16. kafli
Vonarboðskapur handa mæddum bandingjum
1. Lýstu aðstæðum Gyðinga í útlegðinni í Babýlon.
ÞETTA voru dapurlegir tímar í sögu Júda. Sáttmálaþjóð Guðs hafði verið flutt með valdi úr landi sínu og þótti útlegðin í Babýlon ákaflega dapurleg. Útlagarnir fengu að vísu ákveðið athafnafrelsi við dagleg störf. (Jeremía 29:4-7) Sumir öfluðu sér verkkunnáttu og stunduðu atvinnu- eða verslunarrekstur.a (Nehemíabók 3:8, 31, 32) En lífið var ekki auðvelt hjá Gyðingunum í útlegðinni því að þeir voru ánauðugir, bæði líkamlega og andlega. Lítum nánar á málið.
2, 3. Hvaða áhrif hafði útlegðin á tilbeiðslu Gyðinga?
2 Þegar hersveitir Babýlonar eyddu Jerúsalem árið 607 f.o.t. var það ekki aðeins þjóðin sem beið afhroð heldur varð sönn tilbeiðsla einnig fyrir áfalli. Musteri Jehóva var rænt og eyðilagt og levítarnir voru ýmist drepnir eða teknir til fanga svo að prestþjónustan lamaðist. Gyðingar áttu því hvorki tilbeiðsluhús, altari né skipulagða prestastétt þannig að þeim var ómögulegt að færa hinum sanna Guði fórnir eins og kveðið var á um í lögmálinu.
3 Trúir Gyðingar gátu eftir sem áður varðveitt trúarauðkenni sín með því að halda umskurnarákvæðið og fylgja lögmálinu að því marki sem hægt var. Þeir gátu til dæmis forðast óleyfilega fæðu og haldið hvíldardaginn. En þar með hættu þeir á háðsglósur fangara sinna sem þóttu helgisiðir þeirra fáránlegir. Ljóst er af orðum sálmaskáldsins að útlagarnir voru ákaflega daprir: „Við Babýlons fljót, þar sátum vér og grétum, er vér minntumst Síonar. Á pílviðina þar hengdum vér upp gígjur vorar. Því að herleiðendur vorir heimtuðu söngljóð af oss og kúgarar vorir kæti: ‚Syngið oss Síonarkvæði!‘“ — Sálmur 137:1-3.
4. Af hverju var til einskis fyrir Gyðinga að vænta hjálpar annarra þjóða en hvert gátu þeir leitað?
4 Hvar gátu Gyðingar þá leitað huggunar og hughreystingar? Hvaðan myndi þeim koma hjálp? Varla frá grannþjóðunum. Þær voru allar máttlausar gagnvart herjum Babýlonar og margar voru fjandsamlegar í garð Gyðinga. En staðan var þó ekki vonlaus. Þeir höfðu að vísu gert uppreisn gegn Jehóva meðan þeir voru frjáls þjóð en af náð sinni gerir hann þeim hughreystandi boð í útlegðinni.
„Komið hingað til vatnsins“
5. Hvað merkja orðin: „Komið hingað til vatnsins“?
5 Jehóva talar spádómlega til hinna útlægu Gyðinga í Babýlon og segir fyrir munn Jesaja: „Heyrið, allir þér sem þyrstir eruð, komið hingað til vatnsins, og þér sem ekkert silfur eigið, komið, kaupið korn og etið! Komið, kaupið korn án silfurs og endurgjaldslaust bæði vín og mjólk!“ (Jesaja 55:1) Þessi orð eru auðug að myndmáli, til dæmis boðið: „Komið hingað til vatnsins.“ Allt líf er háð vatni. Við mennirnir lifum ekki meira en viku án þessa dýrmæta vökva. Það er því viðeigandi að Jehóva skuli nota vatn til að lýsa þeim áhrifum sem orð hans hafa á hina útlægu Gyðinga. Boðskapur hans hressir þá eins og svaladrykkur á sumardegi. Hann lyftir þeim upp úr örvilnaninni og svalar þorsta þeirra í sannleika og réttlæti. Og hann innblæs þeim von um frelsun úr ánauðinni. En til að njóta góðs af boðskap Guðs þurfa Gyðingar að drekka hann í sig, gefa gaum að honum og breyta eftir honum.
