Mettu lífið að verðleikum
‚Blóð Krists hreinsar samvisku vora frá dauðum verkum til að þjóna Guði lifanda.‘ — HEBREABRÉFIÐ 9:14.
1. Hvað er til marks um að við teljum lífið ákaflega dýrmætt?
HVERNIG myndirðu verðleggja líf þitt? Við teljum lífið ákaflega dýrmætt — bæði okkar eigið líf og annarra — sem birtist meðal annars í því að við leitum læknis þegar við veikjumst og förum jafnvel í reglubundna læknisskoðun. Við viljum halda lífi og heilsu. Jafnvel aldraðir og fatlaðir vilja flestir hverjir halda í lífið.
2, 3. (a) Hvaða skyldu er bent á í Orðskviðunum 23:22? (b) Hvernig er skyldan, sem nefnd er í Orðskviðunum 23:22, tengd Guði?
2 Samband þitt við aðra mótast að nokkru leyti af því hve mikils þú metur lífið. Orð Guðs segir til dæmis: „Hlýð þú föður þínum, sem hefir getið þig, og fyrirlít ekki móður þína, þótt hún sé orðin gömul.“ (Orðskviðirnir 23:22) Eins og orðskviðurinn segir er ekki nóg að heyra orðin heldur ber okkur líka að hlýða þeim. (2. Mósebók 15:26; 5. Mósebók 7:12; 13:18; 15:5; Jósúabók 22:2; Sálmur 81:14) Hvers vegna eigum við að hlýða, að sögn Biblíunnar? Ekki aðeins af því að foreldrar þínir eru eldri og reyndari en þú heldur líka vegna þess að þeir ‚hafa getið þig‘. Sumar þýðingar orða versið svona: „Hlýddu á föður þinn sem gaf þér lífið.“ Ef þér er lífið mikils virði finnst þér þú eðlilega vera skuldbundinn þeim sem gaf þér það.
3 Sannkristnir menn gera sér vitanlega grein fyrir því að Jehóva er uppspretta lífsins. Það er hans vegna sem við „lifum“ og „hrærumst“ sem skyni gæddar verur, og það er honum að þakka að við „erum“ og getum hugsað um og skipulagt framtíðina, þar á meðal eilífa lífið. (Postulasagan 17:28; Sálmur 36:10; Prédikarinn 3:11) Í samræmi við Orðskviðina 23:22 er rétt að ‚hlýða‘ Guði og langa til að skilja og tileinka sér afstöðu hans til lífsins frekar en önnur viðmið.
Sýndu virðingu fyrir lífinu
4. Hvernig reyndi á virðingu fyrir lífinu snemma í sögu mannkyns?
4 Jehóva tók það skýrt fram snemma í sögu mannkyns að mennirnir mættu ekki nota lífið hvernig sem þeim sýndist, eða misnota það. Kain var blindaður af öfund og reiði og drap saklausan mann, Abel bróður sinn. Heldurðu að Kain hafi haft rétt til að taka slíka ákvörðun um lífið? Guð var ekki þeirrar skoðunar. Hann dró Kain til ábyrgðar og sagði: „Hvað hefir þú gjört? Heyr, blóð bróður þíns hrópar til mín af jörðinni!“ (1. Mósebók 4:10) Við tökum eftir að blóð Abels á jörðinni táknaði líf hans sem Kain hafði bundið enda á með grimmilegum hætti, og það hrópaði til Guðs um hefnd. — Hebreabréfið 12:24.
5. (a) Hvaða bann setti Guð á dögum Nóa og til hverra náði það? (b) Í hvaða skilningi var þetta bann mikilvægt skref?
5 Mannkynið byrjaði á nýjum grunni eftir flóðið með aðeins átta manneskjum. Í yfirlýsingu, sem náði til allra manna, opinberaði Guð meira um það hvernig hann leit á líf og blóð. Hann sagði að menn mættu borða kjöt en setti þetta skilyrði: „Allt sem hrærist og lifir, skal vera yður til fæðu, ég gef yður það allt, eins og grænu jurtirnar. Aðeins hold, sem sálin, það er blóðið, er í, skuluð þér ekki eta.“ (1. Mósebók 9:3, 4) Sumir Gyðingar túlka þetta þannig að menn hafi ekki mátt borða kjöt eða blóð skepnu sem var enn á lífi. En tíminn leiddi greinilega í ljós að Guð var að banna mönnum að neyta blóðs til að viðhalda lífi. Tilskipun Guðs til Nóa var auk þess stórt skref í þá átt að láta háleita fyrirætlun hans varðandi blóðið ná fram að ganga — fyrirætlun sem bauð mönnum upp á tækifæri til að hljóta eilíft líf.
