Líkjum eftir trú þeirra
Hún „geymdi allt þetta í hjarta sér og hugleiddi það“
MARÍA reyndi að koma sér betur fyrir á litla burðardýrinu sem hún hafði riðið á klukkutímum saman. Rétt á undan gekk Jósef jöfnum skrefum leiðina sem lá til Betlehem. María fann aftur að ófætt barnið hreyfði sig í kviði hennar.
Af frásögu Biblíunnar má sjá að langt var liðið á meðgönguna hjá Maríu. (Lúkas 2:5, 6) Þegar hjónin fóru fram hjá ökrunum hafa kannski einhverjir bændur litið upp frá akurstörfunum og velt fyrir sér af hverju kona í þessu ástandi væri á ferðalagi. Hvað varð til þess að María fór svona langt frá heimili sínu í Nasaret?
Þetta hófst allt mörgum mánuðum á undan þegar þessari ungu gyðingakonu var falið verkefni sem var alveg einstakt í mannkynssögunni. Hún átti að fæða barn sem myndi verða Messías, sonur Guðs. (Lúkas 1:35) Þegar fór að nálgast fæðinguna reyndist nauðsynlegt að fara í þessa ákveðnu ferð. Meðan á ferðinni stóð gekk María í gegnum ýmislegt sem reyndi á trú hennar. Skoðum hvað hjálpaði henni að standast.
Ferðin til Betlehem
Jósef og María voru ekki þau einu sem voru á ferðalagi. Ágústus keisari hafði nýlega gefið út tilskipun um að skrásetja ætti alla í landinu. Fólk átti að ferðast til heimaborgar sinnar til að láta skrá sig þar. Hvernig brást Jósef við þessu? Við lesum: „Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs.“ — Lúkas 2:1-4.
Það var engin tilviljun að keisarinn gaf þessa skipun á þessum tíma. Spádómur, sem skráður hafði verið sjö öldum áður, sagði fyrir að Messías myndi fæðast í Betlehem. Nú vildi svo til að aðeins 11 km frá Nasaret var bær sem hét Betlehem. En í spádóminum var tekið fram að Messías myndi fæðast í „Betlehem í Efrata“. (Míka 5:1) Vegurinn, sem liggur núna um hæðótt landslagið milli Nasaret og þessa litla bæjar í suðri, er um 150 km langur. Það var sú Betlehem sem Jósef átti að fara til því að hún var ættborg Davíðs konungs — og bæði Jósef og brúður hans komu af þeirri ætt.
Myndi María styðja ákvörðun Jósefs um að fylgja skipun keisarans? Ferðin myndi örugglega reynast henni erfið. Þetta var líklega í haustbyrjun þannig að búast mátti við smá rigningum um leið og þurrkatíminn var á enda. Auk þess segir að þau hafi farið „upp til Júdeu“ sem er vel við hæfi því að Betlehem stóð í 760 metra hæð. Það þýddi að þau þyrftu að ganga upp erfiðar brekkur í nokkra daga til að komast á leiðarenda. Þar sem langt var liðið á meðgönguna þyrfti María kannski að hvíla sig oft á leiðinni og því gæti ferðin tekið lengri tíma en venjulega. Líklega myndi ung kona eins og María helst af öllu vilja vera heima hjá sér á þessum tíma, þar sem hún hefði fjölskyldu og vini reiðubúna til að hjálpa sér þegar fæðingarhríðirnar myndu byrja. Hún hefur örugglega þurft mikið hugrekki til að fara í þessa ferð.
En Lúkas skrifar að Jósef hafi farið „að láta skrásetja sig ásamt Maríu“. (Lúkas 2:4, 5) Það hafði mikil áhrif á ákvörðun Maríu að nú var hún gift kona. (Matteus 1:24) Hún leit á eiginmann sinn sem höfuð sitt og vildi aðstoða hann með því að styðja þær ákvarðanir sem hann tók.a Hún sigraðist á þessari hugsanlegu trúarprófraun með því einfaldlega að hlýða.
