Gerið allt vegna fagnaðarerindisins
„Ég geri allt vegna fagnaðarerindisins til að ég fái hlutdeild í því með öðrum.“ — 1. KORINTUBRÉF 9:23, NW.
1. Hvert er sameinkenni okkar allra en að hverju hefur Guð lagt grundvöll?
ÞÓTT við séum öll ólík á ýmsa vegu er okkur eitt einkenni sameiginlegt. Vegna arfs okkar frá Adam erum við fædd syndarar og fjarlæg hinum hæsta Guði, Jehóva. (Rómverjabréfið 5:12; Kólossubréfið 1:21) Eins og kristni postulinn Páll skrifaði: „Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð.“ (Rómverjabréfið 3:23) Til að hljóta hjálpræði þurfa menn af öllum kynþáttum og þjóðernum því að sættast við Guð. Og við megum sannarlega vera þakklát fyrir óviðjafnanlegan kærleika Jehóva og miskunn sem hefur lagt grundvöll að sáttum við hann!
2. (a) Hvaða þjónustu var smurðum kristnum mönnum trúað fyrir? (b) Af fordæmi hvers getum við lært og hvers vegna? (1. Korintubréf 11:1)
2 Fyrir nítján öldum var smurðum vottum Jehóva trúað fyrir „þjónustu sáttargjörðarinnar.“ Páll postuli sagði: „Vér biðjum í Krists stað: Látið sættast við Guð.“ (2. Korintubréf 5:18-20) Með hvaða hugarfari rækti postulinn þjónustu sína? „Þótt ég sé öllum óháður, hef ég gjört sjálfan mig að þræli allra, til þess að ávinna sem flesta.“ (1. Korintubréf 9:19) Enginn vafi leikur á að Páll lagði sig mjög fram um að flytja boðskap sinn með áhrifaríkum hætti, því að hann sagði enn fremur: „Ég geri allt vegna fagnaðarerindisins til að ég fái hlutdeild í því með öðrum.“ (1. Korintubréf 9:23, NW) Hvað getum við þá lært af fordæmi Páls?
Hann hjálpaði auðmjúkum Gyðingum
3. Hvernig var Páll fús til að gera allt sakir fagnaðarerindisins, eins og sýndi sig í sambandi við Tímóteus og Gyðingana?
3 Sú staðreynd að Páll var Gyðingur og fúsleiki hans til að gera allt vegna fagnaðarerindisins gerði hann vel í stakk búinn til að hjálpa auðmjúkum Gyðingum að taka við Jesú sem Messíasi. Til dæmis skulum við hugleiða það sem postulinn gerði er hann kaus sér Tímóteus að ferðafélaga. Tímóteus átti sér grískan föður og hafði ekki verið umskorinn eins og drengir meðal Gyðinga. (3. Mósebók 12:2, 3) Páll vissi að Gyðingar kynnu að hneykslast ef óumskorinn, ungur maður reyndi að hjálpa þeim að sættast við Guð. Hvað gerði Páll þá til að ekkert stæði í veginum fyrir að hjartahreinir Gyðingar mættu taka við Jesú? Hann „umskar hann sökum Gyðinga,“ jafnvel þótt umskurnar væri ekki krafist af kristnum mönnum. — Postulasagan 16:1-3.
4. Hvert var markmið Páls samkvæmt 1. Korintubréfi 9:20?
4 Það var því vegna fagnaðarerindisins að Páll sýndi öðrum Gyðingum kærleika og umhyggju. Hann skrifaði: „Ég hef verið Gyðingum sem Gyðingur, til þess að ávinna Gyðinga. Þeim, sem eru undir lögmálinu, hef ég verið eins og sá, sem er undir lögmálinu, enda þótt ég sjálfur sé ekki undir lögmálinu, til þess að ávinna þá, sem eru undir lögmálinu.“ (1. Korintubréf 9:20) Eins og þegar Tímóteus átti í hlut gerði Páll það sem hann gat til að ávinna Gyðinga og hjálpa þeim að taka kristna trú. En kom hann eins fram gagnvart mönnum af þjóðunum?
Hann leitaðist við að ávinna heiðingja
5. Fyrir hverjum prédikaði Páll í Korintu og með hvað árangri?
5 Eftir að Páll kom til Korintuborgar um haustið 50 flutti hann vikulega ræður í samkunduhúsinu þar sem Gyðingar og Grikkir, er snúist höfðu til gyðingatrúar, hlýddu á hann. Kostgæf prédikun hans hleypti af stað slíkri andstöðu að hann sagði fjandmönnum sínum: „Blóð yðar komi yfir höfuð yðar. Ekki er mér um að kenna. Upp frá þessu fer ég til heiðingjanna.“ Jehóva blessaði þetta skref því að „margir Korintumenn, sem á hlýddu, tóku trú og létu skírast“ sem kristnir menn. Í sýn hvatti Drottinn Pál til að halda áfram starfi sínu þar og sagði honum: „Ég á margt fólk í þessari borg.“ — Postulasagan 18:1-10.
