Hver mun „frelsast“?
„Hver sá, sem ákallar nafn [Jehóva], mun frelsast.“ — POSTULASAGAN 2:21.
1. Af hverju markaði hvítasunnudagurinn árið 33 tímamót í mannkynssögunni?
HVÍTASUNNUDAGURINN árið 33 markaði tímamót í mannkynssögunni. Af hverju? Af því að á þeim degi varð til ný þjóð. Í fyrstu var hún ekki sérlega fjölmenn — aðeins 120 lærisveinar Jesú sem voru saman komnir í loftstofu í Jerúsalem. Núna eru flestar þjóðir þeirra tíma fallnar í gleymsku en þjóðin, sem til varð í loftstofunni, er enn á meðal okkar. Þessi staðreynd er gríðarlega mikilvæg fyrir okkur öll því að Guð útvaldi þessa þjóð til að vera vottur sinn frammi fyrir mannkyninu.
2. Hvaða undraverðu atburðir voru samfara fæðingu nýju þjóðarinnar?
2 Þegar þessi nýja þjóð varð til gerðust mikilvægir atburðir sem uppfylltu spádómsorð Jóels. Við lesum um þá í Postulasögunni 2:2-4: „Varð þá skyndilega gnýr af himni eins og aðdynjanda sterkviðris og fyllti allt húsið, þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvern og einn þeirra. Þeir fylltust allir heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.“ Þannig urðu þessir 120 trúföstu menn og konur að andlegri þjóð, fyrstir þeirra sem Páll postuli nefndi síðar „Ísrael Guðs.“ — Galatabréfið 6:16.
3. Hvaða spádómur Jóels uppfylltist á hvítasunnunni árið 33?
3 Fjölda fólks dreif að til að grennslast fyrir um þennan „aðdynjanda sterkviðris“ og Pétur postuli útskýrði fyrir því að einn spádóma Jóels væri að rætast. Hvaða spádómur? Lesum orð hans: „Það mun verða á efstu dögum, segir Guð, að ég mun úthella anda mínum yfir alla menn. Synir yðar og dætur munu spá, ungmenni yðar munu sjá sýnir og gamalmenni yðar mun drauma dreyma. Jafnvel yfir þræla mína og ambáttir mínar mun ég á þeim dögum úthella anda mínum, og þau munu spá. Og ég mun láta undur verða á himnum uppi og tákn á jörðu niðri, blóð og eld og reykjarmökk. Sólin mun snúast í myrkur og tunglið í blóð, áður dagur [Jehóva] kemur, hinn mikli og dýrlegi. En hver sá, sem ákallar nafn [Jehóva], mun frelsast.“ (Postulasagan 2:17-21) Orðin, sem Pétur vitnaði í, er að finna í Jóel 3:1-5, og uppfylling þeirra þýddi að tíminn var að renna Gyðingaþjóðinni úr greipum. ‚Hinn mikli og dýrlegi dagur Jehóva,‘ reikningsskiladagur hins ótrúa Ísraels, nálgaðist. En hverjir myndu frelsast eða komast öruggir undan? Og hvað táknaði þetta?
Tvíþætt uppfylling spádómsins
4, 5. Hvað ráðlagði Pétur með hliðsjón af komandi atburðum og af hverju náðu ráðleggingar hans lengra en til samtíðarinnar?
4 Á árunum eftir 33 dafnaði hinn andlegi Ísrael Guðs en Ísrael að holdinu ekki. Árið 66 átti hinn holdlegi Ísrael í stríði við Róm. Árið 70 þurrkaðist Ísrael næstum út og Jerúsalem ásamt musteri sínu var brennd til grunna. Á hvítasunnunni árið 33 gaf Pétur góð ráð í sambandi við harmleikinn sem í vændum var. Hann vitnaði aftur í Jóel og sagði: „Hver sá, sem ákallar nafn [Jehóva], mun frelsast.“ Hver einstakur Gyðingur varð að gera upp við sig hvort hann ætlaði að ákalla nafn Jehóva. Í því fólst að fylgja frekari leiðbeiningum Péturs: „Gjörið iðrun og látið skírast hver og einn í nafni Jesú Krists til fyrirgefningar synda yðar.“ (Postulasagan 2:38) Áheyrendur Péturs urðu að viðurkenna að Jesús væri Messías sem Ísraelsþjóðin hafði hafnað.
