Heyrið hvað andinn segir söfnuðunum
„Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.“ — OPINBERUNARBÓKIN 3:22.
Efnið á blaðsíðu 10 til 19 kom fram á landsmóti votta Jehóva, „Réttlæti Guðs,‘ árið 1988, í ræðusyrpu undir heitinu „Tíminn er í nánd.“
1. Hvaða orð Opinberunarbókarinnar eru fagnaðartíðindi á þessari óhamingjuöld, og hvaða ‚spádómsorð‘ og ‚tíma‘ er átt við?
FYRIR nokkrum árum sagði félagsfræðingur í Bandaríkjunum að fólk þar í landi hefði of mikið frelsi en ekki næga hamingju. Hann bætti við: „Fólki finnst hamingjan hafa gengið sér úr greipum. Paradísin, sem það lofaði sjálfu sér, hefur reynst innantóm.“ Í ljósi þessa eru orð Jóhannesar postula í Opinberunarbókinni 1:3 góð tíðindi, vegna þess að hann segir okkur hvernig við getum höndlað hamingjuna. Jóhannes skrifaði: „Sæll er sá, er les þessi spádómsorð, og þeir, sem heyra þau og varðveita það, sem í þeim er ritað, því að tíminn er í nánd.“ ‚Spádómsorðin,‘ sem hann á við, eru þau sem skráð eru í Opinberunarbókinni. Og „tíminn,“ sem hér er talað um, er sá tími þegar spádómar Opinberunarbókarinnar verða að rætast. Orð Jóhannesar hafa mjög djúptæka merkingu fyrir okkur nútímamenn.
2. Hverju hlýtur Jóhannes að hafa verið að velta fyrir sér þegar nálgaðist lok fyrstu aldar?
2 Meira en 60 árum áður en Jóhannes færði Opinberunarbókina í letur var hann viðstaddur þann atburð á hvítasunnunni þegar kristni söfnuðurinn var stofnsettur. Núna, árið 96, hafði þessi söfnuður stækkað úr sínum upphaflegu 120 meðlimum í stór alþjóðasamtök. En ýmis vandamál höfðu komið upp. Alveg eins og Jesús, Páll og Pétur höfðu varað við voru fráhvarfshugmyndir og sértrúarstefna farin að skjóta upp kollinum og Jóhannes hlýtur að hafa velt mjög fyrir sér hvað framtíðin bæri í skauti sínu. — Matteus 13:24-30, 36-43; Postulasagan 20:29, 30; 2. Pétursbréf 2:1-3.
3. Fyrir hverju voru sýnirnar, sem Jóhannes sá og skráði, trygging?
3 Við getum því ímyndað okkur gleði hans þegar honum var veitt „opinberun Jesú Krists, sem Guð gaf honum til að sýna þjónum sínum það sem verða á innan skamms.“ (Opinberunarbókin 1:1) Í röð mikilfenglegra sýna sá hann að tilgangur Jehóva myndi fullnast og að trúföstum kristnum mönnum yrði ríkulega umbunað þolgæði sitt. Hann fékk líka boðskap frá Jesú ætlaðan sjö söfnuðum, en það voru í raun síðustu beinu leiðbeiningar Jesú til kristinna manna allt þar til hann kæmi aftur sem dýrlegur konungur Guðsríkis.
Söfnuðirnir sjö
4. (a) Hver er ábyrgð trúfastra kristinna safnaða? (b) Hvað er gefið í skyn með því að smurðir öldungar skuli birtast sem sjö stjörnur í hægri hendi Krists?
4 Þessum sjö söfnuðum smurðra kristinna manna var líkt við sjö ljósastikur og hinum smurðu öldungum innan þeirra við sjö stjörnur í hægri hendi Krists. (Opinberunarbókin 1:12, 16) Í þessari myndríku lýsingu sá Jóhannes að trúfastir kristnir söfnuðir yrðu að vera ljósberar, eins og lýsandi ljósastikur í myrkum heimi. (Matteus 5:14-16) Að Jesús skyldi halda öldungunum í hægri hendi sinni sýndi að hann leiddi öldungana, leiðbeindi þeim og stjórnaði.
