Notaðu orð Guðs – það er lifandi
„Orð Guðs er lifandi og kröftugt.“ – HEBR. 4:12.
1, 2. Hvaða verkefni fékk Jehóva Móse og hverju lofaði hann honum?
ÍMYNDAÐU þér að þú standir frammi fyrir valdamesta manni jarðar og talir fyrir munn þjóna Jehóva. Hvernig heldurðu að þér væri innanbrjósts? Þú værir sennilega kvíðinn, kjarklítill og taugaóstyrkur. Hvernig myndir þú undirbúa þig? Hvað gæti gefið orðum þínum meira vægi þegar þú talaðir sem fulltrúi hins alvalda Guðs?
2 Móse stóð einmitt í þessum sporum. Hann var „hógvær maður, hógværari en nokkur annar á jörðinni“ en Jehóva hafði sent hann til faraós til að bjarga þjóð hans frá þeirri kúgun og þrældómi sem hún bjó við í Egyptalandi. (4. Mós. 12:3) Það sýndi sig fljótlega að faraó var hrokafullur og ruddalegur í viðmóti. (2. Mós. 5:1, 2) En Móse átti að flytja honum þau fyrirmæli Jehóva að leyfa þrælunum, sem töldust í milljónum, að yfirgefa landið. Það er skiljanlegt að Móse skyldi spyrja Jehóva: „Hver er ég, að ég fari til faraós og leiði Ísraelsmenn út úr Egyptalandi?“ Móse hefur vafalaust fundist þetta verkefni vera sér ofviða. En Guð fullvissaði hann um að hann yrði ekki einn. „Ég mun vera með þér,“ sagði hann. – 2. Mós. 3:9-12.
3, 4. (a) Hvað óttaðist Móse? (b) Hvers vegna geturðu líklega sett þig í spor Móse?
3 Hvað óttaðist Móse? Greinilega að faraó myndi ekki taka á móti eða hlusta á fulltrúa Jehóva Guðs. Móse óttaðist líka að hans eigin þjóð myndi ekki trúa að Jehóva hefði falið honum það verkefni að leiða hana út úr Egyptalandi. Hann sagði því við Jehóva: „En ef þeir trúa mér ekki og hlusta ekki á mig, heldur segja: Drottinn hefur ekki birst þér.“ – 2. Mós. 3:15-18; 4:1.
4 Það er mjög lærdómsríkt fyrir okkur öll að íhuga svar Jehóva og þá atburði sem fylgdu í kjölfarið. Það er óvíst að þú þurfir nokkurn tíma að standa frammi fyrir hátt settum valdamanni. En hefur þér einhvern tíma fundist erfitt að tala um Guð og ríki hans við ósköp venjulegt fólk sem þú hittir? Ef svo er skaltu velta fyrir þér hvað megi læra af Móse og því sem hann upplifði.
„HVAÐ ERTU MEÐ Í HENDINNI?“
5. Hvað fékk Jehóva Móse í hendur og hvernig veitti það honum kjark? (Sjá mynd í upphafi greinar.)
5 Þegar Móse kvaðst óttast að verða ekki tekinn alvarlega bjó Guð hann undir það sem beið hans. Í frásögu 2. Mósebókar segir: „Þá sagði Drottinn: ,Hvað ertu með í hendinni?‘ ,Staf,‘ svaraði hann. Þá sagði Drottinn: ,Varpaðu honum til jarðar.‘ Móse varpaði stafnum til jarðar og varð hann að eiturslöngu og Móse hörfaði undan henni. Þá sagði Drottinn við Móse: ,Réttu út höndina og gríptu um halann á henni.‘ Hann rétti út höndina, tók um hann og varð hún þá aftur að staf í hendi hans. ,Þetta verður til þess að þeir geti trúað því að Drottinn ... hafi birst þér.‘“ (2. Mós. 4:2-5) Jehóva fékk Móse í hendur það sem þurfti til að sanna hvaðan boðskapurinn væri kominn. Í augum annarra var þetta ekkert annað en stafur en hann lifnaði vegna máttar Guðs. Þetta kraftaverk var ekki lítils virði því að það sannaði svo ekki varð um villst að Móse talaði í umboði Jehóva. Jehóva sagði honum: „Þú skalt taka þennan staf þér í hönd og gera jarteiknin með honum.“ (2. Mós. 4:17) Nú var Móse með sönnun fyrir mætti Guðs í höndum sér. Hann var fulltrúi hins sanna Guðs og gat gengið öruggur fram fyrir þjóð sína og faraó. – 2. Mós. 4:29-31; 7:8-13.
