Mettu hið sanna líf mikils
ER ÞETTA líf allt og sumt? Með því að hvetja okkur til að ‚höndla hið sanna líf‘ gefur Biblían til kynna að lífið sé eitthvað meira. (1. Tímóteusarbréf 6:17-19) Hvað er þá hið sanna líf ef hið núverandi er það ekki?
Þegar ritningarstaðurinn hér að ofan er lesinn í samhengi kemur í ljós að það er „eilífa lífið“ sem guðhræddur maður ætti að höndla. (1. Tímóteusarbréf 6:12) Fyrir þorra manna er um að ræða eilíft líf á jörðinni. Adam, fyrsti maðurinn, átti fyrir sér eilíft líf í paradís á jörð. (1. Mósebók 1:26, 27) Hann myndi ekki deyja nema hann æti af „skilningstrénu góðs og ills.“ (1. Mósebók 2:17) Og sökum þess að Adam og kona hans, Eva, óhlýðnuðust Guði og átu af þessu tré dæmdi Guð þau til dauða. ‚Jafnskjótt og þau átu af því‘ dóu þau í augum hans og byrjuðu að hrörna og deyja líkamlega. Líf þeirra var ekki lengur í þeim gæðaflokki sem það hafði verið í byrjun.
Leiðin til ‚hins sanna lífs‘
Jehóva Guð gerði ráðstafanir til að bjarga mannkyninu svo að það gæti öðlast „hið sanna líf.“ Við skulum ímynda okkur litla verksmiðju til að hjálpa okkur að skilja þessa ráðstöfun. Allar vélarnar í henni eru gallaðar og valda starfsmönnum erfiðleikum af því að fyrsti starfsmaðurinn, sem notaði þær fyrir mörgum árum, fór ekki eftir notendahandbókinni og skemmdi þær. Núverandi starfsmenn geta aðeins gert sitt besta með þeim vélum sem þeir hafa. Verksmiðjueigandinn vill gera við vélarnar til að hjálpa starfsmönnum sínum og er að leggja fyrir fé til þess.
Fyrsti ‚starfsmaðurinn,‘ Adam, kunni ekki að meta það líf sem honum hafði verið gefið. Þess vegna gaf hann afkomendum sínum ófullkomið líf í arf, ekki ósvipuðu hálfbilaðri vél. (Rómverjabréfið 5:12) Eins og starfsmennirnir, sem unnu síðar í verksmiðjunni og gátu ekki lagfært vélarnar, voru afkomendur Adams ófærir um að höndla hið sanna líf. (Sálmur 49:8) Til að bjarga mönnum úr þessari aðstöðu, sem virtist vonlaus, sendi Jehóva eingetinn son sinn til jarðar til að kaupa aftur eilíft líf handa mannkyninu. (Lúkas 1:35; 1. Pétursbréf 1:18, 19) Með því að deyja fórnardauða í þágu mannkynsins reiddi eingetinn sonur Guðs, Jesús Kristur, fram féð — lífið er samsvaraði því sem Adam glataði. (Matteus 20:28; 1. Pétursbréf 2:22) Með þessari dýrmætu fórn hefur Jehóva nú lagt grunninn að því að veita mönnum hið sanna líf.
Lausnarfórn Jesú hefur í för með sér eilíft líf í paradís á jörð fyrir hlýðið mannkyn. (Sálmur 37:29) Þessi von er veitt öllum sem lifa af ‚stríðið á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘ sem kallað er Harmagedón. (Opinberunarbókin 16:14-16) Þetta stríð mun uppræta alla illsku af jörðinni. (Sálmur 37:9-11) Þeir sem deyja fyrir þann tíma, en eru varðveittir í minni Guðs, fá upprisu í endurreistri paradís á jörð. Þeir eiga í vændum að öðlast hið sanna líf sem bíður allra er hlýða Guði. — Jóhannes 5:28, 29.
Nauðsynlegt að láta okkur annt um núverandi líf okkar
Þetta merkir ekki að við getum leyft okkur að virða lítils hið núverandi líf okkar sem er heilagt. Ætli verksmiðjueigandinn eyði tíma og fé í að gera við vél handa starfsmanni sem fer illa með hana? Ætli vinnuveitandinn feli hana ekki heldur í umsjá starfsmanns sem gerði sitt besta til að fara vel með gömlu vélina?
Lífið er dýrmæt gjöf frá Jehóva. Sem hinn örláti gjafari lífsins vill hann að við látum okkur annt um það. (Sálmur 36:10; Jakobsbréfið 1:17) Jesús sagði um umhyggju Jehóva fyrir fólki hér á jörð: „Hárin á höfði yðar eru jafnvel öll talin.“ (Lúkas 12:7) Jehóva gaf Ísraelsmönnum það boðorð að fremja ekki morð sem að sjálfsögðu fól í sér að myrða ekki sjálfan sig. (2. Mósebók 20:13) Það hjálpar okkur að líta ekki á sjálfsmorð sem ‚valkost.‘
Guðhræddir menn vita að Jehóva lætur sér innilega annt um velferð okkar. Þar af leiðandi heimfæra þeir meginreglur Biblíunnar á nútímann. Til dæmis er þess krafist af sannkristnum mönnum að þeir ‚hreinsi sig af allri saurgun á líkama og sál og fullkomni helgun sína í guðsótta.‘ Þess vegna forðast þeir tóbak og önnur ávana- og fíkniefni. — 2. Korintubréf 7:1.
