Öldungar — gætið þess sem ykkur er trúað fyrir
„Hafið gát á sjálfum ykkur og allri hjörðinni, þar sem heilagur andi hefur skipað ykkur umsjónarmenn, til að gæta safnaðar Guðs sem hann keypti með blóði síns eigin sonar.“ — POSTULASAGAN 20:28, NW.
1. Hverju hefur Guð trúað kristnum þjónum sínum fyrir?
SÁ SEM falin eru verðmæti til varðveislu þarf að standa reikningsskap fyrir því hvernig hann gætir þeirra. Jehóva Guð hefur trúað þjónum sínum hér á jörð fyrir miklum verðmætum. Þau eru meðal annars ‚fyrirmynd heilnæmu orðanna,‘ sannleikurinn sem er að finna í Biblíunni og hinn ‚trúi og hyggni þjónn‘ útbýtir sem „mat á réttum tíma.“ (2. Tímóteusarbréf 1:13, 14; Matteus 24:45-47) Þjónum Guðs er líka trúað fyrir þeirri þjónustu sem er tengd sannleikanum og prédika þarf innan og utan safnaðarins. (2. Tímóteusarbréf 4:1-5) Boðberar Guðsríkis, meðal annars öldungarnir sem útnefndir eru af andanum, ættu að meta sem afar verðmætt það sem þeim hefur verið trúað fyrir.
2. Hverju er öldungum auk þess trúað fyrir og hvað sagði Pétur um það?
2 Kristnum öldungum er auk þess trúað fyrir þeirri ábyrð að gæta hjarðar Guðs. Pétur postuli skrifaði um það: „Öldungana yðar á meðal áminni ég, sem einnig er öldungur og vottur písla Krists og einnig mun fá hlutdeild í þeirri dýrð, sem opinberuð mun verða: Verið hirðar þeirrar hjarðar, sem Guð hefur falið yður. Gætið hennar ekki af nauðung, heldur af fúsu geði, að Guðs vilja, ekki sakir vansæmilegs ávinnings, heldur af áhuga. Þér skuluð eigi drottna yfir söfnuðunum, heldur vera fyrirmynd hjarðarinnar. Þá munuð þér, þegar hinn æðsti hirðir birtist, öðlast þann dýrðarsveig, sem aldrei fölnar.“ — 1. Pétursbréf 5:1-4.
3. Hvað verða kristnir öldungar að veita öðrum?
3 Kristnir öldungar þurfa að vera „sem hlé fyrir vindi og skjól fyrir skúrum, sem vatnslækir í öræfum, sem skuggi af stórum hamri í vatnslausu landi.“ (Jesaja 32:1, 2) Þetta merkir að öldungarnir ættu að veita þjónum Guðs, sem líkt er við sauðahjörð, öryggi, frið og stöðugleika. ‚Meira er heimtað‘ af öldungum eða undirhirðum hjarðarinnar vegna þess að þeim er ‚mikið gefið.‘ (Lúkas 12:48) Öldungum hefur vissulega verið falið dýrmætt trúnaðarstarf sem þeir þurfa að rækja vel.
Hvers vegna var þér falið það?
4. Hvers vegna er þörf fyrir svona marga öldunga?
4 Söfnuðir votta Jehóva um víða veröld eru yfir 60.000 talsins og því er þörf á tugþúsundum andlega hæfra karlmanna til að gæta hjarðar Guðs. Í hverju landi heims eru fjölmargir öldungar og það er gleðiefni. Að meðaltali eru um 60 boðberar Guðsríkis í hverjum söfnuði í heiminum. Öldungarnir hafa því ærinn starfa. — 1. Korintubréf 15:58.
5. Á hvaða grundvelli eru karlmanni veitt þau sérréttindi að þjóna sem öldungur?
5 Ef þú ert öldungur, hvers vegna hlotnuðust þér þau sérréttindi? Vegna þess sem þú hafðir gert og vegna andlegra hæfileika þinna. Til dæmis þurftir þú að hafa numið orð Guðs rækilega. (Jósúa 1:7, 8) Þú þurftir að hafa tekið kostgæfilega þátt í þjónustunni á akrinum og einnig hjálpað öðrum að verða boðberar Guðsríkis. Þú varst ‚fyrst reyndur‘ og þjónaðir trúfastur sem safnaðarþjónn. Þú ‚sóttist eftir‘ því að verða öldungur og gerðir þér grein fyrir að starf umsjónarmanns væri „fagurt hlutverk.“ (1. Tímóteusarbréf 3:1, 10) ‚Bræðurnir báru þér gott orð‘ líkt og Tímóteusi. (Postulasagan 16:2) Þegar mælt var með þér sem öldungi varst þú vafalaust farinn að nálgast þrítugt eða eldri og bjóst yfir töluverðri lífsreynslu. Söfnuðurinn var farinn að líta á þig sem andlega þroskaðan bróður sem auðvelt var að leita til og fær um að gefa góðar leiðbeiningar út af Biblíunni og þegja yfir trúnaðarmálum. — Orðskviðirnir 25:9, 10.
