Unnið með hinu stjórnandi ráði nú á tímum
„Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar.“ — LÚKAS 12:44.
1. Í hvaða ríki tók Kristur að stjórna árið 33 og fyrir milligöngu hverra?
Á HVÍTASUNNUNNI árið 33 tók Kristur, höfuð safnaðarins, að ríkja yfir andasmurðum þjónum sínum fyrir milligöngu heilags anda, engla og sýnilegs stjórnandi ráðs. Eins og Páll postuli benti á ,frelsaði Guð þá frá valdi myrkursins og flutti þá inn í ríki síns elskaða sonar.‘ — Kólossubréfið 1:13-18; Postulasagan 2:33, 42; 15:2; Galatabréfið 2:1, 2; Opinberunarbókin 22:16.
2. Í hvaða umfangsmeira ríki tók Kristur að ríkja árið 1914?
2 Þegar ‚tímum heiðingjanna‘ lauk færði Jehóva út konunglegt vald Krists þannig að það náði yfir meira en kristna söfnuðinn. (Lúkas 21:24) Já, árið 1914 gaf Guð syni sínum vald til að vera konungur yfir ‚þjóðunum,‘ ‚heimsríkinu,‘ öllu mannkyni. — Sálmur 2:6-8; Opinberunarbókin 11:15.
Settir ‚yfir allar eigur hans‘
3, 4. (a) Hvern táknaði hinn göfugi maður í dæmisögu Jesú um pundin? (b) Hvaða þróun átti sér stað í tenglsum við ríkið árið 1918 og 1919?
3 Hér er vert að gefa gaum dæmisögu Jesú um göfugan mann. (Lúkas 19:11-27) Hann fékk þjónum sínum fjármuni (pund) til ávöxtunar áður en hann fór úr landi til að taka við konungdómi. Eftir að þessi maður, sem táknar Krist, kom aftur „lét hann kalla fyrir sig þjóna þá er hann hafði selt féð í hendur, til þess að vita, hvað hver hefði grætt.“ (Lúkas 19:15) Hver urðu málalok þessa eftir að Jesús hafði tekið við konungdómi?
4 Árið 1918 fann Kristur, sem nú sat í hásæti, tiltölulega smáan hóp kristinna manna sem höfðu yfirgefið kirkjur kristna heimsins og voru önnum kafnir við að annast jarðneskar eigur húsbóndans. Eftir að hafa hreinsað þá með eldi gaf Jesús þjónum sínum og stjórnandi ráði þeirra aukið vald árið 1919. (Malakí 3:1-4; Lúkas 19:16-19) Hann setti þá „yfir allar eigur sínar.“ — Lúkas 12:42-44.
‚Skammtur á réttum tíma‘
5, 6. (a) Hvaða aukin verkefni fékk ráðsmaður Krists? (b) Hvaða spádómar áttu að uppfyllast eftir 1914 og hvernig átti ráðsmannshópurinn að eiga virkan þátt í uppfyllingu þeirra?
5 Hinn ríkjandi konungur, Jesús Kristur, fékk þessum ráðsmanni sínum á jörðinni umfangsmeira verkefni en áður. Hinir smurðu kristnu menn áttu að vera „erindrekar“ eða sendiherrar hins krýnda konungs sem fengið hafði vald til að ríkja yfir öllum þjóðum jarðar. (2. Korintubréf 5:20; Daníel 7:14) Hin sameiginlega ábyrgð þeirra fól nú í sér meira en það að gefa fyrst og fremst smurðum hjúum Krists „skammtinn á réttum tíma.“ (Lúkas 12:42) Þeir áttu nú að taka virkan þátt í uppfyllingu þeirra spádóma sem áttu að rætast eftir stofnsetningu Guðsríkis árið 1914.
