Láttu nákvæma þekkingu auka frið þinn
„Megi náð og friður aukast ykkur til handa með nákvæmri þekkingu á Guði og Jesú, Drottni okkar.“ — 2. PÉTURSBRÉF 1:2, NW.
1, 2. (a) Hvernig má líkja friðsömu sambandi við Guð við hjónaband? (b) Hvernig getum við eflt frið okkar við Guð?
HINU friðsama sambandi, sem þú eignast við Guð við skírnina, má að sumu leyti líkja við hjónaband. Þótt brúðkaupsdagurinn sé mikill hamingjudagur er hann aðeins upphafið að dýrmætu sambandi. Með erfiði, tíma og reynslu mun samband hjónanna verða enn innilegra, eins og hæli og skjól á erfiðum tímum. Eins getur þú, með kostgæfni og hjálp Guðs, aukið frið þinn við hann.
2 Pétur postuli útskýrði hvernig þeir sem hefðu ‚hlotið trú‘ gætu eflt frið sinn við Guð. Hann skrifaði: „Megi náð og friður aukast ykkur til handa með nákvæmri þekkingu á Guði og Jesú, Drottni okkar.“ — 2. Pétursbréf 1:1, 2, NW.
‚Nákvæm þekking á Guði‘
3. Hvað felst í nákvæmri þekkingu á Jehóva og Jesú?
3 Gríska orðið þýtt „nákvæm þekking“ (epignosis) merkir í þessu samhengi djúpa og nána þekkingu. Nota má samstofna sögn um þekkingu byggða á persónulegri reynslu og er hún í Lúkasi 1:4 þýdd „ganga úr skugga um.“ Grískufræðingurinn Culverwel segir að í hans huga feli orðið í sér að „kynnast betur því sem ég þekkti áður; að sjá betur hlut sem ég sá áður í fjarlægð.“ Það að eignast slíka ‚nákvæma þekkingu‘ merkir að kynnast Jehóva og Jesú nánar sem persónum, að kynnast betur eiginleikum þeirra.
4. Hvernig getum við aukið þekkingu okkar á Guði og hvers vegna eflir það frið okkar við hann?
4 Góðar einkanámsvenjur og regluleg samkomusókn með fólki Guðs eru tvær leiðir til að afla sér þessarar þekkingar. Á þessa tvo vegu færð þú gleggri skilning á hvernig Guð hagar sér og hugsar. Þú færð skýrari mynd af honum í huga þér. Það að þekkja Guð náið felur líka í sér að líkja eftir og endurspegla þessa mynd. Til dæmis lýsti Jehóva manni sem endurspeglaði eiginleika Guði að skapi og síðan sagði hann: „Er slíkt ekki að þekkja mig?“ (Jeremía 22:15, 16; Efesusbréfið 5:1) Það að líkja betur eftir Guði eykur frið þinn við hann vegna þess að þú íklæðist betur hinum nýja persónuleika „sem endurnýjast til fullkominnar þekkingar og verður þannig mynd skapara síns.“ Þú verður þóknanlegri Guði. — Kólossubréfið 3:10.
5. (a) Hvernig hjálpaði nákvæm þekking kristinni konu? (b) Á hvaða vegu getum við líkt betur eftir Jehóva?
5 Kristin kona að nafni Lynn átti, vegna misskilnings milli sín og annarrar kristinnar systur, erfitt með að vera fús til að fyrirgefa. Rækilegt einkanám kom henni síðan til að skoða eigin viðhorf. „Ég hugleiddi hvers konar Guð Jehóva er og hvernig hann elur ekki með sér gremju,“ játar hún. „Ég hugsaði um allt hið smáa sem við gerum Jehóva dag hvern en samt notar hann það ekki gegn okkur. Þetta ósætti mitt við kristna systur mína var svo lítið í samanburði við það. Hvenær sem ég sá hana sagði ég við sjálfa mig: ‚Jehóva elskar hana alveg eins og hann elskar mig.‘ Þetta hjálpaði mér að yfirstíga vandann.“ Sérð þú líka nauðsyn á að líkja betur eftir Jehóva á einhverjum sviðum? — Sálmur 18:36; 103:8, 9; Lúkas 6:36; Postulasagan 10:34, 35; 1. Pétursbréf 1:15, 16.
