Frá páskamáltíð til hjálpræðis
„Ég lyfti upp bikar hjálpræðisins og ákalla nafn [Jehóva].“ — SÁLMUR 116:13.
1. Hvaða eftirlætissöngur allra kynslóða getur haft áhrif á framtíð þína?
HVERNIG myndi þér geðjast að söng sem fjallaði um langa og hamingjuríka framtíð þér til handa? Slíkur söngur hefur í raun réttri verið uppáhaldssöngur svo öldum skiptir. Þú ert þó í betri aðstöðu en flestir til að skilja og njóta þessa merkingarþrungna söngs. Gyðingar kalla hann „Hallel“ sem merkir lofsöngur. Hann er að finna í Sálmi 113 til 118 og hvetur okkur til að syngja „halelúja“ eða „lofið Jah.“
2. Við hvaða tækifæri er þessi söngur sunginn og hvernig tengist hann páskum?
2 Gyðingar syngja Hallelsálmana við páskahátíð sína og munu hafa sungið þá allt frá þeim tíma er Guð átti musteri þar sem dýrum var fórnað. Núna er hann sunginn á heimilum Gyðinga á páskahátíðinni og við máltíð sem kölluð er „Seder.“ Fáir sem syngja hann við það tækifæri skilja þó hina raunverulegu merkingu orðanna í Sálmi 116:13: „Ég lyfti upp bikar hjálpræðisins og ákalla nafn [Jehóva].“ En hvers vegna er hjálpræði tengt páskunum og geta þeir snert hjálpræði þitt með einhverjum hætti?
Páskar — hjálpræðishátíð
3. Hver er uppruni páskahátíðarinnar?
3 Þú manst að Ísraelsmenn voru þrælar í Egyptalandi kúgaðir af Faraó. Loks vakti Jehóva upp Móse til að leiða þjóð sína til frelsis. Eftir að Guð hafði látið koma níu plágur yfir Egyptaland tilkynnti Móse að sú tíunda væri á leiðinni. Jehóva ætlaði að deyða frumburði á öllum heimilum Egypta. (2. Mósebók 11:1-10) Ísraelsmenn gátu þó umflúið slíkt með því að slátra lambi, rjóða blóði þess á dyrastafi og dyratré, halda sig innanhúss og neyta máltíðar með steiktu lambi, ósýrðu brauði og beiskum jurtum. Á meðan myndi Guð „ganga fram hjá“ húsum þeirra án þess að deyða frumburði þeirra. — 2. Mósebók 12:1-13.
4, 5. Hvernig leiddu páskarnir til hjálpræðis margra? (Sálmur 106:7-10)
4 Viðbrögð Faraós við tíundu plágunni voru þau að hann sagði Móse: „Takið yður upp og farið burt frá minni þjóð, bæði þið og Ísraelsmenn. Farið og þjónið [Jehóva].“ (2. Mósebók 12:29-32) Eftir að Hebrear og „mikill fjöldi af alls konar lýð“ stuðningsmanna þeirra yfirgáfu landið skipti Faraó um skoðun og veitti þeim eftirför. Guð gerði þá kraftaverk og kom þjóð sinni undan gegnum Rauðahafið en Faraó og her hans drukknaði. — 2. Mósebók 12:38; 14:5-28; Sálmur 78:51-53; 136:13-15.
5 Móse sagði Ísraelsmönnum við Rauðahafið: „Óttist ekki. Standið stöðugir, og munuð þér sjá hjálpræði [Jehóva], er hann í dag mun láta fram við yður koma.“ Síðar sungu þeir: „[Jehóva] er styrkur minn og lofsöngur, og hann varð mitt hjálpræði. Hann er minn Guð, og ég vil vegsama hann.“ (2. Mósebók 14:13; 15:2) Já, frelsun Ísraels, bæði undan tíundu plágunni og gegnum Rauðahafið, var hjálpræði. Sálmaritarinn gat með réttu lýst Jehóva sem Guði „er framkvæmir hjálpræðisverk á jörðu.“ — Sálmur 68:7, 21; 74:12-14; 78:12, 13, 22.
6, 7. Hvers vegna var páskahátíðin stofnsett en hvers vegna er hún ekki haldin nú með sama sniði og fyrstu páskarnir?
