12. KAFLI
„Er Guð óréttlátur?“
1. Hvaða áhrif hefur ranglæti á okkur?
SPARIFÉ fullorðinnar ekkju er haft af henni með svikum. Kaldlynd móðir yfirgefur hjálparvana hvítvoðung. Maður er dæmdur í fangelsi fyrir glæp sem hann framdi ekki. Hvernig er þér innanbrjósts ef þú fréttir af einhverju slíku? Líklega ertu hneykslaður og gramur og það er skiljanlegt. Við mennirnir höfum sterka tilfinningu fyrir því hvað sé rétt og rangt. Okkur rennur í skap ef við verðum vitni að óréttlæti. Við viljum að þolandinn fái bætur og gerandinn makleg málagjöld. Ef það gerist ekki spyrjum við kannski: Sér Guð ekki ranglætið? Hvers vegna gerir hann ekkert í málinu?
2. Hvernig brást Habakkuk við ranglæti og af hverju álasaði Jehóva honum ekki fyrir það?
2 Trúfastir þjónar Jehóva hafa spurt svipaðra spurninga í aldanna rás. Spámaðurinn Habakkuk sagði til dæmis í bæn til Guðs: „Af hverju læturðu mig horfa upp á illskuna og af hverju læturðu kúgun viðgangast? Af hverju er eyðilegging og ofbeldi fyrir augum mér og af hverju logar allt í deilum og átökum?“ (Habakkuk 1:3) Jehóva álasaði ekki Habakkuk fyrir einlæga fyrirspurn hans af því að það var hann sem gaf manninum réttlætisvitundina. Já, Jehóva hefur gefið okkur örlítið brot af hinni djúpstæðu réttlætiskennd sinni.
Jehóva hatar ranglæti
3. Af hverju má segja að Jehóva viti betur af ranglætinu en við?
3 Jehóva er ekki blindur fyrir ranglætinu. Hann sér hvað fram fer. Biblían segir varðandi daga Nóa: „Jehóva sá nú að illska mannsins var mikil á jörðinni og að hugur hans og hjarta hneigðist stöðugt að því sem var illt.“ (1. Mósebók 6:5) Hugleiddu hvað felst í þessum orðum. Vitund okkar um ranglætið byggist oft á fáeinum atvikum sem við höfum annaðhvort heyrt um eða kynnst af eigin raun. Jehóva veit hins vegar af því ranglæti sem á sér stað um allan heim. Hann horfir upp á það allt! Og auk þess getur hann séð hvað býr í hjörtum mannanna – hinar spilltu hugsanir að baki ranglætisverkunum. – Jeremía 17:10.
4, 5. (a) Hvernig sýnir Biblían að Jehóva er annt um þá sem sæta ranglæti? (b) Hvernig hefur óréttlætið snortið Jehóva sjálfan?
4 En Jehóva tekur ekki bara eftir ranglætinu. Honum er líka mjög annt um þá sem verða fyrir barðinu á því. Þegar óvinir fóru illa með þjóð hans kenndi Jehóva í brjósti um þjóna sína „þegar þeir kveinuðu undan þeim sem kúguðu þá og fóru illa með þá“. (Dómarabókin 2:18) Þú hefur kannski veitt því eftirtekt að sumir verða ónæmir fyrir ranglætinu ef þeir horfa of mikið á það. En Jehóva er ekki þannig. Hann hefur horft upp á allt ranglætið í heil 6.000 ár og hatar það ekki síður en í upphafi. Biblían fullvissar okkur um að hann hafi andstyggð á ‚lyginni tungu, höndum sem úthella saklausu blóði og ljúgvotti sem lýgur um leið og hann opnar munninn‘. – Orðskviðirnir 6:16–19.
