Bók frá Guði
„Aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns, heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.“ — 2. PÉTURSBRÉF 1:21.
1, 2. (a) Hvers vegna eru sumir efins um að Biblían skipti nútímamanninn einhverju máli? (b) Hvaða þrjár sönnunarleiðir getum við notað til að sýna að Biblían sé frá Guði?
HEFUR Biblían einhverja þýðingu fyrir fólk sem er um það bil að stíga inn í 21. öldina? Sumir halda ekki. „Enginn myndi mæla með að efnafræðikennslubók útgefin árið 1924 yrði notuð við efnafræðikennslu í skólum nú á dögum — til þess hefur þekkingunni í efnafræði fleygt of mikið fram,“ skrifaði læknirinn Eli S. Chesen þegar hann var að útskýra hvers vegna hann teldi Biblíuna úrelta. Fljótt á litið virðist þetta vera gild röksemd. Því verður ekki á móti mælt að þekking í vísindum, á geðheilsu og mannlegri hegðun hefur aukist verulega síðan á tímum Biblíunnar. Þess vegna spyrja sumir: ‚Hvernig gæti svona gömul bók verið laus við vísindalega ónákvæmni? Hvernig gæti hún haft að geyma leiðbeiningar sem gagnast fólki nú til dags?‘
2 Biblían svarar því sjálf. Í 2. Pétursbréfi 1:21 segir að biblíuspámennirnir hafi talað „orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.“ Biblían gefur þannig til kynna að hún sé bók frá Guði. En hvernig getum við sannfært aðra um að svo sé? Skoðum þrjár sannanir þess að Biblían sé orð Guðs: (1) Hún er vísindalega nákvæm, (2) hún hefur að geyma sígildar meginreglur sem eru hagnýtar fyrir nútímamanninn og (3) hún inniheldur sérstaka spádóma sem hafa uppfyllst eins og sögulegar staðreyndir sanna.
Bók sem samræmist vísindum
3. Hvers vegna hefur Biblíunni ekki stafað ógn af vísindalegum uppgötvunum?
3 Biblían er ekki kennslubók í vísindum. Hún er engu að síður bók sannleikans og sannleikurinn stenst tímans tönn. (Jóhannes 17:17) Vísindalegar uppgötvanir hafa ekki ógnað Biblíunni. Þegar hún kemur inn á efni sem tengist vísindum er hún algerlega laus við fornar „vísindalegar“ kenningar sem reyndust goðsagnir einar. Reyndar inniheldur hún staðhæfingar sem eru ekki aðeins vísindalega réttar heldur stangast alveg á við viðurkenndar hugmyndir þess tíma. Lítum til dæmis á samræmið milli Biblíunnar og læknavísindanna.
4, 5. (a) Hvaða skilning skorti lækna til forna á sjúkdómum? b) Hvers vegna var Móse vafalaust kunnugur lækningaaðferðum egypskra lækna?
4 Til forna skildu læknar ekki til fulls hvernig sjúkdómar breiðast út og þeir gerðu sér heldur ekki grein fyrir hve hreinlæti er mikilvægt til að koma í veg fyrir sjúkdóma. Margar fornar læknisaðferðir virðast villimannlegar á nútímamælikvarða. Einn elsti læknisfræðilegi textinn, sem varðveist hefur, er Eberspapýrusritið, samantekt á egypskri læknisfræðiþekkingu og dagsett frá um það bil 1550 f.o.t. Þar er að finna 700 læknisráð við ýmsum veikindum, „allt frá krókódílabiti til táverkjar.“ Flest læknisráðin voru ekki einungis gagnslaus heldur voru sum þeirra stórhættuleg. Til meðhöndlunar á sári mælti ein uppskriftin með því að nota mannasaur í bland við önnur efni.
5 Þessi texti með egypskum læknisráðum var ritaður á nær sama tíma og fyrstu bækur Biblíunnar sem innihéldu meðal annars Móselögmálið. Móse, sem fæddist árið 1593 f.o.t., óx upp í Egyptalandi. (2. Mósebók 2:1-10) Móse var „fræddur í allri speki Egypta“ enda alinn upp í húsi Faraós. (Postulasagan 7:22) Hann þekkti til ‚lækna‘ Egyptalands. (1. Mósebók 50:1-3) Höfðu gagnslausar eða hættulegar læknisaðferðir þeirra áhrif á rit hans?