Hvað annað gæti hafa hvatt Maríu til að hlýða? Vissi hún af spádóminum um að Betlehem ætti að verða fæðingarstaður Messíasar? Það er ekki tekið fram í Biblíunni. Við getum ekki útilokað þann möguleika því að trúarleiðtogarnir og jafnvel fólk almennt þekkti spádóminn. (Matteus 2:1-7; Jóhannes 7:40-42) Og María var ekki fáfróð um Ritningarnar. (Lúkas 1:46-55) En hvort sem María ákvað að fara í þetta ferðalag út af spádómi Jehóva, til að hlýða eiginmanni sínum eða yfirvöldum — eða vegna alls þessa — þá setti hún framúrskarandi fordæmi. Jehóva metur mikils auðmýkt og hlýðni bæði hjá körlum og konum. Nú á dögum, þegar undirgefni er oftast lítils metin, er María einstakt fordæmi fyrir trúfast fólk hvarvetna.
Fæðing Krists
María hlýtur að hafa andað léttar þegar hún kom auga á Betlehem. Kannski hafa hún og Jósef hugsað um sögu þessa litla bæjar á meðan þau gengu á brattann og fóru fram hjá ólífutrjálundunum, en ólífur eru tíndar í lok uppskerutímans. Þetta var lítilfjörlegur smábær rétt eins og Míka spámaður hafði sagt. En samt var þetta fæðingarstaður Bóasar, Naómí og Davíðs, allt meira en þúsund árum áður.
Þegar María og Jósef komu í bæinn var hann yfirfullur af fólki. Aðrir höfðu komið á undan þeim til að skrá sig þannig að það var ekkert pláss fyrir þau á gistihúsi bæjarins.b Þau höfðu ekki um annað að velja en að gista í gripahúsi um nóttina. Við getum rétt ímyndað okkur áhyggjur Jósefs þegar hann sá konu sína finna fyrir sársauka sem hún hafði aldrei fundið áður og magnaðist stöðugt. Af öllum stöðum byrjuðu fæðingarhríðirnar þarna.
Konur alls staðar í heiminum geta fundið til með Maríu. Um 4000 árum áður hafði Jehóva sagt fyrir að vegna erfðasyndarinnar myndu konur almennt finna til sársauka þegar þær fæddu börn sín. (1. Mósebók 3:16) Það er ekkert sem gefur til kynna að María hafi verið undanskilin þessu. Lúkas kýs að lýsa atburðarásinni ekkert nánar heldur segir einfaldlega: „Fæddi hún þá son sinn frumgetinn.“ (Lúkas 2:7) Já, frumburðurinn var kominn í heiminn. Þetta var fyrsta af mörgum börnum Maríu, en þau voru að minnsta kosti sjö alls. (Markús 6:3) Þetta barn yrði hinsvegar öðruvísi. Drengurinn var ekki bara frumburður Maríu heldur líka „frumburður allrar sköpunar“ og einkasonur Jehóva Guðs.— Kólossubréfið 1:15.
Þegar hér er komið við sögu lesum við þessi frægu orð: „[Hún] vafði hann reifum og lagði hann í jötu.“ (Lúkas 2:7) Jólaleikrit, málverk og uppstillingar víðs vegar um heiminn hafa klætt þennan atburð í væminn og óraunsæjan búning. En skoðum þetta í raunsæju ljósi. Jata er stallur eða stokkur sem fóðrið er sett í fyrir fénaðinn. Fjölskyldan dvaldist í gripahúsi, sem varla er hægt að segja að sé þekkt fyrir gott loft eða hreinlæti — hvorki þá né nú. Engir foreldrar myndu velja slíkan stað fyrir barnsfæðingu nema það væri ekkert annað í boði. Flestir foreldrar vilja börnum sínum allt það besta. Hve miklu fremur hafa þá María og Jósef viljað gera vel við son Guðs.