6. Hvernig kemur mat Guðs á lífinu fram í tilskipuninni til Nóa?
6 Guð hélt áfram: „Yðar eigin blóðs mun ég hins vegar krefjast. Af hverri skepnu mun ég þess krefjast, og af manninum, af bróður hans, mun ég krefjast lífs mannsins. Hver sem úthellir mannsblóði, hans blóði skal af manni úthellt verða. Því að eftir Guðs mynd gjörði hann manninn.“ (1. Mósebók 9:5, 6) Eins og sést af þessari yfirlýsingu til alls mannkyns leit Guð svo á að blóð mannsins táknaði líf hans. Skaparinn gefur manninum líf og enginn má binda enda á þetta líf sem blóðið táknar. Ef einhver fremur morð, líkt og Kain gerði, hefur skaparinn þann rétt að „krefjast“ lífs morðingjans.
7. Hvers vegna ættum við að hafa áhuga á yfirlýsingu Guðs við Nóa um blóðið?
7 Með yfirlýsingu sinni var Guð að segja mönnum að þeir mættu ekki misnota blóð. Hefurðu einhvern tíma velt fyrir þér hver ástæðan er? Hvað bjó eiginlega að baki afstöðu Guðs til blóðs? Svarið er reyndar fólgið í einhverri mikilvægustu kenningu Biblíunnar. Það er kjarninn í boðskap kristninnar enda þótt margir trúarsöfnuðir kjósi að virða það einskis. Hvaða kenning er þetta og hvernig tengist hún lífi þínu, ákvörðunum og verkum?
Hvernig mátti nota blóð?
8. Hvaða hömlur voru settar í lögmálinu á notkun blóðs?
8 Jehóva gaf nánari upplýsingar um líf og blóð í lögmálinu sem hann setti Ísrael og steig um leið nýtt skref til að hrinda fyrirætlun sinni í framkvæmd. Eins og þú sennilega veist voru ákvæði í lögmálinu um fórnir til Guðs, þar á meðal um fórnir af mjöli, olíu og víni. (3. Mósebók 2:1-4; 23:13; 4. Mósebók 15:1-5) Einnig var kveðið á um dýrafórnir. Guð sagði um þær: „Líf líkamans er í blóðinu, og ég hefi gefið yður það á altarið, til þess að með því sé friðþægt fyrir yður, því að blóðið friðþægir með lífinu. Fyrir því hefi ég sagt við Ísraelsmenn: ‚Enginn maður meðal yðar skal blóðs neyta.‘“ Hann bætti því við að hver sá, til dæmis bóndi eða veiðimaður, sem veiddi dýr til matar ætti að hella niður blóðinu og hylja það mold. Jörðin er fótskör Guðs og með því að hella blóðinu á jörðina viðurkenndi maðurinn að hann væri að skila lífinu til lífgjafans. — 3. Mósebók 17:11-13; Jesaja 66:1.
9. Til hvers mátti aðeins nota blóð samkvæmt lögmálinu og hver var tilgangurinn með því?
9 Þetta lagaákvæði var annað og meira en helgisiður og það hefur þýðingu fyrir okkur. Tókstu eftir af hverju Ísraelsmenn áttu ekki að neyta blóðs? Guð sagði: „Fyrir því hefi ég sagt við Ísraelsmenn: ‚Enginn maður meðal yðar skal blóðs neyta.‘“ Hver var ástæðan? „Ég hefi gefið yður [blóðið] á altarið, til þess að með því sé friðþægt fyrir yður.“ Sérðu hvernig þetta ákvæði varpar ljósi á það hvers vegna Guð sagði Nóa að menn mættu ekki borða blóð? Skaparinn ákvað að láta blóðið hafa einstæða þýðingu þannig að hann tók það frá til sérstakra nota sem gat bjargað fjölda mannslífa. Það átti að gegna mikilvægu hlutverki í því að breiða yfir syndir (friðþægja). Samkvæmt lögmálinu mátti aðeins nota blóð á altarinu til að friðþægja fyrir líf Ísraelsmanna sem leituðu fyrirgefningar Guðs.
10. Hvers vegna gat blóð dýra ekki veitt fullkomna fyrirgefningu en á hvað minntu fórnirnar sem færðar voru samkvæmt lögmálinu?