5. Til hverra var boðskapnum til safnaðanna sjö beint á dögum Jóhannesar?
5 Jesús segir Jóhannesi: „Rita þú í bók það sem þú sérð og send það söfnuðunum sjö, í Efesus, Smýrnu, Pergamos, Þýatíru, Sardes, Fíladelfíu og Laódíkeu.“ (Opinberunarbókin 1:11) Þessir söfnuðir voru til á dögum Jóhannesar og við megum vera viss um að þegar Jóhannes lauk ritun Opinberunarbókarinnar fékk hver söfnuður sitt eintak. En tökum eftir því sem Dictionary of the Bible eftir Hastings segir um Opinberunarbókina: „Tæplega er nokkur önnur bók Nýjatestamentisins jafnvel vottfest á annarri öld.“ Það merkir að Opinberunarbókin var þekkt og lesin ekki aðeins í söfnuðunum sjö heldur af mörgum öðrum sem vildu rannsaka spádómsorðin. Leiðbeiningar Jesú voru ætlaðar öllum smurðum kristnum mönnum.
6, 7. (a) Hvenær eiga orð Opinberunarbókarinnar fyrst og fremst við og hvernig vitum við það? (b) Hverja tákna stjörnurnar sjö og söfnuðirnir sjö núna?
6 En boðskapurinn til safnaðanna sjö átti ekki aðeins erindi til kristinna manna á fyrstu öld. Í Opinberunarbókinni 1:10 segir Jóhannes: „Ég var hrifinn í anda á Drottins degi.“ Þetta vers er þýðingarmikill lykill að skilningi á Opinberunarbókinni. Það gefur til kynna að hún eigi fyrst og fremst við um atburði á „Drottins degi“ sem hófst þegar Jesús varð konungur árið 1914. Boðskapur Jesú til safnaðanna sjö staðfestir þann skilning. Í honum finnum við orð lík þeim sem beint er til safnaðarins í Pergamos: ‚Ég kem skjótt til þín.‘ (Opinberunarbókin 2:16; 3:3, 11) Eftir árið 96 ‚kom‘ Jesús ekki með neinum markverðum hætti fyrr en hann var krýndur sem konungur árið 1914. (Postulasagan 1:9-11) Þá ‚kom‘ hann aftur árið 1918 til musterisins til að dæma fyrst fólk Guðs, og uppfyllti með því Malakí 3:1. (1. Pétursbréf 4:17) Hann mun ‚koma‘ einu sinni enn í náinni framtíð þegar hann „lætur hegningu koma yfir þá, sem þekkja ekki Guð, og yfir þá, sem hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú.“ — 2. Þessaloníkubréf 1:7, 8; Matteus 24:42-44.
7 Með það í huga skiljum við að söfnuðirnir sjö tákna alla söfnuði smurðra kristinna manna eftir 1914, og stjörnurnar sjö tákna alla smurða öldunga í þeim söfnuðum. Í víðara samhengi eru öldungar af ‚öðrum sauðum‘ einnig í hægri hendi og undir stjórn Jesú. (Jóhannes 10:16) Og heilræðin til safnaðanna sjö eiga í grundvallaratriðum við alla söfnuði þjóna Guðs nú á tímum um allan heim, þeirra á meðal þá sem myndaðir eru af kristnum mönnum með jarðneska von.
8. Hvaða ástand fann Jesús þegar hann kom til að rannsaka þá er játuðu sig kristna árið 1918?
8 Þegar Jesús kom til að rannsaka þá sem játuðu kristna trú árið 1918 fann hann smurða kristna menn á jörðinni sem gerðu sitt ýtrasta til að halda orð spádómsins. Allt frá 8. áratug 19. aldar höfðu þeir varað fólk við mikilvægi ársins 1914. Þeir höfðu mátt þola margt af hendi kristna heimsins í fyrri heimsstyrjöldinni, og árið 1918 hafði starf þeirra nánast stöðvast þegar helstu forystumenn Varðturnsfélagsins voru fangelsaðir á fölskum forsendum. En það sem dreif á daga þeirra á þeim tíma kemur stórkostlega heim og saman við spádóma Opinberunarbókarinnar. Og einbeitni þeirra í að hlýða orðum Jesú til safnaðanna sjö sýndi svo ekki var um að villast að þeir voru einu kristnu ljósberarnir í þessum myrkvaða heimi. Þessar leifar mynda núna Jóhannesarhóp sem lifir það að sjá og taka þátt í uppfyllingu margra af spádómum Opinberunarbókarinnar.
Hrós og heilræði
9, 10. Uppfylling hvaða orða Jesú veitti kristnum nútímamönnum mikla hamingju? Skýrðu svar þitt.
9 Í Opinberunarbókinni 3:8 sagði Jesús söfnuðinum í Fíladelfíu: „Ég þekki verkin þín. Sjá, ég hef látið dyr standa opnar fyrir þér, sem enginn getur lokað. Þú hefur lítinn mátt, en hefur varðveitt orð mitt og ekki afneitað nafni mínu.“ Ljóst er að kristnir menn í Fíladelfíu höfðu verið starfssamir og að nú voru þeim að opnast dyr nýrra tækifæra.