6 Hvað fól það í sér í reynd? Það fól í sér að auka prédikun ‚þessa fagnaðarerindis um ríkið‘ uns hún næði „um alla heimsbyggina.“ (Matteus 24:14) Það fól einnig í sér að bera til manna kraftmikinn boðskap um dóm yfir illu heimskerfi Satans og stuðningsmönnum þess. Það hafði þau áhrif að ‚hræra þjóðirnar.‘ Um leið byrjuðu „gersemar“ Krists, ‚aðrir sauðir‘ hans, að safnast saman. (Haggaí 2:7; Jóhannes 10:16) Allt frá 1935 hefur ‚hinn mikli múgur‘ streymt inn í skipulag Jehóva um víða veröld. (Opinberunarbókin 7:9, 10) Það kallaði á endurbætur á skipulaginu stig af stigi. Lýst með táknmáli þurfti að setja járn í stað grjóts, eir í stað trjáviðar, silfur í stað járns og gull í stað eirs. (Jesaja 60:17) Allt hefur þetta gerst frá 1919 undir virkri og beinni handleiðslu Krists sem hefur falið hinum trúa þjóni og stjórnandi ráði hans umsjón með öllum jarðneskum hagsmunum eða eigum Guðsríkis.
7. Hvað fól hin aukna ábyrgð ráðsmannsins í sér?
7 Við skiljum vel að þessi aukna ábyrgð, sem lögð var á þjón eða ráðsmann húsbóndans, fól í sér mikil rit- og útgáfustörf. Miðla þurfti andlegri fæðu stöðuglega og á réttum tíma á síðum Varðturnsins. Þá, árið 1919, var farið að gefa út annað tímarit, Gullöldina (síðar nefnt Hughreysting og loks Vaknið!), sem einkum var ætlað að vekja áhuga almennings auk þess að byggja upp ‚hjúin.‘ (Matteus 24:45) Auk þess hefur verið haldið áfram að gefa út stöðugan straum bóka, bæklinga og smárita eftir því sem árin hafa liðið.
Stöðug fágun
8. Hverja var fyrst litið á sem stjórnandi ráð og hvað sagði Varðturninn árið 1944?
8 Það er ekkert undarlegt, þegar litið er um öxl, að hið stjórnandi ráð núna á tíma endalokanna skyldi í fyrstu vera nátengt ritstjórn Varðturnsfélagsins. (Daníel 12:4) Greinin „Guðræðisleg niðurröðun nú á tímum,“ sem birtist í Varðturninum á ensku þann 1. nóvember 1944, sagði: „Eðlilegt er að þeir sem falin var útgáfa hinna opinberuðu biblíusanninda skyldu vera skoðaðir sem hið útvalda, stjórnandi ráð Drottins, er skyldi leiðbeina öllum sem þráðu að tilbiðja Guð í anda og sannleika og þjóna honum í sameiningu að því að útbreiða þessi opinberuðu sannindi til hungraðra og þyrstra manna.“
9. Hverju var hið stjórnandi ráð nátengt síðar og hvers vegna?
9 Fullnægja þurfti vissum lagaákvæðum til að gefa út þessi tímarit og önnur hjálpargögn til biblíunáms. Þess vegna var Biblíu- og smáritafélagið Varðturninn stofnsett og lögskráð í Pennsylvaníuríki í Bandaríkjunum. Um langt árabil var litið á stjórn þessa félags, sem stofnað hafði verið til að gefa út hjálpargögn til biblíunáms er þjónar Drottins um alla jörðina þörfnuðust og notuðu, sem hið sýnilega, stjórnandi ráð.
10, 11. Hvaða breyting var gerð árið 1944 og hvað var sagt um hana í Varðturninum?
10 Hinir sjö stjórnarmenn voru allir trúfastir kristnir menn, en sú staðreynd að þeir voru stjórnarmenn lögskráðs félags gat gefið þá hugmynd að þeir ættu stöðu sína í hinu stjórnandi ráði því að þakka að þeir væru kjörnir af meðlimum Varðturnsfélagsins. Auk þess var slík aðild að Félaginu og atkvæðisréttur, sem henni fylgdi, lögum samkvæmt veittur aðeins vissum einstaklingum sem lögðu fram fé til Félagsins. Þessu fyrirkomulagi þurfti að breyta. Það var gert á ársfundi Pennsylvaníudeildar Varðturnsfélagsins sem haldinn var þann 2. október 1944. Lögum Félagsins var breytt á þá lund að félagsaðild réðist ekki lengur af fjárstuðningi. Meðlimir Félagsins yrðu nú valdir úr hópi trúfastra þjóna Jehóva, og í þeirra hópi eru margir sem nú þjóna í fullu starfi í aðalstöðvunum í Brooklyn í New York og útibúum Félagsins um víða veröld.
