Foreldrar — hvernig getið þið byggt upp fjölskyldu ykkar?
„Fyrir speki verður hús reist, og fyrir hyggni verður það staðfast.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 24:3.
1. Nefnið eina forsendu fyrir því að fjölskylda geti verið sterk.
Í SKOÐANAKÖNNUN, sem gerð var fyrir nokkru, voru yfir 550 fjölskylduráðgjafar spurðir hvaða eiginleikar væru algengastir hjá traustum fjölskyldum. Langoftast voru nefndar samræður og skoðanaskipti og það að hlusta. Sá sem gekkst fyrir könnuninni, Dolores Curran, skýrir hvers vegna: „Það er orkugjafinn sem kemur fólki til að sýna umhyggju, gefa, deila hvert með öðru. Án þess að hlusta af athygli og gefa af sjálfum okkur getum við ekki þekkt hvert annað. Þá verðum við bara einstaklingar sem búa undir sama þaki, veita athygli þörfum hvers annars en gera ekkert til að fullnægja þeim.“ Já, opinská tjáskipti eru lífæð sterkrar fjölskyldu.
2, 3. (a) Hvaða vandamál getur komið upp jafnvel á kristnu heimili? (b) Hvað getur, samkvæmt Orðskviðunum 24:3, 4, hjálpað fjölskyldunni að byggja upp sterka einingu? (c) Hvaða spurningar þarfnast svara?
2 Ef náin tengsl vantar innan fjölskyldunnar getur það haft stórskaðlegar afleiðingar. Eitt af útibúum Biblíufélagsins Varðturninn í Afríku var að því spurt hvers vegna sum kristin ungmenni sneru baki við siðferði Biblíunnar. „Veigamesta orsök þessa vanda er sú að foreldrar hlusta ekki vel á börnin sín og geta því ekki rökrætt við þau,“ var svarað. „Allt of margir foreldrar eiga ekki náið trúnaðarsamband við börnin sín.“ Að sjálfsögðu er þetta aðeins ein hlið vandans — þótt mikilvæg sé. Hlýðni og guðrækni unglinganna sjálfra, eins og raunar allra annarra, er enn veigameiri. (Rómverjabréfið 14:12; 1. Tímóteusarbréf 6:6) Hyggilegt er að hugleiða það sem stendur í Orðskviðunum 24:3, 4: „Fyrir speki verður hús reist, og fyrir hyggni verður það staðfast, fyrir þekking fyllast forðabúrin alls konar dýrum og yndislegum fjármunum.“
3 Hvernig getið þið foreldrarnir sýnt visku, góða dómgreind og þekkingu til að byggja upp hið nána tilfinningasamband við börnin, einkum þó á gelgjuskeiði? Hvernig getið þið forðast að spilla óafvitandi fyrir samræðum og skoðanaskiptum? (Samanber Orðskviðina 14:1, 12.) Framar öllu öðru — hvernig getið þið byggt upp fjölskyldu sem er staðföst í sannri guðsdýrkun? Það eð svo margt krefst tíma ykkar og athygli vitið þið kannski tæplega hvar þið eigið að byrja. Fyrsti eiginleikinn, viska, getur hjálpað ykkur að komast að niðurstöðu um rétta forgangsröð.
Viturleg forgangsröð
4. Hvað ætti kristin fjölskylda að telja langmikilvægast?
4 „Upphaf speki er ótti [Jehóva],“ skrifaði sálmaritarinn. (Sálmur 111:10) Heilnæmur ótti þinn við að misþóknast Guði er nauðsynlegur, ásamt því að láta tilbeiðsluna á honum ganga fyrir öðru. Móðir skýrir svo frá því hvernig þeim hjónum tókst vel til við uppeldi tveggja sona sinna í þjónustu Jehóva: „Við fylltum líf okkar sannleikanum — sóttum öll mótin, undirbjuggum okkur fyrir og sóttum samkomurnar og létum þjónustuna á akrinum vera fastan þátt í lífi okkar.“ Maðurinn hennar bætir við: „Sannleikurinn er ekki hluti af lífi okkar; hann er lífið sjálft. Allt annað snýst um hann.“ Lætur þú líka tilbeiðsluna á Jehóva hafa mestan forgang í þinni fjölskyldu?
