Treystu Jehóva til að fullna tilgang sinn
„Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ — SÁLMUR 37:29.
1. Hver er tilgangur Jehóva með mennina og jörðina?
ÞEGAR Jehóva skapaði fyrstu foreldra okkar, Adam og Evu, gerði hann þau fullkomin. Og hann skapaði þau þannig að þau gætu lifað að eilífu á þessari jörð — ef þau hlýddu lögum hans. (1. Mósebók 1:26, 27; 2:17) Auk þess setti Guð þau í paradísarumhverfi. (1. Mósebók 2:8, 9) Jehóva sagði við þau: „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna.“ (1. Mósebók 1:28) Afkomendur þeirra áttu því að lokum að breiðast út um alla jörðina og þessi reikistjarna verða paradís byggð fullkomnu og hamingjusömu mannkyni. Sannarlega góð byrjun fyrir hina mannlegu fjölskyldu! „Guð leit allt, sem hann hafði gjört, og sjá, það var harla gott.“ — 1. Mósebók 1:31.
2. Hvaða spurningar vekur ástand mannlegra mála?
2 Ástandið, sem hefur ríkt hjá mönnum um þúsundir ára, er hins vegar alls ólíkt upphaflegum tilgangi Guðs. Mannkynið er víðs fjarri fullkomleikanum og langt frá því að vera hamingjusamt. Heimsástandið hefur verið þjakandi og, eins og spáð var, hefur það versnað stórlega á okkar tímum. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 13) Hvernig getum við þá treyst að tilgangur Guðs með mennina verði að veruleika í náinni framtíð? Á enn eftir að líða langur tími uns hinu þjakandi ástandi linnir?
Hvað fór úrskeiðis?
3. Hvers vegna bældi Jehóva ekki uppreisn mannkynsins niður þegar í stað?
3 Þeir sem hafa nákvæma þekkingu á innblásnu orði Guðs vita hvers vegna Jehóva hefur leyft þetta slæma ástand á jörðinni. Þeir vita líka hvað hann ætlar að gera við því. Af frásögn Biblíunnar hafa þeir lært að fyrstu foreldrar okkar misnotuðu hið stórkostlega valfrelsi sem Guð hafði gefið mönnum. (Samanber 1. Pétursbréf 2:16.) Þeir völdu ranglega þá stefnu að vera óháðir Guði. (1. Mósebók 2. og 3. kafli) Uppreisn þeirra vakti geysiþýðingarmiklar spurningar svo sem: Hefur drottinvaldur alheimsins rétt til að ráða yfir mönnum? Er stjórn hans best fyrir þá? Geta menn spjarað sig án umsjónar Guðs? Öruggasta leiðin til að svara þessum spurningum var að leyfa mönnum að stjórna um aldaraðir. Útkoman myndi taka af allan vafa um hvort menn gætu spjarað sig án skapara síns.
4, 5. (a) Hvaða afleiðingar hefur það haft að menn skuli hafa hafnað stjórn Guðs? (b) Hvað hefur tíminn, sem liðinn er, sannað umfram allan vafa?
4 Þegar Adam og Eva yfirgáfu Guð viðhélt hann ekki lengur fullkomleika þeirra. Án stuðnings hans hrörnuðu þau. Afleiðingin varð ófullkomleiki, elli og loks dauði. Vegna erfðalögmálsins gáfu fyrstu foreldrar okkar öllum afkomendum sínum, meðal annars okkur, þessi neikvæðu einkenni. (Rómverjabréfið 5:12) Og hver er afleiðingin af stjórn manna um þúsundir ára? Hún er hrikaleg alveg eins og Prédikarinn 8:9 segir svo vel: „Einn maðurinn drottnar yfir öðrum honum til ógæfu.“
5 Tíminn, sem liðinn er, hefur sýnt umfram allan vafa að mönnum er ekki gefið að stjórna málum sínum farsællega án skapara síns. Hinn innblásni biblíuritari Jeremía lýsti yfir: „Ég veit, [Jehóva], að örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ — Jeremía 10:23; 5. Mósebók 32:4, 5; Prédikarinn 7:29.
Tilgangur Guðs hefur ekki breyst
6, 7. (a) Hefur nokkur þúsund ára saga breytt tilgangi Jehóva? (b) Hvað er fólgið í tilgangi Jehóva?
6 Hefur nokkur þúsund ára saga mannkynsins — full af illsku og þjáningum — breytt tilgangi Guðs? Orð hans segir: „Svo segir [Jehóva], sá er himininn hefir skapað — hann einn er Guð, sá er jörðina hefir myndað og hana til búið, hann, sem hefir grundvallað hana og hefir eigi skapað hana til þess, að hún væri auðn, heldur myndað hana svo, að hún væri byggileg.“ (Jesaja 45:18) Guð myndaði því jörðina til að vera byggð mönnum og sá er enn tilgangur hans.
