Hve langt nær kærleikur þinn?
„Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ — MATTEUS 22:39.
1. Af hverju hljótum við að elska náungann ef við elskum Jehóva?
AÐSPURÐUR hvert væri mesta boðorð lögmálsins svaraði Jesús: „Elska skalt þú [Jehóva], Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.“ Síðan vitnaði hann í annað boðorð líkt hinu fyrra: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ (Matteus 22:37, 39) Já, náungakærleikur er aðalsmerki kristins manns. Ef við elskum Jehóva hljótum við að elska náungann. Af hverju? Af því að við sýnum Guði kærleika okkar með því að hlýða orði hans og orð hans fyrirskipar okkur að elska náungann. Við getum ekki borið ósvikinn kærleika til Guðs ef við elskum ekki trúsystkini okkar. — Rómverjabréfið 13:8; 1. Jóhannesarbréf 2:5; 4:20, 21.
2. Hvers konar kærleika eigum við að bera til náungans?
2 Jesús var að tala um meira en vináttu þegar hann sagði að við ættum að elska náungann. Og kærleikurinn, sem hann nefndi, er ólíkur eðlilegri hlýju innan fjölskyldu og ástinni milli karls og konu. Hann var að tala um kærleika Jehóva til þjóna sinna og kærleika þeirra til hans. (Jóhannes 17:26; 1. Jóhannesarbréf 4:11, 19) Fræðimaður nokkur af hópi Gyðinga samsinnti því að fólk ætti að elska Guð „af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti“ og Jesús sá að hann svaraði viturlega. (Markús 12:28-34) Hann hafði rétt fyrir sér. Kærleikur kristins manns til Guðs og náungans er bæði tilfinninga- og vitsmunatengdur. Hjartað finnur fyrir honum og hugurinn stjórnar honum.
3. (a) Hvernig kenndi Jesús ‚lögvitringi‘ nokkrum að náungakærleikurinn ætti að ná langt? (b) Hvernig fara kristnir menn eftir dæmisögu Jesú?
3 Lúkas segir frá því að þegar Jesús talaði um að elska náungann hafi „lögvitringur nokkur“ spurt Jesú: „Hver er þá náungi minn?“ Jesús svaraði honum með dæmisögu. Ræningjar réðust á mann, rændu hann og skildu eftir dauðvona við vegarbrúnina. Prestur átti leið hjá og síðan levíti en hvorugur sinnti honum. Að síðustu átti Samverji leið hjá, sá særða manninn og sýndi honum mikla góðvild. Hver mannanna þriggja var náungi hins særða? Svarið var augljóst. (Lúkas 10:25-37) Lögvitringurinn hneykslaðist kannski á því að Jesús skyldi segja að Samverji sýndi meiri náungakærleika en prestur og levíti. Jesús var greinilega að kenna manninum að náungakærleikurinn ætti að ná langt. Kristnir menn elska líka þannig. Skoðum nánar hve kærleikur þeirra nær til margra.
Kærleikur í fjölskyldunni
4. Á hvaða vettvangi sýnir kristinn maður kærleika sinn fyrst af öllu?
4 Kristnir menn elska sína nánustu — hjón elska hvort annað og foreldrar börn sín. (Prédikarinn 9:9; Efesusbréfið 5:33; Títusarbréfið 2:4) Flestar fjölskyldur tengjast auðvitað náttúrlegum kærleiksböndum. En fréttir af hjónaskilnuðum, heimilisofbeldi og vanræktum börnum sýna að fjölskyldan á mjög erfitt uppdráttar og að hin náttúrlegu bönd duga ef til vill ekki til að halda henni saman. (2. Tímóteusarbréf 3:1-3) Til að tryggja farsæld fjölskyldunnar þurfa kristnir menn að iðka sams konar kærleika og Jehóva og Jesús. — Efesusbréfið 5:21-27.