En þau fylltust ekki gremju vegna aðstæðna sinna heldur gerðu sitt besta miðað við það sem þau höfðu. Taktu til dæmis eftir að María hugsaði sjálf um ungbarnið, vafði það reifum svo því væri heitt og lagði það varlega niður í jötuna til að sofa. Hún lét ekki áhyggjur af aðstæðum sínum koma í veg fyrir að hún veitti barninu sínu það besta sem hún gat. Hún og Jósef vissu bæði að það sem skipti mestu máli væri að veita barninu andlega fræðslu. (5. Mósebók 6:6-8) Nú á dögum hafa skynsamir foreldrar svipaðar áherslur í lífinu þegar þeir ala börnin upp í þessum andlega snauða heimi.
Uppörvandi heimsókn
Skyndileg var friðurinn úti. Fjárhirðar komu inn í gripahúsið og vildu ákafir sjá fjölskylduna og ekki síst barnið. Þessir menn voru yfir sig spenntir og andlitin geisluðu af gleði. Þeir höfðu flýtt sér ofan af hæðunum þar sem þeir gættu hjarða sinna.c Þeir sögðu undrandi foreldrunum frá því sem gerst hafði. Meðan þeir stóðu næturvaktina úti í haga hafði engill skyndilega birst þeim. Dýrð Jehóva hafði leiftrað um allt og engill sagt þeim að Kristur, eða Messías, hefði fæðst rétt í þessu í Betlehem. Þeir myndu finna barnið í jötu vafið reifum. Síðan gerðist eitthvað enn tilkomumeira. Mikill kór engla birtist þeim og söng um dýrð Jehóva.
Það er engin furða að þessir auðmjúku menn hafi hraðað sér inn í Betlehem. Þeir hljóta að hafa verið glaðir að sjá nýfætt barnið liggja þarna, rétt eins og engillinn hafði lýst fyrir þeim. Þeir héldu þessum góðu fréttum ekki út af fyrir sig: „Þeir [skýrðu] frá því er þeim hafði verið sagt . . . og allir sem heyrðu undruðust það er hirðarnir sögðu þeim.“ (Lúkas 2:17, 18) Svo virðist sem trúarleiðtogar þess tíma hafi litið niður á fjárhirða. En Jehóva mat greinilega þessa auðmjúku og trúföstu menn mikils. En hvað fannst Maríu um þessa heimsókn?
María var örugglega mjög þreytt eftir fæðinguna en samt hlustaði hún einbeitt á hvert orð sem þeir sögðu. Og hún gerði meira en það: „María geymdi allt þetta í hjarta sér og hugleiddi það.“ (Lúkas 2:19) Þessi unga kona var greinilega hugsandi manneskja. Hún vissi að þessi skilaboð frá englinum höfðu mikla þýðingu. Jehóva, Guð hennar, vildi að hún vissi og skildi hver sonur hennar væri og hve mikilvægu hlutverki hann gegndi. Hún gerði því meira en aðeins að hlusta á skilaboðin. Hún geymdi þau í hjarta sér þannig að hún gæti hugleitt þau aftur og aftur á komandi mánuðum og árum. Þetta hefur sannarlega hjálpað henni að vera trúföst ævilangt.
Ætlar þú að fylgja fordæmi Maríu? Jehóva hefur gefið okkur mikilvæg andleg sannindi í orði sínu. En við höfum lítið gagn af þeim nema við gefum þeim gaum. Við gerum það með því að lesa Biblíuna að staðaldri — ekki bara sem bókmenntaverk heldur sem innblásið orð Guðs. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Síðan þurfum við, eins og María, að láta andlegu sannindin ná til hjartans og dýpka skilning okkar. Ef við hugleiðum það sem við lesum í Biblíunni og veltum fyrir okkur hvernig við getum fylgt ráðum Jehóva enn betur fær trú okkar þá næringu sem hún þarf til að vaxa.
