Námskafli 51
Ræðutími og hlutföll
ÞÓ AÐ mestu máli skipti að kennslan hjá þér sé góð þarftu líka að gefa gaum að ræðutímanum. Samkomurnar eiga að hefjast á ákveðnum tíma og þeim á að ljúka á ákveðnum tíma. Til að það takist þurfa allir, sem taka þátt í dagskránni, að vinna vel saman.
Lífsviðhorf fólks voru töluvert önnur á biblíutímanum en gerist og gengur núna í mörgum heimshlutum. Tímasetningar voru gjarnan lauslegar, líkt og „um dagmál“ eða „um nón.“ (Matt. 20:3-6; 27:46) Það var sjaldan ástæða til að gera sér áhyggjur af nákvæmum tímasetningum í hinu daglega lífi. Sums staðar í heiminum hugsar fólk svipað um tímann enn þann dag í dag.
En gott tímaskyn hefur sína kosti, þó að staðbundin menning eða persónulegur smekkur geri ekki ráð fyrir að klukkan sé tekin allt of hátíðlega. Þegar nokkrir einstaklingar eru með verkefni á samkomu þarf að gæta þess að halda hverju verkefni innan settra tímamarka. Við ættum vissulega að halda verkefnum okkar á samkomum innan tímamarka, í ljósi þeirrar meginreglu að allt skuli fara „sómasamlega fram og með reglu.“ — 1. Kor. 14:40.
Lærðu að halda þig við tímamörkin. Góður undirbúningur er aðalatriðið. Yfirleitt er það ónógum undirbúningi að kenna ef ræðumenn eiga erfitt með að halda sig við tímamörkin. Sumir eru ef til vill of öruggir með sig eða trassa að undirbúa sig þar til á síðustu stundu. Til að halda þig innan tímamarka þarftu að sjá verkefnið í réttu ljósi og vera fús að undirbúa sig vel.
Ertu með upplestrarverkefni? Byrjaðu þá á því að fara yfir 4. til 7. námskafla þar sem fjallað er um málfimi, málhlé, merkingaráherslur og áherslu á aðalhugmyndir. Lestu efnið, sem þér er úthlutað, upphátt og farðu eftir leiðbeiningum þessara kafla. Taktu tímann á upplestrinum. Þarftu að lesa hraðar til að ljúka lestrinum innan tímamarka? Auktu þá hraðann þegar þú lest kafla sem eru ekki mjög mikilvægir en haltu áfram að gera málhlé og lesa hæfilega hægt til að leggja áherslu á það sem er mikilvægt. Æfðu þig aftur og aftur. Þegar lesturinn er orðinn liðugur er mun auðveldara að stjórna tímanum.
Ætlarðu að flytja ræðu eftir uppkasti? Minnispunktarnir þurfa ekki að vera svo ítarlegir að þeir séu nánast handrit til að tryggja að ræðutíminn sé réttur. Bent var á betri aðferð í 25. námskafla. Hafðu þessi fimm atriði í huga: (1) Taktu saman gott efni í ræðuna en ekki of mikið. (2) Hafðu aðalatriðin skýrt í huga en lærðu ekki heilu setningarnar utanbókar. (3) Merktu við í uppkastinu hve langan tíma þú ætlar að nota fyrir hvern hluta eða hve langur tími á að vera liðinn þegar þú kemur að ákveðnu atriði. (4) Veltu fyrir þér, þegar þú undirbýrð þig, hverju þú gætir sleppt ef þú lentir í tímaþröng. (5) Æfðu þig að flytja ræðuna.
Það er mikilvægt að þú æfir þig. Fylgstu með hve langan tíma þú notar fyrir hvern kafla ræðunnar. Farðu yfir ræðuna aftur og aftur uns þú hefur náð tökum á öllum tímasetningum. Reyndu ekki að troða of miklu efni inn í ræðuna. Gefðu þér svolítið svigrúm því að þú mátt búast við að það taki örlítið lengri tíma að flytja ræðuna í áheyrn fjölda en að æfa hana í einrúmi.
Innri hlutföll. Réttur ræðutími er nátengdur því að allir kaflar ræðunnar séu í réttum hlutföllum. Mestur hluti tímans ætti að fara í að flytja meginkaflann. Það er í honum sem aðalatriði kennslunnar koma fram. Inngangurinn á ekki að vera lengri en nauðsynlegt er til að ná markmiðunum þrem sem rætt er um í 38. námskafla. Meginkaflinn má ekki vera svo langur að það sé ekki tími til að ljúka ræðunni með áhrifaríkum niðurlagsorðum í samræmi við 39. námskafla.
Leggðu þig fram um að halda þig nákvæmlega við úthlutaðan ræðutíma. Það skilar sér í betri ræðu og ber vott um virðingu fyrir öðrum sem eru með verkefni á samkomunni og fyrir öllum söfnuðinum.