Blessun Jehóva auðgar
„Blessun Jehóva — það er hún sem auðgar og hann lætur enga kvöl fylgja henni.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 10:22, NW.
1-3. Hvaða staðreynd í sambandi við efnislegan auð ættum við öll að viðurkenna, enda þótt margir hafi áhyggjur af efnislegum hlutum?
SUMIR geta aldrei hætt að tala um peninga — eða skort á þeim. Því miður fyrir þá hafa þeir haft margt um að tala á síðustu árum. Árið 1992 varð jafnvel samdráttur í efnahagslífi hinna auðugu Vesturlanda og jafnt forstjórar sem óbreyttir verkamenn misstu vinnuna. Margir tóku að efast um að þeir myndu nokkurn tíma sjá stöðuga velmegun framar.
2 Er það rangt að láta sér umhugað um efnislega velferð sína? Nei, að vissu marki er það ósköp eðlilegt. En jafnframt verðum við að horfast í augu við ákveðin frumsannindi varðandi efnislegan auð: Upphaflega koma allir efnislegir hlutir frá skaparanum. Hann er hinn sanni Guð Jehóva, „sá er breiddi út jörðina með öllu því, sem á henni vex, sá er andardrátt gaf mannfólkinu á jörðinni og lífsanda þeim, er á henni ganga.“ — Jesaja 42:5.
3 Enda þótt Jehóva Guð ákveði ekki fyrirfram hver sé ríkur og hver fátækur erum við öll ábyrg fyrir því hvernig við förum með hvern þann hluta ‚jarðarinnar og það sem á henni vex‘ er við höfum fengið til afnota. Ef við notum auð okkar til að drottna yfir öðrum mun Jehóva krefja okkur reikningsskapar. Og hver sá sem þrælar fyrir auðæfin en ekki Jehóva mun komast að raun um að „sá sem treystir á auð sinn, hann fellur.“ (Orðskviðirnir 11:28; Matteus 6:24; 1. Tímóteusarbréf 6:9) Efnisleg velmegun er til langs tíma litið einskis virði ef hún er ekki samfara hjarta sem er undirgefið Jehóva. — Prédikarinn 2:3-11, 18, 19; Lúkas 16:9.
Mikilvægasta velmegunin
4. Hvers vegna er andleg velmegun betri en efnislegar nægtir?
4 Auk efnislegrar velmegunar talar Biblían um andlega velmegun. Hún er greinilega betri en sú efnislega. (Matteus 6:19-21) Andleg velmegun felur í sér ánægjulegt samband við Jehóva sem getur enst að eilífu. (Prédikarinn 7:12) Og andlega auðugir þjónar Guðs fara ekki á mis við efnislega blessun. Í nýja heiminum verður andleg velmegun tengd efnislegri velmegun. Trúfastir menn munu búa við efnahagslegt öryggi sem ekki er til komið við miskunnarlausa samkeppni eða á kostnað heilsu og hamingju eins og oft er raunin nú á dögum. (Sálmur 72:16; Orðskviðirnir 10:28; Jesaja 25:6-8) Þeir munu komast að raun um að á allan hátt er það „blessun Jehóva . . . sem auðgar og hann lætur enga kvöl fylgja henni.“ — Orðskviðirnir 10:22, NW.
5. Hverju lofaði Jesús í sambandi við efnislega hluti?
5 Jafnvel nú á dögum eru þeir sem meta að verðleikum það sem andlegt er að vissu leyti rólegir hvað varðar efnislega hluti. Að vísu þurfa þeir að vinna til að standa undir heimilisrekstri og sjá fjölskyldum sínum farborða. Sumir missa jafnvel vinnuna á samdráttartímum. Hins vegar láta þeir áhyggjur af slíku ekki buga sig. Þeir trúa loforði Jesú er hann sagði: „Segið því ekki áhyggjufullir: ‚Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast?‘ . . . yðar himneski faðir veit, að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ — Matteus 6:31-33.
Andlegur auður nú á tímum
6, 7. (a) Lýstu sumum hliðum andlegrar velmegunar þjóna Guðs. (b) Hvaða spádómur er að rætast núna og hvaða spurningar vekur það?
