Hvers krefst Guð af okkur?
„Í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð. Og boðorð hans eru ekki þung.“ — 1. JÓHANNESARBRÉF 5:3.
1, 2. Hvers vegna kemur ekki á óvart að Guð skuli gera kröfur til þeirra sem vilja að tilbeiðsla þeirra sé honum þóknanleg?
„MÍN trú nægir mér,“ segir fólk oft. En í rauninni ætti fólk að spyrja: „Hefur Guð velþóknun á trú minni?“ Já, Guð gerir kröfur til þeirra sem vilja að tilbeiðsla þeirra sé honum þóknanleg. Ætti það að koma okkur á óvart? Eiginlega ekki. Segjum að þú ættir fallegt heimili og værir nýbúinn að gera það upp með ærnum tilkostnaði. Myndirðu leyfa hverjum sem er að búa þar? Auðvitað ekki. Hugsanlegur leigjandi yrði að uppfylla kröfur þínar.
2 Jehóva Guð hefur gefið mannkyninu jörðina sem heimili. Undir stjórn ríkis hans verður jörðin bráðlega „gerð upp“ — breytt í undurfagra paradís. Jehóva mun koma því til leiðar en það hefur kostað hann mikið. Hann gaf eingetinn son sinn til að gera það mögulegt. Guð hlýtur því að gera kröfur til þeirra sem munu búa þar! — Sálmur 115:16; Matteus 6:9, 10; Jóhannes 3:16.
3. Hvernig lýsti Salómon í hnotskurn hvers Guð væntir af okkur?
3 Hvernig getum við fundið út hvaða kröfur Guð gerir? Jehóva innblés hinum vitra konungi Salómon að lýsa í hnotskurn því sem hann væntir af okkur. Eftir að Salómon hafði litið yfir farinn veg og allt sem hann hafði sóst eftir — þar á meðal auðæfi, byggingarframkvæmdir, tónlist og ástir kvenna — komst hann að þessari niðurstöðu: „Vér skulum hlýða á niðurlagsorðið í því öllu: Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra.“ — Prédikarinn 12:13.
„Boðorð hans eru ekki þung“
4-6. (a) Hver er bókstafleg merking gríska orðsins sem þýtt er „þung“? (b) Hvers vegna getum við sagt að boðorð Guðs séu ekki þung?
4 „Haltu hans boðorð.“ Það er fyrst og fremst það sem Guð ætlast til af okkur. Er það til of mikils mælst? Alls ekki. Jóhannes postuli bendir á mjög uppörvandi atriði í sambandi við boðorð Guðs eða kröfur. Hann skrifaði: „Því að í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð. Og boðorð hans eru ekki þung.“ — 1. Jóhannesarbréf 5:3.
5 Gríska orðið, sem þýtt er „þung,“ getur vísað til einhvers sem er erfitt að búa við eða torvelt að uppfylla. Í Matteusi 23:4 er það notað til að lýsa hinum ‚þungu byrðum‘ mannareglna og erfikenninga sem fræðimennirnir og farísearnir lögðu á fólk. Áttarðu þig á hvað hinn aldraði Jóhannes postuli er að segja? Boðorð Guðs eru ekki þung byrði og ekki of erfið til að við getum fylgt þeim. (Samanber 5. Mósebók 30:11.) Þvert á móti finnst okkur ánægjulegt að standast kröfur Guðs ef við elskum hann. Það veitir okkur dýrmætt tækifæri til að sýna kærleika okkar til Jehóva.