10 Nútímaveruleiki þessa boðskapar gerði þjóna Guðs mjög hamingjusama. Eftir hina örðugu lífsreynslu þeirra 1918 var þeim veitt andleg endurreisn og árið 1919 opnaði Jesús þeim dyr nýrra tækifæra. Þeir gengu inn um þær dyr þegar þeir þáðu það boð að prédika fagnaðarerindið um Guðsríki öllum þjóðum. Andi Jehóva hvíldi yfir þessum trúföstu kristnu mönnum og því gat ekkert hindrað þá í þessu starfi, og þeir nutu þeirra miklu sérréttinda að uppfylla mikilvægt atriði táknsins um nærveru Jesú. (Matteus 24:3, 14) Trúföst prédikun þeirra leiddi til þess að þeir sem eftir voru af hinum 144.000 voru kallaðir og smurðir og ‚múginum mikla‘ safnað saman í miklum fjölda. (Opinberunarbókin 7:1-3, 9) Þetta hefur veitt þjónum Guðs mikla gleði!
11. Hvernig reyndu sértrúarmenn að spilla skipulagi Jehóva á dögum Jóhannesar og hvernig hafa þeir reynt það á okkar dögum?
11 Getur nokkuð rænt þá þeirri gleði? Já. Þrátt fyrir þolgæði sitt voru öldungarnir í Pergamos ófærir um að halda kenningu sértrúarflokks Nikólaíta utan safnaðarins. (Opinberunarbókin 2:15) Sértrúarstefna var tekin að festa rætur. Á líkan hátt hafa ýmsir einstaklingar á hinum síðustu dögum gert fráhvarf frá trúnni og reynt að spilla skipulagi Jehóva. Öldungarnir í heild hafa staðið á móti þeim, en því miður hafa sumir látið leiðast á villubraut. Megum við aldrei leyfa fráhvarfsmönnum að ræna okkur gleðinni!
12. (a) Hver eru áhrif Bíleams og Jessabelar? (b) Hefur Satan reynt að læða áhrifum Bíleams og Jessabelar inn í kristna söfnuðinn nú á tímum?
12 Jesús varaði söfnuðinn í Pergamos einnig við þeim sem ‚héldu fast við kenningu Bíleams.‘ (Opinberunarbókin 2:14) Hvaða kenning var það? Einhver í Pergamos var farinn að spilla kristnum mönnum þar á sama hátt og Bíleam spillti Ísraelsmönnum í eyðimörkinni: með því að hvetja þá til að ‚neyta kjöts, sem helgað var skurðgoðum, og drýgja hór.‘ (4. Mósebók 25:1-5; 31:8) Jesús varaði söfnuðinn í Þýatíru við ‚konunni Jessabel.‘ Þessi kona kenndi kristnum mönnum líka „að drýgja hór og eta kjöt helgað skurðgoðum.“ (Opinberunarbókin 2:20) Hefur Satan reynt að læða áhrifum Bíleams eða Jessabelar inn í kristna söfnuðinn nú á tímum? Það hefur hann svo sannarlega gert með þeim afleiðingum að næstum 40.000 eru gerðir rækir úr söfnuðinum á ári, flestir fyrir siðleysi. Það er hörmulegt! Bæði karlmenn líkir Bíleam og konur líkar Jessabel hafa gert uppreisn gegn öldungunum og reynt að spilla söfnuðinum. Megum við standa gegn slíkum óhreinum áhrifum af öllu afli! — 1. Korintubréf 6:18; 1. Jóhannesarbréf 5:21.
13. (a) Lýstu viðbjóði Jesú á hálfvelgju. (b) Hvers vegna voru Laódíkeumenn hálfvolgir og hvernig getum við forðast þennan veikleika núna?
13 Í Opinberunarbókinni 3:15, 16 sagði Jesús söfnuðinum í Laódíkeu: „Ég þekki verkin þín, að þú ert hvorki kaldur né heitur. Betur að þú værir kaldur eða heitur. En af því að þú ert hálfvolgur og hvorki heitur né kaldur, mun ég skyrpa þér út af munni mínum.“ Þetta er áhrifamikil lýsing á þeim viðbjóði sem Jesús hefur á hálfvelgju! Hann heldur áfram: „Þú segir: ‚Ég er ríkur og orðinn auðugur og þarfnast einskis.‘“ Já, efnishyggja hafði tælt kristna menn í Laódíkeu. Þeir voru sjálfsánægðir og sinnulausir. En Jesús sagði við þá: „Þú veist ekki, að þú ert vesalingur og aumingi og fátækur og blindur og nakinn.“ (Opinberunarbókin 3:17) Viljum við vera ‚vesalingar og aumingjar og fátæk og blind og nakin‘ í augum Jesú? Auðvitað ekki! Við skulum því af öllu afli berjast gegn því að láta efnishyggju eða hálfvelgju ná tökum á okkur. — 1. Tímóteusarbréf 6:9-12.
