NÁMSGREIN 8
Gefur þú leiðbeiningar sem „gleðja hjartað“?
„Ilmolía og reykelsi gleðja hjartað en indælli er vinur en ilmandi viður.“ – ORÐSKV. 27:9.
SÖNGUR 102 Önnumst óstyrka
YFIRLITa
1, 2. Hvað lærði bróðir um að gefa leiðbeiningar?
FYRIR mörgum árum heimsóttu tveir öldungar systur sem hafði ekki komið á samkomur um tíma. Annar þeirra sýndi systurinni nokkur biblíuvers í tengslum við samkomusókn. Honum fannst heimsóknin hafa gengið vel en þegar öldungarnir kvöddu systurina sagði hún: „Þið hafið ekki hugmynd um það sem ég er að takast á við.“ Bræðurnir höfðu gefið henni leiðbeiningar án þess að spyrja hana um aðstæður hennar og vandamál. Systurinni fannst leiðbeiningar þeirra því ekki gagnlegar.
2 Öldungurinn sem sýndi henni biblíuversin rifjar þetta upp og segir: „Til að byrja með fannst mér systirin hafa sýnt óvirðingu. En þegar ég hugsaði þetta betur sá ég að ég hafði komið með öll viðeigandi biblíuversin í staðinn fyrir að spyrja viðeigandi spurninga eins og „Hvernig gengur hjá þér?“ og „Hvernig get ég hjálpað?“ Öldungurinn lærði mikið af þessu. Nú er hann hluttekningarsamur og hjálpfús hirðir.
3. Hverjir gefa leiðbeiningar í söfnuðinum?
3 Sem hirðar eru öldungar ábyrgir fyrir því að gefa leiðbeiningar þegar þeirra er þörf. En stundum gætu aðrir í söfnuðinum þurft að gefa leiðbeiningar. Bróðir eða systir gæti gefið vini leiðbeiningar byggðar á Biblíunni. (Sálm. 141:5; Orðskv. 25:12) Systur gætu ,leiðbeint yngri konum‘ með þeim hætti sem er bent á í Títusarbréfinu 2:3–5. Og foreldrar þurfa auðvitað oft að leiðbeina börnum sínum og leiðrétta. Þessi grein er sérstaklega hugsuð fyrir öldunga í söfnuðinum en við getum öll haft gagn af því að skoða hvernig við getum gefið leiðbeiningar sem eru bæði gagnlegar og hvetjandi og sem ,gleðja hjartað‘. – Orðskv. 27:9.
4. Hvað skoðum við í þessari grein?
4 Í þessari grein skoðum við fjórar spurningar varðandi leiðbeiningar: (1) Hver ætti að vera hvötin til að gefa leiðbeiningar? (2) Er nauðsynlegt að gefa leiðbeiningar? (3) Hver ætti að gefa leiðbeiningarnar? (4) Hvernig geturðu gefið áhrifaríkar leiðbeiningar?
HVER ER RÉTTA HVÖTIN?
5. Hvernig auðvelda réttar hvatir öldungi að gefa leiðbeiningar á aðlaðandi hátt? (1. Korintubréf 13:4, 7)
5 Öldungar elska bræður sína og systur. Stundum sýna þeir þeim sem eru á hættubraut það með því að gefa þeim leiðbeiningar. (Gal. 6:1) En áður en öldungur gerir það er gott að skoða sumt af því sem Páll postuli sagði um kærleikann. „Kærleikurinn er þolinmóður og góðviljaður … Hann umber allt, trúir öllu, vonar allt, er þolgóður í öllu.“ (Lestu 1. Korintubréf 13:4, 7.) Ef öldungur hugleiðir þessi biblíuvers áður en hann gefur leiðbeiningar hjálpar það honum að skoða hvatir sínar og hafa rétt hugarfar þegar hann fer á fund trúsystkinis síns. Þegar sá sem fær leiðbeiningar skynjar væntumþykju þess sem gefur þær er líklegra en ella að hann taki við þeim. – Rómv. 12:10.