6. Hvaða hreinlætisreglur í Móselögunum þættu skynsamlegar frá sjónarhóli læknavísinda nútímans?
6 Móselögin innihéldu þvert á móti hreinlætisreglur sem þættu skynsamlegar frá sjónarhóli læknavísinda nútímans. Til dæmis var tekið fram í lögum um herbúðir að saur skyldi grafa utan búðanna. (5. Mósebók 23:13) Þetta voru ákaflega þróaðar forvarnir. Þær stuðluðu að því að vatnsbólin menguðust ekki og veittu vernd gegn blóðkreppusótt og öðrum niðurgangssjúkdómum sem flugur bera og verða enn þá milljónum manna að fjörtjóni ár hvert, einkum í þróunarlöndunum.
7. Hvaða hreinlætisreglur í Móselögunum unnu gegn útbreiðslu smitsjúkdóma?
7 Móselögin innihéldu önnur hreinlætisákvæði sem unnu gegn útbreiðslu smitsjúkdóma. Maður, sem hafði eða var grunaður um að hafa smitandi sjúkdóm, var settur í sóttkví. (3. Mósebók 13:1-5) Klæði eða ílát, sem komst í snertingu við sjálfdautt dýr (dó kannski vegna sjúkdóms), skyldi annaðhvort þvo áður en það væri notað aftur eða eyða. (3. Mósebók 11:27, 28, 32, 33) Hver sá sem snerti lík var álitinn óhreinn og varð að gangast undir hreinsun sem fólst í þvotti á klæðum hans og líkama. Í sjö daga var hann óhreinn og varð að forðast snertingu við aðra þann tíma. — 4. Mósebók 19:1-13.
8, 9. Hvers vegna er hægt að segja að hreinlætisákvæðin í Móselögunum hafi verið langt á undan sinni samtíð?
8 Þessi hreinlætisákvæði endurspegla visku sem var langt á undan sinni samtíð. Nútíma læknavísindi hafa orðið margs vísari um útbreiðslu sjúkdóma og varnir gegn þeim. Framfarir í læknisfræði á 19. öld leiddu til dæmis til sóttvarna — hreinlætis til að draga úr sýkingum — með þeim afleiðingum að verulega dró úr sýkingum og ótímabærum dauða. Árið 1900 voru lífslíkur manna við fæðingu í mörgum Evrópulöndum og í Bandaríkjunum minni en 50 ár. Síðan þá hafa þær aukist stórkostlega, ekki einungis vegna framfara í því að halda sjúkdómum í skefjum heldur líka vegna betra hreinlætis og lífsskilyrða.
9 Þúsundum ára áður en læknavísindin uppgötvuðu hvernig sjúkdómar breiðast út var hins vegar að finna í Biblíunni skynsamleg fyrirmæli um fyrirbyggjandi ráðstafanir til varnar gegn sjúkdómum. Það er því ekkert undarlegt að Móse hafi getað sagt Ísraelsmenn ná á hans dögum almennt 70 til 80 ára aldri. (Sálmur 90:10) Hvernig gæti Móse hafa þekkt til slíkra hreinlætisreglna? Biblían útskýrir það sjálf: Lagasáttmálinn var til orðinn „fyrir umsýslan engla.“ (Galatabréfið 3:19) Já, Biblían er ekki bók mannlegrar visku; hún er bók frá Guði.
Hagnýt bók fyrir nútímamanninn
10. Hvað gildir enn um ráðleggingar Biblíunnar þó að hún hafi verið fullgerð fyrir næstum 2000 árum?
10 Bækur, sem bjóða upp á ráðleggingar, úreldast gjarnan og eru fljótlega endurskoðaðar eða endurnýjaðar. En Biblían er sannarlega einstök. „Vitnisburðir þínir eru harla áreiðanlegir,“ segir Sálmur 93:5. Þó að Biblían hafi verið fullgerð fyrir nærri 2000 árum eiga orð hennar enn þá við. Þau eru jafnnýtileg öllu fólki hver svo sem hörundslitur þess er eða heimaland. Athugum nokkur dæmi um ‚harla áreiðanlega‘ vitnisburði eða ráðleggingar Biblíunnar.
11. Hverju voru foreldrar látnir trúa fyrir nokkrum áratugum um ögun barna?
11 Fyrir nokkrum áratugum héldu margir foreldrar — vegna áhrifa frá „nýjum hugmyndum“ um barnauppeldi — að það væri „bannað að banna.“ Þeir óttuðust að væru börnunum settar hömlur gæti það valdið skapraun og sálrænu tjóni. Ráðgjafar kröfðust þess í bestu meiningu að foreldrar létu aðeins hina mildustu ofanígjöf duga. Margir slíkir sérfræðingar eru núna farnir að „hvetja foreldra til að vera svolítið strangari, að taka stjórnina aftur í sínar hendur,“ sagði í blaðinu The New York Times.