10 Þessi hugmynd er ekki fjarlæg kristninni. Páll postuli vísaði í þessi ákvæði sem Guð setti í lögmálinu er hann sagði: „Samkvæmt lögmálinu er það nálega allt, sem hreinsast með blóði, og eigi fæst fyrirgefning án úthellingar blóðs.“ (Hebreabréfið 9:22) Páll tók það skýrt fram að fórnirnar, sem krafist var, breyttu Ísraelsmönnum ekki í fullkomna og syndlausa menn. Hann skrifaði: „Með þessum fórnum er minnt á syndirnar ár hvert. Því að blóð nauta og hafra getur með engu móti numið burt syndir.“ (Hebreabréfið 10:1-4) Slíkar fórnir þjónuðu engu að síður sínum tilgangi. Þær minntu Ísraelsmenn á að þeir væru syndugir og að það þyrfti eitthvað meira til þess að þeir gætu fengið algera fyrirgefningu. En gat eitthvert blóð breitt fullkomlega yfir syndir manna fyrst blóðið, sem táknaði líf dýranna, dugði ekki til þess?
Lausn lífgjafans
11. Hvernig vitum við að blóð fórnardýra var fyrirmynd um eitthvað annað og meira?
11 Í rauninni vöktu ákvæði lögmálsins athygli á mun áhrifaríkari aðferð til að hrinda vilja Guðs í framkvæmd. Páll spurði: „Hvað er þá lögmálið?“ og svaraði síðan: „Vegna afbrotanna var því bætt við, þangað til afkvæmið kæmi, sem fyrirheitið hljóðaði um. Fyrir umsýslan engla er það til orðið, fyrir tilstilli meðalgangara [Móse].“ (Galatabréfið 3:19) Svipað kemur fram hjá Páli annars staðar þar sem hann segir: „Lögmálið geymir aðeins skugga hins góða, sem er í vændum, ekki skýra mynd þess.“ — Hebreabréfið 10:1.
12. Hvernig sjáum við fyrirætlun Guðs varðandi blóðið opinberast?
12 Svo að við drögum saman það sem fram er komið gaf Guð þau fyrirmæli á dögum Nóa að menn mættu borða kjöt til að viðhalda lífinu en blóðið máttu þeir ekki borða. Síðar sagði hann að ‚líf líkamans væri í blóðinu‘. Hann ákvað að líta á blóð sem tákn lífsins og sagði: „Ég hefi gefið yður [blóð] á altarið, til þess að með því sé friðþægt fyrir yður.“ En fyrirætlun Guðs átti eftir að opinberast enn skýrar og stórkostlegar. Lögmálið var skuggi hins góða sem var í vændum. Hvað var það?
13. Af hverju var dauði Jesú mikilvægur?
13 Veruleikinn var fólginn í dauða Jesú Krists. Jesús var pyndaður og líflátinn á kvalastaur eins og þú veist. Hann dó sem glæpamaður. Páll skrifaði: „Meðan vér enn vorum óstyrkir, dó Kristur á settum tíma fyrir óguðlega. . . . Guð auðsýnir kærleika sinn til vor, þar sem Kristur er fyrir oss dáinn meðan vér enn vorum í syndum vorum.“ (Rómverjabréfið 5:6, 8) Með dauða sínum greiddi Kristur lausnargjald fyrir syndir okkar. Lausnargjaldið er kjarninn í boðskap kristninnar. (Matteus 20:28; Jóhannes 3:16; 1. Korintubréf 15:3; 1. Tímóteusarbréf 2:6) Hvað kemur þetta lífi og blóði við og hvernig snertir það líf þitt?
14, 15. (a) Hvernig leggja sumar biblíuþýðingar áherslu á dauða Jesú í Efesusbréfinu 1:7? (b) Hvað gæti okkur yfirsést í Efesusbréfinu 1:7?
14 Sum trúfélög leggja mikla áherslu á dauða Jesú og áhangendur þeirra segja gjarnan: „Jesús dó fyrir mig.“ Skoðum hvernig ýmsar biblíuþýðingar orða Efesusbréfið 1:7: „Það er í honum og með dauða hans sem við eigum frelsun, það er að segja lausn undan afbrotum okkar.“ (The American Bible, Frank Scheil Ballentine, 1902) „Með dauða Krists erum við frelsuð og fáum fyrirgefningu synda okkar.“ (Today’s English Version, 1966) „Það er í Kristi og fyrir hann og fórn hans sem við erum frelsuð, og frelsunin merkir fyrirgefningu syndanna.“ (The New Testament, William Barclay, 1969) „Það er með dauða Krists sem syndir okkar eru fyrirgefnar og við fáum lausn.“ (The Translator’s New Testament, 1973) Í þessum þýðingum er lögð áhersla á dauða Jesú eins og sjá má. En einhverjum er kannski spurn hvort það sé nokkuð athugavert við þessar þýðingar þar sem dauði Jesú er mjög mikilvægur.
