5. kafli
Jehóva auðmýkir hrokafulla
1, 2. Af hverju er spádómsboðskapur Jesaja til Gyðinga síns tíma áhugaverður fyrir okkur?
JESAJA hefur óbeit á ástandinu í Jerúsalem og Júda og ávarpar Jehóva Guð: „Þú hefir hafnað þjóð þinni, ættmönnum Jakobs.“ (Jesaja 2:6a) Hvað hefur fengið Guð til að hafna þjóðinni er hann útvaldi sjálfur sem ‚eignarlýð‘? — 5. Mósebók 14:2.
2 Fordæming Jesaja á Gyðingum síns tíma er sérstaklega áhugaverð fyrir okkur vegna þess að ástand kristna heimsins nú á tímum er ákaflega líkt og ástand þjóðar Jesaja, og hið sama má segja um dóminn sem Jehóva kveður upp. Með því að kynna okkur yfirlýsingu Jesaja getum við glöggvað okkur á því hvað Guð fordæmir og það hjálpar okkur að forðast það sem hann hefur vanþóknun á. Við skulum því skoða vandlega spádómsorð Jehóva í Jesajabók 2:6–4:1.
Þeir falla hrokafullir fram
3. Hvaða synd þjóðar sinnar játar Jesaja?
3 Jesaja játar synd þjóðar sinnar og segir: „Þeir eru allir í austurlenskum göldrum og spáförum, eins og Filistar, og fylla landið útlendum mönnum.“ (Jesaja 2:6b) Um 800 árum áður hafði Jehóva fyrirskipað útvalinni þjóð sinni: „Saurgið yður ekki með nokkru þvílíku, því að með öllu þessu hafa heiðingjarnir saurgað sig, sem ég mun reka á burt undan yður.“ (3. Mósebók 18:24) Jehóva neyddi Bíleam til að segja um eignarlýðinn sem hann hafði útvalið: „Af fjallstindinum sé ég hann, og af hæðunum lít ég hann. Hann er þjóðflokkur, sem býr einn sér og telur sig eigi meðal hinna þjóðanna.“ (4. Mósebók 23:9, 12) En á dögum Jesaja er útvalin þjóð Guðs búin að taka upp viðbjóðslega siði grannþjóðanna og er öll í „austurlenskum göldrum.“ Í stað þess að trúa á Jehóva og orð hans stundar hún ‚spáfarir eins og Filistar.‘ Hún heldur sér ekki aðgreindri frá þjóðunum heldur er landið ‚fullt af útlendum mönnum‘ sem eflaust kenna fólki Guðs óguðlega siði.
4. Hvaða áhrif hefur auðlegð og herstyrkur á Gyðingana í stað þess að koma þeim til að þakka Jehóva?
4 Jesaja bendir á velmegun og herstyrk Júda undir stjórn Ússía konungs og segir: „Land þeirra er fullt af silfri og gulli, og fjársjóðir þeirra eru óþrjótandi. Land þeirra er fullt af stríðshestum, og vagnar þeirra eru óteljandi.“ (Jesaja 2:7) Þakkar fólkið Jehóva fyrir auðlegð sína og herstyrk? (2. Kroníkubók 26:1, 6-15) Síður en svo. Það setur traust sitt á sjálfan auðinn og snýr baki við gjafara hans, Jehóva Guði. Og hver er afleiðingin? „Land þeirra er fullt af falsguðum, þeir falla fram fyrir eigin handaverkum sínum, fram fyrir því, sem fingur þeirra hafa gjört. En mannkind skal beygjast og maðurinn lægjast, og eigi munt þú fyrirgefa þeim.“ (Jesaja 2:8, 9) Þeir snúa baki við lifandi Guði og falla fram fyrir lífvana skurðgoðum.
