Hvernig má styrkja hjónabandið?
SJÁÐU fyrir þér hús sem er í algerri niðurníðslu. Málningin er flögnuð af, þakið skemmt og grasflötin óhirt. Greinilega hefur byggingin veðrast af stormviðri liðinna ára og liðið fyrir vanrækslu. Ætti að rífa hana? Það þarf ekki að vera. Ef undirstaðan er sterk og grindin traust væri sennilega hægt að endurbyggja húsið.
Minnir ástand hússins þig á hjónaband þitt? Með árunum getur verið að hvassviðri hafi svo að segja tekið toll af sambandi ykkar. Kannski hefur annað ykkar eða þið bæði vanrækt hjónabandið að einhverju leyti. Þá má vera að líkt sé komið fyrir þér og Sandy. Eftir 15 ár í hjónabandi segir hún: „Við hjónin áttum ekkert sameiginlegt nema það eitt að vera gift. Og það var ekki nóg.“
Þótt þannig sé komið fyrir hjónabandi ykkar skuluð þið ekki álykta í fljótfærni að því verði að slíta. Sennilega er hægt að styrkja það á ný. Mikið er undir því komið hve mikils þið virðið hjúskaparheitið sem þið gáfuð hvort öðru. Það getur skapað jafnvægi í hjónabandinu þegar á reynir. En hvað er átt við með hjúskaparheitinu og hvernig getur Biblían hjálpað ykkur að halda það?
Skuldbindingar
Samkvæmt orðabók þýðir skuldbinding að vera bundinn einhverjum af skyldu eða þakkarskuld. Stundum er orðið notað ópersónulega svo sem við gerð viðskiptasamnings. Byggingaverktaka gæti til dæmis fundist hann vera skuldbundinn til að uppfylla kröfur samnings, sem hann hefur skrifað undir, um að byggja hús. Kannski þekkir hann ekki persónulega þann sem fól honum verkið. Eigi að síður telur hann sig skuldbundinn að standa við orð sín.
Þótt hjónabandið sé ekki ópersónulegur viðskiptasamningur fylgja því ákveðnar skyldur. Líklega hafið þið heitið hátíðlega frammi fyrir Guði og mönnum að lifa saman í blíðu og stríðu. Jesús sagði: „Skaparinn gjörði þau frá upphafi karl og konu og sagði: ‚Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og bindast konu sinni.‘“ Hann bætti við: „Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja.“ (Matteus 19:4-6) Þegar vandamál koma upp ættuð þið því að vera fastákveðin í að halda heitið sem þið gáfuð hvort öðru.a Kona nokkur sagði: „Ástandið fór fyrst að batna þegar við hættum að hugsa um möguleikann á skilnaði.“
En hjúskaparheitið felur þó ekki eingöngu í sér skyldurækni. Hvað annað hefur það að geyma?
Samvinna
Þótt hjón séu skuldbundin hvort öðru þýðir ekki að þeim verði aldrei sundurorða. Þegar ósamkomulag kemur upp ætti að vera einlægur ásetningur beggja að leysa málið vegna tilfinningalegra tengsla fremur en eingöngu af skyldurækni. Jesús sagði varðandi hjón: „Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður.“
Hvað þýðir að vera „einn maður“ með maka sínum? Páll postuli skrifaði að ‚eiginmennirnir skyldu elska konur sínar eins og eigin líkama‘. (Efesusbréfið 5:28, 29) Að vera „einn maður“ þýðir því að manni sé eins annt um velferð makans og sjálfs sín. Gift fólk verður að breyta hugsunarhætti sínum úr „mitt“ í „okkar“ og úr „ég“ í „við“. Ráðgjafi skrifaði: „Bæði tvö verða að hætta að hugsa og finnast innst inni sem þau séu einhleyp og verða hjón innst inni.“
Eruð þið hjónin „hjón innst inni“? Hægt er að vera saman svo árum skiptir án þess að vera „einn maður“ í þessum skilningi. Já, það getur gerst en í bókinni Giving Time a Chance stendur: „Hjónaband merkir að lifa í sameiningu, og því meira sem tvær manneskjur eiga sameiginlegt þeim mun meira blómstrar hjónabandið.“
Óhamingjusöm hjón halda sum hver saman vegna barnanna eða fjárhagslegs öryggis. Aðrir þrauka af því að þeim finnst skilnaður vera siðferðilega rangur eða þeir hræðast hvað öðrum fyndist ef til skilnaðar kæmi. Enda þótt lofsvert sé að þessi hjónabönd haldi skaltu hafa í huga að markmið ykkar ætti að vera að eiga ástríkt samband en ekki aðeins varanlegt.