5 Þessi spádómsorð Jóels höfðu geysimikil áhrif á auðmjúkt fólk á fyrstu öld. Nú á tímum hafa þau enn meiri áhrif því að eins og atburðir 20. aldarinnar leiða í ljós hefur spádómur Jóels átt sér aðra uppfyllingu. Kynnum okkur hana.
6. Hvernig kom í ljós hver Ísrael Guðs var þegar árið 1914 nálgaðist?
6 Eftir dauða postulanna týndist Ísrael Guðs innan um illgresi falskrar kristni. En á tímum endalokanna, sem hófust árið 1914, kom aftur skýrt í ljós hver þessi andlega þjóð var. Allt var þetta uppfylling dæmisögu Jesú um hveitið og illgresið. (Matteus 13:24-30, 36-43) Þegar árið 1914 nálgaðist tóku smurðir kristnir menn að aðgreina sig frá hinum ótrúa kristna heimi. Þeir höfnuðu hugrakkir falskenningum hans og prédikuðu að „tímar heiðingjanna“ væru að taka enda. (Lúkas 21:24) En fyrri heimsstyrjöldin braust út árið 1914 og í kjölfarið komu upp aðstæður sem þeir voru óviðbúnir. Vegna gríðarlegs þrýstings hægðu margir á ferðinni og sumir gerðu tilslakanir. Árið 1918 hafði prédikunarstarf þeirra næstum stöðvast.
7. (a) Hvaða atburðir áttu sér stað árið 1919, líkt því sem gerðist árið 33? (b) Hvaða áhrif hafði úthelling heilags anda á þjóna Jehóva frá og með 1919?
7 En það stóð ekki lengi. Árið 1919 tók Jehóva að úthella anda sínum yfir fólk sitt sem minnti á úthellingu andans á hvítasunnunni árið 33. Að sjálfsögðu var ekkert tungutal árið 1919 og enginn gnýr af himni. Af orðum Páls í 1. Korintubréfi 13:8 skiljum við að tími kraftaverkanna var löngu liðinn. Engu að síður kom andi Guðs berlega í ljós árið 1919 á móti í Cedar Point í Ohio í Bandaríkjunum þegar trúfastir kristnir menn endurnýjuðust í anda og tóku aftur að prédika fagnaðarerindið um ríkið. Árið 1922 komu þeir saman á ný í Cedar Point og hvatningin „kunngerið, kunngerið, kunngerið, konunginn og ríki hans“ knúði þá til dáða. Eins og á fyrstu öldinni komst heimurinn ekki hjá því að taka eftir áhrifunum af úthellingu anda Guðs. Hver einasti vígður kristinn maður — karlar og konur, ungir sem aldnir — tók að „spá,“ það er að segja að kunngera „stórmerki Guðs.“ (Postulasagan 2:11) Eins og Pétur hvöttu þeir auðmjúkt fólk: „Látið frelsast frá þessari rangsnúnu kynslóð.“ (Postulasagan 2:40) Hvernig gat áhugasamt fólk gert það? Með því að fara eftir orðum Jóels sem við finnum í Jóel 3:5: „Hver sem ákallar nafn [Jehóva], mun frelsast.“
8. Hvað hefur gerst hjá Ísrael Guðs frá 1919?
8 Frá þeim tíma hefur málefnum Ísraels Guðs fleygt fram. Innsiglun hinna smurðu virðist langt á veg komin og síðan á fjórða áratug aldarinnar hefur mikill múgur auðmjúkra manna með jarðneska von komið fram á sjónarsviðið. (Opinberunarbókin 7:3, 9) Allir finna að mikið liggur á, því að síðari uppfylling Jóels 3:1, 2 sýnir að framundan er enn ógurlegri dagur Jehóva þegar heimskerfi trúarbragða, stjórnmála og viðskipta verður að engu gert. Við höfum fulla ástæðu til að ‚ákalla nafn Jehóva‘ í trausti þess að hann frelsi okkur!