6 Þess vegna hafa þjónar Jehóva ákveðið að láta Guðsríki ganga fyrir öðru í lífi sínu og þeir hljóta ríkulega blessun fyrir! Þeir ná afbragðsárangri í því starfi sínu að gera menn að lærisveinum. (Jesaja 60:22) Þeir fá kennslu hjá Jehóva, og andleg gæði frá ‚hinum trúa og hyggna þjóni‘ streyma látlaust til þeirra. (Matteus 24:45-47; Jesaja 54:13) Enn fremur er andi Jehóva yfir þeim og mótar þá þannig að þeir séu ánægjulegt bræðrafélag um allan heim. — Sálmur 133:1; Markús 10:29, 30.
7 Þetta er andleg velmegun í raun og hún er ekki fáanleg fyrir peninga. Hún er athyglisverð uppfylling fyrirheits Jehóva: „Færið alla tíundina í forðabúrið til þess að fæðsla sé til í húsi mínu, og reynið mig einu sinni á þennan hátt — segir [Jehóva] allsherjar —, hvort ég lýk ekki upp fyrir yður flóðgáttum himinsins og úthelli yfir yður yfirgnæfanlegri blessun.“ (Malakí 3:10) Við höfum séð þetta fyrirheit uppfyllast nú á dögum. En hvers vegna skyldi Jehóva, hann sem er uppspretta allra auðæfa, biðja þjóna sína að koma með tíunda hluta eða tíund? Hver nýtur góðs af tíundinni? Til að svara þessum spurningum skulum við athuga hvers vegna Jehóva sagði þessi orð fyrir munn Malakí á fimmtu öld f.o.t.
Tíundir og fórnir
8. Hverju var velmegun Ísraels háð samkvæmt lagasáttmálanum?
8 Þjónum Guðs vegnaði ekki vel á dögum Malakí. Hvers vegna? Að hluta til tengdist það fórnum og tíundum. Á þeim tíma voru Ísraelsmenn undir lagasáttmála Móse. Þegar Jehóva gerði sáttmálann lofaði hann að hann myndi blessa þá andlega og efnislega ef þeir héldu hann fyrir sitt leyti. Í reynd var velmegun Ísraelsmanna háð trúfesti þeirra. — 5. Mósebók 28:1-19.
9. Hvers vegna krafðist Jehóva þess að Ísraelsmenn til forna greiddu tíund og færðu fórnir?
9 Skyldur Ísraelsmanna undir lagasáttmálanum voru að hluta til þær að koma með fórnargjafir til musterisins og greiða tíund. Sumar fórnir þeirra voru brenndar eins og þær lögðu sig á altari Jehóva en öðrum var skipt milli prestanna og þeirra sem færðu fórnina. Ákveðnir hlutar voru þó helgaðir Jehóva. (3. Mósebók 1:3-9; 7:1-15) Móse sagði Ísraelsmönnum um tíundina: „Öll jarðartíund heyrir [Jehóva], hvort heldur er af ávexti jarðar eða aldinum trjáa. Hún er helguð [Jehóva].“ (3. Mósebók 27:30) Tíundin var gefin levítunum sem unnu í tjaldbúðinni og síðar í musterinu. Levítar, sem ekki voru prestar, gáfu síðan prestum af ætt Arons tíunda hluta þess sem þeir fengu. (4. Mósebók 18:21-29) Hvers vegna krafðist Jehóva þess af Ísraelsmönnum að þeir greiddu tíund? Í fyrsta lagi vegna þess að þannig gætu þeir sýnt á áþreifanlegan hátt að þeir kynnu að meta gæsku Jehóva, og í öðru lagi til að styðja levítana fjárhagslega þannig að þeir gætu einbeitt sér að skyldum sínum, meðal annars þeirri að kenna lögmálið. (2. Kroníkubók 17:7-9) Þar með væru Ísraelsmenn einnig að styðja hreina guðsdýrkun og allir nytu góðs af því.
