Fímmtiu ára árangurslaus viðleitni
„Vér, hinar Sameinuðu þjóðir, staðráðnar í að bjarga komandi kynslóðum undan hörmungum ófriðar, sem tvisvar á ævi vorri hefur leitt ósegjanlegar þjáningar yfir mannkynið, að staðfesta að nýju trú á grundvallarréttindi manna, virðingu þeirra og gildi, jafnrétti karla og kvenna og allra þjóða, hvort sem stórar eru eða smáar, . . . “ — Inngangsorð sáttmála Sameinuðu þjóðanna.
HINN 24. október 1995 var 50 ára afmælis Sameinuðu þjóðanna minnst. Öll aðildarríkin, sem eru nú 185, hafa skuldbundið sig til að halda upphafleg markmið og grundvallarreglur samtakanna eins og þau standa í sáttmála þeirra: að varðveita heimsfrið og öryggi, að bæla niður árásaraðgerðir sem ógna heimsfriði, að efla vinsamlega sambúð þjóða á milli, að standa vörð um grundvallarréttindi allra manna án tillits til kynþáttar, kyns, tungu eða trúarbragða, og koma á alþjóðasamvinnu um lausn fjárhagslegra, félagslegra og menningarlegra vandamála.
Í 50 ár hafa Sameinuðu þjóðirnar lagt sig í líma við að koma á heimsfriði og öryggi. Leiða má rök að því að samtökin kunni að hafa komið í veg fyrir þriðju heimsstyrjöldina, og kjarnavopnum hefur ekki verið beitt aftur með því stórkostlegu manntjóni sem því fylgir. Sameinuðu þjóðirnar hafa séð milljónum barna fyrir mat og lyfjum. Þær hafa stuðlað að bættu heilbrigði víða um lönd og meðal annars séð fyrir heilnæmu drykkjarvatni og ónæmisaðgerðum gegn hættulegum sjúkdómum. Milljónir flóttamanna hafa notið mannúðaraðstoðar.
Sameinuðu þjóðirnar hafa fimm sinnum hlotið friðarverðlaun Nóbels til viðurkenningar á starfi sínu. En því miður er heimurinn enn ekki laus við styrjaldir.
Friður og öryggi — markmið sem ekki hafa náðst
Eftir 50 ára starf hefur enn ekki tekist að ná þeim markmiðum að koma á friði og öryggi. Í ræðu, sem forseti Bandaríkjanna flutti fyrir skömmu á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, lét hann í ljós vonbrigði sín er hann sagði: „Þessi öld svo mikilla vona, tækifæra og afreka hefur líka verið öld stórfelldrar eyðingar og djúprar örvæntingar.“
Í árslok 1994 sagði dagblaðið The New York Times: „Nú eru háðar næstum 150 styrjaldir eða skærur þar sem mannfall telst í þúsundum — meira meðal óbreyttra borgara en hermanna að því er flestir telja — og hundruð þúsundir manna eru á flótta.“ Upplýsingadeild Sameinuðu þjóðanna greinir svo frá að yfir 20 milljónir manna hafi látið lífið í vopnuðum átökum síðan 1945. Sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, Madeleine Albright, benti á að „svæðisbundin átök séu nú á marga vegu hrottalegri en áður.“ Mannréttindabrot og misrétti er daglegt fréttaefni fjölmiðla. Oft virðist grunnt á því góða með þjóðum þótt þær umberi hver aðra.
Sir David Hannay, sendiherra Bretlands hjá Sameinuðu þjóðunum, viðurkennir að „allt fram á níunda áratuginn hafi Sameinuðu þjóðirnar verið býsna nálægt því að klúðra málum sínum með sóma.“ Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Boutros Boutros-Ghali, segir í mæðutón að það gæti vaxandi áhugaleysis og þreytu meðal aðildarríkjanna þegar friðargæslu beri á góma. Hann bætti við að hjá mörgum þeirra séu „Sameinuðu þjóðirnar ekki ofarlega á blaði.“
Áhrif fjölmiðla
Þótt Sameinuðu þjóðirnar virðist vissulega öflugar verða stjórnmál og fjölmiðlar oft til þess að ónýta viðleitni þeirra. Samtökin eru valdalaus njóti þau ekki stuðnings aðildarríkjanna. En án stuðnings almennings vilja mörg aðildarríki Sameinuðu þjóðanna ekki styðja þær. Sem dæmi má nefna að dagblaðið The Wall Street Journal segir „hin stórkostlegu mistök í Sómalíu og Bosníu hafa sannfært marga Bandaríkjamenn um að samtökin séu ekki bara eyðslusöm heldur hreinlega hættuleg.“ Þessi afstaða almennings hefur svo haft í för með sér að sumir þarlendir stjórnmálamenn leggja nú til að dregið verði úr fjárstuðningi Bandaríkjanna við Sameinuðu þjóðirnar.