5. Hvers vegna er það ekki auðmýktartákn að falla fram fyrir skurðgoðum?
5 Að falla fram getur verið auðmýktartákn. En það er tilgangslaust að falla fram fyrir lífvana hlut; það ‚lægir‘ og auvirðir skurðgoðadýrkandann. Hvernig getur Jehóva fyrirgefið slíka synd? Hvað ætla skurðgoðadýrkendurnir að gera þegar Jehóva kallar þá til ábyrgðar?
‚Hin drembilegu augu skulu lægjast‘
6, 7. (a) Hvað verður um hrokafulla menn á dómsdegi Jehóva? (b) Yfir hvað og hverja kemur reiði Jehóva og hvers vegna?
6 Jesaja heldur áfram: „Gakk þú inn í bergið og fel þig í jörðu fyrir ógnum [Jehóva] og ljóma hátignar hans.“ (Jesaja 2:10) En ekkert berg er nógu stórt til að vernda þá og engin ábreiða nógu þykk til að fela þá fyrir Jehóva, hinum alvalda. Þegar hann fullnægir dómi sínum skulu „hin drembilegu augu mannsins . . . lægjast og hroki mannanna beygjast, og [Jehóva] einn skal á þeim degi háleitur vera.“ — Jesaja 2:11.
7 „Dagur [Jehóva] allsherjar“ nálgast. Þá gefur hann reiði sinni lausan tauminn „yfir allt það, sem dramblátt er og hrokafullt, og yfir allt, er hátt gnæfir, — það skal lægjast — og yfir öll hin hávöxnu og gnæfandi sedrustré á Líbanon, og yfir allar Basanseikur, og yfir öll há fjöll og allar gnæfandi hæðir, og yfir alla háreista turna og yfir alla ókleifa múrveggi, og yfir alla Tarsisknörru og yfir allt ginnandi glys.“ (Jesaja 2:12-16) Reiðidagur Jehóva kemur yfir allar stofnanir, sem maðurinn hefur reist upp í drambsemi sinni, og yfir alla óguðlega menn. Þess vegna skal „dramblæti mannsins . . . lægjast og hroki mannanna beygjast, og [Jehóva] einn skal á þeim degi háleitur vera.“ — Jesaja 2:17.
8. Hvernig kemur hinn boðaði dómsdagur yfir Jerúsalem árið 607 f.o.t.?
8 Hinn boðaði dómsdagur kemur yfir Gyðingana árið 607 f.o.t. þegar Nebúkadnesar Babelkonungur eyðir Jerúsalem. Íbúarnir sjá hina ástkæru borg í ljósum logum, tígulegar byggingarnar í rústum og voldugan múrinn niðurbrotinn. Musteri Jehóva er lagt í rúst. Fjársjóðir þeirra og stríðsvagnar eru einskis virði á ‚degi Jehóva allsherjar.‘ Og það fer fyrir skurðgoðunum eins og Jesaja spáir: „Falsguðirnir — það er með öllu úti um þá.“ (Jesaja 2:18) Gyðingarnir eru fluttir í útlegð til Babýlonar ásamt höfðingjum og hetjum. Jerúsalem á að liggja í eyði í 70 ár.
9. Hvernig er ástand kristna heimsins líkt ástandi Jerúsalem og Júda á dögum Jesaja?
9 Kristni heimurinn er í svipuðu ástandi og Jerúsalem og Júda á dögum Jesaja. Kristni heimurinn hefur vissulega byggt upp náið samband við þjóðir þessa heims. Hann er dyggur stuðningsmaður Sameinuðu þjóðanna og hefur fyllt hús sitt af skurðgoðum og óbiblíulegum siðum. Áhangendur hans eru efnishyggjumenn og treysta á hernaðarmátt sinn. Og þeir telja klerka sína verðskulda mikla virðingu og hlaða á þá heiðurstitlum og nafnbótum. Hroki kristna heimsins verður að engu. En hvenær?
‚Dagur Jehóva‘ er yfirvofandi
10. Á hvaða ‚dag Jehóva‘ benda postularnir Pétur og Páll?