11 Er Varðturninn fjallaði um þessar breytingar þann 1. nóvember 1944 sagði blaðið: „Peningar í mynd fjárframlaga ættu ekki að ráða neinu um ákvörðunarvald, ættu í rauninni ekki að tengjast á nokkurn hátt því að fullskipa hið stjórnandi ráð votta Jehóva á jörðinni. . . . Heilagur andi, starfskrafturinn sem kemur frá Jehóva Guði fyrir milligöngu Krists Jesú, ætti að ákveða og leiðbeina í þessu máli.“
Ekki hið sama og stjórn Félagsins
12. Hvað sýnir að Jehóva blessaði breytingarnar undir handleiðslu hins stjórnandi ráðs?
12 Framfarir í starfinu á áratugunum þar á eftir sanna að Jehóva blessaði þennan bætta skilning á starfi hins stjórnandi ráðs nútímans. (Orðskviðirnir 10:22) Vottum Jehóva í heiminum fjölgaði úr innan við 130.000 árið 1944 í 1.483.430 árið 1970! En frekari breytingar áttu eftir að koma.
13. (a) Hvernig var hið stjórnandi ráð skipað allt til ársins 1971? (b) Hvað gerðist á ársfundi Félagsins árið 1971?
13 Allt fram til ársins 1971 var hið stjórnandi ráð enn þá skipað sömu sjö einstaklingunum og sátu í stjórn Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn í Pennsylvaníu. Lagalegur forseti Félagsins bar aðalábyrgðina á að taka ákvarðanir viðvíkjandi starfrækslu útibúa Félagsins um víða veröld. En þá voru fluttar ræður á ársfundinum þann 1. október 1971 sem mörkuðu tímamót. Forseti Félagsins talaði um efnið „Helgidómurinn færður í samt lag“ og varaforsetinn um hið athyglisverða efni „Stjórnandi ráð og lagalegt félag — tvennt ólíkt.“ Hvaða munur er á hinu stjórnandi ráði og hinu lögskráða félagi?
14. Hvaða munur er á lögskráðu félagi og hinu stjórnandi ráði?
14 Eins og áður hefur verið getið er stjórn Pennsylvaníufélagsins skipuð sjö einstaklingum. Þeir eru vígðir kristnir menn valdir til þriggja ára í senn af félagsmeðlimum sem eru ekki fleiri en 500 talsins. Minnihluti hinna síðarnefndu er smurður af andanum. Þar eð tilvist þessa félags þjónar eingöngu lagalegum tilgangi, og það á sér fastar aðalstöðvar landfræðilega séð, getur keisarinn, það er ríkið, leyst það upp. (Markús 12:17) Aftur á móti er hið stjórnandi ráð ekki lagalegt verkfæri. Þeir sem eiga sæti í því eru ekki kosnir í embætti. Þeir eru skipaðir fyrir atbeina heilags anda undir stjórn Jehóva Guðs og Jesú Krists. (Samanber Postulasöguna 20:28.) Hið stjórnandi ráð er því skipað af anda Jehóva og ekki sjálfkrafa bundið við neitt ákveðið aðsetur á jörðinni eða aðalstöðvar.
15. Hvað var sagt um skipulag í Varðturninum þann 15. desember 1971 og hvað má segja um hið stjórnandi ráð nútímans?
15 Varðturninn sagði þann 15. desember 1971a um þennan breytta skilning: „Kristnir vottar Jehóva vita og halda því fast fram að þetta er ekki trúfélag stjórnað af einum manni heldur á það sér stjórnandi ráð andasmurðra kristinna manna.“ Hið stjórnandi ráð hins andasmurða þjónshóps og milljóna félaga þeirra af hinum öðrum sauðum hefur stig af stigi verið búið því sem þörf er á til að það geti sinnt umsjónarstarfi sínu.
16. Hvernig hafa eigur Krists á jörð aukist frá 1971? Nefndu sumt af því sem hann hefur falið hinum trúa og hyggna þjóni umsjón með, undir forystu hins stjórnandi ráðs.