12. Hvað merkir gríska nafnorðið, sem þýtt er með orðinu „agi,“ og hvers vegna þarfnast börn slíks aga?
12 Biblían hefur samt allan tímann boðið fram ákveðnar og öfgalausar ráðleggingar um barnauppeldi. Hún ráðleggur: „Þér feður, reitið ekki börn yðar til reiði, heldur alið þau upp með aga og umvöndun [Jehóva].“ (Efesusbréfið 6:4.) Gríska nafnorðið, sem þýtt er ‚agi,‘ merkir „uppeldi, þjálfun, fræðsla.“ Biblían segir að agi eða fræðsla sé merki um kærleika foreldranna. (Orðskviðirnir 13:24) Börn þrífast vel séu þeim settar skilmerkilegar siðgæðisreglur sem hjálpa þeim að fá tilfinningu fyrir réttu og röngu. Sé aga beitt rétt ýtir hann undir öryggistilfinningu hjá börnunum; hann segir þeim að foreldrunum sé annt um þau og láti sig skipta hvers konar persónur þau séu að verða. — Samanber Orðskviðina 4:10-13.
13. (a) Hvaða viðvörun veitir Biblían foreldrum í tengslum við agann? (b) Hvers konar aga mælir Biblían með?
13 En Biblían hefur viðvörun til foreldra í tengslum við ögun barnanna. Foreldravaldinu skyldi aldrei misbeitt. (Orðskviðirnir 22:15) Aldrei skyldi refsa barni grimmilega. Líkamlegt ofbeldi á hvergi heima í fjölskyldu sem lifir eftir Biblíunni. (Sálmur 11:5) Þar á ekki heldur heima tilfinningalegt ofbeldi — óvægin orð, stöðug gagnrýni og nístandi kaldhæðni sem getur brotið barnið niður. (Samanber Orðskviðina 12:18.) Biblían gefur foreldrum þessa viturlegu viðvörun: „Verið ekki vondir við börn yðar, svo að þau verði ekki ístöðulaus [eða, „hnuggin,“ NW].“ (Kólossubréfið 3:21) Biblían mælir með forvörnum. Í 5. Mósebók 11:19 eru foreldrar hvattir til að notfæra sér hversdagslegar stundir til að glæða hjá börnum sínum siðferðileg og andleg gildi. Slík skýr og skynsamleg ráð um barnauppeldi eiga eins vel við nú á dögum og á tímum Biblíunnar.
14, 15. (a) Á hvaða hátt hefur Biblían meira fram að færa en aðeins viturlegar ráðleggingar? (b) Hvaða kenningar Biblíunnar geta hjálpað körlum og konum af mismunandi kynþætti og þjóðerni að líta á hvert annað sem jafningja?
14 Biblían gefur meira en aðeins viturleg ráð. Boðskapur hennar höfðar til hjartans. Hebreabréfið 4:12 segir: „Orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans.“ Skoðum dæmi um hve kröftug áhrif Biblían hefur á fólk.
15 Kynþátta-, þjóða- og þjóðernismúrar sundra fólki nú á tímum. Slíkir gervimúrar hafa stuðlað að slátrun fjölda saklausra manna í styrjöldum um heim allan. Á hinn bóginn inniheldur Biblían kenningar sem hjálpa körlum og konum af ólíkum kynþáttum og þjóðum að líta á hvert annað sem jafningja. Til dæmis segir Postulasagan 17:26 að Guð „skóp og af einum allar þjóðir manna.“ Þetta sýnir að í rauninni sé til aðeins einn kynþáttur — mannkynið! Biblían hvetur okkur enn fremur til að verða „eftirbreytendur Guðs“ en um hann segir hún: „[Hann] fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ (Efesusbréfið 5:1; Postulasagan 10:34, 35) Þessi þekking sameinar þá sem leitast í alvöru við að lifa eftir kenningum Biblíunnar. Hún kemst að dýpstu rótunum — hjartanu — og brýtur niður þá múra sem maðurinn hefur gert sér og sundra fólki. Virkar hún raunverulega í heimi nútímans?