7 Jehóva skapaði ekki aðeins jörðina til að vera byggð heldur var það einnig tilgangur hans að hún yrði ánægjuleg paradís handa fullkomnu, hamingjusömu fólki. Það er þess vegna sem Biblían sagði fyrir að það skyldi koma ‚ný jörð‘ eða nýtt mannlegt samfélag þar sem „réttlæti býr.“ (2. Pétursbréf 3:13) Og í Opinberunarbókinni 21:4 segir orð Guðs okkur að í nýjum heimi hans muni hann „þerra hvert tár af augum [manna]. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“ Það er þess vegna sem Jesús gat talað um að hinn komandi nýi heimur væri „paradís.“ — Lúkas 23:43.
8. Hvers vegna getum við verið viss um að Jehóva fullni tilgang sinn?
8 Þar eð Jehóva er hinn almáttugi og alvitri skapari alheimsins getur enginn ónýtt tilgang hans. „[Jehóva] allsherjar hefir svarið og sagt: Sannlega, það, sem ég hefi fyrirhugað, skal verða, og það, sem ég hefi ályktað, skal framgang fá.“ (Jesaja 14:24) Þegar Guð því segir að hann ætli að gera jörðina að paradís byggða fullkomnu fólki mun það gerast. Jesús sagði: „Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa.“ (Matteus 5:5; samanber Sálm 37:29.) Við getum reitt okkur á að þetta fyrirheit uppfyllist. Við getum meira að segja lagt líf okkar að veði fyrir því.
Þeir treystu Jehóva
9. Hvað gerði Abraham sem sýndi traust hans á Jehóva?
9 Gegnum alla mannkynssöguna hafa margir guðhræddir einstaklingar lagt líf sitt að veði fyrir því að tilgangur Guðs með jörðina rættist, af því að þeir voru sannfærðir um að hann myndi uppfylla hann. Enda þótt þekking þeirra hafi kannski verið takmörkuð treystu þeir Guði og létu líf sitt snúast um það að gera vilja hans. Til dæmis má nefna Abraham sem var uppi um 2000 árum fyrir jarðvistardaga Krists — löngu áður en byrjað var að skrifa Biblíuna. Hann treysti Jehóva til að uppfylla loforð sín. Líklega lærði Abraham um skapara sinn frá Sem, trúföstum ættföður sínum, sem Nói hafði frætt. Þegar Guð sagði Abraham að flytja frá hinni auðugu borg Úr í Kaldeu til hins ókunna og hættulega Kanaanlands vissi þessi ættfaðir að hann gat treyst Jehóva og þess vegna fór hann. (Hebreabréfið 11:8) Síðar sagði Jehóva honum: „Ég mun gjöra þig að mikilli þjóð.“ — 1. Mósebók 12:2.
10, 11. Hvers vegna var Abraham fús til að fórna einkasyni sínum, Ísak?
10 Hvað gerðist eftir að Abraham eignaðist Ísak? Jehóva gaf Abraham til kynna að það væru afkomendur hans af ætt Ísaks sem yrðu að mikilli þjóð. (1. Mósebók 21:12) Abraham hlýtur því að hafa fundist það vera þó nokkur mótsögn þegar Jehóva sagði honum að fórna Ísak syni sínum í þeim tilgangi að prófa trú hans. (1. Mósebók 22:2) Eigi að síður gerði Abraham nauðsynlegar ráðstafanir í fullu trausti á Jehóva og lyfti meira að segja hnífnum til að drepa Ísak. Á síðustu stundu sendi Guð engil til að stöðva Abraham. — 1. Mósebók 22:9-14.
11 Hvers vegna var Abraham svona hlýðinn? Hebreabréfið 11:17-19 segir: „Fyrir trú fórnfærði Abraham Ísak, er hann var reyndur. Og Abraham, sem fengið hafði fyrirheitin, var reiðubúinn að fórnfæra einkasyni sínum. Við hann hafði Guð mælt: ‚Afkomendur Ísaks munu taldir verða niðjar þínir.‘ Hann hugði, að Guð væri þess jafnvel megnugur að vekja upp frá dauðum. Þess vegna má svo að orði kveða, að hann heimti hann aftur úr helju.“ Rómverjabréfið 4:20, 21 tekur svipað til orða: „Um fyrirheit Guðs efaðist [Abraham] ekki með vantrú . . . og var þess fullviss, að [Guð] er máttugur að efna það, sem hann hefur lofað.“
