Stríðsvagnar og kóróna vernda þig
„Ef þér hlýðið röddu Drottins, Guðs yðar, þá mun þetta verða.“ – SAK. 6:15, Biblían 1981.
1, 2. Hvernig voru Gyðingar í Jerúsalem á vegi staddir eftir að Sakaría sá sjöundu sýnina?
SAKARÍA spámaður hafði margt um að hugsa eftir að hafa séð sjöundu sýnina. Jehóva hafði lofað að óheiðarlegt fólk yrði að taka afleiðingunum af illri breytni sinni. Þetta loforð hefur örugglega verið hvetjandi og uppörvandi fyrir spámanninn. En ekkert hafði í rauninni breyst. Margir voru enn óheiðarlegir og voru ekki hættir vondum verkum sínum, og enn var langt í land að musteri Jehóva í Jerúsalem væri fullbyggt. Hvernig gátu Gyðingar gefist svona fljótt upp á verkinu sem Guð hafði falið þeim? Sneru þeir heim í land sitt til þess eins að hugsa um eigin hag?
2 Sakaría vissi að Gyðingarnir, sem sneru heim til Jerúsalem, voru sanntrúað fólk. Þetta voru þeir sem „Guð hafði blásið því í brjóst“ að yfirgefa örugg heimili sín og atvinnu. (Esra. 1:2, 3, 5) Þeir fluttust frá landi sem þeir þekktu og settust að á stað sem fæstir þeirra höfðu nokkurn tíma séð áður. Ef þeim hefði ekki þótt mikilvægt að byggja musteri Jehóva hefðu þeir ekki lagt á sig erfitt 1.600 kílómetra ferðalag um hrjóstrugt land.
3, 4. Hvað þurftu hinir heimkomnu Gyðingar að takast á við?
3 Hvernig ætli Gyðingunum hafi liðið á leiðinni? Þeir hafa vafalaust haft nægan tíma til að hugsa um hið nýja heimili sem beið þeirra. Þeir höfðu heyrt hve fögur Jerúsalemborg hafði verið. Þeir elstu í hópnum höfðu séð mikilfenglegt musterið sem stóð þar. (Esra. 3:12) Ímyndaðu þér að þú hefðir verið á þessu ferðalagi. Hvernig heldurðu að þér hefði verið innanbrjósts þegar Jerúsalem blasti loks við þér? Hefðirðu orðið dapur að sjá húsin í rústum og allt á kafi í illgresi? Hefðirðu borið saman rammgerða múra Babýlonar og brotna múra Jerúsalem með gapandi skörðum þar sem hliðin og varðturnarnir höfðu verið? En fólkið herti upp hugann. Það hafði fundið fyrir verndarhendi Jehóva á langri leið sinni heim. Fyrsta verk hinna heimkomnu Gyðinga var að reisa altari þar sem musterið hafði staðið og þar tóku þeir að færa Jehóva daglegar fórnir. (Esra. 3:1, 2) Þeir voru fullir ákafa í byrjun. Það leit ekki út fyrir að nokkuð gæti dregið úr þeim kjarkinn.
4 Auk þess að byggja musterið þurftu Ísraelsmenn að endurreisa borgir sínar. Þeir þurftu að gera upp hús, rækta akra og brauðfæða fjölskylduna. (Esra. 2:70) Verkið virtist yfirþyrmandi. Og mótspyrnan lét ekki á sér standa – og hún var hörð. Í byrjun létu Gyðingar engan bilbug á sér finna en eftir 15 ár hafði fjandskapurinn tekið sinn toll. (Esra. 4:1-4) Reiðarslagið kom síðan árið 522 f.Kr. þegar Persakonungur bannaði frekari byggingarframkvæmdir í Jerúsalem. Framtíð borgarinnar virtist ótrygg. – Esra. 4:21-24.