6. Hvaða góða fordæmi gaf Páll?
6 Páll var góð fyrirmynd sem öldungur. Þegar trúsystkini í Þessaloníku þurftu að fá leiðbeiningar hikaði hann ekki við að gefa þær. En í bréfum sínum til þeirra hrósaði hann þeim fyrst fyrir að sýna trú og kærleika í þjónustunni og fyrir þolgæði þeirra. Hann tók líka tillit til aðstæðna þeirra og sagðist vita að líf þeirra hefði ekki verið auðvelt og að þau hefðu verið trúföst í ofsóknum. (1. Þess. 1:3; 2. Þess. 1:4) Hann sagði jafnvel að þau væru góðar fyrirmyndir fyrir aðra þjóna Jehóva. (1. Þess. 1:8, 9) Hrós Páls hlýtur að hafa yljað þeim um hjartarætur. Það var augljóst að Páll elskaði trúsystkini sín innilega. Þess vegna gat hann gefið áhrifaríkar leiðbeiningar í báðum bréfum sínum til Þessaloníkumanna. – 1. Þess. 4:1, 3–5, 11; 2. Þess. 3:11, 12.
7. Hvers vegna gætu sumir brugðist neikvætt við leiðbeiningum?
7 Hvað gæti gerst ef við gæfum ekki leiðbeiningar á réttan hátt? Reyndur öldungur segir: „Sumir hafa brugðist neikvætt við leiðbeiningum, ekki vegna þess að þær áttu ekki rétt á sér heldur vegna þess að þær voru ekki gefnar á kærleiksríkan hátt.“ Hvað lærum við? Það er auðveldara að taka við leiðbeiningum þegar þær eru gefnar í kærleika en ekki með pirringi.
ER NAUÐSYNLEGT AÐ GEFA LEIÐBEININGAR?
8. Hvers ætti öldungur að spyrja sig áður en hann ákveður að leiðbeina öðrum?
8 Öldungarnir ættu ekki að flýta sér um of að gefa leiðbeiningar. Öldungur sem íhugar að leiðbeina öðrum ætti fyrst að spyrja sig: Er yfirhöfuð nauðsynlegt að segja nokkuð? Er ég viss um að það sem boðberinn gerir sé rangt? Hefur hann brotið gegn fyrirmælum í Biblíunni? Eða hefur hann einfaldlega aðra skoðun en ég? Það er viturlegt af öldungum að vera ekki ,fljótfærir í orðum‘. (Orðskv. 29:20) Ef öldungur er ekki viss um hvort nauðsynlegt sé að gefa leiðbeiningar gæti hann rætt málið við annan öldung til að sjá hvort biblíulegar forsendur séu fyrir því að gefa þær. – 2. Tím. 3:16, 17.
9. Hvað lærum við af Páli varðandi það að leiðbeina öðrum um klæðaburð og útlit? (1. Tímóteusarbréf 2:9, 10)
9 Tökum dæmi. Segjum að öldungur hafi áhyggjur af klæðaburði og útliti trúsystkinis. Hann gæti spurt sig: Er biblíuleg forsenda fyrir því að gefa leiðbeiningar? Meðvitaður um mikilvægi þess að vera óhlutdrægur spyr hann kannski annan öldung eða þroskaðan boðbera álits. Saman gætu þeir skoðað það sem Páll segir um klæðaval og útlit. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 2:9, 10.) Páll nefndi almennar meginreglur sem gilda um klæðaburð og sagði að hann ætti að vera viðeigandi og endurspegla hógværð og skynsemi. En hann gaf engan lista með boðum og bönnum. Hann gerði sér grein fyrir að þjónar Jehóva mega klæðast eftir eigin smekk eins lengi og hann brýtur ekki í bága við Biblíuna. Þegar öldungarnir ákveða hvort gefa þurfi leiðbeiningar þurfa þeir því að meta hvort val boðbera endurspegli hógværð og skynsemi.
10. Hvað þurfum við að hafa í huga varðandi val annarra?
10 Við þurfum að hafa í huga að tveir þroskaðir þjónar Guðs geta tekið ólíkar ákvarðanir en það þýðir ekki endilega að önnur þeirra sé rétt og hin röng. Við ættum ekki að þröngva upp á bræður og systur skoðun okkar á því hvað sé rétt og rangt. – Rómv. 14:10.