5 Jehóva talaði enga tæpitungu þegar hann sagði ranglátum leiðtogum Ísraels til syndanna. Hann lét innblásinn spámann sinn spyrja þá: „Ættuð þið ekki að vita hvað er rétt?“ Eftir að hafa lýst valdníðslu þessara spilltu manna með sterku myndmáli boðaði Jehóva hvernig færi fyrir þeim: „Á þeim tíma munu menn kalla á hjálp Jehóva en hann svarar þeim ekki. Hann hylur andlitið fyrir þeim vegna illskuverka þeirra.“ (Míka 3:1–4) Já, Jehóva hefur megna óbeit á ranglæti! Reyndar hefur hann sjálfur orðið fyrir barðinu á því. Satan hefur smánað hann og ögrað honum um þúsundir ára. (Orðskviðirnir 27:11) Og víst var það mikið ranglætisverk þegar sonur hans, sem „syndgaði aldrei“, var tekinn af lífi eins og ótíndur glæpamaður, og það snerti hann djúpt. (1. Pétursbréf 2:22; Jesaja 53:9) Ljóst er að Jehóva er ekki blindur á neyð þeirra sem sæta óréttlæti, og honum stendur alls ekki á sama.
6. Hver eru viðbrögð okkar þegar við horfum upp á ranglæti og hvers vegna?
6 En þegar við horfum upp á ranglæti eða verðum sjálf fyrir barðinu á því er ofur eðlilegt að bregðast hart við. Við erum sköpuð eftir mynd Guðs og ranglæti gengur algerlega í berhögg við allt sem Jehóva er kært. (1. Mósebók 1:27) Hvers vegna leyfir Guð þá ranglætið?
Deilan mikilvæga
7. Hvernig var nafn Jehóva rægt og stjórnarhættir hans véfengdir?
7 Svarið við þessari spurningu er tengt mikilvægri deilu. Eins og fram hefur komið hefur skaparinn rétt til að ráða yfir jörðinni og öllum sem á henni búa. (Sálmur 24:1; Opinberunarbókin 4:11) En snemma í sögu mannsins var nafn Jehóva rægt og stjórnarhættir hans véfengdir. Hvernig bar það til? Jehóva sagði fyrsta manninum, Adam, að hann ætti ekki að borða af ákveðnu tré í paradísargarðinum þar sem hann bjó. Ef hann óhlýðnaðist myndi hann deyja. (1. Mósebók 2:17) Það var engin byrði fyrir Adam og Evu, konu hans, að virða þetta bann. Satan tókst hins vegar að sannfæra Evu um að Guð væri að takmarka frelsi hennar að óþörfu. Hvað myndi gerast ef hún borðaði ávöxt trésins? Satan sagði henni berum orðum: „Þið munuð ekki deyja, svo mikið er víst. En Guð veit að sama dag og þið borðið af honum munu augu ykkar opnast og þið verðið eins og Guð og vitið hvað er gott og illt.“ – 1. Mósebók 3:1–5.
8. (a) Að hverju ýjaði Satan við Evu? (b) Hvað véfengdi Satan í sambandi við nafn Guðs og drottinvald?
8 Með þessum orðum ýjaði Satan að því að Jehóva hefði neitað Evu um mikilvægar upplýsingar og hreinlega logið að henni. Freistarinn fékk Evu til að efast um það hvers konar persóna stæði á bak við nafnið Jehóva. Þannig smánaði Satan nafn Guðs. Hann réðst líka á drottinvald Jehóva, eða stjórnarhætti hans. Hann gætti þess að véfengja ekki þá staðreynd að Guð fer með drottinvaldið yfir alheiminum. Hins vegar véfengdi hann að Guð hefði þetta vald með réttu, að hann verðskuldaði það og færi rétt með það. Með öðrum orðum hélt hann því fram að Jehóva beitti ekki valdi sínu á réttlátan hátt og léti sér ekki annt um hag þegna sinna.
9. (a) Hvaða afleiðingar hafði óhlýðnin fyrir Adam og Evu og hvaða alvarlegu spurningar vöknuðu? (b) Af hverju útrýmdi Jehóva ekki uppreisnarseggjunum þegar í stað?
