Viska Guðs — kemur þú auga á hana?
REYNDU að sjá fyrir þér hirðsamkomu konungs til forna. Íklæddur konungsskikkju situr einvaldurinn í fagurlega skreyttu hásæti. Hann er víðfrægur ekki aðeins fyrir auð sinn heldur líka visku. Hirð hans er þrautþjálfuð og allt sem fyrir augu ber tignarlegt og fagurt. Konungurinn er Salómon. — 1. Konungabók 10:1-9, 18-20.
Jesús Kristur, einnig kunnur sem kennarinn mikli, sagði hins vegar: „Hví eruð þér áhyggjufullir um klæði? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra.“ — Matteus 6:28, 29.
Hvað átti Jesús við með þessu? Nú, hann var að vara áheyrendur sína við efnishyggju. En ætlaðist hann til að menn skildu orð sín um Salómon bókstaflega? Höfum í huga að Jesús notaði raunsæjar líkingar og dæmisögur. Hann átti við að hönnuðir og handverksmenn Salómons hafi ekki, þrátt fyrir snilli sína, getað náð fram slíkri list, litblöndun og formfegurð sem ‚liljur vallarins‘ í sínu náttúrlega umhverfi voru gæddar.
Viska Jehóva augljós
Þú þarft ekki að virða blómin lengi fyrir þér til að geta tekið undir orð Jesú. Við vitum ekki hvaða liljuafbrigði Jesús hafði í huga en blóm eru fjölbreytt víðast hvar á jörðinni. Virtu vandlega fyrir þér eitthvert blóm — lilju, rós eða eitthvert annað skrautblóm. Þú sérð fagra og fínofna drætti, mild eða skær litbrigði og veitir athygli hvernig bikar- og krónublöð eru samofin í ákveðið form er einkennir hverja tegund. Sérð þú þetta fagra listaverk sem þögult en sterkt sönnunargagn um tilvist mikils hönnuðar gæddan óendanlegri visku og hugmyndaauðgi? Bæði gleðjast augun við fegurð blómanna og unaðsleg angan þeirra fyllir loftið sem við öndum að okkur.
Páll postuli gat þess að ‚ósýnilegt eðli‘ Jehóva Guðs væri ‚sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það yrði skilið af verkum hans.‘ (Rómverjabréfið 1:20) En Guð skapaði meira en blóm til að klæða jörðina; hann bjó til óteljandi gerðir trjáa, runna og annarra jurta sem klæða jörðina fagurgrænni skikkju. Ef þú gætir heimsótt Humboldt-þjóðgarðinn í Kaliforníu í Bandaríkjunum gætir þú séð þar strandrisafuru sem talin er hæsta tré veraldar. Ef þú stæðir við rætur trésins og horfðir upp eftir 110 metra háum bol þess, myndir þú ekki í hljóðri lotningu lofa hann sem kunni að búa til svona tré?
Eðlislæg viska dýranna
Bæði á landi og sjó eru smá dýr og stór sem hvert á sinn veg færir okkur heim sanninn um visku Guðs. Svo virðist sem eitt og sérhvert þjóni einhverjum ákveðnum tilgangi skaparans. Hinn vitri konungur Salómon ráðlagði: „Farð þú til maursins, letingi! skoða háttu hans og verð hygginn.“ (Orðskviðirnir 6:6) Þeir sem fylgst hafa grannt með hátterni maura hafa dáðst að skipulagshæfni þeirra. Maurar búa ekki einir sér heldur í stórum samfélögum. Sumir stunda akuryrkju og safna fræjum. Í hitabeltinu eru maurar önnum kafnir við að búta í sundur laufblöð og bera í bú sín. Hvernig kunna þeir það? Agúr, einn af riturum Orðskviðanna, svarar því til að maurinn sé „vitur af eðlishvöt.“ Hver gerði hann þannig úr garði? Jehóva Guð, skapari himins og jarðar. — Orðskviðirnir 30:24, 25, NW.
