Jeremía — óvinsæll boðberi dóma Guðs
„Áður en ég myndaði þig í móðurlífi, útvaldi ég þig . . . Ég hefi ákvarðað þig til að vera spámann þjóðanna!“ — JEREMÍA 1:5.
1. (a) Hvernig líta sumir á Jeremía þegar horft er til baka? (b) Hvernig leit hann á sjálfan sig?
„JAFNVEL í hópi spámannanna ber Jeremía höfuð og herðar yfir aðra.“ Þessi skoðun biblíufræðimanns stingur mjög í stúf við álit Jeremía á sjálfum sér þegar Jehóva fól honum fyrst að vera spámaður gagnvart Júda og þjóðunum. Hann svaraði: „Æ, herra, [Jehóva]! Sjá, ég kann ekki að tala, því að ég er enn svo ungur.“ Bersýnilega gerði Jeremía sér ljósa grein fyrir því hvað hann var ungur og hraus hugur við því erfiða verkefni að standa frammi fyrir fjandsamlegum þjóðum. Jehóva var á öðru máli. — Jeremía 1:6.
2. Hvernig innblés Jehóva Jeremía traust?
2 Af samræðum Jehóva við hinn unga Jeremía má glöggt sjá að hann var einn af þeim fáu mönnum sem Jehóva ábyrgðist fæðingu á. Og hvers vegna hafði hann sérstakan áhuga á Jeremía allt frá getnaði hans? Vegna þess að Jehóva ætlaði honum sérstakt verkefni. Þess vegna gat hann sagt: „Áður en þú komst af móðurkviði, helgaði ég þig.“ (Jeremía 1:5) Síðan bauð hann unglingnum: „Seg ekki: ‚Ég er enn svo ungur!‘ Heldur skalt þú fara til allra, sem ég sendi þig til, og tala allt það, er ég býð þér. Þú skalt ekki óttast þá, því að ég er með þér til þess að frelsa þig!—segir [Jehóva].“ Hér var ekkert svigrúm fyrir hálfvelgju gagnvart verkefni Guðs. Það kallaði á dirfsku og traust til Jehóva. — Jeremía 1:7, 8.
3. Hvers vegna var verkefni Jeremía mjög erfitt?
3 Þessi ungi maður hlýtur að hafa verið djúpt snortinn af slíkri beinni tilskipun frá Guði, jafnvel þótt honum hljóti að hafa fundist hún yfirþyrmandi. Og hvílíkt verkefni! „Sjá þú, ég set þig í dag yfir þjóðirnar og yfir konungsríkin til þess að uppræta og umturna, eyða og rífa niður, byggja og gróðursetja!“ Aðstæðurnar í Júda um miðbik 7. aldar f.o.t., þegar þessi orð voru sögð, lögðu gríðarlega ábyrgð á herðar þessa tilvonandi spámanns. Hann þurfti að standa augliti til auglitis við stolta, sjálfsánægða þjóð sem treysti á sína helgu borg, Jerúsalem, og musteri hennar eins og verndargrip. Þegar hann lyki 40 ára spádómsþjónustu sinni í Jerúsalem væri hann búinn að flytja boðskap sinn í stjórnartíð fimm konunga, Jósía, Jóahasar, Jójakíms, Jókakíns og Sedekía. Hann myndi þurfa að flytja bæði Gyðingum og Babýloníumönnum óvinsælan dómsboðskap. — Jeremía 1:10; 51:41-64.
Hvers vegna ættum við að hafa áhuga á Jeremía?
4, 5. (a) Hvers vegna varða atburðir frá dögum Jeremía okkur núna? (Rómverjabréfið 15:4) (b) Hvaða sérstök heimfærsla þeirra er áhugaverð fyrir okkur?