16 Jarðneskar „eigur“ konungsins Jesú Krists hafa farið stöðugt vaxandi. Frá 1971 hefur vottunum fjölgað frá tæplega 1.600.000 upp í næstum 3.700.000 árið 1989 þegar flest var. Það er augljós sönnun fyrir blessun Guðs! (Jesaja 60:22) Þessi vöxtur hefur kallað á aukið húsnæði í aðalstöðvunum og hinum mörgu útibúum eða deildarskrifstofum, auk nýjustu tækni við útgáfu rita og dreifingu þeirra. Vöxturinn hefur haft í för með sér að reistir hafa verið margir Ríkissalir og mótshallir víða um heim. Samtímis hefur hið stjórnandi ráð haldið áfram að sinna þeirri ábyrgð að hafa umsjón með prédikunarstarfinu, útgáfu og gerð biblíunámsefnis og skipan umsjónarmanna á deildarskrifstofum Félagsins, umdæmum, farandsvæðum og söfnuðum. Allt eru þetta hagsmunir Guðsríkis sem Kristur hefur falið hinum trúa og hyggna þjóni umsjón með, en hið stjórnandi ráð er fulltrúi þess þjóns.
17. Hvaða frekari breytingar á umsjóninni áttu sér stað árið 1971, 1974 og 1976?
17 Á fyrstu öldinni var fjölgað í hinu stjórnandi ráði þannig að fleiri tóku sæti í því en postular Jesú. Þegar skorið var úr deilunni um umskurnina sátu ‚postularnir og öldungarnir í Jerúsalem‘ greinilega í ráðinu. (Postulasagan 15:1, 2) Á hliðstæðan hátt var fjölgað í hinu stjórnandi ráði árið 1971 og aftur 1974. Til að auðvelda sér umsjónarstarfið setti hið stjórnandi ráð til starfa fimm nefndir þann 1. janúar 1976. Í hverri nefnd sitja þrír til sex fulltrúar sem allir hafa jafnmikið að segja um þau mál sem til umfjöllunar eru. Hver nefnd á sér formann skipaðan til eins árs. Einstakir meðlimir hins stjórnandi ráðs sitja í einni eða fleiri af þessum nefndum. Hver þessara fimm nefnda hefur umsjón með sérstökum þætti jarðneskra ‚eigna‘ Krists. Sjötta nefndin — forsætisnefndin sem breytist ár frá ári — tekur á aðkallandi vandamálum sem upp koma.
Virkt samstarf við hið stjórnandi ráð
18. Hvernig starfar hið stjórnandi ráð og nefndu eina leið sem við höfum til að sýna því samstarfsvilja okkar.
18 Nefndir hins stjórnandi ráðs halda fundi vikulega til að ræða mikilvæg mál, taka ákvarðanir eftir að hafa lagt málin fyrir Jehóva í bæn og skipuleggja guðræðisstarf framtíðarinnar. Eins og nefnt var áður kemur fram í 15. kafla Postulasögunnar að alvarlegum spurningum, sem fá þurfti svör við, var vísað til hins stjórnandi ráðs. Eins er það nú á dögum. Mikilvægum spurningum er vísað til alls hins stjórnandi ráðs sem kemur saman vikulega eða oftar ef þörf krefur. Meðlimir hins stjórnandi ráðs, sem nú eru 12 talsins, leita leiðsagnar Jehóva í Ritningunni og í bæn. Við sem einstaklingar getum látið samvinnu okkar við hið stjórnandi ráð birtast meðal annars í því að við minnumst þess í daglegum bænum okkar. — Rómverjabréfið 12:12.
19. Hvernig kemur hið stjórnandi ráð fyrirmælum sínum á framfæri við söfnuðina?
19 Hvernig berast fyrirmæli og ákvarðanir hins stjórnandi ráðs söfnuðunum? Á fyrstu öldinni sendi hið stjórnandi ráð söfnuðunum bréf eftir að hafa komist að viturlegri niðurstöðu. (Postulasagan 15:22-29) Kristin rit eru þó helsta leiðin nú á dögum.
20. (a) Hvaða skipulagsbreyting var gerð árið 1976? (b) Hvernig vinnur deildarnefndin með hinu stjórnandi ráði?
20 Frá og með 1. febrúar 1976 starfar við hverja deildarskrifstofu Varðturnsfélagsins deildarnefnd skipuð hæfum karlmönnum sem útnefndir eru af hinu stjórnandi ráði. Þessir bræður eru fulltrúar hins stjórnandi ráðs í því landi eða löndum sem deildarskrifstofa þeirra hefur umsjón með, og þeir verða því að vera trúfastir og drottinhollir. Það minnir okkur á hina hæfu, guðhræddu og áreiðanlegu menn sem hjálpuðu Móse að dæma Ísraelsmenn til forna. (2. Mósebók 18:17-26) Þeir koma í framkvæmd fyrirmælum sem berast í bókum Félagsins, tímaritum og Ríkisþjónustu okkar, auk almennra bréfa og sérstakra bréfa sem fjalla um staðbundin vandamál. Deildarnefndirnar skýra hinu stjórnandi ráði frá framgangi starfsins í hverju landi og hverjum þeim vandkvæðum sem upp kunna að koma. Slíkar skýrslur, sem hinu stjórnandi ráði berast úr öllum heimshornum, hjálpa því að ákveða hvaða mál skuli fjalla um í ritum Félagsins.
