Lærum að hafa unun af ótta Jehóva
„Komið, börn, hlýðið á mig, ég vil kenna yður ótta [Jehóva].“ — SÁLMUR 34:12.
1. Hvernig mun Guðsríki útrýma ótta en er þá átt við allan ótta?
ALLS staðar þrá menn frelsi undan ótta — ótta við glæpi og ofbeldi, ótta við atvinnuleysi, ótta við alvarleg veikindi. Það verður mikill dýrðardagur þegar slíkt frelsi verður að veruleika undir stjórn Guðsríkis! (Jesaja 33:24; 65:21-23; Míka 4:4) Þó verður ekki allur ótti úr sögunni þá og við ættum ekki heldur að reyna að losa okkur við allan ótta núna. Það er til bæði heilnæmur ótti og óheilnæmur.
2. (a) Hvers konar ótti er óheilnæmur og hvers konar ótti æskilegur? (b) Hvað er guðsótti og hvernig gefa tilvitnaðir ritningarstaðir það til kynna?
2 Ótti getur verið eitur fyrir hugann og lamað mann þannig að hann geti ekki hugsað rökrétt. Hann getur grafið undan hugrekki og drepið niður von. Sá sem ógnað er líkamlega getur fundið fyrir slíkum ótta. (Jeremía 51:30) Sá sem leggur of mikið upp úr velþóknun vissra áhrifamanna getur fundið fyrir honum. (Orðskviðirnir 29:25) En það er líka til ótti sem er heilnæmur, þess konar ótti sem aftrar okkur frá því að gera nokkuð í fljótfærni eða fara okkur að voða. Guðsótti felur enn meira í sér. Hann er óttablandin lotning fyrir Jehóva, djúp virðing fyrir honum samfara heilbrigðum ótta við að misþóknast honum. (Sálmur 89:7, NW) Þessi ótti við að baka sér vanþóknun Guðs er sprottinn af því að við kunnum að meta ástríka góðvild hans og gæsku. (Sálmur 5:8; Hósea 3:5) Hann felur líka í sér vitund um að Jehóva sé hinn æðsti dómari og hinn alvaldi sem hefur vald til að leggja refsingu, jafnvel dauðarefsingu, á þá sem neita að hlýða honum. — Rómverjabréfið 14:10-12.
3. Hvernig er ótti Jehóva ólíkur óttanum við suma heiðna guðdóma?
3 Guðsótti er heilnæmur, ekki niðurdrepandi. Hann gerir okkur ákveðin í því sem rétt er, að láta ekki undan með því að gera það sem rangt er. Hann er ekki eins og óttinn við forngríska guðinn Fóbos. Honum er lýst sem illilegum guði er vakti skelfingu. Og hann er ekki eins og óttinn við hindúagyðjuna Kalí. Henni er stundum lýst sem blóðþyrstri og hún notaði snáka, lík og hauskúpur til skrauts. Guðsótti er aðlaðandi, ekki fráhrindandi. Hann er samtvinnaður kærleika og þakklæti; af þeim sökum laðar guðsótti okkur að Jehóva. — 5. Mósebók 10:12, 13; Sálmur 2:11.
Hvers vegna sumir hafa hann en aðrir ekki
4. Hvaða ástand er mannkynið komið í eins og Páll postuli bendir á, og af hverju stafar það?
4 Mannkynið í heild lætur ekki stjórnast af guðsótta. Í Rómverjabréfinu 3:9-18 lýsir Páll postuli því hve langt mennirnir séu viknir af leið frá hinum upphaflega fullkomleika. Eftir að hafa sagt að við séum öll undir synd vitnar Páll í Sálmana og segir: „Ekki er neinn réttlátur, ekki einn.“ (Sjá Sálm 14:1) Síðan nefnir hann einstök atriði, svo sem að mannkynið hafi vanrækt að leita Guðs, skorti gæsku, sé svikult í tali, lastmált og úthelli blóði. Þetta lýsir heimi nútímans sannarlega vel! Meirihluti manna hefur engan áhuga á Guði og tilgangi hans. Þegar þeir bregða yfir sig einhverri góðvildarmynd er það allt of oft aðeins gert í von um að hagnast á því. Lygar og ljótur munnsöfnuður er daglegt brauð. Blóðsúthellingum er slegið upp ekki aðeins í fréttunum heldur líka sem skemmtiefni. Af hverju stafar allt þetta? Við erum að vísu öll afkomendur syndarans Adams, en þegar fólk tileinkar sér þá lífshætti, sem Páll postuli lýsir hér, er eitthvað meira á ferðinni. Vers 18 útskýrir hvað það er og segir: „Fyrir augum þeirra er enginn guðsótti.“ — Sjá Sálm 36:2.
