Kannt þú að meta það sem heilagt er?
„Stundið frið við alla menn og helgun, því að án hennar fær enginn Drottin litið. . . . Gætið þess, að eigi sé neinn hórkarl eða vanheilagur, eins og Esaú, sem fyrir einn málsverð lét af hendi frumburðarrétt sinn.“ — HEBREABRÉFIÐ 12:14-16.
1. Hvað meta fæstir menn að verðleikum en hvernig eru kristnir menn ólíkir í því?
JEHÓVAH, Guð okkar, er mjög örlátur gjafari. Hann fullnægir ríkulega þörfum alls sköpunarverks síns. Stærstur hluti mannkyns leiðir þó hugann sjaldan að því. Menn hvorki þakka Jehóva né viðurkenna hina miklu skuld sína við hann. Kristnir menn taka á hinn bóginn gæsku Jehóva ekki sem sjálfsagðan hlut. Þeir heiðra hann fyrir það sem hann gerir fyrir þá. Sökum hollustu sinnar við sig hefur Jehóva treyst þjónum sínum fyrir fjölmörgu sem heilagt er og mannkynið í heild fær ekki notið. Þessir heilögu hlutir eru dýrmætir, teknir frá sem heilagir og varða tilbeiðsluna á Jehóva. Veist þú hvað hér er um að ræða? Berð þú djúpa virðingu fyrir því innst í hjarta þínu? — Sálmur 104:10-28; Matteus 5:45; Opinberunarbókin 4:11.
2. Hver sýndi með eftirminnilegum hætti að hann mat ekki rétt það sem heilagt var?
2 Ekki hafa allir þjónar Guðs kunnað að meta það sem heilagt var. Esaú, sonur Ísaks, gerði það til dæmis ekki. Páll talaði um hann í bréfi sínu til smurðra kristinna Hebrea. Eftir að hafa hvatt þá alla til að ‚stunda frið við alla menn‘ varaði hann þá við því að ekki mætti finnast á meðal þeirra „neinn hórkarl eða vanheilagur, eins og Esaú, sem fyrir einn málsverð lét af hendi frumburðarrétt sinn.“ — Hebreabréfið 12:14-16.
3, 4. Hvað fólst í hinum heilaga frumburðarrétti sem Esaú seldi Jakob fyrir baunarétt?
3 Hver var þessi frumburðarréttur? Jehóva hét Abraham, afa Esaús, að af honum og afkomendum hans myndi að síðustu fæðast sá sem yrði sæði fyrirheitsins, Messías eða Kristur. Vegna þessa afkvæmis myndu allar þjóðir jarðar geta aflað sér blessunar er leiða myndi til frelsunar frá synd og dauða. — 1. Mósebók 22:15-18; Galatabréfið 3:16.
4 Frumgetinn sonur Ísaks, Esaú, hafði tækifæri til að vera hlekkur í þeirri keðju er lægi til þessa sæðis. Það var hluti af frumburðarrétti hans. En Biblían segir: ‚Esaú lítilsvirti frumburðarrétt sinn.‘ Í bráðlyndi sínu seldi hann þennan rétt fyrir einn málsverð úr baunakássu og brauði. Við viljum svo sannarlega ekki líkja eftir þessu virðingarleysi hans. Við ættum þess í stað að þroska með okkur viðhorf Jakobs, bróður Esaús. Hann var næstur í röðinni að hljóta frumburðarréttinn sem hann keypti sökum þess að bróðir hans kunni augljóslega ekki að meta hann. Jakob tryggði þannig að rétturinn til að vera forfaðir hins fyrirheitna sæðis kæmi í hlut þess sem kunni að meta gildi þessara heilögu sérréttinda. — 1. Mósebók 25:27-34.
5. Hvaða heilög atriði munum við nú skoða og hvernig getum við forðast að ganga að þeim sem gefnum hlut?
5 Innan kristna safnaðarins hefur Jehóva séð fyrir mörgum heilögum ráðstöfunum til að halda okkur andlega sterkum og fullbúnum fyrir þjónustu hans. Við skulum ræða um allmargar þeirra. Síðan getum við hvert og eitt hugleitt þær og aukið jákvætt mat okkar á þeim þannig að við tökum þær aldrei sem sjálfsagðan hlut.