Nákvæm þekking á Kristi
6. Hvernig sýndi Jesús Kristur að prédikunarstarfið væri þýðingarmeira en allt annað hjá honum?
6 Að hafa nákvæma þekkingu á Jesú útheimtir að hafa „huga Krists“ og líkja eftir honum. (1. Korintubréf 2:16) Jesús var kappsamur boðberi sannleikans. (Jóhannes 18:37) Hann lét ekki fordóma samfélagsins hneppa trúboðsanda sinn í fjötra. Þótt aðrir Gyðingar hötuðu Samverja bar hann vitni fyrir samverskri konu við brunn. Vera má að það eitt að tala við konu á almannafæri hafi verið litið hornauga.a En Jesús lét ekki viðhorf almennings hindra sig í að bera vitni. Verk Guðs var hressandi fyrir hann. Hann sagði: „Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans.“ Sú gleði að sjá fólk taka við boðskapnum, fólk eins og samversku konuna og marga samborgara hennar, var Jesú eins og nærandi fæða. — Jóhannes 4:4-42; 8:48.
7. (a) Hvað ætti þekking á Kristi að koma okkur til að gera? (b) Ætlast Guð til að allir þjónar hans prédiki í sama mæli? Gefðu skýringu.
7 Hefur þú sama viðhorf og Jesús? Að vísu eiga sumir erfitt með að hefja samtal við ókunnan mann um Biblíuna og aðrir í byggðarlaginu kunna að líta slíkt hornauga, en ef við ætlum að hafa sama hugarfar og Jesú komumst við ekki hjá því að bera vitni. Að sjálfsögðu geta ekki allir prédikað í sama mæli. Það er breytilegt eftir getu okkar og kringumstæðum. Láttu þér því ekki finnast að Guð sé aldrei ánægður með heilaga þjónustu þína. Þekking okkar á Jesú ætti hins vegar að hvetja okkur til að gera okkar besta. Jesús hvatti til þjónustu af allri sálu. — Matteus 13:18-23; 22:37.
Við verðum að hata hið illa
8, 9. Nefnið sumt af því sem Guð hatar. Hvernig getum við látið sams konar hatur í ljós?
8 Nákvæm þekking hjálpar okkur líka að skilja hvað Jesús og Jehóva hata. (Hebreabréfið 1:9; Jesaja 61:8) „Sex hluti hatar [Jehóva] og sjö eru sálu hans andstyggð: drembileg augu, lygin tunga og hendur sem úthella saklausu blóði, hjarta sem bruggar glæpsamleg ráð, fætur sem fráir eru til illverka, ljúgvottur sem lygar mælir, og sá er kveikir illdeilur meðal bræðra.“ (Orðskviðirnir 6:16-19) Þessi viðhorf og breytni eru „sálu hans andstyggð.“ Hebreska orðið, sem þýtt er „andstyggð,“ kemur af orði sem merkir „að hafa viðbjóð á, valda ógleði,“ „að vera frábitinn, eins og því sem öll skilningarvitin býður við, að fyrirlíta, að hata með réttlátri reiði.“ Til að eiga frið við Guð verðum við að vera jafnfrábitin hinu illa.
9 Til dæmis er nauðsynlegt að forðast allt stærilæti, „drembileg augu.“ Eftir skírn hefur sumum fundist þeir ekki lengur þurfa reglulega hjálp þeirra sem kenndu þeim. En nýkristnir menn ættu auðmjúkir að þiggja hjálp til að ná góðri fótfestu í sannleikanum. (Galatabréfið 6:6) Forðastu líka slúður sem getur hæglega ‚kveikt illdeilur meðal bræðra.‘ Með því að breiða út óvinsamlegar kviksögur, óréttmæta gagnrýni eða lygar með ‚lyginni tungu‘ ‚úthellum‘ við að vísu ekki saklausu blóði, en við getum örugglega eyðilagt mannorð annars einstaklings. Við getum ekki átt frið við Guð ef við eigum ekki frið við bræður okkar. (Orðskviðirnir 17:9; Matteus 5:23, 24) Guð segir líka í orði sínu að hann ‚hati hjónaskilnað.‘ (Malakí 2:14, 16) Ef þú ert í hjónabandi, leggur þú þig þá fram um að halda því sterku? Hefur þú andstyggð á því að daðra eða vera nærgöngull við maka einhvers annars? Hefur þú, eins og Jehóva, andstyggð á siðleysi? (5. Mósebók 23:17, 18) Það er ekki auðvelt að hata slíkt því að það getur höfðað til okkar synduga holds og heimurinn brosir við því.
