Heiðraðu Guð vonarinnar
„Fyrir því segir [Jehóva] . . . Ég heiðra þá, sem mig heiðra, en þeir, sem fyrirlíta mig, munu til skammar verða.“ — 1. SAMÚELSBÓK 2:30.
1. Af hvaða ástæðu viljum við heiðra Jehóva? (1. Tímóteusarbréf 1:17; Opinberunarbókin 4:11)
MEÐ hliðsjón af þeim framtíðarhorfum, sem Biblían gefur okkur, er fyllilega við hæfi að við heiðrum „Guð vonarinnar,“ ‚þann Guð sem veitir von.‘ (Rómverjabréfið 15:13, Ísl. bi. 1981; NW) Hvers vegna? Hvernig getum við, sem erum örsmáir, ófullkomnir menn, heiðrað hinn mikla skapara alls alheimsins? Mun hann heiðra okkur á móti?
2. Hvað fannst Jesú um það að heiðra Guð?
2 Við getum fengið svar við því með því að athuga hvað gerðist í tengslum við Jesú. Enginn okkar neitar því að Jesús vildi alltaf að faðir hans yrði heiðraður og gerður vegsamlegur. (Jóhannes 5:23; 12:28; 15:8) Meira að segja gagnrýndi Jesús faríseana og hina skriftlærðu sem ‚heiðruðu Guð með vörunum en hjarta þeirra var langt frá honum.‘ Taktu eftir að það, að þeir skyldu ekki heiðra Guð, var nátengt röngum áhugahvötum og athöfnum. (Matteus 15:7-9) Getum við sagt að von Krists hafi verið háð því að hann heiðraði Guð? Og hvernig brást Jehóva við þeim heiðri sem Jesús sýndi honum?
3. Hvernig vitum við að Jesús setti von sína á Jehóva?
3 Jesús tók til sín orð Davíðs í Sálmi 16:10: „Þú ofurselur Helju eigi líf mitt, leyfir eigi að þinn trúaði sjái gröfina.“ Vegna þessarar vonar sinnar um upprisu gat Jesús sagt hin hrífandi orð við illvirkjann sem var staurfestur honum við hlið: „Sannlega segi ég þér í dag: Þú skalt vera með mér í paradís.“ (Lúkas 23:39-43, NW) Illvirkinn dó skömmu síðar og var því ekki sjónarvottur að því er von Jesú um upprisu rættist þrem dögum eftir það. En sjónarvottur skýrði svo frá: „Þennan Jesú reisti Guð upp, og erum vér allir vottar þess.“ (Postulasagan 2:31, 32) Upprisa Jesú er vottfest staðreynd.
4. Hvaða heiður verðskuldaði Jesús og hlaut? (Opinberunarbókin 5:12)
4 Margir þeirra, sem Jesús veitti þjónustu með boðun trúarinnar, vissu að hann verðskuldaði heiður og virðingu. (Lúkas 4:15; 19:36-38; 2. Pétursbréf 1:17, 18) Breytti það einhverju þegar hann dó eins og afbrotamaður? Nei, því að Jesús naut velþóknunar þess Guðs sem hann setti von sína á. Sú staðreynd, að „Guð vonarinnar“ vakti son sinn til lífs og íklæddi ódauðleika á andlegu tilverusviði sannar að faðirinn hélt áfram að heiðra son sinn. Páll segir: „Vér sjáum, að Jesús, . . . er ‚krýndur vegsemd og heiðri‘ vegna dauðans sem hann þoldi. Af Guðs náð skyldi hann deyja fyrir alla.“ — Hebreabréfið 2:7, 9; Filippíbréfið 2:9-11.
5. Á hvaða sérstakan hátt var Jesús heiðraður og hvernig var það Guði til aukins heiðurs?