Hvernig þú getur gætt þess sem þér er trúað fyrir
6, 7. Hvaða ráð er að finna í 1. Tímóteusarbréfi 4:13-15 til að hjálpa öldungi að gæta þess sem honum er trúað fyrir?
6 Ef þú ert öldungur lágu fyrir því góðar ástæður að þér var trúað fyrir kristnu umsjónarstarfi. Þér hljóta að hafa þótt það mikil sérréttindi! En hvernig getur þú gætt vel að því sem þér er trúað fyrir?
7 Það getur þú gert maðal annars með því að vera jákvæður og kostgæfur í því að rækja skyldur þínar. Við höfum öll ýmiss konar verkefni og margvíslega ábyrgð innan skipulags Jehóva. Haltu þig því innan settra marka og gerðu þig ánægðan með að ‚hegða þér eins og sá sem minnstur er.‘ (Lúkas 9:46-48; samanber Dómarabókina 7:21.) Mettu sérréttindi þín mikils og sinntu þeim aldrei „með hangandi hendi.“ (Orðskviðirnir 10:4) Stattu ekki í stað heldur taktu með hjálp Jehóva framförum á öllum sviðum þjónustunnar. Fylgdu þeim ráðum sem Páll gaf Tímóteusi: „Ver þú . . . kostgæfinn að lesa úr Ritningunni, áminna og kenna. Vanræktu ekki náðargjöfina þína, sem var gefin þér að tilvísan spámanna og með handayfirlagningu öldunganna. Stunda þetta, ver allur í þessu, til þess að framför þín sé öllum augljós.“ — 1. Tímóteusarbréf 4:13-15.
8. Hvað hjálpar öldungi að gefa heilbrigðar leiðbeiningar og gera samkomurnar andlega auðgandi?
8 Gættu þess að hafa góða og frjóa stundaskrá til einkanáms. Þess er réttilega vænst af þér sem öldungi að þú gefir heilnæm, biblíuleg ráð. Hefur þú, til að geta það, lesið gegnum alla Biblíuna og hugleitt efni hennar, ef til vill mörgum sinnum? (Orðskviðirnir 15:28) Hvað um verkefni þín á samkomunum? Búðu þig vel undir þau og leitaðu hjálpar Jehóva í bæn þannig að þú getir miðlað þeim sem eru viðstaddir á samkomum okkar einhverju sem auðgar þá andlega. Sér í lagi öldungar ættu að ‚segja það sem er gott til uppbyggingar til þess að það verði til góðs þeim sem heyra.‘ — Efesusbréfið 4:29; Rómverjabréfið 1:11.
9. Hvað þarf öldungur að gera samkvæmt 2. Tímóteusarbréfi 4:2?
9 Sem öldungi ber þér að hlýða hvatningu Páls: „Prédika þú orðið, gef þig að því í tíma og ótíma. Vanda um, ávíta, áminn með öllu langlyndi og fræðslu.“ (2. Tímóteusarbréf 4:2) Páll hafði áhyggjur af fráhvarfi vegna þess að sumir í söfnuðinum ‚áttu í orðastælum,‘ ‚heimskulegum þrætum‘ og ‚skipuðust í móti sannleikanum.‘ (2. Tímóteusarbréf 2:14-18, 23-25; 3:8-13; 4:3, 4) Hvort heldur var hagstæð tíð eða óhagstæð hjá söfnuðinum átti Tímóteus samt sem áður að ‚prédika orðið.‘ Þannig myndi hann styrkja trúbræður sína í því að sporna gegn fráhvarfi frá trúnni. Á sama hátt verða öldungar nú á tímum að prédika orð eða boðskap Guðs sem höfðar beint til hjartans og hvetur áheyrendur til að halda sér við staðla Jehóva. — Hebreabréfið 4:12.