6. Hver var hvatinn að áhuga Páls á þeim sem voru af öðrum uppruna en hann?
6 Einlæg löngun Páls til að snúa mönnum af þjóðunum til kristinnar trúar fékk hann til að sýna áhuga fólki sem var af allt öðrum uppruna en hann. „Hinum lögmálslausu [heiðingjunum] hef ég verið sem lögmálslaus, þótt ég sé ekki laus við lögmál Guðs, heldur bundinn lögmáli Krists, til þess að ávinna hina lögmálslausu.“ (1. Korintubréf 9:21) Hvernig gerði postulinn sér far um að ávinna heiðingja?
7. Hvers vegna gilti ekki hið sama um Títus og Tímóteus hvað varðaði umskurnina?
7 Er Páll fór til Jerúsalem árið 49 til að sækja mikilvægan fund hins stjórnandi ráðs kristna safnaðarins var gríski lærisveinninn Títus í för með honum. Páll skýrði bræðrunum, sem voru samankomnir, frá prédikun sinni og starfi meðal manna af þjóðunum. Hann skrifaði síðar: „Ekki var einu sinni Títus, sem með mér var og var grískur maður, neyddur til að láta umskerast.“ (Galatabréfið 2:1-3) Ólíkt Tímóteusi starfaði Títus aðallega meðal óumskorinna manna af þjóðunum. Þess vegna kom deilan um umskurnina ekki upp þegar hann átti í hlut. — 2. Korintubréf 8:6, 16-18, 23; 12:18; Títusarbréfið 1:4, 5.
8. Hvernig bar Páll vitni í Aþenu?
8 Páll bar vitni í Aþenu og enn á ný sýndi það sig að hann gerði allt vegna fagnaðarerindisins. Hann tók mið af hugsunarhætti manna í höfuðborg Grikklands og sagði þeim frá Guði, er þeir þekktu ekki, og vitnaði í ljóðskáld þeirra, Aratus og Kleanþes, er sögðu: „Því að vér erum líka hans ættar.“ Þannig leitaðist postulinn við að koma áheyrendum sínum í skilning um að þeir ‚mættu ekki ætla að guðdómurinn væri líkur smíði gjörðri með hagleik og hugviti manna.‘ Páll sagði enn fremur: „Guð, sem hefur umborið tíðir vanviskunnar, boðar nú mönnunum, að þeir skuli allir hvarvetna taka sinnaskiptum.“ Hann beindi athyglinni að „herra himins og jarðar,“ Jehóva. Hver var árangurinn? „Nokkrir menn slógust í fylgd hans. Þeir tóku trú.“ (Postulasagan 17:22-34) Já, aðferðir Páls dugðu!
9. Hvernig var Páll ‚óstyrkur hinum óstyrku‘ og hvers vegna?
9 „Hinum óstyrku hef ég verið óstyrkur,“ sagði Páll. (1. Korintubréf 9:22a) Þótt postulinn væri djarfmæltur tók hann tillit til veikrar samvisku sumra Gyðinga og manna af þjóðunum innan safnaðarins. Hann hvatti kristna menn í Róm: „Takið að yður hina óstyrku í trúnni, án þess að leggja dóm á skoðanir þeirra.“ Páll hvatti ekki til dómhörku heldur sagði: „Keppum þess vegna eftir því, sem til friðarins heyrir og til hinnar sameiginlegu uppbyggingar.“ (Rómverjabréfið 14:1, 13, 19) Hann sagði: „Skylt er oss, hinum styrku, að bera veikleika hinna óstyrku og hugsa ekki um sjálfa oss.“ (Rómverjabréfið 15:1) Honum var vel ljós sú skylda sín að haga máli sínu og framferði þannig að hann hjálpaði öðrum. Hann skrifaði: „Ég hef verið öllum allt.“ — 1. Korintubréf 9:22b; Galatabréfið 3:28.
Auktu færni þína í að prédika
10. Hvernig getum við líkt eftir Páli?
10 Vottar Jehóva nútímans þurfa að líkja eftir Páli eins og hann líkti eftir Kristi. (1. Korintubréf 11:1) Postulinn var fær prédikari gæddur trúboðsanda. Við getum verið þannig líka þótt aðstæður okkar leyfi okkur kannski ekki að þjóna á erlendum akri. Eins og Páll verðum við að ‚gera allt sakir fagnaðarerindisins til að við getum átt hlutdeild í því með öðrum.‘ (1. Korintubréf 9:23) En hvað getum við gert til að verða færari í að prédika Guðsríki og gera menn að lærisveinum? — Matteus 28:19, 20.
