„Heilbrigðir í huga“ er endirinn nálgast
„Endir allra hluta er í nánd. Verið því heilbrigðir í huga.“ — 1. PÉTURSBRÉF 4:7, NW.
1. Hvað er fólgið í því að vera ‚heilbrigður í huga‘?
ORÐ Péturs postula hér að ofan ættu að hafa djúpstæð áhrif á hvernig kristnir menn lifa lífinu. En Pétur sagði lesendum sínum hvorki að draga sig í hlé frá daglegu amstri og ábyrgð hversdagslífsins né hvatti hann til einhvers konar móðursýki út af yfirvofandi endalokum. Hann hvatti: „Verið . . . heilbrigðir í huga.“ Að vera ‚heilbrigður í huga‘ merkir að sýna góða dómgreind, vera skynsamur og gætinn í orðum og verkum. Það merkir að láta orð Guðs stjórna hugsun sinni og verkum. (Rómverjabréfið 12:2) Þar eð við lifum „meðal rangsnúinnar og gjörspilltrar kynslóðar“ er heilbrigður hugur nauðsynlegur til að afstýra vandamálum og erfiðleikum. — Filippíbréfið 2:15.
2. Hvernig er langlyndi Jehóva kristnum mönnum nú á tímum til góðs?
2 ‚Heilbrigður hugur‘ hjálpar okkur líka til að hafa raunsætt og skynsamlegt álit á sjálfum okkur. (Títusarbréfið 2:12, NW; Rómverjabréfið 12:3) Það er nauðsynlegt með tilliti til orðanna í 2. Pétursbréfi 3:9: „Ekki er [Jehóva] seinn á sér með fyrirheitið, þótt sumir álíti það seinlæti, heldur er hann langlyndur við yður, þar eð hann vill ekki að neinir glatist, heldur að allir komist til iðrunar.“ Tökum eftir að Jehóva er langlyndur, ekki aðeins við vantrúaða heldur einnig „yður“ — kristna safnaðarmenn. Hvers vegna? Vegna þess að „hann vill ekki að neinir glatist.“ Kannski eiga sumir enn eftir að lagfæra eða breyta einhverju í fari sínu til að vera hæfir til að hljóta eilíft líf að gjöf. Við skulum því líta á ýmis svið þar sem einhverra lagfæringa gæti verið þörf.
‚Heilbrigður hugur‘ í samskiptum við aðra
3. Hvaða spurninga gætu foreldrar spurt sig um börnin?
3 Heimilið ætti að vera friðsælt athvarf en hjá sumum er það „fullt hús af . . . deilum.“ (Orðskviðirnir 17:1) Hvað um heimili þitt? Er það laust við „reiði, hávaða og lastmæli“? (Efesusbréfið 4:31) Hvað um börnin þín? Finnst þeim þau elskuð og metin að verðleikum? (Samanber Lúkas 3:22.) Tekurðu þér tíma til að fræða þau og þjálfa? Agar þú „í réttlæti“ í stað reiði og bræði? Þar eð börn eru „gjöf frá [Jehóva]“ hefur hann mikinn áhuga á hvernig farið er með þau. — Sálmur 127:3.
4. (a) Hvaða afleiðingar getur það haft ef eiginmaður er harðneskjulegur við eiginkonu sína? (b) Hvernig geta eiginkonur stuðlað að friði við Guð og að hamingju allrar fjölskyldunnar?
4 Hvað um maka okkar? „Eiginmennirnir [skulu] elska konur sínar eins og eigin líkami. Sá, sem elskar konu sína, elskar sjálfan sig. Enginn hefur nokkru sinni hatað eigið hold, heldur elur hann það og annast, eins og Kristur kirkjuna.“ (Efesusbréfið 5:28, 29) Lastmáll, ráðríkur eða ósanngjarn maður stofnar bæði heimilisfriðnum og sambandi sínu við Guð í hættu. (1. Pétursbréf 3:7) Hvað um eiginkonur? Þær ættu að vera „eiginmönnum sínum [undirgefnar] eins og það væri Drottinn.“ (Efesusbréfið 5:22) Að hugsa um að þóknast Guði getur auðveldað eiginkonu að leiða galla eiginmanns síns hjá sér og vera honum undirgefin gremjulaust. Stundum getur eiginkonu fundist nauðsynlegt að segja hug sinn. Orðskviðirnir 31:26 segja um væna konu: „Hún opnar munninn með speki, og ástúðleg fræðsla er á tungu hennar.“ Með því að koma vinsamlega fram við mann sinn og sýna honum virðingu varðveitir hún frið við Guð og stuðlar að hamingju allrar fjölskyldunnar. — Orðskviðirnir 14:1.