10. Hvers vegna ætti öldungur að taka reglulega þátt í þjónustunni á akrinum með fjölskyldu sinni og öðrum?
10 Til að öldungur geti talað af myndugleik þarf hann að lifa í samræmi við orð Guðs. En hann gætir ekki trúnaðarstarfa síns að fullu ef hann ‚prédikar orðið‘ einungis frá ræðupallinum innan safnaðarins. Í þessum sama kafla hvatti Páll Tímóteus: „Gjör verk trúboða.“ Eigir þú sem öldungur að „fullna þjónustu þína“ verður þú að prédika orð Guðs „opinberlega og í heimahúsum.“ (2. Tímóteusarbréf 4:5; Postulasagan 20:20, 21) Því skalt þú starfa úti á akrinum með fjölskyldu þinni. Það mun styrkja hin andlegu tengsl þín og konu þinnar og vera börnum ykkar til mikils gagns. Taktu þér líka tíma til að taka þátt í prédikunarstarfinu með öðrum meðlimum safnaðarins. Það styrkir hin andlegu bönd og eykur bróðurkærleikann. (Jóhannes 13:34, 35) Að sjálfsögðu verður öldungur að leggja sig fram um að finna rétt jafnvægi í því hvernig hann skiptir dýrmætum tíma milli fjölskyldu sinnar og safnaðarins. Góð dómgreind kemur í veg fyrir að hann eyði of miklum tíma í annað hvort en vanræki hitt.
11. Hvers vegna ætti öldungur að kappkosta að bæta kennsluhæfni sína?
11 Til að gæta þess sem þér er trúað fyrir þarftu líka að leggja þig kappsamlega fram um að verða sífellt hæfari sem kennari. „Sá sem kennir, hann kenni,“ sagði Páll, „sá sem áminnir, hann áminni.“ (Rómverjabréfið 12:7, 8) Þar eð kennari hefur það verkefni að uppfræða aðra er réttilega hægt að ætlast til mikils af honum. Ef öldungur gerði alvarleg mistök í kennslu sinni og það ylli trúbræðrum hans erfiðleikum ætti hann dóm Guðs yfir höfði sér. Já, kennarar ‚fá þyngri dóm.‘ (Jakobsbréfið 3:1, 2; Matteus 12:36, 37) Öldungar þurfa því að nema orð Guðs af alvöru og lifa eftir því. Trúbræður þeirra munu þá meta mikils biblíukennslu þeirra og fordæmi. Það mun einnig vernda söfnuðinn fyrir óheilnæmum áhrifum, meðal annars fráhvarfi frá trúnni.
Forðist leyndar hættur
12. Hvaða ráð birti þetta tímarit fyrir löngu til að hjálpa öldungi til að forðast misnotkun tungunnar?
12 Öldungur þarf einnig að gæta þess sem honum er trúað fyrir með því að forðast leyndar hættur. Ein þeirra er misnotkun tungunnar í kennslunni. Skipulag Jehóva hefur lengi lagt áherslu á nauðsyn aðgátar í þessu efni. Til dæmis fjallaði þetta tímarit þann 15. maí 1897 um Jakobsbréfið 3:1-13 og sagði einkum með öldunga í huga: „Ef þeir eru málsnjallir geta þeir verið til mikillar blessunar og leitt marga til fylgis við Drottin, sannleikann og veg réttlætisins. Ef tunga þeirra er hins vegar smituð villukenningum getur hún unnið nánast ólýsanlegt tjón — á trú, siðferði og góðum verkum. Það er hafið yfir allan vafa að sá sem beitir kennslugáfunni tekur á sig aukna ábyrgð í augum Guðs og manna. . . . Sá sem vill vera uppspretta þaðan sem orð Guðs streymir fram og ber með sér blessun, hressingu og styrk þarf að gæta þess að hann vanheiðri ekki Guð eða rangsnúi orði hans með því að láta streyma frá sér beiskt vatn í mynd falskra kenninga sem myndu hafa í för með sér tjón og bölvun. Í vali á þeim sem skulu leiða samkomurnar má ekki líta fram hjá þeim kröfum sem hér eru gerðar til ‚tungunnar.‘ Ekki skal velja þá sem eru ofsafengnir heldur þá sem eru auðmjúkir, hófsamir og ‚beisla‘ tungu sína og gæta þess vandlega að ‚tala einungis orð Guðs.‘“ Sannarlega er mikilvægt að öldungur noti tungu sína rétt.