9 Bæði Adam og Eva óhlýðnuðust Jehóva og átu ávöxt af hinu forboðna tré. Með óhlýðninni kölluðu þau yfir sig dauðarefsingu, rétt eins og Guð hafði sagt þeim. En lygi Satans vakti upp ýmsar alvarlegar spurningar. Hefur Jehóva í raun og veru rétt til að stjórna mannkyninu eða ætti maðurinn að stjórna sér sjálfur? Beitir Jehóva drottinvaldi sínu eins og best verður á kosið? Jehóva hefði getað beitt almætti sínu og útrýmt uppreisnarseggjunum þegar í stað. En spurningarnar, sem kviknuðu, snerust ekki um mátt Jehóva heldur nafn hans, sem felur í sér stjórnarhætti hans. Guð hefði því ekki sýnt fram á að stjórn sín væri réttmæt og réttlát með því að útrýma Adam, Evu og Satan. Hugsanlega hefði það vakið enn fleiri spurningar um stjórn hans. Eina leiðin til að ganga úr skugga um hvort mennirnir gætu stjórnað sjálfum sér vel, óháð Guði, var sú að gefa þeim tíma til að spreyta sig.
10. Hvað hefur sagan sýnt um stjórn manna?
10 Hvað hefur tíminn leitt í ljós? Menn hafa haft árþúsundir til að prófa margs konar stjórnarform, þar á meðal einræði, lýðræði, sósíalisma og kommúnisma. Niðurstaðan kristallast í hreinskilnislegum orðum Biblíunnar: „Alla tíð hefur einn maður drottnað yfir öðrum honum til tjóns.“ (Prédikarinn 8:9) Spámaðurinn Jeremía hafði því ærna ástæðu til að skrifa: „Ég veit, Jehóva, að það er ekki mannsins að velja leið sína. Hann getur ekki einu sinni stýrt skrefum sínum á göngunni.“ – Jeremía 10:23.
11. Af hverju leyfði Jehóva mannkyninu að þjást?
11 Jehóva vissi allt frá upphafi að maðurinn myndi kalla yfir sig óheyrilegar þjáningar með sjálfstæði sínu. Var þá ranglátt af honum að láta hið óhjákvæmilega hafa sinn gang? Alls ekki. Skýrum þetta með dæmi: Segjum að þú eigir barn sem er með lífshættulegan sjúkdóm og þarf að gangast undir skurðaðgerð. Þú veist að aðgerðin hefur í för með sér vissar þjáningar fyrir barnið og þig tekur sárt að hugsa til þess. En þú veist líka að aðgerðin gerir barninu kleift að búa við betri heilsu síðar á ævinni. Guð vissi líka – og sagði það jafnvel fyrir – að mannkynið myndi kalla yfir sig sorgir og þjáningar með því að ráða sér sjálft, en leyfði það engu að síður. (1. Mósebók 3:16–19) En hann vissi líka að eina leiðin til að fá endanlega og marktæka lausn væri sú að leyfa öllu mannkyni að sjá slæmar afleiðingar uppreisnar. Þannig var hægt að útkljá deilumálið um drottinvald Guðs í eitt skipti fyrir öll.
Deilan um ráðvendni mannsins
12. Hvernig ákærir Satan mennina líkt og sýndi sig með Job?
12 Það er önnur hlið á þessu máli. Þegar Satan véfengdi að stjórn Guðs væri réttmæt og réttlát var hann ekki aðeins að rægja drottinvald Jehóva og nafn hans, heldur einnig að rægja þjóna hans og draga ráðvendni þeirra í efa. Taktu til dæmis eftir hvað Satan sagði við Jehóva um hinn réttláta Job: „Hefurðu ekki reist skjólgarð í kringum hann, hús hans og allt sem hann á? Þú hefur blessað störf hans og búfénaður hans hefur dreift sér um landið. En prófaðu að rétta út höndina og taka frá honum allt sem hann á. Þá er öruggt að hann formælir þér upp í opið geðið.“ – Jobsbók 1:10, 11.
