Englar og áhrif þeirra á okkur
DANÍEL spámaður sá einu sinni englasveitir Guðs í sýn. Hann lýsir sýninni svo: „Þúsundir þúsunda [engla] þjónuðu [Guði] og tíþúsundir tíþúsunda stóðu frammi fyrir honum.“ (Daníel 7:10) Í þessu versi fáum við upplýsingar um hvers vegna Guð skapaði englana. Þeir eiga að þjóna honum og eru alltaf reiðubúnir að fylgja fyrirmælum hans.
Guð notar engla til að vinna ýmis verk sem tengjast mönnunum. Við skulum skoða hvernig hann notar þá til að styrkja og vernda þjóna sína á jörð, til að flytja mönnum boð og til að fullnægja dómi yfir óguðlegum mönnum.
Englar styrkja og vernda
Andaverurnar á himnum urðu vitni að sköpun jarðar og fyrstu mannanna og hafa alltaf haft brennandi áhuga á mannkyninu. Áður en Jesús Kristur kom til jarðar talaði hann sem persónugervingur viskunnar og sagðist hafa „yndi [sitt] af mannanna börnum“. (Orðskviðirnir 8:31) Og Biblían upplýsir að ‚englana fýsi jafnvel að skyggnast inn í‘ það sem spámönnum Guðs hefur verið opinberað um Krist og framtíðina. — 1. Pétursbréf 1:11, 12.
Tímar liðu og englarnir horfðu upp á það hvernig meirihluti manna kaus að þjóna ekki ástríkum skapara sínum. Það hlýtur að hafa hryggt trúa engla Guðs. Á hinn bóginn verður „fögnuður með englum“ í hvert sinn sem syndari iðrast og snýr aftur til Jehóva. (Lúkas 15:10) Englunum er ákaflega annt um velferð þeirra sem þjóna Jehóva Guði og hann hefur margsinnis notað þá til að vernda og styrkja trúa þjóna sína á jörðinni. (Hebreabréfið 1:14) Lítum á nokkur dæmi.
Tveir englar fylgdu hinum réttláta Lot og dætrum hans út af svæðinu þannig að þau björguðust þegar Sódómu og Gómorru var eytt vegna illsku borgarbúa.a (1. Mósebók 19:1, 15-26) Öldum síðar var Daníel spámanni kastað í ljónagryfju en varð ekki meint af. Hvers vegna? „Guð minn sendi engil sinn og hann lokaði munni ljónanna,“ sagði hann. (Daníel 6:23) Englar studdu Jesú um þær mundir sem hann hóf þjónustu sína á jörð. (Markús 1:13) Og skömmu áður en hann dó birtist honum engill „sem styrkti hann“. (Lúkas 22:43) Það hlýtur að hafa verið mikil blessun fyrir Jesú að englar skyldu styðja hann og styrkja á þessum örlagaríku stundum ævinnar. Og því má bæta við að engill leysti Pétur postula einu sinni úr fangelsi. — Postulasagan 12:6-11.
Halda englar verndarhendi yfir okkur nú á dögum? Ef við tilbiðjum Jehóva í samræmi við orð hans er því lofað í Biblíunni að voldugir, ósýnilegir englar hans verndi okkur. Biblían segir: „Engill Drottins setur vörð kringum þá er óttast hann, og frelsar þá.“ — Sálmur 34:8.
Við verðum þó að gera okkur grein fyrir því að englar hafa fyrst og fremst það hlutverk að þjóna Guði en ekki mönnum. (Sálmur 103:20, 21) Þeir fylgja fyrirmælum Guðs en ekki boðum eða tilmælum manna. Þess vegna eigum við að ákalla Jehóva Guð en ekki englana þegar við erum hjálparþurfi. (Matteus 26:53) Þar sem við sjáum ekki englana getum við auðvitað ekki fullyrt neitt um það hversu mikið Guð notar þá til að hjálpa fólki við hinar ýmsu aðstæður. Hitt vitum við að Jehóva sýnir sig „máttkan þeim til hjálpar, sem eru heils hugar við hann“. (2. Kroníkubók 16:9; Sálmur 91:11) Og því er jafnframt lofað að „ef vér biðjum um eitthvað eftir hans vilja, þá heyrir hann oss“. — 1. Jóhannesarbréf 5:14.
Í Biblíunni kemur einnig fram að okkur beri að beina bænum okkar og tilbeiðslu til Guðs og einskis annars. (2. Mósebók 20:3-5; Sálmur 5:2, 3; Matteus 6:9) Trúir englar Guðs hvetja okkur til þess. Jóhannes postuli reyndi einu sinni að tilbiðja engil en engillinn ávítaði hann og sagði: „Varastu þetta! . . . Tilbið þú Guð.“ — Opinberunarbókin 19:10.