6. Hvaða gagn hafa Gyðingar af því að kaupa „vín og mjólk“?
6 Jehóva býður einnig fram „vín og mjólk.“ Ungviðið styrkist og vex af mjólk. Orð Jehóva munu sömuleiðis styrkja fólk hans andlega og treysta samband þess við hann. En hvað um vínið? Vín er oft á borðum við hátíðleg tækifæri og Biblían tengir það gleði og velmegun. (Sálmur 104:15) Með því að segja fólki sínu að ‚kaupa vín‘ er Jehóva að fullvissa það um að það muni „gleðjast mikillega“ ef það snúi sér af heilum hug að sannri tilbeiðslu. — 5. Mósebók 16:15; Sálmur 19:9; Orðskviðirnir 10:22.
7. Af hverju er umhyggja Jehóva fyrir hinum útlægu eftirtektarverð og hvað segir hún um hann?
7 Það er mikil miskunn af hálfu Jehóva að bjóðast til að hressa hina útlægu Gyðinga andlega. Umhyggja hans er þeim mun eftirtektarverðari ef litið er til uppreisnarsögu þeirra og þrjósku. Það er ekki svo að þeir verðskuldi velþóknun Jehóva. En sálmaskáldið Davíð orti öldum áður: „Náðugur og miskunnsamur er [Jehóva], þolinmóður og mjög gæskuríkur. Hann þreytir eigi deilur um aldur og er eigi eilíflega reiður.“ (Sálmur 103:8, 9) Jehóva slítur ekki tengslum við fólk sitt heldur stígur fyrsta skrefið til sátta. Hann „hefir unun af að vera miskunnsamur.“ — Míka 7:18.
Að treysta óverðugum
8. Á hvað hafa margir Gyðingar treyst þrátt fyrir viðvörun?
8 Fram til þessa hafa margir Gyðingar vantreyst Jehóva til að bjarga þeim. Áður en Jerúsalem féll leituðu leiðtogarnir stuðnings voldugra þjóða og drýgðu hórdóm bæði með Egyptum og Babýloníumönnum ef svo má orða það. (Esekíel 16:26-29; 23:14) Jeremía hafði því ærið tilefni til að segja í varnaðartón: „Bölvaður er sá maður, sem reiðir sig á menn og gjörir hold að styrkleik sínum, en hjarta hans víkur frá [Jehóva].“ (Jeremía 17:5) En þetta gerði þjóð Guðs engu að síður!
9. Hvernig eru margir Gyðingar að ‚reiða silfur fyrir það sem ekki er brauð‘?
9 Nú er hún í ánauð einnar af þjóðunum sem hún treysti á. Hefur hún lært sína lexíu? Margir Gyðingar hafa trúlega ekki gert það því að Jehóva spyr: „Hví reiðið þér silfur fyrir það, sem ekki er brauð, og gróða yðar fyrir það, sem ekki er til saðnings?“ (Jesaja 55:2a) Ef hinir ánauðugu Gyðingar treysta einhverjum öðrum en Jehóva eru þeir að ‚reiða silfur fyrir það sem ekki er brauð.‘ Ekki ætla Babýloníumenn að sleppa þeim því að þeir eru þekktir fyrir að leyfa aldrei föngum að snúa heim. Heimsvaldastefna, kaupsýsla og falstrú Babýlonar hefur ekkert að bjóða hinum ánauðugu Gyðingum.
10. (a) Hvernig ætlar Jehóva að umbuna hinum útlægu Gyðingum ef þeir hlýða á hann? (b) Hvaða sáttmála gerði Jehóva við Davíð?
10 Jehóva sárbænir fólk sitt: „Hlýðið á mig, þá skuluð þér fá gott að eta og sálir yðar gæða sér á feiti! Hneigið eyru yðar og komið til mín, heyrið, svo að sálir yðar megi lifna við! Ég vil gjöra við yður eilífan sáttmála, Davíðs órjúfanlega náðarsáttmála.“ (Jesaja 55:2b, 3) Jehóva er eina von hinnar andlega vannærðu þjóðar og hann talar nú spádómlega til hennar fyrir munn Jesaja. Líf manna er undir því komið að hlýða á boðskap Guðs því að hann segir að ‚sálir þeirra lifni þá við.‘ En hver er hinn ‚eilífi sáttmáli‘ sem Jehóva ætlar að gera við þá sem hlýða á hann? Þetta er ‚náðarsáttmáli Davíðs.‘ Öldum áður hafði Jehóva heitið Davíð því að hásæti hans skyldi „vera óbifanlegt að eilífu.“ (2. Samúelsbók 7:16) Hinn ‚eilífi sáttmáli‘ er því sáttmáli um stjórn.
