10. KAFLI
„Orð Jehóva hélt áfram að eflast“
Pétri er bjargað úr fangelsi og ofsóknir megna ekki að stöðva framgang fagnaðarboðskaparins
Byggt á Postulasögunni 12:1–25
1–4. Í hvaða erfiðu stöðu er Pétur og hvernig myndi þér líða ef þú værir í hans sporum?
JÁRNHLIÐIÐ skellur í lás að baki Pétri. Hann er hlekkjaður milli tveggja rómverskra varðmanna og leiddur inn í fangaklefa. Tíminn silast áfram. Klukkutímar líða, jafnvel dagar, áður en hann veit hvað verður um hann. Það eina sem hann sér eru veggirnir, rimlarnir, hlekkirnir og verðirnir.
2 Pétur fær bráðlega slæmar fréttir. Heródes Agrippa fyrsti er ákveðinn í að taka hann af lífi.a Heródes ætlar að leiða hann fyrir fólkið eftir páska og gleðja það með því að dæma hann til dauða. Þessi hótun er ekki orðin tóm. Það er stutt síðan Agrippa lét taka Jakob postula, vin Péturs, af lífi.
3 Nú er komið kvöld og daginn eftir á að lífláta Pétur. Hvað ætli hann sé að hugsa í dimmum fangaklefanum? Ætli hann muni eftir því sem Jesús hafði sagt nokkrum árum áður, að sú stund kæmi að hann yrði bundinn, leiddur þangað sem hann vildi ekki og tekinn af lífi? (Jóh. 21:18, 19) Ætli Pétur hafi hugsað að nú væri komið að því?
4 Hvernig væri þér innanbrjósts ef þú stæðir í sömu sporum og Pétur? Margir myndu örvænta og hugsa sem svo að öll von væri úti. En er nokkur staða algerlega vonlaus þegar fylgjandi Jesú Krists á í hlut? Hvernig brugðust Pétur og aðrir lærisveinar Krists við ofsóknunum sem þeir urðu fyrir og hvað getum við lært af þeim? Skoðum málið.
„Söfnuðurinn bað ákaft til Guðs“ (Post. 12:1–5)
5, 6. (a) Hvers vegna réðst Heródes Agrippa fyrsti á kristna söfnuðinn og hvernig? (b) Af hverju var það mikið áfall fyrir söfnuðinn að missa Jakob?
5 Eins og við lærðum í kaflanum á undan voru trúskipti Kornelíusar og fjölskyldu hans spennandi tímamót fyrir kristna söfnuðinn. En Gyðingar sem höfðu ekki tekið kristna trú hljóta að hafa verið hneykslaðir því að margir kristnir Gyðingar tilbáðu nú Guð með fólki af þjóðunum.
6 Heródes var slunginn stjórnmálamaður. Hann sá nú tilvalið tækifæri til að koma sér í mjúkinn hjá Gyðingum og lagði því til atlögu við kristna söfnuðinn. Sennilega hafði hann heyrt að Jakob postuli hefði verið mjög náinn Jesú Kristi. Hann lét því „taka Jakob bróður Jóhannesar af lífi með sverði“. (Post. 12:2) Þetta var mikið áfall fyrir söfnuðinn. Jakob var einn hinna þriggja sem höfðu orðið vitni að ummyndun Jesú og öðrum kraftaverkum sem hinir postularnir höfðu ekki séð. (Matt. 17:1, 2; Mark. 5:37–42) Jesús hafði kallað Jakob og Jóhannes bróður hans ‚þrumusyni‘ vegna þess hve ákafir þeir voru að eðlisfari. (Mark. 3:17) Söfnuðurinn missti þarna hugrakkan og trúfastan boðbera og elskaðan postula.
7, 8. Hvernig brást söfnuðurinn við því að Pétur var fangelsaður?
7 Gyðingar voru hæstánægðir með aftöku Jakobs eins og Agrippa hafði vonast til. Það var honum hvatning til að handtaka Pétur og eins og lýst var í byrjun kaflans lét hann varpa honum í fangelsi. En eins og við lásum í 5. kafla bókarinnar höfðu fangelsi ekki alltaf dugað til að halda postulunum í skefjum. Agrippa vissi þetta eflaust og vildi því ekki taka neina áhættu. Hann lét hlekkja Pétur við tvo verði og 16 verðir skiptust á að gæta hans dag og nótt til að tryggja að hann slyppi ekki. Annars myndu verðirnir hljóta sömu örlög og Pétri voru ætluð. Hvað gátu trúsystkini Péturs gert við þessar ömurlegu aðstæður?