5. Af hverju hafa sumir guðsótta til að bera en aðrir ekki?
5 Hvers vegna hefur sumt fólk guðsótta til að bera en annað ekki? Það er einfaldlega vegna þess að sumir leggja rækt við hann en aðrir ekki. Hann er engum meðfæddur en við erum öll fær um að sýna hann. Við þurfum að læra guðsótta. Síðan þurfum við að rækta hann með okkur til að hann verði sterkt áhrifaafl í lífi okkar.
Aðlaðandi boð
6. Frá hverjum fáum við boðið í Sálmi 34:12 og hvernig sýnir þessi ritningarstaður að við þurfum að læra guðsótta?
6 Við fáum aðlaðandi boð í Sálmi 34 um að læra ótta Jehóva. Þetta er Davíðssálmur. Og hvern var Davíð fyrirmynd um? Engan annan en Drottin Jesú Krist. Í 21. versi þessa sálms er spádómur sem Jóhannes postuli heimfærir sérstaklega upp á Jesú. (Jóhannes 19:36) Á okkar dögum er það Jesús sem kemur með ámóta boð og við finnum í versi 12: „Komið, börn, hlýðið á mig, ég vil kenna yður ótta [Jehóva].“ Þetta sýnir greinilega að hægt er að læra guðsótta og Jesús Kristur er sérstaklega fær um að kenna okkur. Af hverju?
7. Hvers vegna getum við sérstaklega lært guðsótta af Jesú?
7 Jesús Kristur veit hve mikilvægur guðsótti er. Hebreabréfið 5:7 segir um hann: „Á jarðvistardögum sínum bar hann fram með sárum kveinstöfum og táraföllum bænir og auðmjúk andvörp fyrir þann, sem megnaði að frelsa hann frá dauða, og fékk bænheyrslu vegna guðhræðslu sinnar.“ Jesús Kristur sýndi slíka guðhræðslu áður en hann stóð frammi fyrir dauða á kvalastaur. Munum að í Orðskviðunum 8. kafla er syni Guðs lýst sem persónugervingi viskunnar. Og í Orðskviðunum 9:10 er okkur sagt: „Ótti [Jehóva] er upphaf viskunnar.“ Þessi guðsótti var því grundvallareiginleiki í persónuleika sonar Guðs löngu áður en hann kom til jarðar.
8. Hvað lærum við um ótta Jehóva í Jesaja 11:2, 3?
8 Enn fremur segir Jesaja 11:2, 3 um Jesú sem Messíasarkonung: „Yfir honum mun hvíla andi [Jehóva]: Andi vísdóms og skilnings, andi ráðspeki og kraftar, andi þekkingar og ótta [Jehóva]. Unun hans mun vera að óttast [Jehóva].“ Þetta er fallega orðað! Ótti Jehóva er ekkert fráhrindandi. Hann er jákvæður og uppbyggjandi. Hann er eiginleiki sem mun gagntaka allt yfirráðsvæði Krists. Hann stjórnar nú þegar og fræðir alla, sem safnað er saman sem þegnum hans, í ótta Jehóva. Hvernig?
9. Hvernig er Jesús Kristur að kenna okkur ótta Jehóva og hvað vill hann að við lærum um þennan eiginleika?
9 Með safnaðarsamkomum okkar, svæðismótum og umdæmismótum hjálpar Jesús, hið skipaða höfuð safnaðarins og Messíasarkonungur, okkur að skilja greinilega hvað guðsótti er og hvers vegna hann er svona gagnlegur. Þannig leitast hann við að dýpka skilning okkar á ótta Jehóva, svo að við lærum að hafa unun af honum rétt eins og hann sjálfur.