Fórnfýsi
Biblían sagði fyrir um að „á síðustu dögum“ yrðu mennirnir „sérgóðir“. (2. Tímóteusarbréf 3:1, 2) Eins og spádómurinn segir virðist nú sem áherslan sé lögð á lotningarfullt dálæti á sjálfum sér. Í allt of mörgum hjónaböndum er álitið veikleikamerki að gefa af sér án þess að tryggt sé að það verði gagnkvæmt. En í farsælu hjónabandi sýna bæði hjónin fórnarlund. Hvernig getur þú gert það?
Í stað þess að leggja áherslu á spurninguna: „Hvernig hagnast ég á sambandinu?“ skaltu spyrja þig: „Hvað geri ég til að styrkja hjónabandið?“ Í Biblíunni segir að kristnir menn eigi ‚ekki að líta aðeins á eigin hag heldur einnig annarra‘. (Filippíbréfið 2:4) Þegar þú íhugar þessa grundvallarreglu Biblíunnar skaltu kanna ítarlega framkomu þína í liðinni viku. Hve oft sýndir þú góðvild eingöngu með hag maka þíns í huga? Hlustaðir þú þegar maka þinn langaði til að tala, þó að þig hafi ekki langað sérstaklega til þess? Hve oft tókstu þátt í einhverju sem maki þinn hafði meiri áhuga á en þú?
Þegar þú vegur og metur spurningarnar skaltu ekki hafa áhyggjur af því að enginn taki eftir góðverkum þínum né umbuni þér fyrir þau. Heimildarrit segir: „Í flestum samböndum er jákvæð hegðun gagnkvæm. Gerðu því þitt besta til að hvetja makann til að hegða sér á jákvæðan hátt með því að hegða þér enn betur.“ Fórnfýsi styrkir hjónabandið því að hún sýnir að þú metur það og vilt varðveita það.
Að hugsa til langs tíma
Jehóva Guð metur hollustu mikils. Í Biblíunni segir: „Gagnvart ástríkum ert þú [Jehóva] ástríkur, gagnvart ráðvöndum ráðvandur.“ (2. Samúelsbók 22:26) Með því að sýna Guði hollustu er verið að sýna hjónabandinu, sem hann stofnaði til, hollustu. — 1. Mósebók 2:24.
Ef þið hjónin sýnið hvort öðru hollustu skynjið þið varanleikann í hjónabandi ykkar. Þegar þið hugsið til mánaðanna fram undan, áranna og áratuganna, sjáið þið ykkur saman í huganum. Hugsunin um að þið séuð ekki hjón er ykkur mjög framandi og það veitir ykkur öryggiskennd í hjónabandinu. Eiginkona nokkur sagði: „Ekki einu sinni þegar ég er æf út í [eiginmann minn] og í hvað mestu uppnámi vegna þess sem er að gerast hjá okkur hef ég áhyggjur af því að hjónabandið fari út um þúfur. Ég hef áhyggjur af því hvernig við getum náð saman aftur. Ég er ekki í minnsta vafa um að við náum saman aftur en þá stundina sé ég ekki alveg fram á hvernig.“
Með hjúskaparheitinu er verið að skuldbinda sig makanum til frambúðar en því miður er því ekki svo farið í mörgum hjónaböndum. Þegar upp úr sýður gæti dottið út úr makanum: „Ég ætla að fara frá þér!“ eða: „Ég ætla að finna einhvern sem kann virkilega að meta mig!“ Slík orð eru oftast ekki meint bókstaflega. Samt bendir Biblían á að tungan geti verið „full af banvænu eitri“. (Jakobsbréfið 3:8) Hótanir og úrslitakostir bera með sér skilaboðin: ‚Ég lít ekki á hjónaband okkar sem varanlegt. Ég get slitið því hvenær sem er.‘ Slíkar dylgjur geta skaðað hjónabandið.