5. Hvers vegna þurfa kristnir foreldrar að gæta jafnvægis?
5 Sameiginleg þátttaka fjölskyldunnar í þjónustunni á akrinum eflir tengsl hennar. Hinar sérstöku þarfir barnanna útheimta þó að foreldrarnir helgi þeim hluta af frítíma sínum, kröftum og tilfinningum. Þið foreldrarnir þurfið því að gæta jafnvægis þegar þið ákveðið hve mikinn tíma þið getið notað í þágu boðunarstarfsins og safnaðarins án þess að vanrækja andlegar, tilfinningalegar og efnislegar þarfir fjölskyldunnar. Þið þurfið „fyrst og fremst að sýna rækt eigin heimili.“ (1. Tímóteusarbréf 5:4, 8) Til að hjálpa sérstaklega feðrum að finna jafnvægið milli þeirra skyldna sem lúta að fjölskyldu annars vegar og þjónustu hins vegar sagði Varðturninn (ensk útgáfa) þann 15. september 1959: „Við skulum sinna þörfum okkar eigin fjölskyldna nægilega vel. Víst er að Jehóva Guð ætlast ekki til að maður noti allan sinn tíma í þágu safnaðarins, í að hjálpa bræðrum sínum og nágrönnum að öðlast hjálpræði, en gefi ekki gaum að hjálpræði sinnar eigin fjölskyldu. Maður ber fyrst og fremst ábyrgð á konu sinni og börnum.“
6. Hvaða hættu verða foreldrar að varast og hvernig geta þeir það?
6 Það eitt hversu mikinn tíma þú notar með börnunum ræður ekki öllu um hvernig þú rækir þessa ábyrgð, heldur hitt að þú notir sem best þann tíma. Því miður hafa sumir foreldrar gert sig svo upptekna af starfi í þágu safnaðarins, því að afla efnislegra gæða eða af atvinnu sem krefst framtaks og áræðni, að hugur þeirra er víðs fjarri jafnvel þegar þeir eru með börnum sínum. Aðeins eftir að harmleikur hefur orðið í fjölskyldunni gera þeir sér ljóst að þeir þurfi að endurmeta forgangsröð hlutanna. „Sú speki, sem að ofan er, hún er . . . ljúfleg, sáttgjörn.“ (Jakobsbréfið 3:17) Slík viska af himnum ofan hjálpar þér að deila niður tíma þínum og tilfinningum svo að þú hlýðir öllum boðum Jehóva.
Vöndur og umvöndun veita speki
7. Hvernig má fylgja leiðbeiningum Orðskviðanna 29:15?
7 Ef þú sýnir festu ásamt góðvild þar sem réttar meginreglur eiga í hlut, segir það börnum þínum að þér sé annt um þau. Undanlátsemi gerir börn og unglinga bæði óörugg og afbrotahneigð. „Vöndur og umvöndun veita speki.“ (Orðskviðirnir 29:15; 22:15) Til að hafa góð áhrif þarf að beita ‚vendi og umvöndun‘ með kærleika. Agi, sem er ósanngjarn eða beitt er í augnabliksreiði, getur brotið niður viljaþrek barns. „Þér feður, verið ekki vondir við börn yðar, svo að þau verði ekki ístöðulaus.“ (Kólossubréfið 3:21) „Vöndur“ agans felur í sér viðeigandi refsingu, en gerir þú ósanngjarnar kröfur, sért óhóflega gagnrýninn og auðmýkir barnið er það misnotkun þessa ‚vandar‘ sem getur brotið niður traust barnsins bæði til sjálfs sín og þín. Það getur ‚orðið ístöðulaust.‘
8. Útskýrðu hvers vegna „umvöndun“ er meira en hirting.
8 En bæði „vöndur og umvöndun“ eru nauðsynleg. Umvöndun er meira en hirting; hún felur í sér að lagðar séu fram staðreyndir til að sannfæra annan mann.a Hebreska orðið, sem þýtt er ‚umvöndun,“ má líka þýða „andmæli.“ (Sálmur 38:15) Það að veita raunverulega umvöndun felur því í sér að vera bæði fús til og fær um að leggja fram staðreyndir til að barnið geti séð ástæðurnar fyrir því sem þú gerir. Rit Varðturnsfélagsins hafa að geyma efni — sumt samið sérstaklega fyrir börn og unglinga — sem getur hjálpað þér að leggja fyrir barn þitt sannfærandi rök fyrir því að ákveðin breytni sé röng. Notar þú þetta efni til fulls?
Góð dómgreind skapar samúðarskilning
9. Hvað er dómgreind og hvers vegna er hún þýðingarmikill eiginleiki?
9 Góð dómgreind er líka nauðsynlegur eiginleiki í samræðum og skoðanaskiptum. Hebreska orðið er komið af rót sem merkir „að greina milli,“ „gera greinarmun á.“ Góð dómgreind hjálpar okkur að skyggnast undir yfirborðið og er því tengd skilningi, samúð og hluttekningu. — 1. Pétursbréf 3:8.