Nafn Jehóva og lausnargjald — mjög heilagt
6. Á hvaða vegu getum við sýnt að við tökum ekki heilagleika nafns Jehóva sem sjálfsagðan hlut?
6 Nafn Jehóva er efst á listanum yfir það sem heilagt er. Hve háleitan sess skipar þetta nafn í hugum okkar og hjörtum? Í fyrirmyndarbæn sinni sagði Jesús fyrst: „Helgist þitt nafn.“ (Matteus 6:9) Þegar við létum skírast urðum við vottar Jehóva. (Jesaja 43:10, 11) Hvílíkur heiður! Og þegar við tölum um gæsku Jehóva og dýrlegan tilgang fá aðrir að kynnast einkanafni hans og þeir vilja þjóna honum líka. En ef við vanrækjum að tala um hann eða, það sem verra er, förum út í ranga breytni, er það hinu góða nafni og mannorði Jehóva til minnkunar. Trúfastir kristnir vottar Jehóva kappkosta að helga alltaf heilagt nafn hans frammi fyrir öðrum með öllu sem þeir segja og gera. — 3. Mósebók 22:31, 32; 5. Mósebók 5:11.
7. Hvers vegna ættum við að meta lausnarfórn Jesú mjög mikils?
7 Lausnargjaldið er ofarlega á listanum um það sem heilagt er. Hve dýrmæt er fórn Krists í huga þér? Það er aðeins vegna algerrar trúar á þessa fullkomnu mannsfórn sem við getum fengið syndir okkar fyrirgefnar. (1. Jóhannesarbréf 2:1, 2) Páll talar svo um hinn smurða söfnuð að hann sé ‚keyptur með blóði sonar Guðs.‘ (Postulasagan 20:28; samanber 1. Pétursbréf 1:17-19.) Jesús, hinn eingetni sonur Guðs, afsalaði sér stöðu sinni á himnum, bjó á jörðinni meðal syndugra karla og kvenna og fórnaði síðan fullkomnu mannslífi sínu í kvalafullum dauða á aftökustaur til að við gætum hlotið eilíft líf. (Matteus 20:28) Það væri hámark vanþakklætisins ef við sýndum ekki dag hvern að við kynnum að meta þessa dýrmætu gjöf Guðs. — Hebreabréfið 10:28, 29; Júdasarbréfið 4, 5.
Samband okkar við Jehóva og skipulag hans
8. Hversu dýrmætt er samband okkar við Jehóva?
8 Þetta leiðir okkur að öðru, mjög heilögu atriði, sambandi okkar við Jehóva. Svo sannarlega ættum við að meta mikils þetta nána samband sem við eigum við okkar himneska föður. Ef við ‚nálægjum okkur Guði mun hann nálægjast okkur.‘ (Jakobsbréfið 4:8) Hann elskar okkur innilega og vill að við elskum hann af öllu hjarta. (Matteus 22:37, 38; Jóhannes 3:16) Davíð gaf Salómon, syni sínum, holl ráð um samband hans við Jehóva. Meðal annars gaf hann þessa aðvörun: „Og þú, Salómon, sonur minn, lær að þekkja Guð föður þíns og þjóna honum af öllu hjarta og með fúsu geði, því að [Jehóva] rannsakar öll hjörtu og þekkir allar hugrenningar. Ef þú leitar hans, mun hann gefa þér kost á að finna sig; ef þú yfirgefur hann, mun hann útskúfa þér um aldur.“ (1. Kroníkubók 28:9) Þess vegna „varðveitið sjálfa yður í kærleika Guðs, og bíðið eftir náð Drottins vors Jesú Krists til eilífs lífs.“ — Júdasarbréfið 21.
9. Á hvaða vegu getum við sýnt að við tökum ekki sem sjálfsagðan hlut þau sérréttindi að tilheyra skipulagi Jehóva?