Englar flytja boðskap Guðs
Orðið „engill“ merkir ‚sendiboði‘ og það lýsir því hlutverki engla að flytja boð frá Guði til manna. Lítum á dæmi: „Gabríel engill [var] sendur frá Guði til borgar í Galíleu, sem heitir Nasaret.“ Tilefnið var að tilkynna ungri konu sem hét María að hún myndi verða þunguð, þótt hún væri mey, og ala son sem skyldi heita Jesús. (Lúkas 1:26-31) Engill var sendur til fjárhirða úti í haga til að upplýsa þá um að „Kristur Drottinn“ væri fæddur. (Lúkas 2:8-11) Og englar fluttu Abraham, Móse, Jesú og fleiri biblíupersónum boðskap frá Guði. — 1. Mósebók 18:1-5, 10; 2. Mósebók 3:1, 2; Lúkas 22:39-43.
Hvernig gegna englar hlutverki sendiboða nú á dögum? Jesús sagði fyrir að fylgjendur sínir myndu vinna ákveðið starf áður en núverandi heimskerfi liði undir lok. Hann sagði: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:3, 14) Á hverju ári nota Vottar Jehóva meira en einn milljarð klukkustunda í að boða fagnaðarerindið um ríki Guðs. En vissirðu að englar taka líka þátt í því? Jóhannes postuli minnist á sýn sem hann sá og segir: „Ég sá annan engil. . . . Hann hélt á eilífum fagnaðarboðskap, til að boða þeim, sem á jörðunni búa, og sérhverri þjóð og kynkvísl, tungu og lýð.“ (Opinberunarbókin 14:6, 7) Þessi vers lýsa helsta starfinu sem englar vinna í þágu manna nú á tímum.
Vottar Jehóva sjá þess merki að englar leiðbeini þeim þegar þeir boða fagnaðarerindið hús úr húsi. Oft hitta þeir fólk sem var nýbúið að biðja til Guðs um að fá hjálp til að skilja vilja hans. Svo er leiðsögn englanna og starfi vottanna að þakka að hundruð þúsunda manna kynnast Jehóva ár hvert. Við vonum að þú njótir góðs af því björgunarstarfi sem þeir vinna undir handleiðslu engla.
Englar fullnægja dómi Guðs
Englar hafa ekki umboð til að dæma mennina en koma þó við sögu þegar dómum Guðs er fullnægt. (Jóhannes 5:22; Hebreabréfið 12:22, 23) Oft fullnægðu þeir dómum Guðs forðum daga. Til dæmis notaði hann engla í baráttu sinni gegn Egyptum meðan Ísraelsmenn voru í ánauð. (Sálmur 78:49, NW ) Og á einni nóttu banaði „engill Drottins“ 185.000 hermönnum sem ógnuðu þjóð Guðs. — 2. Konungabók 19:35.
Englarnir munu líka fullnægja dómi Guðs í náinni framtíð. Þá mun „Jesús opinberast af himni með englum máttar síns. Hann kemur í logandi eldi og lætur hegningu koma yfir þá, sem þekkja ekki Guð, og yfir þá, sem hlýða ekki fagnaðarerindinu.“ (2. Þessaloníkubréf 1:7, 8) Þessi dómur kemur þó aðeins niður á þeim sem taka ekki við boðskapnum sem er prédikaður núna með stuðningi englanna. Þeim sem leita Guðs og fara eftir Biblíunni verður þá ekkert að meini. — Sefanía 2:3.
Við getum verið þakklát fyrir að hinir trúföstu englar skuli alltaf framfylgja fyrirmælum Guðs. Hann notar þá til að vernda og styðja dygga þjóna sína á jörðinni. Þetta er ákaflega hughreystandi vegna þess að til eru hættulegar andaverur sem vilja gera okkur mein. Þær eru kallaðar illir andar.
Hverjir eru illu andarnir?
Næstu 15 aldirnar eftir að Satan tældi Evu í Eden horfðu englar Guðs upp á það hvernig honum tókst að gera alla menn fráhverfa Guði, ef frá eru taldir fáeinir trúfastir menn á borð við Abel, Enok og Nóa. (1. Mósebók 3:1-7; Hebreabréfið 11:4, 5, 7) Sumir af englunum snerust líka á sveif með Satan. Biblían kallar þá andana sem óhlýðnuðust „á dögum Nóa“. (1. Pétursbréf 3:19, 20) Hvernig kom óhlýðni þeirra fram?