6 Hebrear áttu að halda páska sem minningarhátíð um hjálpræði sitt. Guð sagði: „Þessi dagur skal vera yður endurminningardagur, og þér skuluð halda hann sem hátíð [Jehóva]. Kynslóð eftir kynslóð skuluð þér hann hátíðlegan halda.“ (2. Mósebók 12:14) Við hverja páskamáltíð átti faðirinn að minna fjölskyldu sína á þetta hjálpræði. Jehóva sagði: „Þegar börn yðar segja við yður: ‚Hvaða siður er þetta, sem þér haldið?‘ þá skuluð þér svara: ‚Þetta er páskafórn [Jehóva], sem gekk fram hjá húsum Ísraelsmanna í Egyptalandi, þá er hann laust Egypta, en hlífði vorum húsum.‘“ — 2. Mósebók 12:25-27.
7 Að Gyðingar skuli enn þann dag í dag halda páska hátíðlega og neyta páskamáltíðarinnar staðfestir að þessi frásaga er sannsöguleg. Ýmsir siðir þeirra eru þó frábrugðnir því sem Guð mælti fyrir um. Ritið The Origins of the Seder segir: „Biblían fjallar ítarlega um páskahátíðina og hátíð ósýrðu brauðanna, en lýsingar hennar samsvara ekki hátíðahöldunum eins og þau urðu síðar á tímum. Helgisiðir Biblíunnar beina athyglinni einkum að páskafórninni sem er ekki lengur aðalatriði í bókmenntum eftir að ritun Biblíunnar lauk.“ Ein meginástæðan er sú að Gyðingar höfðu þá ekki lengur musteri til að færa dýrafórnir.
8. Hvaða sérstaka ástæðu höfum við til að íhuga gildi páskahátíðarinnar?
8 Kristnum mönnum er fengur í því að kynna sér vel allar þær hátíðir sem Guð ætlaði Forn-Ísraelsmönnum að halda,a en við munum nú beina athygli okkar sérstaklega að ákveðnum þáttum páskahaldsins. Jesús, sem var Gyðingur, hélt páska. Við síðustu páskamáltíðina sem hann neytti gerði hann grein fyrir einu hátíðinni sem Guð ætlaði kristnum mönnum að halda — kvöldmáltíð Drottins, minningarhátíðinni um dauða Jesú. Þessi kristna hátíð er því tengd páskahátíðinni.
Meira en páskalamb
9, 10. Að hvaða leyti var páskalambið sérstök fórn?
9 Hebreabréfið 10:1 segir okkur að ‚lögmálið geymi aðeins skugga hins góða sem er í vændum.‘ Fræðiritið Cyclopædia of Biblical, Theological, and Ecclesiastical Literature eftir M’Clintock og Strong segir: „Enginn annar skuggi lögmálsins um hið góða, sem á að koma, er meiri en páskahátíðin.“ Sérstaklega hafði páskalambið meiri þýðingu en aðeins þá að vera til minningar um hvernig Guð bjargaði frumburðum og síðan öllum Hebreum út úr Egyptalandi.
10 Lambið var einstakt fyrir margra hluta sakir. Einstaklingar báru fram fjölmargar þeirra fórna, sem færðar voru samkvæmt Móselögunum, í tengslum við persónulegar syndir eða sekt, og hluta fórnardýranna var brennt á altarinu. (3. Mósebók 4:22-35) Sumt af kjöti samfélagsfórnanna var gefið þeim presti sem sá um hana eða öðrum prestum. (3. Mósebók 7:11-38) Páskalambið var hins vegar ekki notað á altarinu og það var hópur manna sem fórnaði því, yfirleitt fjölskylda, og hún át það einnig. — 2. Mósebók 12:4, 8-11.
11. Hvernig leit Jehóva á páskalambið og fram til hvers benti það? (4. Mósebók 9:13)
11 Jehóva mat páskalambið svo mikils að hann kallaði það ‚fórn sína.‘ (2. Mósebók 23:18; 34:25) Fræðimenn segja að „páskafórnin hafi verið fórn Jehóva sem engin önnur jafnaðist á við.“ Þetta lamb var óumdeilanlega fyrirmynd um fórn Jesú eða benti fram til hennar. Við vitum það vegna þess að Páll postuli kallaði Jesú ‚páskalamb vort, sem hefur verið slátrað.‘ (1. Korintubréf 5:7) Jesús var nefndur „Guðs lamb“ og „lambið hið slátraða.“ — Jóhannes 1:29; Opinberunarbókin 5:12; Postulasagan 8:32.
Blóð sem gefur líf
12. Hvaða hlutverki þjónaði blóð lambsins við fyrstu páskahátíðina?
12 Í Egyptalandi skipti blóð lambsins sköpum um hjálpræði og björgun. Er Jehóva drap frumburðina fór hann fram hjá þeim húsum þar sem blóð hafði verið borið á dyrastafina. Og með því að Hebrear þurftu enga látna frumburði að syrgja gátu þeir gengið fylktu liði til frelsis yfir Rauðahafið.
