Hjálpaðu börnunum að standast álagið
BÖRNIN okkar eru undir miklum þrýstingi. Þau verða fyrir áhrifum frá andanum sem ríkir í vondum heimi Satans og þau þurfa að kljást við „æskunnar girndir“. (2. Tím. 2:22; 1. Jóh. 5:19) Og vegna þess að þau kappkosta að ,minnast skapara síns‘ þurfa þau að þola háð og jafnvel áreitni frá þeim sem eru á móti trú þeirra. (Préd. 12:1) Bróðir, sem heitir Vincent, minnist uppvaxtarára sinna og segir: „Ég varð fyrir stöðugu áreiti og yfirgangi vegna þess að ég var vottur og það var sífellt verið að reyna að fá mig til að slást. Þetta gekk oft svo langt að ég vildi ekki fara í skólann.“a
Auk þess að verða fyrir þrýstingi frá heiminum þurfa synir okkar og dætur einnig að berjast gegn lönguninni til að líkjast jafnöldrunum. „Það er ekki auðvelt að skera sig úr,“ segir Cathleen, 16 ára systir. Ungur bróðir, sem heitir Alan, segir: „Mér var oft boðið að fara út með skólafélögunum um helgar og mig langaði virkilega til þess.“ Einnig getur löngun til að taka þátt í íþróttum verið sterk og leitt til þess að krakkarnir lendi í slæmum félagsskap. „Ég elska íþróttir,“ segir ung systir sem heitir Tanya. „Þjálfararnir í skólanum voru alltaf að reyna að fá mig til spila með liðinu. Það var erfitt að neita því.“
Hvernig geturðu hjálpað börnunum að standast allt þetta álag? Jehóva hefur falið foreldrum það verkefni að leiðbeina börnum sínum. (Orðskv. 22:6; Ef. 6:4) Markmið guðhræddra foreldra er að glæða í hjörtum barnanna löngun til að hlýða Jehóva. (Orðskv. 6:20-23) Þá langar börnin til að standa gegn þrýstingi frá heiminum jafnvel þegar foreldrar þeirra eru ekki að fylgjast með.
Það er áskorun fyrir foreldra að sjá fyrir fjölskyldunni, ala upp börnin og taka þátt í safnaðarstarfinu — allt á sama tíma. Sumir þurfa að gera þetta þrátt fyrir mótstöðu frá vantrúuðum maka eða sem einstæðir foreldrar. Jehóva ætlast samt til þess að foreldrar gefi sér tíma til að kenna börnunum og aðstoða þau. Því er gott að spyrja sig hvernig sé hægt að hjálpa börnunum að standast hópþrýsting, freistingar og áreiti sem þau verða fyrir frá degi til dags.
Persónulegt samband við Jehóva
Unga fólkið okkar þarf fyrst og fremst að kynnast Jehóva sem raunverulegri persónu. Það þarf hjálp til að „sjá hinn ósýnilega“. (Hebr. 11:27) Vincent, sem áður var minnst á, rifjar upp hvernig foreldrar hans hjálpuðu honum að eignast persónulegt samband við Jehóva. Hann segir: „Þau kenndu mér hversu mikilvæg bænin er. Ég man eftir því að ég byrjaði mjög ungur að biðja til Jehóva á hverju kvöldi áður en ég fór að sofa. Jehóva var mér raunverulegur.“ Biður þú með börnum þínum? Hví ekki að hlusta á hvað þau segja við Jehóva í bænum sínum? Endurtaka þau bara sömu þuluna í bænum sínum? Eða tjá þau hvað þeim finnst um Jehóva? Með því að hlusta á bænir þeirra getur þú áttað þig á hvort þau eru að mynda samband við Jehóva.
Biblíulestur er önnur mikilvæg leið fyrir ungt fólk til að nálgast Jehóva. Cathleen, sem áður var nefnd, segir: „Að lesa alla Biblíuna á unga aldri hjálpaði mér. Það fullvissaði mig um að ég hefði stuðning Jehóva jafnvel þó að einhver væri á móti mér.“ Hafa börnin þín sína eigin biblíulestraráætlun? — Sálm. 1:1-3; 77:13.
Börn bregðast að sönnu misjafnlega við leiðbeiningum foreldra. Framfarir þeirra í andlegum málum fara einnig eftir aldri. En án leiðsagnar verður erfitt fyrir hina yngri að kynnast Jehóva sem raunverulegri persónu. Foreldrar verða að brýna orð Guðs fyrir börnunum svo að þau viti hvaða viðhorf hann hefur til málanna, óháð því í hvaða aðstæðum þau lenda. (5. Mós. 6:6-9) Börnin þín verða að trúa því að Jehóva þyki vænt um þau.
