Hvar eru látnir ástvinir okkar núna?
„HVAR er litli drengurinn núna?“ Hin harmþrungna móðir, sem minnst var á í greininni á undan, hugsaði löngum stundum um það hvert barnið hennar hefði farið. Var það á himnum eða einhverjum öðrum stað?
Móðir Andrews fékk fljótlega svar við spurningu sinni. Elsta barnið hennar, sem var rómversk-kaþólskrar trúar einnig, sagði þegar það fregnaði dauða bróður síns: „Andrew er í limbus.“ En var hann þar?
Hvar eða hvað er limbus?
Ensk-íslensk orðabók eftir Sören Sörenson segir að limbus (limbo á ensku) sé „(í kaþólskri trú) forgarður helvítis, staður óskírðra barna og annarra þeirra sem ekki hljóta blessun Krists í lifanda lífi en teljast þó ekki til syndara.“ Kaþólsk alfræðibók, New Catholic Encyclopedia, segir um limbus: „Guðfræðingar nota þetta hugtak nú á dögum til að lýsa ástandi og dvalarstað sálna sem annaðhvort verðskulduðu ekki helvítisvist og eilífa refsingu þar, en komust ekki heldur til himna fyrir endurlausnina (limbus feðranna), eða þeirra sálna sem eru um eilífð útilokaðar frá himneskri sælu vegna frumsyndarinnar einnar (limbus barnanna).“
En sama alfræðibók segir einnig: „Örlög ungbarna, sem deyja óskírð, er einkar flókið vandamál . . . Ráðgátan um limbus er enn ein af hinum óráðnu gátum guðfræðinnar. Kirkjan hefur enga opinbera yfirlýsingu gefið um limbus.“ Alfræðibókin The New Encyclopædia Britannica staðfestir það og segir: „Þar eð rómversk-kaþólska kirkjan hefur aldrei opinberlega gengist við þeirri kenningu að limbus sé til sem staður eða ástand er spurningin um limbus enn óútkljáð.“
Þrátt fyrir það trúir margt kaþólskra manna á tilvist limbus. En íhugaðu vandlega eftirfarandi: Hvers vegna ættu börn að vera dæmd til eilífrar vistar á dularfullum, óskiljanlegum stað, vegna þess eins að þau voru óskírð?
Er getið um limbus í Biblíunni? Nei, orð Guðs minnist ekki á það einu orði. Það vekur því þá þýðingarmiklu spurningu hvert menn, og þar með talin börn, fari þegar þeir deyja.
Hvert fara menn við dauðann?
Meðal kirkjurækinna manna kristna heimsins er sú skoðun almenn að fólk fari annaðhvort til himins eða helvítis þegar það deyr. En hvað segir Biblían um það? Hún segir: „Því að þeir sem lifa, vita að þeir eiga að deyja, en hinir dauðu vita ekki neitt.“ (Prédikarinn 9:5) Hinir dauðu eru því án meðvitundar. Þeir eru ekki lifandi einhvers staðar heldur bókstaflega og algerlega dánir. Þeir hafa alls enga meðvitund.
Sálmarnir í Biblíunni staðfesta þessa fullyrðingu með eftirfarandi orðum: „Eigi lofa andaðir menn [Jehóva], né heldur neinn sá, er hniginn er í dauðaþögn.“ (Sálmur 115:17) „Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt. Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu.“ — Sálmur 146:3, 4.
En hvað um sálina? Er hún ekki ódauðleg? Nei. Gagnstætt því sem flestir trúa er sálin ekki ódauðleg. Þessi staðreynd stendur skýrum stöfum í Biblíunni sem segir: „Sú sálin, sem syndgar, hún skal deyja.“ (Esekíel 18:4, 20) Frekari staðfestingu þessa er að finna í Postulasögunni 3:23 sem segir: „Sérhver sá [á grísku psykhe, sál], sem hlýðir ekki á þennan spámann [Jesú], skal upprættur verða úr lýðnum.“
Er dauðinn endir alls?
