Trúin og framtíð þín
„Trúin er fullvissa um það, sem menn vona.“ — HEBREABRÉFIÐ 11:1.
1. Hvers konar framtíð þrá flestir?
HEFURÐU áhuga á framtíðinni? Flestir hafa það. Þeir vonast eftir friði, óttaleysi, mannsæmandi lífsskilyrðum, skapandi og ánægjulegri vinnu, góðri heilsu og langlífi. Eflaust hafa allar kynslóðir manna þráð þetta. Og núna er heimurinn svo fullur af erfiðleikum að slík framtíð er eftirsóknarverðari en nokkru sinni fyrr.
2. Hvernig lýsti stjórnmálamaður einu viðhorfi til framtíðarinnar?
2 Núna er 21. öldin að renna upp. Er nokkur leið að finna út hvernig framtíðin verður? Bandaríski stjórnmálamaðurinn Patrick Henry benti á eina leið fyrir rösklega 200 árum: „Ég þekki enga aðra leið en að dæma framtíðina eftir fortíðinni.“ Að hans áliti má ráða talsvert um framtíð mannkynsins af verkum manna í fortíðinni. Margir taka undir þetta sjónarmið.
Hvernig var fortíðin?
3. Hvað gefur sagan til kynna varðandi framtíðarhorfurnar?
3 Finnst þér það uppörvandi tilhugsun að framtíðin verði spegilmynd fortíðarinnar? Sáu fyrri kynslóðir batnandi tíma þegar aldirnar liðu? Reyndar ekki. Þrátt fyrir vonir manna um þúsundir ára og þrátt fyrir efnahagslegar framfarir sums staðar er mannkynssagan full af kúgun, glæpum, ofbeldi, styrjöldum og fátækt. Heimurinn hefur mátt þola hverja hörmungina á fætur annarri, aðallega sökum ófullnægjandi stjórnar manna. Biblían hittir naglann á höfuðið þegar hún segir: „Einn maðurinn drottnar yfir öðrum honum til ógæfu.“ — Prédikarinn 8:9.
4, 5. (a) Af hverju voru menn vonglaðir í upphafi 20. aldarinnar? (b) Hvað varð um framtíðarvonir þeirra?
4 Sannleikurinn er sá að hörmungasaga mannkyns heldur áfram að endurtaka sig. Það eina sem breytist er að hörmungarnar verða stærri og skaðlegri. Tuttugasta öldin færir okkur heim sanninn um það. Var mannkynið búið að læra af mistökum fortíðar til að forðast þau? Í upphafi þessarar aldar bjuggust margir við betri framtíð sökum þess að friður hafði staðið nokkuð lengi og sökum framfara á sviði iðnaðar, vísinda og menntunar. Háskólaprófessor sagði að í byrjun þessarar aldar hefðu styrjaldir ekki verið taldar mögulegar vegna þess að „fólk væri of siðmenntað.“ Fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands sagði um viðhorf manna um síðustu aldamót: „Allt varð betra og betra. Þetta var sá heimur sem ég fæddist í.“ Svo bætti hann við: „Skyndilega, óvænt, morgun einn árið 1914 leið þetta allt undir lok.“
5 Þrátt fyrir að menn tryðu á betri framtíð á þeim tíma var nýja öldin varla hafin þegar yfir hana steyptust mestu hamfarir af mannavöldum sem orðið höfðu — fyrri heimsstyrjöldin. Sem dæmi um eðli hennar má nefna árás breskra hermanna á þýsku víglínuna í grennd við ána Somme í Frakklandi árið 1916. Á aðeins fáeinum klukkustundum féllu 20.000 breskir hermenn og margir í herliði Þjóðverja. Fjögurra ára stríð kostaði nærri tíu milljónir hermanna og fjölda óbreyttra borgara lífið. Svo mikið var mannfallið að íbúum Frakklands fækkaði um hríð. Efnahagur landa var í rúst og kreppan mikla á fjórða áratugnum fylgdi í kjölfarið. Það er engin furða að sumir skuli hafa haft á orði að heimurinn hafi gengið af göflunum daginn sem fyrri heimsstyrjöldin hófst.
6. Breyttist lífið til batnaðar eftir fyrri heimsstyrjöldina?
6 Var þetta sú framtíð sem þáverandi kynslóð vonaðist eftir? Síður en svo. Vonir hennar hurfu út í veður og vind og það sem fylgdi í kjölfarið var ekki betra. Árið 1939, aðeins 21 ári eftir að fyrri heimsstyrjöldinni lauk, skullu á enn meiri hamfarir af mannavöldum — síðari heimsstyrjöldin. Hún tortímdi um 50 milljónum karla, kvenna og barna. Gríðarlegar sprengjuárásir jöfnuðu borgir við jörðu. Í fyrri heimsstyrjöldinni féllu þúsundir hermanna í einni orrustu á fáeinum klukkustundum en í þeirri síðari drápu tvær kjarnasprengjur rösklega 100.000 manns á fáeinum sekúndum. En mörgum þykir kerfisbundin morð á milljónum manna í fangabúðum nasista enn hryllilegri.