13, 14. Hvernig er blóð Jesú nauðsynlegt til björgunar og hjálpræðis? (Efesusbréfið 1:13)
13 Blóð á einnig hlut að hjálpræði manna nú á tímum — úthellt blóð Jesú. Laust fyrir „páska, hátíð Gyðinga,“ árið 32 sagði Jesús stórum áheyrendahópi: „Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt, hefur eilíft líf, og ég reisi hann upp á efsta degi. Hold mitt er sönn fæða, og blóð mitt er sannur drykkur.“ (Jóhannes 6:54, 55) Allir Gyðingarnir, sem á hann hlýddu, hljóta að hafa haft í huga páskahátíðina, sem í vændum var, og lambsblóðið sem notað var í Egyptalandi.
14 Jesús var ekki þá að ræða um brauðið og vínið sem notað er við kvöldmáltíð Drottins. Þessi nýja hátíð kristinna manna var ekki stofnuð fyrr en ári síðar þannig að jafnvel postularnir, sem hlýddu á Jesú árið 32, vissu ekkert um hana. Eigi að síður var Jesús að sýna fram á að blóð hans væri forsenda hjálpræðis. Páll skýrði nánar: „Í honum, fyrir hans blóð, eigum vér endurlausnina og fyrirgefningu afbrota vorra. Svo auðug er náð hans.“ (Efesusbréfið 1:7, 8) Við getum lifað að eilífu aðeins vegna fyrirgefningar á grundvelli blóðs Jesú.
Hvers konar hjálpræði og hvar?
15. Hvaða hjálpræði og sérréttindi buðust Hebreum í Egyptalandi og hvað ekki? (1. Korintubréf 10:1-5)
15 Í Egyptalandi til forna var einungis um að ræða takmarkað hjálpræði. Enginn sem yfirgaf Egyptaland bjóst við að hljóta eilíft líf eftir burtförina. Að vísu skipaði Guð Levítana sem presta handa þjóðinni og sumir af ættkvísl Júda ríktu sem konungar en allir dóu þó um síðir. (Postulasagan 2:29; Hebreabréfið 7:11, 23, 27) Enda þótt ‚hinn mikli fjöldi af alls konar lýð,‘ sem einnig fór frá Egyptalandi, hafi ekki notið þeirra sérréttinda gat hann vonast til að ná til fyrirheitna landsins og lifa þar eðlilegu lífi og tilbiðja Guð ásamt Hebreum. Þó höfðu þjónar Guðs fyrir daga kristninnar tilefni til að vonast eftir því að þeir myndu um síðir fá að lifa eilíflega á jörðinni þar sem Guð ætlaði mannkyninu að lifa, enda í samræmi við Jóhannes 6:54.
16. Hvers konar hjálpræðis gátu þjónar Guðs til forna vænst?
16 Guð notaði suma af þjónum sínum til forna til að færa í letur uppörvandi orð þess efnis að jörðin hafi verið sköpuð til að vera byggð mönnum og að hinir grandvöru skyldu búa á henni að eilífu. (Sálmur 37:9-11; Orðskviðirnir 2:21, 22; Jesaja 45:18) En hvernig gátu sannir tilbiðjendur Guðs hlotið slíkt hjálpræði fyrst þeir dóu? Á þann hátt að Guð myndi vekja þá aftur til lífs á jörðu. Job lét til dæmis í ljós þá von að hans yrði minnst og hann yrði endurvakinn til lífs. (Jobsbók 14:13-15; Daníel 12:13) Ljóst er því að ein tegund hjálpræðis felst í eilífu lífi hér á jörð. — Matteus 11:11.
17. Hvaða ólíkt hjálpræði sýnir Biblían að aðrir geti hlotið?
17 Biblían talar einnig um hjálpræði til lífs á himnum þangað sem Jesús Kristur fór eftir upprisu sína. Hann er „uppstiginn til himna, situr Guði á hægri hönd, en englar, völd og kraftar eru undir hann lagðir.“ (1. Pétursbréf 3:18, 22; Efesusbréfið 1:20-22; Hebreabréfið 9:24) En Jesús er ekki eini maðurinn sem fer til himna. Guð hefur ákveðið að taka frá jörðu tiltölulega smáan hóp annarra manna. Jesús sagði postulunum: „Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo, hefði ég þá sagt yður, að ég færi burt að búa yður stað? Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað, kem ég aftur og tek yður til mín, svo að þér séuð einnig þar sem ég er.“ — Jóhannes 14:2, 3.