10. Hvernig fór þegar Ísraelsmenn komu ekki með tíundina og fórnirnar?
10 Enda þótt levítarnir notuðu síðar tíundina og fórnirnar voru þær í raun gjafir til Jehóva og áttu þar af leiðandi að vera í háum gæðaflokki, honum sæmandi. (3. Mósebók 22:21-25) Hvað gerðist þegar Ísraelsmenn greiddu ekki tíundina eða þegar þeir færðu lélegar fórnir? Engin refsing var tiltekin í lögmálinu en hins vegar hafði það sínar afleiðingar. Jehóva synjaði þeim um blessun sína og levítarnir urðu að yfirgefa skyldustörf sín í musterinu til að sjá fyrir sér þar eð þá vantaði fjárhagslegan stuðning. Þannig leið allur Ísrael fyrir.
„Takið eftir, hvernig fyrir yður fer“
11, 12. (a) Hvernig fór þegar Ísraelsmenn héldu ekki lögmálið? (b) Hvaða verkefni fól Jehóva Ísraelsmönnum þegar hann leiddi þá heim frá Babýlon?
11 Út í gegnum sögu Ísraels voru sumir til fyrirmyndar í því að reyna að halda lögmálið, meðal annars að greiða tíundina. (2. Kroníkubók 31:2-16) Almennt séð var þjóðina hins vegar hirðulaus um það. Aftur og aftur rufu Ísraelsmenn sáttmálann við Jehóva uns hann leyfði að lokum að þeir væru sigraðir árið 607 f.o.t. og fluttir í útlegð til Babýlonar. — 2. Kroníkubók 36:15-21.
12 Það var harður agi, en að 70 árum liðnum leiddi Jehóva þjóð sína aftur heim í land hennar. Margir af paradísarspádómunum í Jesajabók áttu upphaflega að rætast eftir þessa heimkomu. (Jesaja 35:1, 2; 52:1-9; 65:17-19) Megintilgangur Jehóva með því að flytja þjóna sína heim var þó ekki sá að byggja upp jarðneska paradís heldur að endurreisa musterið og sanna tilbeiðslu. (Esrabók 1:2, 3) Ef Ísraelsmenn hlýddu Jehóva myndu efnisleg gæði fylgja í kjölfarið, og blessun Jehóva myndi auðga þá bæði andlega og efnislega. Í samræmi við það reistu Gyðingar altari í Jerúsalem jafnskjótt og þeir komu heim í land sitt árið 537 f.o.t. og hófu endurreisn musterisins. Þeir mættu hins vegar mikilli mótspyrnu og hættu verkinu. (Esrabók 4:1-4, 23) Af því leiddi að Ísrael naut ekki blessunar Jehóva.
13, 14. (a) Hvað gerðist þegar Ísraelsmenn vanræktu að endurreisa musterið? (b) Hvernig var endurbyggingu musterisins lokið um síðir en hvernig sótti aftur í sama farið hjá Ísrael?
13 Árið 520 f.o.t. vakti Jehóva upp spámennina Haggaí og Sakaría til að hvetja Ísraelsmenn til að snúa sér aftur að endurbyggingu musterisins. Haggaí benti á að þjóðin ætti í efnahagsörðugleikum og setti það í samband við það að hana skorti kostgæfni gagnvart húsi Jehóva. Hann sagði: „Og nú segir [Jehóva] allsherjar svo: Takið eftir, hvernig fyrir yður fer! Þér sáið miklu, en safnið litlu, etið, en verðið eigi saddir, drekkið, en fáið eigi nægju yðar, klæðið yður, en verðið þó ekki varmir, og sá sem vinnur fyrir kaupi, vinnur fyrir því í götótta pyngju. Svo segir [Jehóva] allsherjar: Takið eftir, hvernig fyrir yður fer! Farið upp í fjöllin, sækið við og reisið musterið, þá mun ég hafa velþóknun á því og gjöra mig vegsamlegan!“ — Haggaí 1:5-8.
14 Vegna hvatningar Haggaí og Sakaría tóku Ísraelsmenn að hugleiða hvernig fyrir þeim fór og musterið var reist. En um 60 árum síðar heimsótti Nehemía Jerúsalem og komst að raun um að Ísraelsmenn voru aftur farnir að vanrækja það að halda lögmál Jehóva. Hann bætti úr því. Er hann kom aftur síðar komst hann að raun um að aftur hafði sótt í fyrra horf. Hann segir: „Ég komst og að því, að greiðslurnar til levítanna höfðu eigi verið inntar af hendi, svo að levítarnir og söngvararnir, er þjónustunni áttu að gegna, voru allir flúnir út á lendur sínar.“ (Nehemíabók 13:10) Þetta vandamál var leyst og „þá færðu allir Júdamenn tíundina af korni, aldinlegi og olíu í forðabúrin.“ — Nehemíabók 13:12.