5. Hvaðan vænta foreldrar hjálpar við uppeldi barnanna og hvaða árangur hafa margir séð?
5 Kristnir foreldrar líta á börnin sín sem verðmæti er Jehóva hefur falið þeim til varðveislu og reiða sig á hjálp hans við að ala þau upp. (Sálmur 127:3-5; Orðskviðirnir 22:6) Þannig tileinka þeir sér kærleika og hann hjálpar þeim að vernda börnin gegn spillandi áhrifum sem að þeim steðja. Margir kristnir foreldrar hafa uppskorið sömu gleðina og hollenska móðirin sem skrifaði þetta eftir að sonur hennar lét skírast á síðasta ári: „Nú hefur fjárfesting síðastliðinna 20 ára skilað sér. Allur tíminn og fyrirhöfnin er að baki — sársaukinn, erfiðið og sorgin.“ Hún er mjög ánægð með það að sonur hennar skuli hafa ákveðið að þjóna Jehóva. Alls skírðust 575 í Hollandi á síðasta ári og boðberahámarkið var 31.089. Þar á meðal voru margir sem lærðu af foreldrum sínum að elska Jehóva.
6. Hvernig getur kristinn kærleikur styrkt hjónabandið?
6 Páll kallaði kærleikann „band algjörleikans“ sem getur haldið hjónum saman í ólgusjó lífsins. (Kólossubréfið 3:14, 18, 19; 1. Pétursbréf 3:1-7) Rurutu er smáeyja um 700 kílómetra suðsuðvestur af Tahítí. Maður nokkur þar á eynni fór að kynna sér Biblíuna með hjálp votta Jehóva en konan hans snerist öndverð gegn því. Að lokum fór hún að heiman og flutti með börnin til Tahítí. En hann sýndi henni ást sína með því að senda henni peninga reglulega og hringdi oft til að kanna hvort hana eða börnin vanhagaði um eitthvað. Hann gerði sitt besta til að rækja skyldur sínar sem kristinn maður. (1. Tímóteusarbréf 5:8) Hann bað þess sífellt í bænum sínum að fjölskyldan mætti sameinast á ný, og að síðustu kom eiginkonan heim aftur. Hann sýndi „kærleika, stöðuglyndi og hógværð“ í samskiptum við hana. (1. Tímóteusarbréf 6:11) Árið 1998 lét hann skírast og síðar þáði konan hans biblíunámskeið. Þetta var eitt biblíunámskeið af 1351 sem haldið var á umsjónarsvæði útibúsins á Tahítí á síðasta ári.
7. Hvað styrkti hjónaband þýskra hjóna?
7 Þýskur maður var lítt hrifinn af biblíuáhuga eiginkonu sinnar og var sannfærður um að vottar Jehóva ætluðu sér að blekkja hana. En síðar skrifaði hann vottinum sem fyrstur hafði samband við eiginkonuna: „Þakka þér fyrir að setja konuna mína í samband við votta Jehóva. Í byrjun hafði ég nokkrar áhyggjur af því vegna þess að ég var búinn að heyra svo margt misjafnt um þá. En núna hef ég sótt samkomur með eiginkonu minni og mér er ljóst að ég hafði kolrangt fyrir mér. Ég veit að það er sannleikurinn sem ég heyri og hann hefur styrkt hjónabandið til muna.“ Vottar Jehóva eru 162.932 talsins í Þýskalandi og meðal þeirra eru ótal fjölskyldur sem eru sameinaðar vegna kærleikans á Guði. Hið sama er að segja um vottana 1773 á eyjunum sem eru undir umsjón útibúsins á Tahítí.
Elskum trúbræður okkar
8, 9. (a) Hver kennir okkur að elska bræðurna og hverju kemur kærleikurinn til leiðar? (b) Nefndu dæmi um það hvernig bræður geta stutt hver annan.
8 Páll sagði kristnum mönnum í Þessaloníku: „Guð hefur sjálfur kennt yður að elska hver annan.“ (1. Þessaloníkubréf 4:9) Já, „lærisveinar“ Jehóva elska hver annan. (Jesaja 54:13) Og kærleikur þeirra birtist í verki eins og Páll benti á er hann sagði: „Þjónið hver öðrum í kærleika.“ (Galatabréfið 5:13; 1. Jóhannesarbréf 3:18) Kærleikurinn birtist meðal annars þegar þeir heimsækja sjúka bræður og systur, uppörva niðurdregna og styðja óstyrka. (1. Þessaloníkubréf 5:14) Ósvikinn kristinn kærleikur stuðlar að vexti og viðgangi hinnar andlegu paradísar.