Ætlar þú að leggja þig fram?
10. Hvað verðum við að gera þegar við sækjum kristnar samkomur, til að skilja ótta Jehóva?
10 En þó að við lesum Biblíuna eða sækjum samkomur í ríkissalnum er það að sjálfsögðu engin trygging fyrir því að við höfum guðsótta. Taktu eftir hvað við þurfum að gera til að skilja ótta Jehóva í raun og veru. Orðskviðirnir 2:1-5 segja: „Son minn, ef þú veitir orðum mínum viðtöku og geymir boðorð mín hjá þér, svo að þú ljáir spekinni athygli þína, hneigir hjarta þitt að hyggindum, já, ef þú kallar á skynsemina og hrópar á hyggindin, ef þú leitar að þeim sem að silfri og grefst eftir þeim eins og fólgnum fjársjóðum, þá munt þú skilja, hvað ótti [Jehóva] er, og öðlast þekking á Guði.“ Þegar við sækjum samkomur þurfum við þess vegna að fylgjast með því sem sagt er, leggja okkur fram við að einbeita okkur að meginhugmyndum og muna þær, hugsa alvarlega um hvernig tilfinningar okkar til Jehóva ættu að hafa áhrif á afstöðu okkar til ráðlegginganna sem veittar eru — já, opna hjörtu okkar. Þá skiljum við hvað ótti Jehóva er.
11. Hvað ættum við að gera oft og einlæglega til að rækta með okkur guðsótta?
11 Sálmur 86:11 beinir athyglinni að öðru mikilvægu atriði, bæninni. „Vísa mér veg þinn, [Jehóva], lát mig ganga í sannleika þínum,“ bað sálmaritarinn. „Gef mér heilt hjarta, að ég tigni [„óttist,“ NW] nafn þitt.“ Jehóva hafði velþóknun á þessari bæn því að hann lét skrá hana í Biblíuna. Til að rækta með okkur guðsótta þurfum við líka að biðja Jehóva um hjálp hans og við höfum mikið gagn af því að biðja oft og einlæglega. — Lúkas 18:1-8.
Snertir hjartað
12. Hvers vegna verður að gefa sérstakan gaum að hjartanu og hvað felur það í sér?
12 Það er annað sem við ættum að taka eftir í Sálmi 86:11. Sálmaritarinn var ekki bara að biðja um huglægan skilning á ótta Guðs. Hann minnist á hjarta sitt. Að rækta með sér guðsótta er nátengt hinu táknræna hjarta sem útheimtir sérstaka athygli af því að það er hinn innri maður eins og hann birtist í öllum athöfnum okkar í lífinu; það felur í sér hugsanir okkar, viðhorf, langanir, áhugahvatir og markmið.
13. (a) Hvað getur gefið til kynna að hjarta manns sé tvískipt? (b) Hvaða marki ættum við að keppa að til að rækta með okkur guðsótta?
13 Biblían varar okkur við því að hjarta manns geti verið tvískipt. Það getur verið svikult. (Sálmur 12:3; Jeremía 17:9) Það getur hvatt okkur til að taka þátt í heilnæmum athöfnum — fara á safnaðarsamkomur og út í boðunarstarfið — en það getur líka komið okkur til að elska ákveðna þætti í lífsháttum heimsins. Það getur hindrað okkur í að vera raunverulega heilshugar í því að efla hagsmuni Guðsríkis. Síðan getur þetta svikula hjarta reynt að sannfæra okkur um að við séum þrátt fyrir allt að gera jafnmikið og margir aðrir. Eða þá, kannski í skólanum eða í vinnunni, getur ótti við menn haft áhrif á hjarta okkar. Það getur leitt til þess að við hikum við að auðkenna okkur þar sem votta Jehóva og gerum jafnvel það sem ekki er viðeigandi fyrir kristna menn. En eftir á nagar samviskan okkur. Þannig viljum við ekki vera. Við biðjum því til Jehóva ásamt sálmaritaranum: ‚Gef mér heilt hjarta, að ég óttist nafn þitt.‘ Við viljum að allur hinn innri maður, eins og hann birtist í öllum athöfnum okkar, beri þess merki að við ‚óttumst Guð og höldum hans boðorð.‘ — Prédikarinn 12:13.