5 Jesús, sem hafði heiðrað Jehóva, tiltók eina sérstaka leið föðurins til að heiðra hann. Þegar hann einhverju sinni birtist trúföstum postulum sínum sagði hann: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda . . . Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ (Matteus 28:18-20) Faðirinn heiðraði þannig soninn með því að veita honum einstakt yfirvald. Það skyldi hann nota í þágu manna sem ættu með starfi sínu að heiðra þann sem Jesús leitast við að heiðra. Ber að skilja það svo að við, ófullkomnir menn, getum með einhverjum hætti heiðrað föðurinn og að hann heiðri okkur síðan á móti?
Menn geta heiðrað Guð
6. Er við hæfi að langa til að hljóta heiður? Hvaða hætta er því samfara? (Lúkas 14:10)
6 Fæstir menn láta sér til hugar koma að heiðra Guð, því að þeir hugsa fyrst og fremst um að heiðra sjálfa sig. Sumir segja kannski jafnvel að það sé eðlilegt af okkur að vilja hljóta heiður. Það er nokkur sannleikur í því, vegna þess að okkur er eðlilegt að vilja hafa gott mannorð ásamt þeim heiðri sem það getur veitt okkur. (1. Tímóteusarbréf 3:2, 13; 5:17; Postulasagan 28:10) En löngunin til að hljóta heiður af mönnum getur hæglega farið út í öfgar. Það má sjá af því hve margir reyna að komast til frægðar og frama eða forðast álitshnekki, hvað sem það kostar.
7. Hvers vegna hefur það takmarkað gildi að hljóta heiður af mönnum?
7 Þegar grannt er skoðað er þó jafnvel æðsta virðing, sem hægt er að hljóta af mönnum, stundleg því að öll deyjum við. Að vísu er minning sumra í heiðri höfð um hríð, ef þeir hafa framið hetjudáðir, en flestir menn gleymast fljótt eftir að þeir eru dánir. Hve margir kunna deili á langöfum sínum og -ömmum eða geta nefnt hverjir voru forystumenn þjóðar þeirra fyrir hundrað árum? Líf eða dauði einstaks manns breytir ekki miklu. Hann er eins og óverulegt rykkorn á vogarskálum tímans, örsmár dropi í fljóti lífsins. Og jafnvel þótt honum sé sýndur heiður um skamma hríð eftir dauða sinn veit hann ekki af því. (Jobsbók 14:21; 2. Kroníkubók 32:33; Prédikarinn 9:5; Sálmur 49:13, 21) Það eina sem getur skipt sköpum er að bera í brjósti þá von, sem Guð gefur, að heiðra hann, og hljóta heiður af honum. Það má sjá af æviatriðum tveggja samtíðarmanna í Forn-Ísrael.
8. Hvernig var Elí áfátt í sambandi við það að heiðra Jehóva?
8 Elí var annar þeirra. Hann hafði gegnt því einstaka starfi að vera æðsti prestur í 40 ár, auk þess að vera dómari í Ísrael. (1. Samúelsbók 1:3, 9; 4:18) Eigi að síður sýndi hann veikleika í sambandi við syni sína, þá Hofní og Pínehas. Þeir misnotuðu sér stöðu sína sem prestar með því að stela af fórnunum og ástunda siðleysi. Þegar faðir þeirra lét sér nægja að veita þeim mildilegt tiltal lýsti Guð yfir: „Þú metur sonu þína meira en mig.“ Jehóva hafði heitið því að viðhalda prestdómi manna af ætt Arons, en húsi Elís yrði synjað um æðstaprestdóm. Hvers vegna? Guð svaraði: „Ég heiðra þá, sem mig heiðra, en þeir, sem fyrirlíta mig, munu til skammar verða.“ — 1. Samúelsbók 2:12-17, 29-36; 3:12-14.