8 Söfnuðurinn var ekki í nokkrum vafa hvað hann ætti að gera. Í Postulasögunni 12:5 segir: „Söfnuðurinn bað ákaft til Guðs fyrir Pétri meðan hann sat í fangelsinu.“ Já, söfnuðurinn bað heitt og innilega fyrir ástkærum bróður sínum. Trúsystkini Péturs örvæntu ekki og voru ekki hætt að trúa á mátt bænarinnar þótt Jakob hefði verið tekinn af lífi. Bænir eru mikils virði í augum Jehóva. Hann svarar þeim þegar þær samræmast vilja hans. (Hebr. 13:18, 19; Jak. 5:16) Við getum dregið mikilvægan lærdóm af þessu.
9. Hvað getum við lært um bænina af trúsystkinum Péturs?
9 Veistu af einhverjum í söfnuðinum sem eiga mjög erfitt? Kannski hafa þau þurft að þola ofsóknir, náttúruhamfarir eða bann af hálfu stjórnvalda. Hvers vegna ekki að biðja innilega fyrir þeim? Kannski veistu líka um einhvern sem er að ganga í gegnum erfiðleika sem eru ekki eins áberandi, eins og vandamál í fjölskyldunni, vanlíðan eða eitthvað annað sem reynir á trúna. Ef þú hugsar málið vel áður en þú biður koma kannski nokkur nöfn upp í hugann sem þú getur nefnt þegar þú talar við Jehóva, hann „sem heyrir bænir“. (Sálm. 65:2) Þú þarft líka á því að halda að bræður og systur biðji fyrir þér þegar þú lendir í erfiðleikum.
„Fylgdu mér“ (Post. 12:6–11)
10, 11. Lýstu því hvernig engill Jehóva frelsaði Pétur úr fangelsi.
10 Óttaðist Pétur það sem beið hans? Við getum ekkert fullyrt um það. En við vitum þó að hann steinsvaf þessa síðustu nótt milli varðanna tveggja sem gættu hans. Hann vissi að Jehóva myndi muna eftir trúfesti hans sama hvað morgundagurinn bæri í skauti sér. (Rómv. 14:7, 8) En hvað sem því líður óraði hann ekki fyrir þeirri ótrúlegu atburðarás sem átti eftir að eiga sér stað. Allt í einu skein skært ljós í klefanum. Engill stóð hjá Pétri og vakti hann í flýti en verðirnir urðu greinilega ekki varir við neitt. Og hlekkirnir – sem virtist ómögulegt að losna úr – féllu einfaldlega af höndum hans.
11 Engillinn gaf Pétri nokkrar stuttar skipanir: „Flýttu þér á fætur … Klæddu þig og farðu í sandalana … Farðu í yfirhöfnina.“ Pétur hlýddi strax. Að lokum sagði engillinn: „Fylgdu mér,“ og það gerði hann. Þeir yfirgáfu klefann, gengu hljóðlega fram hjá vörðunum sem stóðu fyrir utan og í átt að rammgerðu járnhliðinu. Hvernig kæmust þeir út um það? Ef því skaut upp í hugann hjá Pétri fékk hann fljótlega svar við því. Hliðið „opnaðist af sjálfu sér“ þegar þeir nálguðust það. Áður en Pétur vissi af voru þeir komnir út um hliðið og út á götu og þá hvarf engillinn. Nú rann upp fyrir Pétri að allt þetta hafði gerst í raun og veru. Þetta var ekki bara sýn. Hann var frjáls! – Post. 12:7–11.
12. Hvers vegna getur verið hughreystandi fyrir okkur að íhuga hvernig Jehóva bjargaði Pétri?
12 Er ekki hughreystandi að íhuga að Jehóva býr yfir takmarkalausum mætti til að bjarga þjónum sínum? Pétur var fangi konungs sem naut stuðnings sterkasta ríkisvalds í sögu veraldar. Samt gekk Pétur rakleiðis út úr fangelsinu. Jehóva vinnur að vísu ekki slík kraftaverk í þágu allra þjóna sinna. Hann bjargaði ekki Jakobi og hann bjargaði ekki Pétri seinna meir þegar það rættist sem Jesús hafði sagt um postula sinn. Þjónar Guðs nú á dögum búast ekki við því að Guð bjargi þeim með kraftaverki. Við vitum þó að Jehóva hefur ekki breyst. (Mal. 3:6) Og hann mun bráðlega láta son sinn frelsa ótal milljónir úr rammgerðasta fangelsi sem til er, dauðanum. (Jóh. 5:28, 29) Loforð af þessu tagi geta fyllt okkur hugrekki þegar við stöndum frammi fyrir prófraunum.