Áhugi Guðs á lífi okkar mannanna sést líka af ráðleggingum hans um að varðveita „rósamt hjarta“ og forðast siðlaust háttarlag. (Orðskviðirnir 14:30; Galatabréfið 5:19-21) Með því að halda okkur við þessar háleitu kröfur verndum við okkur gegn samræðissjúkdómum og heilsuspillandi reiði.
Umhyggja Jehóva fyrir lífi þjóna sinna sést líka af áminningu hans um að forðast ofát og ofdrykkju. (5. Mósebók 21:18-21; Orðskviðirnir 23:20, 21) Kristnir menn eru varaðir við því að ágjarnir menn og drykkjumenn muni ekki erfa Guðsríki, það er að segja munu aldrei kynnast hinu sanna lífi. (1. Korintubréf 6:9, 10; 1. Pétursbréf 4:3) Með því að hvetja til hófsemi kennir Jehóva okkur að gera sjálfum okkur gott. — Jesaja 48:17.
Þegar við förum eftir stöðlum Guðs erum við að sýna að við metum núverandi líf okkar mikils. Hið sanna líf er að sjálfsögðu enn þýðingarmeira. Þar eð það er eilíft leggja kristnir menn meira upp úr því en núverandi lífi sínu. Þegar Jesús Kristur fórnaði lífinu lagði hann sig undir vilja Jehóva. Hlýðni við föður sinn var honum miklu mikilvægari en lífið hér á jörðinni. Lífsstefna Jesú varð til þess að hann var reistur upp frá dauðum og öðlaðist ódauðleika á himnum. (Rómverjabréfið 6:9) Dauði hans hefur líka eilíft líf í för með sér fyrir hlýðið mannkyn sem trúir á lausnarfórn hans. — Hebreabréfið 5:8, 9; 12:2.
Mikilvæg lög um blóðið
Eins og skiljanlegt er endurspegla fylgjendur Jesú hugarfar hans. Þeir leitast við að þóknast Guði í öllu eins og Kristur gerði. Það skýrir til dæmis hvers vegna þeir vilja ekki láta gefa sér blóð þótt sumir læknar segi það lífsnauðsynlegt. Við skulum sjá hvernig sá sem hafnar blóðgjöf sýnir að hann metur hið sanna líf mikils.
Líkt og Jesús Kristur þrá sannkristnir menn að vera lifandi í augum Guðs og það útheimtir fullkomna hlýðni við hann. Orð Guðs fyrirskipar fylgjendum Krists: „Haldið yður frá kjöti fórnuðu skurðgoðum, blóði, kjöti af köfnuðum dýrum og saurlifnaði.“ (Postulasagan 15:28, 29) Af hverju gilti þetta lagaákvæði um blóðið áfram meðal kristinna manna?
Lögmálið, sem Ísraelsmönnum var gefið, krafðist þess að þeir héldu sér frá blóði. (3. Mósebók 17:13, 14) Kristnir menn eru ekki undir Móselögunum, en þeim er ljóst að fyrirmælin um að neyta ekki blóðs voru gefin áður en lögmálið kom til skjalanna; þau höfðu verið gefin Nóa eftir flóðið. (1. Mósebók 9:3, 4; Kólossubréfið 2:13, 14) Þessi fyrirmæli náðu til allra afkomenda Nóa og allar þjóðir jarðar eru komnar af honum. (1. Mósebók 10:32) Auk þess hjálpa Móselögin okkur að sjá ástæðuna fyrir því að Guð skuli halda því fast fram að blóðið sé heilagt. Eftir að hafa bannað Ísraelsmönnum að neyta blóðs af nokkru tagi sagði Guð: „Líf líkamans er í blóðinu, og ég hefi gefið yður það á altarið, til þess að með því sé friðþægt fyrir yður, því að blóðið friðþægir með lífinu.“ (3. Mósebók 17:11) Samkvæmt ákvörðun Guðs átti aðeins að nota blóðið við fórnir á altarinu. Lög hans um heilagleika blóðsins endurspegla yfirráð hans yfir öllu lífi á jörðinni. (Esekíel 18:4; Opinberunarbókin 4:11) Með því að sjá líf okkar frá sjónarhóli Jehóva gerum við okkur grein fyrir að það er ekki okkar eigin heldur hefur Guð aðeins trúað okkur fyrir því.