16. Greinið frá dæmi sem sýnir að vottar Jehóva mynda ósvikið kristið bræðrafélag.
16 Vissulega gerir hún það! Vottar Jehóva eru vel þekktir fyrir alþjóðlegt bræðrafélag sitt er sameinar fólk af mismunandi uppruna sem að öllu jöfnu býr ekki saman í friði. Meðan til dæmis stóð á þjóðernisátökunum í Rúanda skutu vottar Jehóva skjólshúsi yfir kristna bræður sína og systur af hinum kynþættinum og hættu með því lífi sínu. Í einu tilviki faldi vottur, sem var hútúmaður, á heimili sínu sex manna tútsa-fjölskyldu sem var í söfnuði hans. Því miður fannst tútsa-fjölskyldan nokkru seinna og var myrt. Hútu-bróðirinn og fjölskylda hans áttu núna yfir höfði sér reiði morðingjanna og urðu að flýja til Tansaníu. Fréttir bárust af mörgum svipuðum dæmum. Vottar Jehóva viðurkenna fúslega að slík eining sé möguleg vegna þess að hinn knýjandi kraftur boðskapar Biblíunnar hefur náð djúpum tökum á hjörtum þeirra. Það að Biblían getur sameinað fólk í þessum hatursfulla heimi er kröftug sönnun þess að hún sé frá Guði.
Bók sannra spádóma
17. Hvernig eru spádómar Biblíunnar ólíkir spám manna?
17 „Enginn þýðir neinn spádóm Ritningarinnar af sjálfum sér,“ segir 2. Pétursbréf 1:20. Biblíuspámennirnir könnuðu ekki vandlega hvert virtist stefna í heimsmálunum þá stundina og komu að því búnu með fræðilegar ágiskanir byggðar á persónulegri túlkun á gangi mála. Þeir komu ekki heldur með óljósar spár sem túlka hefði mátt svo að þeir ættu við næstum hvaða framtíðaratburð sem vera skyldi. Lítum sem dæmi á biblíuspádóm sem var alveg sérstaklega skorinorður og spáði þvert gegn því sem menn á þeim tíma hefðu mátt búast við.
18. Hvers vegna er nokkuð víst að íbúum Babýlonar til forna hafi fundist þeir vera mjög öruggir og hverju hafði Jesaja spáð um Babýlon?
18 Á sjöundu öld f.o.t. virtist Babýlon vera hin óvinnandi höfuðborg babýlonska heimsveldisins. Borgin sat klofvega á Efratánni og vatn árinnar var notað til að mynda breiða og djúpa virkisgröf og net síkja. Til varnar borginni voru líka gríðarmiklir, tvöfaldir virkisveggir styrktir með varnarturnum. Íbúum Babýlonar fannst þeir greinilega vera mjög öruggir. En á áttundu öld f.o.t., jafnvel áður en Babýlon náði hátindi dýrðar sinnar, spáði spámaðurinn Jesaja: „Svo skal fara fyrir Babýlon . . . sem þá er Guð umturnaði Sódómu og Gómorru. Hún skal aldrei framar af mönnum byggð vera, kynslóð eftir kynslóð skal þar enginn búa. Enginn Arabi skal slá þar tjöldum sínum og engir hjarðmenn bæla þar fénað sinn.“ (Jesaja 13:19, 20) Taktu eftir því að spádómurinn sagði ekki aðeins fyrir að Babýlon yrði eytt heldur að hún yrði óbyggð til frambúðar. Þetta var djörf spá. Hefði Jesaja getað ritað spádóminn eftir að hafa séð Babýlon í eyði? Sagan svarar því neitandi!
19. Hvers vegna uppfylltist spádómur Jesaja ekki fullkomlega hinn 5. október árið 539 f.o.t.?
19 Að kvöldi 5. október árið 539 f.o.t. féll Babýlon fyrir herliði Meda og Persa undir forystu Kýrusar mikla. Samt sem áður uppfylltist spádómur Jesaja ekki til fulls á þeim tíma. Babýlon var byggð um aldir eftir að Kýrus tók hana þótt mikið vantaði á fyrra veldi hennar. Á annarri öld f.o.t., um það leyti sem Dauðahafshandritin af Jesajabók voru afrituð, náðu Parþíumenn Babýlon á sitt vald en þá var farið að líta á borgina sem herfang er þjóðirnar umhverfis börðust um. Gyðingurinn og sagnfræðingurinn Jósefus skýrir frá því að „mikill fjöldi“ Gyðinga hafi búið þar á fyrstu öld f.o.t. Að sögn ritsins The Cambridge Ancient History stofnuðu kaupmenn frá Palmýru velmegandi viðskiptanýlendu í Babýlon árið 24 e.o.t. Babýlon var því ekki enn komin algerlega í eyði þótt komið væri fram á fyrstu öld en Jesajabók var þá löngu fullgerð. — 1. Pétursbréf 5:13.