4 En við gætum spurt hvernig þessir fornu atburðir snerti okkur sem lifum nálægt lokum 20. aldar? Páll postuli svarar því þegar hann rifjar upp brot úr sögu Ísraels í bréfi sínu til safnaðarins í Korintu. Hann skrifaði: „Þessir hlutir hafa gjörst sem fyrirboðar fyrir oss, til þess að vér verðum ekki sólgnir í það, sem illt er, eins og þeir urðu sólgnir í það. . . . Og það er ritað til viðvörunar oss, sem endir aldanna er kominn yfir.“ — 1. Korintubréf 10:6, 11.
5 Þeir atburðir, sem áttu sér stað í Ísrael og Júda, eru sannkristna söfnuðinum nú á tímum endalokanna fordæmi til viðvörunar. Auk þess sjáum við í þeim hliðstæður og tákn ókominna atburða. (Berið saman Jeremía 51:6-8 og Opinberunarbókina 18:2, 4.) Þess vegna hefur spádómsþjónusta Jeremía og þeir atburðir, sem komu yfir Jerúsalem, djúptæka merkingu fyrir nútímavotta Jehóva, einkum að því er varðar starf þeirra á yfirráðasvæði kristna heimsins eins og við munum sjá í greinunum hér á eftir.
Jeremía boðaði dóma Guðs óttalaust
6. Hvað gerði hlutverk Jeremía sérlega erfitt og hvaða hvatningu fékk hann?
6 Til að styrkja Jeremía fyrir hið ógnþrungna verkefni sitt sagði Jehóva honum: „Gyrð þú lendar þínar, statt upp og tala til þeirra allt, sem ég býð þér. Vertu ekki hræddur við þá, . . . sjá, ég gjöri þig í dag að rammbyggðri borg . . . gegn öllu landinu, gegn Júdakonungunum, gegn höfðingjum þess, gegn prestum þess og gegn öllum landslýðnum.“ Á því lék enginn vafi að Jeremía yrði að vera eins og rammbyggð borg til að geta staðið augliti til auglitis við höfðingja og presta Júda. Það yrði ekki auðvelt verk að boða þjóðinni óvinsælan og ögrandi boðskap. — Jeremía 1:17, 18.
7. Hvers vegna myndu leiðtogar Gyðinga standa á móti Jeremía?
7 „Og þótt þeir berjist gegn þér, þá munu þeir eigi fá yfirstigið þig,“ sagði Jehóva. (Jeremía 1:19) En hvers vegna skyldu Gyðingar og höfðingjar þeirra vilja berjast gegn þessum spámanni? Vegna þess að boðskapur hans réðst gegn sjálfsánægju þeirra og formfastri guðsdýrkun. Jeremía hikaði ekki: „Já, orð [Jehóva] er orðið þeim að háði, þeir hafa engar mætur á því. Bæði ungir og gamlir, allir eru þeir fíknir í rangfenginn gróða, og bæði spámenn og prestar [þeir sem hefðu átt að standa vörð um siðferðileg og andleg verðmæti], allir hafa þeir svik í frammi.“ — Jeremía 6:10, 13.
8. Hvernig blekktu prestar og spámenn þjóðina?
8 Að vísu veittu þeir þjóðinni forystu í því að færa fórnir. Til málamynda viðhöfðu þeir réttar trúarathafnir en hjarta þeirra var ekki með í verki. Trúarsiðir voru stærra atriði í þeirra augum en rétt breytni. Trúarleiðtogar Gyðinga veittu þjóðinni falska öryggiskennd með því að segja: „Heill, heill!“ þar sem engin heill né friður var. (Jeremía 6:14; 8:11) Þeir töldu fólki ranglega trú um að það ætti frið við Guð. Þeir töldu sig ekki þurfa að hafa áhyggjur af neinu; þeir voru útvalin þjóð Guðs og áttu hina helgu borg og musteri hennar. En leit Jehóva ástandið sömu augum?