Já, dýraríkið býr yfir eðlislægri visku. Hún birtist mjög vel í farflugi fuglanna. Þú kannt að hafa heyrt um farflug svölutegundar er kennd er við Capistrano. Á vissum tíma árs fljúga þær þúsundir kílómetra frá vetrarheimkynnum sínum í Suður-Ameríku til San Juan Capistrano í Bandaríkjunum. Óskeikul eðlisávísun leiðir þær á sama staðinn á sama tíma í mars ár hvert.
Um höfin sagði sálmaritarinn: „Hversu mörg eru verk þín, [Jehóva], þú gjörðir þau öll með speki, jörðin er full af því, er þú hefir skapað. Þar er hafið, mikið og vítt á alla vegu, þar er óteljandi grúi, smá dýr og stór.“ (Sálmur 104:24, 25) Allt frá smáfiskum til stórhvela birtist viska Guðs í gerð og starfi lífveranna.
Mesta sköpunarverk jarðarinnar var maðurinn sjálfur. Hér var komin fram sköpunarvera sem lét ekki aðeins innbyggða eða eðlislæga visku ráða gerðum sínum. Hann var gæddur hæfileikum til að líkjast Guði á marga vegu. Vissulega mátti segja um hann að hann væri „undursamlega skapaður.“ Við þurfum ekki að vera menntaðir í læknavísindum til að skilja það. Við getum lesið um uppgötvanir vísindamanna og komist að sömu niðurstöðu og sálmaritarinn. Handbragð skaparans er augljóst í undursamlegri gerð mannslíkamans. — Sálmur 139:14.
Himnesk viska Jehóva
Sálmur 19:2 segir að himnarnir segi frá dýrð Guðs. Þótt sálmaritarinn Davíð hefði hvorki stjörnusjónauka né rafeindatæki vakti það sem hann sá með honum djúpa lotningu. Venjulegur nútímamaður veit miklu meira en Davíð um sólkerfi okkar og vetrarbraut. Hann veit líka að til eru óteljandi aðrar stórar vetrarbrautir í ómælivíddum geimsins. Hvernig er þér innanbrjósts þegar þú íhugar visku hins mikla og óviðjafnanlega hönnuðar? Getur þú sagt með djúpri lotningu: ‚Jehóva, þú gerir „mikla hluti og órannsakanlega og dásemdarverk, er eigi verða talin“ ‘? Það ættir þú að gera. — Jobsbók 9:10.
Frá örófi alda hefur Jehóva Guð unnið að sköpunarverkum sínum, fyrst að því að skapa eingetinn son sinn og síðan aðrar andaverur. Þessu næst skapaði hann efnisheiminn. Allt var friðsælt og reglufast. Englasynir Guðs hrópuðu upp yfir sig af fögnuði við sköpun jarðarinnar. (Jobsbók 38:4-7) Maðurinn og konan voru sköpuð og sett á fagran unaðsreit, en þá gerðist nokkuð sem setti strik í reikninginn. Rödd af ósýnilegu tilverusviði talaði í gegnum höggorm og rægði hinn mikla skapara. Hún fullyrti að Jehóva Guð misbeitti drottinvaldi sínu. Hún kallaði Guð lygara. Því voru eiganda raddarinnar gefin ýmis ófögur nöfn sem lýsa eðli hans, nöfn svo sem djöfull, höggormur og Satan. Hvað gerði hinn alvitri Guð núna? Hvað gat hann gert? Nú þyrfti að koma til viska af nýrri mælivídd, enn mikilfenglegri en sú er birtist í þeim sköpunarverkum sem voru dýrð Salómons langtum fremri. — 1. Mósebók 3:1-5.
[Rammi á blaðsíðu 4]
Allt frá smáfiskum til stórhvela birtist viska Guðs í gerð og starfi lífveranna.