Við erum skipulögð í samræmi við bók Guðs
„Drottinn grundvallaði jörðina með visku og kom himninum fyrir af speki.“ – ORÐSKV. 3:19.
1, 2. (a) Hvernig bregðast sumir við þeirri hugmynd að Guð eigi sér skipulagðan söfnuð? (b) Um hvað ræðum við í þessari grein?
Á GUÐ sér skipulagðan söfnuð? „Maður þarf engan söfnuð til að leiðbeina sér,“ segja sumir ef til vill. „Það eina sem þarf er að eiga samband við Guð.“ Er það rétt? Hvað leiða staðreyndirnar í ljós?
2 Í þessari grein ræðum við um sannanir fyrir því að Jehóva sé skipulagður Guð og að skipulagsgáfa hans sé óviðjafnanleg. Við skoðum líka hvernig við ættum að bregðast við leiðbeiningunum sem við fáum frá söfnuði hans. (1. Kor. 14:33, 40) Orð Guðs hefur hjálpað jarðneskum hluta safnaðar hans, bæði á fyrstu öld og á okkar dögum, að koma fagnaðarerindinu á framfæri um víða veröld. Við höldum okkur við það sem Biblían kennir og förum eftir leiðbeiningum safnaðarins og þannig stuðlum við að hreinleika, friði og einingu í söfnuðinum.
JEHÓVA ER SKIPULAGÐUR
3. Hvað sannfærir þig um að enginn jafnist á við Jehóva hvað varðar skipulagningu?
3 Sköpunarverkið sannar að enginn hefur jafn mikla skipulagsgáfu og Jehóva. „Drottinn grundvallaði jörðina með visku og kom himninum fyrir af speki,“ segir í Biblíunni. (Orðskv. 3:19) Við þekkjum aðeins „ystu mörk verka hans, það sem vér heyrum um hann er hvískur“. (Job. 26:14) Það litla, sem við vitum um plánetur, stjörnur og vetrarbrautir, gerir okkur samt ljóst að himingeimurinn er afar vel skipulagður. (Sálm. 8:4, 5) Í vetrarbrautunum eru milljónir stjarna sem ferðast allar með skipulegum hætti um geiminn. Pláneturnar í sólkerfinu okkar ferðast á sporbrautum umhverfis sólina eins og þær lúti auðmjúkar umferðarlögum. Hið undraverða skipulag alheimsins sýnir okkur fram á að Jehóva, sem gerði himininn og jörðina „af visku“, á skilið að við lofum hann og tilbiðjum og séum honum trúföst. – Sálm. 136:1, 5-9.
4. Hvers vegna eru margar spurningar sem vísindunum hefur ekki tekist að svara?
4 Vísindin hafa kennt okkur margt um alheiminn og jörðina sem við búum á og gagnast okkur á ýmsum sviðum lífsins. En það eru margar spurningar sem vísindunum hefur ekki tekist að svara. Stjörnufræðingar geta til dæmis ekki sagt okkur nákvæmlega hvernig alheimurinn varð til eða hver tilgangurinn er með lífinu hér á jörð. Fólk almennt getur ekki heldur útskýrt hvers vegna mennirnir hafa sterka löngun til að lifa að eilífu. (Préd. 3:11) Hvers vegna er svona mörgum mikilvægum spurningum ósvarað? Að hluta til er það vegna þess að fjöldi vísindamanna og annarra ýtir undir trúleysi og heldur þróunarkenningunni á loft. En í orði sínu svarar Jehóva spurningum sem hvíla þungt á fólki um allan heim.
5. Á hvaða hátt erum við háð náttúrulögmálunum?
5 Við erum háð hinum stöðugu og óbrigðulu náttúrulögmálum sem Jehóva bjó til. Rafvirkjar, pípulagningarmenn, verkfræðingar, flugmenn, skurðlæknar – allir reiða þeir sig á þessi lögmál til að geta unnið vinnuna sína. Skurðlæknir treystir til dæmis að mannslíkaminn sé alltaf eins uppbyggður. Hann þarf því ekki að leita að hjartanu í sjúklingi. Og öll virðum við náttúrulögmálin. Það gæti kostað okkur lífið að hunsa þyngdarlögmálið.
