Þolgæði í prófraunum er Jehóva til lofs
„Ef þér sýnið þolgæði, er þér líðið illt, þótt þér hafið breytt vel, það aflar velþóknunar hjá Guði.“ — 1. PÉTURSBRÉF 2:20.
1. Hvaða spurningar verður að skoða þar sem öllum sannkristnum mönnum er umhugað um að lifa eftir vígsluheiti sínu?
KRISTNIR menn eru vígðir Jehóva og þá langar til að gera vilja hans. Þeir lifa eftir vígsluheiti sínu með því að feta í fótspor Jesú eftir bestu getu og bera sannleikanum vitni. (Matteus 16:24; Jóhannes 18:37; 1. Pétursbréf 2:21) En Jesús og aðrir trúfastir menn dóu píslarvættisdauða fyrir trú sína. Þýðir það að allir kristnir menn megi búast við að láta lífið fyrir trúna?
2. Hvernig líta kristnir menn á prófraunir og þjáningar?
2 Kristnum mönnum er sagt að vera trúfastir allt til dauða en ekki endilega að deyja fyrir trúna. (2. Tímóteusarbréf 4:7; Opinberunarbókin 2:10) Þetta merkir að þó svo að við séum reiðubúin að þjást — og deyja — fyrir trú okkar höfum við enga ánægju af tilhugsuninni. Við höfum ekkert yndi af þjáningum og ekki nautn af sársauka og niðurlægingu. En þar sem við megum búast við prófraunum og ofsóknum þurfum við að íhuga alvarlega hvað við myndum gera við slíkar aðstæður.
Trúföst í prófraunum
3. Hvað má læra af Biblíunni um viðbrögð við ofsóknum? (Sjá rammann „Þannig brugðust þau við ofsóknum“ á blaðsíðu 15.)
3 Biblían hefur að geyma fjölmargar frásagnir sem sýna hvernig þjónar Guðs til forna brugðust við þegar lífi þeirra var ógnað. Ólík viðbrögð þeirra veita kristnum mönnum nú á dögum góða leiðsögn ef eitthvað svipað hendir þá. Farðu yfir frásögurnar í rammagreininni „Þannig brugðust þau við ofsóknum“ og athugaðu hvað þú getur lært.
4. Hvað er hægt að segja um viðbrögð Jesú og annarra trúfastra þjóna Guðs við prófraunum?
4 Þó að Jesús og aðrir trúfastir þjónar Guðs hafi brugðist ólíkt við ofsóknum, allt eftir aðstæðum, er ljóst að þeir stofnuðu ekki lífinu í hættu að þarflausu. Þegar hætta steðjaði að voru þeir hugrakkir en samt aðgætnir. (Matteus 10:16, 23) Markmið þeirra var að halda prédikunarstarfinu áfram og vera Jehóva ráðvandir. Viðbrögð þeirra við hinum ýmsu aðstæðum eru fyrirmynd fyrir kristna menn sem lenda í prófraunum nú á dögum.
5. Hvaða ofsóknir hófust í Malaví á sjöunda áratugnum og hvað gerðu bræðurnir?
5 Nú á tímum hefur fólk Jehóva oft búið við mikla erfiðleika og sáran skort vegna hernaðarátaka, banna eða hreinna og beinna ofsókna. Svo dæmi sé tekið voru vottar Jehóva í Malaví ofsóttir grimmilega á sjöunda áratug síðustu aldar. Ríkissalir, heimili, matarbirgðir og fyrirtæki — í raun allt sem þeir áttu — var eyðilagt. Þeir máttu sæta barsmíðum og annarri skelfilegri meðferð. Hvað gerðu bræðurnir? Þúsundir þurftu að flýja þorp sín. Margir leituðu öryggis úti í óbyggðum en aðrir fóru tímabundið til nágrannalandsins Mósambík. Margir trúfastir menn týndu lífi en aðrir flúðu hættusvæðið og var það greinilega viturlegt í stöðunni. Bræðurnir fylgdu þannig fordæmi Jesú og Páls.