10. Hvernig getum við ræktað með okkur hatur til hins illa?
10 Sem hjálp til að þroska með þér hatur til hins illa skalt þú forðast kvikmyndir, sjónvarpsþætti, tímarit eða bækur sem hafa að aðalatriði spíritisma, siðleysi eða ofbeldi. (5. Mósebók 18:10-12; Sálmur 11:5) Með því að láta sem röng breytni sé ekki svo slæm eða jafnvel skopleg grefur slíkt skemmtiefni undan viðleitni til að þroska á því hatur Guði að skapi. Einlæg bæn hjálpar hins vegar því að Jesús sagði: „Vakið og biðjið, að þér fallið ekki í freistni. Andinn er reiðubúinn, en holdið veikt.“ (Matteus 26:41) Kristinn maður sagði um það að horfast í augu við sterka holdlega löngun: „Ég neyði mig til að biðja. Stundum finnst mér ég óverðugur þess að nálgast hann, en með því að neyða mig til þess og ákalla Jehóva fæ ég þann kraft sem mig vantar.“ Þú skilur betur hvers vegna Jehóva hatar ranga breytni ef þú rifjar upp fyrir þér hinar slæmu afleiðingar hennar. — 2. Pétursbréf 2:12, 13.
11. Hvað getur stundum raskað ró okkar?
11 Enda þótt þú eigir frið við Guð mun daglegt álag og freistingar, jafnvel þínir eigin veikleikar, stundum gera þér erfitt fyrir. Mundu að þú hefur gert þig að sérlegum skotspæni Satans. Hann heyr stríð gegn þeim sem varðveita boð Guðs og eru vottar hans! (Opinberunarbókin 12:17) Hvernig er þá hægt að varðveita frið hið innra með sér?
Tekist á við erfiðleika sem raska friði
12. (a) Af hvaða tilefni var Sálmur 34 ortur? (b) Hvernig lýsir Ritningin tilfinningum Davíðs í þessum erfiðleikum?
12 „Margar eru raunir réttláts manns,“ skrifaði Davíð í Sálmi 34:20. Samkvæmt yfirskrift sálmsins orti Davíð hann eftir að hafa horfst í augu við dauðann. Davíð þurfti að flýja frá Sál konungi og leitaði skjóls hjá Akís Filistakonungi í Gat. Þjónar konungs þekktu Davíð og minntust fyrri hersigra hans í þágu Ísraels og kvörtuðu við Akís. Davíð heyrði á tal þeirra og „festi þessi orð í huga og var mjög hræddur við Akís konung í Gat.“ (1. Samúelsbók 21:10-12) Þegar allt kom til alls var þetta heimaborg Golíats og Davíð hafði drepið hetju þeirra — og nú bar Davíð meira að segja sverð risans! Myndu þeir nú nota þetta stóra sverð til að höggva höfuðið af Davíð? Hvað átti hann að gera? — 1. Samúelsbók 17:4; 21:9.
13. Hvað gerði Davíð í gegnum þessa erfiðleika og hvernig getum við líkt eftir fordæmi hans?
13 „Ég leitaði [Jehóva], og hann svaraði mér, frelsaði mig frá öllu því er ég hræddist,“ sagði Davíð. Hann sagði líka: ‚Hann hjálpaði mér úr öllum nauðum mínum.‘ (Sálmur 34:5, 7, 16, 18) Hefur þú líka lært að ákalla Jehóva og úthella hjarta þínu á áhyggjustund? (Efesusbréfið 6:18; Sálmur 62:9) Þótt neyð þín sé kannski ekki jafnátakanleg og Davíðs munt þú samt komast að raun um að Guð gefur þér hjálp á réttum tíma. (Hebreabréfið 4:16) En Davíð gerði meira en aðeins að biðja.
