Stórkostlegar framtíðarhorfur mannsins í paradís unaðarins
„Guð blessaði þau, og Guð sagði við þau: ‚Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni.‘“ — 1. MÓSEBÓK 1:28.
1, 2. Að hverju vinnur Jehóva í þágu manna og hvaða verkefni fól hann Adam?
„GUÐ ER kærleikur,“ er okkur sagt í heilagri Biblíu. Hann elskar og hefur óeigingjarnan áhuga á mannkyninu og vinnur að því án afláts að það geti notið friðar, heilbrigðis og eilífs lífs í jarðneskri paradís unaðarins. (1. Jóhannesarbréf 4:16; samanber Sálm 16:11.) Fyrsti maðurinn, hinn fullkomni Adam, lifði friðsælu lífi og hafði ánægjulegt og áhugavert verk að vinna. Skapari hans fól honum að yrkja og gæta hins unaðslega Edengarðs. Nú fékk hann nýtt verkefni, mjög sérstakt og krefjandi verkefni eins og frásagan segir:
2 „Þá myndaði [Jehóva] Guð af jörðinni öll dýr merkurinnar og alla fugla loftsins og lét þau koma fyrir manninn til þess að sjá, hvað hann nefndi þau. Og hvert það heiti, sem maðurinn gæfi hinum lifandi skepnum, skyldi vera nafn þeirra. Og maðurinn gaf nöfn öllum fénaðinum og fuglum loftsins og öllum dýrum merkurinnar.“ — 1. Mósebók 2:19, 20.
3. Hvers vegna óttuðust Adam og dýrin ekki hvert annað?
3 Maðurinn kallaði hestinn sus, nautið sjohr, sauðinn seh, geitina es, fugl fékk nafnið ofh, dúfan jonah, páfuglinn tukki, ljónið arjeh eða ari, bjarndýrið dov, apinn kvofh, hundurinn kelev, höggormurinn nashash og svo framvegis.a Er hann fór yfir ána sem rann út úr garðinum sá hann fisk. Fiskinn kallaði hann dagah. Þótt óvopnaður væri fann maðurinn ekki til nokkurs ótta við dýrin og þau ekki við hann. Eðlisávísun sagði þeim að hann væri drottnari þeirra og æðri vitsmunavera. Þau voru sköpunarverur Guðs sem hann hafði gefið líf og maðurinn fann enga löngun eða tilhneigingu hjá sér til að gera þeim mein eða ræna þau lífinu.
4. Hvað er hægt að ímynda sér í sambandi við það er Adam gaf öllum dýrum og fuglum nöfn og hvers vegna hefur þetta verið áhugavert verkefni?
4 Frásagan lætur þess ekki getið hve lengi maðurinn virti fyrir sér fénaðinn, villidýrin og fugla himinsins. Allt fór fram samkvæmt handleiðslu Guðs og umsjón. Adam gaf sér trúlega tíma til að virða vel fyrir sér sérhverja dýrategund og kynnast sérkennum hennar, háttum og gerð, þannig að hann gæti valið henni hæfandi nafn. Það kann að hafa tekið töluverðan tíma. Það hefur verið mjög skemmtileg lífsreynsla fyrir Adam að kynnast þannig dýralífi jarðarinnar í sínum mörgu myndum, og gert miklar kröfur til huga hans og málkunnáttu að finna sérhverri lífverutegund hæfandi nafn.
5-7. (a) Hvaða spurningar vöknuðu líklega í huga mannsins? (b) Hvers konar svör voru gefin í sköpunarsögunni í 1. Mósebók 1:1-25?
5 Í hvaða röð höfðu þessar lifandi verur verið skapaðar? Voru landdýrin sköpuð á undan fuglunum eða ekki og hvenær var maðurinn skapaður miðað við þessar óæðri sköpunarverur? Hvernig undirbjó Guð jörðina fyrir svona fjölbreytt dýralíf, sá henni fyrir lofti þannig að fuglarnir gætu flogið í mikilli hæð, skapaði vatn til drykkjar og gróður til matar og gerði ljósgjafana tvo, þann stóra sem skein svo skært að degi og hinn daufa sem gerði nóttina svo fagra? Hvers vegna var veðurfar svo milt og hlýtt að maðurinn gat sofið, unnið og athafnað sig allsnakinn?
6 Adam þurfti ekki að geta sér til um svörin. Hann svalaði fróðleiksfýsn sinni með því að spyrja þann sem vissi svörin nákvæmlega. Hann var ekki eftir skilinn sem fáfróður sonur Guðs heldur var honum trúlega, vegna greindar sinnar, gefin sú sköpunarsaga sem sögð er í 1. Mósebók 1:1-25.