9 Metur þú líka að verðleikum þau heilögu sérréttindi að vera hluti af skipulagi Jehóva? Við verðum öll að muna að við tilheyrum því aðeins vegna óverðskuldaðrar náðar Jehóva. Ef einhver reynist ekki kunna að meta það og verður forhertur syndari glatar hann þessum sérréttindum. Páll aðvaraði: „Sá, er hyggst standa, gæti því vel að sér, að hann falli ekki.“ (1. Korintubréf 10:6-12) Páll gaf þessa aðvörun eftir að hafa sagt frá þeim 23.000 Ísraelsmönnum sem týndu lífi vegna skurðgoðadýrkunar og siðleysis. Við getum hvert og eitt sýnt að við kunnum að meta heilagleika skipulags Jehóva með því að leggja okkar af mörkum til að halda því lausu við óhreinleika, siðleysi, deilur, kaupmennsku, yfirlæti og fordóma. (2. Korintubréf 7:1; 1. Pétursbréf 1:14-16) Við getum unnið að því að styrkja bönd bróðurkærleikans, fylgja nákvæmlega guðræðislegri skipan og vera samstarfsfúsir við þá sem með forystuna fara. — 1. Þessaloníkubréf 4:3-8; 5:12, 13.
Orð Guðs, lög og von um ríkið
10. Hvernig sýnum við að við metum Heilaga ritningu að verðleikum?
10 Innblásið orð Guðs, heilög Biblía, er einnig heilagt. Það geymir yfirlýsingar Guðs, fyrirmæli, heilræði, fyrirheit, opinberanir, já, allt sem við þurfum til að ‚vera hæf gjör til sérhvers góðs verks.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Hvernig getum við sýnt að við kunnum að meta það? Í fyrsta lagi með því að nema það og heimfæra á líf okkar það sem við lærum. Í öðru lagi með því að taka til okkar þann „mat á réttum tíma“ sem byggður er á Biblíunni og Jehóva miðlar okkur fyrir milligöngu hins ‚trúa og hyggna þjóns.‘ (Matteus 24:45) Og af hagsýnisástæðum þurfum við að halda einkaeintaki okkar af Biblíunni, svo og þeim kristnu ritum sem við notum í prédikunarstarfi okkar, hreinum og snyrtilegum. Það gæti kastað rýrð á Jehóva ef við færum út til að bera vitni og notuðum biblíu sem væri mjög óhrein eða illa útlítandi.
11. Hvers vegna ættum við ekki að ganga að heilögum lögum Jehóva sem gefnum hlut?
11 Í orði Guðs eru heilög lög Jehóva. Lítur þú alltaf á þau sem heilög eða hefur þú stundum tilhneigingu til að taka lítið mark á þeim? Lög Jehóva eru eins og umferðarmerki og öryggisgirðing meðfram veginum til lífsins. Ef við hlýðum þeim verður ferð okkar farsæl og við náum að lokum á áfangastað í hinum nýja heimi Jehóva; en ef við tökum ekki fullt mark á boðum Jehóva og áminningum erum við að kalla yfir okkur slys. — Sálmur 119:10, 11, 35, 101, 102; Orðskviðirnir 3:1-14.
12. Með hvaða hætti er von okkar um Guðsríki heilög?
12 Í Biblíunni lærum við líka um annað sem er heilagt og ætti að vera okkur hjartfólgið: vonina um Guðsríki. Páll segir í Hebreabréfinu 11:10 og er þar að tala um hinn trúfasta Abraham: „Því að hann vænti þeirrar borgar [Guðsríkis], sem hefur traustan grunn, þeirrar, sem Guð er smiður að og byggingarmeistari.“ Hefur þú sams konar sterka, varanlega von um Guðsríki? Er trú þín svo sterk að engar efasemdir komist að í hjartanu og er kostgæfni þín óskert meðan þú bíður þess að tilgangur Guðs uppfyllist á tilsettum tíma hans? — Matteus 24:20-22, 33, 34, 42.