11. Hvers vegna ættir þú sem þjónn orðsins að þroska athyglisgáfu þína?
11 Í fyrsta lagi skaltu vinna að því að þroska athyglisgáfuna. Þú getur gert margt til að aðlaga kynningu fagnaðarerindisins einstaklingsbundnum þörfum húsráðandans, með því að vera athugull. Ef þú prédikar í þéttbýli gætir þú til dæmis haft augun opin fyrir dyralæsingum, trúarlegum skreytingum og slagorðalímmiðum. Það getur hjálpað þér að bera vitni þannig að þú náir til hjartna þess fólks sem þar býr. Páll var greinilega eftirtektarsamur. Í Aþenu notaði hann altari helgað „Ókunnum Guði“ til að gefa góðan vitnisburð um „Guð, sem skóp heiminn og allt, sem í honum er.“ (Postulasagan 17:22-25) Þú getur gert eitthvað áþekkt í þjónustu þinni.
12. Hvert er hlutverk dómgreindar í þjónustu okkar?
12 Sýndu góða dómgreind úti á akrinum. Misstu ekki kjarkinn þótt húsráðandinn sé í fyrstu tregur til að opna dyrnar og tala við þig. Sýndu góðvild og góða dómgreind í stað þess að láta fæla þig frá. Gerðu þér far um að aðlaga vitnisburð þinn aðstæðum. Jafnvel stutt íhugun og bæn getur hjálpað þér að segja eitthvað sem snertir jákvæða strengi í hjarta húsráðandans. — Nehemía 2:4-6.
13. Hvernig getum við sýnt þeim sem við berum vitni fyrir tillitssemi?
13 Vertu tillitssamur. Hægt er að gera margt á því sviði sakir fagnaðarerindisins. Tillitssemi kemur í veg fyrir að þú látir aldraða eða sjúka standa lengi í dyrunum. Þú gætir stungið upp á að þú kæmir inn fyrir til að tala við þá, þar sem þeim liði betur. Eins gætir þú ákveðið að best væri, miðað við aðstæður, að hafa heimsóknina stutta. Vertu að minnsta kosti tillitssamur. Sýndu að þú sért umhyggjusamur! — Matteus 9:35, 36.
14. Hvernig getum við komið húsráðanda til að vera óþvingaður?
14 Talaðu þannig að áheyrendur þínir geti verið óþvingaðir í framkomu. Byrjaðu vitnisburð þinn með vingjarnlegum kveðjuorðum sem eru algeng í þínu byggðarlagi. (Matteus 10:12) Taktu með í reikninginn hugsanlegan ótta og fordóma. Vertu hæverskur og vingjarnlegur í framkomu. Það á sinn þátt í að fullvissa húsráðanda um að þú sért kominn til að hjálpa honum og að engar annarlegar hvatir búi að baki.
15. Hvers vegna átt þú að gefa fullnægjandi upplýsingar um sjálfan þig og ástæðuna fyrir heimsókn þinni?
15 Fólk þarf að vita hver það er sem knýr dyra og hvað honum gengur til. Segðu því deili á þér eins og við á. Sums staðar, einkum í Afríku og Asíu, hefur fólk svo mikinn áhuga á gestum að það spyr með ákefð: Hver ertu? Hvar býrðu? Ertu giftur? Áttu börn? Siðvenjur útheimta að þú svarir þessum spurningum áður en þú segir frá erindi þínu; þannig stuðlar þú að þægilegu andrúmslofti. Líttu ekki á slíkar kveðjur sem óþarfar heldur notaðu tímann til að virða húsráðanda fyrir þér og ná góðu sambandi við hann.
16. Hvernig er hægt með spurningum að halda uppi góðum samræðum við húsráðandann?
16 Beittu spurningum fagmannlega til að skiptast á skoðunum við húsráðanda. Þótt ýmislegt megi ef til vill ráða af svipbrigðum hans þarft þú að skilja hugsanir hans og tilfinningar. Til að svo megi verða gætir þú spurt viðeigandi spurninga til að hvetja húsráðandann til að tjá skoðanir sínar og tilfinningar. Tökum dæmi: Barnlaus kona, sem hafði mikinn áhuga á dýravernd, sagði um vott sem heimsótti hana: „Það sem ég man eftir af brosandi andliti hennar er friðurinn. Það vakti forvitni mína og áhuga. Þessi kona spurði mig hvað það væri við ástandið á jörðinni sem ylli mér mestum áhyggjum. Ég sagðist hafa áhyggjur af því hvernig mennirnir færu með dýrin og hún sýndi mér Jesaja 11:6-9 þar sem talað er um að dýrin búi saman í friði. Mig langaði til að vita meira.“
17. Hvers vegna ættir þú að vera vakandi fyrir orðum sem húsráðandi kann að láta falla um aðstæður sínar?
17 Vertu vakandi fyrir því sem húsráðandi kann að segja um aðstæður sínar, einkum þar sem oft er starfað. Með þeim hætti getur þú sennilega komist að einhverju athyglisverðu um hann, jafnvel þótt samtalið sé stutt. Skrifaðu slíkar upplýsingar hjá þér á minnisblaðið eftir að þú ert kominn frá dyrunum. En hvað átt þú að gera ef húsráðandi ber fram spurningu sem þú kannt ekki svar við? Þá skalt þú athuga, með hjálp rita Varðturnsfélagsins, hvernig best sé að segja þessum einstaklingi frá fagnaðarerindinu í næstu heimsókn.