7 Adam hlýtur að hafa hrifist mjög af þessari sköpunarsögu og verið mjög þakklátur. Hún skýrði svo margt fyrir honum. Af orðalagi frásögunnar skildi hann að verið höfðu þrjú löng tímabil, sem Guð kallaði daga samkvæmt sínu tímaskyni, áður en hann lét ljósgjafana tvo birtast á himni frá jörðu séð á fjórða sköpunartímabilinu, til að marka hinn langtum styttri dag mannsins, 24 stunda. Þessi jarðneski dagur stóð frá því að stóra ljósið hvarf bak við sjóndeildarhring þar til það gekk til viðar næst. Adam gerði sér einnig grein fyrir að hann átti mörg ár framundan og byrjaði vafalaust að telja æviár sín þegar í stað. Það gat hann gert með hjálp stóra ljóssins. Maðurinn gerði sér einnig grein fyrir að hann lifði á hinum sjötta degi jarðneskra sköpunarverka Guðs. Ekki hafði enn verið minnst á að sjötti sköpunardagurinn hefði tekið enda, tímabilið þegar öll landdýrin og hann sjálfur hafði verið skapaður. Nú vissi hann í hvaða röð gróðurinn, sjávardýrin, fuglarnir og landdýrin höfðu verið sköpuð. En Adam var enn einn sinnar tegundar í aldingarðinum Eden og hafði ekki enn kynnst til fulls hinum kærleiksríka tilgangi Guðs með manninn í hinni jarðnesku paradís.
Fyrsta konan sköpuð
8, 9. (a) Hverju veitti hinn fullkomni maður athygli hjá dýrunum og að hvaða niðurstöðu komst hann um sjálfan sig? (b) Hvers vegna var viðeigandi að hinn fullkomni maður skyldi ekki biðja Guð að gefa sér maka? (c) Hvernig lýsir Biblían sköpun fyrstu konunnar?
8 Með sínum fullkomna huga og eftirtektarsemi veitti maðurinn því athygli að í dýraríkinu voru bæði karldýr og kvendýr sem juku kyn sitt. Hann var hins vegar einn og átti sér engan maka. Vera kann að þessi uppgötvun hafi vakið hjá honum löngun til að eiga sér félaga, en ef svo var fann hann engan við sitt hæfi meðal dýranna, ekki einu sinni meðal apanna. Adam hlaut að draga þá ályktun að enginn maki væri til handa honum því ella hefði Guð leitt hann til hans. Maðurinn hafði verið skapaður ólíkur öllum þessum dýrum og honum var ætlað að vera ólíkur. Adam hafði enga tilhneigingu til að taka málið í sínar hendur og biðja Guð, skaparann, ósvífnislega um maka. Það var viðeigandi af hinum fullkomna manni að láta þetta mál hvíla í Guðs hendi, því að skömmu síðar uppgötvaði hann að Guð hafði sjálfur komist að niðurstöðu í málinu. Frásagan segir okkur um það sem nú gerðist:
9 „En meðhjálp fyrir mann fann hann enga við sitt hæfi. Þá lét [Jehóva] Guð fastan svefn falla á manninn. Og er hann var sofnaður, tók hann eitt af rifjum hans og fyllti aftur með holdi. Og [Jehóva] Guð myndaði konu af rifinu, er hann hafði tekið úr manninum, og leiddi hana til mannsins. Þá sagði maðurinn: ‚Þetta er loks bein af mínum beinum og hold af mínu holdi. Hún skal karlynja kallast, af því að hún er af karlmanni tekin.‘ Þess vegna yfirgefur maður föður sinn og móður sína og býr við eiginkonu sína, svo að þau verði eitt hold. Og þau voru bæði nakin, maðurinn og kona hans, og blygðuðust sín ekki.“ — 1. Mósebók 2:20-25.
10. Hver urðu viðbrögð mannsins er hin fullkomna kona var leidd til hans og hvað getur legið í orðum hans?
10 Orðin, sem Adam mælti er hin fullkomna kona var leidd til hans sem meðhjálp og fylling, lýsa djúpri ánægjukennd: „Þetta er loks bein af mínum beinum og hold af mínu holdi.“ Út frá þessum orðum mætti álykta að nokkur tími hafi liðið frá því að Adam varð til uns hann eignaðist þennan fagra félaga. Adam kallaði þennan félaga sinn ‚karlynju‘ (isjsjah) „af því að hún er af karlmanni tekin.“ (1. Mósebók 2:23) Adam fann ekki fyrir neinum holdlegum skyldleika við fugla himinsins eða landdýrin sem Guð hafði áður leitt til hans til að hann gæti gefið þeim nöfn. Hann var af annars konar holdi en þau. En þessi kona var sömu tegundar og hann. Hún var gerð úr einu af rifbeinum hans og henni rann sams konar blóð í æðum og honum. (Sjá Matteus 19:4-6.) Nú gat hann verið eins og spámaður Guðs gagnvart henni og sagt henni frá hinni stórfenglegu sköpunarsögu.