Að pretta Jehóva
15, 16. Fyrir hvaða vanrækslu áminnir Jehóva Ísrael fyrir munn Malakí?
15 Líklegt má telja að það hafi verið um þetta leyti sem Malakí spáði og spámaðurinn segir okkur meira um ótrúmennsku Ísraelsmanna. Hann hefur eftir orð Jehóva til Ísraelsmanna: „Sé ég nú faðir, hvar er þá heiðurinn sem mér ber, og sé ég húsbóndi, hvar er þá lotningin sem mér ber? — segir [Jehóva] allsherjar við yður, þér prestar, sem óvirðið nafn mitt.“ Hvað var að? Jehóva skýrir það: „Þegar þér færið fram blinda skepnu til fórnar, þá kallið þér það ekki saka, og þegar þér færið fram halta eða sjúka skepnu, þá kallið þér það ekki saka.“ — Malakí 1:6-8.
16 Með þessum lifandi dæmum bendir Malakí á að Ísraelsmenn færðu að vísu fórnir en sýndu eigi að síður grófa óvirðingu af því að þær voru svo lélegar. Malakí skrifaði einnig: „Allt í frá dögum feðra yðar hafið þér vikið frá setningum mínum og ekki gætt þeirra. Snúið yður til mín, þá mun ég snúa mér til yðar — segir [Jehóva] allsherjar.“ Ísraelsmenn vildu fá að vita hvað þeir þyrftu sérstaklega að gera og spurðu: „Að hverju leyti eigum vér að snúa oss?“ Jehóva svaraði: „Á maðurinn að pretta Guð, úr því að þér prettið mig?“ Hvernig gátu Ísraelsmenn prettað Jehóva, uppsprettu allra auðæfa? Jehóva svaraði: „Í tíund og fórnargjöfum.“ (Malakí 3:7, 8) Já, með því að koma ekki með tíundina og fórnargjafirnar voru Ísraelsmenn að pretta Jehóva!
17. Hvaða tilgangi þjónuðu tíundir og fórnir í Ísrael og hverju lofar Jehóva í sambandi við tíundina?
17 Þetta sögulega baksvið sýnir hve mikilvæg tíundin og fórnirnar í Ísrael voru. Þær voru merki um þakklæti gefandans og stuðluðu að efnislegum viðgangi sannrar tilibeiðslu. Þess vegna hvatti Jehóva Ísraelsmenn: „Færið alla tíundina í forðabúrið.“ Jehóva hét eftirfarandi ef þeir gerðu það: „Ég . . . úthelli yfir yður yfirgnæfanlegri blessun.“ (Malakí 3:10) Blessun Jehóva átti að auðga þá.
Dæmdir af ‚hinum sanna Drottni‘
18. (a) Komu hvers varar Jehóva við? (b) Hvenær var komið til musterisins, hver var það sem kom og hvaða afleiðingar hafði það fyrir Ísrael?
18 Fyrir munn Malakí varaði Jehóva einnig við því að hann myndi dæma þjóð sína: „Sjá, ég sendi sendiboða minn, og hann mun greiða veginn fyrir mér. Og bráðlega mun hann koma til musteris síns, sá [„hinn sanni,“ NW] Drottinn er þér leitið, og engill sáttmálans, sá er þér þráið. Sjá, hann kemur.“ (Malakí 3:1) Og hvenær átti þessi fyrirheitna koma til musterisins sér stað? Í Matteusi 11:10 vitnaði Jesús í spádóm Malakí um sendiboða sem myndi undirbúa veginn og heimfærði hann á Jóhannes skírara. (Malakí 4:5; Matteus 11:14) Árið 29 var því runninn upp tími dómsins! Hver var síðari sendiboðinn, engill eða sendiboði sáttmálans sem myndi fylgja Jehóva, hinum ‚sanna Drottni,‘ til musterisins? Það var Jesús sjálfur og tvívegis kom hann til musterisins í Jerúsalem og hreinsaði það með tilþrifum er hann rak út hina óheiðarlegu víxlara. (Markús 11:15-17; Jóhannes 2:14-17) Jehóva spyr spádómlega um þennan dómstíma fyrstu aldar: „En hver má afbera þann dag, er hann kemur, og hver fær staðist, þegar hann birtist?“ (Malakí 3:2) Svo fór að Ísrael stóðst ekki. Þjóðin var rannsökuð, henni reyndist áfátt og árið 33 var henni hafnað sem útvalinni þjóð Jehóva. — Matteus 23:37-39.