Heilagar samkomur og sérréttindi
13. Hvers vegna ættum við ekki að taka gagnið af hinum kristnu samkomum sem gefið?
13 „Hvetjum hver annan til kærleika og góðra verka. Vanrækið ekki safnaðarsamkomur yðar eins og sumra er siður,“ ráðlagði Páll. Þetta gefur til kynna að kristnar samkomur séu önnur heilög ráðstöfun sem ekki má gera lítið úr. Á samkomunum fáum við lífsnauðsynlega fræðslu og góðan félagsskap sem við höfum brýna þörf fyrir. Þar getum við líka ‚haldið fast við játningu vonar vorrar‘ með því að tala frá ræðupallinum eins og við höfum tækifæri til og með því að gefa reglulega athugasemdir. (Hebreabréfið 10:23-25) Og með því að Ríkissalurinn er sá staður þar sem flestar samkomur okkar eru haldnar, leggur þú þá reglulega fram fé og vinnu til þess að tryggja fullnægjandi viðhald hans? — 2. Mósebók 35:21.
14. Hvað getur hjálpað okkur að meta hina kristnu þjónustu sem heilagan fjársjóð?
14 Páll postuli líkir þeim sérréttindum kristinna manna að prédika fagnaðarerindið við ‚fjársjóði í leirkerum.‘ (2. Korintubréf 4:1, 7) Já, hin kristna þjónusta er líka heilög sérréttindi sem við metum mjög mikils. Enda þótt flestir, sem við prédikum fyrir, sýni takmarkaðan áhuga, ættum við að halda áfram að minna okkur á þau háleitu sérréttindi sem það er að segja öðrum frá Jehóva og tilgangi hans. Þannig framfylgjum við þeirri skipun að prédika fagnaðarerindið um ríki Guðs og gera menn að lærisveinum. (Matteus 24:14; 28:19, 20) Það að sjá nýja lærisveina taka framförum er okkur enn frekara gleðiefni. (1. Þessaloníkubréf 2:19, 20) Ef við metum þjónustuna mikils munum við ekki vera óregluleg eða óvirk í því að boða fagnaðarerindið.
15. Hvers vegna má ekki sýna léttúð gagnvart sérréttindum innan skipulags Jehóva?
15 Sérréttindi innan skipulags Jehóva eru líka heilög. Slík sérréttindi eru í raun réttri heilagt trúnaðarstarf. (Samanber Postulasöguna 20:28.) Hvort heldur ábyrgðin felur í sér umsjón, hjarðgæslu, kennslu eða einhverja aðra þjónustu við kristna bræður skalt þú leggja sérstaka rækt við hana. Jafnvel þótt verkið virðist lítilvægt skalt þú ekki láta þér það í léttu rúmi liggja heldur gera það fljótt og vel eins og Jehóva eigi í hlut. Mundu að „sá sem er trúr í því smæsta, er einnig trúr í miklu.“ — Lúkas 16:10.
Hjónaband og fjölskylda
16. Á hvaða vegu getum við sýnt að við metum hjónaband og fjölskyldu sem heilaga?
16 Ekki má gleyma að nefna hjónaband og fjölskyldu þegar tíundað er það sem heilagt er. Að vísu ganga þeir sem ekki eru kristnir líka í hjónaband, en kristnir menn líta á hjónabandið sem heilagt, innifalið í tilbeiðslu þeirra á Jehóva. (Samanber 1. Pétursbréf 3:1-7.) Hvernig sýna þeir virðingu fyrir hjónabandi og fjölskyldu? Biblían segir í Hebreabréfinu 13:4: „Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum og hjónasængin sé óflekkuð, því að hórkarla og frillulífismenn mun Guð dæma.“ Jesús varaði líka við því að halda áfram að horfa á konu með girndarhug því að það jafngilti því að drýgja hór í hjarta sér. (Matteus 5:27, 28) Ef þú kýst að ganga í hjónaband skalt þú gera það með heiðvirðum hætti. Líttu aldrei á hjónaband þitt sem sjálfsagðan hlut. Byggðu upp ósvikna ást og djúpa virðingu dag hvern. Ef þú átt börn skalt þú ‚ala þau upp í aga og umvöndun Jehóva.‘ Með þeim hætti verður fjölskylda þín „heilög.“ — Efesusbréfið 6:4; 1. Korintubréf 7:14.