Varanlegur erfingi eilífs ríkis
11. Hvers vegna kann útlögunum í Babýlon að þykja það langsótt að fyrirheit Guðs við Davíð eigi eftir að rætast?
11 Þessum útlægu Gyðingum kann að þykja það langsótt að þeir fái stjórnanda af ætt Davíðs. Þeir hafa misst land sitt og eru ekki lengur sjálfstæð þjóð. En það er aðeins um tíma. Jehóva hefur ekki gleymt sáttmála sínum við Davíð. Ásetningur Guðs um eilíft ríki í ætt Davíðs mun ná fram að ganga, hversu ósennilegt sem það kann að virðast frá mannlegum bæjardyrum séð. En hvernig og hvenær? Árið 537 f.o.t. sleppir Jehóva fólki sínu úr ánauð Babýlonar og leiðir það heim í land þess. Er stofnsett ævarandi ríki eftir það? Nei, Gyðingar eru þegnar annars heiðins heimsveldis, Medíu-Persíu. „Tímar heiðingjanna“ til að fara með völd eru enn ekki liðnir. (Lúkas 21:24) Um aldaraðir situr enginn konungur í Ísrael og fyrirheit Jehóva við Davíð rætist ekki á meðan.
12. Hvaða ráðstafanir gerði Jehóva til að uppfylla sáttmálann við Davíð?
12 Meira en 500 árum eftir að Ísrael var leystur úr ánauð Babýlonar gerði Jehóva mikilvæga ráðstöfun til að uppfylla sáttmálann um ríkið og flutti líf frumgetins sonar síns, fyrsta sköpunarverksins, frá himnum í móðurlíf gyðingameyjarinnar Maríu. (Kólossubréfið 1:15-17) Engill Jehóva sagði Maríu er hann boðaði henni þetta: „Hann mun verða mikill og kallaður sonur hins hæsta. [Jehóva] Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans, og hann mun ríkja yfir ætt Jakobs að eilífu, og á ríki hans mun enginn endir verða.“ (Lúkas 1:32, 33) Jesús fæddist því í konungsætt Davíðs og erfði réttinn til ríkis. Hann átti að ríkja „að eilífu“ eftir að hann hefði tekið völd. (Jesaja 9:7; Daníel 7:14) Þannig opnaðist leiðin til þess að hið aldagamla fyrirheit Jehóva við Davíð konung um eilífan erfingja rættist.
‚Stjórnari þjóðanna‘
13. Hvernig var Jesús „vitni fyrir þjóðirnar,“ bæði meðan hann var á jörð og eftir að hann var stiginn upp?
13 Hvað á þessi konungur framtíðarinnar að gera? Jehóva segir: „Sjá, ég hefi gjört hann að vitni fyrir þjóðirnar, að höfðingja og stjórnara þjóðanna.“ (Jesaja 55:4) Jesús var fulltrúi Jehóva á jörð og vitni hans fyrir þjóðirnar er hann varð fullorðinn. Þjónusta hans beindist að ‚týndum sauðum af Ísraelsætt.‘ En skömmu áður en hann steig upp til himna sagði hann fylgjendum sínum: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum . . . Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ (Matteus 10:5, 6; 15:24; 28:19, 20) Boðskapurinn um ríkið átti því síðar meir að berast til annarra en Gyðinga og sumir þeirra fengu aðild að uppfyllingu sáttmálans við Davíð. (Postulasagan 13:46) Þannig var Jesús ‚vitni Jehóva fyrir þjóðirnar‘ eftir að hann var dáinn, upprisinn og stiginn upp til himna.
14, 15. (a) Hvernig reyndist Jesús vera ‚höfðingi og stjórnari‘? (b) Hvað áttu fylgjendur Jesú á fyrstu öld í vændum?