10 Ritningin bendir á ‚dag Jehóva‘ sem verður langtum þýðingarmeiri en dómsdagurinn yfir Jerúsalem og Júda að fornu. Páli postula var innblásið að tengja hinn komandi ‚dag Jehóva‘ við nærveru hins krýnda konungs Jesú Krists. (2. Þessaloníkubréf 2:1, 2) Pétur talaði um þennan dag í sambandi við tilkomu „nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem réttlæti býr.“ (2. Pétursbréf 3:10-13) Þetta er dagurinn þegar Jehóva fullnægir dómi yfir öllu þessu illa heimskerfi, þar á meðal kristna heiminum.
11. (a) Hverjir ‚afbera‘ hinn komandi ‚dag Jehóva‘? (b) Hvernig getum við gert Jehóva að athvarfi okkar?
11 „Æ, sá dagur!“ segir spámaðurinn Jóel, „því að dagur [Jehóva] er nálægur, og hann kemur sem eyðing frá hinum Almáttka.“ Allir ættu að huga að öryggi sínu í ljósi þess að ‚dagurinn‘ er yfirvofandi. „Hver getur afborið hann?“ spyr Jóel og svarar: „[Jehóva] er athvarf sínum lýð.“ (Jóel 1:15; 2:11; 3:21) Verður Jehóva Guð hæli þeirra sem eru hrokafullir og treysta á peninga, hernaðarmátt og guði gerða af mannahöndum? Það er óhugsandi. Hann yfirgaf meira að segja útvalda þjóð sína þegar hún hegðaði sér þannig. Það er feikilega mikilvægt að allir þjónar Guðs ‚ástundi réttlæti og auðmýkt‘ og skoði alvarlega hlutverk tilbeiðslunnar á honum í lífi sínu. — Sefanía 2:2, 3.
„Fyrir moldvörpur og leðurblökur“
12, 13. Af hverju er viðeigandi að skurðgoðadýrkendurnir kasti guðum sínum „fyrir moldvörpur og leðurblökur“ á degi Jehóva?
12 Hvernig ætli skurðgoðadýrkendurnir líti á goð sín á hinum mikla degi Jehóva? Jesaja svarar: „Þá munu menn smjúga inn í bjarghella og jarðholur fyrir ógnum [Jehóva] og fyrir ljóma hátignar hans, þegar hann rís upp til þess að skelfa jörðina. Á þeim degi munu menn kasta fyrir moldvörpur og leðurblökur silfurgoðum sínum og gullgoðum, . . . en skreiðast sjálfir inn í klettagjár og hamarskorur fyrir ógnum [Jehóva] og fyrir ljóma hátignar hans, þegar hann rís upp til þess að skelfa jörðina. Hættið að treysta mönnum, hverfulan lífsanda hafa þeir í nösum sér. Hvers virði eru þeir?“ — Jesaja 2:19-22.
13 Moldvörpur búa í neðanjarðarholum og leðurblökur dvelja í dimmum og drungalegum hellum. Þykk dritlög myndast í hellum, þar sem er mikil leðurblökubyggð, og leggur af þeim sterkan fnyk. Það er vel við hæfi að kasta skurðgoðum fyrir moldvörpur og leðurblökur. Þau eiga ekkert annað skilið en dimm og óhrein skúmaskot. Og menn munu leita skjóls í hellum og klettagjám á dómsdegi Jehóva. Skurðgoðin og dýrkendur þeirra hljóta því sömu örlög. Það fór eins og Jesaja spáði að líflaus skurðgoð björguðu hvorki dýrkendum sínum né Jerúsalem frá Nebúkadnesar árið 607 f.o.t.