Fleiri orð sem hún geymdi í hjarta sér
Þegar drengurinn var átta daga gamall létu María og Jósef umskera hann eins og Móselögin kváðu á um og gáfu honum nafnið Jesús eins og þeim hafði verið sagt að gera. (Lúkas 1:31) Þegar 40 dagar voru liðnir frá fæðingunni fóru þau með hann í musterið í Jerúsalem að færa hreinsunarfórn en borgin var aðeins nokkra kílómetra frá Betlehem. Lögmálið heimilaði efnaminna fólki að færa tvær turtildúfur eða tvær dúfur að fórn og það var einmitt það sem þau gerðu. Ef þeim hefur fundist skammarlegt að færa ekki hrút og turtildúfu eins og aðrir foreldrar, sem höfðu efni á því, hafa þau lagt allar slíkar tilfinningar til hliðar. En burtséð frá því fengu þau mikla uppörvun og hvatningu meðan þau voru í musterinu. — Lúkas 2:21-24.
Aldraður maður að nafni Símeon kom til þeirra og sagði ýmislegt við Maríu sem hún geymdi í hjarta sér. Honum hafði verið lofað að hann fengi að sjá Messías áður en hann dæi og heilagur andi Jehóva gaf honum til kynna að barnið væri hinn fyrirheitni frelsari. Símeon varaði Maríu líka við sársaukanum sem hún ætti eftir að upplifa seinna meir. Hann sagði að henni myndi líða eins og hún væri sverði níst. (Lúkas 2:25-35) Spádómsorð hans hafa ef til vill hjálpað Maríu þegar þessi erfiði tími rann upp meira en þrem áratugum seinna. Eftir að Símeon var búinn að ljúka máli sínu kom Anna spákona auga á Jesú og byrjaði að segja öllum sem biðu eftir frelsun Jerúsalem frá honum. — Lúkas 2:36-38.
Það var mjög skynsamlegt af Jósef og Maríu að fara með barnið sitt í musteri Jehóva í Jerúsalem. Þannig komu þau syni sínum inn á lífsbraut sannleikans og eftir það mætti hann trúfastlega í musteri Jehóva. Þegar þau voru þar gáfu þau í samræmi við aðstæður sínar og fengu uppörvandi orð og fræðslu. María hefur vafalaust farið frá musterinu með sterkari trú og hjartað fullt af andlegum sannindum til að hugleiða og deila með öðrum.
Það er frábært að sjá foreldra nú á dögum fylgja þessu fordæmi. Á meðal votta Jehóva koma foreldrar trúfastlega með börnin sín með sér á safnaðarsamkomur. Þessir foreldrar gefa það sem þeir geta og veita trúsystkinum sínum uppörvun og hvatningu með orðum sínum. Og þeir fara heim sterkari, ánægðari og hafa frá mörgu góðu að segja. Þú ert velkominn að koma á samkomur þeirra. Ef þú gerir það muntu finna, líkt og María, að trú þín styrkist.
[Neðanmáls]
a Taktu eftir muninum á þessu atviki og lýsingunni á annarri ferð sem hún fór í áður: „María [tók] sig upp og fór“ að heimsækja Elísabetu. (Lúkas 1:39) Á þeim tíma var María trúlofuð Jósef en ekki gift honum og hefur því kannski farið án þess að hafa hann með í ráðum. En eftir að þau voru gift er ferðin, sem þau fóru í saman, eignuð Jósef en ekki Maríu.
b Það var venja í þá daga að bæir rækju gistihús fyrir ferðalanga og ferðamannalestir sem áttu leið hjá.
c Sú staðreynd að fjárhirðar skyldu vera úti með hjarðir sínar kemur heim og saman við tímatal Biblíunnar. Fæðing Krists átti sér ekki stað í desember þegar fé var haft í húsi nær heimilinu, heldur einhvern tíma snemma í október.
[Mynd á blaðsíðu 17]
Símeon fékk að sjá hinn fyrirheitna frelsara.