9. Hvaða aðvörun gaf Jeremía þjóðinni varðandi musterið?
9 Jehóva bauð Jeremía að taka sér stöðu fyrir allra sjónum við musterishliðið og flytja þeim guðsdýrkendum, sem gengju þar um, boðskap hans. Hann átti að segja þeim: „Reiðið yður ekki á lygatal, er menn segja: Þetta er musteri [Jehóva], musteri [Jehóva], musteri [Jehóva].‘ . . . á lygaræður, sem ekki eru til nokkurs gagns.“ Gyðingar framgengu eftir því sem þeir sáu, ekki í trú eins og þeir gumuðu af í musterinu. Þeir voru búnir að gleyma varnaðarorðum Jehóva: „Himinninn er hásæti mitt og jörðin er fótskör mín. Hvaða hús munuð þér geta reist mér?“ Jehóva, alvaldur Drottinn þessa firnastóra alheims, var ekki innibyrgður í musteri þeirra þótt dýrlegt væri! — Jeremía 7:1-8; Jesaja 66:1.
10, 11. Hvernig var andlegu ástandi þjóðarinar háttað og er kristni heimurinn eitthvað betur á sig kominn? (2. Tímóteusarbréf 3:5)
10 Jeremía hélt áfram að veita sínar stingandi, opinberu ávítur: „Er ekki svo: Stela, myrða, drýgja hór, sverja meinsæri, færa Baal reykelsisfórnir og elta aðra guði, er þér ekki þekkið, og síðan komið þér . . . og segið: ‚Oss er borgið!‘ og fremjið síðan að nýju allar þessar svívirðingar.“ Gyðingar, útvalin þjóð Guðs, héldu að hann myndi umbera hvers kyns breytni svo lengi sem þeir færðu honum fórnir í musterinu. En ef þeir litu á hann sem tilfinningasaman föður er drekaði við spillt einkabarn áttu þeir eftir að vakna við vondan draum. — Jeremía 7:9, 10; 2. Mósebók 19:5, 6.
11 Guðsdýrkun Júdamanna var komin niður á svo lágt stig í augum Jehóva að hægt var að varpa fram þessari spurningu: „Er þá hús þetta, sem kennt er við nafn mitt, orðið að ræningjabæli í augum yðar?“ Nálega 700 árum síðar var ástandið engu betra þegar Jesús, spámaður meiri en Jeremía, notaði þessu sömu orð til að fordæma þá verslunar- og gróðastarfsemi sem fram fór í hinu endurreista musteri þess tíma. Og ástandið í hinum kristna heimi nútímans er engu betra. — Jeremía 7:11; Matteus 16:14; Markús 11:15-17.
Varðmenn einskis virtir, ógæfa sögð fyrir
12. Hvernig tóku Gyðingar spámönnunum sem Jehóva sendi þeim?
12 Jeremía var ekki fyrsti spámaðurinn sem Guð notaði til að vara Ísrael og Júda við rangri stefnu þeirra. Á rúmlega aldar tímabili fyrir hans dag höfðu spámennirnir Jesaja, Míka, Hósea og Ódeð verið sendir sem varðmenn til að aðvara þjóðina. (Jesaja 1:1; Míka 1:1; Hósea 1:1; 2. Kroníkubók 28:6-9) Hver höfðu verið viðbrögð meirihlutans? „Þá setti ég varðmenn gegn yður: ‚Takið eftir lúðurhljóminum!‘ En þeir sögðu: ‚Vér viljum ekki taka eftir honum.‘“ (Jeremía 6:17; 7:13, 25, 26) Þeir skirrðust við að gefa Jeremía gaum, ofsóttu hann og reyndu að þagga niður í honum. Jehóva ákvað því að þeir myndu þurfa að gjalda hroka síns og vantrúar. — Jeremía 20:1, 2; 26:8, 11; 37:15; 38:6.
13. Hver var grundvöllurinn að dómi Guðs yfir þjóðinni?
13 Þau viðbrögð þjóðarinnar að hafna sendiboðum Jehóva ollu því að hann lét eins og boð út ganga til þjóða jarðarinnar og sagði: „Heyr það, jörð! Sjá, ég leiði ógæfu yfir þessa þjóð! Það er ávöxturinn af ráðabruggi þeirra, því að orðum mínum hafa þeir engan gaum gefið og leiðbeining minni hafa þeir hafnað.“ Hvers vegna átti ógæfa að henda þjóðina? Vegna rangra verka hennar er byggðust á röngum hugsunum. Hún hafnaði orðum Jehóva og lögmáli og fylgdi sínum eigingjörnu, holdlegu tilhneigingum. — Jeremía 6:18, 19; Jesaja 55:8, 9; 59:7.