9. Hvernig fékk Samúel tækifæri til að heiðra Jehóva?
9 Öðru máli gegndi um Samúel. Þú veist líklega að foreldrar hans færðu hann ungan til tjaldbúðarinnar í Síló til að þjóna þar. Nótt eina talaði Jehóva til drengsins. Þú getur lesið frásöguna af því í 1. Samúelsbók 3:1-14 og reynt að sjá fyrir þér hvernig drengurinn vaknaði, ekki við þrumuraust heldur lága rödd sem hann ætlaði vera rödd gamla mannsins Elís. Hugsaðu þér líka hve skelfdur hinn ungi Samúel hlýtur að hafa verið að þurfa að flytja hinum aldna æðsta presti þá ákvörðun Guðs að refsa húsi Elís. Þó gerði Samúel það; hann heiðraði Guð með hlýðni sinni. — 1. Samúelsbók 3:18, 19.
10. Hvernig heiðraði Guð Samúel og hvers vegna?
10 Samúel heiðraði Jehóva um langt árabil og Guð heiðraði hann. Það má sjá af 1. Samúelsbók 7:7-13. Jehóva svaraði skjótlega bæn Samúels um hjálp til að yfirbuga Filista. Hefði þér ekki þótt það heiður að njóta slíkrar viðurkenningar frá Guði? Þegar synir Samúels fetuðu ekki í fóspor hans hafnaði Guð honum ekki eins og hann hafði hafnað Elí. Það kom bersýnilega til af því að Samúel gerði allt sem hann gat til að heiðra Guð. Vanþóknun Samúels á beiðni þjóðarinnar um mennskan konung ber einnig vitni um þann hug hans. (1. Samúelsbók 8:6, 7) Guð notaði Samúel til að smyrja bæði Sál og Davíð til konungs. Við dauða Samúels heiðraði Ísrael hann með því að syrgja hann. Enn meira máli skipti þó að Guð skyldi heiðra hann með því að láta hans getið í Biblíunni sem einnar af trúarhetjunum er hljóti þá blessun að fá upprisu og öll þau gæði sem Guð geymir þeim. (Sálmur 99:6; Jeremía 15:1; Hebreabréfið 11:6, 16, 32, 39, 40) Ber þetta ekki vitni um að það sé mikils virði að heiðra „Guð vonarinnar“?
Munt þú heiðra „Guð vonarinnar“?
11, 12. Hvað þurfum við að íhuga í sambandi við að heiðra Jehóva, og á hvaða hátt getum við gert það?
11 Jesús og Samúel — svo nefnd séu aðeins tvö dæmi úr Biblíunni — sýndu og sönnuðu að menn geta látið það vera forgangsatriði í lífi sínu að heiðra „Guð vonarinnar.“ Þessi tvö dæmi sýna að við getum með réttu sóst eftir og hlotið heiður af Guði ef við gerum það. En hvernig getur þú haft sæmilega örugga vissu fyrir að þú þóknist Guði, fáir heiður af honum og að von þín, byggð á Biblíunni, rætist?
12 Djúp virðing fyrir Guði og ótti við að misþóknast honum er ein leið til þess. (Malakí 1:6) Líklega föllumst við fúslega á það. En mundu eftir sonum Elís. Ef þú hefðir spurt þá hvort þeir vildu heiðra Guð með því að sýna honum virðingu og óttast hann hefðu þeir trúlega svarað játandi. Vandinn er sá að láta löngun okkar til að heiðra Guð, með því að óttast hann, birtast í daglegu lífi okkar og athöfnum.