Hvernig áköllum við nafn Jehóva?
9. Nefndu sumt sem fólgið er í því að ákalla nafn Jehóva.
9 Hvað felst í því að ákalla nafn Jehóva? Samhengi Jóels 3:1, 2 hjálpar okkur að svara þeirri spurningu. Til að mynda hlustar Jehóva ekki á alla sem ákalla hann. Fyrir munn annars spámanns, Jesaja, sagði Jehóva við Ísrael: „Er þér fórnið upp höndum, byrgi ég augu mín fyrir yður, og þótt þér biðjið mörgum bænum, þá heyri ég ekki.“ Hvers vegna vildi Jehóva ekki hlusta á þjóð sína? Hann svarar: „Hendur yðar eru alblóðugar.“ (Jesaja 1:15) Jehóva hlustar ekki á neinn sem er blóðsekur eða ástundar synd. Þess vegna sagði Pétur Gyðingunum á hvítasunnunni að iðrast. Samhengi 1. og 2. vers, 3. kafla Jóelsbókar leggur líka áherslu á iðrun. Til dæmis lesum við í Jóel 2:12, 13: „En snúið yður nú til mín — segir [Jehóva] — af öllu hjarta, með föstum, gráti og kveini. Sundurrífið hjörtu yðar en ekki klæði yðar, og hverfið aftur til [Jehóva] Guðs yðar, því að hann er líknsamur og miskunnsamur, þolinmóður og gæskuríkur.“ Árið 1919 fóru smurðir kristnir menn að breyta samkvæmt þessum orðum. Þeir iðruðust mistaka sinna og voru staðráðnir í að láta aldrei aftur undan eða hægja á ferðinni. Þar með var greið leið fyrir Guð til að úthella anda sínum yfir þá. Hver sá sem vill ákalla nafn Jehóva og fá áheyrn verður að fylgja sömu stefnu.
10. (a) Hvað er sönn iðrun? (b) Hvernig bregst Jehóva við sannri iðrun?
10 Mundu að sönn iðrun er meira en aðeins að biðjast afsökunar. Ísraelsmenn voru vanir að rífa klæði sín til að láta í ljós hve sterkar tilfinningar þeirra væru. En Jehóva segir: „Sundurrífið hjörtu yðar en ekki klæði yðar.“ Sönn iðrun kemur frá hjartanu, frá hinum innri manni. Hún felur í sér að snúa baki við rangri breytni eins og við lesum í Jesaja 55:7: „Hinn óguðlegi láti af breytni sinni og illvirkinn af vélráðum sínum og snúi sér til [Jehóva].“ Hún felur í sér að hata synd alveg eins og Jesús gerði. (Hebreabréfið 1:9) Þá treystum við því að Jehóva fyrirgefi okkur á grundvelli lausnarfórnarinnar, af því að hann er „líknsamur og miskunnsamur, þolinmóður og gæskuríkur.“ Hann hefur þá velþóknun á tilbeiðslu okkar, andlegum matfórnum og dreypifórnum. Hann heyrir þegar við áköllum nafn hans. — Jóel 2:14.
11. Hvaða sess ætti sönn tilbeiðsla að skipa í lífi okkar?
11 Jesús gaf okkur annað íhugunarefni í fjallræðunni þegar hann sagði: „Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis.“ (Matteus 6:33) Við ættum aldrei að vera kærulaus gagnvart tilbeiðslu okkar eins og hún væri bara sýndartilbeiðsla til að friða samviskuna. Þjónustan við Guð verðskuldar fyrsta sætið í lífi okkar. Jehóva heldur því áfram fyrir munn Jóels: „Þeytið lúðurinn í Síon . . . Kveðjið saman lýðinn, helgið söfnuðinn, stefnið saman gamalmennum, safnið saman börnum og brjóstmylkingum. Brúðguminn gangi út úr herbergi sínu og brúðurin út úr brúðarsal sínum.“ (Jóel 2:15, 16) Það er eðlilegt að nýgift hjón séu annars hugar og sjái bara hvort annað. En jafnvel þau eiga að láta þjónustuna við Jehóva ganga fyrir. Ekkert er mikilvægara en að safnast saman frammi fyrir Guði og ákalla nafn hans.