6 Ef við viljum sýna Guði kærleika okkar verðum við að vita nákvæmlega til hvers hann ætlast af okkur. Við skulum nú ræða um fimm af kröfum Guðs. Og þegar við gerum það skulum við hafa orð Jóhannesar í huga: ‚Boðorð Guðs eru ekki þung.‘
Aflaðu þér þekkingar á Guði
7. Undir hverju er hjálpræði okkar komið?
7 Fyrsta krafan er sú að afla sér þekkingar á Guði. Lítum á orð Jesú í 17. kafla Jóhannesarguðspjalls. Hann sagði þau síðustu nóttina sem hann lifði. Jesús hafði varið mestum hluta kvöldsins í að búa postulana undir burtför sína. Hann var að hugsa um framtíð þeirra, eilífa framtíð. Hann hóf augu sín til himins og bað fyrir þeim. Í 3. versi lesum við: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ Já, hjálpræði þeirra var undir því komið að þeir ‚þekktu‘ bæði Guð og Krist. Það gildir um okkur líka. Til að öðlast hjálpræði verðum við að afla okkur slíkrar þekkingar.
8. Hvað merkir það að „þekkja“ Guð?
8 Hvað þýðir það að „þekkja“ Guð? Gríska orðið, sem hér er þýtt „þekkja,“ merkir „að kynnast, bera kennsl á“ eða „að skilja til fullnustu.“ Frummálið gefur líka í skyn áframhaldandi verknað. Að þekkja Guð merkir því að kynnast honum, ekki yfirborðslega heldur náið, að rækta við hann vináttu byggða á skilningi. Áframhaldandi samband við Guð hefur í för með sér síaukna þekkingu á honum sem getur vaxið endalaust því að við lærum aldrei allt sem hægt er að læra um Jehóva. — Rómverjabréfið 11:33.
9. Hvað getum við lært um Jehóva af sköpunarbókinni?
9 Hvernig öflum við okkur þekkingar á Guði? Það eru tvær bækur sem geta hjálpað okkur. Sú fyrri er sköpunarbókin. Sköpunarverk Jehóva — bæði lifandi og lífvana — gefa okkur nokkra innsýn í það hvers konar persóna hann er. (Rómverjabréfið 1:20) Skoðum nokkur dæmi. Dynur í tignarlegum fossi, öldurót í stormi, stjörnubjartur himinn á heiðskírri nóttu — kennir þetta okkur ekki að Jehóva Guð sé „voldugur að afli“? (Jesaja 40:26) Barn sem hlær að hvolpi elta skottið á sér eða að kettlingi sem leikur sér að bandhnykli — gefur það ekki til kynna að Jehóva, ‚hinn sæli Guð,‘ hafi skopskyn? (1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912) Bragðið af ljúffengum mat, unaðslegur ilmur blóma á engi, skærir litir fíngerðs fiðrildis, fuglasöngur að vori, hlýlegt faðmlag ástvinar — skynjum við ekki af slíku að skapari okkar er kærleiksríkur Guð sem vill að við njótum lífsins? — 1. Jóhannesarbréf 4:8.
10, 11. (a) Hvað getum við ekki lært um Jehóva og tilgang hans af sköpunarbókinni? (b) Hvaða spurningum er aðeins svarað í Biblíunni?
10 En það eru takmörk fyrir því sem við getum lært um Jehóva af sköpunarbókinni. Hvert er til dæmis nafn Guðs? Hvers vegna skapaði hann jörðina og setti manninn á hana? Hvers vegna leyfir Guð illskuna? Hvað ber framtíðin í skauti sér? Til að fá svör við slíkum spurningum verðum við að fletta upp í annarri bók sem veitir þekkingu á Guði — Biblíunni. Á síðum hennar opinberar Jehóva margt um sjálfan sig, meðal annars nafn sitt, persónuleika og tilgang — upplýsingar sem við getum hvergi fengið annars staðar. — 2. Mósebók 34:6, 7; Sálmur 83:18, NW; Amos 3:7.
11 Í Ritningunni miðlar Jehóva líka mikilvægri þekkingu um aðrar persónur sem við þurfum að vita um. Hver er til dæmis Jesús Kristur og hvaða hlutverki gegnir hann í framgangi tilgangs Jehóva? (Postulasagan 4:12) Hver er Satan djöfullinn? Hvernig afvegaleiðir hann fólk? Hvernig getum við komist hjá því að hann afvegaleiði okkur? (1. Pétursbréf 5:8) Svörin við þessum spurningum er einungis að finna í Biblíunni og þau geta bjargað lífi okkar.