7. Hver er veruleiki þessarar aldar?
7 Í nokkrum heimildum kemur fram að samanlagt hafi fallið á þessari öld um 200 milljónir manna, ef taldar eru með styrjaldir þjóða í milli, borgarastríð og dráp stjórnvalda á eigin þegnum. Ein heimild segir töluna vera 360 milljónir. Hugsaðu þér allan þennan hrylling — sársaukann, tárin, angistina og þau líf sem lögð hafa verið í rúst. Auk þess deyja að meðaltali um 40.000 manns daglega, aðallega börn, beint eða óbeint af völdum fátæktar. Þrefalt fleiri eru drepin með fóstureyðingum dag hvern. Og um einn milljarður manna hefur ekki efni á nægum mat til að geta skilað eðlilegu dagsverki. Allt ber þetta vott um að við lifum á „síðustu dögum“ þessa illa heimskerfis eins og Biblían spáði. — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 13; Matteus 24:3-12; Lúkas 21:10, 11; Opinberunarbókin 6:3-8.
Menn kunna enga lausn
8. Af hverju geta mennskir leiðtogar ekki leyst heimsvandamálin?
8 Er líður að lokum 20. aldarinnar getum við bætt reynslu hennar við reynslu fyrri alda. Og hvað segir sagan okkur? Hún segir okkur að mennskir leiðtogar hafi aldrei leyst helstu vandamál heimsins, að þeir séu ekki að leysa þau núna og að þeir muni ekki leysa þau í framtíðinni. Þeim er hreinlega ofviða að veita okkur þess konar framtíð sem við þráum, hversu velviljaðir sem þeir eru. Og sumir valdamenn eru ekki sérlega velviljaðir; þeir sækjast eftir völdum og virðingarstöðu til að skara eld að sinni köku og þjóna hégómagirnd sinni, ekki til að stuðla að heill annarra.
9. Af hverju er ástæða til að efast um að vísindin kunni lausn á vandamálum mannsins?
9 Kunna vísindin lausn á vandanum? Ekki ef tekið er mið af fortíðinni. Vísindamenn í þjónustu yfirvalda hafa eytt gífurlegum fjárhæðum, tíma og kröftum í þróun hræðilegra eyðingarvopna af ýmsu tagi, þar á meðal efna- og sýklavopna. Þjóðirnar, þeirra á meðal þjóðir sem síst hafa efni á því, eyða árlega jafnvirði meira en 50 billjóna króna til vígbúnaðar! Og þau efni, sem hafa mengað loft, láð, lög og matvæli, eru að nokkru leyti ‚framförum vísindanna‘ að þakka.
10. Hvers vegna getur ekki einu sinni menntun tryggt okkur betri framtíð?
10 Megum við búast við að menntastofnanir heimsins stuðli að bættri framtíð með því að kenna háleitt siðgæði, náungakærleika og tillitssemi við aðra? Nei, þær einblína á starfsframa og góðar tekjur. Þær ýta undir harða samkeppni, ekki samvinnu, og ekki kenna þær háleitt siðferði. Margar láta viðgangast frelsi í kynferðismálum sem hefur átt sinn þátt í vaxandi samræðissjúkdómum og stórauknum þungunum unglingsstúlkna.
11. Af hverju vekur framferði stórfyrirtækja efasemdir um framtíðina?
11 Ætli stórfyrirtækin í heiminum finni skyndilega hjá sér hvöt til að fara vel með jörðina og sýna fólki kærleika með því að framleiða vörur sem eru aðeins til gagns en ekki einungis til gróða? Það er ekki líklegt. Skyldu þau hætta að framleiða sjónvarpsþætti sem eru gagnsýrðir ofbeldi og siðleysi og stuðla að siðspillingu fólks, einkum unga fólksins? Nýliðin fortíð er alls ekki uppörvandi vegna þess að sjónvarpið er að mestu leyti safnþró siðleysis og ofbeldis.