13. Hvað gaf Satan í skyn með því að ásaka Job og hvernig snertir það alla menn?
13 Satan fullyrti að Jehóva keypti hollustu Jobs með því að vernda hann. Þar með gaf hann í skyn að ráðvendni Jobs væri tóm uppgerð því að hann tilbæði Guð aðeins af því að hann fengi það ríkulega endurgoldið. Satan fullyrti að Job myndi meira að segja formæla Guði ef Guð tæki blessun sína frá honum. Satan vissi að Job var einstaklega ‚heiðarlegur og ráðvandur, óttaðist Guð og forðaðist það sem er illt‘.a Ef honum tækist að snúa Job frá ráðvendni hans myndi það segja sína sögu um mannkynið í heild. Satan var því óbeint að véfengja hollustu allra sem vilja þjóna Guði. Og reyndar útvíkkaði hann ásökun sína þegar hann sagði við Jehóva: „Maðurinn gefur allt sem hann á fyrir líf sitt.“ – Jobsbók 1:8; 2:4.
14. Hvað hefur sagan sýnt varðandi ásakanir Satans gegn mönnunum?
14 Sagan hefur leitt í ljós að margir hafa, líkt og Job, sýnt Jehóva hollustu þrátt fyrir prófraunir – gagnstætt því sem Satan fullyrti. Þeir hafa glatt hjarta Jehóva með trúfesti sinni, þannig að hann hefur getað svarað þeirri ásökun Satans að menn hætti að þjóna honum ef þeir verða fyrir erfiðleikum. (Hebreabréfið 11:4–38) Já, hjartahreinir menn hafa neitað að snúa baki við Guði. Og þegar prófraunirnar hafa orðið hvað erfiðastar hafa þeir reitt sig algerlega á Jehóva og treyst að hann gæfi þeim styrk til að þrauka. – 2. Korintubréf 4:7–10.
15. Hvaða spurning gæti vaknað um dóma Guðs í fortíð og framtíð?
15 En réttlæti Jehóva birtist ekki aðeins í tengslum við deiluna um drottinvald hans og ráðvendni mannanna. Biblían greinir frá því hvernig hann hefur dæmt einstaka menn og jafnvel heilu þjóðirnar. Og hún inniheldur spádóma um það hvernig hann dæmir í framtíðinni. Hvers vegna getum við treyst að Jehóva hafi verið réttlátur í dómum sínum og verði það eftirleiðis?
Réttlæti Jehóva skarar fram úr
16, 17. Hvaða dæmi sýna að menn hafa takmarkaða yfirsýn þegar réttlæti er annars vegar?
16 Það má segja með sanni að ‚allir vegir Jehóva séu réttlátir‘. (5. Mósebók 32:4) Enginn getur sagt slíkt um sjálfan sig því að yfirsýn okkar er svo takmörkuð að oft gerum við okkur ekki grein fyrir því hvað er rétt. Tökum Abraham sem dæmi. Hann sárbændi Jehóva um að þyrma Sódómu þó að illska borgarbúa væri yfirgengileg. Hann spurði Jehóva: „Ætlarðu að eyða hinum réttlátu með hinum vondu?“ (1. Mósebók 18:23–33) Svarið var auðvitað nei. Það var ekki fyrr en hinn réttláti Lot og dætur hans voru óhult í borginni Sóar sem Jehóva lét „rigna eldi og brennisteini yfir Sódómu“. (1. Mósebók 19:22–24) Jónas aftur á móti „varð fokreiður“ þegar Guð sýndi Nínívemönnum miskunn. Jónas var búinn að boða borgarbúum eyðingu og var því meira en sáttur við að sjá þá tortímast – þó að þeir sýndu einlæga iðrun. – Jónas 3:10–4:1.