11-13. (a) Hvaða spurningar kunna að hafa vaknað hjá Adam er Guð gaf honum konu? (b) Hver var tilgangur Guðs með fyrstu mannlegu hjónin? (c) Hvað átti að vera hinni fullkomnu, mannlegu fjölskyldu til fæðu?
11 En hver var tilgangurinn með því að skaparinn skyldi gefa Adam konu? Átti hún einungis að vera hjálpari hans, fylling og félagi til að forða honum frá einsemd? Tilgangur Guðs birtist í frásögunni af því hvernig hann blessaði hjónaband þeirra:
12 „Guð sagði: ‚Vér viljum gjöra manninn eftir vorri mynd, líkan oss, og hann skal drottna yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir fénaðinum og yfir villidýrunum og yfir öllum skriðkvikindum, sem skríða á jörðinni.‘ Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu. Og Guð blessaði þau, og Guð sagði við þau: ‚Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni.‘
13 Og Guð sagði: ‚Sjá, ég gef ykkur alls konar sáðberandi jurtir á allri jörðinni og alls konar tré, sem bera ávöxtu með sæði í. Það sé ykkur til fæðu. Og öllum villidýrum og öllum fuglum loftsins og öllum skriðkvikindum á jörðinni, öllu því, sem hefir lifandi sál, gef ég öll grös og jurtir til fæðu.‘ Og það varð svo.“ — 1. Mósebók 1:26-30.
Framtíðarhorfur Adams og Evu
14. Hvaða framtíð áttu hin fullkomnu hjón fyrir sér og hvað gátu þau réttilega séð fyrir sér?
14 Reyndu að gera þér í hugarlund hve stórkostlegt það hefur verið fyrir hinn fullkomna mann og fullkomna konu hans að heyra Guð tala til sín, segja þeim hvað þau ættu að gera og blessa þau. Þegar blessun Guðs hvíldi yfir þeim yrði lífið ekki tilgangslaust heldur myndu þau geta gert það sem þeim var sagt að gera. Hvílíkar framtíðarhorfur! Er hin nýgiftu hjón stóðu þarna í Edengarðinum, sem var heimili þeirra, hafa þau vafalaust leitt hugann að því hvernig framtíðin yrði er þau hlýddu vilja Guðs. Þau gátu séð fyrir hugskotssjónum sér hvernig lífið yrði um ókomna framtíð er ekki aðeins ‚aldingarðurinn í Eden langt austur frá‘ heldur öll jörðin yrði fyllt hamingjusömum körlum og konum. (1. Mósebók 2:8) Hjörtu þeirra hljóta að hafa hoppað af gleði við þá tilhugsun að allt myndu þetta vera börn þeirra og afkomendur. Allir yrðu fullkomnir, gallalausir í huga og á líkama, síungir, heilbrigðir og lífsglaðir, sýndu hver öðrum fullkominn kærleika og tilbæðu allir í sameiningu sinn mikla skapara og föður á himnum í félagi við fyrsta jarðneska föður sinn og móður. Hjörtu Adams og Evu hljóta að hafa verið full af gleði við tilhugsunina um að eignast slíka fjölskyldu.
15, 16. (a) Hvers vegna yrði nægur matur handa mönnunum? (b) Hvaða starf beið hinnar hamingjusömu fjölskyldu utan Edengarðsins er fjölgaði í henni?
15 Það myndi verða feikinógur matur fyrir alla í hinni mannlegu fjölskyldu um alla jörðina, líkt og meira en nóg var til í aldingarðinum Eden þar í upphafi. Guð hafði séð fyrir þeim og gefið þeim allar sáðberandi jurtir og ávaxtatré sem heilnæma fæðu til viðurværis. — Samanber Sálm 104:24.
16 Er hin hamingjusama fjölskylda þeirra stækkaði myndi hún smám saman stækka garðinn út fyrir landamæri Eden. Orð Guðs gáfu til kynna að jörðin væri enn ekki ræktuð utan garðsins eða að minnsta kosti ekki ræktuð að sama marki og Edengarðurinn. Þess vegna sagði skaparinn þeim að ‚gera sér jörðina undirgefna‘ um leið og þau fylltu hana. — 1. Mósebók 1:28.
17. Hvers vegna yrði nægur matur til handa vaxandi mannkyni og hvernig færi að lokum er garðurinn héldi áfram að stækka?
17 Er hinir fullkomnu garðyrkju- og gæslumenn stækkuðu garðinn myndi jörðin gefa af sér ríkulegan ávöxt handa hinni vaxandi fjölskyldu. Loks myndi garðurinn teygja sig um alla jörðina og paradís blómgast um allan heim sem eilíft heimili mannkyns. Hún yrði fögur sjón af himni ofan og hinn himneski skapari gæti lýst hana harla góða. — Samanber Jobsbók 38:7.