Dauðinn þarf þó ekki að vera endir alls. Biblían kennir á skýran hátt upprisu dauðra. Jesús sagði: „Undrist þetta ekki. Sú stund kemur, er allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans og ganga fram, þeir, sem gjört hafa hið góða, munu rísa upp til lífsins, en þeir, sem drýgt hafa hið illa, til dómsins.“ (Jóhannes 5:28, 29) Enn fremur reisti Jesús upp frá dauðum nokkra einstaklinga meðan þjónusta hans á jörð stóð yfir. Af þeim er undraverðust upprisa Lasarusar, vinar Jesú. Hann hafði verið látinn í fjóra daga. En þegar Jesús hrópaði: „Lasarus, kom út!“ stóð hinn dáni upp og kom út úr gröfinni. Fögnuður mannfjöldans, sem á horfði, var ólýsanlegur! Og sannarlega var mikil gleði þeirra Maríu og Mörtu, systra Lasarusar! — Jóhannes 11:38-45.
Hvar hafði Lasarus verið þessa fjóra daga? Á himnum? Í limbus? Nei. Biblían hvorki segir það né gefur til kynna. Ef Lasarus hefði verið með meðvitund einhvers staðar hefði hann vafalaust sagt öðrum frá því, en eins og Biblían segir ‚vita hinir dauðu ekki neitt.‘ — Prédikarinn 9:5.
Annar hjartnæmur atburður átti sér stað í grennd við borgina Nain. Jesús var á leiðinni að borgarhliðinu þegar hann mætti líkfylgd. Hinn látni var ‚einkasonur móður sinnar sem var ekkja.‘ Að sjálfsögðu grét hún beisklega. Jesús kenndi í brjósti um hana, gekk að líkfylgdinni, stöðvaði hana og sagði: „Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!“ Og hinn dáni reis upp! Getur þú ímyndað þér ofsagleði móðurinnar og undrun þeirra sem á horfðu? — Lúkas 7:11-17.
Hafði ungi maðurinn einhver orð um það að hann hefði verið á himnum eða í limbus? Nei. Hvernig gat hann það? „Hinir dauðu vita ekki neitt.“ Biblían líkir dauðanum einnig við djúpan svefn. Davíð sagði: „Svara mér, [Jehóva], Guð minn, hýrga augu mín, að ég sofni ekki svefni dauðans.“ (Sálmur 13:4) Jesús líkti dauðanum líka við svefn rétt áður en hann reisti Lasarus upp. — Jóhannes 11:11-14.
En hér vaknar önnur spurning:
Fara einhverjir góðir menn til himna?
Já, sumt gott fólk fer til himna. Fæst af kirkjunnar fólki gerir sér grein fyrir þeirri athyglisverðu staðreynd varðandi gott fólk, eða sannkristna menn, að um tvo hópa er að ræða. Lítill minnihluti fer til himna til að ríkja með Jesú Kristi en meirihlutinn hlýtur eilíft líf á jörðinni. Vera kann að það komi þér á óvart. Við skulum því skoða hvað Biblían hefur að segja um þetta athyglisverða mál.
Hver var í upphafi tilgangur Guðs með mannkynið? Þegar hann skapaði Adam og Evu, ætlaðist hann þá til að þau lifðu um hríð í Edengarðinum en dæju síðan og færu til himna? Nei. Guð fól þeim sérstakt verkefni varðandi jörðina og sagði: „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni.“ (1. Mósebók 1:28) Og Jehóva hefur ekki breytt þeim tilgangi sínum. Hann lýsir yfir í Sálmi 89:35: „Ég vil . . . eigi breyta því, er mér hefir af vörum liðið.“ Paradís unaðarins verður því endurreist og þar er trúföstum þjónum Jehóva ætlað að búa — stærri hópnum sem nefndur var hér á undan.