5. Af hverju ættu börn og unglingar að fylgja ráðleggingum Biblíunnar um framkomu við foreldra sína?
5 Þið börn og unglingar, hvernig komið þið fram við foreldra ykkar? Eruð þið kaldhæðin og ókurteis í tali eins og oft er látið viðgangast í heiminum? Eða hlýðið þið fyrirmælum Biblíunnar: „Þér börn, hlýðið foreldrum yðar vegna Drottins, því að það er rétt. ‚Heiðra föður þinn og móður,‘ — það er hið fyrsta boðorð með fyrirheiti: ‚til þess að þér vegni vel og þú verðir langlífur á jörðinni‘“? — Efesusbréfið 6:1-3.
6. Hvernig getum við ástundað frið við trúbræður okkar?
6 Við sýnum líka ‚heilbrigðan huga‘ þegar við ‚ástundum frið og keppum eftir honum‘ ásamt trúsystkinum okkar. (1. Pétursbréf 3:11) Af og til getur orðið misklíð og misskilningur. (Jakobsbréfið 3:2) Ef óvild fær að grafa um sig getur það stefnt friði alls safnaðarins í voða. (Galatabréfið 5:15) Verið því fljót að útkljá deilur og leitið friðsamlegra lausna. — Matteus 5:23-25; Efesusbréfið 4:26; Kólossubréfið 3:13, 14.
‚Heilbrigður hugur‘ og fjölskylduábyrgð
7. (a) Hvernig hvatti Páll til ‚heilbrigðrar hugsunar‘ í hversdagslegum málum? (b) Hvernig ættu kristin hjón að líta á heimilisábyrgð sína?
7 Páll postuli ráðlagði kristnum mönnum að „lifa með heilbrigðum huga.“ (Títusarbréfið 2:12, NW) Það er athyglisvert að í sama kafla hvetur Páll konur „til að elska menn sína og börn, vera hóglátar [„heilbrigðar í huga,“ NW], skírlífar, heimilisræknar.“ (Títusarbréfið 2:4, 5) Páll skrifaði þetta á árunum 61-64, fáeinum árum áður en gyðingakerfið leið undir lok. Engu að síður voru hversdagsleg mál, svo sem heimilisstörf, þýðingarmikil. Bæði eiginmenn og eiginkonur ættu þess vegna að hafa heilbrigða og jákvæða afstöðu til heimilisábyrgðar sinnar þannig að „orði Guðs verði ekki lastmælt.“ Fjölskyldufaðir nokkur var að afsaka fyrir gesti hve skammarlega heimilið liti út. Hann útskýrði að það væri í niðurníðslu „af því að hann væri brautryðjandi.“ Það er hrósunarvert þegar við færum fórnir í þágu Guðsríkis, en við þurfum að gæta þess að fórna ekki velferð fjölskyldunnar.
8. Hvernig geta fjölskyldufeður annast þarfir fjölskyldna sinna með jafnvægi?
8 Biblían hvetur feður til að láta fjölskylduna ganga fyrir og segir að sá sem sjái ekki fyrir fjölskyldunni ‚hafi afneitað trúnni og sé verri en vantrúaður.‘ (1. Tímóteusarbréf 5:8) Lífskjör eru ólík eftir heimshlutum og það er gott að halda lífsgæðakröfum í hófi. „Gef mér hvorki fátækt né auðæfi,“ bað ritari Orðskviðanna 30:8. En foreldrar ættu ekki að hunsa efnislegar þarfir barna sinna. Væri til dæmis viturlegt að láta fjölskylduna vera án brýnustu nauðsynja til að geta sinnt guðræðislegum sérréttindum? Gæti það ekki gert börnin bitur? Orðskviðirnir 24:27 segja þó: „Annastu verk þitt utan húss og ljúk því á akrinum, síðan getur þú byggt hús þitt.“ Enda þótt það sé rétt að gefa efnislegum þörfum gaum er enn nauðsynlegra að ‚byggja hús sitt,‘ það er að segja að uppbyggja heimilið bæði andlega og tilfinningalega.