14. Út í hvaða öfgar fór falsdýrkun þeirra? (Samanber 2. Kroníkubók 33:1-9.)
14 Og hvað voru menn að gera í Júda sem kallaði yfir þá reiði Jehóva? Þeir gerðu fórnarkökur handa „himnadrottningunni.“ Þeir færðu öðrum guðum dreypifórnir til að móðga Jehóva vísvitandi. Þess vegna spyr Jehóva: „En skaprauna þeir mér . . . hvort ekki miklu fremur sjálfum sér, til þess að þeir verði sér herfilega til skammar?“ (Jeremía 7:18, 19) Misgjörðir þeirra, sem voru hreint guðlast, sukku niður á enn lægra stig — þeir settu viðurstyggileg skurðgoð í húsið sem bar nafn Jehóva. Þeir reistu altari fyrir utan Jerúsalem, í Hinnomsdal, „til þess að brenna sonu sína og dætur í eldi.“ Hvaða gjald yrðu þeir að greiða fyrir alla sína fyrirlitningu á sannri guðsdýrkun? — Jeremía 7:30, 31.
Júda geldur fyrir
15. Hvaða slæm tíðindi færði Jeremía Júda?
15 Um árið 632 f.o.t. var Assýría fallin fyrir Kaldeum og Medum og Egyptaland orðið að smáríki suður af Júda. Hin raunverulega ógnun við Júda var innrás úr norðri. Jeremía þurfti því að flytja samlöndum sínum slæmar fréttir! „Sjá, lýður kemur úr landi í norðurátt . . . þeir eru grimmir og sýna enga miskunn. . . . Búnir sem hermenn til bardaga gegn þér, dóttirin Síon.“ Babýlon var upprennandi heimsveldi á þeim tíma. Hún yrði verkfæri Guðs til að refsa hinum trúlausu Júdamönnum. — Jeremía 6:22, 23; 25:8, 9.
16. Hvers vegna var tilgangslaust fyrir Jeremía að biðja þjóðinni griða?
16 Þjónaði það einhverjum tilgangi að Jeremía reyndi að biðja samlöndum sínum griða? Var kannski hægt að komast að einhverri málamiðlun í sambandi við sanna guðsdýrkun? Var Jehóva ef til vill fús til að mæta Gyðingum á miðri leið og fyrirgefa þeim? Afstaða Jehóva var skýr. Hann fyrirskipaði Jeremía að minnsta kosti þrívegis: „Þú skalt ekki biðja fyrir þessum lýð . . . því að ég heyri þig ekki.“ Þessi uggvænlega aðvörun boðar kristna heiminum ekki gott þegar spádómurinn hlýtur aðra og hliðstæða uppfyllingu. — Jeremía 7:16; 11:14; 14:11.
17, 18. Hvernig var dómi Guðs yfir Júda að lokum fullnægt?
17 Hvernig fór fyrir Júda? Nákvæmlega eins og Jehóva hafði látið Jeremía segja fyrir. Í stjórnartíð Jójakíms konungs varð Júda lénsríki hinnar voldugu Babýlonar. Þrem árum síðar gerði Jójakím uppreisn. Þetta flónskuverk leiddi til enn meiri auðmýkingar af hendi Babýloníumanna sem settust um Jerúsalem. Þegar þar var komið sögu var Jójakím látinn og sonur hans Jójakín tekinn við. Í umsátri Babýloníumanna var Júda knésett og Jójakín ásamt allri konungsfjölskyldunni, svo og allar efri stéttir þjóðfélags Gyðinga, fluttur í útlegð til Babýlonar. — 2. Konungabók 24:5-17.