9 Í Ekvador eru 544 söfnuðir. Einn þeirra er í bænum Ancón þar sem bræðurnir sýndu kærleika sinn í reynd þegar margir misstu atvinnu og tekjur vegna efnahagskreppu. Boðberarnir ákváðu að afla fjár með því að selja fiskimönnum mat er þeir kæmu heim að loknum veiðum næturinnar. Allir lögðust á eitt, þeirra á meðal börnin. Þeir þurftu að hefjast handa um eittleytið að nóttu til að hafa matinn tilbúinn um fjögurleytið þegar fiskimennirnir komu að landi. Þeir skiptu síðan afrakstrinum á milli sín eftir þörfum hvers og eins. Þeir sýndu hver öðrum kærleika sinn með því að hjálpast að.
10, 11. Hvernig getum við sýnt bræðrum kærleika þó að við þekkjum þá ekki persónulega?
10 En kærleikur okkar takmarkast ekki við bræður sem við þekkjum persónulega. Pétur postuli sagði: „Virðið alla menn, elskið bræðrafélagið.“ (1. Pétursbréf 2:17) Við elskum bræður okkar og systur alls staðar af því að þau tilbiðja öll Jehóva Guð. Á hörmunga- og þrengingatímum er oft tækifæri til að sýna þennan kærleika. Svo dæmi séu tekin urðu mikil flóð í Mósambík á þjónustuárinu 2000 og langvinnt borgarastríð í Angóla gekk nærri mörgum. Það eru 31.725 bræður í Mósambík og 41.222 í Angóla, og margir þeirra hafa orðið illa úti sökum þessa. Vottar Jehóva í Suður-Afríku hafa sent mikið af hjálpargögnum til bræðra sinna í þessum löndum. Fúsleiki þeirra til að miðla þurfandi bræðrum af „gnægð“ sinni vitnar um kærleika þeirra. — 2. Korintubréf 8:8, 13-15, 24.
11 Kærleikurinn sýnir sig einnig þegar bræður víða að úr heiminum taka þátt í að reisa ríkissali og mótshallir í löndum þar sem efnahagur er með lakara móti. Salómonseyjar eru dæmi um það. Þrátt fyrir töluverða ólgu fjölgaði boðberum þar um 6 prósent á síðasta ári og hámarkstalan var 1697. Þeir ætluðu sér að byggja mótshöll. Sjálfboðaliðar frá Ástralíu komu til að aðstoða við bygginguna þrátt fyrir það að margir íbúanna hefðu yfirgefið eyjarnar vegna ólgunnar. Þegar sjálfboðaliðarnir urðu að fara voru þeir búnir að þjálfa bræðurna á eyjunum svo að þeir gátu lokið við grunninn, og stálgrindurnar í húsið voru síðan sendar frá Ástralíu. Þetta tilbeiðsluhús verður góður vitnisburður um nafn Jehóva og kærleika bræðranna þegar byggingu þess lýkur, en á sama tíma er fjöldi húsa á eyjunum hálfkláraður og yfirgefinn.
Við elskum heiminn eins og Guð
12. Hvernig líkjum við eftir afstöðu Jehóva til þeirra sem eru annarrar trúar en við?
12 Er kærleikur okkar einskorðaður við fjölskylduna og bræðrafélagið? Nei, ekki ef við erum „eftirbreytendur Guðs.“ Jesús sagði: „Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ (Efesusbréfið 5:1; Jóhannes 3:16) Við erum kærleiksríkir við alla, líkt og Jehóva Guð, einnig við fólk sem er annarrar trúar en við. (Lúkas 6:35, 36; Galatabréfið 6:10) Það er sérstaklega þess vegna sem við boðum fagnaðarerindið um ríkið og segjum öðrum frá hinu mikla kærleiksverki Guðs í þeirra þágu. Og það getur orðið hverjum sem hlustar til hjálpræðis. — Markús 13:10; 1. Tímóteusarbréf 4:16.
13, 14. Nefndu dæmi um boðbera sem lögðu mikið á sig til að sýna öðrum kærleika sinn.
13 Tökum fjóra sérbrautryðjendur í Nepal sem dæmi. Þeim var úthlutað starfssvæði í borg í suðvestanverðu landinu. Síðastliðin fimm ár hafa þeir sýnt kærleika sinn í verki með því að vitna þolinmóðir í borginni og þorpunum í kring. Oft fara þeir hjólandi margra klukkustunda leið í meira en 40 stiga hita til að komast yfir svæðið. Kærleikur þeirra og ‚staðfesta í góðu verki‘ bar þann árangur að bóknámshópur var myndaður í einu af þorpunum. (Rómverjabréfið 2:7) Í mars á síðasta ári voru 32 viðstaddir opinberan fyrirlestur farandhirðis. Boðberahámarkið var 430 í Nepal á síðasta ári sem var 9 prósenta fjölgun frá fyrra ári. Ljóst er að Jehóva blessar kærleika og kostgæfni bræðranna þar í landi.