Minnihlutahópnum eru fengin mjög einstæð sérréttindi, þau að ríkja með Kristi á himnum. Meðlimir hans munu með öðrum orðum ásamt Jesú fara með stjórn yfir þeim sem búa á jörðinni. Þar er um að ræða Guðsríki sem kristnir menn biðja um í faðirvorinu. Athyglisvert er að í sömu bæn segir: „Verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ — Matteus 6:9, 10.
Gefur Biblían til kynna hve margir eigi að fá að njóta þeirra miklu sérréttinda að ríkja með Kristi á himnum? Já, hún gerir það. Opinberunarbókin 14. kafli, 1. vers segir: „Enn sá ég sýn: Lambið stóð á Síonfjalli og með því hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir, sem höfðu nafn þess og nafn föður þess skrifað á ennum sér.“ Hafðu í huga að Opinberunarbókin notar margar táknmyndir eins og lýst er í fyrsta versi hennar, Opinberunarbókin 1:1. (Ísl. bi. 1912) „Lambið“ er Jesús Kristur. (Samanber Jóhannes 1:29.) Síonfjall er ekki hin pólitíska höfuðborg Ísraels heldur ‚hin himneska Jerúsalem.‘ — Hebreabréfið 12:22.
Opinberunarbókin 7. kafli segir okkur frá bæði himneska hópnum og hinum jarðneska sem við höfum getið um. Vers 4-8 segir að hinar 144.000 ‚af öllum ættkvíslum Ísraelssona séu merktar innsigli.‘ Hér er annað dæmi um táknmynd þar sem átt er við hinn andlega Ísrael eða „Ísrael Guðs.“ (Galatabréfið 6:16) Rómverjabréfið 2:29 segir: „Sá er Gyðingur, sem er það hið innra, og umskurnin er umskurn hjartans í anda.“ Opinberunarbókin 7:9 lýsir síðan jarðneska hópnum og segir: „Sjá: Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum.“
Góðir menn munu búa á jörðinni
Milljarðar góðra manna munu búa í paradís á jörð. (Lúkas 23:43) Langar þig til að vera í hópi þeirra? Að sjálfsögðu langar þig til þess. Það eru stórfengleg sérréttindi að geta búið á hreinsaðri jörð sem er laus við mengun, hungur, glæpi, sjúkdóma, þjáningar og hina hræðilegu ógn kjarnorkustyrjaldar! Lofar Biblían í alvöru einhverju slíku? Já, það gerir hún. Hún segir: „Illvirkjarnir verða afmáðir, en þeir er vona á [Jehóva], fá landið til eignar. . . . Hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu. Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ — Sálmur 37:9, 11, 29; samanber Matteus 5:5.
Hvað þá um börnin sem hafa dáið? Fá þau líka að vera með á jörð sem verður paradís? Ekki fara þau í limbus sem ekki er til. Börn, sem Guð minnist, munu koma fram í upprisu dauðra — en það er eitt af hinum dýrlegu fyrirheitum í orði Guðs eins og við höfum þegar veitt athygli. (Jóhannes 5:28, 29; Postulasagan 24:15) Ef til vill hefur þú misst ástvini í dauðann og oft velt fyrir þér hvar þeir séu núna. Út af ritningunni er ljóst að þeir eru sofandi og bíða upprisu. Fýsir þig að fræðast meira um þessa stórfenglegu von um líf á jörð sem verður paradís? Ef svo er hvetjum við þig til að ræða þessi mál við votta Jehóva næst þegar þeir knýja dyra hjá þér.
[Innskot á blaðsíðu 6]
Sumir góðir menn fara til himna. Hverjir eru það?
[Mynd á blaðsíðu 5]
Hvar var Lasarus meðan hann var dáinn?
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 7]
Ljósmyndin er tekin í grasagarðinum í Brooklyn.