13. Hvaða varúðar þurfa öldungar að gæta varðandi afþreyingu?
13 Óhófleg afþreying er einnig dulin hætta sem sneiða ber hjá. Afþreying ætti að endurnæra og uppbyggja kristinn mann en ekki gera hann úrvinda eða fjarhuga. Umsjónarmenn verða auk þess að vera ‚hófsamir að venju.‘ (1. Tímóteusarbréf 3:2, NW) Ef hófsemi ræður afþreyingu þinni mun það vernda þig og fjölskyldu þína og vera söfnuðinum gott fordæmi. Þú værir tæplega að setja gott fordæmi ef þú værir aftur og aftur fjarverandi um helgar til að skemmta þér meðan trúbræður þínir væru uppteknir af þjónustunni á akrinum. Það þarf að prédika fagnaðarerindið og öldungar ættu að taka forystuna í því starfi sem kostgæfir boðberar Guðsríkis. — Markús 13:10; Títusarbréfið 2:14.
14. (a) Hvaða biblíuleg dæmi leggja áherslu á nauðsyn þess að öldungar séu á varðbergi gegn siðleysi? (b) Hvaða ráði verður öldungur að framfylgja er hann aðstoðar systur í trúnni?
14 Kynferðislegt siðleysi er önnur dulin hætta sem sneiða þarf hjá. Siðspilling heimsins getur haft áhrif jafnvel á öldung ef hann stendur ekki gegn þeim freistingum sem Satan notar í viðleitni sinni til að brjóta ráðvendni þjóna Guðs á bak aftur. (Samanber Matteus 4:1-11; 6:9, 13.) Mundu hvernig spámaðurinn Bíleam, sem mistókst að formæla Ísraelsmönnum, hugsaði með sér að Jehóva myndi sjálfur formæla þeim ef hægt væri að tæla þá út í hjáguðadýrkun og siðleysi. Bíleam kenndi því Balak, konungi í Móab, „að tæla Ísraelsmenn, svo að þeir neyttu kjöts, sem helgað var skurðgoðum, og drýgðu hór.“ Forðuðust þeir þessa gildru? Nei, því að 24.000 Ísraelsmenn dóu í plágu frá Jehóva vegna siðlausra maka sinna við móabískar konur og tilbeiðslu á guðum þeirra. (Opinberunarbókin 2:14; 4. Mósebók 25:1-9) Mundu líka að jafnvel Davíð, ‚maður eftir Guðs hjarta,‘ féll í þá gildru að drýgja siðleysi. (1. Samúelsbók 13:14; 2. Samúelsbók 11:2-4) Sem öldungur skaltu því fylgja endurteknum áminningum hins ‚trúa ráðsmanns‘ að fara aldrei einn saman til að leiðbeina eða aðstoða systur í trúnni heldur hafa alltaf annan öldung í för með þér er þú sinnir slíkri ábyrgð. — Lúkas 12:42.
15. Hvernig getur fjölskylda öldungs hjálpað honum að forðast snöru efnishyggjunnar?
15 Efnishyggja er önnur dulin hætta sem öldungar verða að sneiða hjá. Gerðu þig ánægðan með það sem nauðsynlegt er og mundu að Jehóva mun sjá ríkulega fyrir öllu sem við þurfum. (Matteus 6:25-33; Hebreabréfið 13:5) Kenndu fjölskyldu þinni að vera sparsöm því að eyðslusemi stelur bæði tíma og efnum sem hægt væri að nota til að hjálpa fjölskyldunni, til að taka þátt í þjónustunni á akrinum, styrkja söfnuðinn og efla hag Guðsríkis. Öldungur nýtur góðs af samstarfi fjölskyldu sinnar í þessu efni og er þakklátur fyrir að hún skuli ekki heimta af honum hluti sem hún þarfnast ekki í raun réttri. „Betra er lítið í ótta [Jehóva] en mikill fjársjóður með áhyggjum.“ — Orðskviðirnir 15:16.
„Hafið gát á sjálfum yður“
16. Hvaða leiðbeiningar gaf Páll umsjónarmönnunum í Efesus?
16 Ef öldungar eiga að gæta þess sem þeim er trúað fyrir verða þeir að fylgja leiðbeiningum Páls til umsjónarmanna í Efesus. Hann sagði þeim: „Hafið gát á sjálfum yður og allri hjörðinni, sem heilagur andi fól yður til umsjónar. Verið hirðar Guðs kirkju, sem hann hefur unnið sér með sínu eigin blóði. Ég veit, að skæðir vargar munu koma inn á yður, þegar ég er farinn, og eigi þyrma hjörðinni. Og úr hópi sjálfra yðar munu koma fram menn, sem flytja rangsnúna kenningu, til að tæla lærisveinana á eftir sér. Vakið því og verið þess minnugir, að ég áminnti stöðugt sérhvern yðar með tárum dag og nótt í þrjú ár.“ — Postulasagan 20:28-31.