Haldið út allt til enda
14. (a) Hvaða þrengingar mátti söfnuðurinn í Smýrnu þola? (b) Hvað er nú á tímum hliðstætt því sem gerðist í Smýrnu?
14 En söfnuðurinn í Smýrnu var ekki hálfvolgur. Jesús sagði þessum kristnu mönnum: „Ég þekki þrengingu þína og fátækt — en þú ert samt auðugur. Ég veit hvernig þú ert hrakyrtur af þeim, sem segja sjálfa sig vera Gyðinga, en eru það ekki, heldur samkunda Satans. Kvíð þú ekki því, sem þú átt að líða. Sjá, djöfullinn mun varpa nokkrum yðar í fangelsi, til þess að yðar verði freistað, og þér munuð þrenging hafa í tíu daga.“ (Opinberunarbókin 2:8-10) Hversu vel passar þetta ekki við reynslu kristinna nútímamanna! Bæði hinir smurðu og hinir ‚aðrir sauðir‘ hafa einnig mætt heiftúðugri andstöðu frá ‚samkundu Satans‘ nú á tímum, kristna heiminum. Allt frá fyrri heimsstyrjöldinni fram til okkar daga hefur þúsundum karla, kvenna og barna verið misþyrmt og varpað í fangelsi. Þeir hafa verið pyndaðir, konum nauðgað og margir hafa verið drepnir fyrir að vilja ekki hvika frá ráðvendni sinni.
15, 16. (a) Hvernig geta smurðir kristnir menn verið hamingjusamir þrátt fyrir ofsóknir? (b) Hvaða sérstök umbun bíður hinna annarra sauða sem hjálpar þeim einnig að varðveita hamingju sína?
15 Veitir slík lífsreynsla mönnum hamingju? Ekki í sjálfri sér. En líkt og postularnir finna trúfastir kristnir menn, sem þola prófraunir, til djúprar, innri gleði fyrir að vera „virtir þess að þola háðung vegna nafns Jesú.“ (Postulasagan 5:41) Og þeir halda gleði sinni og hamingju óháð því hvað óvinir þeirra gera þeim, vegna þess að þeir vita að sá tími er í nánd að þeim verði umbunuð ráðvendni sín og sú umbun er mikil að vöxtum. Kristur sagði kristnum mönnum í Smýrnu: „Vertu trúr allt til dauða, og ég mun gefa þér kórónu lífsins.“ (Opinberunarbókin 2:10) Og þeim í Sardes sagði hann: „Sá er sigrar, hann skal þá skrýðast hvítum klæðum, og eigi mun ég afmá nafn hans úr bók lífsins.“ — Opinberunarbókin 3:5.
16 Að vísu eiga þessi fyrirheit sérstaklega við smurða kristna menn og minna þá á launin sem þeir eiga í vændum, ódauðleika á himnum. En þessi orð styrkja líka þá sem eru af hinum öðrum sauðum. Jehóva ætlar líka að umbuna þeim, svo framarlega sem þeir eru kostgæfir og þolgóðir. Þeir eiga þá dýrlegu framtíð í vændum að erfa eilíft líf á jörð sem verður paradís undir stjórn Guðsríkis í höndum Krists. Þar munu þeir finna þá paradís sem fólkinu í þessum heimi hefur ekki tekist að finna.
17. Með hvaða orðum lauk Jesús boðskap sínum til hvers safnaðar og hvað merkja orð hans fyrir okkur núna?
17 Jesús lauk boðskap sínum til hvers safnaðar af þeim sjö með orðunum: „Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.“ (Opinberunarbókin 3:22) Já, við verðum að heyra og hlýða orðum yfirhirðisins. Við verðum að vísa á bug óhreinleika og fráhvarfi og halda kostgæfni okkar. Umbun okkar er undir því komin. Það eflir þá staðfestu okkar að skoða sitthvað fleira sem Opinberunarbókin geymir.
