Að sigrast á mannlegum veikleikum
„Hyggja holdsins er dauði.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 8:6.
1. Hvernig líta sumir á mannslíkamann og hvaða spurning er umhugsunarverð?
„ÉG LOFA þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður.“ (Sálmur 139:14) Þannig söng sálmaritarinn Davíð um mannslíkamann sem er eitt af sköpunarverkum Jehóva. En það eru ekki allir kennimenn á því að lofa Guð fyrir sköpunarverk hans heldur líta margir þeirra á líkamann sem bústað og verkfæri syndarinnar. Þeir hafa kallað hann ‚flík fáfræðinnar, undirstöðu ódyggðanna, fjötur spillingarinnar, byrgi illskunnar, lifandi lík og gangandi gröf.‘ Páll postuli hafði vissulega á orði að það ‚byggi ekki neitt gott í sér,‘ en ber að skilja það svo að við séum ósjálfbjarga fangar syndum hlaðins líkama? — Rómverjabréfið 7:18.
2. (a) Hvað er „hyggja holdsins“? (b) Hvaða átök eiga sér stað milli „holdsins“ og „andans“ hjá þeim manni sem vill þóknast Guði?
2 Biblían talar stundum um mannslíkamann sem „hold.“ (1. Konungabók 21:27) Orðið er líka notað um manninn sem syndugan og ófullkominn afkomanda uppreisnarmannsins Adams. (Efesusbréfið 2:3; Sálmur 51:7; Rómverjabréfið 5:12) Við höfum tekið „veikleika“ í arf frá honum. (Rómverjabréfið 6:19) Og „hyggja holdsins er dauði“ eins og Páll varaði við. (Rómverjabréfið 8:6) Þessi „hyggja holdsins“ er það að láta langanir hins fallna holds stjórna hvötum sínum og gerðum. (1. Jóhannesarbréf 2:16) Ef við reynum að þóknast Guði verða stöðug átök milli andlega hugarfarsins og hins synduga eðlis sem reynir miskunnarlaust að fá okkur til að vinna „holdsins verk.“ (Galatabréfið 5:17-23; 1. Pétursbréf 2:11) „Ég aumur maður!“ stundi Páll eftir að hafa lýst þessum átökum innra með sér. „Hver mun frelsa mig frá þessum dauðans líkama?“ (Rómverjabréfið 7:24) Var Páll hjálparvana fórnarlamb freistingarinnar? Biblían svarar því afdráttarlaust neitandi.
Freisting og synd er veruleiki
3. Hvernig líta menn gjarnan á synd og freistingar en hvernig varar Biblían við þess konar afstöðu?
3 Mörgum nútímamönnum þykir hugtakið synd ótækt. Sumir tala um „synd“ í gamansömum tón og láta sem það sé gamaldags heiti yfir mannlega bresti. Þeir átta sig ekki á því að „öllum oss ber að birtast fyrir dómstóli Krists, til þess að sérhver fái það endurgoldið, sem hann hefur aðhafst í líkamanum, hvort sem það er gott eða illt.“ (2. Korintubréf 5:10) Sumir segja í hálfkæringi að ‚til þess séu freistingar að falla fyrir þeim.‘ Í sumum menningarsamfélögum gengur allt út á það að fullnægja löngunum sínum, hvort sem það er á sviði matar, kynlífs, skemmtanalífs eða frama. Ekki einasta vilja menn fá alla hluti — þeir vilja fá þá strax! (Lúkas 15:12) Þeir horfa ekki fram yfir nautnir augnabliksins til gleðinnar sem „hið sanna líf“ framtíðarinnar býður upp á. (1. Tímóteusarbréf 6:19) En Biblían kennir okkur að hugsa skýrt, vera framsýn og forðast hvaðeina sem gæti skaðað okkur andlega eða á annan hátt. Innblásinn orðskviður segir: „Vitur maður sér ógæfuna og felur sig, en einfeldningarnir halda áfram og fá að kenna á því.“ — Orðskviðirnir 27:12.
4. Hvaða viðvörun gaf Páll í 1. Korintubréfi 10:12, 13?
4 Korintuborg var orðlögð fyrir siðspillingu. Í bréfi til kristinna manna þar í borg varaði Páll við freistingum og við afli syndarinnar. Hann sagði: „Sá, er hyggst standa, gæti því vel að sér, að hann falli ekki. Þér hafið ekki reynt nema mannlega freistingu. Guð er trúr og lætur ekki freista yðar um megn fram, heldur mun hann, þegar hann reynir yður, einnig sjá um, að þér fáið staðist.“ (1. Korintubréf 10:12, 13) Allir — jafnt ungir sem gamlir, jafnt karlar sem konur — verða fyrir alls konar freistingum í skóla, vinnu og annars staðar. Við skulum því líta nánar á orð Páls og kanna hvað þau þýða fyrir okkur.