12. Hvernig geturðu útskýrt að það sé ekki byrði að afla sér þekkingar á Guði og tilgangi hans?
12 Er það byrði að afla sér slíkrar þekkingar á Guði og tilgangi hans? Engan veginn! Geturðu rifjað upp hvernig þér var innanbrjósts þegar þú lærðir í fyrsta sinn að nafn Guðs væri Jehóva, að ríki hans endurskapi paradís á jörðinni, að hann hafi gefið elskaðan son sinn sem lausnargjald fyrir syndir okkar, og ýmis önnur dýrmæt sannindi? Var ekki eins og að vanþekkingarskýla væri dregin frá andliti þínu og þú sæir hlutina skýrt í fyrsta sinn? Að afla sér þekkingar á Guði er ekki byrði. Það er yndi! — Sálmur 1:1-3; 119:97.
Að standast kröfur Guðs
13, 14. (a) Hverju þurfum við að breyta í lífi okkar þegar við byggjum upp þekkingu á Guði? (b) Hvaða óhreinar athafnir krefst Guð að við forðumst?
13 Þegar við öflum okkur þekkingar á Guði rennur upp fyrir okkur að við þurfum að breyta ýmsu í lífi okkar. Og þá erum við komin að annarri kröfunni. Við verðum að standast kröfur Guðs um rétta hegðun og viðurkenna sannleika hans. Hvað er sannleikur? Skiptir virkilega máli fyrir Guð hverju við trúum og hvað við gerum? Margir telja greinilega að svo sé ekki. Í skýrslu sem Englandskirkja birti árið 1995 var lagt til að óvígð sambúð skyldi ekki álitin synd. „Orðalagið ‚að lifa í synd‘ er niðrandi og gerir fólki ekkert gagn,“ sagði einn af biskupum kirkjunnar.
14 Er það þá ekki lengur synd að „lifa í synd“? Jehóva talar enga tæpitungu þegar hann segir hvað honum finnst um slíka hegðun. Orð hans, Biblían, segir: „Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum og hjónasængin sé óflekkuð, því að hórkarla og frillulífismenn mun Guð dæma.“ (Hebreabréfið 13:4) Kynmök fyrir hjónaband eru kannski ekki synd í augum frjálslyndra klerka og kirkjugesta, en þau eru alvarleg synd í augum Guðs! Og svo er einnig um hórdóm, sifjaspell og kynvillu. (3. Mósebók 18:6; 1. Korintubréf 6:9, 10) Guð krefst þess að við höldum okkur frá slíku enda lítur hann á það sem óhreint.
15. Hvernig tengjast kröfur Guðs bæði framkomu okkar við aðra og því sem við trúum?
15 En það er ekki nóg að láta bara vera að gera það sem Guð álítur syndsamlegt. Kröfur Guðs snúa líka að framkomu okkar við aðra. Innan fjölskyldunnar væntir hann þess að hjónin elski og virði hvort annað. Guð krefst þess að foreldrar annist efnislegar, andlegar og tilfinningalegar þarfir barna sinna. Hann segir börnum að vera foreldrum sínum hlýðin. (Orðskviðirnir 22:6; Kólossubréfið 3:18-21) Og hvað um trú okkar? Jehóva Guð vill að við vörumst trúarskoðanir og siðvenjur sem eru komnar úr falskri tilbeiðslu eða brjóta í bága við skýran sannleika Biblíunnar. — 5. Mósebók 18:9-13; 2. Korintubréf 6:14-17.
16. Útskýrðu hvers vegna það er ekki byrði að standast kröfur Guðs um rétta breytni og að viðurkenna sannleika hans.