6. (a) Hvað ættum við að vera með í hendinni þegar við boðum fagnaðarerindið og hvers vegna? (b) Útskýrðu hvernig „orð Guðs er lifandi“ og á hvaða hátt það er „kröftugt“.
6 Það má spyrja okkur sömu spurningar þegar við segjum fólki frá boðskap Biblíunnar: „Hvað ertu með í hendinni?“ Iðulega erum við með Biblíuna í hendinni, tilbúin til að nota hana. Biblían er innblásið orð Jehóva þar sem hann talar til okkar þó að sumir líti á hana eins og hverja aðra bók. (2. Pét. 1:21) Hún hefur að geyma loforð hans um það sem gerist þegar ríki hans hefur tekið öll völd. Þess vegna gat Páll postuli skrifað: „Orð Guðs er lifandi og kröftugt.“ (Lestu Hebreabréfið 4:12.) Loforð Jehóva eru ekki í kyrrstöðu heldur eru þau öll lifandi vegna þess að hann vinnur stöðugt að því að þau nái fram að ganga. (Jes. 46:10; 55:11) Þegar fólk gerir sér grein fyrir þessu geta orð Biblíunnar haft sterk áhrif á líf þess.
7. Hvernig getum við ,farið rétt með orð sannleikans‘?
7 Jehóva hefur lagt lifandi orð sitt í hönd okkar. Við getum notað það til að sanna að boðskapur okkar sé trúverðugur og sé frá honum kominn. Það er því engin furða að eftir að Páll skrifaði Hebreabréfið skyldi hann hvetja Tímóteus, sem hann leiðbeindi á margan hátt, til að ,leggja kapp á að fara rétt með orð sannleikans‘. (2. Tím. 2:15) Hvernig getum við gert eins og Páll hvatti til? Með því að lesa upp vel valin vers sem geta snert hjörtu þeirra sem hlusta á okkur. Smáritin, sem voru gefin út árið 2013, voru samin í þeim tilgangi að auðvelda okkur það.
LESTU VEL VALIÐ BIBLÍUVERS
8. Hvað segir starfshirðir nokkur um smáritin?
8 Öll nýju smáritin eru með sama sniði. Þegar við lærum að nota eitt þeirra höfum við lært að nota þau öll. Eru þau auðveld í notkun? Starfshirðir á Hawaii segir: „Ekki hvarflaði að okkur að þessi nýju rit væru svona áhrifarík þegar starfað er hús úr húsi og á almannafæri.“ Hann hefur komist að raun um að smáritin eru þannig skrifuð að fólk tjáir sig frekar fúslega og það er oft kveikjan að líflegum samræðum. Hann telur að það sé spurningin og svarmöguleikarnir á forsíðunni sem hafi þessi áhrif. Viðmælandinn þarf ekki að vera smeykur við að gefa rangt svar.
9, 10. (a) Hvernig hvetja smáritin okkur til að nota Biblíuna? (b) Hvaða smárit hefur reynst þér best og hvers vegna?
9 Öll smáritin hvetja okkur til að lesa vel valið biblíuvers. Lítum til dæmis á smáritið Taka þjáningar einhvern tíma enda? Hvort sem viðmælandinn svarar spurningunni „já“, „nei“ eða „kannski“ skaltu opna ritið og segja án frekari málalenginga: „Biblían svarar spurningunni svona.“ Lestu síðan Opinberunarbókina 21:3, 4.
10 Þegar þú notar smáritið Hvernig lítur þú á Biblíuna? skiptir ekki heldur máli hvaða valkost á forsíðunni viðmælandinn velur. Opnaðu bara smáritið og segðu: „Í Biblíunni segir að ,sérhver ritning sé innblásin af Guði.‘“ Þú gætir bætt við: „Það segir reyndar miklu meira í þessu versi.“ Flettu síðan upp í Biblíunni og lestu 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17 í heild.
11, 12. (a) Hvernig geta smáritin hjálpað þér að hafa ánægju af boðuninni? (b) Hvernig geta smáritin hjálpað þér að búa þig undir að heimsækja fólk aftur?