13. Hvernig er það okkur til gagns að langa til að heiðra Guð með því að óttast hann?
13 Ef við stæðum frammi fyrir freistingu til að stela eða fremja siðlausan verknað, án þess að það kæmist í hámæli, myndi þá löngun til að heiðra Guð ráða gerðum okkar? Við ættum að rækta það hugarfar að jafnvel þótt takast mætti að fara í felur með ranga breytni sé slík synd óvirðing við „Guð vonarinnar“ sem hefur gefið okkur nafn sitt. Auk þess er það tryggt að syndin muni koma fram í dagsljósið einn góðan veðurdag, rétt eins og gerðist með það er synir Elís voru sekir um. Það má ráða af orðum Páls um ‚réttlátan dóm Guðs‘: „Hann mun gjalda sérhverjum eftir verkum hans: Þeim eilíft líf, sem með staðfestu í góðu verki leita vegsemdar, heiðurs og ódauðleika, en þeim reiði og óvild, sem leiðast af eigingirni og óhlýðnast sannleikanum.“ — Rómverjabréfið 2:5-8.
14. Á hvaða annan hátt getum við heiðrað Guð og hvaða spurninga gætum við spurt okkur í því sambandi?
14 Hins vegar minnist Páll á þátttöku í „góðu verki“ sem heiðrar Guð og er honum til „vegsemdar, heiðurs.“ Mikilvægasta verk af því tagi, sem hægt er að vinna nú á dögum, er það sem Jesús talaði um í Matteusi 28:19, 20: ‚Gerið menn af öllum þjóðum að lærisveinum, skírið þá og kennið þeim að halda allt það sem ég hefi boðið yður.‘ Um allan heim eru milljónir votta Jehóva kappsfullir að heiðra Guð með slíkri prédikun og kennslu. Margir hafa meira að segja séð sér fært að vinna að því í fullu starfi sem brautryðjendur, annaðhvort á föstum grundvelli eða í leyfum frá skóla eða veraldlegri vinnu. Með það í huga getum við eitt og sérhvert íhugað okkur til gangs hvernig við stöndum gagnvart þessu starfi. Þú gætir spurt þig til dæmis: ‚Heiðra ég „Guð vonarinnar“ með því að eiga sem fyllstan þátt í prédikuninni?‘
15. Hvaða hugarfar hafa sumir kristnir menn tileinkað sér gagnvart því að heiðra Jehóva með opinberri prédikun?
15 Sumir kristnir menn, sem hafa um langt árabil verið kappsfullir prédikarar, hafa smám saman hægt á sér. Þeir hafa tamið sér þá venju að eiga einungis lítinn þátt í því þýðingarmikla starfi að gera menn að lærisveinum. Við erum ekki að tala um einstaklinga sem eru líkamleg takmörk sett og draga úr hraðanum vegna ellihrörnunar. Við erum að tala um ýmsa votta í mismunandi aldurshópum sem hafa dregið úr ferðinni. Athyglisvert er að Páll postuli var ekki að tala til ákveðins aldurshóps þegar hann varaði kristna menn við því að ‚þreytast.‘ Kjarni málsins er sá að regluleg þátttaka í þjónustunni krefst áreynslu, óháð aldri mannsins. Eins og gerðist á dögum Páls hugsa sumir nú á tímum með sér: ‚Ég hef lagt mitt af mörkum öll þessi ár, og núna geta hinir yngri í trúnni borið hita og þunga starfsins.‘ — Galatabréfið 6:9; Hebreabréfið 12:3.
16. Hvers vegna gæti sjálfsrannsókn verið okkur gagnleg í þessu efni?
16 Þeir sem hafa tileinkað sér þetta viðhorf eru aðeins lítill minnihluti, en við getum öll spurt okkur: ‚Hef ég veitt athygli einhverri slíkri tilhneigingu hjá sjálfum mér? Geri ég jafnmikið í þjónustunni núna og ég gerði áður?‘ Óháð því hvort við höfum dregið eitthvað úr ferðinni eða ekki ættum við öll að hafa í huga að „Guð vonarinnar“ heitir því að ‚veita vegsemd, heiður og frið séhverjum þeim er gjörir hið góða.‘ (Rómverjabréfið 2:10) Páll notaði hér grískt orð sem merkir „að vinna, framleiða, inna af hendi.“ Við þurfum sannarlega að gæta þess að falla ekki í sömu gryfju og farísearnir og hinir skriftlærðu sem einungis heiðruðu Guð með vörunum! (Markús 7:6; Opinberunarbókin 2:10) Þegar við aftur á móti tökum kappsamlega þátt í hinni opinberu prédikun staðfestum við fyrir sjálfum okkur og öðrum að von okkar sé lifandi. Við heiðrum skapara okkar og lífgjafa og eigum í vændum heiður af honum, núna og að eilífu. — Lúkas 10:1, 2, 17-20.