9. Af hverju er viturlegt fyrir fjölskyldufeður að gera ráð fyrir hugsanlegum veikindum eða dauða?
9 Hefurðu gert ráðstafanir til að sjá fjölskyldu þinni borgið ef þú skyldir falla óvænt frá? Orðskviðirnir 13:22 segja: „Góður maður lætur eftir sig arf handa barnabörnunum.“ Auk þess að láta börnum sínum eftir þann arf að þekkja Jehóva og eiga samband við hann ættu foreldrar að láta sér annt um að sjá efnislega fyrir börnunum. Víða um lönd reyna ábyrgir fjölskyldufeður að leggja eitthvað fyrir, gera erfðaskrá og hafa líftryggingu. Þegar öllu er á botninn hvolft er fólk Guðs ekki ónæmt fyrir ‚tíma og tilviljun.‘ (Prédikarinn 9:11) Peningar ‚veita forsælu‘ eða vernd og með fyrirhyggju má oft afstýra því að fjölskyldan komist í nauðir. (Prédikarinn 7:12) Í þeim löndum, þar sem stjórnvöld greiða ekki fyrir læknishjálp, kjósa sumir að leggja fyrir fé til að standa undir læknishjálp eða kaupa einhvers konar sjúkratryggingu.a
10. Hvernig gætu kristnir foreldrar ‚safnað‘ handa börnunum?
10 Ritningin segir einnig: „Ekki eiga börnin að safna fé handa foreldrunum, heldur foreldrarnir handa börnunum.“ (2. Korintubréf 12:14) Algengt er í heiminum að foreldrar leggi fyrir fé til að mennta börn sín eða hjálpa þeim að hefja búskap og auðvelda þeim þannig að koma undir sig fótunum. Hefurðu leitt hugann að því að leggja fyrir til andlegrar framtíðar barnanna? Setjum sem svo að uppkomið barn þjóni Guði í fullu starfi. Enda þótt þeir sem þjóna í fullu starfi ættu hvorki að krefjast fjárhagslegrar hjálpar annarra eða ætlast til hennar gætu kærleiksríkir foreldrar kosið að ‚taka þátt í þörfum barna sinna‘ til að hjálpa þeim að þjóna áfram í fullu starfi. — Rómverjabréfið 12:13; 1. Samúelsbók 2:18, 19; Filippíbréfið 4:14-18.
11. Er raunsæi í peningamálum merki um trúarskort? Skýrðu svarið.
11 Raunsæi í peningamálum er ekki merki þess að við trúum ekki að hið illa heimskerfi Satans sé að líða undir lok. Það ber einfaldlega vitni um „visku“ og heilbrigða dómgreind. (Orðskviðirnir 2:7; 3:21) Jesús sagði einu sinni að ‚börn þessa heims væru kænni en börn ljóssins‘ í meðferð peninga. (Lúkas 16:8) Það er því ekkert undarlegt að sumir hafi séð þörf á að breyta ýmsu í meðferð fjármuna til að annast þarfir fjölskyldunnar betur.
‚Heilbrigður hugur‘ gagnvart menntun
12. Hvernig kenndi Jesús lærisveinunum að laga sig að nýjum aðstæðum?
12 „Mynd þessa heims“ breytist og breytingarnar eru mjög örar og víðtækar á vettvangi tækni og efnahagsmála. (1. Korintubréf 7:31, Biblían 1912) En Jesús kenndi lærisveinum sínum að laga sig að aðstæðum. Hann sagði þeim þegar hann sendi þá út í fyrstu boðunarferð sína: „Takið ekki gull, silfur né eir í belti, eigi mal til ferðar eða tvo kyrtla og hvorki skó né staf. Verður er verkamaðurinn fæðis síns.“ (Matteus 10:9, 10) En síðar sagði hann: „Nú skal sá, er pyngju hefur, taka hana með sér og eins sá, er mal hefur.“ (Lúkas 22:36) Hvað hafði breyst? Aðstæðurnar. Fjandskapur var orðinn meiri á vettvangi trúmálanna og nú yrðu þeir að sjá fyrir sér sjálfir.