5. Hvernig brást Jehóva við aðgerðarleysi þjóðar sinnar?
5 Jehóva vissi hverju þjónar hans þurftu á að halda. Hann lét Sakaría sjá síðustu sýnina til að fullvissa Gyðinga um að hann elskaði þá og kynni að meta það sem þeir höfðu gert hingað til. Hann lofaði að vernda þá ef þeir hæfust aftur handa. Hann lofaði þeim varðandi endurbyggingu musterisins: „Ef þér hlýðið röddu Drottins, Guðs yðar, þá mun þetta verða.“ – Sak. 6:15, Biblían 1981.
HERFYLKING ENGLA
6. (a) Hvernig hefst lýsing Sakaría á áttundu sýninni? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Hvers vegna eru hestarnir hver í sínum lit?
6 Vel má vera að áttunda og síðasta sýn Sakaría hafi styrkt trú Gyðinga hvað mest. (Lestu Sakaría 6:1-3.) Sjáðu fyrir þér fjóra vagna, sennilega stríðsvagna, geysast fram „milli tveggja fjalla ... úr eir“. Fyrir vagnana er beitt hestum í ólíkum litum. Þannig má þekkja sundur hermennina sem aka vögnunum. „Hvað er þetta?“ spyr Sakaría. (Sak. 6:4) Okkur langar líka til að vita það því að sýnin snertir okkur beint.
Englar Jehóva hafa enn það hlutverk að vernda og styrkja þjóna hans.
7, 8. (a) Hvað tákna fjöllin tvö? (b) Af hverju eru fjöllin úr eir?
7 Í Biblíunni eru fjöll stundum látin tákna ríki eða stjórnir. Fjöllin í sýn Sakaría eru áþekk tveim fjöllum sem lýst er í spádómsbók Daníels. Annað fjallið táknar eilíft drottinvald Jehóva yfir alheimi. Hitt táknar Messíasarríkið í höndum Jesú. (Dan. 2:35, 45) Síðan Jesús tók völd haustið 1914 hafa bæði fjöllin í sameiningu gegnt sérstöku hlutverki í því að vilji Guðs nái fram að ganga á jörð.
8 Hvers vegna eru fjöllin úr eir? Eir er verðmætur málmur rétt eins og gull. Jehóva gaf fyrirmæli um að þessi skínandi málmur skyldi notaður við gerð tjaldbúðarinnar og síðar musterisins í Jerúsalem. (2. Mós. 27:1-3; 1. Kon. 7:13-16) Eirinn í þessum tveim táknrænu fjöllum er viðeigandi tákn um það hve traust drottinvald Jehóva yfir alheimi er og það á líka við um ríki Messíasar, og það verður öllu mannkyni til blessunar og tryggir varanlega framtíð þess.
9. Hverjir aka stríðsvögnunum og hvaða verkefni hafa þeir?
9 Snúum okkur nú aftur að stríðsvögnunum. Hvað tákna þeir og ökumenn þeirra? Það eru englar sem aka vögnunum, sennilega hópar eða fylkingar engla. (Lestu Sakaría 6:5-8.) Þeir koma „fram fyrir Drottin allrar jarðarinnar“ og fara út frá honum til að sinna sérstöku verkefni. Hvaða verkefni er það? Vagnarnir og ökumennirnir eru sendir út til að annast ákveðin svæði. Þeir hafa það hlutverk að vernda þjóna Jehóva, sérstaklega fyrir „landinu norður frá“, það er að segja Babýlon. Jehóva ætlaði að sjá til þess að Babýlon myndi aldrei framar hneppa þjóð hans í þrælkun. Það hlýtur að hafa verið ákaflega hughreystandi fyrir þá sem unnu við að reisa musterið á dögum Sakaría. Þeir þurftu ekki að hafa áhyggjur af því að óvinir þeirra stæðu í vegi fyrir þeim.
10. Hverju geta þjónar Guðs nú á dögum treyst miðað við spádóm Sakaría um vagnana og ökumennina?
10 Jehóva hersveitanna notar enn þá engla til að vernda þjóna sína og styrkja þá. (Mal. 3:6; Hebr. 1:7, 14) Hin andlega Ísraelsþjóð var leyst úr táknrænni ánauð Babýlonar hinnar miklu árið 1919. Þaðan í frá hefur starf okkar verið óstöðvandi þrátt fyrir harða andstöðu. (Opinb. 18:4) Þar sem englar vernda okkur þurfum við ekki að óttast að söfnuður Jehóva þurfi að sæta andlegri kúgun einu sinni enn. (Sálm. 34:8) Við getum treyst að þjónar Guðs haldi áfram að dafna um heim allan. Þegar við leiðum hugann að sýn Sakaría þurfum við ekki að efast um að við séum óhult í skjóli fjallanna tveggja.