14. Hvernig beitti Davíð ‚hyggindum‘ sínum og hvað hefur Guð gefið til að hjálpa okkur með sama móti?
14 „Fyrir því gjörði hann [Davíð] sér upp vitfirringu fyrir augum þeirra . . . Þá sagði Akís við þjóna sína: ‚Þér sjáið að maðurinn er vitstola. Hví komið þér með hann til mín?‘ “ (1. Samúelsbók 21:13-15) Davíð upphugsaði kænskubragð til að komast undan. Jehóva blessaði viðleitni hans. Eins er það þegar við stöndum frammi fyrir torleystum vandamálum — Jehóva væntir þess að við beitum huga okkar en ætlumst ekki til að hann leysi vandann fyrir okkur. Hann hefur gefið okkur innblásið orð sitt sem ‚veitir hinum óreyndu hyggindi . . . þekking og aðgætni.‘ (Orðskviðirnir 1:4; 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Guð hefur líka séð fyrir safnaðaröldungum sem geta hjálpað okkur að skilja hvernig við eigum að halda staðla Guðs. (1. Þessaloníkubréf 4:1, 2) Oft geta þeir hjálpað þér við að rannsaka rit Varðturnsfélagsins til að leita ráða svo að þú getir tekið réttar ákvarðarnir eða leyst vandamál.
15. Hvers vegna er Sálmur 34:19 hughreystandi?
15 Jafnvel þegar hjarta okkar er sárþjáð vegna eigin veikleika eða mistaka getum við varðveitt frið við Guð ef við höfum rétt viðhorf. Davíð sagði í Sálmi 34:19: „[Jehóva] er nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta, þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann.“ Ef við biðjumst fyrirgefningar og stígum nauðsynleg skref til að leiðréta það sem aflaga fór (einkum ef um alvarlegt brot er að ræða) mun Jehóva vera okkur nálægur og styðja tilfinningalega. — Orðskviðirnir 28:13; Jesaja 55:7; 2. Korintubréf 7:9-11.
Þekking veitir frið
16. (a) Nefnið aðra leið til að eignast nákvæma þekkingu á Guði. (b) Gefðu skýringu á orðum Davíðs: „Finnið og sjáið, að [Jehóva] er góður.“
16 Önnur leið til að öðlast nákvæma þekkingu á Guði, auk þess að viða að okkur andlegri vitneskju, er persónuleg reynsla okkar af kærleiksríkri hjálp hans. (Sálmur 41:11, 12) Að vera frelsaður úr nauðum hefur ekki alltaf í för með sér að tafarlaust sé bundinn endi á vandamál; vera kann að þú þurfir að þola það enn um hríð. (1. Korintubréf 10:13) Þótt lífi Davíðs væri þyrmt í Gat þurfti hann að vera á flótta nokkur ár í viðbót og horfast í augu við eina hættu á fætur annarri. Í gegnum þær allar fann Davíð fyrir umhyggju Jehóva og stuðningi. Hann hafði leitað friðar við Guð og fundið hann og honum lærðist að þeir sem gera það „fara einskis góðs á mis.“ Vegna persónulegrar reynslu af stuðningi Jehóva í gegnum allar þrengingar gat Davíð sagt: „Finnið og sjáið, að [Jehóva] er góður, sæll er sá maður er leitar hælis hjá honum.“ — Sálmur 34:9-11; 15, 16.