17 Jehóva fullvissaði Abraham um að réttvísi sín birtist ekki einungis í því að hann eyddi óguðlegum heldur einnig í því að hann bjargaði réttlátum. Jónas þurfti hins vegar að láta sér lærast að Jehóva er miskunnsamur. Hann er „fús til að fyrirgefa“ óguðlegum ef þeir breyta um stefnu. (Sálmur 86:5) Jehóva er ekki eins og menn sem óttast um stöðu sína. Hann fullnægir ekki dómi til þess eins að lýsa yfir valdi sínu, og hann veigrar sér ekki við að sýna meðaumkun af ótta við að hann verði álitinn veiklundaður. Hann sýnir miskunn hvenær sem tilefni er til. – Jesaja 55:7; Esekíel 18:23.
18. Notaðu Biblíuna til að sýna fram á að Jehóva lætur ekki stjórnast af tilfinningasemi.
18 En Jehóva er samt ekki blindaður af tilfinningasemi. Þegar þjóð hans var djúpt sokkin í falsguðadýrkun sagði hann með festu: „Ég dæmi þig eftir hegðun þinni og læt þig svara til saka fyrir öll þín viðbjóðslegu verk. Ég mun ekki vorkenna þér né sýna meðaumkun. Ég læt þig súpa seyðið af hegðun þinni.“ (Esekíel 7:3, 4) Ef mennirnir eru forhertir dæmir Jehóva þá samkvæmt því. En dómur hans er byggður á staðreyndum. Þegar ópin yfir Sódómu og Gómorru náði eyrum hans sagði hann: „Ég ætla að stíga niður til að kanna hvort íbúarnir séu eins vondir og ópin gefa til kynna.“ (1. Mósebók 18:20, 21) Við megum vera þakklát fyrir að Jehóva er ekki eins og margir menn sem dæma í fljótfærni áður en þeir hafa heyrt alla málavexti. Jehóva er „trúfastur Guð sem er aldrei ranglátur,“ eins og Biblían lýsir honum. – 5. Mósebók 32:4.
Treystu á réttlæti Jehóva
19. Hvað getum við gert ef dómar Jehóva valda okkur heilabrotum?
19 Biblían svarar ekki öllum spurningum um verk Jehóva forðum daga, og hún lýsir ekki í smáatriðum hvernig hann dæmir einstaka menn og hópa í framtíðinni. Ef frásögn eða spádómur í Biblíunni veldur okkur heilabrotum af því að slík smáatriði vantar getum við sýnt sömu hollustu og spámaðurinn Míka sem skrifaði: „Ég ætla að bíða þolinmóður eftir Guði, frelsara mínum.“ – Míka 7:7.
20, 21. Hvers vegna getum við treyst að Jehóva geri alltaf rétt?
20 Við megum treysta því að Jehóva gerir alltaf rétt undir öllum kringumstæðum. Jafnvel þó að menn virðist hunsa ranglætið lofar Jehóva: „Mín er hefndin, ég mun endurgjalda.“ (Rómverjabréfið 12:19) Ef við sýnum biðlund getum við endurómað sannfæringu Páls postula sem sagði: „Er Guð óréttlátur? Auðvitað ekki.“ – Rómverjabréfið 9:14.
21 Við lifum á ‚hættulegum og erfiðum tímum‘. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Ranglæti og „kúgun“ hefur valdið ómældum kvölum. (Prédikarinn 4:1) En Jehóva hefur ekki breytt sér. Hann hatar ranglætið enn sem fyrr og lætur sér mjög annt um þá sem verða fyrir barðinu á því. Ef við sýnum Jehóva hollustu og styðjum drottinvald hans gefur hann okkur styrk til að halda út uns ríki hans tekur völd og bætir úr öllu óréttlæti. – 1. Pétursbréf 5:6, 7.
a „Hann á engan sinn líka á jörðinni,“ sagði Jehóva um Job. (Jobsbók 1:8) Líklegt er því að hann hafi verið uppi eftir að Jósef var dáinn en áður en Móse var skipaður leiðtogi Ísraels. Á þeim tíma mátti því segja að enginn maður væri eins ráðvandur og Job.