11. Af hverju þurfum við ekki að óttast væntanlega árás á þjóna Guðs?
11 Þjóðirnar í heimi Satans mynda mjög bráðlega bandalag og eru staðráðnar í að útrýma þjónum Guðs. (Esek. 38:2, 10-12; Dan. 11:40, 44, 45; Opinb. 19:19) Í spádómi Esekíels er talað um að þessar sveitir hylji landið eins og óveðursský, þær ríði hestum og ætli að ráðast á okkur af mikilli heift. (Esek. 38:15, 16)a Höfum við eitthvað að óttast? Alls ekki. Við höfum öflugt lið okkar megin. Á þessari örlagastund í þrengingunni miklu safnast englasveitir Jehóva hersveitanna saman til að vernda þjóna hans og útrýma þeim sem setja sig upp á móti drottinvaldi hans. (2. Þess. 1:7, 8) Það verður stórbrotinn dagur. En hver fer með forystu fyrir himneskum hersveitum Jehóva?
JEHÓVA KRÝNIR KONUNG SINN OG PREST
12, 13. (a) Hvað er Sakaría nú sagt að gera? (b) Hvernig vitum við að maðurinn, sem nefnist Sproti, er Jesús Kristur?
12 Sakaría hefur séð átta sýnir sem enginn annar sá. Nú tekur hann þátt í spádómlegum verknaði til að hvetja þá sem eru að endurreisa musteri Guðs. (Lestu Sakaría 6:9-12.) Honum er sagt að fá silfur og gull frá þeim Heldaí, Tobía og Jedaja sem voru nýkomnir frá Babýlon, og smíða úr því kórónu. Er Sakaría sagt að setja kórónuna á höfuð Serúbabels landstjóra sem var af ætt Júda og afkomandi Davíðs? Nei, þeim sem sáu til hlýtur að hafa þótt áhugavert að hann skyldi setja hana á höfuð Jósúa æðstaprests.
13 Fær Jósúa æðstiprestur konungstign þegar Sakaría krýnir hann? Nei, Jósúa var ekki af konungsætt Davíðs og gat því ekki orðið konungur. Krýningin var spádómleg og vísaði til þess að síðar kæmi eilífur konungur og prestur. Æðstipresturinn, sem verður konungur, er kallaður Sproti. Ljóst er af Biblíunni að Jesús Kristur er þessi Sproti. – Jes. 11:1; Matt. 2:23.b
14. Hvaða verk vinnur Jesús sem konungur og æðstiprestur?
14 Jesús er bæði konungur og æðstiprestur og fer fyrir himneskum her Jehóva. Hann leggur sig allan fram svo að þjónar Guðs í heild séu óhultir þó að þeir búi í þessum fjandsamlega heimi. (Jer. 23:5, 6) Hann kemur líka til varnar drottinvaldi Jehóva og þjónum hans þegar hann fer fyrir englasveit Guðs og sigrar þjóðir heims í náinni framtíð. (Opinb. 17:12-14; 19:11, 14, 15) En áður en Jesús fullnægir dómi hefur hann mikið verk að vinna.
HANN REISIR MUSTERIÐ
15, 16. (a) Hvaða endurreisn og hreinsun hefur farið fram á síðari tímum og hver hefur séð um hana? (b) Hvaða áfanga verður náð undir lok þúsund ára stjórnar Krists?