ÞAÐ SEM GUÐ SKIPULEGGUR
6. Hvers vegna er við því að búast að tilbiðjendur Jehóva séu skipulagðir?
6 Í alheiminum ríkir sannarlega stórkostlegt skipulag. Þess vegna er við því að búast að Jehóva vilji að tilbiðjendur sínir séu vel skipulagðir. Til að svo sé hefur hann gefið okkur Biblíuna okkur til leiðsagnar. Ef við hefðum ekki söfnuð Guðs og meginreglur til að hjálpa okkur myndi líf okkar vera fullt af erfiðleikum og óhamingju.
7. Hvað sýnir að Biblían er vel skipulögð bók?
7 Biblían er miklu meira en samansafn ótengdra rita Gyðinga og kristinna manna. Hún er vel skipulögð bók – meistaraverk innblásið af Guði. Allar bækur Biblíunnar tengjast innbyrðis. Allt frá 1. Mósebók til Opinberunarbókarinnar skín í gegn meginstef Biblíunnar – að ríki Jehóva undir stjórn Krists, hins fyrirheitna „niðja“, sýni fram á að Jehóva sé réttmætur Drottinn alheims og láti vilja hans með jörðina ná fram að ganga. – Lestu 1. Mósebók 3:15; Matteus 6:10; Opinberunarbókina 11:15.
8. Hvers vegna getum við sagt að Ísraelsmenn hafi verið vel skipulagðir?
8 Ísraelsþjóðin til forna var til fyrirmyndar hvað skipulagningu varðar. Á tímum Móselaganna var til dæmis starf kvennanna, „sem gegndu þjónustu við dyr samfundatjaldsins,“ vel skipulagt. (2. Mós. 38:8) Þegar Ísraelsmenn fluttu sig um set ásamt tjaldbúðinni fór allt fram með skipulegum hætti. Síðar skipti Davíð konungur Levítunum og prestunum í flokka þannig að starf þeirra yrði vel skipulagt. (1. Kron. 23:1-6; 24:1-3) Og Jehóva blessaði Ísraelsmenn með einingu, friði og reglu þegar þeir hlýddu honum. – 5. Mós. 11:26, 27; 28:1-14.
9. Hvað sýnir að kristni söfnuðurinn á fyrstu öld hafi verið skipulagður?
9 Kristni söfnuðurinn á fyrstu öld starfaði með skipulegum hætti og naut góðs af leiðsögn hins stjórnandi ráðs sem var í fyrstu skipað postulunum. (Post. 6:1-6) Með tímanum bættust fleiri bræður í hóp hins stjórnandi ráðs fyrstu aldar. (Post. 15:6) Bræður í þessu ráði eða aðrir sem störfuðu náið með þeim skrifuðu innblásin bréf þar sem þeir veittu leiðbeiningar og fyrirmæli. (1. Tím. 3:1-13; Tít. 1:5-9) Hvernig nutu söfnuðirnir góðs af því að fylgja leiðbeiningum hins stjórnandi ráðs?
10. Hver var árangurinn þegar söfnuðirnir á fyrstu öld héldu sig við ályktanir hins stjórnandi ráðs? (Sjá mynd í upphafi greinar.)
10 Lestu Postulasöguna 16:4, 5. Bræður, sem ferðuðust fyrir hönd hins stjórnandi ráðs, fluttu „þær ályktanir sem postularnir og öldungarnir í Jerúsalem höfðu samþykkt“. „Söfnuðirnir styrktust í trúnni og urðu fjölmennari dag frá degi“ þegar þeir héldu sér við þessar ályktanir. Getum við sem tilheyrum söfnuði Guðs nú á tímum dregið lærdóm af þessari frásögn Biblíunnar?
FYLGIR ÞÚ LEIÐBEININGUM?
11. Hvernig ættu bræður, sem fara með forystuna, að bregðast við leiðbeiningum frá hinu stjórnandi ráði?
11 Hvað ættu bræður í deildar- og landsnefndum, farandhirðar og safnaðaröldungar að gera þegar þeir fá leiðbeiningar frá hinu stjórnandi ráði? Í bók Jehóva er okkur öllum sagt að vera hlýðin og undirgefin. (5. Mós. 30:16; Hebr. 13:7, 17) Aðfinnslusemi og uppreisnarandi á ekki heima í söfnuði Guðs því að slíkt gæti raskað friði, kærleika og einingu safnaðarins. Að sjálfsögðu vill enginn trúfastur þjónn Guðs sýna óvirðingu og ótryggð líkt og Díótrefes. (Lestu 3. Jóhannesarbréf 9, 10.) Við gætum spurt okkur: Stuðla ég að því að trú annarra styrkist? Fylgi ég og styð óhikað leiðbeiningar bræðranna sem fara með forystuna?