12. Hvernig var Abraham umbunuð trú sín?
12 Abraham var umbunuð trú sín ekki aðeins með því að Ísak var þyrmt og með því að láta ‚mikla þjóð‘ koma af honum heldur einnig á annan hátt. Guð sagði Abraham: „Af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta, vegna þess að þú hlýddir minni röddu.“ (1. Mósebók 22:18) Hvernig? Konungur himnesks ríkis Guðs átti að koma af ættlegg Abrahams. Þetta ríki átti að sundurmola þennan illa heim undir stjórn Satans. (Daníel 2:44; Rómverjabréfið 16:20; Opinberunarbókin 19:11-21) Síðan, á hreinsaðri jörð undir stjórn Guðsríkis, myndi paradís breiðast út um allan hnöttinn og menn af ‚öllum þjóðum,‘ sem gerðu vilja Guðs, myndu njóta fullkominnar heilsu og lífs að eilífu. (1. Jóhannesarbréf 2:15-17) Og þótt Abraham hafi aðeins haft takmarkaða þekkingu á Guðsríki treysti hann Guði og hlakkaði til stofnsetningar þess. — Hebreabréfið 11:10.
13, 14. Hvers vegna treysti Job Guði?
13 Job var uppi nokkur hundruð árum síðar, einhvern tíma á 17. og 16. öld f.o.t., þar sem nú heitir Arabía. Það var líka áður en ritun Biblíunnar hófst. Job „var maður ráðvandur og réttlátur, guðhræddur og grandvar.“ (Jobsbók 1:1) Þegar Satan sló Job viðbjóðslegum, kvalafullum sjúkdómi sagði þessi trúfasti maður „ekki eitt einasta syndsamlegt orð“ í allri þrekraun sinni. (Jobsbók 2:10, The New English Bible) Job treysti Guði. Og þótt hann vissi ekki af hverju hann þjáðist svona mikið lagði hann líf sitt að veði fyrir því að Guð héldi fyrirheit sín.
14 Job vissi að jafnvel þótt hann dæi myndi Guð einn góðan veðurdag vekja hann aftur til lífs með upprisu. Hann lét þessa von í ljós þegar hann sagði við Jehóva Guð: „Ó að þú vildir geyma mig í dánarheimum [gröfinni], fela mig, . . . setja mér tímatakmark og síðan minnast mín! Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur? . . . Þú mundir kalla, og ég — ég mundi svara þér.“ (Jobsbók 14:13-15) Enda þótt Job væri sárkvalinn sýndi hann trú á drottinvald Jehóva og sagði: „Þar til er ég gef upp andann, læt ég ekki taka frá mér sakleysi mitt.“ — Jobsbók 27:5.
15. Hvernig lét Davíð í ljós traust sitt á tilgang Jehóva?
15 Um sex öldum eftir daga Jobs og um þúsund árum áður en Jesús kom til jarðar lét Davíð í ljós traust sitt á nýjan heim. Hann sagði í sálmunum: „Þeir er vona á [Jehóva], fá landið til eignar. Innan stundar eru engir guðlausir til framar . . . En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu. Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ Vegna óhagganlegrar vonar sinnar hvatti Davíð: „Treyst [Jehóva] . . . þá munt þú gleðjast yfir [Jehóva], og hann mun veita þér það sem hjarta þitt girnist.“ — Sálmur 37:3, 4, 9-11, 29.
16. Hvaða von hafði ‚mikill fjöldi votta‘?
16 Í aldanna rás hafa trúfastir karlar og konur haft þessa sömu von um eilíft líf á jörð. Þeir eru ‚mikill fjöldi votta‘ sem bókstaflega lögðu lífið að veði fyrir því að fyrirheit Jehóva rættust. Margir þessara votta Jehóva til forna voru pyndaðir og drepnir vegna trúar sinnar „til þess að þeir öðluðust betri upprisu.“ Hvernig þá? Í nýja heiminum mun Guð umbuna þeim með betri upprisu og von um eilíft líf. — Jóhannes 5:28, 29; Hebreabréfið 11:35; 12:1.
Kristnir vottar treysta á Guð
17. Hve óhagganlegt var traust kristinna manna á fyrstu öld á Jehóva?
17 Á fyrstu öldinni opinberaði Jehóva hinum nýstofnaða kristna söfnuði nánari upplýsingar um Guðsríki og stjórn þess yfir jörðinni. Til dæmis innblés hann Jóhannesi postula með anda sínum að skrifa að þeir sem yrðu með Jesú Kristi í himnaríki yrðu 144.000 talsins. Þetta yrðu trúfastir þjónar Guðs sem hefðu verið „leystir út úr hóp mannanna.“ (Opinberunarbókin 7:4; 14:1-4) Þeir skyldu ríkja yfir jörðinni sem konungar ásamt Kristi á himnum. (Opinberunarbókin 20:4-6) Svo óhagganlega treystu þessir kristnu menn fyrstu aldar að Jehóva uppfyllti fyrirheit sín um hið himneska ríki og jarðneskt yfirráðasvæði þess að þeir voru fúsir til að láta lífið fyrir trú sína. Margir gerðu það líka.