Með eigum okkar
17, 18. Hvernig getum við líka heiðrað Guð og hvers vegna er engin ástæða til að hika við það?
17 Orðskviðirnir 3:9 tala um að við getum heiðrað „Guð vonarinnar“ með öðrum hætti: „Tigna [Jehóva] með eigum þínum og með frumgróða allrar uppskeru þinnar.“ Í annarri biblíuþýðingu er þetta vers orðað þannig: „Tigna Jehóva með auði þínum og með hinu besta af afrakstri þínum.“ — A Translation of the Old Testament Scriptures From the Original Hebrew.
18 Ýmsir trúarleiðtogar eru illræmdir fyrir botnlausa græðgi sína og ríkmannlega lífshætti. Margir eru því hikandi við að gefa fé til kirkna og trúfélaga sem virðast hafa það markmið eitt að safna sér auði og efnum. (Opinberunarbókin 18:4-8) Slík óhæfa breytir þó ekki því að Orðskviðirnir 3:9 eru í fullu gildi. Hvernig getum við, í samræmi við þessi innblásnu ráð, ‚tignað Jehóva,‘ „Guð vonarinnar,“ með ‚eigum okkar‘?
19. Hvernig hafa sumir fylgt Orðskviðunum 3:9?
19 Hinn vaxandi fjöldi fólks, sem tekur við boðskapnum um Guðsríki, gerir að verkum að nauðsynlegt er að vottar Jehóva stækki ríkissali sína eða byggi nýja. Þar er því opin ein leið til að ‚tigna Jehóva með eigum sínum.‘ Ungir sem aldnir hafa átt hlutdeild í því, svo sem með því að einsetja sér að leggja fram fé til slíkrar byggingar. Að halda sér við slíkan ásetning getur kostað sjálfsaga eða jafnvel fórnir, einkum ef það tekur alllangan tíma að undirbúa og fullgera slíkar byggingar. (2. Korintubréf 9:6, 7) Eigi að síður er það Jehóva til heiðurs að nota fé sitt með þeim hætti, því að ríkissalirnir eru staðir þar sem kristnir menn dýrka hann og þar sem þeir og félagar þeirra tileinka sér þekkingu á Guði. Orð Jesú í Matteusi 6:3, 4 eru okkur ærið tilefni til að treysta því að Guð muni heiðra þá sem heiðra hann með þeim hætti.
20. (a) Hvers vegna er ástæða til að rannsaka sig í sambandi við leiðbeiningar Orðskviðanna 3:9? (b) Hvaða spurninga getum við spurt okkur?
