Lærdómur frá Ritningunni: Sefanía 1:1-3:20
Leitaðu Jehóva og þjónaðu honum af heilu hjarta
UM 50 árum áður en Babýloníumenn eyddu hinu fráhverfa Júdaríki lýsti Jehóva yfir fyrir milligöngu spámannsins Sefanía: „Ég vil gjörsópa öllu burt af jörðunni.“ (1:1, 2) En Guð vísaði jafnframt þjóð sinni á undankomuleiðina. (2:3; 3:9) Í þessu tilliti geymir Sefaníabók dýrmætan lærdóm fyrir alla sem nú standa frammi fyrir ‚stríðinu á hinum mikla degi Guðs hins alvalda.‘ — Opinberunarbókin 16:14.
Dagur Jehóva er nærri
Þar sem dagur Jehóva er mjög nálægur ætti hver sá sem hefur fjarlægst Guð að nálgast hann aftur svo fljótt sem auðið er. Meðal þeirra sem Guð mun „sópa burt“ eru þeir „sem gjörst hafa [Jehóva] fráhverfir.“ Þeir hafa snúið baki við honum og hugsa ekki lengur um vilja Guðs. Það er mjög hættuleg staða sem breyta þarf þegar í stað! — Sefanía 1:3-11.
Efnislegur auður getur ekki veitt öryggi á degi Jehóva. Sumir sem segjast þjóna Jehóva eru önnum kafnir í eltingaleik við efnislega hluti og hreiðra um sig svo að þeim líði sem best. En hvílík sjálfsblekking! Efnislegar eigur þeirra tryggja þeim ekkert öryggi á ‚þeim degi.‘ — Sefanía 1:12-18.
Björgun er möguleg
Það þarf meira en yfirborðsþekkingu á Ritningunni til að verða falinn á degi Jehóva. „Hinir auðmjúku,“ sem hafa ‚breytt eftir hans boðorðum,‘ eru áminntir um að ‚leita Jehóva, ástunda réttlæti, ástunda auðmýkt.‘ Aðeins þeir sem eru ‚staðfastir allt til enda‘ munu bjargast. — Sefanía 2:1-3; Matteus 24:13.
Þjóðum, sem kúga þjóna Jehóva nú á dögum, verður eytt. Þær munu hljóta sömu örlög og Móab, Ammon, Assýría og aðrar þjóðir umhverfis Júda. Eyðing bíður einnig Babýlonar hinnar miklu. (Opinberunarbókin 18:4-8) Þessi vitneskja hvetur okkur til að leggja okkur fram um að boða dóm Guðs! — Sefanía 2:4-15.
Endurheimt þjóð
Jehóva er núna að búa fólk sitt undir það að lifa af. Hefur þú yfirgefið babýlonskar hugmyndir og byrjað að tala hið ‚hreina tungumál‘ dýrmætra biblíusanninda? Hefur þú ‚ákallað nafn Jehóva‘ með því að vígjast honum? Færir þú fram gjafir sem eru ‚ávöxtur vara er játa nafn hans‘? Ef þú ætlar að lifa af verður þú að þjóna Guði „einhuga“ með vígðri þjóð hans. — Sefanía 3:1-10; Rómverjabréfið 10:13-15; Hebreabréfið 13:15.
Til að bjargast verðum við að leita Jehóva og halda heilögu nafni hans hátt á lofti. Drambsemi, ranglæti og lygar eiga hvergi heima meðal þjóna Jehóva. (Efesusbréfið 4:25-32) Aðeins ‚auðmjúkir og lítilmótlegir‘ munu bjargast þegar hann helgar nafn sitt. — Sefanía 3:11-20.
Lærdómur frá Ritningunni: Haggaí 1:1-2:23
SPÁDÓMSBÓK Haggaí færir okkur aftur til ársins 520 f.o.t., 17 árum eftir að leifar Gyðinga sneru aftur heim til Jerúsalem til að endurbyggja musteri Jehóva. (Haggaí 1:1) Það var rétti tíminn fyrir menn til að beina hjarta sínu að verki Guðs. En Jehóva sá sig knúinn til að senda spámanninn Haggaí til að minna þjóðina á skyldur sínar. Er lærdómur fyrir okkur í þeim áminningum?
