„Verið hirðar þeirrar hjarðar sem Guð hefur falið ykkur“
„Verið hirðar þeirrar hjarðar sem Guð hefur falið ykkur. Gætið hennar ekki nauðugir heldur af fúsu geði.“ — 1. PÉT. 5:2.
1. Af hverju skrifaði Pétur fyrra bréf sitt?
PÉTUR postuli skrifaði fyrra bréfið sitt einhvern tíma áður en Neró tók að ofsækja kristna menn í Róm. Hann vildi styrkja trúsystkini sín. Óvinurinn Satan ,gekk um‘ og reyndi að tortíma kristnum mönnum. Til að geta staðið gegn honum þurftu þeir að ,vera algáðir‘ og ,beygja sig undir Guðs voldugu hönd‘. (1. Pét. 5:6, 8) Þeir þurftu líka að vera sameinaðir. Þeir gátu ekki leyft sér að ,bítast og eta hver annan upp‘ því að þá hefðu þeir getað ,tortímt hver öðrum‘. — Gal. 5:15.
2, 3. Við hvern eigum við í baráttu og um hvað er fjallað í þessari grein og þeirri næstu?
2 Við lifum við svipaðar aðstæður. Satan leitar færis að tortíma okkur. (Opinb. 12:12) Og fram undan er „sú mikla þrenging sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims“. (Matt. 24:21) Við þurfum að gæta þess, ekki síður en frumkristnir menn, að forðast innbyrðis erjur. Stundum þurfum við að fá hjálp safnaðaröldunganna til að gera það.
3 Við skulum nú kanna hvernig öldungar geta fengið enn meiri mætur á því verkefni að fá að gæta ,þeirrar hjarðar sem Guð hefur falið þeim‘. (1. Pét. 5:2) Síðan ræðum við hvernig rétt sé að bera sig að við hjarðgæsluna. Í næstu grein er síðan skoðað hvernig söfnuðurinn geti ,metið þá að verðleikum sem erfiða og veita honum forstöðu‘. (1. Þess. 5:12) Að kynna okkur þessi mál hjálpar okkur að standa gegn óvininum mikla, minnug þess að það er hann sem við eigum í baráttu við. — Ef. 6:12.
Gætið hjarðar Guðs
4, 5. Hvernig ættu öldungarnir að líta á hjörðina? Lýstu með dæmi.
4 Pétur hvatti öldungana í kristna söfnuðinum á fyrstu öld til að sjá hjörðina, sem þeim var trúað fyrir, sömu augum og Guð gerði. (Lestu 1. Pétursbréf 5:1, 2.) Þótt Pétur væri álitinn einn af máttarstólpum safnaðarins talaði hann ekki niður til annarra safnaðaröldunga heldur hvatti þá eins og jafningja. (Gal. 2:9) Hið stjórnandi ráð okkar tíma sýnir sama hugarfar og Pétur og hvetur safnaðaröldunga til að rækja vel þá miklu ábyrgð að gæta hjarðar Guðs.
5 Postulinn sagði í bréfi sínu að öldungarnir ættu að ,vera hirðar þeirrar hjarðar sem Guð hefði falið þeim‘. Það var ákaflega mikilvægt að þeir gerðu sér grein fyrir að hjörðin tilheyrði Jehóva og Jesú Kristi. Öldungarnir þurftu að gera skil á því hvernig þeir gættu sauða Guðs. Segjum sem svo að náinn vinur bæði þig að gæta barna sinna meðan hann væri fjarverandi. Myndirðu ekki annast þau vel og hugsa um að þau fengju að borða? Ef eitthvert þeirra veiktist myndirðu örugglega sjá um að það fengi viðeigandi læknishjálp. Öldungar safnaðarins eiga sömuleiðis að gæta safnaðar Guðs sem hann keypti með blóði sonar síns. (Post. 20:28) Þeir hafa hugfast að hver einasti sauður var keyptur með dýrmætu blóði Jesú Krists. Öldungarnir bera ábyrgð á hjörðinni svo að þeir næra hana, vernda og annast.