15 Ef við hefðum þessar þýðingar að leiðarljósi gæti okkur yfirsést mjög mikilvægt atriði og það gæti takmarkað skilning okkar á boðskap Biblíunnar. Í þessum þýðingum kemur ekki fram að í frumtexta Efesusbréfsins 1:7 stendur grískt orð sem merkir ‚blóð‘. Margar biblíuþýðingar, til dæmis sú íslenska frá 1981, fara nær frumtextanum og segja: „Í honum, fyrir hans blóð eigum vér endurlausnina og fyrirgefningu afbrota vorra. Svo auðug er náð hans.“ — Vers 7, 8.
16. Hvað ættu orðin „hans blóð“ að segja okkur?
16 Orðin „hans blóð“ eru auðug að merkingu og ættu að segja okkur margt. Það var ekki nóg að einhver dæi, ekki einu sinni hinn fullkomni Jesús. Hann uppfyllti það sem lögmálið fyrirmyndaði, einkum það sem gert var á friðþægingardeginum. Þá var fórnað vissum dýrum eins og lögmálið kvað á um. Síðan fór æðsti presturinn með hluta af blóði þeirra inn í hið allrahelgasta í tjaldbúðinni eða musterinu og afhenti það Guði rétt eins og hann stæði frammi fyrir honum. — 2. Mósebók 25:22; 3. Mósebók 16:2-19.
17. Hvernig uppfyllti Jesús það sem friðþægingardagurinn fyrirmyndaði?
17 Jesús uppfyllti það sem friðþægingardagurinn fyrirmyndaði eins og Páll bendir á. Fyrst nefnir hann að æðsti presturinn í Ísrael hafi gengið inn í hið allrahelgasta einu sinni á ári með blóð sem hann bar fram ‚vegna sjálfs sín og fyrir syndir lýðsins sem drýgðar höfðu verið af vangá‘. (Hebreabréfið 9:6, 7) Í samræmi við þessa fyrirmynd gekk Jesús inn í sjálfan himininn eftir að hafa verið reistur upp sem andi. Og þar sem hann var andi og hafði ekki líkama af holdi og blóði gat hann gengið ‚fyrir auglit Guðs vor vegna‘. Hvað bar hann fram fyrir Guð? Það var ekki áþreifanlegt en mjög þýðingarmikið engu að síður. Páll heldur áfram: „Kristur er kominn sem æðsti prestur . . . Ekki fór hann með blóð hafra og kálfa, heldur með eigið blóð, inn í hið heilaga í eitt skipti fyrir öll og aflaði eilífrar lausnar. Ef blóð hafra og nauta . . . helgar til ytri hreinleika, hve miklu fremur mun þá blóð Krists hreinsa samvisku vora frá dauðum verkum, til að þjóna Guði lifanda, þar sem Kristur fyrir eilífan anda bar fram sjálfan sig sem lýtalausa fórn fyrir Guði.“ Já, Jesús færði Guði andvirði lausnarblóðs síns. — Hebreabréfið 9:11-14, 24, 28; 10:11-14; 1. Pétursbréf 3:18.
18. Hvers vegna ættu orð Biblíunnar um blóð að skipta miklu máli fyrir kristna menn nú á tímum?
18 Þessi sannleikur frá Guði gerir okkur kleift að meðtaka hve mikilfenglegt það er sem Biblían segir um blóð — hvers vegna Guð lítur það þeim augum sem hann gerir, hvernig við ættum að líta á það og hvers vegna við ættum að virða þær hömlur sem Guð setur á notkun blóðs. Þú rekst á mörg dæmi í Grísku ritningunum þar sem minnst er á blóð Krists. (Sjá rammagrein.) Þau sýna skýrt og greinilega að kristnir menn eiga að trúa á blóð Jesú. (Rómverjabréfið 3:25) Það er einungis ‚með úthelltu blóði‘ Jesú sem við getum hlotið fyrirgefningu og átt frið við Guð. (Kólossubréfið 1:20) Þannig er staða þeirra sem Jesús gerði sérstakan sáttmála við um að ríkja með sér á himnum. (Lúkas 22:20, 28-30; 1. Korintubréf 11:25; Hebreabréfið 13:20) Hið sama er að segja um ‚múginn mikla‘ en hann á það í vændum að lifa af ‚þrenginguna miklu‘ og hljóta eilíft líf í paradís á jörð. Í táknrænum skilningi hefur þessi mikli fjöldi ‚þvegið skikkjur sínar í blóði lambsins‘. — Opinberunarbókin 7:9, 14.