16 Er það byrði fyrir okkur að standast kröfur Guðs um rétta hegðun og viðurkenna sannleika hans? Ekki ef litið er á kostina — hjónaband þar sem hjónin elska og treysta hvort öðru í stað hjónabands sem upp úr slitnar vegna ótryggðar; heimili þar sem börnin finna að foreldrarnir elska þau og vilja hafa þau í stað fjölskyldna þar sem börnin njóta ekki ástar, eru vanrækt eða óvelkomin; hrein samviska og góð heilsa í stað sektarkenndar og líkama sem er að bila vegna alnæmis eða einhvers annars samræðissjúkdóms. Kröfur Jehóva svipta okkur alls engu sem við þurfum til að njóta lífsins! — 5. Mósebók 10:12, 13.
Sýndu virðingu fyrir lífi og blóði
17. Hvaða augum lítur Jehóva líf og blóð?
17 Þegar þú samlagar líf þitt kröfum Guðs verður þér ljóst hve dýrmætt lífið er. Við skulum nú ræða um þriðju kröfuna sem Guð gerir. Við verðum að sýna virðingu fyrir lífi og blóði. Lífið er heilagt í augum Jehóva. Það ætti að vera það því að hann er uppspretta lífsins. (Sálmur 36:10) Líf ófædds barns í móðurkviði er jafnvel dýrmætt í augum Jehóva! (2. Mósebók 21:22, 23) Blóðið táknar lífið. Þess vegna er blóðið líka heilagt í augum Guðs. (3. Mósebók 17:14) Það ætti því ekki að koma okkur á óvart að Guð vænti þess að við lítum lífið og blóðið sömu augum og hann.
18. Hvers krefst viðhorf Jehóva til lífs og blóðs af okkur?
18 Hvers krefst virðing fyrir lífi og blóði af okkur? Við leggjum okkur ekki í óþarfa lífshættu aðeins spennunnar vegna. Við gætum þess að öryggisbúnaður bifreiðar okkar sé í lagi og heimilið hættulaust. (5. Mósebók 22:8) Við notum ekki tóbak, betelhnetur, vanabindandi lyf eða fíkniefni til að komast í vímu. (2. Korintubréf 7:1) Við hlýðum Guði þegar hann segir okkur að ‚halda okkur frá blóði‘ þannig að við leyfum ekki að okkur sé gefið blóð úr öðrum. (Postulasagan 15:28, 29) Enda þótt við unnum lífinu reynum við ekki að bjarga núverandi lífi okkar með því að brjóta lög Guðs og tefla þannig í tvísýnu möguleika okkar á eilífu lífi! — Matteus 16:25.
19. Útskýrðu hvaða gagn við höfum af því að virða líf og blóð.
19 Er það byrði fyrir okkur að líta á líf og blóð sem heilagt? Engan veginn! Hugsaðu málið. Er það byrði að vera laus við lungnakrabbamein af völdum reykinga? Er það byrði að forðast líkamlega og andlega ánauð fíkniefna? Er það byrði að fá ekki alnæmi, lifrarbólgu eða einhvern annan sjúkdóm af völdum blóðgjafa? Ljóst er að það er okkur fyrir bestu að forðast skaðlegar venjur og ávana. — Jesaja 48:17.
20. Hvaða gagn hafði fjölskylda nokkur af því að hafa sama viðhorf og Guð til lífsins?
20 Lítum á dæmi. Kvöld eitt fyrir nokkrum árum fékk kona miklar blæðingar og var drifin á spítala, en hún var vottur og var komin um þrjá og hálfan mánuð á leið. Eftir að læknir hafði skoðað hana heyrði hún hann segja við eina hjúkrunarkonuna að þau yrðu að binda enda á meðgönguna. Hún vissi hvaða augum Jehóva lítur á líf barns í móðurkviði, hafnaði fóstureyðingu afdráttarlaust og sagði lækninum: „Látið það vera ef það er lifandi!“ Hún hafði einhverjar blæðingar áfram af og til, en nokkrum mánuðum síðar fæddi hún fyrir tímann heilbrigt sveinbarn sem er núna 17 ára piltur. Hún segir: „Syni okkar var sagt allt þetta og hann sagðist vera mjög ánægður með að sér skyldi ekki hafa verið kastað í ruslafötuna. Hann veit að eina ástæðan fyrir því að hann er á lífi núna er sú að við þjónum Jehóva.“ Það var sannarlega engin byrði fyrir þessa fjölskyldu að líta lífið sömu augum og Guð!