Ótiltekinn fjöldi engla gerði uppreisn á dögum Nóa. Þeir yfirgáfu himneska fjölskyldu Guðs, komu til jarðar og holdguðust. Ástæðan var sú að þeir höfðu fengið löngun til að eiga kynmök við konur. Þeim fæddust börn sem urðu risar að vexti og miklir ofbeldismenn. Jafnframt var „illska mannsins . . . mikil á jörðinni og . . . allar hugrenningar hjarta hans voru ekki annað en illska alla daga“. En Jehóva Guð lét ekki viðgangast að mannkynið héldi áfram að spillast. Hann lét koma flóð mikið sem náði um alla jörðina þar sem allir óguðlegir menn tortímdust ásamt risunum. Einu mennirnir, sem lifðu, voru trúir þjónar Guðs. — 1. Mósebók 6:1-7, 17; 7:23.
Englarnir, sem höfðu gert uppreisn, fórust ekki í flóðinu. Þeir afholdguðust og sneru aftur yfir á andlega tilverusviðið og eru þaðan í frá kallaðir illir andar. Þeir tóku afstöðu með Satan en hann er kallaður ‚höfðingi illra anda‘. (Matteus 12:24-27) Þeir girnast tilbeiðslu mannanna rétt eins og höfðingi þeirra.
Illu andarnir eru hættulegir en við þurfum ekki að óttast þá. Máttur þeirra er takmarkaður. Þegar óhlýðnu englarnir sneru aftur til himna fengu þeir ekki inngöngu í trúfasta englafjölskyldu Guðs. Guð hætti með öllu að upplýsa þá um andleg málefni. Þeir áttu sér enga framtíðarvon heldur var þeim gert að búa við andlegt myrkur sem Biblían líkir við undirdjúp. (2. Pétursbréf 2:4) Jehóva geymir þá þar í „ævarandi fjötrum“ þannig að þeir eru í andlegu niðamyrkri. Þeir geta ekki lengur holdgast í mannsmynd. — Júdasarbréfið 6.
Hvað ættirðu að gera?
Hafa illu andarnir enn þá áhrif á mennina? Já, og þeir nota ýmiss konar „vélabrögð“ rétt eins og höfðingi þeirra, Satan djöfullinn. (Efesusbréfið 6:11, 12) Við getum hins vegar veitt þeim mótstöðu ef við notfærum okkur ráðleggingar Biblíunnar. Og þeir sem elska Guð njóta verndar voldugra engla.
Það er ákaflega mikilvægt fyrir hvern og einn að kynna sér vel kröfur Guðs, sem koma fram í Biblíunni, og fara eftir þeim. Þú getur fengið aðstoð við að kynna þér kenningar Biblíunnar með því að setja þig í samband við votta Jehóva í þínu byggðarlagi eða við útgefendur þessa tímarits. Vottar Jehóva eru meira en fúsir til að aðstoða þig endurgjaldslaust við biblíunám á tíma sem þér hentar.
[Neðanmáls]
a Í frásögnum Biblíunnar er englum lýst sem karlmönnum. Þeir birtust mönnum alltaf í karlmannslíki.
[Rammi á blaðsíðu 6]
SKIPULAG ENGLASVEITANNA
Jehóva skipuleggur hina miklu englafjölskyldu sem hér segir:
Voldugastur og máttugastur er Míkael höfuðengill, það er að segja Jesús Kristur. (1. Þessaloníkubréf 4:16; Júdasarbréfið 9) Serafar, kerúbar og aðrir englar eru undir hann settir.
Serafar gegna afar hárri stöðu samkvæmt skipan Guðs. Þeir þjóna honum við hásæti hans og hafa meðal annars það verkefni að lýsa yfir heilagleika hans og halda þjónum hans andlega hreinum. — Jesaja 6:1-3, 6, 7.
Kerúbar þjóna við hásæti Jehóva og halda hátign hans á lofti. — Sálmur 80:2; 99:1; Esekíel 10:1, 2.
Aðrir englar eru fulltrúar Jehóva og framfylgja vilja hans.
[Mynd á blaðsíðu 4]
Englar fylgdu Lot og dætrum hans á öruggan stað.
[Mynd á blaðsíðu 5]
Jóhannes postuli reyndi að tilbiðja engil en engillinn sagði: „Varastu þetta!“
[Mynd á blaðsíðu 6]
Englar fullnægja dómi Guðs.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Nýtur þú góðs af boðuninni sem fer fram undir umsjón engla?