Vertu ekki of öruggur með þig
5. Af hverju er hættulegt að vera of öruggur með sig?
5 „Sá, er hyggst standa, gæti því vel að sér, að hann falli ekki,“ segir Páll. Það er hættulegt að vera of öruggur um siðferðisþrótt sinn og það ber vott um ónógan skilning á eðli og afli syndarinnar. Syndguðu ekki menn eins og Móse, Davíð, Salómon og Pétur postuli? Megum við þá ætla að við séum ónæm? (4. Mósebók 20:2-13; 2. Samúelsbók 11:1-27; 1. Konungabók 11:1-6; Matteus 26:69-75) „Vitur maður óttast hið illa og forðast það, en heimskinginn er framhleypinn og ugglaus,“ segja Orðskviðirnir 14:16. Og Jesús sagði að ‚andinn væri reiðubúinn en holdið veikt.‘ (Matteus 26:41) Við þurfum að taka viðvörun Páls alvarlega af því að enginn ófullkominn maður er ónæmur fyrir spilltum löngunum. Ella er hætta á að við föllum. — Jeremía 17:9.
6. Hvenær og hvernig ættum við að búa okkur undir freistingar?
6 Það er skynsamlegt að vera viðbúinn óvæntum erfiðleikum. Asa konungur vissi að heppilegt væri að treysta varnir landsins á friðartímum. (2. Kroníkubók 14:2, 6, 7) Hann vissi að það væri um seinan að undirbúa sig þegar árás væri hafin. Það er líka heppilegast að yfirvega í kyrrð og ró hvernig best sé að bregðast við freistingum sem geta borið að garði. (Sálmur 63:7) Daníel og guðhræddir vinir hans einsettu sér að halda lög Jehóva áður en reynt var að fá þá til að borða krásir konungs. Þess vegna hikuðu þeir ekki við að standa fastir á sannfæringu sinni og snerta ekki óhreina fæðu. (Daníel 1:8) Áður en freistingu ber að garði skulum við treysta þann ásetning að halda okkur siðferðilega hreinum. Þá getum við staðist syndina.
7. Af hverju er hughreystandi til að vita að aðrir hafa staðist freistingar?
7 „Þér hafið ekki reynt nema mannlega freistingu,“ sagði Páll. (1. Korintubréf 10:13) Það er mjög hughreystandi. Pétur postuli skrifaði: „Standið gegn [djöflinum], stöðugir í trúnni, og vitið, að bræður yðar um allan heim verða fyrir sömu þjáningum.“ (1. Pétursbréf 5:9) Aðrir hafa lent í áþekkum freistingum og staðist þær með Guðs hjálp og við getum það líka. Við búum í siðspilltum heimi þannig að við megum öll búast við freistingum fyrr eða síðar. Hvernig er hægt að vera viss um að við getum sigrast á mannlegum veikleikum og freistingum?
Við getum staðist freistingar
8. Hver er ein helsta leiðin til að forðast freistingar?
8 Ein helsta leiðin til að ‚þjóna ekki syndinni framar‘ er sú að forðast freistingar eftir fremsta megni. (Rómverjabréfið 6:6) Orðskviðirnir 4:14, 15 hvetja: „Kom þú eigi á götu óguðlegra og gakk eigi á vegi vondra manna. Sneið hjá honum, farðu hann ekki, snú þú frá honum og farðu fram hjá.“ Við vitum oft fyrir fram hvort hætta er á að ákveðnar aðstæður leiði til syndar. Kristnir menn eiga því augljóslega að ‚sneiða hjá‘ öllu og öllum sem gætu kynt undir röngum hvötum og æst upp óhreinar ástríður.
9. Hvernig leggur Biblían áherslu á að flýja freistingar?
9 Máltæki segir að ‚til þess séu freistingar að forðast þær.‘ Önnur helsta leiðin til að standast freistingar er einmitt sú að forða sér ef þær verða á vegi manns. Páll hvatti: „Flýið saurlifnaðinn,“ og „flýið skurðgoðadýrkunina.“ (1. Korintubréf 6:18; 10:14) Hann hvatti Tímóteus til að flýja „æskunnar girndir“ og löngunina í efnisleg auðæfi. — 2. Tímóteusarbréf 2:22; 1. Tímóteusarbréf 6:9-11.