10. Sýnið með dæmi úr Biblíunni hvernig komist var hjá átökum með því að skyggnast undir yfirborðið.
10 Í Jósúabók 22:9-34 er að finna dæmi sem sýnir hversu verðmæt góð dómgreind er. Ættkvíslir Rúbens og Gaðs og hálf Mannasseættkvísl, sem fengu erfðaland austanmegin Jórdanar, reistu gríðarstórt altari á landi sínu. Hinar ættkvíslirnar álitu þetta fráhvarf frá trúnni og bjuggu sig undir að refsa fyrir það sem þær álitu brot að yfirlögðu ráði á lögum Guðs. (3. Mósebók 17:8, 9) Áður en þær létu til skarar skríða sendu þær fulltrúa sína til að tala við ættkvíslirnar tvær og hálfa. (Orðskviðirnir 13:10) Þá kom í ljós að altarið var ekki reist til að færa á fórnir heldur „af hræðslu.“ Með því að Jórdanáin skildi milli ættkvíslanna tveggja og hálfrar og hinna óttuðust þær að síðari kynslóðir misstu tengsl sín við tilbeiðsluna á Jehóva. Altarið skyldi vera þeim stöðug áminning, „til vitnis“ þess að þær væru líka þjóð Guðs. Þetta varpaði nýju ljósi á það sem virst hafði synd að yfirlögðu ráði. Góð dómgreind hjálpaði hinum ættkvíslunum að vera ‚seinar til reiði‘ og koma auga á alla málavexti svo að skilningur ríkti milli þeirra og hinna. — Orðskviðirnir 14:29.
11. Hvernig sýndi faðir nokkur góða dómgreind?
11 Reynið þið foreldrarnir að sýna góða dómgreind þegar þið eigið í erfiðleikum með börnin? Til dæmis gerðist það í kristinni fjölskyldu að einn drengjanna var ‚æfur út í heiminn‘ þegar hann kom heim úr skóla. „Hann vildi ekki segja hvers vegna hann væri svona reiður,“ segir faðirinn. „Í byrjun hélt ég að hann væri bara uppreisnargjarn, en síðan veitti ég athygli að hann þagði þegar ég spurði hann um skólann. Við áttum langt samtal og ég komst að því að krakkarnir í skólanum höfðu verið að stríða honum af því að hann var lítill eftir aldri. Eftir að hafa fullvissað hann um að ég skildi hversu erfitt þetta væri fyrir hann gaf ég honum nokkrar uppástungur um það hvernig hann skyldi bregðast við.“ Fljótlega glaðnaði yfir drengnum aftur.
12. Hvers vegna eru táningaárin flestum unglingum erfið og hvað geta foreldrarnir gert?
12 Hefðir þú verið jafnþolinmóður og þessi faðir? Börn, þó einkum táningar, geta látið atvik í skólanum, útlit sitt, kynhvöt, vinsældir og fleira hafa mikil áhrif á sig. „Af öllum þroskaskeiðum mannsins er gelgjuskeiðið langerfiðast,“ segir í tímaritinu Adolescence. „Táningunum, sjálfsgagnrýnir og óreyndir, finnst þeir hjálparvana í kappgjörnum og harðneskjulegum heimi. Þeir geta ekki sætt sig við auðmýkingu og misheppnan og bregðast því við með ákafri reiði og angist.“ Slíkt tilfinningarót getur haft áhrif á hegðun barns. (Samanber Prédikarann 7:7a.) Aðeins með því að leggja rækt við opinskáar samræður og skoðanaskipti við barn þitt getur þú skilið eðli vandans og dæmt um hvernig þú getir best hjálpað.
13. (a) Hvað getur hindrað samræður og skoðanaskipti? (b) Hvers vegna verða foreldrar stöðugt að fylgja Orðskviðunum 20:5? Lýsið með dæmi.