20 Hér eru þó við hæfi fáein varnaðarorð: Hinir skriftlærðu og farísearnir, sem Jesús sagði ekki láta sitja í fyrirrúmi að heiðra Guð, gættu þess vendilega að þeir yrðu fyrstir til að njóta gagns af auði sínum. Í Matteusi 15:4-8 er okkur því ráðið að líta gagnrýnu auga á það hvernig við ‚heiðrum Jehóva með eigum okkar.‘ (Jeremía 17:9, 10) Til dæmis gæti kristinn maður, sem komist hefur í góð efni í gegnum atvinnurekstur, réttlætt fyrir sjálfum sér að hann skuli halda áfram að vinna fullt starf til að þéna meira. Hann gæti hugsað sem svo: ‚Aðrir gerast brautryðjendur eða flytja þangað sem mikil þörf er fyrir boðbera, en ég þjóna Guði á minn sérstaka hátt með því að þéna meira þannig að ég geti látið mikið af hendi rakna.‘ Vera kann að framlög hans komi að góðu gagni. Samt sem áður gæti hann spurt sig: ‚Bera lífshættir mínir því vitni að aðalmarkmið mitt með því að þéna meira og meira sé það að nota féð til að heiðra Guð?‘ (Lúkas 12:16-19; samanber Markús 12:41-44.) Einnig: ‚Gæti ég skipulagt mál mín þannig að ég gæti átt stærri þátt í þýðingarmesta starfi okkar tíma — að boða fagnaðarerindið?‘ Og óháð kringumstæðum okkar í lífinu getum við skoðað áhugahvatir okkar og spurt: ‚Hvernig get ég heiðrað lífgjafa minn og „Guð vonarinnar“ betur?‘
21. Hvaða framtíðarhorfur höfum við ef við heiðrum Jehóva núna?
21 Jehóva mun ekki bregðast vonum okkar. Það er stórfengleg tilhugsun að hann kunni, bæði nú og í framtíðinni, að geta sagt um okkur eins og hann sagði við hina trúföstu Ísraelsþjóð: „Þú ert dýrmætur í mínum augum og mikils metinn, . . . ég elska þig“! (Jesaja 43:4) Þessi sami Guð heitir ‚eilífu lífi þeim sem leita vegsemdar og heiðurs.‘ Það er loforð hans við þá sem eru trúfastir „í góðu verki.“ Hann er sannarlega „Guð vonarinnar“!
Hvert er svar þitt?
◻ Hvað getum við lært af fordæmi Jesú um það hvernig menn geta heiðrað Jehóva?
◻ Hvað var ólíkt með Elí og Samúel í því að heiðra Guð?
◻ Á hvaða vegu getum við heiðrað Guð enn meira og hver gætu viðbrögðin orðið?
◻ Hvaða framtíð bíður þeirra sem framar öðru leggja kapp á að heiðra „Guð vonarinnar“?
[Rammi á blaðsíðu 18]
BRÉF MEÐ FRAMLÖGUM
Hér fara á eftir nokkrar glefsur úr bréfum sem borist hafa skrifstofum Biblíufélagsins Varðturninn í Brooklyn í New York:
„Ég heiti Abía. Ég er 9 ára gamall. Mig langar til að gefa ykkur fjóra dollara handa bræðrunum sem vinna við ríkissalina. Þeir geta notað þá til að kaupa timbur eða sælgæti. Þeir mega ráða því.“ — Frá Oregon.
‚Með bréfi þessu fylgir ávísun. Ég er orðinn yfir 96 ára og heyri mjög illa, en það hefur veitt mér gleði að leggja fé til hliðar í þessum tilgangi. Ég veit að bifreiðin mín er keypt notuð og að ég fer ekki til vetrardvalar til Florída eða Kaliforníu. Ég get svo ósköp lítið gert til að prédika fagnaðarerindið hús úr húsi. En með því að fara sparlega með peningana mína og senda ykkur hluta af þeim finnst mér ég enn eiga þátt í starfinu.‘ — Frá Ohio.
‚Þakka ykkur fyrir allt sem þið gerðuð fyrir Ríkissalinn. Ég sendi ykkur peningana [5 dollara] til að hjálpa ykkur að prenta bækur og Varðturninn handa okkur að lesa. Peningarnir eru úr sparibauknum mínum. Takk fyrir „Skólabæklinginn“ sem segir okkur frá fíkniefnanotkun.‘
„Hjálögð er ávísun. Tvö hundruð dollarar eru ætlaðir byggingasjóði ríkissala. Afganginn megið þið nota með hverjum þeim hætti sem þið teljið best þjóna prédikunarstarfinu.“ — Frá Missouri.