Sýnir þú biðlund?
„Hversu ber yður þá ekki að ganga fram í heilagri breytni og guðrækni, þannig að þér væntið eftir og flýtið fyrir komu Guðs dags.“ — 2. PÉTURSBRÉF 3:11, 12.
1, 2. Lýstu með dæmi hvernig við bíðum eftir degi Jehóva.
SJÁÐU fyrir þér fjölskyldu sem á von á gestum til kvöldverðar. Gestirnir eru væntanlegir eftir skamma stund. Húsmóðirin er að leggja síðustu hönd á kvöldmatinn og eiginmaðurinn og börnin hjálpa til svo að allt sé til reiðu. Öll fjölskyldan bíður þess með eftirvæntingu að gestina beri að garði og hlakkar til góðrar máltíðar og ánægjulegrar samveru.
2 Við kristnir menn erum að bíða enn þýðingarmeiri viðburðar — þess að dagur Jehóva renni upp. Þangað til þurfum við að vera eins og Míka spámaður sem sagði: „Ég vil mæna til Drottins, bíða eftir Guði hjálpræðis míns!“ (Míka 7:7) Merkir það að sitja aðgerðarlaus með hendur í skauti? Nei, því að mikið starf er óunnið.
3. Hvaða viðhorf eiga kristnir menn að hafa samkvæmt 2. Pétursbréfi 3:11, 12?
3 Pétur postuli bendir á hvernig okkur beri að hugsa meðan við bíðum. Hann segir: „Hversu ber yður þá ekki að ganga fram í heilagri breytni og guðrækni, þannig að þér væntið eftir og flýtið fyrir komu Guðs dags.“ (2. Pétursbréf 3:11, 12) Með þessum orðum er Pétur ekki að lýsa yfir neinum vafa um það hvernig við eigum að ganga fram. Í tveim guðinnblásnum bréfum lýsir hann því hvernig kristnir menn eigi að vera. Og hann hvetur þá til að stunda ‚heilaga breytni og guðrækni‘. Kristnir menn áttu ekki að slaka á verðinum þó að það væru liðin um 30 ár síðan Jesús Kristur lýsti tákni ‚komu sinnar og endaloka veraldar‘. (Matteus 24:3) Þeir áttu að ‚vænta eftir og flýta fyrir komu Guðs dags‘.
4. Hvað er fólgið í því að ‚flýta fyrir komu Guðs dags‘?
4 Við getum auðvitað ekki flýtt degi Jehóva í raun og veru. Við vitum ekki einu sinni á hvaða ‚degi né stund‘ Jesús Kristur kemur til að fullnægja dómi á óvinum föður síns. (Matteus 24:36; 25:13) Í heimildarriti kemur fram að rót sagnarinnar, sem þýdd er ‚að flýta fyrir‘, merki hér „‚að hafa hraðann á‘ og sé því nátengd því ‚að vera kostgæfinn, athafnasamur, áhugasamur um eitthvað‘“. Pétur er sem sagt að hvetja trúsystkini sín til að þrá heitt að dagur Jehóva renni upp. Þetta gátu þau gert með því að hafa daginn stöðugt í huga. (2. Pétursbréf 3:12) Við ættum að sýna sama hugarfar þar eð „hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins“ Jehóva er mjög nærri. — Jóel 3:4.
Að bíða með „heilagri breytni“
5. Hvernig getum við sýnt að við þráum heitt að sjá dag Jehóva?
5 Ef við þráum heitt að komast lifandi gegnum dag Jehóva sýnum við það með því að ganga fram í „heilagri breytni og guðrækni“. Orðin ‚heilög breytni‘ minna kannski á hvatningu Péturs: „Verið eins og hlýðin börn og látið eigi framar lifnað yðar mótast af þeim girndum, er þér áður létuð stjórnast af í vanvisku yðar. Verðið heldur sjálfir heilagir í allri hegðun, eins og sá er heilagur, sem yður hefur kallað. Ritað er: ‚Verið heilagir, því ég er heilagur.‘“ — 1. Pétursbréf 1:14-16.
6. Hvað þurfum við að gera til að vera heilög?
6 Við verðum að vera hrein siðferðilega og andlega og á líkama og huga til að vera heilög. Erum við sem berum nafn Jehóva að búa okkur undir dag hans með því að halda okkur heilögum? Það er ekki auðvelt að halda sér hreinum vegna þess að siðferði hnignar jafnt og þétt í heiminum umhverfis. (1. Korintubréf 7:31; 2. Tímóteusarbréf 3:13) Breikkar bilið milli þess siðferðis, sem við fylgjum, og þess sem heimurinn stundar? Það ætti að vera áhyggjuefni fyrir okkur ef svo er ekki. Er hugsanlegt að siðferði okkar fari smátt og smátt hnignandi, þó að það sé á hærra stigi en í heiminum? Ef svo er þurfum við að gera gangskör að því að bæta það til að þóknast Guði.