18. Hvers vegna myndi ríkja fullkominn friður í Eden um allan heiminn?
18 Öll jörðin yrði jafnfriðsöm og Edengarðurinn sem hin nýgiftu hjón voru í. Enginn þyrfti að óttast öll þessi dýr og allar þessar fljúgandi sköpunarverur sem hinn fyrsti maður, Adam, hafði fylgst með og gefið nöfn. Líkt og fyrstu, mennsku foreldrar þeirra myndu þessir fullkomnu íbúar paradísar um allan heim drottna yfir fiskum sjávarins, fuglum loftsins og öllum dýrum sem hrærðust á jörðinni, meira að segja villidýrum merkurinnar. Þessi óæðri dýr myndu af eðlishvöt vera undirgefin manninum, sem var skapaður „eftir Guðs mynd,“ og búa í friði við hann. Mennirnir myndu drottna mildilega yfir dýrunum og skapa þannig friðsæld í dýraríkinu. Friðsöm áhrif þessara húsbænda, sem líktust Guði, myndu vera þessum óæðri sköpunarverum til verndar. Framar öllu öðru myndi hið fullkomna mannkyn eiga frið við Guð og blessun hans yrði aldrei frá því tekin. — Samanber Jesaja 11:9.
Guð hvílist frá sköpunarstarfi sínu
19. (a) Hvað hljóta Adam og Eva að hafa gert sér ljóst í sambandi við tilgang Guðs? (b) Hvaða upplýsingar gaf Guð þeim um tímann?
19 Er hin fullkomnu mannlegu hjón hugleiddu hvernig jörðin myndi líta út er tilgangur Guðs væri orðinn að veruleika gerðu þau sér ljóst að það myndi taka tíma að ljúka því verki sem Guð hafði falið þeim. Hve langan tíma? Það vissi skapari þeirra og faðir á himnum. Hann lét þau nú vita að sköpunardagarnir væru á enda og að nú væri komið „kveld“ er hæfist nýr dagur samkvæmt sköpunartímatali Guðs. Það átti að verða blessunarríkur dagur helgaður hinum hreina og réttláta tilgangi Guðs. Hinn fullkomni maður, spámaður Guðs, veitti því athygli. Hin innblásna frásaga segir:
20. Hvað segir frásaga Biblíunnar um ‚hinn sjöunda dag‘?
20 „Og Guð leit allt, sem hann hafði gjört, og sjá, það var harla gott. Það varð kveld og það varð morgunn, hinn sjötti dagur. Þannig algjörðist himinn og jörð og öll þeirra prýði. Guð lauk á hinum sjöunda degi verki sínu, er hann hafði gjört, og hvíldist hinn sjöunda dag af öllu verki sínu, er hann hafði gjört. Og Guð blessaði hinn sjöunda dag og helgaði hann, því að á honum hvíldist Guð af verki sínu, sem hann hafði skapað og gjört. Þetta er sagan um uppruna himins og jarðar, er þau voru sköpuð.“ — 1. Mósebók 1:31-2:4.
21. (a) Segir Biblían að hvíldardagur Guðs hafi tekið enda og að hann hafi verið harla góður? Gefðu nánari skýringu. (b) Hvaða spurningar vakna?
21 Frásagan getur þess ekki að hvíldardagur Guðs hafi tekið enda, að Guð hafi séð að hann var harla góður og að það hafi orðið kvöld og morgun, hinn sjöundi dagur. Sjöundi dagurinn hafði enn ekki verið lýstur harla góður, eins og hinir sköpunardagarnir sex, því að honum var enn ekki lokið. Getur Jehóva Guð enn sem komið er lýst hann harla góðan? Hefur hann verið friðsæll hvíldardagur Guðs fram til þessa? Hvað um hina fögru framtíð sem fyrstu mennirnir áttu fyrir sér á brúðkaupsdegi sínum í paradís? Við skulum skoða í næstu grein hvernig málin þróuðust.
[Neðanmáls]
a Þessi nöfn er að finna í hebreskum texta 1. Mósebókar og öðrum innblásnum bókum Hebresku ritninganna.
Hverju svarar þú?
◻ Hvaða verkefni fékk Guð Adam auk þess að yrkja garðinn og hvað fól það í sér?
◻ Hvað opinberar sköpunarsagan í 1. Mósebók 1:1-25?
◻ Hvernig var fyrsta konan sköpuð og hvað sagði Adam á brúðkaupsdegi þeirra?
◻ Hvað áttu hin fyrstu mannhjón fyrir sér?
◻ Hvernig lét Guð í ljós að enn einum sköpunardegi væri lokið?