11 Viðbrögð viðmælandans ráða því hve mikið til viðbótar þú lest upp úr smáritinu og ræðir við hann. En hvernig sem viðbrögðin eru hefurðu komið smáritinu í hendur fólks og notið þeirrar ánægju að lesa eitthvað upp úr Biblíunni, jafnvel þó að þér takist ekki að lesa nema eitt eða tvö vers í fyrstu heimsókn. Það er svo hægt að halda umræðunum áfram síðar.
12 Aftan á hverju smáriti er spurning undir fyrirsögninni „Til umhugsunar“. Þar er einnig vísað í biblíuvers sem hægt er að ræða í næstu heimsókn. Í smáritinu Hvernig heldurðu að framtíðin verði? er spurningin: „Hvernig ætlar Guð að breyta heiminum til hins betra?“ Síðan er vísað í Matteus 6:9, 10 og Daníel 2:44. Í smáritinu Geta hinir dánu lifað á ný? er spurt: „Hvers vegna eldumst við og deyjum?“ Vísað er í 1. Mósebók 3:17-19 og Rómverjabréfið 5:12.
13. Hvernig er hægt að nota smáritin til að hefja biblíunámskeið?
13 Notaðu smáritin til að hefja biblíunámskeið. Þegar reitamerkið á baksíðu ritsins er skannað opnast síða á vefnum okkar sem getur verið fólki hvatning til að kynna sér Biblíuna. Í hverju smáriti er einnig bent á ákveðinn kafla í bæklingnum Gleðifréttir frá Guði. Í smáritinu Hver stjórnar heiminum? er til dæmis vísað á 5. kafla bæklingsins. Í smáritinu Hvað gerir fjölskyldulífið hamingjuríkt? er vísað á 9. kaflann. Ef þú notar smáritin eins og til er ætlast temurðu þér þá góðu venju að fletta upp í Biblíunni í fyrstu heimsókn og þeim næstu. Það getur orðið til þess að þú hefjir fleiri biblíunámskeið. Hvað annað er hægt að gera til að nota orð Guðs á áhrifaríkan hátt úti á akrinum?
RÆDDU UM MÁL SEM HVÍLIR ÞUNGT Á FÓLKI
14, 15. Hvernig geturðu tileinkað þér sömu viðhorf og Páll gagnvart boðuninni?
14 Páll vildi setja sig í spor fólks til að „ávinna sem flesta“. (Lestu 1. Korintubréf 9:19-23.) Hann vonaðist til að „ávinna Gyðinga ... ávinna þá sem fara eftir [lögmálinu] ... ávinna þá sem þekkja ekki lögmál Móse ... [og] ávinna hina óstyrku“. Hann vildi ná til allra svo að hann gæti „að minnsta kosti frelsað nokkra“. (Post. 20:21) Hvernig getum við tileinkað okkur sömu viðhorf og Páll þegar við búum okkur undir að koma sannleikanum á framfæri við alls konar fólk á starfssvæði okkar? – 1. Tím. 2:3, 4.
15 Í hverjum mánuði birtast tillögur í Ríkisþjónustu okkar að kynningum sem hægt er að nota. Prófaðu þær. En ef eitthvað annað hvílir þungt á fólki skaltu setja saman kynningar sem vekja áhuga þess. Veltu fyrir þér umhverfinu þar sem þú býrð, fólkinu sem býr þar og þeim áhyggjum sem hvíla á því. Hugleiddu síðan hvaða biblíuvers tengjast því sem er efst á baugi. Farandhirðir segir frá hvernig þau hjónin beina athygli fólks að Biblíunni: „Flestir gefa okkur tækifæri til að lesa eitt vers ef við erum stuttorð og komum okkur strax að efninu. Við heilsum með opna biblíu í hendinni og lesum síðan versið.“ Lítum á nokkur dæmi um umræðuefni, spurningar og biblíuvers sem reynst hafa vel og þú gætir prófað á svæðinu þínu.
16. Hvernig væri hægt að nota Jesaja 14:7 í boðunarstarfinu?
16 Ef þú býrð á svæði þar sem mikið er um glæpi og ofbeldi gætirðu spurt viðmælandann: „Geturðu ímyndað þér að þetta verði einhvern tíma forsíðufrétt: ,Öll jörðin nýtur hvíldar og friðar, fagnaðaróp kveða við‘? Þetta stendur í Biblíunni í Jesaja 14:7. Reyndar segir Biblían frá endurteknum loforðum Guðs um friðsæla framtíð.“ Síðan geturðu boðist til að lesa eitt þessara fyrirheita upp úr Biblíunni.