Hvernig er hægt að eiga góð tjáskipti?
Tjáskipti eru önnur mikilvæg leið til að hjálpa börnunum. Að sjálfsögðu er meira fólgið í góðum tjáskiptum en að tala við börnin. Meðal annars þarf að spyrja spurninga og hlusta með þolinmæði á svör þeirra jafnvel þó að svörin reynist önnur en þú hefðir kosið. „Ég spyr spurninga þangað til að ég held að ég skilji hvað þeir eru að hugsa og takast á við,“ segir Anne sem á tvo stráka. Finnst börnum þínum að það sé hlustað á þau? Tanya, sem áður var vitnað í, segir: „Foreldrar mínir hlustuðu virkilega á mig og mundu eftir samræðum okkar. Þau þekktu bekkjarfélaga mína með nafni og spurðu um þá og ýmislegt annað sem við höfðum áður rætt.“ Til að eiga góð tjáskipti er nauðsynlegt að hlusta og muna um hvað er rætt.
Margar fjölskyldur hafa komist að raun um að matartíminn er gott tækifæri til að eiga góð tjáskipti. „Það var mikilvægt í okkar fjölskyldu að borða saman,“ segir Vincent. „Það var ætlast til þess að við værum við borðið með fjölskyldunni þegar það var hægt. Við máttum ekki horfa á sjónvarpið, hlusta á útvarpið eða lesa meðan við borðuðum. Oftast voru samræðurnar á léttum nótum og við áttum því rólega stund saman á hverjum degi. Það hjálpaði mér að takast á við álagið og glundroðann sem ég stóð frammi fyrir í skólanum.“ Hann bætir við: „Vegna þess að ég var vanur að ræða við foreldra mína á matmálstímum átti ég auðveldara með að tala við þá þegar ég þurfti á hjálp að halda með alvarlegri mál.“
Hversu oft í viku borðið þið fjölskyldan saman? Myndu breytingar á þessu sviði gefa þér tækifæri til að eiga meiri og betri tjáskipti við börnin þín?
Mikilvægt að æfa sig fyrir fram
Biblíunámskvöld fjölskyldunnar er kjörinn vettvangur til að hvetja alla í fjölskyldunni til að tjá sig frjálslega og hjálpa hinum yngri að takast á við ákveðin vandamál. Alan, sem áður var minnst á, segir: „Foreldrar mínir notuðu biblíunámskvöldið til að komast að því hvað okkur lægi á hjarta. Þau völdu viðfangsefni eftir því hvað við vorum að glíma við hverju sinni.“ Móðir Alans segir: „Við notuðum hluta af námstímanum til að æfa börnin. Þessir æfingartímar hjálpuðu þeim að læra hvernig þau gætu varið trú sína og sýnt öðrum fram á að hún væri sönn. Þetta gaf þeim sjálfstraustið sem þau þurftu til að standast álag sem þau urðu fyrir.
Þegar börnin verða fyrir hópþrýstingi er oft ekki nóg fyrir þau að segja bara nei og labba burt. Þau þurfa að geta svarað af hverju og af hverju ekki. Þau þurfa líka að finna að þau eru örugg með sig þegar þau verða fyrir háði vegna trúar sinnar. Ef þau eru ófær um að verja trú sína verður erfitt fyrir þau að taka afgerandi afstöðu með sannri tilbeiðslu. Ef þau æfa sig fyrir fram byggir það upp sjálfstraust þeirra.
Í rammagreininni á bls. 18 eru dæmi um aðstæður sem hægt væri að setja á svið á biblíunámskvöldi fjölskyldunnar. Gerðu æfingarnar raunverulegri með því að andmæla svörum barnanna. Ásamt slíkum æfingum mætti einnig skoða góðar fyrirmyndir úr Biblíunni og íhuga hvaða hagnýta lærdóm má draga af þeim. Svona þjálfun á heimilinu mun án efa undirbúa börnin þín svo þau geti staðist álagið sem þau verða fyrir í skólanum og annars staðar.
Er heimilið öruggt skjól?
