Eina leiðin til eilífs lífs
„Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.“ — JÓHANNES 14:6.
1, 2. Við hvað líkti Jesús veginum til eilífs lífs og hver er kjarni líkingarinnar?
Í HINNI frægu fjallræðu sinni líkti Jesús leiðinni til eilífs lífs við veg sem gengið er inn á um hlið. Taktu eftir hvernig Jesús leggur áherslu á að þessi vegur til lífsins sé ekki auðfarinn. Hann segir: „Gangið inn um þrönga hliðið. Því að vítt er hliðið og vegurinn breiður, sem liggur til glötunar, og margir þeir, sem þar fara inn. Hve þröngt er það hlið og mjór sá vegur, er liggur til [eilífa] lífsins, og fáir þeir, sem finna hann.“ — Matteus 7:13, 14.
2 Skilurðu kjarna þessarar líkingar? Sýnir hún ekki fram á að það sé aðeins ein leið eða einn vegur sem liggur til lífsins, og að við þurfum að gæta þess mjög vel að villast ekki af honum? Hver er þá eina leiðin til eilífs lífs?
Hlutverk Jesú Krists
3, 4. (a) Hvernig bendir Biblían á hið mikilvæga hlutverk Jesú í hjálpræði okkar? (b) Hvenær opinberaði Guð fyrst að mannkynið gæti hlotið eilíft líf?
3 Greinilega fer Jesús með þýðingarmikið hlutverk í tengslum við þennan veg eins og Pétur postuli sagði: „Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum. Og ekkert annað nafn [en nafn Jesú] er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss.“ (Postulasagan 4:12) Páll postuli tók í sama streng: „Náðargjöf Guðs er eilíft líf í Kristi Jesú, Drottni vorum.“ (Rómverjabréfið 6:23) Jesús sagði sjálfur að hann væri eina leiðin til eilífs lífs: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.“ — Jóhannes 14:6.
4 Það skiptir því sköpum fyrir okkur að viðurkenna hlutverk Jesú í að gera eilíft líf mögulegt. Við skulum því kynna okkur hlutverk hans nánar. Veistu hvenær það var eftir synd Adams sem Jehóva Guð gaf til kynna að mannkynið gæti hlotið eilíft líf? Það var strax eftir að Adam syndgaði. Við skulum nú kanna hvenær fyrst var boðað að Jesús Kristur kæmi fram sem frelsari mannkyns.
Fyrirheitna sæðið
5. Hvernig berum við kennsl á höggorminn sem tældi Evu?
5 Jehóva Guð benti á hinn fyrirheitna frelsara með líkingamáli þegar hann felldi dóm yfir ‚höggorminum‘ sem hafði talað við Evu og freistað hennar til að óhlýðnast honum með því að borða forboðna ávöxtinn. (1. Mósebók 3:1-5) Höggormurinn var auðvitað ekki bókstaflegur heldur var hann voldug andavera sem Biblían kallar ‚hinn gamla höggorm sem heitir djöfull og Satan.‘ (Opinberunarbókin 12:9) Satan notaði þetta lítilfjörlega dýr sem málpípu til að tæla Evu. Þess vegna sagði Guð við Satan þegar hann dæmdi hann: „Fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það [sæði konunnar] skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess.“ — 1. Mósebók 3:15.
6, 7. (a) Hver er konan sem elur ‚sæðið‘? (b) Hvert er fyrirheitna sæðið og hverju áorkar það?
6 Hver er þessi „kona“ sem Satan sýnir fjandskap eða hatur? Tólfti kafli Opinberunarbókarinnar bendir á hver ‚höggormurinn‘ sé og hann bendir líka á hver konan sé sem Satan hatar. Í fyrsta versinu er sagt að hún sé „klædd sólinni og tunglið var undir fótum hennar, og á höfði hennar var kóróna af tólf stjörnum.“ Konan táknar himneskt skipulag trúfastra engla Guðs og ‚sveinbarnið,‘ sem hún elur, táknar ríki Guðs með Jesú Krist sem konung. — Opinberunarbókin 12:1-5.
