ÆVISAGA
Ég hef fengið að starfa með trúum þjónum Jehóva
UM 1935 fluttust foreldrar mínir, þau James og Jessie Sinclair, til Bronx sem er eitt af borgarumdæmum New York. Þar kynntust þau Willie Sneddon sem hafði flust þangað frá Skotlandi eins og þau. Þau voru farin að ræða um fjölskyldur sínar nokkrum mínútum eftir að þau hittust í fyrsta sinn. Þetta var skömmu áður en ég kom til sögunnar.
Mamma sagði Willie að pabbi hennar og eldri bróðir hefðu drukknað í Norðursjó skömmu fyrir stríðið mikla þegar fiskibáturinn þeirra rakst á tundurdufl. „Pabbi þinn er í helvíti!“ sagði Willie en hann var vottur Jehóva. Þetta voru fyrstu kynnin sem mamma hafði af sannleika Biblíunnar.
Mömmu krossbrá að heyra þetta því að hún vissi að pabbi hennar hafði verið góður maður. En Willie bætti við: „Myndi þér líða betur ef ég segði þér að Jesús hefði verið í helvíti?“ Mamma mundi eftir kennisetningu kirkjunnar sem var þannig í upprunalegri mynd að Jesús hefði stigið niður til helvítis og verið reistur upp á þriðja degi. Hún fór því að velta fyrir sér hvernig stæði á því að Jesús hefði farið til helvítis ef það var staður þar sem hinir illu kveljast í eldi. Þetta kveikti áhuga hennar á sannleikanum. Hún fór að sækja samkomur hjá söfnuðinum í Bronx og lét skírast árið 1940.
Foreldrar í söfnuðinum voru ekki sérstaklega hvattir til þess á þeim tíma að kenna börnunum sannleika Biblíunnar. Þegar ég var lítill var pabbi vanur að passa mig meðan mamma sótti samkomur og tók þátt í boðuninni um helgar. Að nokkrum árum liðnum fórum við pabbi að sækja samkomur með henni. Hún boðaði fagnaðarerindið af miklu kappi og var að jafnaði með nokkur biblíunámskeið í gangi. Um tíma kallaði hún jafnvel nemendurna saman og kenndi þeim í hópi því að þeir bjuggu allir á svipuðum slóðum. Ég fór með henni í boðunina í skólafríum. Þannig lærði ég heilmikið um Biblíuna og hvernig ætti að kenna öðrum boðskap hennar.
Mér þykir leitt að segja frá því að ég kunni ekki alveg að meta sannleikann þegar ég var strákur. Ég leit á hann sem sjálfsagðan hlut. En þegar ég var 12 ára gerðist ég boðberi og hef tekið reglulega þátt í boðuninni síðan. Ég vígði Jehóva líf mitt þegar ég var 16 ára og lét skírast á móti í Toronto í Kanada 24. júlí 1954.
STARF Á BETEL
Sumir bræðranna í söfnuðinum okkar störfuðu á Betel eða höfðu starfað þar. Þeir höfðu mikil áhrif á mig. Ég hreifst af því hve færir þeir voru að flytja ræður og útskýra sannleika Biblíunnar í boðuninni. Kennarar mínir í skólanum hvöttu mig til að fara í háskóla en ég hafði það markmið að starfa á Betel. Þess vegna lagði ég inn umsókn um starf á Betel á mótinu í Toronto. Ég gerði það að nýju árið 1955 á móti á Yankee Stadium í New York-borg. Skömmu síðar var mér boðið að hefja störf á Betel í Brooklyn. Það var 19. september 1955 og ég var þá 17 ára. Annan daginn minn á Betel fór ég að vinna í bókbandinu sem var við Adams Street 117. Áður en langt um leið var ég farinn að vinna við vél sem raðaði saman 32 síðna örkum til að hægt væri að binda þær saman.
Eftir að hafa unnið í bókbandinu í mánuð var ég fluttur yfir í áskriftadeildina vegna þess að ég kunni vélritun. Í þá daga voru nöfn og heimilisföng nýrra áskrifenda að Varðturninum og Vaknið! vélrituð á litla stensla úr málmi. Nokkrum mánuðum síðar var ég færður yfir í flutningadeildina. Klaus Jensen, umsjónarmaður deildarinnar, spurði mig hvort ég vildi fara með bílstjóranum sem flutti bóka- og blaðakassa niður á höfn þaðan sem þeir voru sendir út um allan heim. Það þurfti einnig að fara með heilu pokana af blöðum á pósthús og senda þá söfnuðum út um öll Bandaríkin. Klaus sagðist telja að ég hefði gott af líkamlegri áreynslu. Ég var grindhoraður og ekki nema 57 kíló. Ferðirnar niður á höfn og á pósthúsið styrktu mig. Klaus vissi greinilega að ég hafði gott af þessu.
Blaðadeildin sá líka um að afgreiða blöð sem söfnuðirnir pöntuðu. Blöðin voru prentuð á ýmsum tungumálum í Brooklyn og send til annarra heimshorna. Þar komst ég í kynni við fjölda tungumála sem ég hafði aldrei heyrt um áður, en mér fannst ánægjulegt að vita að þau voru send í tugþúsundatali til fjarlægra landa. Ég vissi það ekki á þeim tíma að ég ætti eftir að fá að heimsækja marga af þessum stöðum á komandi árum.