12. Hvernig eru menn á vegi staddir gagnvart sjúkdómum og dauða?
12 Þar við bætist að læknar, þótt einlægir séu, geta ekki sigrast á sjúkdómum og dauða. Læknar gátu til dæmis ekki haft hemil á spænsku veikinni við lok fyrri heimsstyrjaldarinnar sem lagði að velli um 20 milljónir manna um heim allan. Nú á dögum geisa hjartasjúkdómar, krabbamein og önnur banvæn mein. Ekki hefur læknisfræðin heldur sigrast á nútímaplágunni alnæmi. Í skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum, sem birt var í nóvember 1997, kom fram að útbreiðsluhraði alnæmisveirunnar væri helmingi meiri en áður var talið. Milljónir manna eru látnar af völdum veikinnar. Árið 1996 smituðust þrjár milljónir manna af alnæmisveirunni.
Viðhorf votta Jehóva til framtíðarinnar
13, 14. (a) Hvaða augum líta vottar Jehóva framtíðina? (b) Af hverju geta menn ekki skapað betri framtíð?
13 Vottar Jehóva trúa hins vegar að mannkynið eigi sér bjarta framtíð, þá bestu sem hugsast getur. En þeir vænta ekki betri framtíðar fyrir atbeina manna heldur horfa til skaparans, Jehóva Guðs. Hann veit hvernig framtíðin verður og hún verður stórkostleg. Hann veit líka að menn geta ekki skapað slíka framtíð. Þar eð Guð skapaði manninn þekkir hann takmörk hans miklu betur en nokkur annar. Hann segir okkur greinilega í orði sínu að hann hafi ekki skapað manninn þannig að hann væri fær um að stjórna farsællega án handleiðslu sinnar. Guð hefur leyft mönnum að stjórna óháðir sér um langt skeið og það hefur sýnt fram á, svo ekki verður um villst, að þeir eru ófærir um það. Bókarhöfundur einn segir: „Mannshugurinn hefur upphugsað allar mögulegar tegundir stjórnarfars en án árangurs.“
14 Við lesum orð innblásins spámanns í Jeremía 10:23: „Ég veit, [Jehóva], að örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ Og Sálmur 146:3 segir: „Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt.“ Reyndar varar orð Guðs okkur líka við því að treysta sjálfum okkur af því að við erum fædd ófullkomin eins og Rómverjabréfið 5:12 segir. Jeremía 17:9 segir: „Svikult er hjartað fremur öllu öðru.“ Orðskviðirnir 28:26 segja því: „Sá sem treystir eigin hyggjuviti, er heimskingi, en sá sem breytir viturlega, mun undan komast.“
15. Hvar finnum við visku okkur til leiðsagnar?
15 Hvernig getum við breytt viturlega? „Ótti [Jehóva] er upphaf viskunnar og að þekkja Hinn heilaga eru hyggindi.“ (Orðskviðirnir 9:10) Jehóva einn býr yfir þeirri visku sem getur leitt okkur gegnum þessa skelfilegu tíma. Og hann hefur veitt okkur aðgang að visku sinni í Heilagri ritningu sem hann innblés okkur til leiðsagnar. — Orðskviðirnir 2:1-9; 3:1-6; 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.
Framtíð mannastjórnar
16. Hver hefur ákveðið framtíðina?
16 Hvað segir orð Guðs okkur þá um framtíðina? Það segir okkur að framtíðin muni örugglega ekki endurspegla það sem menn gerðu í fortíðinni. Patrick Henry sá því málið frá röngum sjónarhóli. Framtíð jarðarinnar og jarðarbúa er ekki ákveðin af mönnum heldur Jehóva Guði. Það er vilji hans sem verður gerður á jörðinni, ekki vilji manna eða þjóða þessa heims. „Mörg eru áformin í mannshjartanu, en ráðsályktun [Jehóva] stendur.“ — Orðskviðirnir 19:21.
17, 18. Hver er vilji Guðs með okkar tíma?
17 Hver er vilji Guðs með okkar tíma? Hann hefur ákveðið að binda enda á þetta ofbeldisfulla og siðlausa heimskerfi. Aldalöng og ill stjórn manna víkur brátt fyrir stjórn Guðs. Spádómurinn í Daníel 2:44 segir: „Á dögum þessara konunga [sem nú eru] mun Guð himnanna hefja ríki [á himnum], sem aldrei skal á grunn ganga, og það ríki skal engri annarri þjóð í hendur fengið verða. Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki, en sjálft mun það standa að eilífu.“ Ríki Guðs mun einnig leysa heiminn undan illum áhrifum Satans djöfulsins sem menn geta aldrei gert. Stjórn Satans yfir þessum heimi líður endanlega undir lok. — Rómverjabréfið 16:20; 2. Korintubréf 4:4; 1. Jóhannesarbréf 5:19.
18 Tökum eftir að himneska stjórnin útrýmir öllum mannlegum stjórnum, hvernig sem þær eru. Stjórn jarðar verður ekki látin í hendur fólks. Þeir sem fara með stjórn Guðsríkis á himnum stjórna þá öllum málefnum jarðar, öllu mannkyni til góðs. (Opinberunarbókin 5:10, NW; 20:4-6) Trúfastir menn á jörðinni fylgja tilskipunum Guðsríkis. Þetta er stjórnin sem Jesús kenndi okkur að biðja um þegar hann sagði: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ — Matteus 6:10.