HVER ÆTTI AÐ GEFA LEIÐBEININGARNAR?
11, 12. Hvaða spurninga ætti öldungur að spyrja sig ef nauðsynlegt er að gefa leiðbeiningar og hvers vegna?
11 Ef ljóst er að gefa þarf leiðbeiningar er næsta spurning: Hver ætti að gefa þær? Öldungur ætti að tala við höfuð fjölskyldunnar áður en hann gefur giftri systur eða barni leiðbeiningar. Vera má að eiginmaðurinn vilji sjá um málið sjálfur.b Það getur líka verið að hann vilji vera viðstaddur þegar öldungurinn gefur leiðbeiningarnar. Og eins og minnst er á í 3. grein gæti stundum verið gott að eldri systir gefi yngri systur leiðbeiningar.
12 Það er líka annað sem þarf að hafa í huga. Öldungur gæti spurt sig: Er ég rétti maðurinn til að gefa leiðbeiningarnar eða væri betra að einhver annar gerði það? Það gæti til dæmis verið betra fyrir trúsystkini með lélegt sjálfsmat að fá leiðbeiningar frá öldungi sem hefur átt við sama vandamál að glíma. Öldungur sem hefur svipaða reynslu er líklegri til að sýna skilning og ná til trúsystkinisins. En allir öldungar hafa þá ábyrgð að hvetja trúsystkini sín til að gera breytingar sem eru nauðsynlegar til að uppfylla kröfur Biblíunnar. Aðalatriðið er því að leiðbeiningarnar séu gefnar hvort heldur sá sem gefur þær hefur ákveðna reynslu eða ekki.
HVERNIG GETURÐU GEFIÐ ÁHRIFARÍKAR LEIÐBEININGAR?
13, 14. Hvers vegna er mikilvægt að öldungar séu tilbúnir að hlusta?
13 Vertu tilbúinn að hlusta. Þegar öldungur býr sig undir að gefa leiðbeiningar ætti hann að spyrja sig: Hvað veit ég um aðstæður bróðurins? Hvað er að gerast í lífi hans? Getur verið að hann eigi við erfiðleika að stríða sem ég veit ekki um? Hverju þarf hann mest á að halda núna?
14 Meginreglan í Jakobsbréfinu 1:19 á vel við þá sem leiðbeina öðrum. Þar segir: „Hver og einn á að vera fljótur til að heyra, seinn til að tala og seinn til að reiðast.“ Öldungur gæti haldið að hann hafi allar staðreyndir en hefur þær kannski ekki. Í Orðskviðunum 18:13 segir: „Svari einhver áður en hann hlustar er það heimska hans og skömm.“ Það er best að fá staðreyndirnar frá þeim sem á að leiðbeina. Öldungur þarf þess vegna að hlusta áður en hann talar. Gleymum ekki reynslu öldungsins sem minnst er á í byrjun greinarinnar. Hann gerði sér grein fyrir að frekar en að byrja heimsóknina á að ræða efni sem hann hafði fundið hefði hann átt að spyrja spurninga eins og: Hvernig hefur gengið hjá þér undanfarið? Hvernig get ég hjálpað? Þegar öldungar taka sér tíma til að kynna sér aðstæður trúsystkina eru þeir líklegri til að geta hjálpað þeim og uppörvað.
15. Hvernig geta öldungar heimfært meginregluna í Orðskviðunum 27:23?
15 Kynnstu hjörðinni. Eins og minnst var á í upphafi greinarinnar fela áhrifaríkar leiðbeiningar fleira í sér en að lesa fáein biblíuvers og koma með eina eða tvær tillögur. Trúsystkini okkar þurfa að finna að okkur sé annt um þau, að við skiljum þau og viljum hjálpa þeim. (Lestu Orðskviðirnir 27:23.) Öldungar ættu að gera sitt besta til að rækta nána vináttu við bræður og systur.