18. Hvaða ástæðu höfum við nú til að beina athygli okkar að hjálpræði til lífs á himnum?
18 Hjálpræði til lífs á himnum í samfélagi við Jesú er vissulega langtum stórfenglegra en hið takmarkaða hjálpræði sem tengdist fyrstu páskamáltíðinni. (2. Tímóteusarbréf 2:10) Það var að kvöldi hinnar síðustu, gildu páskamáltíðar, að Jesús stofnsetti nýja hátíð fylgjenda sinna er hafði hjálpræði til lífs á himnum sem þungamiðju. Hann sagði postulunum: „Gjörið þetta í mína minningu.“ (Lúkas 22:19) Áður en við hugleiðum hvernig kristnir menn ættu að halda þessa hátíð skulum við athuga hvenær hún skyldi haldin.
„Á tilteknum tíma“
19. Hvers vegna er rökrétt að tengja kvöldmáltíð Drottins páskunum?
19 Jesús hafði sagt: „Hjartanlega hef ég þráð að neyta þessarar páskamáltíðar með yður, áður en ég líð.“ (Lúkas 22:15) Síðan lagði hann drög að kvöldmáltíð Drottins sem fylgjendur hans áttu að halda hátíðlega til minningar um dauða hans. (Lúkas 22:19, 20) Páskar voru haldnir hátíðlegir einu sinni á ári. Því er eðlilegt að kvöldmáltíð Drottins sé haldin hátíðleg árlega. Hvenær? Rökrétt er að það sé að vori til á páskum þann 14. nísan (eftir almanaki Gyðinga), en ekki ófrávíkjanlega á föstudegi þótt hann hafi verið dánardagur Jesú.
20. Hvers vegna hafa vottar Jehóva sérstakan áhuga á 14. nísan?
20 Páll hefur því haft í huga þann 14. nísan er hann skrifaði: „Svo oft sem þér etið þetta brauð og drekkið af bikarnum, boðið þér dauða Drottins, þangað til hann kemur.“ (1. Korintubréf 11:26) Næstu tvær aldirnar héldu margir kristnir menn sér við 14. nísan og voru þekktir sem „kvartódesiman“ en það er dregið af latneska orðinu fyrir „fjórtándi.“ M’Clintock og Strong segja: „Kirkjurnar í Litlu-Asíu minntust dauða Drottins á þeim degi er svaraði til 14. dags mánaðarins nísan, en þann dag áleit öll kirkjan til forna að krossfestingin hefði átt sér stað.“ Nú á dögum halda vottar Jehóva kvöldmáltíð Drottins hátíðlega ár hvert á þeim degi er svarar til 14. nísan. Sumir hafa veitt því eftirtekt að hann ber ekki alltaf upp á sama dag og Gyðingar halda páska. Hvers vegna?
21. Hvenær átti að fórna páskalambinu en hvað gera Gyðingar nú á tímum?
21 Dagurinn hjá Hebreum stóð frá sólsetri (um klukkan sex) til næsta sólseturs. Guð bauð að páskalambinu skyldi slátrað þann 14. nísan „milli kvöldanna tveggja.“ (2. Mósebók 12:6, NW) Hvenær skyldi það hafa verið? Nútímagyðingar fylgja því viðhorfi rabbína sinna að lambinu hafi verið slátrað undir lok þess 14. nísan, á bilinu frá því að sól fór að lækka á lofti (um klukkan þrjú síðdegis) fram til sólseturs. Þeir neyta því páskamáltíðar sinnar eftir sólsetur þegar 15. nísan er hafinn. — Markús 1:32.
22. Hvers vegna ber minningarhátíðina ekki alltaf upp á sama dag og páska hjá Gyðingum? (Markús 14:17; Jóhannes 13:30)
22 Við höfum þó góða og gilda ástæðu til að skilja þessi orð á annan veg. Fimmta Mósebók 16:6 tók skýrt fram að Ísraelsmenn skyldu „slátra páskafórninni . . . að kveldi um sólarlagsbil.“ Út frá því má ætla að tíminn „milli kvöldanna tveggja“ sé rökkurtíminn frá sólsetri (þegar 14. nísan hefst) fram til myrkurs. Kara-Gyðingarb til forna skyldu það þannig og það gera Samverjarc enn þann dag í dag. Við viðurkennum að páskalambinu hafi verið fórnað og það etið „á tilteknum tíma“ þann 14. nísan, ekki þann 15. nísan, og það er ein ástæðan fyrir því að minningarhátíð okkar ber ekki alltaf upp á sama dag og páskar hjá Gyðingum. — 4. Mósebók 9:2-5.