Líkt og starfsmaðurinn í líkingunni bar ábyrgð á vélinni, eins er okkur trúað fyrir núverandi lífi okkar. Hvað myndirðu gera ef vélin þín þarfnaðist viðgerðar og vélvirki styngi upp á að lappað yrði upp á hana með varahlutum sem væru sérstaklega bannaðir í notendahandbókinni? Myndirðu ekki ráðfæra þig við aðra vélvirkja til að kanna hvort hægt væri að gera við vélina í samræmi við handbókina? Mannslífið er langtum mikilvægara og flóknara en vél. Í innblásnu orði skaparans, handbókinni að því hvernig eigi að halda mönnum lifandi, bannar hann að blóð sé notað til að viðhalda lífinu. (5. Mósebók 32:46, 47; Filippíbréfið 2:16) Er ekki skynsamlegt að halda sér við kröfur handbókarinnar?
Í raun réttri eru kristnir sjúklingar, sem biðja um læknismeðferð án blóðgjafar, alls ekki að hafna allri læknismeðferð. Þeir eru bara að biðja um meðferð sem endurspeglar virðingu þeirra fyrir lífinu — bæði hinu núverandi og lífi framtíðarinnar. Læknar, sem sýna það hugrekki að virða afstöðu kristinna manna, staðfesta að læknismeðferð í samræmi við óskir sjúklingsins skilar góðum árangri. „Ég hef öðlast nýtt gildismat við það að koma til móts við óskir votta Jehóva,“ segir skurðlæknir sem vanur var að gefa mikið blóð. Núna reynir hann jafnvel að veita sjúklingum, sem ekki eru vottar, læknismeðferð án blóðgjafar.
Mettu hið sanna líf að verðleikum
Hvaða nýja gildismat öðlaðist þessi skurðlæknir við það að taka votta Jehóva til meðferðar? Honum er ljóst núna að við læknismeðferð má ekki bara miða við þann líkamshluta, sem er sjúkur, heldur þarf að meðhöndla manninn allan. Ætti sjúklingur ekki að hafa leyfi til að biðja um þá meðferð sem best hentar líkamlegri, andlegri og tilfinningalegri velferð hans?
Kumiko, sem var 15 ára, fannst blóðgjöf versti hugsanlegi kosturinn við meðferð banvæns hvítblæðis sem hún var með. Í ljósi þess sem það myndi kosta hana til langs tíma litið fannst henni það ekki þess virði að reyna að lengja líf sitt með þeim hætti um fáeinar vikur, mánuði eða jafnvel ár. Hún hafði vígt núverandi líf sitt Jehóva sem vottur hans og virti því heilagleika blóðsins. Kumiko var óhagganleg enda þótt faðir hennar og aðrir ættingjar væru mjög mótfallnir afstöðu hennar. Læknirinn hennar spurði hana einu sinni: „Ef Guð þinn fyrirgefur mistök, heldurðu ekki að hann fyrirgefi þér jafnvel þótt þú þiggir blóðgjöf?“ Kumiko neitaði að láta undan og hafna þar með biblíulegri trú sinni. Hún hélt „fast við orð lífsins“ og varð ekki haggað. (Filippíbréfið 2:16) Eins og amma hennar, sem var ekki vottur, sagði: „Kumiko vildi ekki snúa baki við trú sinni.“ Fljótlega breyttist afstaða bæði föður hennar, ömmu og læknanna sem önnuðust hana.
Sterk trú Kumika á Jehóva Guð, sem getur vakið hana upp frá dauðum, hafði djúp áhrif á marga. Áður en hún dó grátbændi hún föður sinn: „Jafnvel þótt ég deyi fæ ég upprisu í paradís. En ef þú ferst í Harmagedón fæ ég ekki að sjá þig aftur. Gerðu það að nema Biblíuna.“ Faðir hennar sagði bara aftur og aftur: „Ég geri það þegar þér batnar.“ En þegar Kumiko dó úr ólæknandi sjúkdómi sínum lagði faðir hennar lítið bréf í kistuna þar sem stóð: „Við hittumst í paradís, Kumiko.“ Eftir útfararathöfnina talaði hann við þá sem voru viðstaddir og sagði: „Ég lofaði Kumiko að ég myndi hitta hana í paradís. Að vísu trúi ég því ekki enn af því að ég hef ekki numið nóg, en ég er staðráðinn í að rannska það nánar. Viljið þið hjálpa mér?“ Aðrir í fjölskyldunni byrjuðu líka að nema Biblíuna.
Kumiko bar mikla virðingu fyrir lífinu og vildi lifa. Hún var þakklát fyrir allt sem læknarnir hennar gerðu til að bjarga núverandi lífi hennar. En af því að hún fór eftir fyrirmælunum í handbók skaparans sannaði hún að hún mat hið sanna líf mikils. Fyrir milljónir manna verður það eilíft líf í paradís á jörð. Verður þú á meðal þeirra?