16. Hvað getur auðveldað öldungum að gefa áhrifaríkar leiðbeiningar?
16 Öldungar myndu ekki vilja að trúsystkini þeirra hefðu á tilfinningunni að þeir töluðu við þá aðeins þegar eitthvað er að. Þá langar til að tala reglulega við þau og sýna þeim umhyggju í erfiðleikum þeirra. „Ef maður gerir það,“ segir reyndur öldungur, „verður maður vinur þeirra. Þá er miklu auðveldara að gefa leiðbeiningar þegar það er nauðsynlegt.“ Og þeim sem þiggur leiðbeiningarnar finnst auðveldara að taka við þeim.
17. Hvenær er sérstaklega mikilvægt að öldungur sé þolinmóður og vingjarnlegur?
17 Vertu þolinmóður og vingjarnlegur. Það er sérstaklega mikilvægt að sýna þolinmæði og vinsemd þegar einhver vill ekki leiðbeiningar til að byrja með. Öldungur þarf að forðast þá tilhneigingu að verða pirraður þegar trúsystkini hafnar leiðbeiningum sem hann gefur eða fer ekki strax eftir þeim. Spáð var um Jesú: „Hann brýtur ekki brákaðan reyr og slekkur ekki á rjúkandi kveik.“ (Matt. 12:20) Í einkabænum sínum getur öldungurinn beðið Jehóva að hjálpa þeim sem þarfnast leiðbeininga að skilja að þær eru nauðsynlegar og að fara eftir þeim. Sá sem verið er að leiðbeina þarf kannski tíma til að hugleiða það sem var sagt. Þegar öldungurinn er þolinmóður og vingjarnlegur getur sá sem fær leiðbeiningar einbeitt sér að því sem var sagt en ekki hvernig það var sagt. Leiðbeiningarnar ættu auðvitað alltaf að vera byggðar á orði Guðs.
18. (a) Hvað þarf að hafa í huga varðandi það að gefa leiðbeiningar? (b) Hvað eru foreldrarnir að ræða um eins og sést á myndinni við rammann?
18 Lærðu af mistökum þínum. Þar sem við erum ófullkomin munum við ekki geta heimfært allt fullkomlega sem hefur verið fjallað um í greininni. (Jak. 3:2) Við gerum mistök en ættum að reyna að læra af þeim. Þegar bræður og systur skynja að okkur þykir vænt um þau er líklega auðveldara fyrir þau að fyrirgefa okkur þegar við særum þau í orði eða verki. – Sjá einnig rammann „Til foreldra“.
HVAÐ HÖFUM VIÐ LÆRT?
19. Hvernig getum við gefið leiðbeiningar sem gleðja hjarta trúsystkina okkar?
19 Eins og við höfum séð er ekki auðvelt að gefa áhrifaríkar leiðbeiningar. Þeir sem gefa leiðbeiningar eru ófullkomnir og það eru þeir líka sem þiggja þær. Höldum til haga því sem við höfum skoðað í þessari grein. Gætum þess að gefa leiðbeiningar af réttum hvötum. Göngum líka úr skugga um að leiðbeiningarnar séu nauðsynlegar og að við séum rétta persónan til að gefa þær. Spyrjum spurninga og hlustum vandlega áður en við gefum einhverjum leiðbeiningar til að við skiljum vandamál hans. Reynum að sjá málin frá sjónarhóli hans. Verum mild og ræktum hlýlegt samband við bræður og systur. Við viljum ekki aðeins að leiðbeiningar okkar séu áhrifaríkar heldur líka að þær ,gleðji hjartað‘. – Orðskv. 27:9.
SÖNGUR 103 Hirðarnir eru gjafir frá Guði
a Það er ekki alltaf auðvelt að gefa leiðbeiningar. Hvernig getum við gefið þær á þann hátt að þær hjálpi öðrum og uppörvi? Þessi grein mun hjálpa einkum og sér í lagi öldungum að gefa leiðbeiningar á þann hátt að þeir sem fá þær vilji hlusta og fylgja þeim.
b Sjá greinina „Hvernig virkar fyrirkomulagið um forystu í söfnuðinum?“ í Varðturninum febrúar 2021.