17. Hvernig er hægt að leiða talið að Lúkasi 11:28?
17 Eiga margir á svæðinu erfitt með að ná endum saman? Þá gætirðu kannski bryddað upp á samræðum með því að spyrja: „Hve mikið ætli maður þurfi að þéna til að fjölskyldunni líði vel?“ Eftir að viðmælandinn hefur tjáð sig gætirðu sagt: „Margir þéna miklu meira en það en fjölskyldan er samt ekki ánægð. Hvað vantar eiginlega upp á?“ Lestu síðan Lúkas 11:28 og bjóddu biblíunámskeið.
18. Hvernig er hægt að nota Jeremía 29:11 til að hughreysta fólk?
18 Hefur orðið einhver harmleikur á svæðinu sem fólk er að takast á við? Þú gætir byrjað samtalið þannig: „Ég bankaði hjá þér af því að mig langaði til að lesa fyrir þig hughreystandi vers í Biblíunni. (Lestu Jeremía 29:11.) Tókstu eftir að Guð vill veita okkur þrennt? Framtíð, von og heill, það er að segja hamingju. Er ekki hughreystandi að hann skuli vilja að okkur líði vel? En hvernig getur það orðið að veruleika?“ Bentu síðan á viðeigandi kafla í bæklingnum Gleðifréttir frá Guði.
19. Hvernig er hægt að nota Opinberunarbókina 14:6, 7 til að ræða við fólk sem hefur áhuga á trúmálum?
19 Býrðu á svæði þar sem fólk er áhugasamt um trúmál? Ef svo er gætirðu hafið samtalið með því spyrja: „Ef engill talaði til þín, myndirðu þá hlusta á hann? (Lestu Opinberunarbókina 14:6, 7.) Fyrst engillinn segir okkur að ,óttast Guð‘ hlýtur að vera nauðsynlegt að vita hvaða Guð hann á við. Engillinn gefur okkur vísbendingu þegar hann segir að það sé ,sá sem gerði himininn og jörðina‘. Hver er það?“ Lestu síðan Sálm 124:8 þar sem segir: „Hjálp vor er í nafni Drottins, skapara himins og jarðar.“ Bjóddu síðan viðmælandanum að fræðast meira um Jehóva Guð.
20. (a) Hvernig er hægt að nota Orðskviðina 30:4 til að sýna fram á að Guð eigi sér nafn? (b) Hvaða vers hefur þú notað með góðum árangri?
20 Þú gætir byrjað samtal við ungan mann eða konu með því að segja: „Mig langar til að lesa fyrir þig vers þar sem spurt er mjög mikilvægrar spurningar. (Lestu Orðskviðina 30:4.) Enginn mennskur maður er fær um þetta þannig að það hlýtur að vera átt við skapara okkar.a Hvernig er hægt að komast að því hvað hann heitir? Má ég sýna þér það í Biblíunni?“
LÁTTU ORÐ GUÐS HLEYPA KRAFTI Í BOÐUNINA
21, 22. (a) Hvernig getur vel valið vers breytt lífi fólks? (b) Hvað ætlar þú að gera þegar þú boðar fagnaðarerindið?
21 Við vitum ekki fyrir fram hvernig fólk bregst við vel völdu biblíuversi. Tveir vottar í Ástralíu bönkuðu upp á hjá ungri konu. Annar þeirra spurði hana: „Veistu hvað Guð heitir?“ og las síðan eitt vers, Sálm 83:19. „Ég var agndofa,“ segir konan. „Þegar þeir voru farnir keyrði ég heila 55 kílómetra til að skoða aðrar biblíuþýðingar í bókabúð og fletti síðan upp á nafninu í orðabók. Eftir að ég hafði sannfærst um að Guð héti Jehóva fór ég að velta fyrir mér hvað annað ég vissi ekki.“ Skömmu síðar tóku hún og tilvonandi eiginmaður hennar að kynna sér Biblíuna og létu síðar skírast.
22 Orð Guðs breytir lífi þeirra sem lesa það og fara að trúa á lifandi loforð hans. (Lestu 1. Þessaloníkubréf 2:13.) Boðskapur Biblíunnar er kröftugri en nokkuð sem við getum sagt frá eigin brjósti til að reyna að ná til hjarta viðmælandans. Þess vegna ættum við að nota orð Guðs við hvert tækifæri sem gefst. Það er lifandi!
a Sjá „Spurningar frá lesendum“ í Varðturninum (enskri útgáfu) 15. júlí 1987, bls. 31.