7 Hver er þá ‚sæðið‘ eða afkomandi konunnar sem nefnt er í 1. Mósebók 3:15 og mer „höfuð“ Satans og gerir þar með út af við hann? Það er sá sem Guð sendi frá himnum til að fæðast af mey vegna kraftaverks, já, maðurinn Jesús. (Matteus 1:18-23; Jóhannes 6:38) Tólfti kafli Opinberunarbókarinnar bendir á að hinn upprisni, himneski stjórnandi, sæðið, Jesús Kristur, myndi taka forystuna í að sigra Satan og koma á „ríki Guðs vors, og veldi hans Smurða“ eins og Opinberunarbókin 12:10 segir.
8. (a) Hvaða nýjar ráðstafanir gerði Guð í sambandi við upphaflegan tilgang sinn? (b) Hverjir mynda nýja stjórn Guðs?
8 Ríki Guðs í höndum Jesú Krists er því ný ráðstöfun sem Guð hefur gert í tengslum við þá upphaflegu fyrirætlun sína að mannkynið lifði að eilífu á jörðinni. Strax eftir uppreisn Satans bjó Jehóva svo um hnútana að þessi nýja stjórn myndi afmá slæmar afleiðingar illskunnar. Þegar Jesús var á jörðinni benti hann á að hann myndi ekki fara einn með stjórn þessa ríkis. (Lúkas 22:28-30) Aðrir yrðu valdir úr hópi mannanna til að sameinast honum á himni og stjórna með honum. Þeir yrðu viðbótarsæði konunnar. (Galatabréfið 3:16, 29) Biblían gefur upp tölu þessara meðstjórnenda Jesú — 144.000 sem eru allir teknir úr röðum syndugs mannkyns jarðar. — Opinberunarbókin 14:1-3.
9. (a) Af hverju þurfti Jesús að koma fram á jörð sem maður? (b) Hvernig afmáði Jesús verk djöfulsins?
9 En það var áríðandi að aðalhluti sæðisins, Jesús Kristur, birtist á jörðinni áður en Guðsríki tæki að stjórna. Af hverju? Af því að Jehóva Guð hafði skipað hann til að „brjóta niður [eða afmá] verk djöfulsins.“ (1. Jóhannesarbréf 3:8) Eitt af verkum Satans var að telja Adam á að syndga sem leiddi til þess að allir afkomendur hans voru dæmdir til syndar og dauða. (Rómverjabréfið 5:12) Jesús afmáði verk djöfulsins með því að gefa líf sitt sem lausnargjald. Þannig lagði hann grunninn að lausn mannkynsins undan fordæmingu til syndar og dauða og opnaði leiðina til eilífs lífs. — Matteus 20:28; Rómverjabréfið 3:24; Efesusbréfið 1:7.
Það sem lausnargjaldið áorkar
10. Hvað var líkt með Adam og Jesú?
10 Þar eð líf Jesú var flutt frá himni í móðurlíf konu fæddist hann sem fullkominn maður, óflekkaður af synd Adams. Hann gat lifað eilíflega á jörðinni. Maðurinn Adam hafði líka verið skapaður fullkominn og átti í vændum að lifa eilíflega á jörðinni. Páll postuli hafði þessa samsvörun milli þeirra í huga þegar hann skrifaði: „‚Hinn fyrsti maður, Adam, varð að lifandi sál,‘ hinn síðari Adam [Jesús Kristur] að lífgandi anda. Hinn fyrsti maður er frá jörðu, jarðneskur, hinn annar maður er frá himni.“ — 1. Korintubréf 15:45, 47.
11. (a) Hvaða áhrif höfðu Adam og Jesús á mannkynið? (b) Hvernig ættum við að líta á fórn Jesú?