19, 20. (a) Hvernig lýsir Biblían guðsríkisfyrirkomulaginu? (b) Hvað gerir stjórn Guðsríkis fyrir mannkynið?
19 Vottar Jehóva leggja traust sitt á Guðsríki. Það er sá ‚nýi himinn‘ sem Pétur postuli skrifaði um: „Eftir fyrirheiti hans væntum vér nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem réttlæti býr.“ (2. Pétursbréf 3:13) ‚Nýja jörðin‘ er hið nýja samfélag manna sem nýi himinninn, Guðsríki, stjórnar. Guð opinberaði Jóhannesi postula þetta fyrirkomulag í sýn og Jóhannes skrifaði: „Ég sá nýjan himin og nýja jörð, því að hinn fyrri himinn og hin fyrri jörð voru horfin . . . Og [Guð] mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ — Opinberunarbókin 21:1, 4.
20 Taktu eftir að nýja jörðin verður réttlát. Guð hefur þá fjarlægt öll ranglætisöfl í Harmagedónstríðinu. (Opinberunarbókin 16:14, 16) Spádómurinn í Orðskviðunum 2:21, 22 lýsir því þannig: „Hinir hreinskilnu munu byggja landið, og hinir grandvöru verða eftir í því. En hinir óguðlegu munu upprættir verða úr landinu, og hinum svikulu verða útrýmt þaðan.“ Og Sálmur 37:9 lofar: „Illvirkjarnir verða afmáðir, en þeir er vona á [Jehóva], fá landið til eignar.“ Langar þig ekki til að búa í slíkum heimi?
Treystu á fyrirheit Jehóva
21. Af hverju getum við treyst á fyrirheit Jehóva?
21 Getum við treyst á fyrirheit Jehóva? Lestu fyrirheit hans fyrir munn spámannsins Jesaja: „Minnist þess hins fyrra frá upphafi, að ég er Guð og enginn annar, hinn sanni Guð og enginn minn líki. Ég kunngjörði endalokin frá öndverðu og sagði fyrir fram það, sem eigi var enn fram komið. Ég segi: Mín ráðsályktun stendur stöðug, og allt, sem mér vel líkar, framkvæmi ég.“ Síðari hluti 11. versins segir: „Það sem ég tala, það læt ég einnig fram koma, það sem ég áset mér, það gjöri ég einnig.“ (Jesaja 46:9-11) Já, við getum treyst jafnörugglega á Jehóva og fyrirheit hans og væru þessi fyrirheit þegar komin fram. Biblían lýsir því þannig: „Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá.“ — Hebreabréfið 11:1.
22. Hvers vegna getum við verið viss um að Jehóva standi við fyrirheit sín?
22 Auðmjúkt fólk sýnir slíka trú vegna þess að það veit að Guð stendur við fyrirheit sín. Til dæmis lesum við í Sálmi 37:29: „Hinir réttlátu fá landið [það er að segja jörðina] til eignar og búa í því um aldur.“ Getum við trúað því? Já, því að Hebreabréfið 6:18 segir um Guð: „Óhugsandi er að hann fari með lygi.“ Á Guð jörðina þannig að hann geti gefið auðmjúkum mönnum hana? Opinberunarbókin 4:11 lýsir yfir: „Þú hefur skapað alla hluti, og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“ Þess vegna segir Sálmur 24:1: „[Jehóva] heyrir jörðin og allt sem á henni er.“ Jehóva skapaði jörðina, á hana og gefur hana þeim sem trúa á hann. Í næstu grein er sýnt fram á hvernig Jehóva hélt fyrirheit sín við fólk sitt til forna jafnt sem nú á dögum, þannig að við getum treyst fullkomlega að hann geri það líka í framtíðinni.
Til upprifjunar
◻ Hvað hefur orðið um vonir manna í aldanna rás?
◻ Af hverju ættum við ekki að vænta betri framtíðar fyrir atbeina manna?
◻ Hver er vilji Guðs með framtíðina?
◻ Af hverju treystum við að Guð uppfylli fyrirheit sín?
[Myndir á blaðsíðu 10]
Biblían segir réttilega að það sé ekki ‚á valdi manna að stýra skrefum sínum.‘ — Jeremía 10:23.
[Rétthafi]
Sprengja: U.S. National Archives; hungruð börn: WHO/OXFAM; flóttamenn: UN PHOTO 186763/J. Isaac; Mussolini og Hitler: U.S. National Archives