Fréttastofur eru ófeimnar við að gagnrýna Sameinuðu þjóðirnar óvægilega. Lýsingar eins og „algert getuleysi,“ „þunglamalegar,“ „duglausar“ og „þróttlausar“ hafa verið notaðar hiklaust um ýmsa þætti í starfi samtakanna. Nýverið kallaði blaðið The Washington Post National Weekly Edition Sameinuðu þjóðirnar „hægvirkt skriffinnskubákn sem á í basli með að laga sig að heimi veruleikans.“
Annað dagblað vitnaði í orð framkvæmdastjórans, Boutrosar Boutrosar-Ghalis, þar sem hann lét í ljós gremju sína yfir fjöldamorðunum í Rúanda. Hann sagði: „Þetta er ekki bara álitshnekkir fyrir Sameinuðu þjóðirnar heldur líka alþjóðasamfélagið. Og við berum öll ábyrgð á þessum óförum.“ Í sérstökum, vinsælum sjónvarpsfréttaskýringaþætti árið 1993 var sagt að Sameinuðu þjóðunum hefði „mistekist að eyða alvarlegustu hættunni á friðrofi — stöðva útbreiðslu kjarnavopna.“ Í fréttaþættinum var sagt að „um áratuga skeið hafi lítið verið gert annað en talað“ á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
Þessi útbreiddu vonbrigði hvíla þungt á stjórnendum Sameinuðu þjóðanna og auka á gremju þeirra. En þrátt fyrir vonbrigðin og gremjuna virðast margir hafa fyllst bjartsýni og vonast eftir nýrri byrjun á 50 ára afmæli samtakanna. Enda þótt Albright sendiherra hjá Sameinuðu þjóðunum viðurkenni galla samtakanna endurómaði hún álit margra er hún sagði: „Við verðum að hætta að tala um fortíðina og fara að tala um hvert við stefnum.“
Já, hvert stefnir heimurinn? Verður hann nokkurn tíma laus við stríð? Ef svo er, hvaða hlutverki munu Sameinuðu þjóðirnar gegna í því? Og ef þú ert guðhræddur ættirðu enn fremur að spyrja: ‚Hvaða hlutverki gegnir Guð í því?‘
[Rammi á blaðsíðu 4]
ÁRANGURSLAUS VIÐLEITNI
Meðan stríð, fátækt, glæpir og spilling þrífast verður aldrei friður og öryggi. Sameinuðu þjóðirnar birtu nýverið eftirfarandi tölur:
Stríð: „Af 82 vopnuðum átökum á árabilinu 1989 til 1992 voru 79 innanlandsátök, oft milli þjóðabrota; 90 af hundraði fallinna voru óbreyttir borgarar.“ — Upplýsingadeild Sameinuðu þjóðanna (UNDPI).
Vopn: „Alþjóðanefnd Rauða krossins áætlar að árlega framleiði yfir 95 fyrirtæki í 48 löndum á bilinu 5 til 10 milljónir jarðsprengna sem ætlað er að granda hermönnum.“ — Flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna (UNHCR).
„Um 30 milljónir jarðsprengna liggja dreifðar um 18 Afríkulönd.“ — UNHCR.
Fátækt: „Einn af hverjum fimm jarðarbúum — yfir einn milljarður manna — lifir undir fátækramörkum og talið er að 13 til 18 milljónir manna deyi ár hvert af völdum fátæktar.“ — UNDPI.
Glæpir: „Skráðum glæpum í heiminum hefur að meðaltali fjölgað um 5 af hundraði á ári frá því á níunda áratugnum. Í Bandaríkjunum einum eru framdar 35 milljónir glæpa árlega.“ — UNDPI.
Spilling: „Spilling er orðin mjög algeng. Í sumum löndum er talið að fjársvik kosti sem svarar 10 af hundraði vergrar þjóðarframleiðslu.“ — UNDPI.