11 Biblían bendir á hversu líkir þessir tveir menn voru — einu fullkomnu mennirnir sem hafa gengið hér á jörð — þegar hún segir að Jesús hafi gefið sjálfan sig „til [„samsvarandi,“ NW] lausnargjalds fyrir alla.“ (1. Tímóteusarbréf 2:6) Hverjum samsvaraði Jesús? Hann samsvaraði Adam meðan hann var fullkominn. Synd hins fyrri Adams leiddi til þess að allt mannkynið var dæmt til dauða. Fórn hins „síðari Adams“ leggur grunninn að frelsun undan synd og dauða til að við getum lifað að eilífu. Þetta var dýrmæt fórn! Pétur postuli sagði: „Þér voruð eigi leystir með hverfulum hlutum, silfri eða gulli,“ heldur, eins og Pétur segir, „með blóði hins lýtalausa og óflekkaða lambs, með dýrmætu blóði Krists.“ — 1. Pétursbréf 1:18, 19.
12. Hvernig lýsir Biblían því að fordæming dauðans verður að engu gerð?
12 Biblían lýsir með fögrum orðum hvernig dauðadómur mannkynsins verður afmáður. Hún segir: „Eins og af misgjörð eins [Adams] leiddi sakfellingu fyrir alla menn, þannig leiðir og af réttlætisverki eins [ráðvandri lífsbreytni Jesú í heild sem lauk með dauða hans] sýknun og líf fyrir alla menn. Eins og hinir mörgu urðu að syndurum fyrir óhlýðni hins eina manns [Adams], þannig mun hlýðni hins eina [Jesú] réttlæta hina mörgu.“ — Rómverjabréfið 5:18, 19.
Dýrlegar framtíðarhorfur
13. Af hverju hugsa margir um eilíft líf eins og raun ber vitni?
13 Þessi ráðstöfun Guðs ætti svo sannarlega að gleðja okkur! Fagnarðu því ekki að okkur hefur verið séð fyrir frelsara? Bandarískt stórborgarblað gerði einu sinni skoðanakönnun og spurði meðal annars: „Höfðar eilíft líf til þín?“ Þótt ótrúlegt sé svörðu 67,4 af hundraði neitandi. Hvers vegna sögðust þeir ekki vilja lifa að eilífu? Greinilega af því að það eru svo mörg vandamál samfara lífinu á jörðinni núna. Einn sagði: „Mér líst ekkert á að líta út fyrir að vera 200 ára.“
14. Af hverju verður eilíft líf óblandin ánægja?
14 En Biblían er ekki að tala um eilíft líf í heimi þar sem fólk þjáist af völdum sjúkdóma, elli eða annarrar ógæfu. Sem stjórnandi ríkis Guðs mun Jesús afmá öll þau vandamál sem Satan hefur valdið. Að sögn Biblíunnar mun ríki Guðs „knosa og að engu gjöra“ allar þjakandi ríkisstjórnir þessa heims. (Daníel 2:44) Þá verður „vilji“ Guðs ‚gerður á jörðinni eins og á himni,‘ til svars við bæninni sem Jesús kenndi fylgjendum sínum. (Matteus 6:9, 10) Eftir að jörðin hefur verið hreinsuð af allri illsku og nýr heimur Guðs er genginn í garð kemur lausnarfórn Jesú mönnum að fullu gagni. Allir sem uppfylla sett skilyrði fá fullkomna heilsu.
15, 16. Hvaða aðstæður verða í nýjum heimi Guðs?
15 Þessi ritningargrein mun rætast á þeim sem lifa í nýjum heimi Guðs: „Þá svellur hold hans af æskuþrótti, hann snýr aftur til æskudaga sinna.“ (Jobsbók 33:25) Þá rætist líka annað loforð Biblíunnar: „Þá munu augu hinna blindu upp lúkast og opnast eyru hinna daufu. Þá mun hinn halti létta sér sem hjörtur og tunga hins mállausa fagna lofsyngjandi.“ — Jesaja 35:5, 6.
16 Hugsaðu þér! Óháð líkamsaldri okkar — hvort sem við erum áttræð, 800 ára eða jafnvel enn eldri — geisla líkamir okkar af hreysti. Þá rætist loforð Biblíunnar: „Enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er sjúkur.‘“ Þá uppfyllist einnig loforðið: „[Guð] mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ — Jesaja 33:24; Opinberunarbókin 21:3, 4.