23. Hvers vegna er aukamánuði skotið inn í almanak Hebrea og hvaða aðferð nota Gyðingar nú á tímum?
23 Önnur ástæða fyrir því að minningarhátíð okkar og páska Gyðinga ber ekki alltaf upp á sama dag er sú að Gyðingar fylgja fastmótuðu almanaki sem ekki var fullmótað fyrr en á fjórðu öld okkar tímatals. Samkvæmt því geta þeir dagsett 1. nísan eða ýmsar hátíðir áratugi eða aldir fram í tímann. Samkvæmt hinu forna tungldagatali þurfti að skjóta inn 13. mánuðinum endrum og eins til að samstilla það árstíðunum. Samkvæmt núverandi almanaki Gyðinga er þessum mánuði skotið inn á ákveðnum stöðum sem endurtaka sig á nítján ára fresti, og er þeim skotið inn 3., 6., 8., 11., 14., 17. og 19. árið.
24, 25. (a) Hvernig voru mánuðirnir og þörfin á innskotsmánuðinum ákvörðuð á dögum Jesú? (b) Hvernig dagsetja vottar Jehóva kvöldmáltíð Drottins?
24 Emil Shürer bendir hins vegar á að „á dögum Jesú hafi [Gyðingar] enn ekki haft fastmótað almanak heldur hafi nýr mánuður hafist með nýju tungli og þar verið byggt á athugunum einum saman, og eins hafi athuganir ráðið því“ hvenær aukamánuðinum var skotið inn. Ef ljóst var í árslok að páska myndi bera upp fyrir jafndægur á vori [um 21. mars], þá var skotið inn aukamánuði á undan nísan.“ (The History of Jewish People in Age of Jesus Christ, 1. bindi) Aukamánuðinum var þannig skotið inn eftir þörfum en ekki eftir föstu kerfi.
25 Hið stjórnandi ráð votta Jehóva dagsetur kvöldmáltíð Drottins eftir þessari fornu aðferð. Fyrsti nísan er ákvarðaður eftir því hvenær líklegt er að nýtt tungl sjáist næst jafndægrum á vori við sólsetur í Jerúsalem. Síðan eru taldir fjórtán dagar fram til 14. nísan sem að jafnaði svarar til tunglfyllingardags. (Sjá Varðturninn enska útgáfu þann 15. júní 1977, bls. 383-4.) Samkvæmt þessari aðferð Biblíunnar hefur vottum Jehóva um heim allan verið bent á að minningarhátíðin skuli í ár haldin eftir sólsetur þann 10. apríl.
26. Hvað annað viðvíkjandi kvöldmáltíð Drottins verðskuldar athygli okkar?
26 Sá dagur svarar til 14. nísan þegar Jesús Kristur neytti síðustu gildu páskamáltíðarinnar. Minningarhátíðin dregur hins vegar athyglina að hjálpræði sem er meira og betra en það hjálpræði sem páskahátíð Gyðinga hefur í minnum. Öll þurfum við að skilja hvað gerist við kvöldmáltíð Drottins, hvað það merkir, og hvernig það tengist hjálpræði okkar.
[Neðanmáls]
a Sjá Varðturninn (enska útgáfu) þann 15. febrúar 1980, bls. 8-24.
b M’Clintock og Strong lýsa þeim sem „einhverjum elsta og athyglisverðasta sértrúarflokki samkundu Gyðinga. Þeir skáru sig úr sérstaklega fyrir það að fylgja strangt bókstaf hins skrifaða lögmáls.“
c „Þeir slátra dýrinu að kveldi . . . um miðnætti neytir hver fjölskylda eða hópur kjötsins . . . og brennir síðan leifunum og beinunum fyrir morgun . . . Sumir fræðimenn telja að trú Samverja sér mjög lík hinni biblíulegu trú áður en rabbínatrú gyðingdómsins endurmótaði hana.“ — The Origins of the Seder.
Hverju svarar þú?
◻ Hvers vegna eru páskar eðlilega tengdir hjálpræði?
◻ Hvernig getur fórn Jesú áorkað meiru en páskalambið?
◻ Hvaða hjálpræði er mögulegt fyrir tilstilli Jesú?
◻ Hvernig dagsetja vottar Jehóva það hvenær rétt sé að halda kvöldmáltíð Drottins hátíðlega?