Ef þú hugsar til langs tíma reiknar þú með að vera með maka þínum gegnum súrt og sætt. Það hefur líka annan kost í för með sér. Þá er miklu auðveldara fyrir ykkur hjónin að sætta ykkur við veikleika og mistök og halda áfram að umbera hvort annað og fyrirgefa hvort öðru fúslega. (Kólossubréfið 3:13) „Í góðu hjónabandi,“ segir í handbók, „er svigrúm fyrir mistök beggja og að hjónabandið haldi þrátt fyrir það.“
Á brúðkaupsdaginn lofaðirðu að skuldbinda þig, ekki hjónabandinu heldur lifandi manneskju, maka þínum. Það ætti að hafa djúp áhrif á hugarfar þitt og hátterni sem gift manneskja. Ertu ekki sammála að þú átt ekki aðeins að halda þig við maka þinn af því að þú trúir því eindregið að hjónabandið sé heilagt heldur einnig af því að þú elskar manneskjuna sem þú giftist?
[Neðanmáls]
a Þegar verst gegnir getur þó verið gild ástæða fyrir að hjón skilji. (1. Korintubréf 7:10, 11; Sjá bókina The Secret of Family Happiness, bls. 160-1, gefin út af Vottum Jehóva.) Og Biblían viðurkennir að auki hjónaskilnað vegna hórdóms (kynferðislegs siðleysis). — Matteus 19:9.
[Rammi/mynd á blaðsíðu 5]
Hvað geturðu gert núna?
Hvernig gengur að standa við skuldbindingarnar sem fylgja hjónabandinu? Þú sérð ef til vill möguleika á breytingum til batnaðar. Til þess að halda hjúskaparheitið skaltu reyna eftirfarandi:
● Líttu í eigin barm. Spyrðu sjálfan þig: ‚Er ég í hjónabandi af heilum hug eða hugsa ég enn þá og haga mér eins og einhleypingur?‘ Fáðu að vita hvað maka þínum finnst um þig að þessu leyti.
● Lestu þessa grein með makanum. Ræðið síðan í rólegheitum um leiðir til að styrkja hjónabandið.
● Gerið eitthvað saman til að styrkja sambandið. Skoðið til dæmis myndir frá brúðkaupinu og öðrum eftirminnilegum atburðum. Gerið það sem þið höfðuð gaman af í tilhugalífinu eða á fyrstu árum hjónabandsins. Kynnið ykkur biblíutengdar greinar í Varðturninum og Vaknið! sem varða hjónabandið.
[Rammi/mynd á blaðsíðu 6]
Hjúskaparheitið felur í sér . . .
● Skuldbindingar: „Efn það er þú heitir. Betra er að þú heitir engu en að þú heitir og efnir ekki.“ — Prédikarinn 5:3,4.
● Samvinnu: „Betri eru tveir en einn . . . Því að falli annar þeirra, þá getur hinn reist félaga sinn á fætur, en vei einstæðingnum, sem fellur og enginn annar er til að reisa á fætur.“ — Prédikarinn 4:9, 10.
● Fórnfýsi: „Sælla er að gefa en þiggja.“ — Postulasagan 20:35.
● Að hugsa til langs tíma: „Kærleikurinn . . . umber allt.“ — 1. Korintubréf 13:4, 7.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Hlustar þú á maka þinn þegar hann langar til að tala?