19. Á hvaða hátt sneru leifar aftur til Jehóva á fyrstu öld og hvaða blessun hlutu þær?
19 En Malakí sagði einnig: „[Jehóva] mun sitja og bræða og hreinsa silfrið, og hann mun hreinsa levítana og gjöra þá skíra sem gull og silfur, til þess að [Jehóva] hafi aftur þá menn, er bera fram fórnir á þann hátt sem rétt er.“ (Malakí 3:3) Í samræmi við þetta voru sumir hreinsaðir, komu til Jehóva og færðu honum velþóknanlegar fórnir, þótt flestum þeim sem sögðust þjóna Jehóva á fyrstu öldinni væri hafnað. Hverjir voru það? Þeir sem höfðu fylgt Jesú, engli sáttmálans. Á hvítasunnunni árið 33 voru 120 þessara manna saman komnir í loftstofu í Jerúsalem. Styrktir af heilögum anda tóku þeir að bera fram fórnir á þann hátt sem rétt var og þeim fjölgaði ört. Á skömmum tíma breiddust þeir út um Rómaveldi. (Postulasagan 2:41; 4:4; 5:14) Þannig sneru leifar aftur til Jehóva. — Malakí 3:7.
20. Hvernig fór fyrir Ísrael Guðs þegar Jerúsalem og musterinu var eytt?
20 Þessar leifar Ísraels, sem heiðingjar urðu síðar hluti af er þeir voru, ef svo má að orði komast, græddir á rótarstofn Ísraels, voru nýr „Ísrael Guðs,“ þjóð mynduð af andasmurðum kristnum mönnum. (Galatabréfið 6:16; Rómverjabréfið 11:17) Árið 70 rann upp „dagurinn . . . brennandi sem ofn,“ yfir Ísrael að holdinu þegar Rómverjar eyddu Jerúsalem og musteri hennar. (Malakí 4:1; Lúkas 19:41-44) Hvað varð um hinn andlega Ísrael Guðs? Jehóva ‚vægði þeim, eins og maður vægir syni sínum, sem þjónar honum.‘ (Malakí 3:17) Hinn smurði kristni söfnuður hlýddi spádómlegri aðvörun Jesú. (Matteus 24:15, 16) Hann bjargaðist og blessun Jehóva hélt áfram að auðga hann andlega.
21. Hvaða spurningum er ósvarað í sambandi við Malakí 3:1 og 10?
21 Hvílík upphafning fyrir Jehóva! En hvernig uppfyllist Malakí 3:1 nú á dögum? Og hvernig ættu kristnir menn að bregðast við hvatningunni í Malakí 3:10 um að færa alla tíundina í forðabúrið? Það er umræðuefni næstu greinar.
Getur þú svarað?
◻ Frá hverjum eru öll auðævi upphaflega komin?
◻ Hvers vegna er andleg velmegun betri en efnisleg?
◻ Hvaða tilgangi þjónuðu tíundir og fórnir í Ísrael?
◻ Hvenær kom Jehóva, ‚hinn sanni Drottinn,‘ til musterisins til að dæma Ísrael og með hvaða afleiðingum?
◻ Hverjir sneru sér aftur til Jehóva eftir að hann kom til musterisins á fyrstu öldinni?
[Mynd á blaðsíðu 26]
Engill sáttmálans, Jesús, kom sem fulltrúi Jehóva til musterisins til að halda dóm á fyrstu öldinni.