17. Hvaða afreka má vænta í nýjum heimi Guðs?
17 Í nýja heiminum getum við notað undursamlegan heila okkar á þann hátt sem skapari okkar áformaði þegar hann hannaði heilann með ótakmarkaða getu til að læra. Hugsaðu þér bara allt það dásamlega sem við getum afrekað. Ófullkomnir menn hafa jafnvel ausið af nægtabrunni jarðar og framleitt úr frumefnum hennar allt sem við sjáum í kringum okkur — farsíma, hljóðnema, úr, boðtæki, tölvur og flugvélar, já, allt sem nöfnum tjáir að nefna. Ekkert af þessu er búið til úr efnum annars staðar að úr alheiminum. Með eilíft líf framundan í komandi paradís á jörð verða möguleikar sköpunargleðinnar ótakmarkaðir! — Jesaja 65:21-25.
18. Af hverju verður lífið í nýjum heimi Guðs aldrei leiðigjarnt?
18 Og lífið verður ekki leiðigjarnt. Við hlökkum til næstu máltíðar jafnvel þótt við höfum borðað tugþúsundir máltíða. Þegar við verðum fullkomin munum við njóta í enn ríkari mæli gómsætra afurða paradísar á jörð. (Jesaja 25:6) Og við munum eilíflega hafa ánægju af að gæta hins fjölbreytta dýralífs jarðar og horfa á tilkomumikil sólsetur, fjöll, ár og dali. Lífið verður aldrei tilbreytingarlaust í nýjum heimi Guðs. — Sálmur 145:16.
Að uppfylla kröfur Guðs
19. Hvers vegna er sanngjarnt að búast við að það þurfi að uppfylla einhverjar kröfur til að hljóta eilíft líf að gjöf frá Guði?
19 Heldurðu að þú fáir eilíft líf í paradís að gjöf frá Guði án fyrirhafnar? Er ekki sanngjarnt að Guð krefjist einhvers af okkur? Auðvitað, Guð hendir ekki gjöfinni til okkar eins og ekkert sé sjálfsagðara. Hann réttir okkur hana en við verðum að teygja okkur til að taka við henni. Við þurfum að leggja eitthvað á okkur. Þú spyrð kannski nákvæmlega sömu spurningar og ungi, ríki höfðinginn sem spurði Jesú: „Hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?“ Kannski orðar þú spurninguna eins og fangavörðurinn í Filippí sem spurði Pál postula: „Hvað á ég að gjöra til að verða hólpinn?“ — Matteus 19:16; Postulasagan 16:30.
20. Nefndu nauðsynlegt skilyrði fyrir eilífu lífi.
20 Nóttina áður en Jesús dó nefndi hann í bæn til föður síns eitt grundvallarskilyrði: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Er það ekki sanngjarnt skilyrði að afla sér þekkingar á Jehóva sem gerði eilíft líf mögulegt og á Jesú Kristi sem dó fyrir okkur? En það þarf fleira til en aðeins að afla sér þessarar þekkingar.
21. Hvernig sýnum við að við uppfyllum þá kröfu að iðka trú?
21 Biblían segir einnig: „Sá sem trúir á soninn, hefur eilíft líf,“ en bætir svo við: „Sá sem óhlýðnast syninum, mun ekki sjá líf, heldur varir reiði Guðs yfir honum.“ (Jóhannes 3:36) Þú getur sýnt að þú iðkir trú á soninn með því að gera breytingar á lífi þínu og samlaga það vilja Guðs. Þú þarft að hafna rangri stefnu sem þú kannt að hafa fylgt og gera það sem Guð hefur velþóknun á. Þú þarft að gera það sem Pétur postuli sagði: „Gjörið því iðrun og snúið yður, að syndir yðar verði afmáðar. Þá munu koma endurlífgunartímar frá augliti [Jehóva].“ — Postulasagan 3:19, 20.