19, 20. (a) Hvers vegna ákvað Guð að setja því skorður hvernig nota mætti blóð og hvernig ættum við að líta á það? (b) Hvað ætti okkur að langa til að vita?
19 Ljóst er að blóð hefur sérstaka þýðingu í augum Guðs. Það ætti líka að hafa sérstakt gildi í augum okkar. Skaparinn, sem lætur sér mjög annt um lífið, hefur þann rétt að setja því skorður hvað menn mega gera við blóð. Svo annt er honum um líf okkar að hann ákvað að það mætti aðeins nota blóð á einn afar mikilvægan hátt sem gefur mönnum þann möguleika að lifa að eilífu. Þarna kemur dýrmætt blóð Jesú til skjalanna. Við getum verið Jehóva Guði innilega þakklát fyrir að hafa gert okkur gott með því að nota blóð — blóð Jesú — okkur til bjargar. Og við megum vera Jesú innilega þakklát fyrir að úthella blóði sínu að fórn fyrir okkur. Við getum vissulega tekið undir með Jóhannesi postula er hann sagði: „Hann elskar oss og leysti oss frá syndum vorum með blóði sínu. Og hann gjörði oss að konungsríki og prestum, Guði sínum og föður til handa. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.“ — Opinberunarbókin 1:5, 6.
20 Okkar alvitri og algóði skapari hafði lengi ætlað honum þetta björgunarhlutverk. Við gætum því spurt hvaða áhrif þetta ætti að hafa á atferli okkar og ákvarðanir. Það er efni næstu greinar.
Hvert er svarið?
• Hvað má læra um afstöðu Guðs til blóðs af frásögunum af Abel og Nóa?
• Hvaða hömlur setti Guð í lögmálinu á notkun blóðs og hvers vegna?
• Hvernig uppfyllti Jesús það sem friðþægingardagurinn fyrirmyndaði?
• Hvernig getur blóð Jesú bjargað lífi okkar?
[Rammi á blaðsíðu 22]
BLÓÐ HVERS BJARGAR MANNSLÍFUM?
„Hafið gát á sjálfum yður og allri hjörðinni, sem heilagur andi fól yður til umsjónar. Verið hirðar Guðs kirkju, sem hann hefur unnið sér með sínu eigin blóði [„blóði sonar síns“, NW].“ — Postulasagan 20:28.
„Þar sem vér nú erum réttlættir fyrir blóð hans, því fremur mun hann frelsa oss frá reiðinni.“ — Rómverjabréfið 5:9.
„Þér voruð . . . vonlausir og guðvana í heiminum. Nú þar á móti eruð þér, sem eitt sinn voruð fjarlægir, orðnir nálægir í Kristi, fyrir blóð hans.“ — Efesusbréfið 2:12, 13.
„Í honum þóknaðist Guði að láta alla fyllingu sína búa og láta hann koma öllu í sátt við sig, öllu bæði á jörðu og himnum, með því að semja frið með blóði sínu úthelltu á krossi [„kvalastaur“, NW].“ — Kólossubréfið 1:19, 20.
„Vér megum nú, bræður, fyrir Jesú blóð með djörfung ganga inn í hið heilaga.“ — Hebreabréfið 10:19.
„Þér voruð eigi leystir með hverfulum hlutum . . . frá fánýtri hegðun yðar, er þér höfðuð að erfðum tekið frá feðrum yðar, heldur með blóði hins lýtalausa og óflekkaða lambs, með dýrmætu blóði Krists.“ — 1. Pétursbréf 1:18, 19.
„Ef vér göngum í ljósinu, eins og hann er sjálfur í ljósinu, þá höfum vér samfélag hver við annan og blóð Jesú, sonar hans, hreinsar oss af allri synd.“ — 1. Jóhannesarbréf 1:7.
„Verður ert þú að taka við bókinni og ljúka upp innsiglum hennar, því að þér var slátrað og þú keyptir menn Guði til handa með blóði þínu af sérhverri kynkvísl og tungu, lýð og þjóð.“ — Opinberunarbókin 5:9.
„Niður hefur verið varpað kæranda bræðra vorra . . . Og þeir hafa sigrað hann fyrir blóð lambsins og fyrir orð vitnisburðar síns.“ — Opinberunarbókin 12:10, 11.
[Mynd á blaðsíðu 20]
Guð notaði lögmálið til að sýna fram á að hægt væri að nota blóð til syndafyrirgefningar.
[Mynd á blaðsíðu 21]
Blóð Jesú bjargar fjölda mannslífa.