7, 8. (a) Hvernig gætum við misst sjónar á mikilvægi þess að ganga fram í „heilagri breytni“? (b) Hvað gætum við þurft að gera til að leiðrétta okkur?
7 Nú er klámfengið efni orðið mjög aðgengilegt á Netinu og auðvelt að nálgast það án þess að aðrir viti af. Læknir bendir á að sumir sem höfðu ekki aðgang að slíku efni áður hafi nú „ótakmörkuð kynferðisleg tækifæri“. Ef við leituðum uppi vefsíður með þessu óhreina efni værum við vissulega að hunsa fyrirmæli Biblíunnar um að ‚snerta ekkert óhreint‘. (Jesaja 52:11) Værum við þá að ‚vænta eftir og flýta fyrir komu Guðs dags‘? Eða værum við kannski að fresta honum í huganum og hugsa sem svo að við hefðum tækifæri til að hreinsa hugann síðar þó að við værum að vísu að menga hann núna með klúru efni? Ef eitthvað slíkt gerist hjá okkur er mjög áríðandi að sárbæna Jehóva um að ‚snúa augum okkar frá því að horfa á hégóma og lífga okkur á vegum hans‘. — Sálmur 119:37.
8 Yfirgnæfandi meirihluti votta Jehóva, bæði ungir sem aldnir, fylgir staðfastlega háleitum siðferðisreglum hans og forðast siðlausar tálbeitur þessa heims. Þeir „ganga fram í heilagri breytni“, minnugir þess að tíminn er naumur og að dagur Jehóva ‚kemur eins og þjófur‘. (2. Pétursbréf 3:10) Þeir sanna í verki að þeir ‚vænta eftir og flýta fyrir komu Guðs dags‘.a
Að bíða „í guðrækni“
9. Til hvers ætti guðræknin að hvetja okkur?
9 „Guðrækni“ er einnig nauðsynleg til að vænta dags Jehóva og hafa hann efst í huga. Hún felur í sér lotningu fyrir Guði sem er manni hvöt til að gera það sem hann hefur þóknun á. Það er hollusta við Jehóva sem er hvötin að baki guðrækninni og þeim verkum sem hún stuðlar að. Hann vill að „allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum“. (1. Tímóteusarbréf 2:4) Hann „vill ekki að neinir glatist, heldur að allir komist til iðrunar“. (2. Pétursbréf 3:9) Guðræknin ætti því að hvetja okkur til að leggja okkur enn betur fram við að hjálpa fólki að kynnast Jehóva og líkja eftir honum. — Efesusbréfið 5:1.
10. Af hverju þurfum við að vara okkur á ‚táli auðæfanna‘?
10 Við erum rík af guðrækni og góðum verkum ef við leitum fyrst Guðsríkis. (Matteus 6:33) Það felur meðal annars í sér að sjá efnislega hluti í réttu ljósi. Jesús aðvaraði: „Gætið yðar, og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum, þótt auðugur sé.“ (Lúkas 12:15) Það er kannski erfitt að ímynda sér að við getum blindast af peningaást en það er ástæða til að minna á að „áhyggjur heimsins og tál auðæfanna“ geta kæft orð Guðs. (Matteus 13:22) Það getur verið erfitt að sjá sér farborða. Sums staðar í heiminum er það útbreidd skoðun að besta leiðin til að bæta lífskjörin sé sú að flytja til einhvers lands þar sem efnahagsástandið er betra. Sumir eru fjarri fjölskyldunni svo árum skiptir. Einstaka þjónn Guðs hefur jafnvel hugsað þannig. Með því að flytja til annars lands er ef til vill hægt að sjá fjölskyldunni fyrir ýmsum þægindum. En hvað um andlegt ástand ástvinanna sem heima sitja? Ætli þeir varðveiti þann trúarstyrk sem þarf til að lifa dag Jehóva af ef viðeigandi forystu vantar heima fyrir?
11. Hvernig sýndi farandverkamaður að guðræknin er mikilvægari en peningar?
11 Farandverkamaður frá Filippseyjum kynntist sannleika Biblíunnar hjá vottum Jehóva í Japan. Þegar hann las um þá forystuábyrgð, sem Biblían leggur eiginmönnum á herðar, gerði hann sér ljóst að hann þyrfti að hjálpa fjölskyldunni að kynnast Jehóva og tilbiðja hann. (1. Korintubréf 11:3) Eiginkonan snerist öndverð gegn hinni nýfundnu trú hans og vildi frekar að hann héldi áfram að senda heim peninga en kæmi heim til að kenna fjölskyldunni það sem hann hafði lært af Biblíunni. En vitundin um hve tíminn væri naumur og umhyggjan fyrir ástvinunum varð til þess að hann ákvað að snúa heim. Hann sýndi fjölskyldunni þolinmæði og ástúð og hlaut umbun erfiðis síns. Þegar fram liðu stundir sameinaðist öll fjölskyldan í sannri tilbeiðslu og eiginkonan gerðist boðberi í fullu starfi.