20. Hvað ber því vitni að Babýlon hafi að lokum orðið að „grjóthrúgu“?
20 Jesaja lifði það aldrei að sjá Babýlon óbyggða. En eins og spáð hafði verið varð Babýlon að lokum aðeins að „grjóthrúgu.“ (Jeremía 51:37) Að sögn hebreskufræðingsins Híerónýmusar (fæddur á fjórðu öld e.o.t.) var Babýlon orðin á hans dögum veiðilendur þar sem „hvers konar villidýr“ reikuðu um og hún hefur verið í eyði til þessa dags. Þótt einhvers konar endurreisn Babýlonar sem ferðamannastaðar kynni að laða að henni gesti er „ætt og afkomendur“ Babýlonar að eilífu horfin eins og Jesaja spáði. — Jesaja 14:22.
21. Hvers vegna gátu trúfastir spámenn spáð fyrir um framtíðina með óskeikulli nákvæmni?
21 Jesaja spámaður kom ekki með fræðilega ágiskun. Hann endurskrifaði ekki heldur mannkynssöguna til að láta hana líta út eins og spádóm. Jesaja var sannur spámaður. Það voru allir hinir spámenn Biblíunnar líka. Hvers vegna gátu þessir menn gert það sem enginn maður getur gert — sagt fyrir um framtíðina með óbrigðulli nákvæmni? Svarið er skýrt. Spádómarnir áttu upptök sín hjá Guði spádómanna, Jehóva, honum er „kunngjörði endalokin frá öndverðu.“ — Jesaja 46:10.
22. Hvers vegna ættum við að gera okkar ítrasta til að hvetja hjartahreint fólk til að rannsaka sjálft Biblíuna?
22 Er Biblían þá rannsóknar virði? Við vitum að hún er það! En margir eru ekki sannfærðir. Þeir hafa myndað sér skoðanir um Biblíuna jafnvel þótt þeir hafi kannski aldrei lesið hana. Mundu eftir prófessornum sem nefndur var í upphafi greinarinnar hér á undan. Hann féllst á að nema Biblíuna og eftir að hafa rannsakað hana vandlega komst hann að þeirri niðurstöðu að hún sé bók frá Guði. Hann lét að lokum skírast sem einn votta Jehóva og þjónar núna sem öldungur. Gerum okkar ítrasta til að hvetja hjartahreint fólk til að rannsaka sjálft Biblíuna og mynda sér að því búnu skoðun á henni. Við erum fullviss um að ef menn gera heiðarlega og milliliðalausa könnun á Biblíunni verði þeim ljóst að þessi einstaka bók er sannarlega bók fyrir alla!
Getur þú útskýrt?
◻ Hvernig gætir þú notað Móselögin til að sýna fram á að Biblían er ekki frá mönnum komin?
◻ Hvaða sígildar meginreglur í Biblíunni eru hagnýtar fyrir nútímamanninn?
◻ Hvers vegna gæti spádómurinn í Jesaja 13:19, 20 ekki hafa verið skrifaður eftir að atburðirnir gerðust?
◻ Hvað ættum við að hvetja hjartahreint fólk til að gera og hvers vegna?
[Rammi á blaðsíðu 18]
Hvað um hið ósannanlega?
Í Biblíunni er að finna ýmsar fullyrðingar sem engar óháðar efnislegar sannanir eru til um. Það sem hún segir til dæmis um ósýnilegt tilverusvið byggt andaverum verður hvorki sannað — né afsannað — vísindalega. Gera slíkar ósannanlegar tilvísanir Biblíuna endilega ósamhljóða vísindum?
Þetta var sú spurning sem mætti stjarnjarðfræðingi sem hóf að nema Biblíuna með hjálp votta Jehóva fyrir nokkrum árum. „Ég verð að játa að í fyrstu var erfitt fyrir mig að viðurkenna Biblíuna vegna þess að ég gat ekki vísindalega sannað sumar fullyrðingar hennar,“ segir hann. Þessi maður hélt áfram að nema Biblíuna og sannfærðist smám saman um að fyrirliggjandi gögn sýna að hún er orð Guðs. „Þetta dró úr lönguninni til að fá sjálfstæða sönnun fyrir sérhverju því sem fullyrt er í Biblíunni,“ útskýrir hann. „Maður, sem er vísindalega sinnaður, verður að vera fús til að rannsaka Biblíuna frá andlegum sjónarhóli, annars tekur hann aldrei við sannleikanum. Ekki er hægt að ætlast til þess að vísindin færi sönnur á allt sem sagt er í Biblíunni. En það eitt að vissar fullyrðingar séu ósannanlegar þýðir ekki að þær séu ósannar. Það sem skiptir sköpum er að nákvæmni Biblíunnar hefur verið sannreynd á hverju því sviði sem mögulegt er að sanna hana.“
[Mynd á blaðsíðu 15]
Móse skráði niður hreinlætisreglur sem voru langt á undan sinni samtíð.