13 Börn og unglingar eiga oft erfitt með að koma orðum að tilfinningum sínum. Þess vegna skalt þú, þegar barnið þitt byrjar að opna sig, forðast að segja eitthvað í hugsunarleysi sem er eins og ‚spjótsstunga.‘ Segðu ekki: ‚Er þetta allt og sumt? Ég hélt að það væri eitthvað alvarlegt.‘ ‚Það sem gengur að þér er . . .‘ ‚Hvernig gast þú gert mér þetta?‘ ‚Nú, við hverju býstu?‘ ‚Þú ert nú bara barn enn þá.‘ (Orðskviðirnir 12:18) Stundum þarf að bera fram margar spurningar áður en barnið opnar sig, einkum ef vandamálið er viðkvæmt. „Hygginn maður“ er þrautseigur í viðleitni sinni að draga fram slíkar tilfinningar. (Orðskviðirnir 20:5) Kristin hjón veittu því athygli að dóttir þeirra reyndi að forðast að taka þátt í því sem fjölskyldan gerði í sameiningu. Þau spurðu hana út úr án árangurs. Þau gáfust þó ekki upp. „Loksins, dag nokkurn, sat ég með henni á rúmstokknum, tók utan um hana og spurði hana aftur hvað væri að,“ segir móðirin. „Með tárin í augunum sagði hún mér að henni fyndist við og aðrir ekki geðjast að návist sinni. Þess vegna hefði hún dregið sig í hlé eins og hún gæti. Ég var að því komin að segja: ‚Það er hreinlega fáránlegt,‘ en ég stillti mig og hlustaði á hana úthella hjarta sínu.“ Foreldrarnir fullvissuðu hana síðan um að þeim þætti afar vænt um hana og lögðu sig í líma við að láta hana finna að hún væri ein af fjölskyldunni. Hún sigraðist á þessari tilfinningu og er nú hamingjusamur þjónn orðsins í fullu starfi.
14. Hvers vegna er það ekki nóg að foreldrar og börn eigi náið tilfinninga- og trúnaðarsamband?
14 Mikilvægt er að byggja upp sterka fjölskyldueiningu, og jafnvel sumum fjölskyldum í heiminum hefur tekist það. Það er hins vegar annað að byggja upp andlega sinnaða fjölskyldu sem heldur sér fast við tilbeiðsluna á Jehóva og orð hans. Til þess þarf meira en aðeins að eiga náin tilfinningatengsl við börnin.
Lögð áhersla á þekkingu
15. Hvers konar þekking er lífsnauðsynleg og hvers vegna?
15 „Fyrir þekking fyllast forðabúrin alls konar dýrum og yndislegum fjármunum.“ (Orðskviðirnir 24:4) Þessi verðmæti eru ekki efnislegur auður heldur andlegt öryggi, fórnfús kærleikur, guðrækni, guðsótti og trú byggð á þekkingu á Guði. Allt þetta auðgar fjölskyldulífið. (Orðskviðirnir 2:5; 15:16, 17; 1. Pétursbréf 1:7) Þessi þekking byggir upp með börnunum styrk hið innra svo að þau geti staðist atlögur Satans, jafnvel þær lævísustu, því að Orðskviðirnir 24:5 segja: „Vitur maður er betri en sterkur og fróður maður betri en aflmikill.“ Þú þarft að innprenta þeim slíka þekkingu og gróðursetja í hjartanu. — 5. Mósebók 6:6, 7; 1. Jóhannesarbréf 2:14.
16. (a) Hvað er nauðsynlegt til að þekking á Guði festi rætur í hjarta barnsins? (b) Hvað er nauðsynlegt til að börnin hafi gagn af náminu?
16 Einhver besta leiðin til að innprenta börnunum orð Guðs er að halda reglulegt fjölskyldunám sem hvetur þau til að tileinka sér sannleikann. „Fjölskyldunámið skapar rétt andrúmsloft til að hugur barnanna sé móttækilegur fyrir fræðslu,“ segir fjögurra barna faðir. Hann bætir við: „Strax og byrjað er að leiðrétta börnin situr maður uppi með ‚fjandsamlega áheyrendur.‘ Ef efnið er rætt í jákvæðu andrúmslofti, eins og í fjölskyldunáminu, eru meiri líkur á að leiðbeiningarnar komist til skila.“ Til að börnin hafi gagn af náminu er þó nauðsynlegt að líkja eftir Páli postula sem skrifaði: „Ég þrái að sjá yður, til þess að ég fái veitt yður hlutdeild í andlegri náðargjöf, svo að þér styrkist.“ (Rómverjabréfið 1:11) Gjöf er sérlega vel metin þegar þiggjandinn hefur not fyrir hana og hún hefur gildi fyrir hann. Því þarf að draga fram atriði sem snerta líf barnsins.
17. (a) Hvað getur stuðlað að bæði skemmtilegu og fræðandi fjölskyldunámi? (b) Hefur þú fleiri uppástungur?