Innsigli bókrollunnar
18. (a) Hvað fær Jesús í hendur við hina himnesku hirð? (b) Hvað hefur yfirreið þriggja af riddurum 6. kafla Opinberunarbókarinnar í för með sér fyrir mannkynið nú á tímum?
18 Í 4. og 5. kafla sér Jóhannes til dæmis himneska hirð Jehóva í stórfenglegri sýn. Guðslambið, Jesús Kristur, er þar við hirðina og er fengin bókrolla með sjö innsiglum. Í 6. kaflanum opnar Jesús sex af innsiglunum sjö, hvert af öðru. Þegar hið fyrsta er rofið birtist riddari á hvítum hesti. Honum er fengin kóróna og hann skeiðar fram „sigrandi og til þess að sigra.“ (Opinberunarbókin 6:2) Þetta er Jesús, hinn nýkrýndi konungur. Þegar hann hóf konunglega sigurreið sína árið 1914 hófst Drottins dagur. Þegar næstu þrjú innsigli eru rofin birtast þrír hestar og þrír riddarar í viðbót. Þeir eru ógnvekjandi og tákna styrjöld, hungursneyð og dauða af völdum drepsóttar og öðrum orsökum. Þeir staðfesta hinn mikla spádóm Jesú þar sem fram kemur að nærvera hans sem konungur muni á jörðinni einkennast af miklum styrjöldum, hungursneyð, jarðskjálftum og öðrum hörmungum. (Matteus 24:3, 7, 8; Lúkas 21:10, 11) Sannarlega verða kristnir menn að hlýða orðum Jesú til safnaðanna sjö ef þeir eiga að halda út við slíkar aðstæður.
19. (a) Hvaða umbun er veitt smurðum kristnum mönnum, sem þegar eru dánir, meðan nærvera Krists stendur? (b) Hvaða skelfilegir atburðir eru fyrirmyndaðir með því að sjötta innsiglið er rofið og hvaða spurningu vekur það?
19 Þegar fimmta innsiglið er rofið er okkur leyft að sjá atburð á hinu andlega tilverusviði. Smurðum kristnum mönnum, sem hafa dáið fyrir trú sína, er hverjum gefin hvít skikkja. Ljóst er að hin himneska upprisa er hafin nú er nærvera Krists er veruleiki. (1. Þessaloníkubréf 4:14-17; Opinberunarbókin 3:5) Síðan er sjötta innsiglið rofið — og ‚jörð‘ heimskerfis Satans nötrar í miklum jarðskjálfta. (2. Korintubréf 4:4) ‚Himinn‘ mannastjórnar undir yfirráðum Satans sviptist burt eins og gamalt bókfell sem kastað er burt. Ótti og skelfing grípur um sig meðal hins uppreisnargjarna mannkyns. Það hrópar í örvæntingu til fjallanna og hamranna: „Hrynjið yfir oss og felið oss fyrir ásjónu hans, sem í hásætinu situr, og fyrir reiði lambsins; því að kominn er dagurinn, hinn mikli dagur reiði þeirra, og hver mun geta staðist?“ — Opinberunarbókin 6:13, 14, 16, 17.
20. Hverjir fá staðist á hinum mikla reiðidegi Jehóva og lambsins?
20 Og hver mun geta staðist? Jesús hefur þegar svarað þeirri spurningu. Þeir sem ‚heyra hvað andinn segir söfnuðunum‘ munu standa á hinum mikla degi reiðinnar. Og því til staðfestingar eru Jóhannesi veittar upplýsingar um innsiglun hinna síðustu af þeim 144.000 og um samansöfnun mikils múgs af öllum þjóðum er lifa skal af ‚þrenginguna miklu.‘ (Opinberunarbókin 7:1-3, 14) En nú er að því komið að rjúfa sjöunda innsigli bókrollunnar og sýna Jóhannesi og okkur nútímamönnum fleiri sýnir fyrir hans milligöngu. Í greininni á eftir verður fjalla um sumar þeirra.
Manst þú?
◻ Hvert er samband Jesú og safnaðaröldunganna?
◻ Hvaða vandamálum stóðu öldungarnir í Pergamos og Þýatíru frammi fyrir og hvernig hafa áþekk vandamál haft áhrif á söfnuðina nú á tímum?
◻ Hvaða alvarleg mistök urðu söfnuðinum í Laódíkeu á og hvernig getum við forðast sams konar mistök?
◻ Hvernig hafa kristnir menn orðið að sýna þolgæði nú á 20. öldinni og hvaða loforð Jesú hafa hjálpað þeim til þess?
◻ Hvernig getum við forðast þá örvæntingu og vonleysi sem verður hlutskipti þjóðanna í Harmagedón?