12. Hvaða breyting hefur verið gerð á útnefningu öldunga og safnaðarþjóna?
12 Tökum sem dæmi nýlega ákvörðun hins stjórnandi ráðs. Í „Spurningum frá lesendum“ í Varðturninum 15. nóvember 2014 var rætt um breytingu á því hvernig öldungar og safnaðarþjónar eru útnefndir. Í greininni kom fram að hið stjórnandi ráð fyrstu aldar hafi falið farandhirðum að sjá um slíkar útnefningar. Í samræmi við þá fyrirmynd hafa farandhirðar útnefnt öldunga og safnaðarþjóna frá 1. september 2014. Farandhirðirinn reynir að kynnast bræðrunum sem mælt er með og fara með þeim í boðunina ef hægt er. Hann veitir líka fjölskyldu bróðurins eftirtekt. (1. Tím. 3:4, 5) Öldungaráðið og farandhirðirinn ígrunda vandlega hæfniskröfur Biblíunnar til safnaðarþjóna og öldunga. – 1. Tím. 3:1-10, 12, 13; 1. Pét. 5:1-3.
13. Hvernig getum við sýnt að við styðjum leiðbeiningarnar sem við fáum frá öldungunum?
13 Við þurfum að fylgja þeim biblíulegu leiðbeiningum sem við fáum frá öldungunum. Þessir trúföstu hirðar í söfnuði Guðs láta ,heilnæmar‘ leiðbeiningar Biblíunnar leiðbeina sér. (1. Tím. 6:3) Tökum sem dæmi leiðbeiningar Páls varðandi iðjulausa í söfnuðinum. Sumir ,unnu ekkert heldur gáfu sig alla að því sem þeim kom eigi við‘. Öldungarnir hafa greinilega áminnt þá en þeir hunsuðu leiðbeiningarnar. Hvernig átti söfnuðurinn að koma fram við slíkt fólk? Páll gaf þessi fyrirmæli: „Merkið yður þann mann. Hafið ekkert samfélag við hann.“ Þessum leiðbeiningum fylgdi þó sú viðvörun að koma ekki fram við slíkt fólk sem óvini. (2. Þess. 3:11-15, Biblían 1981) Nú á tímum gætu öldungar flutt ræðu til að vara söfnuðinn við hegðun einhvers sem gefur slæma mynd af söfnuðinum, svo sem að eiga kærasta eða kærustu sem er ekki vottur Jehóva. (1. Kor. 7:39) Hvernig bregstu við þegar öldungarnir telja nauðsynlegt að flytja slíka ræðu? Ef þú þekkir til þeirra aðstæðna sem lýst er í ræðunni, gætirðu þess þá að forðast félagsleg samskipti við slíkan einstakling? Umhyggjusemi þín og staðfesta gæti verið honum hvatning til að segja skilið við ranga hegðun.[1]
STUÐLUM AÐ HREINLEIKA, FRIÐI OG EININGU
14. Hvernig getum við stuðlað að hreinleika safnaðarins?
14 Við getum stuðlað að hreinleika safnaðarins með því að fylgja leiðbeiningum Biblíunnar. Skoðum hvernig aðstæður voru í Korintu forðum daga. Páll hafði gefið sig allan að því að boða trúna í borginni og honum þótti ákaflega vænt um ,heilög‘ trúsystkini sín þar. (1. Kor. 1:1, 2) En það hefur trúlega reynt verulega á hann að þurfa að taka á kynferðislegu siðleysi sem fékk að viðgangast í söfnuðinum. Páll sagði öldungunum að selja þann sem stundaði siðleysi Satan á vald, það er að segja að víkja honum úr söfnuðinum. Öldungarnir þurftu að fjarlægja ,súrdeigið‘ til að söfnuðurinn héldist hreinn. (1. Kor. 5:1, 5-7, 12) Þegar við styðjum ákvörðun öldunganna um að víkja iðrunarlausum syndara úr söfnuðinum leggjum við okkar af mörkum til að halda söfnuðinum hreinum og hugsanlega getur það hvatt hinn brotlega til að iðrast og leita fyrirgefningar Jehóva.