Þjónað með skipulagi fólks Jehóva
21, 22. (a) Ásamt hverjum ætlast Jehóva til að við þjónum sér? (b) Hvernig má þekkja skipulag fólks Guðs?
21 Við erum ekki ein um að þurfa að laga líf okkar að kröfum Guðs. Jehóva á sér þjóð á jörð og hann ætlast til að við þjónum með henni. Þar erum við komin að fjórðu kröfunni. Við verðum að þjóna með skipulagi Jehóva sem hann stýrir með anda sínum.
22 En á hverju þekkist skipulag fólks Guðs? Samkvæmt þeim kröfum, sem Ritningin gerir, ber það ósvikinn kærleika hvert til annars, ber djúpa virðingu fyrir Biblíunni, heiðrar nafn Guðs, prédikar ríki hans og tilheyrir ekki þessum illa heimi. (Matteus 6:9; 24:14; Jóhannes 13:34, 35; 17:16, 17) Það eru aðeins ein trúarsamtök á jörðinni sem hafa öll þessi einkenni sannrar kristni — vottar Jehóva!
23, 24. Hvernig getum við sýnt fram á að það sé ekki byrði að þjóna Jehóva með skipulagi fólks hans?
23 Er það byrði að þjóna Jehóva með skipulagi fólks hans? Nei, þvert á móti eru það dýrmæt sérréttindi að njóta ástar og stuðnings heimsfjölskyldu kristinna bræðra og systra. (1. Pétursbréf 2:17) Ímyndaðu þér að þú bíðir skipbrot og berjist við að halda þér á floti í sjónum. Þegar þér finnst kraftarnir alveg á þrotum ber að björgunarbát og hönd teygir sig til þín. Já, aðrir hafa komist af! Þið skiptist á að róa björgunarbátnum til lands og tínið upp aðra skipbrotsmenn á leiðinni.
24 Erum við ekki í svipaðri aðstöðu? Við höfum verið dregin úr hættulegum „sjó“ þessa illa heims upp í „björgunarbátinn,“ hið jarðneska skipulag Jehóva. Þar þjónum við hlið við hlið og stefnum til „strandar“ réttláts, nýs heims. Ef við skyldum vera að örmagnast undan álagi heimsins á leiðinni í land erum við innilega þakklát fyrir stuðning og hughreystingu sannkristinna félaga! — Orðskviðirnir 17:17.
25. (a) Hvaða skyldu höfum við gagnvart þeim sem svamla enn í „sjónum“ í þessum illa heimi? (b) Hvaða kröfu Guðs er fjallað um í greininni á eftir?
25 Hvað um aðra — hjartahreint fólk sem svamlar enn í „sjónum“? Hvílir ekki sú skylda á okkur að hjálpa því inn í skipulag Jehóva? (1. Tímóteusarbréf 2:3, 4) Þetta fólk þarf að fá hjálp til að læra hvers Guð krefst. Þá erum við komin að fimmtu kröfunni sem Guð gerir. Við verðum að vera dyggir boðberar Guðsríkis. Í næstu grein er fjallað um hvað það felur í sér.
Manstu?
◻ Hvers vegna eru boðorð Guðs ekki þung?
◻ Hvernig öflum við okkur þekkingar á Guði?
◻ Af hverju er það ekki byrði að standast kröfur Guðs um rétta breytni og viðurkenna sannleika hans?
◻ Hvers krefst viðhorf Guðs til lífs og blóðs af okkur?
◻ Ásamt hverjum ætlast Guð til að við þjónum sér og hvernig er hægt að þekkja þá?
[Mynd á blaðsíðu 23]
Við lærum um Jehóva af sköpunarbókinni og Biblíunni.
[Rétthafar]
Krókódíll: Með góðfúslegu leyfi Australian International Public Relations; bjarndýr: Ramat-Gan Safari-Zoo í Tel Aviv.