréfið 3:23) Lærisveinninn Jakob skrifaði af raunsæi: „Allir hrösum vér margvíslega. Hrasi einhver ekki í orði, þá er hann maður fullkominn.“ (Jakobsbréfið 3:2) Hvernig bregst þú við ef einhver gerir þér rangt til eða særir þig? Biblíuorðskviður segir: „Hyggni mannsins gjörir hann seinan til reiði, og það er honum til frægðar að ganga fram hjá mótgjörðum.“ (Orðskviðirnir 19:11) Hyggni þýðir hér innsæi, að sjá ekki aðeins yfirborðið heldur skilja þá þætti sem undir búa og sem fá einstakling til að tala eða hegða sér á þann hátt sem hann gerir. Flest notum við mikið innsæi til að afsaka okkar eigin mistök. Hvers vegna ekki að nota það líka til að skilja og breiða yfir ófullkomleika annarra? — Matteus 7:1-5; Kólossubréfið 3:13.
13 Gleymum aldrei að við verðum að fyrirgefa öðrum ef við eigum sjálf að öðlast fyrirgefningu Jehóva. (Matteus 6:9, 12, 14, 15) Ef við iðkum sannleikann erum við kærleiksrík í samskiptum við aðra. (1. Jóhannesarbréf 1:6, 7; 3:14-16; 4:20, 21) Ef upp kemur vandamál milli þín og einhvers annars í söfnuðinum skaltu þess vegna berjast gegn þeirri tilhneigingu að ala með þér gremju. Hafir þú íklæðst elskunni þá leitast þú við að greiða úr vandanum og hikar ekki við að biðjast afsökunar hafir þú gert á hlut einhvers. — Matteus 5:23, 24; 18:15-17.
14. Hvaða eiginleikum ættum við að íklæðast?
14 Andleg klæði okkar ættu að ná yfir aðra eiginleika nátengda kærleikanum. Páll skrifaði: „Íklæðist . . . hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi.“ Í kærleikanum felast öll þessi persónueinkenni og eru þau hluti af hinum guðhrædda ‚nýja manni.‘ (Kólossubréfið 3:10, 12) Ætlar þú að leggja það á þig að klæðast á þennan hátt? Bróðurelskan mun þá alveg sérstaklega einkenna þig sem lærisvein Jesú, af því að hann sagði: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ — Jóhannes 13:35.
ÖRUGGUR STAÐUR
15. Hvernig er söfnuðurinn eins og skjól?
15 Söfnuðurinn er líka öruggt skjól, verndarskýli þar sem þér getur fundist þú vera öruggur. Í honum finnur þú fólk sem leitast við af heilum hug að gera það sem rétt er í augum Guðs. Margt af því hefur lagt af sömu slæmu venjurnar og viðhorfin og þú ert ef til vill að basla við að sigrast á. (Títusarbréfið 3:3) Þetta fólk getur hjálpað þér enda er okkur sagt að ‚bera hver annars byrðar.‘ (Galatabréfið 6:2) Að sjálfsögðu berð þú sjálfur endanlega ábyrgð á því að ganga þá braut sem leiðir til eilífs lífs. (Galatabréfið 6:5; Filippíbréfið 2:12) En Jehóva hefur gefið okkur kristna söfnuðinn sem dásamlega stoð og styttu. Hversu íþyngjandi sem vandamál þín kunna að vera, stendur þér til boða verðmæt hjálparhella — kærleiksríkur söfnuður sem mun standa með þér í þrautum og sorg. — Samanber Lúkas 10:29-37; Postulasöguna 20:35.
16. Hvaða aðstoð láta safnaðaröldungar í té?
16 Meðal þeirra sem yrðu þér til trausts og halds eru „gjafir í mönnum“ (NW) — útnefndir safnaðaröldungar eða umsjónarmenn sem eru hirðar hjarðarinnar af fúsu geði og af áhuga. (Efesusbréfið 4:8, 11, 12; Postulasagan 20:28; 1. Pétursbréf 5:2, 3) Um þá spáði Jesaja: „Þá verður hver þeirra sem hlé fyrir vindi og skjól fyrir skúrum, sem vatnslækir í öræfum, sem skuggi af stórum hamri í vatnslausu landi.“ — Jesaja 32:2.