14. Hvað gerir veraldlega sinnað fólk á hinum komandi dómsdegi Jehóva yfir heimsveldi falstrúarbragðanna?
14 Hvað gera menn á hinum komandi dómsdegi Jehóva yfir kristna heiminum og öðrum hlutum heimsveldis falskra trúarbragða? Þegar ástandinu hrakar um heim allan rennur sennilega upp fyrir flestum að skurðgoð þeirra eru gagnslaus. Í staðinn leita þeir kannski skjóls og verndar hjá veraldlegum, jarðneskum stofnunum og samtökum svo sem Sameinuðu þjóðunum, ‚skarlatsrauða dýrinu‘ í 17. kafla Opinberunarbókarinnar. Það eru ‚tíu horn‘ þessa táknræna villidýrs sem eyða Babýlon hinni miklu, heimsveldi falskra trúarbragða, ásamt kristna heiminum sem er veigamikill hluti hennar. — Opinberunarbókin 17:3, 8-12, 16, 17.
15. Hvernig verður Jehóva einn „háleitur“ á dómsdegi sínum?
15 Enda þótt það séu þessi táknrænu tíu horn sem eyða og brenna Babýlon hina miklu eru þau í rauninni að fullnægja dómi Jehóva. Opinberunarbókin 18:8 segir um Babýlon hina miklu: „Fyrir því munu plágur hennar koma á einum degi: Dauði, sorg og hungur, og í eldi mun hún verða brennd, því að máttugur er [Jehóva] Guð, sem hana dæmdi.“ Hinn alvaldi Jehóva Guð á því heiðurinn af því að frelsa mannkynið undan áhrifamætti falstrúarbragðanna. Eins og Jesaja segir skal ‚Jehóva einn á þeim degi háleitur vera. Sannarlega mun dagur Jehóva allsherjar upp renna.‘ — Jesaja 2:11b, 12a.
‚Leiðtogar leiða þig afleiðis‘
16. (a) Hvað er ‚stoð og stytta‘ mannlegs samfélags? (b) Hvernig líður fólk Jesaja fyrir að ‚stoð og stytta‘ þjóðfélagsins er tekin burt?
16 Til að mannlegt samfélag sé stöðugt þarf það að eiga sér „stoð og styttu“ eða nauðsynjar eins og mat og drykk, en einkum þó trausta leiðtoga sem geta veitt þjóðinni forystu og haldið uppi röð og reglu. En Jesaja segir um Forn-Ísrael: „Sjá, hinn alvaldi, [Jehóva] allsherjar sviptir Jerúsalem og Júda hverri stoð og styttu, allri stoð brauðs og allri stoð vatns, hetjum og hermönnum, dómendum og spámönnum, spásagnamönnum og öldungum, höfuðsmönnum, virðingamönnum, ráðgjöfum, hugvitsmönnum og kunnáttumönnum.“ (Jesaja 3:1-3) Ungmenni verða höfðingjar og duttlungafullir stjórnendur. Bæði munu valdhafarnir kúga fólkið og „á meðal fólksins skal maður manni þrengja. Ungmennið mun hrokast upp í móti öldungnum og skrílmennið upp í móti tignarmanninum.“ (Jesaja 3:4, 5) Börn „hrokast upp“ gegn þeim sem eldri eru og sýna þeim enga virðingu. Svo bágborið verður ástandið að einn maður segir við annan sem hefur enga hæfileika til að stjórna: „Þú átt yfirhöfn, ver þú stjórnari vor, og þetta fallandi ríki skal vera undir þinni hendi.“ (Jesaja 3:6) En þeir sem fá slíkt boð afþakka það og segjast hvorki vera færir um að lækna sár landsins né nógu efnaðir til að axla ábyrgðina. Þeir segja: „Ég vil ekki vera sáralæknir, og í húsi mínu er hvorki til brauð né klæði. Gjörið mig ekki að þjóðstjóra.“ — Jesaja 3:7.
17. (a) Í hvaða skilningi var synd Jerúsalem og Júda ‚eins og Sódómu‘? (b) Hverjum kennir Jesaja um ástand þjóðarinnar?