6. Hvað fólst í því að vera fjárhirðir forðum daga?
6 Veltum fyrir okkur hvað það fól í sér að vera fjárhirðir á biblíutímanum. Fjárhirðir þurfti að þola hitann að deginum og kuldann um nætur til að gæta hjarðarinnar. (1. Mós. 31:40) Hann setti sig jafnvel í lífshættu til að vernda sauðina. Fjárhirðirinn Davíð var enn ungur að árum þegar hann varði sauðina gegn villidýrum svo sem ljóni og bjarndýri. Hann sagðist hafa ,gripið í makkann á dýrinu og drepið það‘. (1. Sam. 17:34, 35) Hvílíkt hugrekki! Hann hlýtur að hafa verið býsna nærri gini villidýrsins. Engu að síður gerði hann allt sem hann gat til að bjarga sauðunum.
7. Hvernig geta öldungar í óeiginlegri merkingu rifið sauðinn úr gini Satans?
7 Safnaðaröldungar þurfa að verja sauðina gegn árásum Satans. Þeir geta þurft að sýna það hugrekki að rífa þá í óeiginlegri merkingu úr gini hans. Öldungarnir geta bjargað sauðinum með því að grípa í makkann á ljóninu ef svo má að orði komast. Þeir rökræða kannski við bræður sem vara sig ekki á freistingunum og eiga á hættu að falla í gildrur Satans. (Lestu Júdasarbréfið 22, 23.) Öldungarnir gera þetta auðvitað ekki án hjálpar Jehóva. Þeir fara mildum höndum um meiddan sauð, binda um sárin og nota orð Guðs eins og græðandi smyrsl.
8. Hvert beina öldungarnir hjörðinni og hvernig gera þeir það?
8 Fjárhirðir fann góða bithaga og vatnsból handa sauðunum. Öldungar beina hjörðinni sömuleiðis til safnaðarins og hvetja sauðina til að sækja samkomur reglulega svo að þeir fái „mat á réttum tíma“ og séu vel nærðir. (Matt. 24:45) Öldungarnir gætu þurft að gefa sér góðan tíma til að hjálpa þeim sem eru andlega vannærðir til að þiggja næringu frá orði Guðs. Sauður, sem hefur villst frá hjörðinni, reynir ef til vill að sameinast henni á ný. Í stað þess að tala niður til hans útskýra öldungarnir mildilega fyrir honum meginreglur Biblíunnar og benda á hvernig hann geti farið eftir þeim.
9, 10. Hvernig ættu öldungar að annast þá sem eiga við erfiðleika að stríða?
9 Til hvers konar læknis myndirðu helst leita ef þú værir veikur? Til læknis sem gæfi sér varla tíma til að hlusta á þig heldur skrifaði lyfseðil í flýti til að geta kallað á næsta sjúkling? Eða leitarðu frekar til læknis sem hlustar á þig, lýsir fyrir þér hvað gæti verið að og útlistar hugsanlega meðferð?
10 Öldungarnir ættu sömuleiðis að hlusta á þann sem á við erfiðleika að stríða. Þeir hjálpa honum að græða sárið með því að „smyrja hann með olíu í nafni Drottins“ eins og það er orðað. (Lestu Jakobsbréfið 5:14, 15.) Orð Guðs getur verið græðandi líkt og smyrslin frá Gíleað forðum daga. (Jer. 8:22; Esek. 34:16) Meginreglur Biblíunnar geta hjálpað þeim sem hafa misst fótanna að endurheimta jafnvægið í þjónustu Jehóva. Öldungarnir geta gert hinum sjúka gott með því að hlusta á hann og biðjast fyrir með honum.
Ekki nauðugir heldur af fúsu geði
11. Af hverju eru öldungarnir meira en fúsir til að gæta hjarðarinnar?
11 Þessu næst minnir Pétur öldungana á hvernig þeir eigi að sinna hjarðgæslunni og hvernig ekki. Þeir eiga ekki að gera það „nauðugir heldur af fúsu geði“. Af hverju eru öldungarnir meira en fúsir til að þjóna trúsystkinum sínum? Lítum á Pétur sem dæmi. Af hvaða hvötum gætti hann sauða Jesú og nærði þá? Það var fyrst og fremst af því að hann elskaði Drottin. (Jóh. 21:15-17) Það er af sömu ástæðu sem öldungarnir lifa „ekki framar sjálfum sér heldur honum sem fyrir þá er dáinn“. (2. Kor. 5:14, 15) Þessi kærleikur, ásamt því að þeir elska Guð og trúsystkini sín, er öldungunum hvöt til að þjóna hjörðinni og gefa henni af tíma sínum, kröftum og efnum. (Matt. 22:37-39) Þeir gefa af sjálfum sér, af fúsu geði en ekki nauðugir.