Fordæmi handa trúboðum
18. Hvað geta trúboðar og aðrir lært af Páli?
18 Í hópi þeirra sem gera allt sakir fagnaðarerindisins eru trúboðarnir sem hljóta kennslu í biblíuskóla Varðturnsins, Gíleað. Þeir geta lært af Páli sem hafði góðan trúboðsanda. Til dæmis vildi hann ekki vera valdur að neinu er gæti hindrað Gyðinga og heiðingja í að taka við sannleikanum. Þess vegna gætti hann þess vel hvað hann lagði sér til munns og hvatti kristna menn í Korintu til að gæta þess að hneyksla ekki aðra er þeir neyttu réttar síns til að eta viss matvæli. (1. Korintubréf 8:8, 9) Prófessor F. F. Bruce segir í New Century Bible: „Í öllum smáatriðum (eins og matnum sem til umræðu var í 8. kafla [1. Korintubréfs]) fylgir [Páll] venjum þeirra sem hann er með á þeim tíma, þannig að hann hindri með engum hætti að þeir geti ‚áunnist‘ til fylgis við fagnaðarerindið.“ (Rómverjabréfið 14:21) Á sama hátt reyna trúboðar meðal votta Jehóva ekki að breyta siðvenjum manna þar sem þeir starfa, þótt þeir veiti nýjum andlega hjálp til að gera þær breytingar sem þarf til að þóknast Guði. — Rómverjabréfið 12:1, 2.
19. Hvaða breytinga kann að vera þörf fyrir (a) trúboða, (b) alla boðbera Guðsríkis?
19 Þeir sem takast trúboðsstarf á hendur þurfa að kynnast háttum og siðum fólks. Það er auðgandi lífsreynsla og getur hjálpað trúboðunum að ná betri árangri í prédikun sinni en ella væri. Meira að segja geta þeir þurft að breyta einhverju í klæðaburði sínum eða ytra útliti til að hneyksla ekki aðra. Þegar trúboðssystir ein kom fyrst til Vestur-Afríku komst hún til dæmis að raun um að fólk á þeim slóðum gæti hæglega haldið hana lauslætisdrós vegna þess hvernig hún notaði snyrtivörur. Því gerði hún skjótlega bragarbót þar á til að aðrir myndu ekki gera sér rangar hugmyndir um hana. Að sjálfsögðu ættu allir vottar Jehóva að sýna góða dómgreind í klæðaburði og öðru ytra útliti, til að geta hjálpað öðrum andlega. Kristnir menn, sem eru áminntir ‚að verða ekki bróður til ásteytingar eða falls‘ og keppa að því sem heyrir til friðar og uppbyggingar, ættu vissulega ekki að vilja hneyksla nokkurn mann. — Rómverjabréfið 14:13, 19.
20. (a) Hvað getur, í stuttu máli, hjálpað okkur að ‚gera allt sakir fagnaðarerindisins‘? (b) Hvaða spurningum er enn ósvarað?
20 Velgengni boðbera Guðsríkis er fyrst og fremst undir blessun Jehóva komin. (1. Korintubréf 3:6, 7) Eigi að síður þurfum við líka að leggja okkur fram. Verum því athugul eins og Páll var í þjónustu sinni. Sýnum góða dómgreind, verum tillitsöm, hjálpum húsráðanda að vera óþvingaður og beitum spurningum af lipurð til að skiptast á skoðunum við fólk. Aðlögum okkur siðvenjum sem kunna að virðast undarlegar en brjóta ekki í bága við Biblíuna. Já, við skulum ‚gera allt sakir fagnaðarerindisins til að við getum átt hlut í því með öðrum.‘ (1. Korintubréf 9:23) En hvað um þá sem nú þegar tilheyra hinu kristna bræðrafélagi? Hvernig komum við fram við þá?
Hverju svarar þú?
◻ Hvað gerði Páll til að hjálpa Gyðingum að taka kristna trú?
◻ Hvernig leitaðist Páll við að ávinna heiðingja?
◻ Nefndu nokkrar leiðir til að verða færari prédikari.
◻ Hvaða fordæmi gaf Páll trúboðum og öðrum boðberum Guðsríkis?