„Þau … voru steinhissa þegar þau sáu hann“ (Post. 12:12–17)
13–15. (a) Hvernig brást söfnuðurinn sem hittist í húsi Maríu við þegar Pétur kom? (b) Að hverju beinist nú athyglin í Postulasögunni en hvaða áhrif hafði Pétur áfram á trúsystkini sín?
13 Pétur stóð á dimmri götunni og velti fyrir sér hvert hann ætti að fara. Síðan tók hann ákvörðun. Kristin kona sem hét María bjó þar í grenndinni. Hún virðist hafa verið vel stæð ekkja því að hún átti hús sem var nógu stórt til að rúma heilan söfnuð. Hún var móðir Jóhannesar Markúsar, sem er nefndur hér í fyrsta sinn í Postulasögunni, en hann varð Pétri síðar eins og sonur. (1. Pét. 5:13) Margir í söfnuðinum voru heima hjá Maríu þótt komið væri fram á nótt og báðu innilega fyrir Pétri. Þau báðu þess eflaust að Pétur yrði leystur úr haldi en bjuggust varla við að Jehóva svaraði bæninni með þeim hætti sem raunin varð.
14 Pétur bankaði á hliðið að garðinum framan við húsið. Þjónustustúlka sem hét Róda fór til dyra en það var algengt grískt nafn sem merkir ‚rós‘. Hún trúði ekki sínum eigin eyrum. Þetta var rödd Péturs! Stúlkan var svo spennt að hún gleymdi að opna hliðið, hljóp aftur inn í húsið en lét Pétur bíða úti á götu. Hún reyndi að sannfæra söfnuðinn um að Pétur stæði fyrir utan. Fólkið sagði að hún væri gengin af vitinu en hún stóð föst á sínu. Sumir sögðu að það gæti verið nokkuð til í þessu og þetta væri þá engill sem kæmi fram fyrir hönd Péturs. (Post. 12:12–15) Meðan þessu fór fram stóð Pétur fyrir utan hliðið og hélt áfram að banka þar til honum var loksins hleypt inn.
15 Menn voru steinhissa þegar þeir sáu Pétur við hliðið. (Post. 12:16) Vinir hans réðu sér ekki fyrir kæti. Hann þurfti að biðja þá að hafa hljótt til að geta sagt þeim alla söguna. Hann bað þá síðan að segja Jakobi og bræðrunum hvað hefði gerst og fór svo leiðar sinnar til að hermenn Heródesar fyndu hann ekki. Pétur hélt áfram að þjóna Jehóva á öruggari slóðum. Hann er ekki nefndur oftar í Postulasögunni nema í 15. kafla þar sem sagt er frá hvernig hann átti þátt í að leysa úr deilunni um umskurð. Eftir þetta fjallar Postulasagan fyrst og fremst um starf og ferðir Páls postula. Við getum hins vegar verið viss um að Pétur hefur styrkt trú bræðra sinna og systra hvar sem hann var niðurkominn. Það var glaður hópur sem hann kvaddi í húsi Maríu þessa nótt.
16. Af hverju getum við treyst að við munum eiga margar ánægjustundir í framtíðinni?
16 Stundum gefur Jehóva þjónum sínum meira en þeir hefðu getað ímyndað sér og það fyllir þá ólýsanlegri gleði. Trúsystkinum Péturs leið þannig þessa nótt. Og stundum líður okkur líka þannig þegar við upplifum ríkulega blessun Jehóva. (Orðskv. 10:22) Í framtíðinni sjáum við öll loforð Jehóva rætast um allan heim. Sá veruleiki sem við upplifum þá verður margfalt betri en við getum ímyndað okkur. Ef við erum Jehóva trú getum við treyst að við eigum margar gleðistundir í vændum.
„Engill Jehóva sló hann“ (Post. 12:18–25)
17, 18. Hvað varð til þess að fólkið vegsamaði Heródes?