17 Jesaja heldur áfram: „Jerúsalem er að hruni komin og Júda er að falla, af því að tunga þeirra og athæfi var gegn [Jehóva] til þess að storka dýrðaraugum hans. Andlitssvipur þeirra vitnar í gegn þeim, og þeir gjöra syndir sínar heyrinkunnar, eins og Sódóma, og leyna þeim ekki. Vei þeim, því að þeir hafa bakað sjálfum sér ógæfu.“ (Jesaja 3:8-9) Fólkið hefur risið upp gegn hinum sanna Guði með orðum sínum og verkum. Það er jafnvel blygðunar- og iðrunarlaust á svip og afhjúpar þannig syndir sínar sem eru jafnviðurstyggilegar og syndir Sódómu. Það er í sáttmálasambandi við Jehóva Guð en hann ætlar ekki að breyta stöðlum sínum fyrir það. „Heill hinum réttlátu, því að þeim mun vel vegna, því að þeir munu njóta ávaxtar verka sinna. Vei hinum óguðlega, honum mun illa vegna, því að honum mun goldið verða eftir tilgjörðum hans. Harðstjóri þjóðar minnar er drengur, og konur drottna yfir henni. Þjóð mín, leiðtogar þínir leiða þig afleiðis og villa fyrir þér veginn.“ — Jesaja 3:10-12.
18. (a) Hvaða dóm fellir Jehóva yfir öldungum og höfðingjum á dögum Jesaja? (b) Hvaða lærdóm drögum við af dómi Jehóva yfir öldungunum og höfðingjunum?
18 Jehóva ‚sækir sök‘ á hendur öldungum og höfðingjum Júda og „gengur fram til dóms“: „Það eruð þér, sem hafið etið upp víngarðinn. Rændir fjármunir fátæklinganna eru í húsum yðar. Hvernig getið þér fengið af yður að fótum troða lýð minn og merja sundur andlit hinna snauðu.“ (Jesaja 3:13-15) Leiðtogarnir eru sviksamir í stað þess að vinna að velferð þjóðarinnar. Þeir misbeita valdi sínu til að auðga sjálfa sig og ræna fátæka og snauða. En þessir leiðtogar þurfa að standa Jehóva allsherjar reikningsskap fyrir kúgun sína. Þetta er alvarleg viðvörun til þeirra sem fara með ábyrgð nú á dögum um að misbeita ekki valdi sínu.
19. Hvaða kúgun og ofsóknir hefur kristni heimurinn gert sig sekan um?
19 Kristni heimurinn, einkum klerkastétt hans og framámenn, hefur kúgað almenning og kúgar enn, og hann hefur með svikum sölsað undir sig margt sem réttilega tilheyrir almenningi. Hann hefur misþyrmt, meitt og ofsótt fólk Guðs og smánað nafn hans. Jehóva mun svo sannarlega fullnægja dómi á honum þegar þar að kemur.
„Brennimerki í stað fegurðar“
20. Af hverju fordæmir Jehóva „dætur Síonar“?
20 Eftir að hafa fordæmt rangindi leiðtoganna beinir Jehóva athyglinni að konunum í Síon eða Jerúsalem. Það er greinilega í tísku að ganga með klingjandi ‚ökklafestar‘ eins og „dætur Síonar“ gera. Þær temja sér það sem talið er þokkafullt og kvenlegt göngulag, eru skrefstuttar og „tifa í göngunni.“ Er eitthvað að því? Já, því að viðhorf kvennanna er ekki rétt. Jehóva segir: „Dætur Síonar eru drembilátar og ganga hnakkakerrtar, gjóta út undan sér augunum.“ (Jesaja 3:16) Þær verða að gjalda þessa drembilætis.
