Trúarbrögð og hjátrú vinir eða óvinir?
LAUGARDAGINN 11. júní 1983 mátti sjá fólk á eynni Jövu í Indónesíu hendast inn í hús sín og reyna með óðagoti að loka öllum sprungum í lofti, meðfram gluggum og dyrum. Af hverju stafaði allt þetta írafár? Sólmyrkvi var hafinn og fólk hrætt um að skuggi hans kæmist inn í hús þeirra og ylli ógæfu.
Íbúar hinna svonefndu þróunarlanda fylgja slíkum hugmyndum oft af trúarhita. Sums staðar í Afríku forðast fólk að ganga úti í sólskini um hádegisbil af ótta við að það „missi ef til vill vitið.“ Börnum er bannað að borða egg af ótta við að „þau gætu orðið þjófar.“ Fólk vill ekki segja návæmlega hve mörg börn það á því að „nornir gætu heyrt mann gorta og tekið eitt þeirra.“ — African Primal Religions.
Vesturlandabúar hlæja gjarnan að slíku, kalla það hjátrú og segir það stafa af fáfræði hjá heiðingjum. En trú af þessu tagi takmarkast ekki við svonefnt heiðið fólk. Hana „er að finna meðal fólks alls staðar í heiminum,“ segir dr. Wayland Hand, sem er prófessor í þjóðfræðum og germönskum tungumálum. Hann og starfsbróðir hans, dr. Tally, hafa nú þegar safnað nálega milljón dæmum um hjátrú í Bandaríkjunum einum.
Í von um að sjá fyrir örlög sín leitar margt svonefndra kristinna manna á vit stjörnuspáfræðinnar — sem er ein elsta mynd hjátrúar. Og svo einkennilegt sem það er veita leiðtogar trúfélaga slíkum hjátrúarhugmyndum stundum fylgi fyrir opnum tjöldum. Til dæmis má nefna að á köldum vetrardegi í New York, þann 10. janúar 1982, hélt patríarki grísku réttrúnaðarkirkjunnar, Vasilios, messu undir berum himni í tilefni þréttándahátíðar. Dagblaðið New York Post greinir frá því að eftir messuna hafi hann hent gylltum krossi út í ána East River og sagt þeim sem hjá stóðu að sá sem fyrstur gæti náð krossinum myndi njóta gæfu og gengis það sem eftir væri ævinnar.
En getur kristin trú og hjátrú farið saman? Einu sinni komst rithöfundur svo að orði að „á gröf trúarinnar blómstrar blóm hjátrúarinnar.“ Mætti þess vegna ekki búast við að kristin trú beitti sé gegn hjátrúargrillum og leysti menn undan þeim ótta sem þeim eru tengdar?
Leysa trúarbrögðin menn undan hjátrúarótta?
Það ættu sönn trúarbrögð að gera og gerðu það reyndar á fyrstu öldinni. Þótt frumkristnir menn byggju mitt í hjátrúarfullum heimi Rómverja höfnuðu þeir hjátrú. En eftir dauða postula Krists fóru falskar trúarkenningar, þeirra á meðal ýmiss konar hjátrú, að síast inn í söfnuðinn. (1. Tímóteusarbréf 4:1, 7; Postulasagan 20:30) Smám saman varð til klerkastétt sem að sögn bókarinnar A History of the Christian Church lét sér vel líka stjörnuspár og ýmsa aðra hjátrú. Með tíð og tíma fengu slíkar hjátrúariðkanir þann stimpil að þær væru „kristnar.“
Og hvað um okkar daga? Trúarbrögðin umbera enn marga hjátrúarsiði. Lítum sem dæmi á Súrinam þar sem oft má sjá svonefnda kristna menn af afrískum uppruna bera verndar- og töfragripi sem þeir hyggja veita sér vernd gegn illum öndum. Sagt hefur verið að þetta fólk ‚eti, vinni og sofi í sífelldum ótta.‘ Milljónir manna í öllum heimshornum óttast með svipuðum hætti „anda“ hinna dánu. Svo kaldhæðnislegt sem það er hafa trúarbrögðin oft ýtt undir slíkar hjátrúarhugmyndir.
Lítum á sem dæmi það sem gerðist á afrísku eynni Madagaskar. Þegar trúboðar kristna heimsins tóku að boða trú sína þar voru eyjarskeggjar mjög móttækilegir fyrir trúnni en ófúsir til að segja skilið við sínar fornu trúarhugmyndir. Viðbrögð kirknanna voru á þá lund að „trúboðarnir sýndu umburðarlyndi og sveigjanleika og sættu sig við ástandið,“ að sögn Kenýablaðsins Dayly Nation. Hvað leiddi þetta af sér? Nú er helmingur íbúa Madagaskar sagður kristinn. Þrátt fyrir það hræðast þeir „ anda“ látinna forfeðra! Því er algengt að þeir biðji prest að blessa bein einhvers forföður áður en þau eru látin aftur í grafhýsi ættarinnar. Trúarleiðtogar hafa því haldið við þeirri lygi að hægt sé með ýmsum hjátrúarsiðum að kitla hégómagirnd Guðs, djöfulsins og látinna ættingja, kjassa þá með fagurgala eða múta þeim.
Hið sama er uppi á teningnum í Suður-Afríku þar sem 77 af hundraði landsmanna kalla sig kristna og kirkjusókn er mikil. Enn lifa hin fornu afrísku trúarbrögð meðal milljóna þessara manna, sem sækja kirkju, ásamt hjátrúarkenndum ótta sínum við látna forfeður. Í mörgum þeirra landa, sem nefnd eru kristin, eru trúarbrögðin í rauninni eins og þunn skýla yfir gömlum hjátrúarhugmyndum sem lifa og blómgast undir yfirborðinu.
En sönn trúarbrögð reka burt slíkan hjátrúarótta. Lykillinn að því er þekking. Þekking á hverju? Hvernig getur þú eignast þá þekkingu?