Árið 1961 fékk ég það verkefni að vinna á fjármálaskrifstofunni undir umsjón Grants Suiters. Eftir að hafa starfað þar um tíma var ég kallaður til fundar við Nathan Knorr sem fór þá með forystuna fyrir alþjóðastarfi okkar. Hann sagði mér að einn af bræðrunum á skrifstofu hans ætti að sækja eins mánaðar námskeið við Ríkisþjónustuskólann og fara síðan til starfa á þjónustudeildinni. Ég átti að taka við starfinu hans og vinna með Don Adams. Það vildi svo til að Don var bróðirinn sem hafði tekið við Betelumsókninni minni á mótinu árið 1955. Þeir Robert Wallen og Charles Molohan unnu á sömu skrifstofu. Við fjórmenningarnir unnum saman í meira en 50 ár. Það hefur verið einstök ánægja að starfa með þessum trúu og dyggu þjónum Guðs. – Sálm. 133:1.
Árið 1970 fékk ég það verkefni að nota nokkrar vikur, ýmist árlega eða annað hvert ár, til að heimsækja sumar af deildarskrifstofum Varðturnsfélagsins. Ég heimsótti Betelfjölskyldur og trúboða víða um heim til að hvetja þau og uppörva og til að fara yfir stöðu mála hjá deildarskrifstofunum. Það var einstök ánægja að fá að hitta trúboða sem höfðu útskrifast með fyrstu hópum Gíleaðskólans og störfuðu enn á svæðinu sem þeir höfðu verið sendir til. Ég hef fengið að heimsækja meira en 90 lönd í þessu starfi mínu.
ÉG FANN MÉR TRÚAN LÍFSFÖRUNAUT
Allir í Betelfjölskyldunni í Brooklyn tilheyrðu söfnuðum í New York-borg og nágrenni. Söfnuðurinn minn var í Bronx. Fyrsti söfnuðurinn í því borgarumdæmi hafði vaxið svo að það var búið að skipta honum. Upphaflegi söfnuðurinn var kallaður Upper Bronx-söfnuðurinn og ég tilheyrði honum.
Um miðjan sjöunda áratuginn fluttist lettnesk fjölskylda, sem hafði tekið við sannleikanum í suðurhluta Bronx, inn á svæði safnaðarins míns. Livija, elsta dóttirin, gerðist brautryðjandi strax eftir að hún lauk framhaldsskóla. Fáeinum mánuðum síðar fluttist hún til Massachusetts því að þar vantaði fleiri boðbera. Ég fór að skrifa henni og segja fréttir af söfnuðinum í Bronx og hún skrifaði mér og sagði fréttir af starfinu í Boston og nágrenni.
Nokkrum árum síðar var Livija útnefnd sérbrautryðjandi. Hana langaði til að gera allt sem hún gæti í þjónustu Jehóva, sótti um starf á Betel og var boðið þangað árið 1971. Það var engu líkara en að Jehóva væri að senda okkur skilaboð. Við gengum í hjónaband 27. október 1973 og bróðir Knorr flutti vígsluræðuna. Í Orðskviðunum 18:22 segir: „Sá sem eignast konu eignast gersemi og hlýtur náðargjöf frá Drottni.“ Við Livija höfum fengið að starfa saman á Betel í meira en 40 ár. Og við höldum áfram að styðja söfnuð í Bronx á sama svæði og áður.
ÉG HEF FENGIÐ AÐ VINNA NÁIÐ MEÐ BRÆÐRUM KRISTS
Það var einkar ánægjulegt að starfa með bróður Knorr. Hann var óþreytandi að vinna að framgangi sannleikans og þótti ákaflega vænt um trúboðana um heim allan. Margir þeirra voru fyrstu vottarnir í þeim löndum sem þeir voru sendir til. Það var dapurlegt að horfa upp á bróður Knorr berjast við krabbamein árið 1976. Einu sinni þegar hann var rúmfastur bað hann mig að lesa eitthvað fyrir sig sem verið var að búa til prentunar. Hann bað mig að sækja Frederick Franz til að hann gæti líka hlustað á upplesturinn. Ég uppgötvaði síðar að bróðir Knorr hafði notað drjúgan tíma til að lesa efni af þessu tagi fyrir hann eftir að hann fór að missa sjón.
Bróðir Knorr dó árið 1977 en það var huggun þeim sem þekktu hann og elskuðu að hann skyldi ljúka jarðlífi sínu í trúfesti. (Opinb. 2:10) Bróðir Franz tók við forystunni fyrir starfi okkar af honum.
Þegar hér var komið sögu vann ég sem ritari Miltons Henschels en hann hafði starfað með bróður Knorr um áratugaskeið. Bróðir Henschel sagði mér að mikilvægasta verkefni mitt á Betel væri núna að veita bróður Franz alla þá aðstoð sem hann þyrfti á að halda. Ég las að jafnaði fyrir hann efni sem var verið að búa til prentunar. Hann var stálminnugur og gat einbeitt sér fullkomlega að því að hlusta á það sem lesið var fyrir hann. Það var mér mikil ánægja að aðstoða hann með þessum hætti uns jarðlífi hans lauk í desember 1992.
Ég hef starfað á Betel í 61 ár. Þau hafa verið fljót að líða. Foreldrar mínir voru Jehóva trúir allt til dauðadags og ég hlakka til að taka á móti þeim í nýjum og betri heimi. (Jóh. 5:28, 29) Ekkert sem þessi gamli heimur býður upp á jafnast á við þá miklu ánægju að fá að starfa með trúum körlum og konum í þágu þjóna Guðs um heim allan. Við Livija getum með sanni sagt að gleði Jehóva hefur verið styrkur okkar öll þau ár sem við höfum þjónað honum í fullu starfi. – Neh. 8:10.
Enginn maður er ómissandi í söfnuði Jehóva og ekkert lát er á því að útbreiða sannleikann um ríki hans. Það hefur verið sönn ánægja að fá að starfa með mörgum trúum og tryggum bræðrum og systrum um ævina. Flestir hinna andasmurðu, sem ég hef starfað með, hafa lokið jarðnesku lífi sínu en ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að starfa með þeim í þjónustu Jehóva.