6. Hvað héldu vottarnir í Malaví áfram að gera þrátt fyrir harðar ofsóknir?
6 Þrátt fyrir að bræðurnir í Malaví hafi þurft að flytjast á brott eða fara í felur leituðu þeir eftir og fylgdu guðræðislegri leiðsögn og gerðu allt hvað þeir gátu til að halda starfinu áfram neðanjarðar. Með hvaða árangri? Rétt áður en starfsemi þeirra var bönnuð árið 1967 náði boðberatalan nýju hámarki, 18.519. Árið 1972, þegar bannið var enn í gildi og margir höfðu flúið til Mósambík, komst boðberafjöldinn upp í 23.398 og höfðu þeir aldrei verið fleiri. Að meðaltali voru þeir 16 klukkutíma í boðunarstarfinu í hverjum mánuði. Þessir trúföstu bræður vegsömuðu Jehóva með breytni sinni og fyrir vikið nutu þeir stuðnings hans á þessum afar erfiða tíma.a
7, 8. Hvers vegna ákveða sumir að flýja ekki, þó svo að andstaða valdi þeim erfiðleikum?
7 Í sumum löndum þar sem mikil andstaða er gegn starfi okkar ákveða sumir bræður að flýja ekki þó svo að þeir hafi möguleika á því. Það leysir kannski einhver vandamál að flytja í burtu en að öllum líkindum skapast einhver ný. Geta þeir til dæmis haldið sambandinu við kristna bræðrafélagið og ekki einangrast andlega? Geta þeir viðhaldið andlegum venjum meðan þeir eru að koma sér fyrir aftur, kannski í efnameira landi eða í landi sem býður upp á fleiri tækifæri til að efnast? — 1. Tímóteusarbréf 6:9.
8 Aðrir ákveða að flytjast ekki á brott vegna þess að þeim er umhugað um andlega velferð bræðra sinna. Þeir ákveða að vera um kyrrt og takast á við aðstæðurnar til að halda áfram að prédika á heimasvæðinu og uppörva trúbræður sína. (Filippíbréfið 1:14) Sumir af þeim sem orðið hafa eftir hafa jafnvel getað átt þátt í sigrum sem unnist hafa fyrir dómstólum í heimalandinu.b
9. Hvað verður að taka með í myndina þegar við erum ofsótt og þurfum að ákveða hvort við eigum að vera um kyrrt eða ekki?
9 Það er ákvörðun hvers og eins hvort hann verður um kyrrt eða ekki. En auðvitað ætti aðeins að taka slíkar ákvarðanir eftir að hafa leitað leiðsagnar Jehóva í bæn. Hvað svo sem við ákveðum að gera verðum við að hafa orð Páls postula í huga: „Sérhver af oss [skal] lúka Guði reikning fyrir sjálfan sig.“ (Rómverjabréfið 14:12) Eins og minnst var á fyrr í greininni gerir Jehóva þá kröfu að hver einasti þjónn sinn sé trúfastur undir öllum kringumstæðum. Sumir þjóna hans mega þola prófraunir og ofsóknir núna, aðrir eiga það ef til vill eftir. Allir verða prófaðir á einn eða annan hátt og enginn ætti að búast við að komast hjá því. (Jóhannes 15:19, 20) Við erum vígðir þjónar Jehóva og getum þar af leiðandi ekki sniðgengið mál málanna sem er að helga nafn Jehóva og upphefja drottinvald hans. — Esekíel 38:23; Matteus 6:9, 10.
„Gjaldið engum illt fyrir illt“
10. Hvaða mikilvæga fordæmi settu Jesús og postularnir um viðbrögð við þrýstingi og andstöðu?
10 Það er önnur mikilvæg meginregla sem við getum lært af því hvernig Jesús og postularnir brugðust við undir álagi. Þeir hefndu sín aldrei á ofsóknurum sínum. Það finnst engin vísbending um það í Biblíunni að Jesús eða fylgjendur hans hafi myndað einhvers konar andspyrnuhreyfingar eða gripið til ofbeldis til að berjast gegn ofsóknurum sínum. Páll postuli ráðlagði kristnum mönnum á hinn bóginn að ,gjalda engum illt fyrir illt‘. „Hefnið yðar ekki sjálfir, þér elskaðir, heldur lofið hinni refsandi reiði Guðs að komast að, því að ritað er: ,Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir Drottinn.‘“ Hann sagði einnig: „Lát ekki hið vonda yfirbuga þig, heldur sigra þú illt með góðu.“ — Rómverjabréfið 12:17-21; Sálmur 37:1-4; Orðskviðirnir 20:22.