12. Af hverju ættum við að láta andlegu málin ganga fyrir í lífinu?
12 Við erum á vissan hátt eins og fólk í brennandi húsi. Væri nokkurt vit í því að hlaupa um og reyna að bjarga efnislegum hlutum úr brennandi húsi sem er að hruni komið? Væri ekki miklu mikilvægara að bjarga mannslífum — okkar eigin, fjölskyldunni og öðrum sem búa í húsinu? Hið illa heimskerfi er að hruni komið og mannslíf í hættu. Í ljósi þess ættum við svo sannarlega að láta andlegu málin ganga fyrir og leggja okkur öll fram við að bjarga mannslífum með því að prédika Guðsríki. — 1. Tímóteusarbréf 4:16.
Við þurfum að vera ‚flekklaus‘
13. Hvernig ættum við að vilja vera á okkur komin þegar dagur Jehóva rennur upp?
13 Pétur leggur áherslu á að varðveita biðlundina er hann segir: „Með því að þér nú, þér elskuðu, væntið slíkra hluta, þá kappkostið að vera flekklausir og lýtalausir frammi fyrir [Guði] í friði.“ (2. Pétursbréf 3:14) Auk þess að hvetja til heilagrar breytni og guðrækni leggur Pétur áherslu á að það sé mikilvægt að vera hrein frammi fyrir Jehóva, hreinsuð í dýrmætu blóði Jesú. (Opinberunarbókin 7:9, 14) Til þess er nauðsynlegt að trúa á fórn Jesú og vígjast og skírast sem þjónn Jehóva.
14. Hvað þarf að gera til að vera ‚flekklaus‘?
14 Pétur hvetur til þess að við gerum okkar ýtrasta til að vera ‚flekklaus‘. Hegðun okkar og persónuleiki eru eins og flík sem þarf að vera flekklaus og hrein af heiminum. Ef við fáum blett í fötin reynum við umsvifalaust að fjarlægja hann. Og við vöndum okkur sérstaklega ef um er að ræða einhverja uppáhaldsflík. Hugsum við eins ef það eru klæði kristninnar sem fá á sig blett af einhverjum bresti í hegðun okkar eða persónuleika?
15. (a) Hvers vegna áttu Ísraelsmenn að gera skúfa á klæðafaldana? (b) Hvers vegna skera vottar Jehóva sig úr fjöldanum?
15 Ísraelsmenn áttu að gera sér „skúfa á skaut klæða sinna“ og „festa snúru af bláum purpura við skautskúfana“. Til hvers? Til að minna sig á boðorð Jehóva, hlýða þeim og ‚vera heilög‘ frammi fyrir honum. (4. Mósebók 15:38-40) Við, vottar Jehóva, skerum okkur úr fjöldanum af því að við höldum lög Guðs og meginreglur. Til dæmis höldum við okkur siðferðilega hreinum, virðum helgi blóðsins og forðumst skurðgoðadýrkun í sérhverri mynd. (Postulasagan 15:28, 29) Margir virða okkur fyrir það hve einbeitt við erum í að halda okkur flekklausum. — Jakobsbréfið 1:27.
Við þurfum að vera ‚lýtalaus‘
16. Hvað er fólgið í því að varðveita sig ‚lýtalausan‘?
16 Pétur segir enn fremur að við verðum að vera ‚lýtalaus‘. Hvernig er það hægt? Að jafnaði er auðvelt að þurrka eða hreinsa burt blett, en lýti eru erfiðari viðfangs. Lýti gefur til kynna að það sé eitthvað að hið innra. Páll postuli hvatti trúsystkini sín í Filippí: „Gjörið allt án þess að mögla og hika, til þess að þér verðið óaðfinnanlegir og hreinir, flekklaus Guðs börn meðal rangsnúinnar og gjörspilltrar kynslóðar. Þér skínið hjá þeim eins og ljós í heiminum.“ (Filippíbréfið 2:14, 15) Ef við fylgjum þessari hvatningu gætum við þess að mögla ekki eða þrátta heldur þjónum Jehóva af hreinum hvötum. Við finnum hjá okkur sterka hvöt til að prédika „þetta fagnaðarerindi um ríkið“ vegna þess að við elskum Jehóva og náungann. (Matteus 22:35-40; 24:14) Og við höldum áfram að boða fagnaðarerindið þó að fólk skilji almennt ekki hvers vegna við gefum tíma okkar og krafta til að hjálpa öðrum að kynnast Guði og orði hans, Biblíunni.