15. Hvernig getum við varðveitt friðinn í söfnuðinum?
15 Páll þurfti líka að taka á öðru vandamáli í Korintu. Sumir bræður drógu trúsystkini sín fyrir rétt. Páll spurði þá umhugsunarverðrar spurningar: „Hví líðið þið ekki heldur órétt?“ (1. Kor. 6:1-8) Svipaðar aðstæður hafa komið upp nú á dögum. Stundum hefur friði meðal trúsystkina verið raskað vegna þess að áhættuviðskipti leiddu til þess að einhver tapaði peningum og fannst hann ef til vill svikinn af trúsystkini sínu. Sumir hafa lögsótt trúsystkini sín en bók Guðs sýnir okkur fram á að það er betra að verða fyrir tjóni en að kasta rýrð á nafn Guðs eða raska friði safnaðarins.[2] Til að leysa alvarleg vandamál og deilur ættum við að sjálfsögðu að fara eftir ráðleggingum Jesú. (Lestu Matteus 5:23, 24; 18:15-17.) Þannig stuðlum við að einingu innan fjölskyldunnar sem þjónar Jehóva tilheyra.
16. Af hverju má ætla að þjónar Guðs séu sameinaðir?
16 Bók Guðs sýnir af hverju má ætla að þjónar hans séu sameinaðir. Sálmaritarinn söng: „Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er þegar bræður búa saman.“ (Sálm. 133:1) Þegar Ísraelsmenn hlýddu Jehóva voru þeir vel skipulagðir og sameinaðir. Jehóva sagði fyrir hvernig aðstæður yrðu meðal þjóna hans í framtíðinni þegar hann lýsti yfir: ,Ég mun smala þeim saman eins og sauðfé í rétt.‘ (Míka 2:12) Þar að auki spáði hann fyrir milligöngu Sefanía spámanns: „Þá mun ég gefa þjóðunum nýjar varir og hreinar [eða tungumál sannleikans í Biblíunni] svo að þær geti ákallað nafn Drottins og þjónað honum einhuga.“ (Sef. 3:9) Við erum ákaflega þakklát fyrir að mega tilbiðja Jehóva í einingu!
17. Hvernig ættu öldungarnir að taka á rangri breytni í söfnuðinum til að varðveita einingu hans og hreinleika?
17 Öldungarnir verða að taka tafarlaust á dómsmálum með kærleiksríkum hætti til að eining og hreinleiki safnaðarins haldist. Páll vissi að kærleikur Guðs stjórnast ekki bara af tilfinningum og hann lokar ekki augunum fyrir rangri breytni. (Orðskv. 15:3) Páll hikaði því ekki við að skrifa Fyrra Korintubréf, beinskeytt en kærleiksríkt bréf. Síðara Korintubréf, sem var skrifað nokkrum mánuðum síðar, sýnir að ástandið hafði batnað þar sem öldungarnir höfðu fylgt ráðum postulans. Ef þjóni Guðs verður eitthvað á án þess að gera sér grein fyrir því ættu hæfir bræður að reyna að leiðrétta hann með hógværð. – Gal. 6:1.
18. (a) Hvernig hjálpuðu ráðleggingar í orði Guðs söfnuðunum á fyrstu öld? (b) Um hvað er rætt í næstu grein?
18 Það er greinilegt að innblásnar leiðbeiningar í orði Guðs hjálpuðu frumkristnum mönnum í Korintu og annars staðar að varðveita hreinleika, frið og einingu í söfnuðunum. (1. Kor. 1:10; Ef. 4:11-13; 1. Pét. 3:8) Fyrir vikið gátu bræður okkar og systur á þeim tíma áorkað miklu í boðuninni. Páll gat reyndar sagt að fagnaðarerindið hefði verið „boðað ... öllu sem skapað er í heiminum“. (Kól. 1:23) Sameinað boðunarátak þeirra sem tilheyra söfnuðinum nú á dögum hefur orðið til þess að þekking á hinni stórkostlegu fyrirætlun Guðs hefur borist til fólks um alla jörð. Í næstu grein skoðum við frekari sannanir fyrir því að þeir hafi miklar mætur á Biblíunni og séu staðráðnir í að heiðra alvaldan Guð okkar, Jehóva. – Sálm. 71:15, 16.
^ [1] (13. grein.) Sjá Söfnuður skipulagður til að gera vilja Jehóva, bls. 150-151.
^ [2] (15. grein.) Í bókinni „Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“, bls. 223, neðanmáls, er að finna upplýsingar um aðstæður þar sem þjónn Guðs gæti ákveðið að leggja fram kæru gegn trúsystkini sínu.