12. Hvaða vaxtarmöguleikar eru fyrir hendi miðað við aðsóknina að minningarhátíðinni á síðasta ári?
12 Með það í huga skulum við íhuga upplýsingar sem fram koma í þjónustuskýrslu votta Jehóva um árið 1997. Á síðasta ári voru boðberar Guðsríkis 5.599.931 þegar flest var — svo sannarlega mikill múgur tilbiðjenda! Aðsóknin að minningarhátíðinni var 14.322.226 — um átta og hálfri milljón fleiri en boðberarnir. Þessi tala sýnir að vaxtarmöguleikarnir eru mjög góðir. Margir þessara átta og hálfrar milljónar voru áhugasamt fólk, sem var í biblíunámi hjá vottum Jehóva, eða börn skírðra foreldra. Margir voru að sækja samkomu í fyrsta sinn. Nærvera þeirra gaf vottum Jehóva gott tækifæri til að kynnast þeim og bjóða þeim aðstoð við að taka meiri framförum. Svo er að nefna þá sem sækja minningarhátíðina á hverju ári og kannski fáeinar samkomur að auki en láta þar við sitja. Að sjálfsögðu er þeim velkomið að sækja samkomurnar. En við hvetjum þá til að hugleiða vandlega spádómsorð Jóels og íhuga hvaða ráðstafanir þeir þurfi að gera til að geta verið vissir um að Jehóva heyri þegar þeir ákalla nafn hans.
13. Hver er ábyrgð okkar gagnvart öðrum ef við áköllum nafn Jehóva?
13 Páll postuli lagði áherslu á annað sem tengist því að ákalla nafn Guðs. Í bréfi sínu til Rómverja vitnaði hann í spádómsorð Jóels: „Hver sem ákallar nafn [Jehóva], mun hólpinn verða.“ Síðan rökræðir hann: „En hvernig eiga þeir að ákalla þann, sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann, sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra, án þess að einhver prédiki?“ (Rómverjabréfið 10:13, 14) Já, margir sem hafa ekki kynnst Jehóva til þessa þurfa að ákalla nafn hans. Þeir sem þekkja Jehóva hafa þá ábyrgð bæði að prédika og að ná til þeirra og veita þeim þessa aðstoð.
Andleg paradís
14, 15. Hvaða paradísarblessunar nýtur fólk Jehóva núna af því að það ákallar nafn hans á velþóknanlegan hátt?
14 Bæði hinir smurðu og hinir aðrir sauðir líta þannig á málin og þess vegna blessar Jehóva þá. „Þá varð [Jehóva] fullur umhyggju vegna lands síns, og hann þyrmdi lýð sínum.“ (Jóel 2:18) Árið 1919 sýndi Jehóva fólki sínu umhyggju þegar hann endurreisti það og lét það snúa sér að andlegum verkefnum. Það býr í andlegri paradís sem er vel lýst með orðum Jóels: „Óttast eigi, land! Fagna og gleðst, því að [Jehóva] hefir unnið stórvirki. Óttist eigi, þér dýr merkurinnar, því að grashagar eyðimerkurinnar grænka, því að trén bera ávöxt, fíkjutrén og víntrén gefa sinn gróða. Og þér Síonbúar, fagnið og gleðjist í [Jehóva], Guði yðar, því að hann gefur yður regn í réttum mæli og lætur skúrirnar ofan til yðar koma, haustregn og vorregn, eins og áður. Láfarnir verða fullir af korni, og vínberjalögurinn og olían flóa út af þrónum.“ — Jóel 2:21-24.