14 Jesús átti líka að vera ‚höfðingi og stjórnari.‘ Í samræmi við lýsingu spádómsins axlaði hann fullkomlega forystuábyrgð sína hér á jörð. Hann dró að sér mikinn mannfjölda, kenndi honum orð sannleikans og benti á hagsbótina af því að fylgja forystu sinni. (Matteus 4:24; 7:28, 29; 11:5) Hann þjálfaði lærisveina sína og bjó þá undir boðunarátakið sem framundan var. (Lúkas 10:1-12; Postulasagan 1:8; Kólossubréfið 1:23) Á aðeins þrem og hálfu ári lagði hann grunninn að sameinuðum alþjóðasöfnuði þúsunda manna af mörgum kynþáttum. Enginn hefði getað áorkað þessu nema sannur ‚höfðingi og stjórnari.‘b
15 Þeir sem gengu til liðs við kristna söfnuðinn á fyrstu öld voru smurðir heilögum anda Guðs og áttu í vændum að verða samerfingjar Jesú að ríkinu á himnum. (Opinberunarbókin 14:1) En spádómur Jesaja horfir lengra en til frumkristninnar. Sönnunarmerkin sýna að Jesús Kristur tók ekki völd sem konungur Guðsríkis fyrr en 1914. Skömmu síðar kom upp staða meðal smurðra kristinna manna á jörð sem var að mörgu leyti hliðstæð útlegð Gyðinga á sjöttu öld f.o.t. Þessir atburðir eru reyndar lokauppfylling á spádómi Jesaja.
Nútímaánauð og lausn
16. Hvaða hörmungar fylgdu í kjölfar þess að Jesús tók við völdum árið 1914?
16 Eindæma hörmungar gengu yfir heiminn er Jesús tók völd sem konungur árið 1914. Ástæðan var sú að hann úthýsti Satan og öðrum illum andaverum af himnum um leið og hann hafði tekið völd. Eftir að athafnasvið Satans var takmarkað við jörðina hóf hann stríð á hendur smurðum kristnum mönnum, hinum heilögu. (Opinberunarbókin 12:7-12, 17) Hámarki var náð árið 1918 er almennt boðunarstarf lagðist næstum af og forystumenn Varðturnsfélagsins voru fangelsaðir, ranglega sakaðir um uppreisnaráróður. Þannig voru nútímaþjónar Jehóva hnepptir í andlega ánauð sem minnti á bókstaflega ánauð Gyðinga að fornu. Mikil vansæmd vofði yfir þeim.
17. Hvernig voru hinir smurðu á vegi staddir árið 1919 og hvernig voru þeir styrktir?
17 En ánauð smurðra þjóna Guðs stóð ekki lengi. Hinn 26. mars 1919 var forystumönnum Félagsins sleppt úr fangelsi og síðar voru allar ákærur á hendur þeim felldar niður. Jehóva úthellti heilögum anda yfir frelsaða þjóna sína og styrkti þá til verksins sem framundan var. Fagnandi þáðu þeir boðið um að ‚fá ókeypis lífsins vatn.‘ (Opinberunarbókin 22:17) Þeir fengu „án silfurs og endurgjaldslaust bæði vín og mjólk“ og styrktust andlega fyrir þá miklu aukningu sem í vændum var, aukningu sem þeir höfðu ekki séð fyrir.
Mikill múgur hraðar sér til smurðra þjóna Guðs
18. Í hvaða tvo hópa skiptast lærisveinar Jesú Krists og hvað mynda þeir nú á tímum?
18 Lærisveinar Jesú bera í brjósti tvenns konar von. Fyrst var safnað ‚lítilli hjörð‘ 144.000 manna. Þetta voru smurðir kristnir menn, bæði af hópi Gyðinga og annarra þjóða, sem mynda „Ísrael Guðs“ og eiga þá von að ríkja með Jesú á himnum. (Lúkas 12:32; Galatabréfið 6:16; Opinberunarbókin 14:1) Á síðustu dögum kom síðan fram „mikill múgur“ ‚annarra sauða.‘ Tala þeirra er ekki ákveðin fyrir fram en þeir eiga þá von að lifa að eilífu í paradís á jörð. Áður en þrengingin mikla brýst út þjónar þessi mikli múgur með litlu hjörðinni, og saman mynda þeir ‚eina hjörð‘ undir umsjón ‚eins hirðis.‘ — Opinberunarbókin 7:9, 10; Jóhannes 10:16.