14, 15. (a) Hvað lofaði Jehóva að gefa fólki sínu þegar hann sagði fyrir að Ísrael yrði frelsaður frá ánauðinni í Babýlon? (b) Hvað gerði Jehóva í því augnamiði að innræta fólki sínu guðsótta? (c) Hvers vegna vék Ísrael af vegum Jehóva?
14 Jehóva hét því að gefa fólki sínu guðhrætt hjarta. Hann sagði endurreisn Ísraels fyrir og sagði það sem við lesum í Jeremía 32:37-39: „Ég . . . læt þá snúa aftur hingað og búa hér óhulta. Þá skulu þeir vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð, og ég vil gefa þeim eitt hjarta og eina breytni, svo að þeir óttist mig alla daga, þeim sjálfum til heilla og sonum þeirra eftir þá.“ Í versi 40 er loforð Guðs ítrekað: „Ég vil leggja ótta fyrir mér í hjörtu þeirra, til þess að þeir víki ekki frá mér.“ Árið 537 f.o.t. flutti Jehóva Ísraelsmenn aftur til Jerúsalem eins og hann hafði heitið. En hvað um hinn hluta fyrirheitsins — að ‚gefa þeim eitt hjarta svo að þeir óttuðust hann alla daga‘? Hvers vegna vék Ísraelsþjóðin til forna frá Jehóva eftir að hann hafði flutt hana heim frá Babýlon, með þeim afleiðingum að musteri hennar var lagt í rúst árið 70 og aldrei endurbyggt?
15 Það stafaði ekki af því að Jehóva hefði brugðist á nokkurn hátt. Jehóva gerði svo sannarlega ráðstafanir til að leggja guðsótta í hjörtu Ísraelsmanna. Miskunnin, sem hann sýndi þegar hann frelsaði þá frá Babýlon og leiddi heim í land sitt, var þeim kappnóg ástæða til að bera djúpa lotningu fyrir honum. Hann renndi stoðum undir það með áminningum, ráðleggingum og ávítum fyrir atbeina spámannanna Haggaí, Sakaría og Malakí; fyrir atbeina Esra sem var sendur til þeirra sem kennari; fyrir atbeina Nehemía landstjóra og fyrir atbeina síns eigin sonar. Stundum hlustaði fólkið, til dæmis þegar það endurbyggði musteri Jehóva fyrir hvatningarorð Haggaí og Sakaría, og þegar það sendi burt útlendu eiginkonurnar á dögum Esra. (Esrabók 5:1, 2; 10:1-4) En miklu oftar hlýddi það ekki. Það var ekki stefnufast í því að taka eftir; það hélt ekki áfram að vera móttækilegt fyrir ráðleggingum; það hélt ekki hjörtum sínum opnum. Ísraelsmenn ræktuðu ekki með sér guðsótta og þar af leiðandi var hann ekki sterkt áhrifaafl í lífi þeirra. — Malakí 1:6; Matteus 15:7, 8.
16. Í hjörtu hverra hefur Jehóva fest guðsótta?
16 En loforð Jehóva um að leggja guðsótta í hjörtu fólks síns brást ekki. Hann gerði nýjan sáttmála við andlegan Ísrael, þá kristnu menn sem hann bauð himneska von. (Jeremía 31:33; Galatabréfið 6:16) Árið 1919 leysti hann þá úr ánauð Babýlonar hinnar miklu, heimsveldis falskra trúarbragða. Hann hefur fest ótta sinn kyrfilega í hjörtum þeirra. Það hefur verið þeim til mikillar blessunar og eins ‚múginum mikla‘ sem hefur von um líf á jörð undir stjórn Guðsríkis. (Jeremía 32:39; Opinberunarbókin 7:9) Ótti Jehóva hefur líka fest rætur í hjörtum þeirra.