Láttu starf Jehóva ganga fyrir
Taktu efnislega hagsmuni aldrei fram yfir andlegar skyldur. Gyðingarnir, sem sneru heim, höfðu ástæðu til að vera áhyggjufullir út af ótryggu efnahagsástandi, fjandsamlegum nágrönnum og fleiru. En það var þó ekki ástæðan fyrir vanrækslu þeirra, ef litið er á þann munað sem þeir bjuggu við. Það var ekki fyrr en Haggaí hafði ýtt við þeim að þeir byrjuðu að vinna að endurreisn musterisins. Á sama hátt þurfum við nútímamenn að ‚taka eftir‘ og gæta þess að við styðjum verk Guðs í eins miklum mæli og kostur er. — Haggaí 1:2-15.
Jehóva blessar viðleitni þeirra sem vinna verk hans af heilu hjarta. Guð ætlaði að blessa verk Serúbabels og annarra Gyðinga við það að ljúka endurreisn musterisins, og vegsemd þess myndi taka fyrra musteri fram. Nú á tímum svarar „mikill múgur“ boðskap Guðsríkis og „gersemar allra þjóða“ koma til andlegs musteris Jehóva og hann ‚fyllir hús sitt dýrð.‘ — Haggaí 2:1-9; Opinberunarbókin 7:9.
Krafist er þjónustu af heilu hjarta
Guðsdýrkun okkar er einhvers virði aðeins ef við erum hrein, tilefni okkar hreint og við þjónum Jehóva af heilu hjarta. Gyðingarnir urðu óhreinir vegna þess að þeir vanræktu hús Guðs, en hann blessaði þá um leið og þeir hófu vinnu við musterið. Ef við viljum njóta blessunar Jehóva verðum við að leiðrétta hvaðeina sem aflaga fer og gefa okkur að verki hans af heilu hjarta. (Samanber 5. Mósebók 19:11-13.) Er við bíðum þess að Guð hræri himin og jörð og kollvarpi konungsríkjum skulum við fylgja fordæmi Jesú Krists, hins fyrirmyndaða Serúbabels, og taka af heilu hjarta þátt í verki Jehóva. — Haggaí 2:10-23.
[Rammi á blaðsíðu 16]
RITNINGARGREINAR SKOÐAÐAR
○ Sefanía 1:5 — Milkóm, hugsanlega hinn sami og Mólek eða Mólok, var helsti falsguð Ammoníta. (1. Konungabók 11:5, 7) Dýrkun Móloks fól í sér viðurstyggilegar barnafórnir og var bönnuð samkvæmt lögmálinu. — 3. Mósebók 20:2-5; Postulasagan 7:42, 43.
○ Sefanía 2:14 — Eins og sagt var fyrir urðu fallnar súlur og súlnahöfuð hinnar yfirgefnu Níníveborgar bústaður fugla og dýra. Sjálfsagt hefur heyrst ‚kliður‘ í gluggatóttunum, bæði frá fuglum og vindi. Dyr og jafnvel innviðir halla voru eyðilagðar.
○ Sefanía 3:9 — Sameiginlegt tungumál manna tryggir ekki einingu eins og sjá má af þeim styrjöldum sem þjóðir heyja er tala þó sama tungumál. Hinar ‚hreinu varir‘ eða hreina tungumál er sannindi Ritningarinnar, „heilnæmu orðin.“ (2. Tímóteusarbréf 1:13) Það er hafið yfir stolt og stærilæti, upphefur Guð og sameinar alla sem tala það.
○ Haggaí 1:6 — Þar eð Gyðingarnir vanræktu musteri Jehóva nutu þeir ekki blessunar hans. Þess vegna sáðu þeir miklu en fengu litla uppskeru og höfðu hvorki nægan mat né drykk til þarfa sinna. Föt þeirra voru annaðhvort of fá eða léleg til að halda á þeim hita og launamenn virtust stinga kaupi sínu í götótta pyngju. Við skulum aldrei vanrækja hagsmuni Guðs, ólíkt því sem þessir Gyðingar gerðu. — Orðskviðirnir 10:22; Nehemía 10:39.
○ — Haggaí 2:9 — ‚Fyrra‘ musterið, sem Salómon byggði, stóð í 420 ár en hið ‚síðara‘ musteri var notað í 584 ár. (515 f.o.t.-70). Síðara musterið stóð því lengur. Fleiri guðsdýrkendur þyrptust þangað, svo sem á hvítasunnunni árið 33 er Gyðingar og trúskiptingar söfnuðust þangað frá héruðum fjarri Júdeu. Auk þess kenndi Messías, Jesús Kristur, í ‚síðara‘ musterinu. Allt þetta veitti því meiri trúardýrð.