18 Hvað varð um hið helga musteri og alla hina verðmætu og heilögu skrautmuni þess? Þeir reyndust Júda sannarlega enginn verndargripur. Nebúkadnesar „flutti þaðan alla fjársjóðu musteris [Jehóva] og fjársjóðu konungshallarinnar og tók gullið af öllum áhöldum, er Salómon Ísraelskonungur hafði gjöra látið í musteri [Jehóva].“ (2. Konungabók 24:13) Loks gerði Sedekía, sem Babýloníumenn höfðu skipað konung yfir því sem eftir var af Jerúsalem, líka uppreisn gegn yfirdrottnurum sínum. Nú þótti Nebúkadnesar mælirinn fullur. Jerúsalemborg var enn á ný umsetin og árið 607 f.o.t. féll hún fyrir Nebúkadnesar og var lögð algerlega í rúst. — Jeremía 34:1, 21, 22; 52:5-11.
19, 20. Hvað var ólíkt með viðhorfum Júdamanna og Jeremía til þeirrar ógæfu, sem spáð var, og hvernig fór?
19 Þetta var mikil ógæfa fyrir hina ‚útvöldu þjóð‘! En dómar og boðskapur Jeremía hafði sannarlega reynst réttur. Gyðingarnir höfðu lifað í draumaheimi og ímyndað sér að engin ógæfa gæti hent þá, en ‚ógæfuspámaðurinn‘ Jeremía hafði í raun réttri verið raunsæismaður en ekki draumlyndur uppgjafarsinni. (Jeremía 38:4; veittu athygli að orðið „ógæfa“ kemur 64 sinnum fyrir í Jeremíabók.) Sannarlega hafði dómur Jehóva reynst sannur: „Seg við þá: Þetta er þjóðin, sem eigi hlýðir raustu [Jehóva], Guðs síns, og engri umvöndun tekur. Horfin er trúfestin, já, upprætt úr munni þeirra. Þá mun ég láta öll ánægju- og gleðihljóð, öll fagnaðarlæti brúðguma og brúðar hverfa burt . . . því að landið skal verða auðn.“ — Jeremía 7:28, 34.
20 Með þessum sorglega hætti urðu hinir stoltu og sjálfsánægðu Gyðingar að viðurkenna að þótt þeir hefðu ákallað Guð og þóst hafa sérstakt samband við hann hafði það ekki tryggt þeim hjálpræði. Eins og spádómurinn sagði: „Menn vænta hamingju, en ekkert gott kemur, vænta lækningartíma, og sjá, skelfing! Uppskeran er liðin, aldinskurðurinn á enda, en vér höfum eigi hlotið hjálp.“ (Jeremía 8:15, 20) Nú var runnin upp reikningsskilatími fyrir Júda. Hinn geiglausi spámaður Jeremía hlaut hins vegar vernd alla sína þjónustutíð og fékk lokið henni. Hann endaði ævina í útlegð, ekki í Babýlon með svívirtri þjóð heldur í Egyptalandi. Í meira en 65 ár hafði hann óttalaust og trúfastur boðað dóma Guðs.
21. Hvaða spurningar eru okkur nú hugleiknar?
21 En okkur er hugleikið að kanna hvernig ævi og þjónusta Jeremía eigi við okkar tíma. Hver skyldi samsvara Jeremía nú á 20. öldinni? Hvað samsvarar Júda og Jerúsalem? Hvað svarar til ógnunarinnar úr norðri? Greinarnar á eftir munu kanna svörin við þessum spurningum.
Manst þú?
◻ Hvernig brást Jeremía við tilnefningu sinni og hverju svaraði Jehóva?
◻ Hvers vegna eru atburðirnir á dögum Jeremía okkur hugleiknir?
◻ Hvaða trúarlegt ástand fordæmdi Jeremía og á hvað treystu Gyðingar?
◻ Hvernig fór að lokum fyrir Jerúsalem og Júda?
[Innskot á blaðsíðu 18]
Jeremía boðaði leiðtogum Gyðinga og þjóðinni óttalaust dóma Guðs.
[Mynd á blaðsíðu 19]
Konurnar bökuðu fórnarkökur handa „himnadrottningunni.“