13. Hver er megintilgangur menntunar og hvernig geta foreldrar stutt börn sín á þeim vettvangi?
13 Eins er það núna að foreldrar þurfa að taka mið af veruleikanum í efnahagsmálum. Sjáið þið til dæmis um að börnin fái næga menntun? Megintilgangur menntunar ætti að vera sá að gera börnin hæf til að vera dugandi þjónar Jehóva. Og andleg menntun er mikilvægasta menntunin. (Jesaja 54:13) Foreldrar láta sér líka annt um að börnin geti séð sér farborða. Leiðbeinið því börnunum, hjálpið þeim að velja sér viðeigandi námsgreinar og ræðið við þau um hvort viturlegt sé að afla sér viðbótarmenntunar eða ekki. Fjölskyldan verður að bera ábyrgð á slíkum ákvörðunum og aðrir ættu ekki að gagnrýna hana fyrir þá afstöðu sem hún tekur. (Orðskviðirnir 22:6) Hvað um þá sem hafa kosið að kenna börnum sínum heima eins og leyfilegt er í sumum löndum?b Margir eiga hrós skilið fyrir hve vel þeim hefur tekist til en sumum hefur reynst það erfiðara en þeir bjuggust við og það hefur komið niður á börnunum. Þeir sem eru að íhuga að kenna börnunum sjálfir heima ættu að gæta þess vel að reikna út kostnaðinn og meta af raunsæi hvort þeir hreinlega kunni það og hafi þann sjálfsaga sem til þarf. — Lúkas 14:28.
‚Ætlaðu þér ekki mikinn hlut‘
14, 15. (a) Hvernig missti Barúk andlegt jafnvægi? (b) Af hverju var heimskulegt af honum að ‚ætla sér mikinn hlut‘?
14 Þar eð þetta heimskerfi er enn ekki á enda gætu sumir freistast til að sækjast eftir því sem heimurinn hefur upp á að bjóða — virðingu og starfsframa, vellaunuðu starfi og efnislegri velmegun. Tökum Barúk, ritara Jeremía, sem dæmi. Hann sagði mæðulega: „Vei mér, því að [Jehóva] bætir harmi við kvöl mína. Ég er þreyttur orðinn af andvörpum mínum, og hvíld finn ég enga!“ (Jeremía 45:3) Barúk var uppgefinn. Það var erfitt starf og mikið álag að vera ritari Jeremía. (Jeremía 36:14-26) Og það leit ekki út fyrir að streitunni ætlaði að linna. Jerúsalem yrði ekki eytt fyrr en eftir átján ár.
15 Jehóva sagði Barúk: „Sjá, það sem ég hefi byggt, ríf ég niður, og það sem ég hefi gróðursett, uppræti ég. En þú ætlar þér mikinn hlut! Girnst það eigi!“ Barúk hafði misst jafnvægið. Hann var farinn að ‚ætla sér mikinn hlut,‘ kannski auð, virðingu eða fjárhagslegt öryggi. Hvaða vit var í að sækjast eftir slíku fyrst Jehóva var að ‚rífa niður og uppræta‘? Jehóva gaf Barúk því þessa alvarlegu viðvörun: „Ég leiði ógæfu yfir allt hold . . . En þér gef ég líf þitt að herfangi, hvert sem þú fer.“ Efnislegar eigur myndu ekki bjargast þegar Jerúsalem yrði eytt. Jehóva tryggði aðeins að Barúk fengi ‚líf sitt að herfangi.‘ — Jeremía 45:4, 5.
16. Hvaða lærdóm getur fólk Jehóva nú á dögum dregið af reynslu Barúks?
16 Barúk tók leiðréttingu Jehóva og komst lífs af eins og Jehóva hafði heitið. (Jeremía 43:6, 7) Þetta er áhrifamikil lexía fyrir fólk Jehóva nú á tímum! Þetta er ekki rétti tíminn til að ‚ætla sér mikinn hlut.‘ Af hverju? Af því að „heimurinn fyrirferst og fýsn hans.“ — 1. Jóhannesarbréf 2:17.
Besta leiðin til að nota tímann sem eftir er
17, 18. (a) Hvernig brást Jónas við iðrun Nínívemanna? (b) Hvaða lexíu kenndi Jehóva Jónasi?
17 Hvernig getum við þá best notað þann tíma sem eftir er? Lærum af reynslu spámannsins Jónasar. Hann „fór til Níníve, . . . prédikaði og sagði: ‚Að fjörutíu dögum liðnum skal Níníve verða í eyði lögð.‘“ Jónasi til undrunar tóku Nínívemenn mark á boðskap hans og iðruðust! Jehóva hætti við að eyða borginni. En hvernig brást Jónas við? „Tak nú, [Jehóva], önd mína frá mér, því að mér er betra að deyja en lifa.“ — Jónas 3:3, 4; 4:3.