21. Hvaða áhrif hefur dómur Jehóva yfir Jerúsalem á gyðingakonur?
21 Þessar drambsömu „dætur Síonar“ glata öllu þegar Jehóva fullnægir dómi yfir landinu, meira að segja fegurðinni sem þær eru svo stoltar af. Jehóva spáir: „Þá mun [Jehóva] gjöra kláðugan hvirfil Síonar dætra og gjöra bera blygðan þeirra. Á þeim degi mun [Jehóva] burt nema skart þeirra: ökklaspennurnar, ennisböndin, hálstinglin, eyrnaperlurnar, armhringana, andlitsskýlurnar, motrana, ökklafestarnar, beltin, ilmbaukana, töfraþingin, fingurgullin, nefhringana, glitklæðin, nærklæðin, möttlana og pyngjurnar, speglana, líndúkana, vefjarhettina og slæðurnar.“ (Jesaja 3:17-23) Þetta eru sorgleg umskipti.
22. Hverju glata Jerúsalemkonur auk skartgripanna?
22 Spádómurinn heldur áfram: „Koma mun ódaunn fyrir ilm, reiptagl fyrir belti, skalli fyrir hárfléttur, aðstrengdur hærusekkur í stað skrautskikkju, brennimerki í stað fegurðar.“ (Jesaja 3:24) Hinar dramblátu Jerúsalemkonur hrapa úr auðlegð í fátækt árið 607 f.o.t. Þær glata frelsinu og fá „brennimerki“ sem þrælar.
„Hún sjálf mun sitja einmana“
23. Hvað boðar Jehóva í sambandi við Jerúsalem?
23 Jehóva talar nú til Jerúsalemborgar og boðar: „Menn þínir munu fyrir sverði falla og kappar þínir í orustu. Hlið borgarinnar munu kveina og harma, og hún sjálf mun sitja einmana á jörðinni.“ (Jesaja 3:25, 26) Karlmenn Jerúsalemborgar, meira að segja kapparnir, munu falla í bardaga. Borgin verður jöfnuð við jörðu. „Hlið borgarinnar“ munu „kveina og harma.“ Jerúsalem mun „sitja einmana“ og í eyði.
24. Hvaða harkalegar afleiðingar hefur mannfallið fyrir Jerúsalemkonur?
24 Mannfallið hefur harkalegar afleiðingar fyrir Jerúsalemkonur. Jesaja lýkur þessum hluta spádómsbókar sinnar svo: „Á þeim degi munu sjö konur þrífa í sama manninn og segja: ‚Vér skulum sjálfar fæða oss og klæða, lát þú oss aðeins nefnast eftir nafni þínu, nem burt smán vora.‘“ (Jesaja 4:1) Svo mikill skortur verður á körlum á giftingaraldri að nokkrar konur hanga utan í sama manni til að nefnast eftir nafni hans — það er að segja að þekkjast opinberlega sem eiginkonur hans — til að firra sig þeirri smán að vera ógiftar. Móselögin kváðu á um að eiginmaður skyldi sjá konu sinni fyrir fæði og klæði. (2. Mósebók 21:10) En þessar konur eru tilbúnar til að leysa hann undan lagalegum skyldum sínum með því að fallast á að ‚fæða sig og klæða sjálfar.‘ Hvílík örvilnun hjá ‚dætrum Síonar‘ sem voru svo dramblátar!
25. Hvað bíður hrokafullra?
25 Jehóva auðmýkir hrokafulla. Árið 607 f.o.t. ‚beygir‘ hann dramb útvalinnar þjóðar sinnar og ‚lægir hroka‘ hennar. Megi sannkristnir menn aldrei gleyma því að „Guð stendur í gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð.“ — Jakobsbréfið 4:6.
[Mynd á blaðsíðu 50]
Skurðgoð, auðæfi og herstyrkur bjarga ekki Jerúsalem á dómsdegi Jehóva.
[Mynd á blaðsíðu 55]
Heimsveldi falskra trúarbragða verður gereytt á ‚degi Jehóva.‘