12. Í hvaða mæli gaf Páll postuli af sjálfum sér?
12 Í hvaða mæli ættu öldungarnir að gefa af sjálfum sér? Þegar þeir annast sauðina breyta þeir eftir Páli postula eins og hann breytti eftir Jesú. (1. Kor. 11:1) Páli og félögum hans þótti innilega vænt um trúsystkini sín í Þessaloníku og gáfu þeim fúslega ,ekki einungis fagnaðarerindi Guðs heldur og sitt eigið líf‘. Þeir voru mildir „eins og móðir sem hlúir að börnum sínum“. (1. Þess. 2:7, 8) Páll vissi mætavel hvernig móðir hugsar um barn sem hún er með á brjósti. Hún gerir hvað sem er fyrir það og vaknar fúslega um miðjar nætur til að gefa því.
13. Hvaða jafnvægi þurfa safnaðaröldungar að finna?
13 Öldungarnir þurfa að finna rétta jafnvægið milli þess að gæta hjarðarinnar og sinna skyldum sínum gagnvart fjölskyldunni. (1. Tím. 5:8) Þær stundir, sem þeir nota til að annast söfnuðinn, er dýrmætur tími sem þeir gætu ella notað til að vera með fjölskyldu sinni. Ein leið til að sameina þetta tvennt er að bjóða stundum öðrum að vera með í biblíunámi fjölskyldunnar. Masanao er safnaðaröldungur í Japan. Hann hefur árum saman boðið einhleypum trúsystkinum og ungu fólki, sem á ekki foreldra í trúnni, að vera með í fjölskyldunáminu. Sumir sem hann hefur hjálpað með þessum hætti hafa síðar orðið safnaðaröldungar og hafa líkt eftir góðu fordæmi hans.
Forðist gróðafíkn og gætið hjarðarinnar fúslega
14, 15. Af hverju ættu öldungar að varast gróðafíkn og hvernig geta þeir tekið Pál postula sér til fyrirmyndar?
14 Pétur hvatti einnig öldungana til að gæta hjarðarinnar „ekki af gróðafíkn heldur fúslega“. Starf öldunganna er töluvert tímafrekt en þeir ætlast samt ekki til þess að fá nokkuð greitt fyrir. Pétur taldi ástæðu til að vara samöldunga sína við því að annast hjörðina af „gróðafíkn“. Hættan er augljós þegar á það er litið að margir trúarleiðtogar ,Babýlonar hinnar miklu‘ lifa í munaði en sóknarbörnin búa mörg hver við sárustu fátækt. (Opinb. 18:2, 3) Það er ærin ástæða fyrir safnaðaröldunga til að vera á varðbergi gagnvart sérhverri tilhneigingu í þá átt.
15 Páll er safnaðaröldungum góð fyrirmynd. Hann var postuli og hefði getað verið kristnum mönnum í Þessaloníku „til þyngsla“. Hann gætti þess hins vegar að vera „ekki . . . upp á aðra kominn“ heldur „vann . . . með erfiði og striti nótt og dag“ til að forðast það. (2. Þess. 3:8) Margir safnaðaröldungar á okkar tímum, meðal annars þeir sem eru í farandstarfi, eru góð fyrirmynd að þessu leyti. Þeir kunna að meta gestrisni trúsystkina sinna en varast að vera nokkrum „til þyngsla“. — 1. Þess. 2:9.
16. Hvað merkir það að gæta hjarðarinnar fúslega?
16 Öldungarnir gæta hjarðarinnar „fúslega“. Það birtist í því að þeir eru fórnfúsir í þágu hjarðarinnar. Það merkir ekki að þeir reyni að þvinga aðra til að þjóna Jehóva. Kærleiksríkir öldungar hvetja aldrei til samkeppni í þjónustu Guðs. (Gal. 5:26) Öldungarnir virða og viðurkenna að hæfileikar og geta fólks er ólík. Þeir leggja sig fram um að hjálpa hverjum og einum að þjóna Jehóva með gleði.