18 Jehóva kenndi Jónasi þá mikilvæga lexíu. Hann lét „rísínusrunn upp spretta yfir Jónas til þess að bera skugga á höfuð hans . . . og varð Jónas stórlega feginn rísínusrunninum.“ En gleði Jónasar var skammvinn því að runninn visnaði fljótlega. Jónas ‚reiddist‘ óþægindunum. Jehóva hnykkti þá á lexíunni og sagði: „Þig tekur sárt til rísínusrunnsins . . . Og mig skyldi ekki taka sárt til Níníve, hinnar miklu borgar, þar sem eru meira en hundrað og tuttugu þúsundir manna, er ekki þekkja hægri hönd sína frá hinni vinstri, og fjöldi af skepnum?“ — Jónas 4:6, 7, 9-11.
19. Hvaða eigingjarnan hugsunarhátt ættum við að vilja forðast?
19 Jónas var mjög eigingjarn í hugsun. Hann tók sárt til plöntunnar en hafði ekki minnstu samúð með Nínívemönnum — fólki sem ‚þekkti ekki hægri hönd sína frá hinni vinstri‘ andlega séð. Við þráum kannski á sama hátt að hinum illa heimi verði eytt og það með réttu. (2. Þessaloníkubréf 1:8) En á meðan við bíðum hvílir sú ábyrgð á okkur að hjálpa hjartahreinu fólki sem ‚þekkir ekki hægri hönd sína frá hinni vinstri‘ andlega séð. (Matteus 9:36; Rómverjabréfið 10:13-15) Ætlar þú að nota þann stutta tíma, sem eftir er, til að hjálpa eins mörgum og hægt er til að öðlast hina dýrmætu þekkingu á Jehóva? Hvaða starf getur jafnast á við gleðina af því að hjálpa einhverjum að öðlast líf?
Haltu áfram að lifa með „heilbrigðum huga“
20, 21. (a) Nefndu nokkrar leiðir til að sýna ‚heilbrigðan huga‘ á komandi dögum. (b) Hvaða blessun fylgir því að lifa með „heilbrigðum huga“?
20 Nýjar og krefjandi aðstæður eiga eftir að blasa við okkur meðan kerfi Satans siglir hraðbyri til tortímingar. Síðara Tímóteusarbréf 3:13 spáir: „Vondir menn og svikarar munu magnast í vonskunni.“ En ‚þreystu ekki og láttu ekki hugfallast.‘ (Hebreabréfið 12:3) Reiddu þig á styrk frá Jehóva. (Filippíbréfið 4:13) Lærðu að vera sveigjanlegur, að laga þig að versnandi aðstæðum í stað þess að einblína á fortíðina. (Prédikarinn 7:10) Sýndu visku og fylgstu vel með leiðbeiningum ‚hins trúa og hyggna þjóns.‘ — Matteus 24:45-47.
21 Við vitum ekki hve langur tími er eftir en við getum sagt með vissu að ‚endir allra hluta sé í nánd.‘ Uns endirinn kemur skulum við sýna ‚heilbrigðan huga‘ í samskiptum hvert við annað, í því að sjá fyrir fjölskyldum okkar og í því hvernig við rækjum veraldlega ábyrgð okkar. Með því að gera það getum við öll treyst að við séum ‚flekklaus og lýtalaus í friði.‘ — 2. Pétursbréf 3:14.
[Neðanmáls]
a Í Bandaríkjunum er til dæmis algengt að fólk kaupi sér sjúkratryggingu þótt slíkar tryggingar séu nokkuð dýrar. Sumar vottafjölskyldur hafa komist að raun um að ýmsir læknar eru meira en fúsir til að íhuga læknismeðferð án blóðgjafar ef fjölskyldan er sjúkratryggð. Margir læknar gera sig ánægða með þá greiðslu sem fæst út úr takmarkaðri sjúkratryggingu eða almannatryggingum.
b Nánar er fjallað um heimakennslu í greininni „Er heimakennsla fyrir þig?“ í Vaknið! (enskri útgáfu) 8. apríl 1993.
Til upprifjunar
◻ Hvernig getum við sýnt ‚heilbrigðan huga‘ í samskiptum við aðra?
◻ Hvernig getum við sýnt jafnvægi í sambandi við fjölskylduábyrgð okkar?
◻ Af hverju verða foreldrar að sýna áhuga á veraldlegri menntun barna sinna?
◻ Hvaða lærdóm drögum við af Barúk og Jónasi?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Hjón spilla sambandi sínu við Jehóva með því að koma illa fram hvort við annað.
[Mynd á blaðsíðu 16]
Foreldrar ættu að hafa áhuga á menntun barna sinna.