17 Foreldrarnir ættu líka að fullvissa sig um að allir í fjölskyldunni viti hvenær námið fer fram, svo og hvaða efni skal numið. Sumir nota skýringarmyndir, kort og töflur til að gæða efnið lífi. Sumir hafa einhverja gómsæta hressingu annaðhvort fyrir eða eftir námið. Að náminu loknu má ef til vill ræða einhver af vandamálum dagsins eða vikunnar. (Fleiri tillögur eru í rammanum sem fylgir greininni.) Framar öllu öðru á þetta biblíunám að vera reglulegt! Margir foreldrar hafa lagt mikið á sig til að sjá börnum sínum fyrir fæði og klæði; en það er enn mikilvægara að miðla þeim „hinni andlegu, ósviknu mjólk,“ til að þau geti „dafnað til hjálpræðis.“ — 1. Pétursbréf 2:2; Jóhannes 17:3.
18. Hvernig geta foreldrarnir ‚byggt upp‘ fjölskyldu sína?
18 Það útheimtir bæði tíma, atorku og leikni að byggja upp andlega sterka fjölskyldu. Vertu staðráðinn í að læra að tala við og skiptast á skoðunum við börnin þín til að halda nánum tilfinningatengslum við þau. Láttu ekkert koma í veg fyrir að þú takir þér þann tíma sem þarf til að styrkja fjölskyldu þína með visku, dómgreind og þekkingu. Biddu fyrir börnunum þínum og með þeim, vitandi að einungis Jehóva getur látið ‚byggingarvinnu‘ þína heppnast. — Sálmur 127:1.
[Neðanmáls]
a Samkvæmt The Hebrew and English Lexicon eftir John Parkhurst er orðið, sem þýtt er „umvöndun,“ komið af sögn sem merkir ‚að sýna greinilega, benda á út af staðreyndum, sýna fram á með augljósum eða sannfærandi rökum eða röksemdum.‘ Old Testament Word Studies eftir William Wilson þýðir sömu sögn: „Að sanna.“
Manst þú?
◻ Hvernig styrkir viska fjölskylduna og hvað getur hjálpað börnum að þroska hana?
◻ Hvers vegna stuðlar góð dómgreind að jákvæðum tjáskiptum innan fjölskyldunnar?
◻ Hvers vegna er þekking á Guði nauðsynleg?
◻ Hvernig er hægt að gera fjölskyldunám skemmtilegt og fræðandi?
[Rammi á blaðsíðu 16]
ÁRANGURSRÍKT FJÖLSKYLDUNÁM
Hvernig á að stýra náminu?
Láttu ríkja þægilegt andrúmsloft, þó þannig að náminu sé sýnd full virðing. Láttu námið ekki vera vélrænt eða formfast um of. Spyrðu aukaspurninga og notaðu dæmi og líkingar til að örva hugsun og þátttöku allra. Einfaldaðu efnið ef nauðsyn krefur. Best er að nota námstímann ekki til að skamma börnin. Nauðsynlegar ávítur má veita síðar í einrúmi.
Hvað á að nema?
Veldu efni miðað við þarfir fjölskyldunnar. Vertu sveigjanlegur. Til dæmis mætti undirbúa hið vikulega nám með hjálp Varðturnsins. Þurft getur að ræða sérstakt efni, svo sem vandamál unglinga í skólanum, hegðun gagnvart hinu kyninu, skólastarf utan námsskrár, íþróttir og ósiðlegar tilhneigingar. Notaðu greinar eða rit sem ræða þessi vandamál. Skipta má námstímanum milli mismunandi viðfangsefna.
Hvenær á að nema og hve lengi í senn?
Höfuð fjölskyldunnar getur ákveðið það eftir að hafa rætt við aðra í fjölskyldunni um hvenær þeir hafi tíma og tekið tillit til getu þeirra og takmarka. Taka ber tillit til aldurs og athyglisgáfu barnanna. Gott getur verið að hafa stuttar námsstundir nokkrum sinnum í viku ef börnin eru lítil. Sumir hafa stutt nám við matarborðið strax að máltíð lokinni. Tímalengdin er ekki meginatriðið heldur það hvernig tímanum er varið.
Hvernig getur þú tryggt að þú náir til hjartans?
Hvettu barnið til að svara með eigin orðum. Spyrðu nærgætinna spurninga til að kanna hvernig barnið hugsi um hin ýmsu mál. Þú gætir spurt: „Hvernig hugsa aðrir krakkar í skólanum um þetta? Finnst þér þeir hafa rétt fyrir sér?“ Eða, „hvernig myndir þú útskýra fyrir bekkjarfélaga hvers vegna við fremjum ekki saurlifnað? Finnst þér það í alvöru vera okkur til góðs? Hvers vegna?“ Gættu þess að bregðast ekki of harkalega við svörum barnsins. Það á að finna að það geti sagt skoðun sína hreinskilnislega. Leyfðu hverju fyrir sig að segja sína skoðun og fullvissaðu þig um að það skilji meginatriðin rétt.