15 Þetta er unaðsleg mynd. Nóg yrði af þremur aðalfæðutegundunum í Ísrael — korni, ólífuolíu og víni — ásamt stórum dýrahjörðum. Á okkar dögum eru þessi spádómsorð að rætast á andlegan hátt. Jehóva veitir okkur alla þá andlegu fæðu sem við þörfnumst. Gleðjumst við ekki öll yfir þessum gnóttum sem hann gefur? Eins og Malakí spáði hefur Guð okkar ‚lokið upp flóðgáttum himinsins og úthellt yfir okkur yfirgnæfanlegri blessun.‘ — Malakí 3:10.
Endalok heimskerfisins
16. (a) Hvað táknar úthelling anda Jehóva á okkar tímum? (b) Hvað ber framtíðin í skauti sér?
16 Eftir að hafa spáð paradísarástandi þjóðar Guðs sagði Jóel fyrir að anda Jehóva yrði úthellt. Þegar Pétur vitnaði í þennan spádóm á hvítasunnunni sagði hann að hann myndi rætast „á efstu dögum.“ (Postulasagan 2:17) Þegar heilögum anda Guðs var úthellt á þeim tíma táknaði það að síðustu dagar gyðingakerfisins væru gengnir í garð. Úthelling heilags anda Guðs yfir Ísrael Guðs á 20. öldinni táknar að við lifum á síðustu dögum þessa heimskerfis. Hvað ber framtíðin þá í skauti sér? Spádómur Jóels heldur áfram: „Ég mun láta tákn verða á himni og á jörðu: blóð, eld og reykjarstróka. Sólin mun snúast í myrkur og tunglið í blóð, áður en hinn mikli og ógurlegi dagur [Jehóva] kemur.“ — Jóel 3:3, 4.
17, 18. (a) Hvaða ógurlegur dagur Jehóva kom yfir Jerúsalem? (b) Hvað hvetur vissan um hinn komandi, ógurlega dag Jehóva okkur til að gera?
17 Þessi spádómsorð byrjuðu að rætast í Júdeu árið 66 þegar stefndi hraðbyri að hámarki hins ógurlega dags Jehóva árið 70. Það hlýtur að hafa verið skelfilegt að vera í hópi þeirra sem ákölluðu ekki nafn Jehóva á þeim tíma! Nú á tímum eru jafnskelfilegir atburðir framundan þegar Jehóva tortímir þessu heimskerfi eins og það leggur sig. Þó er undankomuleið. Spádómurinn heldur áfram: „Og hver sem ákallar nafn [Jehóva], mun frelsast. Því að á Síonfjalli og í Jerúsalem mun frelsun verða, eins og [Jehóva] hefir sagt, meðal flóttamannanna, sem [Jehóva] kallar.“ (Jóel 3:5) Vottar Jehóva eru innilega þakklátir fyrir að þekkja nafn Jehóva og treysta því fullkomlega að hann frelsi þá þegar þeir ákalla hann.
18 En hvað gerist þegar hinn mikli og dýrlegi dagur Jehóva rennur upp yfir þennan heim með heiftarreiði sinni? Um það er fjallað í síðustu námsgreininni.
Manstu?
◻ Hvenær úthellti Jehóva anda sínum fyrst yfir fólk sitt?
◻ Nefndu sumt sem fólgið er í því að ákalla nafn Jehóva.
◻ Hvenær kom hinn mikli og dýrlegi dagur Jehóva yfir Ísrael að holdinu?
◻ Hvernig blessar Jehóva þá sem ákalla nafn hans nú á dögum?
[Mynd á blaðsíðu 23]
Ný þjóð varð til á hvítasunnunni árið 33.
[Mynd á blaðsíðu 24, 25]
Fyrr á þessari öld úthellti Jehóva aftur anda sínum yfir fólk sitt til uppfyllingar á Jóel 3:1, 2.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Fólk þarf hjálp til að ákalla nafn Jehóva.