Er heimili þitt þannig að börnin hlakka til að koma heim þegar skólinn er búinn? Ef heimilið er öruggt skjól mun það hjálpa börnunum að takast á við daglegt álag. Systir, sem starfar á Betel, segir: „Þegar ég var að alast upp skipti mig hvað mestu máli að heimili okkar væri öruggt skjól. Óháð því hversu slæmt ástandið varð í skólanum vissi ég að þegar ég kæmi heim yrði allt í góðu lagi.“ Hvernig er andrúmsloftið á þínu heimili? Einkennist það af „reiði, eigingirni [og] tvídrægni“ eða ,kærleika, gleði og friði‘? (Gal. 5:19-23) Ef það er oft ófriður á heimilinu, leggurðu þig fram um að komast að því hverju þarf að breyta til að heimili þitt geti verið öruggt skjól fyrir börnin?
Önnur leið til að hjálpa börnunum að standast álag er að taka frumkvæðið að því að sjá þeim fyrir uppbyggilegum félagsskap. Gætirðu til dæmis boðið einhverjum andlega sinnuðum bróður eða systur úr söfnuðinum að taka þátt í afþreyingu fjölskyldunnar? Eða gætir þú boðið farandhirði eða öðrum sem eru í fullu starfi upp á einfalda máltíð? Þekkir þú einhverja trúboða eða Betelíta sem börnin þín gætu vingast við, jafnvel bara með bréfaskriftum, tölvupósti eða stöku símtali? Slík sambönd geta hjálpað börnunum að halda sig á réttri braut og setja sér andleg markmið. Hugsaðu þér hversu góð áhrif Páll postuli hafði á Tímóteus þegar hann var ungur. (2. Tím. 1:13; 3:10) Náin tengsl hans við Pál hjálpuðu honum að einbeita sér að andlegum markmiðum. — 1. Kor. 4:17.
Hrósaðu börnunum
Jehóva er ánægður með að sjá ungt fólk taka afstöðu með því sem er rétt þrátt fyrir þrýstinginn frá heimi Satans. (Sálm. 147:11; Orðskv. 27:11) Þú fagnar eflaust líka þegar þú sérð unga fólkið taka viturlegar ákvarðanir. (Orðskv. 10:1) Láttu börnin vita hvað þér finnst um þau og sparaðu ekki að hrósa þeim innilega. Jehóva er foreldrum góð fyrirmynd. Þegar Jesús var skírður sagði Jehóva: „Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun.“ (Mark. 1:11) Faðirinn fullvissaði Jesú um kærleika sinn og það hlýtur að hafa styrkt hann mjög mikið til að takast á við þær mörgu áskorandir sem hann átti eftir að standa frammi fyrir. Að sama skapi skalt þú láta börnin vita að þú elskir þau og viðurkenna það sem þau gera vel.
Auðvitað geturðu ekki verndað börnin algerlega fyrir þrýstingi, áreitni eða háði. En þú getur verið þeim mikil hjálp. Hvernig? Hjálpaðu þeim að byggja upp persónulegt samband við Jehóva. Skapaðu andrúmsloft sem hvetur til uppbyggilegra samræðna. Farðu yfir hagnýtt efni á biblíunámskvöldi fjölskyldunnar og gerðu heimilið að öruggu skjóli. Þetta mun án efa hjálpa börnunum að standast allt álagið.
[Neðanmáls]
a Sumum nöfnum í greininni hefur verið breytt.
[Rammi/mynd á bls. 18]
ÆFING GETUR VERIÐ GAGNLEG
Hér eru nokkur dæmi um aðstæður sem unga fólgið getur lent í. Hví ekki að taka fyrir eitthvað af þessum dæmum á biblíunámskvöldi fjölskyldunnar?
▸ Þjálfari hvetur dóttur þína til að ganga í íþróttalið.
▸ Syni þínum er boðin sígaretta á leiðinni heim frá skólanum.
▸ Nokkrir strákar hóta að berja son þinn ef þeir sjá hann prédika aftur.
▸ Skólafélagi dóttur þinnar kemur til dyra þegar hún er að fara hús úr húsi í boðunarstarfinu.
▸ Dóttir þín er spurð í áheyrn bekkjarins hvers vegna Vottar Jehóva haldi ekki jól.
▸ Einn strákur er stöðugt að hæðast að syni þínum fyrir að vera vottur.
[Mynd á bls. 17]
Hafa börnin þín sína eigin biblíulestraráætlun?
[Mynd á bls. 19]
Býðurðu andlega sinnuðum einstaklingum að taka þátt í afþreyingu fjölskyldunnar?