22. Hvað er fólgið í því að feta í fótspor Jesú?
22 Gleymum aldrei að það er aðeins með því að iðka trú á Jesú sem við getum hlotið eilíft líf. (Jóhannes 6:40; 14:6) Við sýnum að við iðkum trú á hann með því að „feta í hans fótspor.“ (1. Pétursbréf 2:21) Hvað felur það í sér? Jesús sagði í bæn til Guðs: „Sjá, ég er kominn . . . til að gjöra þinn vilja, Guð minn!“ (Hebreabréfið 10:7) Það er nauðsynlegt að líkja eftir Jesú með því að samþykkja að gera vilja Guðs og vígja honum líf okkar. Síðan þarftu að gefa tákn um vígslu þína með niðurdýfingarskírn, líkt og Jesús bauð sig fram til skírnar. (Lúkas 3:21, 22) Það er fullkomlega eðlilegt að gera slíkt. Páll postuli benti á að ‚kærleiki Krists knýi okkur.‘ (2. Korintubréf 5:14, 15) Hvernig þá? Það var kærleikur sem kom Jesú til að gefa líf sitt fyrir okkur. Ætti það ekki að knýja okkur til að iðka trú á hann? Jú, það ætti að knýja okkur til að fylgja kærleiksfordæmi hans sem gaf af sjálfum sér til að hjálpa öðrum. Kristur lifði fyrir það að gera vilja Guðs. Við verðum að gera það líka og lifa ekki framar fyrir sjálf okkur.
23. (a) Við hvað þurfa þeir að bætast sem öðlast líf? (b) Hvers er krafist af safnaðarmönnum?
23 En fleira þarf til. Biblían segir að þegar 3000 manns létu skírast á hvítasunnunni árið 33 hafi þeir ‚bæst við.‘ Við hvað bættust þeir? „Þeir ræktu trúlega uppfræðslu postulanna og samfélagið,“ útskýrir Lúkas. (Postulasagan 2:41, 42) Já, þeir komu saman til biblíunáms og félagsskapar og bættust þar með við kristna söfnuðinn. Frumkristnir menn sóttu að staðaldri samkomur þar sem þeir hlutu andlega fræðslu. (Hebreabréfið 10:25) Vottar Jehóva gera það líka nú á tímum og við hvetjum þig til að sækja samkomur með þeim.
24. Hvað er „hið sanna líf“ og hvenær og hvernig verður það að veruleika?
24 Milljónir manna fara nú mjóa veginn sem liggur til lífsins. Það er ekki áreynslulaust að halda sig á honum. (Matteus 7:13, 14) Páll postuli gaf það til kynna í hlýlegri hvatningu sinni: „Berstu trúarinnar góðu baráttu, höndla þú eilífa lífið, sem þú varst kallaður til.“ Þessi barátta er nauðsynleg til að „höndla hið sanna líf.“ (1. Tímóteusarbréf 6:12, 19) Hið sanna líf er ekki núverandi líf með þeim verkjum, kvölum og þjáningum sem synd Adams kallaði yfir okkur, heldur líf í nýjum heimi Guðs sem verður von bráðar að veruleika þegar lausnarfórn Krists nær til allra sem elska Jehóva Guð og son hans, eftir að þetta heimskerfi hefur verið afmáð. Megum við öll velja lífið — „hið sanna líf“ — eilíft líf í dýrlegum, nýjum heimi Guðs.
Hvert er svar þitt?
◻ Hver er höggormurinn, konan og sæðið í 1. Mósebók 3:15?
◻ Hvernig samsvaraði Jesús Adam og hvað gerði lausnargjaldið mögulegt?
◻ Hvers geturðu hlakkað til sem gera mun lífið í nýjum heimi Guðs mjög ánægjulegt fyrir þig?
◻ Hvaða kröfur þurfum við að uppfylla til að fá að lifa í nýjum heimi Guðs?
[Mynd á blaðsíðu 10]
Jesús er eina leiðin til eilífs lífs fyrir unga sem aldna.
[Mynd á blaðsíðu 11]
Á tilsettum tíma Guðs munu hinir öldnu endurheimta æskuþrótt sinn.