14 Sérbrautryðjendur í Kólombíu lærðu nýtt tungumál til að geta prédikað meðal gvæjú-indíána. En þeir fengu umbun erfiðis síns þegar 27 sóttu opinberan fyrirlestur þrátt fyrir úrhellisringingu. Kærleikur og kostgæfni skilaði þeim árangri að boðberahámarkið í Kólombíu var 107.613 á síðasta ári sem svaraði til 5 prósenta aukningar. Fötluð, roskin systir í Danmörku vildi segja öðrum frá fagnaðarerindinu. Hún lét fötlunina ekki aftra sér heldur hafði samband við fólk bréfleiðis. Sem stendur skrifast hún á við 42 og stjórnar 11 biblíunámskeiðum. Hún er ein af 14.885 boðberum sem störfuðu í Danmörku á síðasta ári.
Elskaðu óvini þína
15, 16. (a) Hve langt ætti kærleikurinn að ná, að sögn Jesú? (b) Hvernig komu bræður fram við ritstjóra sem bar votta Jehóva röngum sökum?
15 Jesús sagði löglærðum manni að líta á Samverja sem náunga sinn. Hann gekk skrefi lengra í fjallræðunni er hann sagði: „Þér hafið heyrt, að sagt var: ‚Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn.‘ En ég segi yður: Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður, svo að þér reynist börn föður yðar á himnum.“ (Matteus 5:43-45) Við reynum að ‚sigra illt með góðu‘ jafnvel ef einhver snýst gegn okkur. (Rómverjabréfið 12:19-21) Ef hægt er segjum við honum frá því dýrmætasta sem við eigum, sannleikanum.
16 Úkraínskt dagblað kallaði votta Jehóva hættulega sértrúarreglu. Þetta var litið alvarlegum augum því að í Evrópu vilja sumir setja þennan stimpil á votta Jehóva í þeim tilgangi að fá starfsemi þeirra takmarkaða eða bannaða. Bræður óskuðu því eftir fundi með ritstjóranum og fóru fram á að blaðið birti fréttatilkynningu þar sem missögnin var leiðrétt. Hann féllst á það en fréttatilkynningunni fylgdi yfirlýsing þar sem fullyrt var að blaðið hefði farið með rétt mál í hinni upphaflegu grein. Bræðurnir funduðu þá aftur með honum og létu honum í té ítarlegri upplýsingar. Ritstjórinn skildi að lokum að blaðið hefði farið með staðlausa stafi í upphafi og dró rangfærslurnar til baka. Bræðurnir voru kærleiksríkir, hreinskilnir og vingjarnlegir við hann og það skilaði góðum árangri.
Hvernig getum við þroskað með okkur kærleika?
17. Hvað bendir til þess að það sé ekki alltaf auðvelt að vera kærleiksríkur í garð annarra?
17 Foreldrar fá sjálfkrafa ást á nýfæddu barni. En börnum er ekki alltaf eðlislægt að vera kærleiksríkir í framkomu við fullorðna. Það er sennilega þess vegna sem Biblían hvetur okkur margsinnis til að elska hver annan — við þurfum að leggja eitthvað á okkur til þess. (1. Pétursbréf 1:22; 4:8; 1. Jóhannesarbréf 3:11) Jesús vissi að það myndi reyna á kærleikann og sagði að við ættum að fyrirgefa bróður okkar „sjötíu og sjö sinnum.“ (Matteus 18:21, 22, neðanmáls) Páll hvatti okkur líka til þess að ‚umbera hver annan.‘ (Kólossubréfið 3:12, 13) Það er engin furða að okkur skuli vera sagt að ‚keppa eftir kærleikanum.‘ (1. Korintubréf 14:1) Hvernig getum við gert það?