17. (a) Hvers konar hjálp vildi Jesús einkum veita? (b) Hvað lofaði Jehóva að láta fólk sitt fá?
17 Þegar Jesús var á jörðinni skorti tilfinnanlega kærleiksríka umsjón af hendi trúarleiðtoganna. Ástand manna hrærði hann mjög og hann vildi einkum veita þeim andlega hjálp. Jesús kenndi í brjósti um þá vegna þess að „þeir voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa.“ (Matteus 9:36) Hversu vel lýsir þetta ekki ástandi margra nú á tímum sem eru sárþjáðir vegna margvíslegra vandamála en hafa í engin hús að venda eftir andlegri hjálp og huggun. En fólk Jehóva fær andlega aðstoð því hann lofaði: „Ég vil setja hirða yfir þá, og þeir skulu gæta þeirra, og þeir skulu eigi framar hræðast né skelfast og einskis þeirra skal saknað verða.“ — Jeremía 23:4.
18. Hvers vegna ættum við að leita til öldungs ef við þörfnumst andlegrar hjálpar?
18 Gerðu þér far um að kynnast útnefndu öldungunum í söfnuðinum. Þeir hafa mikla reynslu í að beita þekkingunni á Guði þar sem þeir hafa uppfyllt hæfniskröfurnar til umsjónarmanna sem settar eru fram í Biblíunni. (1. Tímóteusarbréf 3:1-7; Títusarbréfið 1:5-9) Hikaðu ekki við að snúa þér til einhvers þeirra ef þú þarfnast andlegrar hjálpar til að sigrast á ávana eða losa þig við eiginleika sem stangast á við kröfur Guðs. Þú munt komast að raun um að öldungarnir fylgja áminningu Páls: „Hughreystið ístöðulitla, takið að yður þá, sem óstyrkir eru, verið langlyndir við alla.“ — 1. Þessaloníkubréf 2:7, 8; 5:14.
NJÓTTU ÖRYGGIS MEÐ FÓLKI JEHÓVA
19. Hvaða blessun hefur Jehóva veitt þeim sem leita öryggis innan skipulags hans?
19 Þó að við búum núna í heimi þar sem aðstæður eru ófullkomnar sér Jehóva okkur fyrir fæði, klæði og húsaskjóli í andlegum skilningi. Til að njóta gæða bókstaflegrar paradísar þurfum við auðvitað að bíða eftir nýja heiminum sem Guð hefur lofað. En þeir sem tilheyra skipulagi Jehóva njóta núna þess öryggis sem andleg paradís veitir. Esekíel spáði um þá: „Þeir skulu búa óhultir og enginn skelfa þá.“ — Esekíel 34:28; Sálmur 4:9.
20. Hvernig mun Jehóva bæta okkur upp allt það sem við kunnum að fórna til þess að geta tilbeðið hann?
20 Mikið getum við verið þakklát fyrir að Jehóva skuli með orði sínu og skipulagi sjá okkur í kærleika fyrir andlegum nauðsynjum! Haltu þér hjá fólki Jehóva. Haltu ekki að þér höndunum af ótta við hvað vinir eða ættingjar kunna að hugsa um þig vegna þess að þú sért að afla þér þekkingar á Guði. Sumir snúa ef til vill baki við þér vegna þess að þú hefur félagsskap við votta Jehóva og sækir samkomur í ríkissalnum. En það sem þú fórnar til að geta tilbeðið Guð mun hann bæta þér ríkulega upp. (Malakí 3:10) Þar að auki sagði Jesús: „Enginn hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, móður eða föður, börn eða akra vegna mín og fagnaðarerindisins, án þess að hann fái hundraðfalt aftur, nú á þessum tíma heimili, bræður og systur, mæður, börn og akra, jafnframt ofsóknum, og í hinum komandi heimi eilíft líf.“ (Markús 10:29, 30) Já, þú getur, óháð því hvað þú hefur þurft að yfirgefa eða mátt þola, fundið unaðslegan félagsskap og andlegt öryggi meðal fólks Guðs.
REYNDU ÞEKKINGU ÞÍNA
Hver er „sá trúi og hyggni þjónn“?
Hvað hefur Jehóva látið í té til þess að næra okkur andlega?
Hvernig geta þeir sem eru í kristna söfnuðinum hjálpað okkur?
[Heilsíðumynd á bls. 165]