17, 18. Hvaða ráð, sem birtust í þessu tímariti fyrir um það bil 80 árum, eiga enn við kristna öldunga?
17 Fyrir meira en 80 árum vitnaði Varðturninn (enska útgáfan þann 1. mars 1909) í ofangreind ráð Páls til samöldunga sinna og sagði svo: „Öldungar þurfa alls staðar að vera sérlega vel á verði, því að í sérhverri prófraun reynir mest á þá sem njóta mestrar blessunar og eru fremstir í flokki. Því áminnir Jakob: ‚Verðið eigi margir kennarar, bræður mínir. Þér vitið, að vér munum fá þyngri dóm.‘ Við hvetjum á sama hátt alla öldunga með hrein og óeigingjörn hjörtu að fyllast náð og ávöxtum heilags anda og bera einungis kærleika og góðvild til allra manna, og gæta einnig hjarðarinnar. Munið að hjörðin tilheyrir Drottni og að þið hafið ábyrgð gagnvart Drottni og hjörðinni. Munið að þið eigið að gæta sálna þeirra (hagsmuna) og verðið að standa Yfirhirðinum mikla reikningsskap. Munið að undirstöðureglan er kærleikur í öllu; vanrækið ekki kenninguna en leggið sérstaka áherslu á að rækta anda Drottins meðal hinn ýmsu lima líkamans þannig að þeir geti orðið ‚hæfir til að fá hlutdeild í arfleifð hinna heilaga í ljósinu,‘ og geti í samræmi við vilja Guðs forðast það að hrasa á þessum vonda degi og geti, eftir að hafa gert allt, staðið heilir í Kristi, sem líkami hans, limir hans, samþjónar og samerfingjar.“
18 Þessum orðum var beint til andasmurðra öldunga og trúbræðra þeirra út frá þeim skilningi og kringumstæðum sem ríktu í skipulagi Jehóva á þeim tíma. En þessar leiðbeiningar eiga svo sannarlega vel við nú á dögum! Hvort heldur von kristins öldungs er himnesk eða jarðnesk verður hann að hafa gát á sjálfum sér, gæta þess sem honum er treyst fyrir og annast í kærleika hagsmuni hjarðar Guðs.
Gleði hlýst af því að gæta þess sem þér er trúað fyrir
19, 20. Hvers vegna hefur það gleði í för með sér þegar öldungar gæta þess sem þeim er trúað fyrir?
19 Er þú, sem ert kristinn öldungur, gætir þess sem þér hefur verið treyst fyrir mun það veita þér hamingju og hjartans gleði. Það er ánægjulegt að geta innt alvarleg skyldustörf vel af hendi. Vertu því iðjusamur, varkár og bænrækinn. Gættu þess sem þér er treyst fyrir samfara öldungshlutverkinu og horfðu fram til þess tíma er þú getur sagt eins og maðurinn með skriffærin: „Ég hefi gjört eins og þú bauðst mér.“ — Esekíel 9:3, 4, 11.
20 Já, starfaðu trúfastur sem öldungur þannig að hægt verði að segja um þig eins og um Nóa: „Allt gjörði hann eins og Guð bauð honum.“ (1. Mósebók 6:22) Söfnuðurinn hefur margvíslegt gagn af slíkri kostgæfri þjónustu. Framar öllu öðru eru sterkir og starfsamir söfnuðir, sem njóta þjónustu trúfastra öldunga er gæta þess sem þeim er trúað fyrir, Jehóva til heiðurs. En meira er krafist ef hægt á að vera að segja við þig: „Gott, þú góði þjónn.“ (Lúkas 19:17) Öldungar verða líka að meðhöndla hjörð Guðs mildilega.
Hverju svarar þú?
◻ Hverju er kristnum öldungum trúað fyrir?
◻ Hvað getur öldungur gert til að gæta þess sem honum er trúað fyrir?
◻ Hvaða leyndar hættur þarf öldungur að forðast eigi hann að gæta þess sem honum er trúað fyrir?
◻ Hvers vegna hefur það gleði í för með sér þegar öldungar gæta þess sem þeim er trúað fyrir?
[Mynd á blaðsíðu 18]
Kristnir öldungar verða að vera eins og ‚skjól fyrir skúrum.‘
[Mynd á blaðsíðu 20]
Öldungar eiga að taka reglulega þátt í þjónustunni á akrinum með fjölskyldu sinni og öðrum.
[Mynd á blaðsíðu 21]
Ef öldungur gætir þess sem honum er trúað fyrir hefur söfnuðurinn margvíslegt gagn af.