15 Jesús var ekki aðeins skipaður konungur og æðstiprestur heldur var honum líka falið það verkefni að „reisa musteri Drottins“. (Lestu Sakaría 6:13.) Á síðari tímum hefur byggingarstarf Jesú falið í sér að frelsa sanna guðsdýrkendur úr Babýlon hinni miklu og endurreisa kristna söfnuðinn árið 1919. Hann skipaði líka ,trúan og hygginn þjón‘ til að fara með forystu þeirra starfa sem eru unnin í jarðneskum forgörðum hins mikla andlega musteris. (Matt. 24:45) Jesús hefur einnig verið önnum kafinn við að hreinsa þjóna Jehóva og hjálpa þeim að tilbiðja hann í hreinleika. – Mal. 3:1-3.
16 Jesús og 144.000 meðkonungar hans og prestar sjá til þess í þúsundáraríkinu að trúir menn verði fullkomnir. Allir sem búa á jörðinni þegar þar er komið sögu tilbiðja Guð í sannleika. Sönn tilbeiðsla hefur þá verið endurreist að fullu.
TAKTU ÞÁTT Í AÐ BYGGJA
17. Hverju lofar Jehóva Gyðingum og hvaða áhrif hefur það á þá?
17 En hvaða áhrif hafði boðskapur Sakaría á Gyðinga á sínum tíma? Jehóva hafði lofað þeim stöðugleika og vernd svo að þeir gætu haldið áfram að endurreisa musterið. Þetta loforð hlýtur að hafa veitt þeim langþráða von. En hvernig gat fámennur hópur áorkað öllu þessu? Orð Sakaría eyddu öllum vafa og ótta sem kann að hafa sótt á þá. Auk þess að senda trúa verkamenn eins og Heldaí, Tobía og Jedaja segir Guð að margir fleiri muni „koma óraleiðir til starfa við byggingu musteris Drottins“. (Lestu Sakaría 6:15.) Gyðingarnir treysta á stuðning Jehóva og taka til óspilltra málanna að nýju við að reisa musterið þrátt fyrir bannið sem var eins og fjallhá hindrun. Áður en langt um líður lætur Jehóva aflétta banninu og musterið er fullbyggt árið 515 f.Kr. (Esra. 6:22; Sak. 4:6, 7) Samkvæmt orðum Jehóva átti þó miklu meira að gerast á okkar tímum.
18. Hvernig rætist Sakaría 6:15 á okkar tímum?
18 Milljónir manna læra að tilbiðja hinn sanna Guð á okkar tímum. Þeir leggja fúslega fram ,eigur sínar‘, það er að segja tíma sinn, krafta og fjármuni, í þágu hins mikla andlega musteris hans. (Orðskv. 3:9) Hvernig getum við verið viss um að Jehóva kunni að meta dyggan stuðning okkar? Munum að þeir Heldaí, Tobía og Jedaja höfðu meðferðis efnið í kórónuna sem Sakaría smíðaði. Kórónan var síðan „til minja“ um framlag þeirra í þágu sannrar tilbeiðslu. (Sak. 6:14) Jehóva gleymir ekki heldur verki okkar og kærleikanum sem við sýnum honum. (Hebr. 6:10) Hann minnist þess um alla eilífð.
19. Hvaða áhrif ættu sýnir Sakaría að hafa á okkur?
19 Allt sem hefur áunnist á okkar dögum í þágu sannrar tilbeiðslu er áþreifanlegur vitnisburður um blessun Jehóva og forystu Krists. Við tilheyrum traustum, öruggum og eilífum söfnuði. Það sem Jehóva ætlar sér með sanna tilbeiðslu „mun ... verða“. ,Hlýddu rödd Jehóva, Guðs þíns‘ og láttu þér annt um að fá að tilheyra söfnuði hans. Þá nýturðu verndar konungsins og æðstaprestsins og himnesku hersveitanna á stríðsvögnunum. Gerðu það sem þú getur í þágu sannrar tilbeiðslu. Þá máttu treysta að Jehóva hersveitanna verndi þig og varðveiti þann tíma sem eftir er af þessum heimi – og að eilífu.
a Nánari upplýsingar er að finna í „Spurningum frá lesendum“ í Varðturninum 15. maí 2015, bls. 29-30.
b Orðið „Nasarei“ er dregið af hebresku orði sem merkir „sproti“.