11. Hvað segir sagnfræðingur einn um viðhorf frumkristinna manna til stjórnvalda?
11 Frumkristnir menn fóru eftir þessu ráði. Sagnfræðingurinn Cecil J. Cadoux lýsir viðhorfi kristinna manna til stjórnvalda á árunum 30-70 í bókinni The Early Church and the World. Hann skrifar: „Við höfum engar beinar sannanir fyrir því að kristnir menn á þessu tímabili hafi nokkurn tíma reynt að spyrna gegn ofsóknum með ofbeldi. Það lengsta sem þeir gengu í þá átt var að berja á valdsmönnunum með kraftmiklum ávítum eða villa um fyrir þeim með því að flýja. En venjulega voru viðbrögð kristinna manna við ofsóknum ekki önnur en þau að neita stillilega en ákveðið að hlýða þeim skipunum stjórnvalda sem þeir álitu stangast á við að hlýða Kristi.“
12. Hvers vegna er betra að þola ofsóknir en að leita hefnda?
12 Ætli það sé viturlegt að veita litla sem enga mótspyrnu? Eru menn þá ekki auðveld bráð fyrir þá sem eru staðráðnir í að útrýma þeim? Er ekki skynsamlegt að verjast? Ef til vill frá mannlegum sjónarhóli. En sem þjónar Jehóva erum við fullviss um að best sé að fylgja leiðsögn hans á öllum sviðum. Við höfum orð Péturs skýr í huga: „Ef þér sýnið þolgæði, er þér líðið illt, þótt þér hafið breytt vel, það aflar velþóknunar hjá Guði.“ (1. Pétursbréf 2:20) Við erum fullviss um að Jehóva viti mætavel hvað á gengur og láti það ekki halda áfram endalaust. Hvernig getum við verið viss um það? Jehóva sagði fólki sínu sem haldið var föngnu í Babýlon: „Hver sá er snertir yður, snertir augastein minn.“ (Sakaría 2:12) Og hversu lengi ætli maður leyfi öðrum að snerta augastein sinn? Jehóva frelsar okkur á tilsettum tíma. Á því er enginn vafi. — 2. Þessaloníkubréf 1:5-8.
13. Hvers vegna veitti Jesús enga mótspyrnu þegar óvinir hans handtóku hann?
13 Við getum tekið Jesú okkur til fyrirmyndar í þessu. Þegar hann leyfði óvinum sínum að handtaka sig í Getsemanegarðinum var það ekki vegna þess að hann væri ófær um að verja sig. Hann sagði við einn af lærisveinunum: „Hyggur þú, að ég geti ekki beðið föður minn að senda mér nú meira en tólf sveitir engla? Hvernig ættu þá ritningarnar að rætast, sem segja, að þetta eigi svo að verða?“ (Matteus 26:53, 54) Það sem skipti Jesú mestu máli var að vilji Jehóva næði fram að ganga, og gilti þá einu hvort hann þyrfti að þjást. Hann treysti algerlega spádóminum í sálmi Davíðs: „Þú ofurselur Helju eigi líf mitt, leyfir eigi að þinn trúaði sjái gröfina.“ (Sálmur 16:10) Páll sagði um Jesú mörgum árum síðar: „Vegna gleði þeirrar, er beið hans, leið hann þolinmóðlega á krossi, mat smán einskis og hefur nú setst til hægri handar hásæti Guðs.“ — Hebreabréfið 12:2.