19. Hvernig hefur „þjóð,“ sem Ísrael Guðs þekkti ekki, svarað kallinu?
19 Talað er um söfnun þessa mikla múgs í spádómi Jesaja: „Sjá, þú munt kalla til þín þjóð, er þú þekkir ekki, og fólk, sem ekki þekkir þig, mun hraða sér til þín, sakir [Jehóva] Guðs þíns og vegna Hins heilaga í Ísrael, af því að hann hefir gjört þig vegsamlegan.“ (Jesaja 55:5) Fyrst eftir lausn sína úr andlegri ánauð skildu hinar smurðu leifar að Jehóva myndi nota þær til að kalla saman fjölmenna „þjóð“ sem tilbæði hann fyrir Harmagedón. En með tímanum slógust margir hjartahreinir menn í hóp hinna smurðu án þess að bera himneska von í brjósti og þjónuðu Jehóva af sömu kostgæfni og þeir. Þessir nýliðar komu auga á vegsemd þjóna Guðs og gerðu sér grein fyrir því að hann væri með þeim. (Sakaría 8:23) Á fjórða áratug tuttugustu aldar skildu hinir smurðu hver þessi stækkandi hópur var. Þeir áttuðu sig á því að mikið uppskerustarf var framundan. Múgurinn mikli hraðaði sér til sáttmálaþjóðar Guðs og það af góðu tilefni.
20. (a) Af hverju er áríðandi að ‚leita Jehóva‘ nú á dögum og hvernig gera menn það? (b) Hvað gerir Jehóva fyrir þá sem leita hans?
20 Á dögum Jesaja var kallað: „Leitið [Jehóva], meðan hann er að finna, kallið á hann, meðan hann er nálægur!“ (Jesaja 55:6) Þessi orð eiga vel við á okkar dögum og eiga bæði erindi til Ísraels Guðs og hins vaxandi mikla múgs. Blessun Jehóva er ekki skilyrðislaus og boð hans stendur ekki endalaust. Núna er rétti tíminn til að leita velþóknunar hans. Það er um seinan þegar dómstíminn rennur upp. Þess vegna segir Jesaja: „Hinn óguðlegi láti af breytni sinni og illvirkinn af vélráðum sínum og snúi sér til [Jehóva], þá mun hann miskunna honum, til Guðs vors, því að hann fyrirgefur ríkulega.“ — Jesaja 55:7.
21. Hvernig sviku Ísraelsmenn loforð forfeðranna?
21 Setningin ‚snúi sér til Jehóva‘ minnir á að þeir sem þurfa að iðrast áttu samband við hann áður. Hún minnir líka á að margt í þessum hluta af spádómi Jesaja rættist fyrst á hinum ánauðugu Gyðingum í Babýlon. Öldum áður höfðu forfeður þeirra lýst yfir að þeir ætluðu að hlýða Jehóva. Þeir sögðu: „Fjarri sé það oss að yfirgefa [Jehóva] og þjóna öðrum guðum.“ (Jósúabók 24:16) Sagan sýnir að það sem var „fjarri“ þeim gerðist samt — æ ofan í æ! Trúleysi þjóðar Guðs er ástæðan fyrir útlegðinni í Babýlon.
22. Af hverju segir Jehóva að hugsanir sínar og vegir séu hærri en manna?
22 Hvað gerist ef þeir iðrast? Jehóva lofar fyrir munn Jesaja að ‚fyrirgefa ríkulega‘ og bætir við: „Mínar hugsanir eru ekki yðar hugsanir, og yðar vegir ekki mínir vegir — segir [Jehóva]. Heldur svo miklu sem himinninn er hærri en jörðin, svo miklu hærri eru mínir vegir yðar vegum og mínar hugsanir yðar hugsunum.“ (Jesaja 55:8, 9) Jehóva er fullkominn og hugsanir hans og vegir miklu háleitari en við getum náð. Miskunn hans er jafnvel meiri en svo að við mennirnir getum nokkurn tíma líkt eftir henni. Þegar við fyrirgefum meðbróður okkar er syndari að fyrirgefa syndara. Við gerum okkur ljóst að fyrr eða síðar þörfnumst við fyrirgefningar meðbróður okkar. (Matteus 6:12) En Jehóva „fyrirgefur ríkulega“ þó að hann þurfi aldrei að leita fyrirgefningar annarra! Hann sýnir mikla ást og umhyggju. Og í miskunn sinni opnar hann flóðgáttir himinsins og úthellir blessun yfir þá sem snúa sér til hans af heilu hjarta. — Malakí 3:10.