17 Það kom Heródesi í opna skjöldu að Pétur skyldi sleppa – og það verður ekki sagt að það hafi glatt hann. Hann lét leita Péturs vandlega og yfirheyrði síðan varðmennina. Þeir voru svo „leiddir burt og þeim refsað“, sennilega teknir af lífi. (Post. 12:19) Heródesi Agrippu verður seint minnst fyrir að vera samúðarfullur eða miskunnsamur. Var þessum grimma manni einhvern tíma refsað?
18 Agrippu þótti eflaust niðurlægjandi að Pétur skyldi komast undan en hann jafnaði sig fljótlega á því. Nokkrir af óvinum hans vildu semja frið við hann og honum var eflaust mikið í mun að halda ræðu af því tilefni frammi fyrir fjölda fólks. Lúkas segir að hann hafi klæðst „konungsskrúða“ áður en hann flutti ræðuna. Sagnaritarinn Jósefus segir að skrúðklæði Heródesar hafi verið úr silfri þannig að þau ljómuðu í birtunni. Þessi sjálfumglaði stjórnmálamaður flutti síðan ræðu og fólkið hrópaði smjaðurslega: „Þetta er rödd guðs en ekki manns!“ – Post. 12:20–22.
19, 20. (a) Af hverju refsaði Jehóva Heródesi? (b) Hvers vegna getur frásagan af skyndilegum dauða Heródesar verið hughreystandi fyrir okkur?
19 Enginn nema Guð á skilið slíkt lof og Guð fylgdist með. Heródes hefði getað sloppið við refsingu. Hann hefði getað ávítað mannfjöldann eða í það minnsta verið ósammála. En í staðinn er hann ljóslifandi dæmi um að ‚stolt leiði til falls‘ eins og orðskviðurinn segir. (Orðskv. 16:18) „Engill Jehóva sló hann samstundis“ og þessi sjálfumglaði hrokagikkur hlaut ömurleg endalok. „Hann var étinn upp af ormum og dó.“ (Post. 12:23) Jósefus nefnir líka að Agrippa hafi veikst skyndilega og bætir við að konungur hafi komist að þeirri niðurstöðu að hann lægi fyrir dauðanum af því að hann leyfði fólkinu að skjalla sig. Jósefus segir að Agrippa hafi dáið eftir fimm daga sjúkralegu.b
20 Stundum virðist guðlaust fólk komast upp með alls konar mannvonsku. Það kemur ekki á óvart því að „allur heimurinn er á valdi hins vonda“. (1. Jóh. 5:19) Það reynir samt á trúa þjóna Guðs að horfa upp á að hinir illu virðast sleppa við refsingu. Þess vegna eru frásögur af þessu tagi hughreystandi. Þær minna á að Jehóva elskar réttlætið og lætur til sín taka. (Sálm. 33:5) Fyrr eða síðar gengur réttlæti hans með sigur af hólmi.
21. Hvað má helst læra af 12. kafla Postulasögunnar og hvers vegna er það hughreystandi?
21 Það er þó enn mikilvægari lærdómur sem draga má af þessari frásögu. Kaflanum lýkur með þessum orðum: „Orð Jehóva hélt áfram að eflast og breiðast út.“ (Post. 12:24) Þessi jákvæða lýsing á framgangi boðunarinnar minnir á hvernig Jehóva hefur blessað boðunina nú á dögum. Ljóst er að 12. kafli Postulasögunnar fjallar ekki fyrst og fremst um að einn postuli deyr og annar kemst undan. Hann lýsir hvernig Jehóva kemur í veg fyrir að Satan takist að útrýma kristna söfnuðinum og stöðva boðunina. Árásir Satans mistókust og þannig fer fyrir öllum tilraunum af því tagi. (Jes. 54:17) Þeir sem taka afstöðu með Jehóva og Jesú Kristi vinna hins vegar að verki sem enginn getur stöðvað. Er ekki hvetjandi að hugsa til þess? Það er mikill heiður að fá að taka þátt í að útbreiða „orð Jehóva“ nú á dögum.
a Sjá rammann „Heródes Agrippa konungur fyrsti“.
b Læknir skrifar að sjúkdómseinkennin sem Jósefus og Lúkas lýsa gætu hafa stafað af þráðormum sem hafi myndað banvæna garnastíflu. Stundum æla menn þráðormum eða þeir skríða út úr sjúklingnum þegar hann deyr. Í heimildarriti segir: „Lúkas var læknir og lýsir nákvæmlega hvað gerðist og hve hræðilegur dauðdagi Heródesar var.“