10. Hvaða tvö dæmi sýna fram á gildi þess að flýja freistingar?
10 Tökum Davíð Ísraelskonung sem dæmi. Ofan af hallarþakinu sá hann fagra konu baða sig, og röng löngun fyllti hjarta hans. Hann hefði átt að flýja freistinguna með því að fara ofan af þakinu. En hann spurðist fyrir um konuna, sem hét Batseba, og það hafði skelfilegar afleiðingar. (2. Samúelsbók 11:1–12:23) Hvernig brást Jósef við þegar siðlaus eiginkona húsbónda hans hvatti hann til að leggjast með sér? Frásagan segir: „Þó að hún leitaði til við Jósef með þessum orðum dag eftir dag, þá lét hann ekki að vilja hennar að leggjast með henni og hafa samfarir við hana.“ Þó svo að það væri ekki enn þá búið að setja boðorð Móselaganna svaraði hann henni: „Hvernig skyldi ég þá aðhafast þessa miklu óhæfu og syndga á móti Guði?“ Dag nokkurn greip hún í hann og heimtaði: „Leggstu með mér!“ Dokaði Jósef við til að rökræða við hana? Nei, hann „flýði og hljóp út.“ Hann gaf ekki siðlausri freistingu tækifæri til að ná tökum á sér heldur flúði! — 1. Mósebók 39:7-16.
11. Hvað getum við hugsanlega gert ef við verðum fyrir endurtekinni freistingu?
11 Það er stundum talin ragmennska að flýja af hólmi, en oft er skynsamlegasta leiðin sú að forða sér þegar ákveðnar aðstæður koma upp. Segjum að við verðum fyrir margendurtekinni freistingu á vinnustað. Við höfum ekki tök á að skipta um vinnu en getum ef til vill forðast freistinguna með öðrum hætti. Við þurfum að flýja hvaðeina sem við vitum að er rangt, og við ættum að vera staðráðin í að gera það sem er rétt. (Amos 5:15) Við erum að flýja freistingar þegar við forðumst klámfengin vefsetur og staði þar sem boðið er upp á vafasama skemmtun. Flóttinn getur falist í því að henda tímariti eða finna okkur nýja vini — vini sem elska Guð og geta hugsanlega hjálpað okkur. (Orðskviðirnir 13:20) Það er viturlegt að snúa sér einbeittur frá hverju því sem freistar okkar til að syndga. — Rómverjabréfið 12:9.
Bænin hjálpar
12. Hvað erum við að biðja Guð um þegar við segjum: „Eigi leið þú oss í freistni“?
12 Páll segir mjög hughreystandi: „Guð er trúr og lætur ekki freista yðar um megn fram, heldur mun hann, þegar hann reynir yður, einnig sjá um, að þér fáið staðist.“ (1. Korintubréf 10:13) Jehóva aðstoðar okkur meðal annars með því að svara bænum okkar um hjálp til að standast freistingu. Jesús kenndi okkur að biðja: „Og eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá hinum vonda.“ (Matteus 6:13, neðanmáls) Jehóva svarar innilegri bæn sem þessari. Hann yfirgefur okkur ekki heldur frelsar okkur frá Satan og vélabrögðum hans. (Efesusbréfið 6:11) Við ættum að biðja Guð að hjálpa okkur að koma auga á freistingarnar og vera nógu sterk til að standast þær. Ef við sárbænum hann um að láta okkur ekki falla þegar við verðum fyrir freistingu, þá hjálpar hann okkur þannig að Satan, ‚hinn vondi,‘ sigri okkur ekki.
13. Hvað ættum við að gera ef þrálátar freistingar sækja að okkur?
13 Við þurfum að biðja sérstaklega ákaft þegar við lendum í þrálátri freistingu. Sumar freistingar geta valdið mikilli innri baráttu við hugsanir og viðhorf sem minna okkur óþyrmilega á hve veik við erum. (Sálmur 51:7) Hvað getum við til dæmis gert ef minningar um siðspillt hátterni fortíðarinnar sækja á okkur? Hvað getum við gert ef það freistar okkar að taka það upp aftur? Í stað þess að reyna einungis að bæla slíkar tilfinningar niður ættum við að leggja málið fyrir Jehóva í bæn — margsinnis ef þörf er á. (Sálmur 55:23) Hann getur beitt orði sínu og heilögum anda til að hreinsa huga okkar af óhreinum tilhneigingum. — Sálmur 19:9, 10.
14. Hvers vegna er bænin nauðsynleg til að standast freistingar?
14 Þegar Jesús sá syfju og deyfð sækja á postulana í Getsemane hvatti hann þá: „Vakið og biðjið, að þér fallið ekki í freistni. Andinn er reiðubúinn, en holdið veikt.“ (Matteus 26:41) Ein leið til að standast freistingu er sú að vera vakandi fyrir því að hún er lævís og getur birst í mörgum myndum. Og það er áríðandi að ræða tafarlaust um freistinguna í bæn til að fá andlegan styrk til að berjast gegn henni. Við stöndumst hana ekki í eigin krafti af því að hún ræðst að okkur þar sem við erum veikust fyrir. Bænin er nauðsynleg af því að krafturinn, sem Guð gefur, getur eflt varnir okkar gegn Satan. (Filippíbréfið 4:6, 7) Við getum líka þurft á andlegum stuðningi „öldunga safnaðarins“ að halda og bænum þeirra. — Jakobsbréfið 5:13-18.