21. Hvernig eru farandumsjónarmenn skipaðir og hverjar eru meðal annars skyldur þeirra?
21 Undir handleiðslu heilags anda mæla deildarnefndirnar með þroskuðum, andlegum mönnum til að þjóna sem farandhirðar og umdæmishirðar. Þegar þessir bræður hafa hlotið útnefningu beint frá hinu stjórnandi ráði taka þeir að þjóna sem farandumsjónarmenn. Þeir heimsækja farandsvæði og söfnuði til að byggja þá upp andlega og hjálpa þeim að fylgja þeim fyrirmælum sem þeim berast frá hinu stjórnandi ráði. (Samanber Postulasöguna 16:4; Rómverjabréfið 1:11, 12.) Farandumsjónarmenn senda deildinni í sínu landi skýrslur. Með hjálp heilags anda mæla þeir, ásamt öldungunum í hverjum söfnuði, með bræðrum sem hæfir eru til að hljóta útnefningu hins stjórnandi ráðs eða fulltrúa þess sem safnaðarþjónar og öldungar. — Filippíbréfið 1:1; Títusarbréfið 1:5; samanber 1. Tímóteusarbréf 3:1-13; 4:14.
22. (a) Hvernig vinna safnaðaröldungarnir með hinu stjórnandi ráði? (b) Hvað sannar að Jehóva blessar þetta guðræðisfyrirkomulag?
22 Þeir sem mynda öldungaráð safnaðanna ‚hafa síðan gát á sjálfum sér og allri hjörðinni sem heilagur andi hefur skipað þá til umsjónar yfir.‘ (Postulasagan 20:28) Þessir umsjónarmenn leitast við að fylgja í trúfesti þeim fyrirmælum sem þeim berast frá Jehóva og Kristi fyrir milligöngu hins trúa og hyggna þjóns og stjórnandi ráðs hans. Jehóva blessar þetta guðræðisskipulag og þess vegna ‚halda söfnuðirnir áfram að vera staðfastir í trúnni og verða fjölmennari dag frá degi.‘ — Postulasagan 16:5.
23. Hvað ættum við að vera ráðin í að gera?
23 Það er sannarlega gleðilegt að Jehóva og húsbóndinn, Jesús Kristur, skuli halda áfram að styðja þjóna sína dyggilega fyrir milligöngu hins stjórnandi ráðs! (Sálmur 94:14) Við sem einstaklingar njótum mikils gagns af slíkum stuðningi. (Sálmur 145:14) Það ætti að styrkja enn frekar þann ásetning okkar að halda áfram að vinna með fyrirkomulagi Jehóva. Megum við alltaf vinna með hinu stjórnandi ráði votta Jehóva er við stefnum fram til þess tíma þegar ‚jörðin verður full af þekkingu á Jehóva eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.‘ — Jesaja 11:9.
[Neðanmáls]
a Birtist þann 1. júní 1972 í íslenskri útgáfu blaðsins.
Aðalatriðin rifjuð upp
◻ Hvaða aukna ábyrgð fékk ráðsmannshópurinn árið 1919?
◻ Á hverja var um langt árabil litið sem hið stjórnandi ráð?
◻ Hvaða markvissar breytingar voru gerðar á skipan meðlima hins stjórnandi ráðs?
◻ Nefndu nokkrar af jarðneskum eigum Krists sem hann hefur falið þjónshópnum og hinu stjórnandi ráði umsjón með.
◻ Hvernig getum við unnið með hinu stjórnandi ráði?
[Myndir á blaðsíðu 28]
Frá aðalstöðvum sínum í Brooklyn í New York hefur hið stjórnandi ráð yfirumsjón með útgáfu- og prédikunarstarfi votta Jehóva í 93 útibúum Varðturnsfélagsins.
Þýskaland
Japan
Suður-Afríka
Brasilía