Gleðin sem fylgir því að helga nafn Jehóva
14. Hvaða gleði hjálpaði Jesú í öllum prófraunum?
14 Hvaða gleði var það sem hjálpaði Jesú í gegnum erfiðustu prófraunir sem hugsast gat? Jesús, ástkær sonur Guðs, var efalaust aðalskotmark Satans. Með því að vera ráðvandur í prófraunum myndi hann svara smánarlegum ásökunum Satans gagnvart Jehóva fyrir fullt og allt. (Orðskviðirnir 27:11) Geturðu ímyndað þér gleðina og ánægjuna sem Jesús hlýtur að hafa fundið fyrir þegar hann var reistur upp? Sem fullkominn maður hafði hann lokið því verkefni að verja drottinvald Jehóva og helga nafn hans. Það var auk þess stórkostlegur heiður og ómetanleg gleði fyrir Jesú að setjast „til hægri handar hásæti Guðs“. — Sálmur 110:1, 2; 1. Tímóteusarbréf 6:15, 16.
15, 16. Í gegnum hvaða djöfullegu ofsóknir gengu vottarnir í Sachsenhausen og hvað gaf þeim styrk?
15 Það er kristnum mönnum líka gleðiefni að eiga þátt í að helga nafn Jehóva með því að standast prófraunir og ofsóknir og feta þannig í fótspor Jesú. Dæmi um það eru vottarnir sem þjáðust í Sachsenhausen, hinum illræmdu útrýmingarbúðum, og lifðu af helgönguna erfiðu í lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Meðan á göngunni stóð dóu þúsundir fanga úr vosbúð, sjúkdómum og hungri. Og SS-verðir tóku marga af lífi með hrottalegum hætti við vegkantinn. Allir vottarnir 230 lifðu af með því að halda hópinn og hjálpa hver öðrum þó svo að þeir hættu lífinu til þess.
16 Hvað gaf vottunum styrk til að standast þessar djöfullegu ofsóknir? Um leið og þeir voru óhultir létu þeir í ljós gleði sína og þakklæti til Jehóva í skjali með yfirskriftinni: „Yfirlýsing 230 votta Jehóva frá sex þjóðum sem eru samankomnir í skógi nálægt Schwerin í Mecklenburg.“ Þar sögðu þeir: „Langar og erfiðar prófraunir liggja nú að baki og þeir sem hafa lifað af hafa verið hrifsaðir úr eldsofninum ef svo má segja, og það er ekki einu sinni brunalykt af þeim. (Sjá Daníel 3:27.) Þeir eru þvert á móti sterkir og fullir af krafti frá Jehóva og bíða óþreyjufullir eftir nýjum fyrirmælum frá konunginum til að vinna að guðræðislegum hagsmunum.“c
17. Hvers konar prófraunum verður fólk Guðs fyrir núna?
17 Trú okkar hefur ef til vill verið reynd líkt og trú þessara 230 trúföstu votta, þó að við höfum kannski ekki enn „staðið í gegn, svo að blóð hafi runnið“. (Hebreabréfið 12:4) En prófraun getur birst í ýmsum myndum. Hún getur verið háð og spott skólafélaga eða þrýstingur jafnaldra til að fremja siðleysi eða gera eitthvað annað rangt. Þar að auki getur sá ásetningur að halda okkur frá blóði, að giftast aðeins í Drottni eða að ala börnin upp í trúnni þó að makinn sé ekki trúaður leitt til mikils álags og prófrauna. — Postulasagan 15:29; 1. Korintubréf 7:39; Efesusbréfið 6:4; 1. Pétursbréf 3:1, 2.
18. Hvaða tryggingu höfum við fyrir því að við getum staðist ólíklegustu prófraunir?
18 Óháð því hvaða prófraunum við verðum fyrir vitum við að við þjáumst vegna þess að við setjum Jehóva og ríki hans í fyrsta sæti, og við lítum á það sem sérréttindi og gleðiefni. Orð Péturs eru okkur til uppörvunar: „Sælir eruð þér, er þér eruð smánaðir vegna nafns Krists, því að andi dýrðarinnar, andi Guðs hvílir þá yfir yður.“ (1. Pétursbréf 4:14) Í krafti anda Jehóva höfum við styrk til að rísa undir hinum erfiðustu prófraunum, og það er honum til dýrðar og lofs. — 2. Korintubréf 4:7; Efesusbréfið 3:16; Filippíbréfið 4:13.