Hvernig guðsótti nær rótfestu í hjörtum okkar
17. Hvernig hefur Jehóva lagt guðsótta í hjörtu okkar?
17 Hvernig hefur Jehóva innrætt okkur þennan ótta? Með tilstuðlan anda síns. Og hvað höfum við sem er afrakstur heilags anda? Biblíuna, innblásið orð Guðs. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Með því að beina athyglinni að því sem hann hefur gert í fortíðinni, með samskiptum sínum við þjóna sína núna til uppfyllingar orðs síns og með spádómum um hið ókomna gefur Jehóva okkur öllum traustan grundvöll til að þroska með okkur guðsótta. — Jósúabók 24:2-15; Hebreabréfið 10:30, 31.
18, 19. Hvernig hjálpa umdæmismót, svæðismót og safnaðarsamkomur okkur að vera guðhrædd?
18 Það er eftirtektarvert að Jehóva skyldi segja við Móse eins og frá er greint í 5. Mósebók 4:10: „Safna þú lýðnum saman fyrir mig. Ég ætla að láta þá heyra orð mín, svo að þeir læri að óttast mig alla þá daga, sem þeir lifa á jörðinni, og kenni það einnig börnum sínum.“ Eins er það nú á dögum að Jehóva hefur gert ríkulegar ráðstafanir til að hjálpa okkur að læra að óttast hann. Á umdæmismótum okkar, svæðismótum og safnaðarsamkomum segjum við frá sönnunum fyrir ástríkri góðvild Jehóva og gæsku. Það er það sem við vorum að gera með því að nema bókina Lífið — varð það til við þróun eða sköpun? Hvaða áhrif hafði námið á þig og viðhorf þín til Jehóva? Styrkti það löngun þína til að misþóknast honum aldrei?
19 Á samkomum okkar nemum við líka frásögur af því hvernig Jehóva frelsaði fólk sitt til forna. (2. Samúelsbók 7:23) Þegar við nemum bókina Sameinuð í tilbeiðslu á hinum eina sanna Guði lærum við um það sem Jehóva hefur verið að gera til að koma á einingu í sannri tilbeiðslu, dýpkum skilning okkar á orði hans og rifjum upp spádóma um nánustu framtíð. Um allar slíkar athafnir Guðs segir Sálmur 66:5: „Komið og sjáið verkin Guðs, sem er óttalegur í breytni sinni gagnvart mönnunum.“ Já, ef við lítum rétt á þessar athafnir Jehóva nær ótti eða djúp lotning fyrir honum að festa rætur í hjörtum okkar. Þannig skiljum við hvernig Jehóva Guð uppfyllir loforð sitt: „Ég vil leggja ótta fyrir mér í hjörtu þeirra, til þess að þeir víki ekki frá mér.“ — Jeremía 32:40.
20. Hvað þurfum við að gera til að guðsótti festi djúpar rætur í hjörtum okkar?
20 Það er samt sem áður ljóst að þessi guðsótti festir ekki rætur í hjörtum okkar nema við leggjum okkur fram. Árangurinn kemur ekki sjálfkrafa. Jehóva gerir sitt. Við verðum að gera okkar með því að rækta með okkur guðsótta. (5. Mósebók 5:29) Ísrael að holdinu gerði það ekki. En með því að reiða sig á Jehóva fá andlegir Ísraelsmenn og félagar þeirra nú þegar að njóta margvíslegs gagns af guðhræðslunni. Við fjöllum um sumt af því í greininni á eftir.
Hverju svarar þú?
◻ Hvað er guðsótti?
◻ Hvernig er okkur kennt að hafa unun af því að óttast Jehóva
◻ Hvernig þurfum við að leggja okkur fram til að óttast Guð?
◻ Af hverju þarf að gefa gaum að öllum þáttum hins táknræna hjarta til að vera guðhrædd?
[Mynd á blaðsíðu 13]
Við verðum að vera dugleg við nám til að skilja ótta Jehóva.