18. Hvað hjálpar okkur að rækta með okkur kærleika til annarra?
18 Í fyrsta lagi getum við alltaf haft hugfast að við elskum Jehóva Guð, og sá kærleikur er sterk hvatning til að elska náungann. Af hverju? Af því að þá erum við himneskum föður okkar til sóma og við heiðrum hann og lofum. (Jóhannes 15:8-10; Filippíbréfið 1:9-11) Í öðru lagi getum við reynt að sjá hlutina sömu augum og Jehóva. Í hvert sinn sem við syndgum erum við að syndga gegn Jehóva en hann fyrirgefur okkur æ ofan í æ og elskar okkur áfram. (Sálmur 86:5; 103:2, 3; 1. Jóhannesarbréf 1:9; 4:18) Ef við tileinkum okkur sjónarmið hans höfum við tilhneigingu til að elska aðra og fyrirgefa þeim það sem þeir gera á hlut okkar. (Matteus 6:12) Í þriðja lagi komum við fram við aðra eins og við viljum að þeir komi fram við okkur. (Matteus 7:12) Við erum ófullkomin og þurfum oft á fyrirgefningu að halda. Þegar við særum aðra með orðum okkar vonum við að þeir muni að allir syndga með tungunni af og til. (Jakobsbréfið 3:2) Ef við viljum að aðrir sýni okkur kærleika ættum við að sýna þeim kærleika.
19. Hvernig getum við leitað hjálpar heilags anda til að þroska með okkur kærleika?
19 Í fjórða lagi getum við leitað hjálpar heilags anda af því að kærleikurinn er einn af ávöxtum hans. (Galatabréfið 5:22, 23) Vinátta, fjölskylduþel og ást milli kynjanna er oft ósjálfráð. En við þurfum stuðning anda Jehóva til að þroska með okkur sams konar kærleika og Jehóva, kærleikann sem er band algjörleikans. Við getum leitað hjálpar heilags anda með því að lesa Biblíuna sem er innblásin af andanum. Ef við kynnum okkur til dæmis ævi Jesú sjáum við hvernig hann kom fram við aðra, og við getum lært að líkja eftir honum. (Jóhannes 13:34, 35; 15:12) Og við getum beðið um heilagan anda Jehóva, einkum við þær aðstæður þar sem okkur finnst erfitt að vera kærleiksrík í framkomu. (Lúkas 11:13) Að síðustu getum við keppt eftir kærleika með því að halda nánum tengslum við kristna söfnuðinn. Félagsskapur við ástríka bræður og systur er hjálp til að þroska með sér kærleika. — Orðskviðirnir 13:20.
20, 21. Hvernig sýndu vottar Jehóva kærleika sinn á þjónustuárinu 2000?
20 Boðberar fagnaðarerindisins voru 6.035.564 um heim allan á síðasta ári þegar flestir voru. Vottar Jehóva vörðu alls 1.171.270.425 klukkustundum í að ganga til fólks og segja því frá fagnaðarerindinu. Kærleikurinn kom þeim til að vinna starf sitt í hita, regni og kulda. Það var kærleikur sem kom þeim til að tala við skólafélaga, vinnufélaga og bláókunnugt fólk á götum úti og annars staðar. Margir, sem vottarnir heimsóttu, voru áhugalausir og einstaka maður fjandsamlegur. En sumir sýndu áhuga þannig að farið var í 433.454.049 endurheimsóknir og 4.766.631 biblíunámskeið var haldið.a
21 Þetta er skýr sönnun fyrir kærleika votta Jehóva til Guðs og náungans. Og þessi kærleikur mun aldrei kólna. Við treystum að vitnað verði enn meira fyrir mannkyni á þjónustuárinu 2001. Megi Jehóva halda áfram að blessa dygga og kostgæfa dýrkendur sína sem ‚gera allt í kærleika.‘ — 1. Korintubréf 16:14.
[Neðanmáls]
a Skýrsla þjónustuársins 2000 er birt í heild sinni á bls. 18-21.
Geturðu svarað?
• Hverjum líkjum við eftir með því að elska náungann?
• Hversu langt ætti kærleikur okkar að ná?
• Nefndu dæmi um kristinn kærleika í verki.
• Hvernig getum við þroskað með okkur kristinn kærleika?
[Tafla á blaðsíðu 18-21]
SKÝRSLA UM STARF VOTTA JEHÓVA ÞJÓNUSTUÁRIÐ 2000
(Sjá blað)
[Myndir á blaðsíðu 15]
Kristinn kærleikur eykur samheldni fjölskyldunnar.
[Myndir á blaðsíðu 17]
Kærleikurinn knýr okkur til að segja öðrum frá voninni.