Berstu gegn freistingunni
15. Hvað þurfum við að gera til að berjast gegn freistingu?
15 Auk þess að forðast freistingu eftir því sem við best getum þurfum við að berjast gegn henni uns hún líður hjá eða aðstæður breytast. Jesús spyrnti við fótum þegar Satan freistaði hans uns Satan fór. (Matteus 4:1-11) „Standið gegn djöflinum, og þá mun hann flýja yður,“ skrifaði lærisveinninn Jakob. (Jakobsbréfið 4:7) Mótstaðan hefst með því að styrkja hugann við lestur í orði Guðs og einsetja sér að halda boðorð hans. Það er gott að leggja á minnið og hugleiða ýmsa lykilritningarstaði sem snerta ákveðna veikleika okkar. Og skynsamlegt væri að finna sér einhvern þroskaðan trúfélaga, kannski öldung, til að trúa fyrir áhyggjum sínum og leita til þegar freistingin sækir að okkur. — Orðskviðirnir 22:17.
16. Hvernig getum við haldið okkur siðferðilega hreinum?
16 Ritningin hvetur okkur til að íklæðast nýja persónuleikanum. (Efesusbréfið 4:24) Það merkir að leyfa Jehóva að móta sig og breyta sér. Páll skrifaði Tímóteusi, samverkamanni sínum: „Stunda réttlæti, guðhræðslu, trú, kærleika, stöðuglyndi og hógværð. Berstu trúarinnar góðu baráttu, höndla þú eilífa lífið, sem þú varst kallaður til.“ (1. Tímóteusarbréf 6:11, 12) Við getum ‚stundað réttlæti‘ með því að nema orð Guðs af kappi til að byggja upp nákvæma þekkingu á persónuleika hans og hegða okkur síðan í samræmi við kröfur hans. Góð þátttaka í boðunarstarfinu og regluleg samkomusókn er einnig nauðsynleg. Ef við styrkjum tengslin við Guð og notfærum okkur allt sem hann hefur gert til að styrkja okkur og næra andlega stuðlar það að andlegum vexti og siðferðilega hreinu lífi. — Jakobsbréfið 4:8.
17. Hvernig vitum við að Guð yfirgefur okkur ekki á freistingarstund?
17 Páll fullvissar okkur um að við lendum aldrei í slíkum freistingum að við getum ekki staðist þær með Guðs hjálp. Jehóva mun ‚sjá um að við fáum staðist.‘ (1. Korintubréf 10:13) Hann leyfir ekki að freistingar verði svo ómótstæðilegar að við höfum ekki andlegan styrk til að vera ráðvönd ef við reiðum okkur á hann. Hann vill að við sigrumst á freistingunni til að gera það sem er rangt í augum hans. Og við getum treyst loforði hans: „Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“ — Hebreabréfið 13:5.
18. Af hverju getum við verið örugg um að sigrast á mannlegum veikleikum?
18 Páll var ekki í vafa um það hvernig baráttu sinni gegn mannlegum veikleikum sínum myndi lykta. Hann leit ekki á sjálfan sig sem aumkunarvert og máttlítið peð holdlegra langana. Nei, hann sagði: „Ég [hleyp] ekki stefnulaust. Ég berst eins og hnefaleikamaður, sem engin vindhögg slær. Ég leik líkama minn hart og gjöri hann að þræli mínum, til þess að ég, sem hef prédikað fyrir öðrum, skuli ekki sjálfur verða gjörður rækur.“ (1. Korintubréf 9:26, 27) Við getum líka gengið með sigur af hólmi í baráttunni við hið ófullkomna hold. Kærleiksríkur faðir okkar á himni notar Biblíuna, biblíutengd rit, safnaðarsamkomur og þroskaða trúfélaga til að minna okkur á mikilvæga hluti sem hjálpa okkur að vera ráðvönd. Með hjálp hans getum við sigrast á mannlegum veikleikum.
Manstu?
• Hvað er ‚hyggja holdsins‘?
• Hvernig getum við búið okkur undir að standast freistingar?
• Hvað getum við gert til að standast freistingar?
• Hvert er hlutverk bænarinnar í því að standast freistingar?
• Hvernig vitum við að það er hægt að sigrast á mannlegum veikleikum?
[Myndir á blaðsíðu 9]
Biblían kennir ekki að við séum hjálparvana fórnarlömb holdlegra langana.
[Mynd á blaðsíðu 11]
Ein af helstu leiðunum til að forðast synd er að flýja freistingar.