Það sem foreldrar þurfa að veita börnunum
AÐ EIGNAST barn er einstök lífsreynsla og að mörgu leyti ofar mannlegum skilningi. Karl og kona gefa bæði hluta af sjálfu sér sem síðan þroskast í kviði móðurinnar og verður fullskapaður lifandi einstaklingur. Það er skiljanlegt að margir segi barnsfæðingu vera kraftaverk.
Fæðing barns er auðvitað bara upphafið að því kerfjandi verkefni sem bíður foreldranna. Í fyrstu eru börnin næstum algerlega háð því að foreldrarnir sinni líkamlegum þörfum þeirra en þegar þau vaxa þarf að sinna fleiru en líkamsþörfunum. Foreldrarnir verða að stuðla að hugarfarslegum, tilfinningalegum, siðferðilegum og andlegum þroska þeirra.
Til að börn þroskist og verði heilbrigðir einstaklingar þurfa þau að finna að þau séu elskuð. Foreldrarnir þurfa að segja börnunum að þeir elski þau og sýna það í verki. Já, foreldrar verða að vera góð fyrirmynd. En börn þurfa einnig að fá siðferðilega leiðsögn, þau þurfa að læra góð lífsgildi. Þetta er nauðsynlegt frá blautu barnsbeini. Ef börnin fá þessa aðstoð of seint getur farið mjög illa eins og oft hefur sannast.
Hvergi er betri meginreglur að finna en í Biblíunni. Leiðbeiningar, byggðar á henni, skara fram úr. Þegar börnin fá slíkar leiðbeiningar sjá þau smám saman að þær koma ekki frá mönnum heldur skapara þeirra og föður á himnum. Þetta gefur ráðleggingum foreldranna óviðjafnanlegt vægi.
Biblían hvetur foreldra til að leggja hart að sér við að brýna réttar meginreglur fyrir börnunum. En þegar börn stækka finnst foreldrum oft erfitt að tala við þau um það sem mestu máli skiptir. Þessi bók, Lærum af kennaranum mikla, er samin til að hjálpa foreldrum að koma í veg fyrir að þetta gerist. Hún gefur foreldrum og börnum tækifæri til að lesa saman andlega uppbyggjandi efni. Hún ætti líka að skapa umræður milli barnanna og þeirra sem lesa bókina með þeim.
Þú tekur eftir að í bókinni eru börnin hvött til að tjá sig. Í textanum eru margar spurningar. Þegar þú kemur að spurningu sérðu þankastrik (—). Þetta minnir lesandann á að stoppa og hvetja barnið til að segja skoðun sína. Börn vilja vera þátttakendur. Þau missa fljótt áhugann ef þau eru aðeins áheyrendur.
Það sem meira er, þessar spurningar draga fram hvað barnið er að hugsa. Auðvitað getur barnið gefið rangt svar en textinn sem kemur á eftir spurningunum hjálpar barninu að þroska með sér heilbrigðan hugsunarhátt.
Í bókinni eru yfir 230 myndir. Við flestar þeirra eru myndatextar sem hvetja barnið til að tjá sig um myndina og lesefnið. Skoðaðu því myndirnar með barninu. Þær geta verið gott hjálpargagn sem herðir á kennslunni.
Þegar barnið lærir að lesa skaltu hvetja það til að lesa bókina bæði fyrir þig og í einrúmi. Því meira sem barnið les, þeim mun betur festist lærdómurinn í huga þess og hjarta. En þið ættuð líka að lesa bókina saman og gera það reglulega. Það styrkir kærleikann og virðinguna milli ykkar.
Áður hefði þótt óhugsandi að kynferðislegu siðleysi, spíritisma og öðrum ósóma væri ausið yfir börnin í þeim mæli sem nú er gert. Þau þurfa vernd. Þessi bók stuðlar að henni með virðulegum og smekklegum hætti. En fyrst og fremst þarf að leiða börnin til Jehóva Guðs, föður okkar á himnum, sem er uppspretta allrar visku. Jesús, kennarinn mikli, gerði það alltaf. Við vonum innilega að þessi bók hjálpi þér og fjölskyldu þinni að stefna lífi ykkar í þann farveg að þið þóknist Jehóva og hljótið eilífa blessun.