Drottnið ekki yfir söfnuðinum heldur verið honum fyrirmynd
17, 18. (a) Af hverju áttu postularnir stundum erfitt með að vera auðmjúkir eins og Jesús hvatti til? (b) Hvaða lærdóm getum við dregið af röngu hugarfari postulanna?
17 Eins og fram hefur komið ættu öldungarnir að hafa hugfast að söfnuðurinn, sem þeir gæta, tilheyrir Guði en ekki sjálfum þeim. Þeir varast því að „drottna yfir söfnuðunum“. (Lestu 1. Pétursbréf 5:3.) Stundum sóttust postular Jesú eftir verkefnum af röngu tilefni. Þeir vildu láta á sér bera líkt og valdhafar þjóðanna. — Lestu Markús 10:42-45.
18 Bræður, sem sækjast eftir umsjónarstarfi, ættu að spyrja sig af hvaða hvötum þeir geri það. (1. Tím. 3:1) Þeir sem eru orðnir öldungar gætu kannski spurt sig í hreinskilni hvort þeir hafi löngun til að vera í áhrifastöðu eða láta á sér bera, rétt eins og sumir af postulunum. Fyrst postularnir áttu í erfiðleikum með þetta er ljóst að öldungar þurfa að varast þá útbreiddu tilhneigingu að vilja ráða yfir öðrum.
19. Hvað ættu öldungar að hafa hugfast þegar þeir taka á málum til að vernda hjörðina?
19 Stundum geta öldungarnir vissulega þurft að vera fastir fyrir, til dæmis til að vernda hjörðina gegn ,skæðum vörgum‘. (Post. 20:28-30) Páll sagði Títusi að „uppörva og vanda um með allri röggsemi“. (Tít. 2:15) En jafnvel þegar öldungar þurfa að taka á málum af festu reyna þeir að sýna tilhlýðilega virðingu þeim sem eiga hlut að máli. Þeir vita að það er yfirleitt áhrifaríkari leið að hvetja mildilega en að gagnrýna harkalega. Það er betur til þess fallið að höfða til hjartna fólks og hvetja það til að gera rétt.
20. Hvernig geta öldungar líkt eftir Jesú og verið öðrum góð fyrirmynd?
20 Hið góða fordæmi Krists er öldungum hvatning til að elska hjörðina. (Jóh. 13:12-15) Okkur hlýnar um hjartarætur þegar við lesum hvernig hann kenndi lærisveinunum þegar hann boðaði fagnaðarerindið og fræddi nýja fylgjendur. Hógværð hans snerti hjörtu þeirra og hvatti þá til að ,vera lítillátir og meta hver annan meira en sjálfa sig‘. (Fil. 2:3) Öldunga á okkar tímum langar einnig til að líkja eftir Jesú og vera „fyrirmynd hjarðarinnar“.
21. Hvaða umbun eiga öldungar í vændum?
21 Pétur lýkur leiðbeiningum sínum til öldunganna með því að nefna loforð um ókomna tíð. (Lestu 1. Pétursbréf 5:4.) Andasmurðir umsjónarmenn verða með Kristi á himnum og „öðlast þann dýrðarsveig sem aldrei fölnar“. Undirhirðar úr hópi ,annarra sauða‘ fá að gæta hjarðar Guðs á jörð undir stjórn ,hins æðsta hirðis‘. (Jóh. 10:16) Í næstu grein er rætt um hvernig allir í söfnuðinum geta stutt þá sem eru útnefndir til að fara með forystuna.
Til upprifjunar
• Af hverju var það við hæfi að Pétur skyldi hvetja samöldunga sína til að gæta hjarðar Guðs?
• Hvernig ættu öldungar að annast þá sem eru veikburða í trúnni?
• Af hvaða hvötum gæta öldungar hjarðar Guðs sem þeim er trúað fyrir?
[Mynd á bls. 21]
Öldungar á okkar tímum verða að gæta „sauðanna“, sem þeim er trúað fyrir, líkt og fjárhirðar gerðu forðum daga.