[Neðanmáls]
a Atburðirnir á sjöunda áratugnum voru aðeins byrjunin á heiftarlegum og blóðugum ofsóknum sem vottarnir í Malaví þurftu að þola í nærri þrjá áratugi. Í Árbók Votta Jehóva 1999 (enskri útgáfu) á bls. 171-212 er frásagan í heild sinni.
b Sjá greinina „High Court Upholds True Worship in ‚the Land of Ararat‘“ í Varðturninum (enskri útgáfu) 1. apríl 2003, bls. 11-14.
c Yfirlýsinguna í heild sinni er að finna í Árbók votta Jehóva 1974 á bls. 208-9. Í Varðturninum 1. mars 1998, á bls. 27-30, er frásögn votts sem lifði gönguna af.
Geturðu útskýrt?
• Hvernig líta kristnir menn á þjáningar og ofsóknir?
• Hvað getum við lært af viðbrögðum Jesú og annarra trúfastra manna við prófraunum?
• Hvers vegna er viturlegt að hefna okkar ekki þegar við erum ofsótt?
• Hvaða gleði hjálpaði Jesú í prófraunum og hvað getum við lært af því?
[Rammagrein/myndir á blaðsíðu 15]
Þannig brugðust þau við ofsóknum
• Áður en hermenn Heródesar komu til Betlehem til að drepa alla drengi tveggja ára og yngri fengu Jósef og María bendingu um það frá engli að flýja með Jesú ungan til Egyptalands. — Matteus 2:13-16.
• Óvinir Jesú reyndu mörgum sinnum að ráða hann af dögum vegna þess hve vitnisburður hans var kraftmikill. Jesús komst undan í öll skiptin. — Matteus 21:45, 46; Lúkas 4:28-30; Jóhannes 8:57-59.
• Þegar hermenn og verðir komu í Getsemanegarðinn til að handtaka Jesú sagði hann tvisvar til sín með orðunum: „Ég er hann.“ Hann hélt jafnvel aftur af fylgjendum sínum að veita mótspyrnu og leyfði hópnum að handtaka sig. — Jóhannes 18:3-12.
• Í Jerúsalem voru Pétur og aðrir handteknir, húðstrýktir og þeim var skipað að hætta að tala um Jesú. En eftir að þeim var sleppt ,fóru þeir burt og létu eigi af að kenna dag hvern í helgidóminum og í heimahúsum og boða fagnaðarerindið um að Jesús sé Kristur‘. — Postulasagan 5:40-42.
• Þegar Sál, sem síðar var nefndur Páll postuli, fékk vitneskju um að Gyðingar í Damaskus ætluðu að myrða hann létu trúbræður hans hann síga að nóttu til í körfu niður um op í borgarmúrnum. — Postulasagan 9:22-25.
• Mörgum árum síðar ákvað Páll að áfrýja til keisarans, þrátt fyrir að hvorki Festus landstjóri né Agrippa konungur hafi fundið nokkuð hjá honum „sem varðar dauða eða fangelsi“. — Postulasagan 25:10-12, 24-27; 26:30-32.
[Myndir á blaðsíðu 16, 17]
Þúsundir trúfastra votta í Malaví héldu glaðir áfram í þjónustunni við Guðsríki þó að þeir þyrftu að flýja grimmilegar ofsóknir.
[Myndir á blaðsíðu 17]
Gleðin sem fylgir því að helga nafn Jehóva hjálpaði þessum trúföstu vottum í helgöngunni og útrýmingarbúðum nasista.
[Credit line]
Helgangan: KZ-Gedenkstätte Dachau, með góðfúslegu leyfi USHMM Photo Archives.
[Myndir á blaðsíðu 18]
Við getum orðið fyrir prófraunum og þrýstingi á marga vegu.