17. Hvaða áhrif hafði það á fjölskyldu að leita hælis hjá Jehóva í erfiðleikum sínum?
17 Leitir þú hælis hjá Jehóva, þegar erfiðleika ber að garði, getur þú líka ‚fundið og séð að Jehóva er góður.‘ Kristinn maður í miðvesturhluta Bandaríkjanna missti af völdum slyss vellaunað starf sem hann hafði haft í 14 ár. Ásamt fjölskyldu sinni ákallaði hann Guð um hjálp því að fjölskyldan hafði engar tekjur. Jafnhliða því drógu þau sem mest þau gátu úr útgjöldum, tíndu eftirtíning á ökrum í grenndinni og renndu fyrir fisk. Með hjálp frá ýmsum í söfnuðinum og vinnu hluta úr degi, þegar hún fékkst, hafði þessi fjögurra manna fjölskylda í sig og á. Móðirin sagði ári eftir slysið: „Við getum talið okkur trú um að við reiðum okkur á Jehóva, þótt við í reynd treystum á eigin getu, maka okkar eða atvinnu. Við höfum lært að treysta aðeins á hann. Allt hitt er hægt að taka frá okkur en Jehóva hefur aldrei yfirgefið okkur — ekki eitt andartak. Þótt við höfum aðeins brýnustu nauðsynjar er samband fjölskyldunnar við Jehóva mun nánara.“
18. Hvað getur gert þér fært að halda út í gegnum þrálát vandamál?
18 Fjárhagsörðugleikar geta varað um langan tíma. Þá getur verið við að etja langvinna sjúkdóma, árekstra manna í milli, og tilfinningaleg vandamál svo sem þunglyndi, eða þá fjölda annarra vandamála. En ef þú í sannleika þekkir Jehóva munt þú trúa á stuðning hans. (Jesaja 43:10) Þetta órjúfanlega traust mun hjálpa þér að halda út og njóta ‚friðar Guðs sem er æðri öllum skilningi.‘ — Filippíbréfið 4:7.
19. Hvernig vitum við að Jehóva lætur sér ekki þjáningar okkar í léttu rúmi liggja?
19 Þegar erfiðleikar mæta þér skalt þú aldrei gleyma að Jehóva veit af þjáningum þínum. Í sálmi, sem Davíð orti líka þegar hann rifjaði upp það sem dreif á daga hans í Gat, sagði hann við Jehóva: „Tárum mínum er safnað í sjóð þinn, já, rituð í bók þína.“ (Sálmur 56:9) Víst er að Guð hlýddi á áköll Davíðs. Hvílík hughreysting er ekki að vita að Guð safnar í sjóð tárum erfiðleika og þjáninga, alveg eins og við myndum safna dýrmætum hlutum, gulli og silfri í sjóð. Guð man alltaf eftir slíkum tárum, þau eru rituð í bók hans. Umhyggja Jehóva er mikil!
20. Hvernig getum við aukið frið okkar við Guð?
20 Skírn þín er því aðeins upphafið að friðsömu sambandi við Guð. Með því að kynnast nánar persónuleika Guðs og Jesú, og með því að finna af eigin raun stuðning Jehóva í gegnum erfiðleika, munt þú auka og efla frið þinn við Guð. Bæði mun samband þitt við Jehóva verða þér öruggt hæli og skjól núna, en auk þess munt þú eiga hina dýrmætu von um eilíft líf í paradís þar sem þú munt geta ‚glaðst yfir ríkulegri gæfu‘ og friði. — Sálmur 37:11, 29.
[Neðanmáls]
a Samkvæmt Talmúd Gyðinga ráðlögðu rabbínar til forna að fræðimaður „skyldi ekki tala við konu á götu úti.“ Ef þessi siður var almennur á dögum Jesú kann það að skýra hvers vegna lærisveinar hans „furðuðu sig á því, að hann var að tala við konu.“ — Jóhannes 4:27.
Manst þú?
◻ Á hvaða vegu getum við aflað okkur nákvæmrar þekkingar á Guði og Jesú?
◻ Hvað mun það að líkja eftir Guði og Jesú koma okkur til að gera?
◻ Hvernig líkjum við eftir hatri Guðs til hins illa?
◻ Hvernig getum við varðveitt frið þrátt fyrir erfiðleika?
[Mynd á blaðsíðu 26]
Jesús lét ekki fordóma samfélagsins hindra sig í að bera vitni. Líkir þú eftir kostgæfni hans í prédikunarstarfinu?
[Mynd á blaðsíðu 27
Þegar Davíð stóð frammi fyrir alvarlegu vandamáli ákallaði hann Jehóva . . . . . . og beitti hyggindum sínum til að finna undankomuleið. Jehóva heyrði bænir Davíðs.