17. Af hvaða hvötum ættum við að sækjast eftir sérréttindum í kristna söfnuðinum?
17 Okkur er mikið í mun að vera ‚lýtalaus‘ þannig að við ættum að skoða hvaða hvatir búi að baki öllu sem við tökum okkur fyrir hendur. Við erum hætt að gera hlutina af eigingjörnum hvötum eins og heimurinn, svo sem að sækjast eftir peningum og völdum. Og ef við sækjumst eftir sérréttindum í kristna söfnuðinum ættum við alltaf að gera það af hreinum hvötum og kærleika til Jehóva og annarra. Það er upplífgandi að sjá andlega menn sækjast eftir umsjónarstarfi með gleði og af auðmjúkri löngun til að þjóna Jehóva og trúsystkinum sínum. (1. Tímóteusarbréf 3:1; 2. Korintubréf 1:24) Þeir sem eru hæfir til að gegna öldungsstarfi eru ‚hirðar hjarðar Guðs af fúsu geði, ekki sakir vansæmilegs ávinnings, heldur af áhuga og þeir drottna ekki yfir söfnuðunum heldur eru fyrirmynd hjarðarinnar‘. — 1. Pétursbréf 5:1-4.
Við þurfum að vera „í friði“
18. Fyrir hvað eru vottar Jehóva vel þekktir?
18 Pétur segir okkur að lokum að vera „í friði“. Til að gera það þurfum við að eiga frið við Jehóva og náungann. Pétur leggur áherslu á að það sé mikilvægt að hafa „brennandi kærleika hver til annars“ og eiga frið við trúsystkini sín. (1. Pétursbréf 2:17; 3:10, 11; 4:8; 2. Pétursbréf 1:5-7) Við verðum að elska hvert annað til að viðhalda friði. (Jóhannes 13:34, 35; Efesusbréfið 4:1, 2) Friðurinn og kærleikurinn sýnir sig ekki síst þegar haldin eru alþjóðamót. Árið 1999 voru vottar að taka á móti gestum sem voru að koma á mót í Kostaríka. Búðareigandi á flugvellinum var heldur óhress þegar vottarnir skyggðu óvart á búðina hans. Daginn eftir veitti hann því eftirtekt hve fagnandi vottarnir á staðnum tóku á móti gestum þó að þeir þekktu þá ekki persónulega, og kærleikurinn og friðurinn vakti athygli hans. Þriðja daginn slóst hann í hópinn, bauð gestina velkomna og bað um biblíunámskeið.
19. Hvers vegna er mikilvægt að eiga frið við trúsystkini okkar?
19 Það er mikilvægt að við keppum í einlægni eftir friði við trúsystkini okkar því að það getur haft áhrif á hve einlæglega við bíðum eftir degi Jehóva og nýja heiminum sem heitið er. (Sálmur 37:11; 2. Pétursbréf 3:13) Setjum sem svo að okkur finnist erfitt að eiga frið við ákveðinn trúbróður. Getum við séð okkur búa með honum í friði í paradís? Ef bróðir hefur eitthvað á móti okkur ættum við að vera fljót til að ‚sættast við hann‘. (Matteus 5:23, 24) Það er mikilvægt til að geta átt frið við Jehóva. — Sálmur 35:27; 1. Jóhannesarbréf 4:20.
20. Í hverju ætti biðlund okkar að sýna sig?
20 ‚Væntum við og flýtum fyrir komu Guðs dags‘? Við sýnum hve heitt við þráum að sjá illskuna taka enda með því að varðveita okkur hrein og heilög í þessum siðlausa heimi. Guðrækni og góð verk vitna um hve mjög við þráum dag Jehóva og það líf sem er í vændum undir stjórn Guðsríkis. Og vonin um að fá að lifa í friðsælum nýjum heimi endurspeglast í því að við keppum eftir friði við trúsystkini okkar núna. Þannig sýnum við biðlund og ‚væntum eftir og flýtum fyrir komu Guðs dags‘.
[Neðanmáls]
a Sjá til dæmis Varðturninn 1. janúar 2000, bls. 16, og Árbók Votta Jehóva 1997, bls. 51.
Manstu?
• Hvað merkir það að ‚vænta eftir og flýta fyrir komu Guðs dags‘?
• Hvernig birtist biðlund í breytni okkar?
• Hvers vegna eru guðrækni og góð verk mikilvæg?
• Hvað þurfum við að gera til að vera ‚flekklaus og lýtalaus frammi fyrir Jehóva í friði‘?
[Mynd á blaðsíðu 19]
Biðlund birtist í heilagri breytni.
[Myndir á blaðsíðu 20]
Boðunarstarfið bjargar mannslífum.
[Mynd á blaðsíðu 22]
Keppum eftir friði við aðra er við bíðum eftir degi Jehóva.