Heilagur andi Jehóva og bænin
17. Hvers vegna getum við ekki gengið að heilögum anda Guðs sem gefnum hlut?
17 Við þörfnumst allra ráðstafana Jehóva og heilagur andi er ein þýðingarmikil hjálp frá honum. (Jóhannes 14:26) Við vitum ekki alltaf með hvaða hætti Jehóva notar heilagan anda sinn í okkar þágu, en eitt er víst: Við komumst ekki af án hans. Við ættum að biðja um heilagan anda til að hjálpa okkur að skilja hinar sönnu kenningar og halda út prófraunir. Við þörfnumst hans til að rækta ávöxt andans. (Galatabréfið 5:22, 23) Og við erum vöruð við því í Efesusbréfinu 4:30 að ‚hryggja‘ heilagan anda með því að flækja okkur í einhverju því sem myndi takmarka streymi hans til okkar. Megum við alltaf meta heilagan anda Jehóva að verðleikum.
18. Hvers vegna er bænin heilög sérréttindi?
18 Síðustu heilögu sérréttindin sem við munum ræða um, en ekki þau þýðingarminnstu, er bænin. Það eru mikil sérréttindi að geta talað við drottinvald alheimsins, Jehóva! Augljóslega ættum við að nálgast hann með djúpri virðingu og lotningu, aldrei með léttúð. Við getum treyst að hann heyri og svari bænum okkar sem eru bornar fram í samræmi við vilja hans. „Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð.“ (Filippíbréfið 4:6) Bænin mun hjálpa okkur að meta það sem heilagt er að verðleikum.
19. Hvaða blessun hljóta þeir sem meta að verðleikum það sem heilagt er?
19 Við höfum rætt hér um aðeins þréttán heilög atriði sem við ættum aldrei að taka sem sjálfsagðan hlut. Hægt væri að nefna miklu fleiri. Ef við metum allt slíkt að verðleikum munum við varðveita gott samband við Guð okkar, Jehóva, og njóta daglegrar blessunar hans. Það veitir mikinn hugarfrið og góða samvisku! Líttu aldrei á þetta dýrmæta samband sem sjálfsagðan hlut! Elskaðu Jehóva af öllu hjarta, huga, sálu og mætti og þá mun hann alltaf elska þig. (1. Jóhannesarbréf 4:16) Ekkert nema þín eigin ótrúfesti getur slitið það kærleiksband. — Rómverjabréfið 8:38, 39.
20. Hvernig getum við gengið farsællega veginn til lífsins í nýjum heimi Jehóva?
20 Við skulum líka vera önnum kafin í þjónustu Guðsríkis og sinna vel öllum sérréttindum og meta allar andlegar ráðstafanir að verðleikum. Megi hjörtu okkar alltaf vera full þakklætis og megum við vera vökul fyrir því að hlýða öllum heilögum lögum og áminningum Jehóva, þess minnug að þau hafa verið sett til að leiða okkur öruggum skrefum um lífsins veg. Og þegar við höldum áfram að ganga mjóa veginn sem liggur til lífsins er líklegt að Jehóva muni ekki aðeins vernda líf okkar í gegnum þrenginguna miklu heldur líka gefa okkur eilíft líf og endalausa blessun í nýjum heimi sínum sem er svo nálægur. Allt þetta mun veitast okkur þegar við metum það sem heilagt er að verðleikum.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvernig getum við forðast að taka nafn Jehóva og lausnarfórnina sem sjálfsagðan hlut?
◻ Hvað gæti leitt í ljós að við kynnum ekki að meta samband okkar við Jehóva og skipulag hans að verðleikum?
◻ Nefndu nokkur atriði sem sýna að við kunnum að meta orð Guðs og lög og vonina um Guðsríki.
◻ Hvernig getum við sýnt að við tökum ekki kristnar samkomur og guðræðisleg sérréttindi sem sjálfsagðan hlut?
◻ Nefndu nokkur fleiri heilög atriði sem við ættum að læra að meta mikils.