Jehóva blessar þá sem snúa sér til hans
23. Hvaða dæmi notar Jehóva til að sýna fram á að orð sitt rætist örugglega?
23 Jehóva lofar fólki sínu: „Eins og regn og snjór fellur af himni ofan og hverfur eigi þangað aftur, fyrr en það hefir vökvað jörðina, gjört hana frjósama og gróandi og gefið sáðmanninum sæði og brauð þeim er eta, eins er því farið með mitt orð, það er útgengur af mínum munni: Það hverfur ekki aftur til mín við svo búið, eigi fyrr en það hefir framkvæmt það, sem mér vel líkar, og komið því til vegar, er ég fól því að framkvæma.“ (Jesaja 55:10, 11) Allt sem Jehóva segir rætist. Orðið, sem gengur fram af munni hans, er fullkomlega áreiðanlegt líkt og regn og snjór fellur af himni og skilar því hlutverki að vökva jörðina og gera hana frjósama. Jehóva stendur við það sem hann lofar — það er algerlega öruggt. — 4. Mósebók 23:19.
24, 25. Hvaða blessun eiga hinir útlægu Gyðingar í vændum ef þeir fara eftir boðskap Jehóva?
24 Ef Gyðingar fara eftir spádómsorðum Jesaja er öruggt að þeir hljóta það hjálpræði sem Jehóva hefur heitið. Og það verður þeim til mikillar gleði. Jehóva segir: „Með gleði skuluð þér út fara, og í friði burt leiddir verða. Fjöll og hálsar skulu hefja upp fagnaðarsöng fyrir yður, og öll tré merkurinnar klappa lof í lófa. Þar sem áður voru þyrnirunnar, mun kýpresviður vaxa, og þar sem áður var lyng, mun mýrtusviður vaxa. Þetta mun verða [Jehóva] til lofs og eilífs minningarmarks, sem aldrei mun afmáð verða.“ — Jesaja 55:12, 13.
25 Gyðingar yfirgefa Babýlon með gleði árið 537 f.o.t. (Sálmur 126:1, 2) Þeir koma til Jerúsalem og finna land sem er á kafi í þyrnum og lyngi, enda var það búið að liggja í eyði áratugum saman. En heimkomið fólk Guðs getur nú hafist handa við að umbreyta landinu. Tignarlegur kýprus- og mýrtusviður tekur við af þyrnirunnum og lyngi. Blessun Jehóva er augljós er fólk hans þjónar honum með „fagnaðarsöng.“ Það er eins og sjálft landið gleðjist.
26. Við hvaða blessun búa þjónar Guðs nú á tímum?
26 Hinar smurðu leifar kristinna manna voru leystar úr andlegum ánauðarfjötrum árið 1919. (Jesaja 66:8) Þær þjóna Guði fagnandi í andlegri paradís ásamt miklum múgi annarra sauða. Þær hafa losað sig fullkomlega við öll babýlonsk áhrif og njóta hylli Jehóva sem er honum „til lofs.“ Andleg velmegun þeirra vegsamar nafn hans og upphefur hann sem Guð sannra spádóma. Það sem hann hefur áorkað í þágu þeirra sýnir fram á guðdóm hans og er til merkis um að orð hans sé satt og að hann miskunni þeim sem iðrast. Megi allir, sem halda áfram að kaupa „án silfurs og endurgjaldslaust bæði vín og mjólk,“ þjóna honum fagnandi um eilífð!
[Neðanmáls]
a Mörg gyðinganöfn hafa fundist í fornbabýlonskum viðskiptaskrám.
b Jesús hefur áfram umsjón með kennslu nýrra lærisveina. (Opinberunarbókin 14:14-16) Kristnir nútímamenn líta á hann sem höfuð safnaðarins. (1. Korintubréf 11:3) Og á tilsettum tíma Guðs verður hann ‚höfðingi og stjórnari‘ með öðrum hætti, en þá stýrir hann úrslitasorustu gegn óvinum Guðs í stríðinu við Harmagedón. — Opinberunarbókin 19:19-21.
[Mynd á blaðsíðu 234]
Andlega þyrstum Gyðingum er boðið að ‚koma til vatnsins‘ og ‚kaupa bæði vín og mjólk.‘
[Mynd á blaðsíðu 239]
Jesús reyndist ‚höfðingi og stjórnari‘ þjóðanna.
[Myndir á blaðsíðu 244, 245]
„Hinn óguðlegi láti af breytni sinni.“