18. Hvernig líkja vottar Jehóva nú á tímum eftir forverum sínum til forna?
18 Núna hafa næstum fimm milljónir votta Jehóva sama traust á Guði og forverar þeirra öldum áður. Þessir nútímavottar hafa líka lagt líf sitt að veði fyrir því að fyrirheit Guðs rætist. Þeir hafa vígt honum líf sitt og hafa Biblíuna alla til að styrkja trú sína. (2. Tímóteusarbréf 3:14-17) Þessir nútímavottar Jehóva líkja eftir fylgjendum Jesú á fyrstu öld sem lýstu yfir að þeir ætluðu ‚framar að hlýða Guði en mönnum.‘ (Postulasagan 5:29) Á þessari öld hafa margir þessara kristnu votta verið ofsóttir grimmilega. Sumir hafa jafnvel verið drepnir fyrir trú sína. Aðrir hafa dáið af sjúkdómum, slysförum eða elli. Líkt og trúfastir vottar fortíðarinnar hafa þeir hins vegar treyst Guði vegna þess að þeir vissu að hann myndi vekja þá aftur til lífs í nýjum heimi sínum með upprisunni. — Jóhannes 5:28, 29; Postulasagan 24:15; Opinberunarbókin 20:12, 13.
19, 20. Hvað gerum við okkur grein fyrir um spádóma Biblíunnar um okkar daga?
19 Vottar Jehóva gera sér ljóst að spádómar Biblíunnar sögðu það fyrir endur fyrir löngu að þeim yrði safnað saman frá öllum þjóðum í eitt heimsbræðrafélag. (Jesaja 2:2-4; Opinberunarbókin 7:4, 9-17) Og Jehóva er að láta þá prédika um heim allan til að safna enn fleiri hjartahreinum mönnum saman undir verndarhendi hans og velþóknun. (Orðskviðirnir 18:10; Matteus 24:14; Rómverjabréfið 10:13) Allt þetta fólk setur fullt traust sitt á Jehóva í þeirri vissu að hann komi bráðlega á hinum stórkostlega nýja heimi sínum. — Samanber 1. Korintubréf 15:58; Hebreabréfið 6:10.
20 Spádómar Biblíunnar gefa til kynna að síðustu dagar heims Satans hafi nú sem komið er staðið yfir í nálega 80 ár, allt frá tímamótaárinu 1914. Endalok þessa heims eru í nánd. (Rómverjabréfið 16:20; 2. Korintubréf 4:4; 2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Vottar Jehóva herða því upp hugann af því að þeir gera sér ljóst að bráðlega tekur Guðsríki fulla stjórn á öllum málefnum jarðarinnar. Með því að binda enda á þennan núverandi illa heim og koma á réttlátum nýjum heimi sínum þurrkar Guð algerlega út hið slæma ástand sem hefur verið á jörðinni í svo margar aldir. — Orðskviðirnir 2:21, 22.
21. Hvers vegna getum við glaðst þrátt fyrir yfirstandandi erfiðleika?
21 Síðan mun Guð um alla eilífð sýna okkur sína miklu umhyggju með því að úthella yfir okkur blessunum sem meira en bæta upp hvert það tjón sem við urðum fyrir í fortíðinni. Svo margt gott á eftir að henda okkur í nýja heiminum að erfiðleikar fortíðarinnar munu fölna í minningunni. Sannarlega er það hughreystandi að vita að Jehóva skuli þá ‚ljúka upp hendi sinni og seðja allt sem lifir með blessun.‘ — Sálmur 145:16; Jesaja 65:17, 18.
22. Hvers vegna ættum við að setja traust okkar á Jehóva?
22 Í nýja heiminum fær trúfast mannkyn að sjá Rómverjabréfið 8:21 rætast: ‚Jafnvel sjálf sköpunin verður leyst úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna.‘ Það sér bæninni, sem Jesús kenndi fylgjendum sínum, svarað: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:10) Settu því allt traust þitt á Jehóva vegna þess að hann hefur lofað og það er óbrigðult: „Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ — Sálmur 37:29.
Hverju svarar þú?
◻ Hver er tilgangur Jehóva með mennina og jörðina?
◻ Hvers vegna hefur Guð leyft slæmt ástand á jörðinni?
◻ Hvernig sýndu trúfastir menn til forna traust sitt á Jehóva?
◻ Hvers vegna treysta þjónar Guðs nú á tímum á Jehóva?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Guð skapaði mennina til að lifa að eilífu í hamingju í jarðneskri paradís.
[Mynd á blaðsíðu 16]
Abraham setti traust sitt á hæfni Jehóva til að reisa hina dánu upp.